Víghóll

Örnefnið Víghóll á Digraneshálsi í Kópavogi var á allra vörum fyrir skömmu. Margar fyrirspurnir um nafnið hafa síðan borizt Þórhalli Vilmundarsyni, forstöðumanni Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns. Í þessari grein Lesbókar Morgunblaðsins frá árinu 1994 svarar hann þeim fyrirspurnum. Hér birtist hluti greinarinnar.

Þórhallur Vilmundarson

Þórhallur Vilmundarson.

“Frá því að deilur risu um kirkjubyggingu á Víghóli á Digraneshálsi í Kópavogi á liðnu ári, hafa ýmsir spurt mig, hvort nokkuð sé vitað um uppruna nafnsins og merkingu. Ég vil af þessu tilefni greina frá eftirfarandi:
Ekki eru til, svo að mér sé kunnugt, gamlar heimildir um örnefnið í Kópavogi. Það kemur fyrir í örnefnaskrám frá þessari öld, bæði í eintölu, Víghóll, og í fleirtölu, Víghólar, sbr. götunafnið Víghólastígur og félagsheitið Víghólasamtökin.

Margir Víghólar
VíghóllÞegar hugað er nánar að örnefninu Víghóll eða Víghólar, vekur það athygli, að nafnið er víðar til en í Kópavogi. Þannig er mér kunnugt um fjóra aðra Víghóla á Suðvesturlandi: einn í Selvogi, tvo í Garðabæ og einn í Mosfellssveit. Víghóll er og í Kjarrárdal (Kjarradal) í Borgarfirði, á Fellsströnd í Dölum, í Steingrímsfirði, í Hörgárdal (þar eru þeir reyndar tveir), á Jökuldal og undir Eyjaflöllum. Víghólar eru í Öxnadal og á Síðu. Engra þessara nafna er getið í fornum heimildum.

Munnmæli um Víghólana – Heiðarvíg og fornmannadys

Víghóll

Víghólar á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki er mér kunnugt um munnmæla eða skýringarsagnir um átta Víghólanna, en ung munnmæli eða skýringarsagnir eru hins vegar til um hina sex: Kristian Kálund segir það nú (þ.e. 1877) sögn heimamanna, að “Heiðarvígin” (sbr. Heiðarvíga sögu) hafi verið tvenn, önnur þeirra í Kjarradal, sunnan ár, hjá Víghóli, og þar í grennd sé dys hinna föllnu. Kálund bendir á, að þessi frásögn sé í ósamræmi við frásögn Heiðarvíga sögu og að Heiðarvígin á Tvídægru eigi að hafa átt sér stað eftir kristnitöku.

Hrakspár hefnt í Selvogi

Víghólsrétt

Víghólsrétt í Selvogi.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir um Víghól í Selvogi, að Erlendur lögmaður Þorvarðsson á Strönd í Selvogi (d. 1576) hafi drepið þar smalamann að launum fyrir þá hrakspá, að jörðin Strönd ætti eftir að verða eyðisandur.

Eru þeir réttnefndir Víghólar?

Húsfell

Húsfell – Víghóll neðst til vinstri.

Mörg efnisatriðin í þessum vígaferlasögnum eru lítt trúverðug. Verður að telja líklegt, að yfírleitt séu þessar sagnir spunnar upp til skýringar á nöfnunum. Jafnframt eru sagnir þessar skemmtileg dæmi um það, hve ríkan þátt örnefni eiga í myndun sagna, og á það reyndar ekki aðeins við um síðari tíma, heldur einnig ritunartíma Íslendingasagna.
En þótt sagnirnar um Víghólana séu ekki sem sennilegastar, stendur eftir spurningin: Eru hólar þessir réttnefndir Víghólar, þ.e. kenndir við vígaferli á fyrri tíð? Fjöldi nafnanna veldur óhjákvæmilega efasemdum um, að öll þessi nöfn eigi sér þennan uppruna. En á hvaða skýringu aðra er þá unnt að benda?

Veghóll og Veghólar

Víghóll

“Liðinu stefnt að Víghól”

Þegar að er hugað, kemur í ljós, að til era á landinu sviplík -hólsnöfn: Veghóll og Veghólar. Þannig má fljótlega tína upp úr örnefnaskrám Veghóla á Mýrum við Hrútafjörð, og er gamla reiðgatan frá Mýrum í Tjarnarkot sögð hafa legið um hólana, Veghól á Litlu-Giljá í Þingi, Veghól á Presthólum í Öxarfirði, Veghóla á Bótarheiði í Hróarstungu, Veghól á Litlabakka í sömu sveit, þar sem vegur er sagður hafa verið áður fyrr, og Veghóla í Skuggahlíð í Norðfirði inn og niður af Vegahnúk, en hestavegur er sagður liggja vestan við hann. Veghólar hafa augljóslega verið mönnum eins konar vörður eða vegvísar við vegi, ekki aðeins fjölfarnar leiðir, heldur einnig hinar fáfarnari. Nútímamenn verður að minna á, að hér er um fornar reiðgötur eða göngustíga að ræða, sem horfið gátu í fyrstu snjóum, og því var ekki vanþörf á kennileitum, sem vísað gátu veginn.
Nú vaknar sú spurning, hvort hér kunni að hafa slegið saman tveimur örnefnum: Veghólum og Víghólum — og þá þannig, að ýmsum Veghólum hafi verið breytt í Víghóla og nöfnin þannig gerð sögulegri.

Eitt örnefni dregur til sín annað – dæmi: Búrfell/Búfell

Búrfell

Búrfell við Þingvelli.

Það er þekkt fyrirbæri í örnefnafræðum, að eitt örnefni dragi til sín annað. Dæmi þess hygg ég megi finna í hinum fjölmörgu Búrfells-nöfnum hér á landi. Þau hafa helzt verið talin vera líkingarnöfn og draga nafn af lögun sinni („efter formen“, segir Finnur Jónsson). Átt er við, að þau séu kubbsleg og minni á búr, einkum stafbúrin norsku. Þessi skýring getur átt við mörg Búrfell, en þó ekki öll, t.d. ekki það Búrfell, sem næst er höfuðborgarbúum, sunnan Hafnarfjarðar.
Nú er til austur í Vopnafirði Búfell ofan við Hauksstaði. Að sögn Friðbjarnar Hauks Guðmundssonar bónda þar (f. 1946) kallaði eldra fólkið fellið ævinlega Búfell, m.a. afi hans, Friðbjörn Kristjánsson (f. 1894), og börn Víglundar Helgasonar (f. 1884), sem bjó á Hauksstöðum á undan Friðbirni Kristjánssyni. Nafnið er ritað Búfell í örnefnaskrá, en á herforingjaráðskorti stendur hins vegar Búrfell, og er það lítið dæmi um ofríki Búrfells-nafnmyndarinnar. Mér þykir líklegt, að Búfell hafi upphaflega verið fleiri á landinu, sbr. norsku fjallaheitin Bufjell á Þelamörk og Bufjellet á Vestfold.

Búfell

Búfell í Þjórsárdal.

Fyrri liður Búfells er trúlega no. bú í merkingunni “búpeningur’” og ætti Búfell þá að merkja “fell”, þar sem búpeningur var hafður á beit eða í “seli”, sbr. „fara til sætra (þ.e. selja) með bú sínu“, eins og segir í norsku fornbréfi. Friðbjörn Haukur Guðmundsson segir mér, að fram og niður af enda Búfells sé Selbotn með tóftum og niður undan Selbotni séu beitarhúsatóftir. Hann segir, að mjög góð beit sé í Búfelli. Til hliðsjónar eru hér einnig íslenzk örnefni eins og Búhólar, Búland og Bústaðir.

Dreifing Veghóla og Víghóla

Víghóll

Víghóll við Hvammsfjörð.

Dreifing Veghóla- og Víghóla-nafna ýtir undir þá hugmynd, að Veghóla-nöfn hafi breytzt í Víghóla: Á Suðvesturlandi eru fimm Víghólar með tiltölulega stuttu millibili, og á öllu Suður- og Vesturlandi, austan frá Síðu norður í Steingrímsfjörð, eru 10 Víghólar, en enginn Veghóll. Síðan bregður svo við, að Húnaþing er Víghólalaust svæði, en þar eru hins vegar fimm Veghólar, hvernig sem menn vilja skýra það. Í Eyjafirði eru þrír Víghólar á litlu svæði, en engir Veghólar. Á Norður- og Austurlandi frá Tjörnesi til Norðfjarðar eru hins vegar átta Veghólar, en aðeins einn Víghóll. Þessi dreifing virðist ekki einleikin, og sýnist eðlilegast að skýra hana með því, að á tilteknum svæðum hafi eitt nafnið eða nafnbreytingin kveikt aðra. Nefna mætti þrennt, sem kynni að hafa stuðlað að nafnbreytingunni:

Orrustuhóll

Orrustuhóll á Hellisheiði.

Í fyrsta lagi: Þegar þess er gætt, að langflest Víghóls-nöfnin eru ekki varðveitt í eldri heimildum en frá 20. öld, vaknar eðlilega sú spurning, hvort framburðarruglingur eða samruni e og i (hljóðvilla) hafi í einhverjum tilvikum hrundið breytingunni af stað. Þegar menn gerðu ekki greinarmun á Veghóll og Vighóll, hafi merkingin týnzt, nýrrar merkingar verið leitað og úr orðið Víghóll. Hljóðvillu eða flámælis fór að gæta um miðja 19. öld eða fyrr, sennilega fyrst á Suðvesturlandi. Þessi skýring getur þó trúlega ekki átt við alla Víghólana, bæði vegna aldurs sumra nafnmyndanna og legu sumra hólanna.
Hér má ekki gleyma því, að örnefni taka oft breytingum, án þess að fylgt sé hljóðalögmálum, og eiga slíkar breytingar sér ekki sízt stað, er menn leita nýrrar merkingar í nafninu.
Í öðra lagi: Ekkert Víghóla-örnefni er í íslenzkum fornsögum, en þar er þess hins vegar alloft getið, að bardagar hafi verið háðir á hólum eða hæðum.
Í þriðja lagi: Þekktar skráðar sögur, svo sem um Heiðarvíg í uppsveitum Borgarfjarðar og Víga-Glúm í Eyjafirði, kunna að hafa ýtt undir nafnbreytingu í þeim héruðum.

Hvernig liggja Víghólarnir við vegum?

Orrustuhraun

Rétt undir Orrustuhrauni á Hellisheiði.

Ef Víghólarnir hafa upphaflega heitið Veghólar, ættu þeir að liggja við gamla vegi, og verður því að leita svars við spurningunni: Hvernig liggja Víghólarnir við vegum? Hér má gera þá athugasemd, að það sanni ekki mikið, þótt í ljós komi, að Víghólar séu við vegi, því að víg hafi einatt verið framin á eða við vegi og alfaraleiðir. Því er til að svara, að vopnaviðskipti og víg hafa samkvæmt samtímaheimildum og sögnum einnig átt sér stað við aðrar aðstæður: heima við bæi eða á flótta til skógar eða fjalls, í fjöru, eyjum og á annnesjum, í kolaskógi, á engjum eða í úthögum og á heiðum, þar sem setið var yfir fé o.s.frv.

Hvað um hestavíg?

Hestaþinghóll

Hestaþinghóll í Kjós.

Aðra athugasemd má gera: Gæti verið átt við hestavíg í Víghóls-nöfnunum, sbr. örnefni eins og Hestaþingshamar (svo í Sturlungu, síðar Hestavígshamar) í Skagafirði, Hestavígshólmi á mótum Blöndu og Svartár, Víghestahvammur hjá Sauðafelli í Dölum, Hestaþingshóll hjá Kaldaðarnesi í Flóa og í landi Vallar í Hvolhreppi, Hestaþingsflöt hjá Hróarsholti í Flóa og Hestaþingstaðir nærri Flögu í Skaftártungu, og hólarnir þá eðlilega verið við reiðgötur? Því er til að svara, að hestaþing (hestaat, hestavíg) voru samkvæmt fornum heimildum yfirleitt háð á sléttum grundum á samkomustöðum: á þingstöðum. Margir Víghólanna uppfylla engan veginn þessi skilyrði, t.d. Víghólarnir á Digraneshálsi, í Mosfellssveit, Kjarrárdal, Arnkötludal og Hörgárdal.

Síðasta hestavíg á Íslandi

Þingvellir

Hestaat var stundað til forna. t.d. við Þingvelli.

En hvað þá um síðasta hestavíg á Íslandi við Vindhóla fram af Fnjóskadal árið 1623, sem Jón Espólín segir frá. Segir Jón Espólín og, að hann hafi ekki vissu fyrir þessum uppruna Vindhólanafnsins. Þegar hugleidd eru hestavíg og Víghólar, ber einnig að hafa í huga, að engar heimildir, hvorki sagnarit, skjöl né munnmæli, tengja nokkurn hinna mörgu Víghóla við hestavíg.

Víghóll í Selvogi

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Víghóll í landi Ness í Selvogi er samkvæmt ömefnaskrá við Víghólsrétt, ofan við Nes. „Frá túngarðshliði (í Nesi) að austan lá gata upp í heiðina, upp hjá Víghólsrétt, upp á Klakksflatir. Tvær smávörður við götuna vom kallaðar Ljúf og Leið, ekki vitað hvers vegna,“ segir í skránni. Heimildarmaður þessa er Eyþór Þórðarson frá Torfabæ í Selvogi (1898-1988, var í Torfabæ til 1962). Þórarinn Snorrason bóndi í Vogsósum (f. 1931) segir Víghól vera á Heimasandi um 2 km norðaustur af Nesi, og er land þar löngu uppblásið. Hann telur eðlilegast, að leiðin frá höfuðbólinu Nesi austur í Ölfus hafi legið um Víghól, Klakksflatir, Hellisþúfu og Kvennagönguhól.

Víghóll sunnan Hafnarfjarðar

Víghóll

Víghóll í Garðabæ vestan Húsfells.

Í örnefnaskrá óbyggðarinnar suður frá Hafnarfirði segir, að Víghóll heiti norðan við Mygludali milli Valahnúka og Húsfells. Selvogsgata eða Grindaskarðavegur liggur milli Valahnúka og Víghóls, um 300 m sunnan við Víghól. Þorkell Jóhannesson prófessor og Óttar Kjartansson, sem kannað hafa þetta svæði, segja, að frá suðurhrauni Búrfells sé „gamalt og tiltölulega flatt hraun. Þar eru farnir allglöggir slóðar í átt að Víghól.“ Að sögn Þorkels Jóhannessonar liggur þessi leið síðan meðfram Víghól og þar á Selvogsgötu. Götuslóðana hefur hann ekki getað rakið austan Búrfells í átt að Löngubrekkum (á Heiðmörk), en tekur fram, að kjarr kunni að hafa hulið gamlar slóðir í Búrfellsdal. Gömul reiðleið er frá Elliðavatni suður allar Tungur undir Löngubrekkum í Búrfellsgjá. Þess má geta til, að götuslóðarnir „í átt að Víghól“ séu hluti vermannaleiðar frá Mosfellssveit, Kjós, Vestur- og Norðurlandi um Elliðavatn og Tungur á Selvogsgötu eða Grindaskarðaveg hjá Víghól.

Arnarnes

Arnarnes og Arnarneshæð 1954.

Í Selvogi var mikil verstöð fyrrum. Árið 1703 voru íbúar þar nærri 200 að tölu; þaðan voru gerð út árið 1785 rösklega 30 skip, og á þeim voru 380 menn, þar af 340 aðkomumenn. Má nærri geta, að margir hafa átt leið í Selvog á fyrri tíð, flestir sjálfsagt af Suðurlandi, en sumir að vestan og norðan. Ef rétt er til getið, má Víghóllinn hafa verið vegvísir á hinni gömlu vermannaleið og er þá jafnframt minnismerki um hana.

Víhóll í Arnarneslandi í Garðabæ

Víghóll

Víghóll Mosfellssveit.

Örnefnaskrá Arnarness, sem Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði (1903-85) skráði, segir, að Vífilsstaðagata hafi legið frá alfaraleiðinni á Arnarnesholti „inn með holtinu, sem nefndist Móholt. Hér einhvers staðar á að vera hóll, er nefnist Víghóll.“ Ekki hefur mér tekizt að hafa uppi á þessum Víghól. Sigríður Gísladóttir á Hofstöðum (f. 1921) þekkir hann ekki. Hún telur Móholt vera sama og Nónholt, en mór var tekinn í mýrinni norðan við Arnarneslækinn á stríðsárunum fyrri. Vífilsstaðagatan gamla lá frá Vífilsstöðum sunnan í Nónholtinu á Arnarneshæð.

Víghóll í Mosfellssveit

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 1954.

Um Víghól í Mosfellssveit segir séra Magnús Grímsson á Mosfelli (1825-60): „Á skarðinu, sem skilr Helgafell og Reykjafjall, stendr hamar einn, svo sem þriggja mannhæða hár, upp úr sléttri melbúngu. Hann heitir Víghóll, en eigi veit eg af hverju það nafn er dregið. Hjá hól þessum liggr vegrinn ofan í Skammadalinn og suðr í Reykjahverfi, þar sem Reykjalaug er.“

Víghóll á Digraneshálsi

Og þá er að lokum komið að Víghólnum (eða Víghólunum) á Digraneshálsi í Kópavogi, sem var tilefni þessarar greinar. Digranesháls eða hluti hans virðist áður hafa heitið Langi jörvi samkvæmt frásögn Árna Magnússonar prófessors í Kaupmannahöfn. Hann segir, að jörvi (jörfi) merki „slétt melholt, ex. gr. (þ.e. til dæmis) langa slétta holtið fyri ofan Kópavog. Almennt málfæri syðra í Mosfellssveit: Þar yfir á jörfanum, yfir á langa jörfann. Langi jörfi heitir melurinn fyri ofan Kópavog.“

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 1958.

Adolf J. E. Petersen vegaverkstjóri (1906-85) segir í örnefnaskrá Kópavogskaupstaðar: „Víghólar eru í tvennu lagi, annar hóllinn er sunnan við Digranesveginn, en hinn er norðan við þann veg og ber nokkuð hátt, enda er þaðan eitt mesta útsýni af Digraneshálsinum, og þar er útsýnisskífa.” Fyrrnefndi hóllinn er neðan við húsið nr. 94 við Digranesveginn, og segir Bergsveinn Jóhannsson (f. 1915), sem þar hefur átt heima frá 1960, að Ingjaldur Ísaksson í Smárahvammi (1909—91) hafi kallað hólinn Neðri-Víghól og sagt, að það væri hinn rétti Víghóll. Hann er um 140-50 m suður og niður af efri Víghólnum.

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 2022.

Haustið 1992 heimsótti ég á Hrafnistu í Reykjavík Guðbjörgu Jónsdóttur frá Digranesi (f. 1899 og átti þar heima til 1923) og spurði hana um gamlar leiðir vestur frá Digranesi. Guðbjörg lézt á síðastliðnu sumri (1993).
– Hvaða leið fóruð þið frá Digranesi til Kópavogs (þ. e. gamla bæjarins í Kópavogi), þegar þú varst að alast upp?
„Við fórum brekkurnar sunnan í Digraneshálsinum.“
– Fóruð þið ofan eða neðan við neðri Víghólinn?
„Neðan við hann.“
– Hvernig lá leiðin frá Digranesi til Reykjavíkur?

Kópavogur

Á nyrðri Víghól í Kópavogi.

„Þá var farið á ská yfir Digraneshálsinn og niður brekkurnar að norðanverðu talsvert norðan við efri Víghólana og síðan beint á Fossvogsbrúna. Á þeirri leið voru fen, og það var ekki fyrir aðra en kunnuga að fara hana.“
– Var þá einnig farið eftir hálsinum frá Digranesi út á alfaraveginn milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar?
„Já, þá leið fóru ferðamenn stundum, og var þá farið eftir holtinu rétt fyrir norðan Víghólana, yfir Stútulaut, lægðina vestan við Víghólana, og eftir háhálsinum
út á Hafnarfjarðarveg.”
– Átti Digranesfólk ekki einnig erindi þessa leið?

Víghóll

Útsýnisskífa á nyrðri Víghól í Kópavogi.

„Jú. Fé föður míns sótti í fjöruna fram af Kársnesinu, og þar var faðir minn einu sinni hætt kominn í flæðiskeri, en Vigfús Guðmundsson vert sá til hans frá Skerjafirði og kom honum til bjargar. Mér eru minnisstæðir Borgarhólarnir þarna utar á hálsinum, þar sem Kópavogskirkja stendur nú, því að við krakkarnir höfðum svo gaman af bergmálinu í klettunum. Faðir minn ruddi bílveg eftir hálsinum frá Hafnarfjarðarvegi heim í Digranes árið 1914, og fór Buicksbíll frá Hafnarfirði fyrstur veginn.“

Víghóll

Víghóll í Kópavogi – skilti.

Ég sneri mér til Bergþóru Rannveigar Ísaksdóttur (f. 1905) í Tungu hjá Fífuhvammi (sem áður hét Hvammkot og þar áður Hvammur) og spurði hana, hvernig kirkjuvegurinn hefði legið fyrrum — fyrir bílaöld — frá Hvammkoti til Reykjavíkur, en þangað átti Hvammkot kirkjusókn.
„Farið var frá Fífuhvammi eða Hvammkoti yfir Kópavogslækinn og upp Stútuslakka yfir Digraneshálsinn vestan við Víghóla og svo beint af augum á brúna yfir Fossvogslækinn og síðan austan við Leynimýri yfir Öskjuhlíðina sem leið liggur til kirkju í Reykjavík,” sagði Bergþóra.
– Í Stútuslakkanum hefur verið farið neðan við neðri Víghólinn. Var hann eina kennileitið í brekkunum?
„Já, hann var í brekkunni fyrir austan slakkann og var eina kennileitið í brekkunni sunnan frá séð. Efri Víghólana ber hins vegar við loft frá Fífuhvammi, ég sé útsýnisskífuna héðan.“
-Þetta er þá leiðin, sem bömin þrjú frá Hvammkoti fóru hinn örlagaríka vetrardag 1874, þegar þau fylgdu frænku sinni, sem gekk til spurninga í Reykjavík?

Kópavogur

Fífuhvammur/Hvammskot.

„Já, það var mikil sorgarsaga. Til okkar í Fífuhvamm kom eitt sinn gamall sjómaður, sem sagðist hafa verið á ferð þennan dag og lent í því að bera ásamt föðurnum eldri dótturina örenda frá Danskavaði á Kópavogslæk heim í Hvammkot. Síðan lögðust þeir við hlið stúlkunnar í von um, að hún lifnaði. „Það var köld nótt, og það var löng nótt,“ sagði hann.“
Í örnefnaskrá Digraness má sjá, að götuslóði frá Digranesi norðan í Digraneshálsinum að Fossvogslækjarbrú var nefndur Kirkjuleið, Kirkjugata eða Prestsgata.

Kópavogur

Upplýsingaskilti við Fífuhvamm.

Framangreind athugun á fjölda, dreifingu og legu Víghólanna virðist mér benda til þess, að hér sé yfirleitt um upphaflega Veghóla að ræða, þó að sjálfsagt sé að slá þann varnagla, að meðal þessara mörgu Víghóla kunni að leynast hóll, sem réttilega hafi verið svo nefndur eða fengið nafnið að tilefnislausu sem flökkunafn.
Af þessum sökum — svo og vegna allra aðstæðna — tel ég því ólíklegt, að Víghóll á Digraneshálsi sé með réttu orðaður við forn mannvíg og illdeilur og hygg eðlilegra að líta á hann sem vegvísi á kirkjuleið. Óþarft ætti því að vera að láta hólinn kveikja hugsanir um illindi og úlfúð. Fremur ætti hann að geta verið tilefni hugleiðinga um veginn og lifið — og dauðann.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 26. mars 1994, Víghóll, Þórhallur Vilmundarson, bls. 9-11.

Víghólar

Víghólar á Íslandi – kort.