Færslur

Víghóll

Örnefnið Víghóll á Digraneshálsi í Kópavogi var á allra vörum fyrir skömmu. Margar fyrirspurnir um nafnið hafa síðan borizt Þórhalli Vilmundarsyni, forstöðumanni Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns. Í þessari grein Lesbókar Morgunblaðsins frá árinu 1994 svarar hann þeim fyrirspurnum. Hér birtist hluti greinarinnar.

Þórhallur Vilmundarson

Þórhallur Vilmundarson.

“Frá því að deilur risu um kirkjubyggingu á Víghóli á Digraneshálsi í Kópavogi á liðnu ári, hafa ýmsir spurt mig, hvort nokkuð sé vitað um uppruna nafnsins og merkingu. Ég vil af þessu tilefni greina frá eftirfarandi:
Ekki eru til, svo að mér sé kunnugt, gamlar heimildir um örnefnið í Kópavogi. Það kemur fyrir í örnefnaskrám frá þessari öld, bæði í eintölu, Víghóll, og í fleirtölu, Víghólar, sbr. götunafnið Víghólastígur og félagsheitið Víghólasamtökin.

Margir Víghólar
VíghóllÞegar hugað er nánar að örnefninu Víghóll eða Víghólar, vekur það athygli, að nafnið er víðar til en í Kópavogi. Þannig er mér kunnugt um fjóra aðra Víghóla á Suðvesturlandi: einn í Selvogi, tvo í Garðabæ og einn í Mosfellssveit. Víghóll er og í Kjarrárdal (Kjarradal) í Borgarfirði, á Fellsströnd í Dölum, í Steingrímsfirði, í Hörgárdal (þar eru þeir reyndar tveir), á Jökuldal og undir Eyjaflöllum. Víghólar eru í Öxnadal og á Síðu. Engra þessara nafna er getið í fornum heimildum.

Munnmæli um Víghólana – Heiðarvíg og fornmannadys

Víghóll

Víghólar á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki er mér kunnugt um munnmæla eða skýringarsagnir um átta Víghólanna, en ung munnmæli eða skýringarsagnir eru hins vegar til um hina sex: Kristian Kálund segir það nú (þ.e. 1877) sögn heimamanna, að “Heiðarvígin” (sbr. Heiðarvíga sögu) hafi verið tvenn, önnur þeirra í Kjarradal, sunnan ár, hjá Víghóli, og þar í grennd sé dys hinna föllnu. Kálund bendir á, að þessi frásögn sé í ósamræmi við frásögn Heiðarvíga sögu og að Heiðarvígin á Tvídægru eigi að hafa átt sér stað eftir kristnitöku.

Hrakspár hefnt í Selvogi

Víghólsrétt

Víghólsrétt í Selvogi.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir um Víghól í Selvogi, að Erlendur lögmaður Þorvarðsson á Strönd í Selvogi (d. 1576) hafi drepið þar smalamann að launum fyrir þá hrakspá, að jörðin Strönd ætti eftir að verða eyðisandur.

Eru þeir réttnefndir Víghólar?

Húsfell

Húsfell – Víghóll neðst til vinstri.

Mörg efnisatriðin í þessum vígaferlasögnum eru lítt trúverðug. Verður að telja líklegt, að yfírleitt séu þessar sagnir spunnar upp til skýringar á nöfnunum. Jafnframt eru sagnir þessar skemmtileg dæmi um það, hve ríkan þátt örnefni eiga í myndun sagna, og á það reyndar ekki aðeins við um síðari tíma, heldur einnig ritunartíma Íslendingasagna.
En þótt sagnirnar um Víghólana séu ekki sem sennilegastar, stendur eftir spurningin: Eru hólar þessir réttnefndir Víghólar, þ.e. kenndir við vígaferli á fyrri tíð? Fjöldi nafnanna veldur óhjákvæmilega efasemdum um, að öll þessi nöfn eigi sér þennan uppruna. En á hvaða skýringu aðra er þá unnt að benda?

Veghóll og Veghólar

Víghóll

“Liðinu stefnt að Víghól”

Þegar að er hugað, kemur í ljós, að til era á landinu sviplík -hólsnöfn: Veghóll og Veghólar. Þannig má fljótlega tína upp úr örnefnaskrám Veghóla á Mýrum við Hrútafjörð, og er gamla reiðgatan frá Mýrum í Tjarnarkot sögð hafa legið um hólana, Veghól á Litlu-Giljá í Þingi, Veghól á Presthólum í Öxarfirði, Veghóla á Bótarheiði í Hróarstungu, Veghól á Litlabakka í sömu sveit, þar sem vegur er sagður hafa verið áður fyrr, og Veghóla í Skuggahlíð í Norðfirði inn og niður af Vegahnúk, en hestavegur er sagður liggja vestan við hann. Veghólar hafa augljóslega verið mönnum eins konar vörður eða vegvísar við vegi, ekki aðeins fjölfarnar leiðir, heldur einnig hinar fáfarnari. Nútímamenn verður að minna á, að hér er um fornar reiðgötur eða göngustíga að ræða, sem horfið gátu í fyrstu snjóum, og því var ekki vanþörf á kennileitum, sem vísað gátu veginn.
Nú vaknar sú spurning, hvort hér kunni að hafa slegið saman tveimur örnefnum: Veghólum og Víghólum — og þá þannig, að ýmsum Veghólum hafi verið breytt í Víghóla og nöfnin þannig gerð sögulegri.

Eitt örnefni dregur til sín annað – dæmi: Búrfell/Búfell

Búrfell

Búrfell við Þingvelli.

Það er þekkt fyrirbæri í örnefnafræðum, að eitt örnefni dragi til sín annað. Dæmi þess hygg ég megi finna í hinum fjölmörgu Búrfells-nöfnum hér á landi. Þau hafa helzt verið talin vera líkingarnöfn og draga nafn af lögun sinni („efter formen“, segir Finnur Jónsson). Átt er við, að þau séu kubbsleg og minni á búr, einkum stafbúrin norsku. Þessi skýring getur átt við mörg Búrfell, en þó ekki öll, t.d. ekki það Búrfell, sem næst er höfuðborgarbúum, sunnan Hafnarfjarðar.
Nú er til austur í Vopnafirði Búfell ofan við Hauksstaði. Að sögn Friðbjarnar Hauks Guðmundssonar bónda þar (f. 1946) kallaði eldra fólkið fellið ævinlega Búfell, m.a. afi hans, Friðbjörn Kristjánsson (f. 1894), og börn Víglundar Helgasonar (f. 1884), sem bjó á Hauksstöðum á undan Friðbirni Kristjánssyni. Nafnið er ritað Búfell í örnefnaskrá, en á herforingjaráðskorti stendur hins vegar Búrfell, og er það lítið dæmi um ofríki Búrfells-nafnmyndarinnar. Mér þykir líklegt, að Búfell hafi upphaflega verið fleiri á landinu, sbr. norsku fjallaheitin Bufjell á Þelamörk og Bufjellet á Vestfold.

Búfell

Búfell í Þjórsárdal.

Fyrri liður Búfells er trúlega no. bú í merkingunni “búpeningur’” og ætti Búfell þá að merkja “fell”, þar sem búpeningur var hafður á beit eða í “seli”, sbr. „fara til sætra (þ.e. selja) með bú sínu“, eins og segir í norsku fornbréfi. Friðbjörn Haukur Guðmundsson segir mér, að fram og niður af enda Búfells sé Selbotn með tóftum og niður undan Selbotni séu beitarhúsatóftir. Hann segir, að mjög góð beit sé í Búfelli. Til hliðsjónar eru hér einnig íslenzk örnefni eins og Búhólar, Búland og Bústaðir.

Dreifing Veghóla og Víghóla

Víghóll

Víghóll við Hvammsfjörð.

Dreifing Veghóla- og Víghóla-nafna ýtir undir þá hugmynd, að Veghóla-nöfn hafi breytzt í Víghóla: Á Suðvesturlandi eru fimm Víghólar með tiltölulega stuttu millibili, og á öllu Suður- og Vesturlandi, austan frá Síðu norður í Steingrímsfjörð, eru 10 Víghólar, en enginn Veghóll. Síðan bregður svo við, að Húnaþing er Víghólalaust svæði, en þar eru hins vegar fimm Veghólar, hvernig sem menn vilja skýra það. Í Eyjafirði eru þrír Víghólar á litlu svæði, en engir Veghólar. Á Norður- og Austurlandi frá Tjörnesi til Norðfjarðar eru hins vegar átta Veghólar, en aðeins einn Víghóll. Þessi dreifing virðist ekki einleikin, og sýnist eðlilegast að skýra hana með því, að á tilteknum svæðum hafi eitt nafnið eða nafnbreytingin kveikt aðra. Nefna mætti þrennt, sem kynni að hafa stuðlað að nafnbreytingunni:

Orrustuhóll

Orrustuhóll á Hellisheiði.

Í fyrsta lagi: Þegar þess er gætt, að langflest Víghóls-nöfnin eru ekki varðveitt í eldri heimildum en frá 20. öld, vaknar eðlilega sú spurning, hvort framburðarruglingur eða samruni e og i (hljóðvilla) hafi í einhverjum tilvikum hrundið breytingunni af stað. Þegar menn gerðu ekki greinarmun á Veghóll og Vighóll, hafi merkingin týnzt, nýrrar merkingar verið leitað og úr orðið Víghóll. Hljóðvillu eða flámælis fór að gæta um miðja 19. öld eða fyrr, sennilega fyrst á Suðvesturlandi. Þessi skýring getur þó trúlega ekki átt við alla Víghólana, bæði vegna aldurs sumra nafnmyndanna og legu sumra hólanna.
Hér má ekki gleyma því, að örnefni taka oft breytingum, án þess að fylgt sé hljóðalögmálum, og eiga slíkar breytingar sér ekki sízt stað, er menn leita nýrrar merkingar í nafninu.
Í öðra lagi: Ekkert Víghóla-örnefni er í íslenzkum fornsögum, en þar er þess hins vegar alloft getið, að bardagar hafi verið háðir á hólum eða hæðum.
Í þriðja lagi: Þekktar skráðar sögur, svo sem um Heiðarvíg í uppsveitum Borgarfjarðar og Víga-Glúm í Eyjafirði, kunna að hafa ýtt undir nafnbreytingu í þeim héruðum.

Hvernig liggja Víghólarnir við vegum?

Orrustuhraun

Rétt undir Orrustuhrauni á Hellisheiði.

Ef Víghólarnir hafa upphaflega heitið Veghólar, ættu þeir að liggja við gamla vegi, og verður því að leita svars við spurningunni: Hvernig liggja Víghólarnir við vegum? Hér má gera þá athugasemd, að það sanni ekki mikið, þótt í ljós komi, að Víghólar séu við vegi, því að víg hafi einatt verið framin á eða við vegi og alfaraleiðir. Því er til að svara, að vopnaviðskipti og víg hafa samkvæmt samtímaheimildum og sögnum einnig átt sér stað við aðrar aðstæður: heima við bæi eða á flótta til skógar eða fjalls, í fjöru, eyjum og á annnesjum, í kolaskógi, á engjum eða í úthögum og á heiðum, þar sem setið var yfir fé o.s.frv.

Hvað um hestavíg?

Hestaþinghóll

Hestaþinghóll í Kjós.

Aðra athugasemd má gera: Gæti verið átt við hestavíg í Víghóls-nöfnunum, sbr. örnefni eins og Hestaþingshamar (svo í Sturlungu, síðar Hestavígshamar) í Skagafirði, Hestavígshólmi á mótum Blöndu og Svartár, Víghestahvammur hjá Sauðafelli í Dölum, Hestaþingshóll hjá Kaldaðarnesi í Flóa og í landi Vallar í Hvolhreppi, Hestaþingsflöt hjá Hróarsholti í Flóa og Hestaþingstaðir nærri Flögu í Skaftártungu, og hólarnir þá eðlilega verið við reiðgötur? Því er til að svara, að hestaþing (hestaat, hestavíg) voru samkvæmt fornum heimildum yfirleitt háð á sléttum grundum á samkomustöðum: á þingstöðum. Margir Víghólanna uppfylla engan veginn þessi skilyrði, t.d. Víghólarnir á Digraneshálsi, í Mosfellssveit, Kjarrárdal, Arnkötludal og Hörgárdal.

Síðasta hestavíg á Íslandi

Þingvellir

Hestaat var stundað til forna. t.d. við Þingvelli.

En hvað þá um síðasta hestavíg á Íslandi við Vindhóla fram af Fnjóskadal árið 1623, sem Jón Espólín segir frá. Segir Jón Espólín og, að hann hafi ekki vissu fyrir þessum uppruna Vindhólanafnsins. Þegar hugleidd eru hestavíg og Víghólar, ber einnig að hafa í huga, að engar heimildir, hvorki sagnarit, skjöl né munnmæli, tengja nokkurn hinna mörgu Víghóla við hestavíg.

Víghóll í Selvogi

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Víghóll í landi Ness í Selvogi er samkvæmt ömefnaskrá við Víghólsrétt, ofan við Nes. „Frá túngarðshliði (í Nesi) að austan lá gata upp í heiðina, upp hjá Víghólsrétt, upp á Klakksflatir. Tvær smávörður við götuna vom kallaðar Ljúf og Leið, ekki vitað hvers vegna,“ segir í skránni. Heimildarmaður þessa er Eyþór Þórðarson frá Torfabæ í Selvogi (1898-1988, var í Torfabæ til 1962). Þórarinn Snorrason bóndi í Vogsósum (f. 1931) segir Víghól vera á Heimasandi um 2 km norðaustur af Nesi, og er land þar löngu uppblásið. Hann telur eðlilegast, að leiðin frá höfuðbólinu Nesi austur í Ölfus hafi legið um Víghól, Klakksflatir, Hellisþúfu og Kvennagönguhól.

Víghóll sunnan Hafnarfjarðar

Víghóll

Víghóll í Garðabæ vestan Húsfells.

Í örnefnaskrá óbyggðarinnar suður frá Hafnarfirði segir, að Víghóll heiti norðan við Mygludali milli Valahnúka og Húsfells. Selvogsgata eða Grindaskarðavegur liggur milli Valahnúka og Víghóls, um 300 m sunnan við Víghól. Þorkell Jóhannesson prófessor og Óttar Kjartansson, sem kannað hafa þetta svæði, segja, að frá suðurhrauni Búrfells sé „gamalt og tiltölulega flatt hraun. Þar eru farnir allglöggir slóðar í átt að Víghól.“ Að sögn Þorkels Jóhannessonar liggur þessi leið síðan meðfram Víghól og þar á Selvogsgötu. Götuslóðana hefur hann ekki getað rakið austan Búrfells í átt að Löngubrekkum (á Heiðmörk), en tekur fram, að kjarr kunni að hafa hulið gamlar slóðir í Búrfellsdal. Gömul reiðleið er frá Elliðavatni suður allar Tungur undir Löngubrekkum í Búrfellsgjá. Þess má geta til, að götuslóðarnir „í átt að Víghól“ séu hluti vermannaleiðar frá Mosfellssveit, Kjós, Vestur- og Norðurlandi um Elliðavatn og Tungur á Selvogsgötu eða Grindaskarðaveg hjá Víghól.

Arnarnes

Arnarnes og Arnarneshæð 1954.

Í Selvogi var mikil verstöð fyrrum. Árið 1703 voru íbúar þar nærri 200 að tölu; þaðan voru gerð út árið 1785 rösklega 30 skip, og á þeim voru 380 menn, þar af 340 aðkomumenn. Má nærri geta, að margir hafa átt leið í Selvog á fyrri tíð, flestir sjálfsagt af Suðurlandi, en sumir að vestan og norðan. Ef rétt er til getið, má Víghóllinn hafa verið vegvísir á hinni gömlu vermannaleið og er þá jafnframt minnismerki um hana.

Víhóll í Arnarneslandi í Garðabæ

Víghóll

Víghóll Mosfellssveit.

Örnefnaskrá Arnarness, sem Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði (1903-85) skráði, segir, að Vífilsstaðagata hafi legið frá alfaraleiðinni á Arnarnesholti „inn með holtinu, sem nefndist Móholt. Hér einhvers staðar á að vera hóll, er nefnist Víghóll.“ Ekki hefur mér tekizt að hafa uppi á þessum Víghól. Sigríður Gísladóttir á Hofstöðum (f. 1921) þekkir hann ekki. Hún telur Móholt vera sama og Nónholt, en mór var tekinn í mýrinni norðan við Arnarneslækinn á stríðsárunum fyrri. Vífilsstaðagatan gamla lá frá Vífilsstöðum sunnan í Nónholtinu á Arnarneshæð.

Víghóll í Mosfellssveit

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 1954.

Um Víghól í Mosfellssveit segir séra Magnús Grímsson á Mosfelli (1825-60): „Á skarðinu, sem skilr Helgafell og Reykjafjall, stendr hamar einn, svo sem þriggja mannhæða hár, upp úr sléttri melbúngu. Hann heitir Víghóll, en eigi veit eg af hverju það nafn er dregið. Hjá hól þessum liggr vegrinn ofan í Skammadalinn og suðr í Reykjahverfi, þar sem Reykjalaug er.“

Víghóll á Digraneshálsi

Og þá er að lokum komið að Víghólnum (eða Víghólunum) á Digraneshálsi í Kópavogi, sem var tilefni þessarar greinar. Digranesháls eða hluti hans virðist áður hafa heitið Langi jörvi samkvæmt frásögn Árna Magnússonar prófessors í Kaupmannahöfn. Hann segir, að jörvi (jörfi) merki „slétt melholt, ex. gr. (þ.e. til dæmis) langa slétta holtið fyri ofan Kópavog. Almennt málfæri syðra í Mosfellssveit: Þar yfir á jörfanum, yfir á langa jörfann. Langi jörfi heitir melurinn fyri ofan Kópavog.“

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 1958.

Adolf J. E. Petersen vegaverkstjóri (1906-85) segir í örnefnaskrá Kópavogskaupstaðar: „Víghólar eru í tvennu lagi, annar hóllinn er sunnan við Digranesveginn, en hinn er norðan við þann veg og ber nokkuð hátt, enda er þaðan eitt mesta útsýni af Digraneshálsinum, og þar er útsýnisskífa.” Fyrrnefndi hóllinn er neðan við húsið nr. 94 við Digranesveginn, og segir Bergsveinn Jóhannsson (f. 1915), sem þar hefur átt heima frá 1960, að Ingjaldur Ísaksson í Smárahvammi (1909—91) hafi kallað hólinn Neðri-Víghól og sagt, að það væri hinn rétti Víghóll. Hann er um 140-50 m suður og niður af efri Víghólnum.

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 2022.

Haustið 1992 heimsótti ég á Hrafnistu í Reykjavík Guðbjörgu Jónsdóttur frá Digranesi (f. 1899 og átti þar heima til 1923) og spurði hana um gamlar leiðir vestur frá Digranesi. Guðbjörg lézt á síðastliðnu sumri (1993).
– Hvaða leið fóruð þið frá Digranesi til Kópavogs (þ. e. gamla bæjarins í Kópavogi), þegar þú varst að alast upp?
„Við fórum brekkurnar sunnan í Digraneshálsinum.“
– Fóruð þið ofan eða neðan við neðri Víghólinn?
„Neðan við hann.“
– Hvernig lá leiðin frá Digranesi til Reykjavíkur?

Kópavogur

Á nyrðri Víghól í Kópavogi.

„Þá var farið á ská yfir Digraneshálsinn og niður brekkurnar að norðanverðu talsvert norðan við efri Víghólana og síðan beint á Fossvogsbrúna. Á þeirri leið voru fen, og það var ekki fyrir aðra en kunnuga að fara hana.“
– Var þá einnig farið eftir hálsinum frá Digranesi út á alfaraveginn milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar?
„Já, þá leið fóru ferðamenn stundum, og var þá farið eftir holtinu rétt fyrir norðan Víghólana, yfir Stútulaut, lægðina vestan við Víghólana, og eftir háhálsinum
út á Hafnarfjarðarveg.”
– Átti Digranesfólk ekki einnig erindi þessa leið?

Víghóll

Útsýnisskífa á nyrðri Víghól í Kópavogi.

„Jú. Fé föður míns sótti í fjöruna fram af Kársnesinu, og þar var faðir minn einu sinni hætt kominn í flæðiskeri, en Vigfús Guðmundsson vert sá til hans frá Skerjafirði og kom honum til bjargar. Mér eru minnisstæðir Borgarhólarnir þarna utar á hálsinum, þar sem Kópavogskirkja stendur nú, því að við krakkarnir höfðum svo gaman af bergmálinu í klettunum. Faðir minn ruddi bílveg eftir hálsinum frá Hafnarfjarðarvegi heim í Digranes árið 1914, og fór Buicksbíll frá Hafnarfirði fyrstur veginn.“

Víghóll

Víghóll í Kópavogi – skilti.

Ég sneri mér til Bergþóru Rannveigar Ísaksdóttur (f. 1905) í Tungu hjá Fífuhvammi (sem áður hét Hvammkot og þar áður Hvammur) og spurði hana, hvernig kirkjuvegurinn hefði legið fyrrum — fyrir bílaöld — frá Hvammkoti til Reykjavíkur, en þangað átti Hvammkot kirkjusókn.
„Farið var frá Fífuhvammi eða Hvammkoti yfir Kópavogslækinn og upp Stútuslakka yfir Digraneshálsinn vestan við Víghóla og svo beint af augum á brúna yfir Fossvogslækinn og síðan austan við Leynimýri yfir Öskjuhlíðina sem leið liggur til kirkju í Reykjavík,” sagði Bergþóra.
– Í Stútuslakkanum hefur verið farið neðan við neðri Víghólinn. Var hann eina kennileitið í brekkunum?
„Já, hann var í brekkunni fyrir austan slakkann og var eina kennileitið í brekkunni sunnan frá séð. Efri Víghólana ber hins vegar við loft frá Fífuhvammi, ég sé útsýnisskífuna héðan.“
-Þetta er þá leiðin, sem bömin þrjú frá Hvammkoti fóru hinn örlagaríka vetrardag 1874, þegar þau fylgdu frænku sinni, sem gekk til spurninga í Reykjavík?

Kópavogur

Fífuhvammur/Hvammskot.

„Já, það var mikil sorgarsaga. Til okkar í Fífuhvamm kom eitt sinn gamall sjómaður, sem sagðist hafa verið á ferð þennan dag og lent í því að bera ásamt föðurnum eldri dótturina örenda frá Danskavaði á Kópavogslæk heim í Hvammkot. Síðan lögðust þeir við hlið stúlkunnar í von um, að hún lifnaði. „Það var köld nótt, og það var löng nótt,“ sagði hann.“
Í örnefnaskrá Digraness má sjá, að götuslóði frá Digranesi norðan í Digraneshálsinum að Fossvogslækjarbrú var nefndur Kirkjuleið, Kirkjugata eða Prestsgata.

Kópavogur

Upplýsingaskilti við Fífuhvamm.

Framangreind athugun á fjölda, dreifingu og legu Víghólanna virðist mér benda til þess, að hér sé yfirleitt um upphaflega Veghóla að ræða, þó að sjálfsagt sé að slá þann varnagla, að meðal þessara mörgu Víghóla kunni að leynast hóll, sem réttilega hafi verið svo nefndur eða fengið nafnið að tilefnislausu sem flökkunafn.
Af þessum sökum — svo og vegna allra aðstæðna — tel ég því ólíklegt, að Víghóll á Digraneshálsi sé með réttu orðaður við forn mannvíg og illdeilur og hygg eðlilegra að líta á hann sem vegvísi á kirkjuleið. Óþarft ætti því að vera að láta hólinn kveikja hugsanir um illindi og úlfúð. Fremur ætti hann að geta verið tilefni hugleiðinga um veginn og lifið — og dauðann.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 26. mars 1994, Víghóll, Þórhallur Vilmundarson, bls. 9-11.

Víghólar

Víghólar á Íslandi – kort.

Helgafell

Gengið var um Skammaskarð frá Norður-Reykjum í Reykjadal og inn í Skammadal milli Æsustaðafjalls og Reykjafells. Ætlunin var að skoða minjar, sem þar áttu að vera – og fundist höfðu á loftmynd.
kofarÍ Skammadal hafa sprottið kartöflugarðar og skúraþyrping á fyrrum ræktarsvæði. Stóri-hóll er hægra (vestan) megin þegar komið er upp, á norðurbrúninni. Litli-hóll er skammt sunnan hans. Þegar staðið er upp á þeim og horft yfir þyrpinguna má sjá þar sambærileg svæði og víða annars staðar í Evrópu; grænt og gróið með afmörkuðum reitum, tré og truntur á beit og ekki var hitastigið (í lok septembermánaðar) til að spilla stemmningunni – 18°C.
Norðan og undir Stóra-hól er Víghóll (Vígahóll), sem af sumum hefur verið nefndur Kvíahóll. Hann er neðan skarðs milli Stóra-hóls og Helgafells (Stóri-hóll er norðaustasti hluti Helgafells). Þegar skarðið er gengið til suðurs með austanverðu fellinu er komið að góðum gróningum í Helgafellslandi þrátt fyrir lág hamrabelti þar á millum. Í einni slíkri, mót suðri, er nokkuð stór gróin tóft, þrískipt að sjá. Suðvestan tóftarinnar er gróin mýrarlæna og handan hennar lítill lækur. Þá taka við þúfóttir gróningar og síðan melhlíðar að efstu húsunum austan Helgafells.

Tóft

Tóftin, sem er ca. 6.0×3.0 m að stærð, er í gróinni hlíð og ber með sér að hún hafi gegnt hlutverki beitarhúss. Það snýr suðvestur/norðaustur með framgafl mót suðvestri. Tvö önnur rými, minni, virðast hafa verið beggja vegna við hana ofanverða. Þá má sjá, líkt og lítið gerði, eða jafnvel stekk, norðaustan við hana. Af því mætti hæglega draga þá ályktun að þarna hefði verið selstaða fyrrum. En það passar hvorki við staðsetninguna né hlutfallslega stærð rýmanna ef tekið er mið af öðrum seljum á þessu landssvæði. Hæð á veggjum, sem eru standandi grónir, er um 0.6 m.
Þegar húsfreyjan að Helgafelli var spurð um tóft þessa eftir gönguna, kvaðst hún ekki kannast við hana. Afi hennar hafi búið að Helgafelli á undan henni, en hann hefði ekki minnst á hana.
Gömul gata virðist hafa legið að beitarhúsinu frá Helgafelli. Þegar hlíðinni er fylgt koma hleðslur við götuna í ljós á a.m.k. tveimur stöðum.
Daniel Bruun og Jón Jónasson frá Hrafnagili skilgreindu beitarhús á sínum tíma á eftirfarandi hátt: “Beitarhús eru fjárhús sem standa í úthögum fjarri bœjum, hugsuð til útbeitar á vetrum. Oft er erfitt að greina hvort um er að rœða beitarhús eða sel, en sel-byggingar voru oft notaðar sem beitarhús á vetrum. Beitarhús voru oft reist á gömlum bœjarstœðum og jafnvel stekkjarstœðum.”

Tóft

Í Orðasafni fornleifafræðinnar (sjá http://www.instarch.is) eru beitarhús (hk.) skýrð á eftirfarandi hátt: “Fjárhús utan túns, oft fjarri bæ, sem miðar að því að nýta útbeit eða fjörubeit. Hugtakið er oft notað í ft. og var talað um „að hafa fé á beitarhúsum“. Annað hugtak sem stundum er notað yfir beitarhús er „hagahús“. [enska] Sheephouse in the outfield.
Ef tekið er dæmi um fornleifar eins og beitarhús, þar sem kindur voru hafðar yfir veturinn og þeim beitt á landið (kjarrið eða sinuna), þá eru beitarhúsin leifar ákveðinna búskaparhátta sem eru löngu horfnir. Þessum húsum var gjarnan komið fyrir nálægt landamerkjum á milli bæja svo að kindurnar gætu skroppið yfir til nágrannans og náð þar í eina og eina tuggu svona rétt til að létta bónda sínum byrðina. Því eru beitarhús jafnframt nokkurskonar vitnisburður um tilfinningu manna gagnvart lögunum og kannski eilítið gagnvart hvor öðrum.
Þótt þetta flestum ómeðvitaða beitarhús undir suðurhlíðum Helgafells í Mosfellsbæ geti í hugum þeirra sem það hafa aldrei barið augum hvorki talist merkilegt né viðlitsins vert þá er það engu að síður verðugur fulltrúi þeirra fyrrum búskaparhátta er að því laut – og það í verðandi þéttbýli, ef byggingaáætlanir svæðisins verða að veruleika. Og þeir voru ekki svo litlir þegar á heildina er litið.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-www.instarch.i.

Skammaskarð

Skammaskarð.

Kópavogur
Fornleifaskráning fór fram í hluta af landi Kópavogs árið 2000 undir umsjón Bjarna F. Einarssonar, fornleifafræðings. Þó voru staðir eins og Þingnes ekki skráðir að öllu leiti. Staðurinn er í raun bæði í landi Reykjavíkur og Kópavogs og hann hefur verið rannsakaður í nokkur skipti, en aldrei að fullu. Margt bendir til þess að eldra nafn á staðnum sé Krossnes, en heitið Þingnes hefur fest sig í sessi á seinni tímum og verður væntanlega notað eftirleiðis.
ÁlfhóllÞað var annars einkennandi fyrir Kópavog, líkt og svo marga aðra staði á landinu, hversu gengið hafði verið óhikað á fornminjar og þeim ýmist eytt (meðvitað eða ómeðvitað), en seinni tíma iðrun einungis orðið til þess að opinbera vitund fólks um mistökin án þess að beinilínis hafi sést merki um að það hafi dregið dýrmætan lærdóm af þeim, sbr. Hjónadysina og Systkinaleiðin við Þinghól – og það þrátt fyrir fomlega friðlýsingu frá hinu háverðuga Alþingi Íslendinga. Þeir staðir, sem þó hafa verið varðveittir til framtíðar og teljast verða merkilegir, eru hins vegar ómerktir. Hér á eftir er byggt á skýrslu Bjarna, en jafnframt gerðar við hana smávægilegar athugasemdir. Hingað til hefur það ekki þekkst að gerðar séu athugasemdir eða ábendingar við fornleifaskráningarskýrslur, en kominn er tími til að breyta því, a.m.k. þeim er lúta að Reykjanesskaganum. Sumar hverjar virðast verulega ábótavant og aðrar beinlínis rangar. Þrátt fyrir það byggja opinberir aðilar mikilvægar ákvarðanir sínar m.a. á þeim gögnum.

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

Í skýrslu Bjarna (frá árinu 2000) kemur m.a. fram að “ef velja á fornleifar sem eru einkennandi fyrir ákveðið hérað eða svæði er mikilvægt að vita hvaða fornleifar eru til svo hægt sé að velja.”
Einnig kemur fram að “í hugum nútímafólks er Kópavogur tiltölulega sögulaust sveitarfélag, sem á upphaf sitt að rekja til 20. aldar. Sveitarfélagið sjálft var ekki stofnað fyrr en 1948, en þétting byggðar hafði hafist nokkrum árum áður eða um 1936. Kaupstaðarréttindi fengust svo árið 1955. Á seinustu tveimur öldum var Kópavogur ekki í brennidepli og þótti jafnvel ekki búsældarlegt um að litast. Segir danski fræðimaðurinn Kristian P.E. Kålund svo frá jörðinni Kópavogi í ferðalýsingu sinni er birtist á prenti árin 1877-82: „Bærinn er áleiðum og ömurlegum stað; umhverfis hann eru lág grýtt hæðardrög eða dökkleitar þýfðar mýrar.“ Kópavogsjörðin var lang rýrasta jörðin af þeim jörðum sem eru í Kópavogslandi. Ekki er víst að jarðirnar hafi talist eftirsóknarverðar til ábúðar. Það að nafnið á Hvammi breyttist í Hvammskot árið 1552 gefur vísbendingar um það. Hvammskotsnafninu var svo breytt um 1875 af Þorláki Guðmundssyni alþingismanni í Fífuhvamm. Ekki hefur þó þróunin alltaf verið neikvæð því í jarðarbókum 17. aldar og Jarðamati Johnsens árið 1847 og yngri jarðamötum, hækkaði jarðarmat allra jarða innan bæjarlandsins nema Digraness.
Borgarholt Elsta ritaða heimild um byggð í landi Kópavogs er frá árinu 1234. Þá bregður Vatnsenda fyrst fyrir í Máldagaskrá um eignir Maríu kirkju og staðar í Viðey. Segir m.a. svo í skránni: „hvn a oc Elliðavatz land hálft. Oc allt land at vatzenda. Með þeim veiðvm oc gæðvm er þeim hafa fylgt at fornv. … Hamvndur gaf til staðarins holm þann. Erliggr j elliða am. niðr fra Vatzenda holmi.“ Heimildir segja svo ekkert um svæðið fyrr en árið 1313, í skrá um leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs. Þá eru nefndir til sögunnar bæirnir Hvammur og Digranes, auk Vatnsenda. Segir m.a. svo um leigumálana í skránni: „At vatz ennda iij merkur.J hvamme c leigv.J digranesi iij merkur:“ Nafnið Kópavogur kemur fyrst fyrir í heimildum árið 1523. Er þar átt við Kópavogsþingstaðinn og tilefnið var dómur yfir Týla Péturssyni hirðstjóra, sem fundinn var sekur um morð o. fl. Bærinn Kópavogur kemur ekki fyrir í rituðum heimildum fyrr en1553, þá í afgjaldareikningum Eggerts hirðstjóra Hannessonar á Bessastöðum. Er þar afgjald Þorsteins ábúanda tilgreint, en það var „viijalne vatmell.“ Til eru aðrar og eldri heimildir um byggð í Kópavogi, en það eru fornleifarnar sem þar finnast. Margt er enn ósagt um þær, aðeins nokkrar þeirra hafa verið rannsakaðar og engar þeirra til fulls.

Elsta mannvirki sem í ýtarlegri sögu Kópavogs má lesa í Sögu Kópavogs I-III, sem Lionsklúbbur Kópavogs gaf út árið 1990 og endurminningum Huldu Jakobsdóttur “Við byggðum nýjan bæ”, sem Gylfi Gröndal ritaði árið 1988.
M.a. hefur fundist í Kópavogi jarðhýsi eitt, sem staðsett er undir minjum hins gamla Kópavogsþingstaðar, norðanvert við árósa Kópavogslækjar. Jarðhýsið er C-14 aldursgreint og var niðurstaðan óleiðrétt 1180 ± 130 BP. Sé niðurstaðan hins vegar leiðrétt með 95,4% vissu, er niðurstaðan sú að húsið hafi verið í notkun einhverntíma á bilinu 600 – 1200. Talið er að jarðhýsið geti jafvel verið frá 9. öld. Ofan á áðurgreindu jarðhýsi fannst smiðja, sem var mun eldri en frá 1500 miðað við afstöðu gjóskulaga, en reyndist vera frá því um 1800 samkvæmt C-14. Ástæðan fyrir þessu misræmi hlýtur að vera sú að viðurinn sem var aldursgreindur hefur borist í húsið á seinni tímum eða mistök átt sér stað á tilraunastofunni. Talið er að smiðjan geti verið frá 12. öld. Skammt suður af jarðhýsinu var byrgð þró. Viðarkolasýni úr henni var aldursgreint og niðurstaða þeirrar greiningar 900 ± 70 BP.

Latur

Latur – „Gamlar“ sagnir eru um að steinninn sé álfabústaður. Einnig kemur hann nokkuð við sögu Jóns bónda Guðmundssonar í Digranesi. Mun hann hafa setið við steininn og sungið þegar hann kom heim úr sollinum í Reykjavík á fyrri helmingi tuttugustu aldar.

Rannsóknin á Kópavogsþingstað sýnir svo að varla verður um villst að búseta hefur hafist á staðnum þegar á landnámsöld, kannski við upphaf hennar í lok 9. aldar. Jarðhýsi finnast nær aldrei ein og sér, þau eru ævinlega á bæjarstæðum, verslunarstöðum, þingstöðum eða eins og ýmislegt bendir til, á kumlateigum. Ekki er líklegt að jarðhýsið í Kópavogi hafi tilheyrt neinu öðru en bæjarstæði, sem er þá elsta bæjarstæði Kópavogs sem vitað er um í dag. Hvar bærinn hefur nákvæmlega staðið er ekki gott að segja, en þau jarðhýsi sem fundist hafa á bæjarstæðum hérlendis eru öll nálægt bæjarhúsunum, varla meira en 10 m frá þeim. Jarðhýsið í Kópavogi sker sig þó úr öðrum jarðhýsum hér á landi hvað tvö atriði varðar. Húsið er aðeins grafið niður um 20 sm í jökulruðninginn, sem er mjög lítið miðað við öll önnur jarðhýsi hér heima og erlendis. [Hér er í raun um vafamál að ræða, því hæpið er að kalla þetta “jarðhýsi”, svo grunnt sem það er og því fellur frekari rökstuðningur um nálægð við aðra bæjarhluta um sjálfan sig]. Á gólfinu er steinalögn sem gæti verið eldstæði, öll eða hluti hennar. Smiðjan ofan á jarðhýsinu segir okkur einnig að skammt frá hafi verið býli um 1200. Smiðjur virðast stundum hafa verið einhvern spöl frábæjarhúsum í öndverðu en færst svo nær býlunum, trúlega í upphafi miðalda, sbr. Stöng o.fl. bæi.Við önnur bæjarstæði í Kópavogi, Hvamm (Fífuhvamm), Digranes og Vatnsenda, eru/voru vafalítið mjög fornar minjar. Fífuhvammur er horfinn að mestu leyti, ef ekki öllu, og Digranes horfið að talsverðu leyti þó ýmislegt markvert kunni að leynast þar enn undir grasrótinni. Við Vatnsenda er enn búið og bæjarstæðið og nánasta umhverfi þess geymir örugglega mikið af upplýsingum um forsögu þess bæjar sem gæti hafa verið talsverð, samanber orðalag Máldagaskrá Viðeyjarkirkju. Í raun má segja að núverandi íbúðarhús standi á bæjarhól, en slíkir hólar geyma yfirleitt gríðarlegt magn upplýsinga um búskaparhætti á liðnum öldum. Niðurstaðan er því sú að þó að ritaðar heimildir segi ekki mikið um mannlífið á Kópavogsbæjunum að fornu og að svæðið virðist ekki hafa komið við sögu helstu atburða Íslandssögunnar, þá geyma fornleifarnar gríðarlegt magn af upplýsingum sem eru enn mikilvægari þegar hinar rituðu heimildir skortir. Í tilviki Kópavogs eru þær að sumu leyti einu heimildirnar sem við höfum um mannlíf og sögu svæðisins fyrstu aldirnar.

Þinghóll Í Sögu Kópavogs I segir að þegar klóak hafi verið grafið fyrir neðan Kópavogshælið, meðfram Fífuhvammsvegi, hafi verið fylgst með verkinu af fornleifafræðingi og hann skráð og teiknað upp eftir þörfum. Skilti á staðnum sýnir að hreinsað hefur verið ofan af gólfum og veggir lagaðir eitthvað til. Að öðru leyti virðist bærinn ekki hafa verið rannsakaður frekar. Skammt frá Digranesi stóð rúst sem líklega var fjárhús frá bænum. Var rústin fjarlægð með vélgröfu undir eftirliti Þjóðminjasafns.
Árið 1988 voru tvær dysjar rannsakaðar er gengu undir heitinu Hjónadysjar. Kom í ljós að þar hvíldu maður og kona og getum að því leittað þau hafi verið Sigurður Arason frá Árbæ og Steinunn Guðmundsdóttir, einnig frá Árbæ sem dæmd voru árið 1704 fyrir morð á eiginmanni Steinunnar, Sæmundi Þórarinssyni.
Í Kópavogi hafa 53 staðir verið skráðir og á þeim voru meir en 75 minjar. Þá eru rústir á Þingnesi ekki taldar með, en þær eru fleiri en 18 og a.m.k. fjórar þeirra eru í landi Kópavogs.

Þinghóll

Minningarsteinn um erfðahyllinguna 1662 á Þinghól.

Fjórir staðir eru friðlýstir. Eru þeir Kópavogsþingstaður, Hjónadysjar, Systkinaleiði og Þingnes. Allir staðirnir voru friðlýstir árið 1938. Þingnes er þó að mestu leyti í landi Reykjvíkur, en hið friðhelga svæði nær þó eitthvað inn í land Kópavogs og vafalítið eru nokkrar rústir í landi Kópavogs (þær vestustu). Í friðlýsingu Kópavogsþingstaðar segir: 1. Þinghússtóft syðst á túninu og fangakofatóftir skammt frá. 2. Dysjar austan túns, nefndar Hjónadysjarnar og Systkinaleiðin. Ekki er svæðið tilgreint nánar. Rústir við sjálfan þingstaðinn eru taldar friðlýstar í fornleifaskrá, þó ekki sé víst hvernig lögin taki á þeim. Rústir fyrir utan þingstaðinn eru ekki taldar friðlýstar í fornleifaskrá. Þyrfti að endurskoða friðlýsinguna og friðlýsa allt svæðið. Í friðlýsingu Þingness segir að friðlýstar fornleifar séu: Mannvirkjaleifar á hinum forna Kjalarnessþingstað í Þingnesi, sem gengur út í Ellliðavatn að sunnanverðu.
Þinghústóftin (þingbúð) á Kópavogsþingstað var rannsökuð árin 1973-76, auk nokkurra minja undir henni. Rústin virðist síðan hafa verið endurhlaðin á staðnum. Hjónadysjar voru rannsakaðar og fjarlægðar árið 1988, en Systkinaleiði hvarf á fyrri helmingi þessarar aldar án nokkurra rannsókna. Á Þingnesi hófst rannsókn sumarið 1982 og stóð yfir í nokkur sumur. Ekki er víst að rannsóknum þar sé lokið.

Kópavogur

Álfhóll.

Af 53 stöðum sem skráðir voru töldust fjórir hafa hátt minjagildi, 17 talsvert, 32 lítið og enginn ekkert minjagildi. Staðir geta haft hátt minjagildi þó einstakar fornleifar við þá hafi talsvert, lítið eða ekkert minjagildi. 22 fornleifar á 19 stöðum eru horfnar, þ.m.t. þær sem voru rannsakaðar og fjarlægðar. Flestar, ef ekki allar, hafa horfið á þessari öld og aðeins tvær þeirra eru rannsakaðar, en það eru Hjónadysjarnar. Ástæður fjarlægingar eru m.a. athafnir setuliðsins á stríðsárunum og vöxtur bæjarins. Af 53 stöðum eru 11 í mikilli hættu, 9 í lítilli og 15 í engri hættu. Mikill meirihluti minjanna finnast stakar og lítið er um heilar heildir. Einu heildirnar eru Kópavogsþingstaðurinn ásamt bæjarstæðinu þar og Þingnes við Elliðavatn. Þessi staðreynd eykur gildi þessara tveggja staða.

Merkilegustu fornleifarnar í Kópavogi eru eftirfarandi fornleifar í númeraröð:
1. Jarðhýsi.
2. Smiðja.
3. Þingbúð. I –VIII: Skurðir. (Guðrún Sveinbjarnardóttir 1986:21). Kópavogsþingstaður og Kópavogsbærinn. Staðurinn býr yfir afarmiklum upplýsingum sem ná frá nútíma allt aftur á landnámsöld. Ekki er mikið til ritað um staðinn og þeim mun mikilvægari eru þær heimildir sem geymdar eru undir sverðinum. Þarna má ímynda sér að skálabyggingar, fjós og önnur hús séu geymd í heilu lagi eða í brotum. Þessu fylgir mikið magn af upplýsingum sem felast í gripum, beinum og jarðveginum sjálfum.
4. Álfhóllinn. Hóllinn er trúlega þekktasti álfhóll Kópavogs og hefur skapað sér slíkan sess í skipulagi bæjarins að varla verður honum hnikað héðan af. Hann er sýnilegt dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan tíma.

Kópavogur

Digranesbærinn.

5. Digranesbærinn. Hér stóð eitt sinn höfuðbýli Kópavogs. Hluti af bænum stendur enn ásamt tröðinni, kálgarðinum og ýmsum minjum undirsverðinum allt í kring. Vandamálið er hve nálægt skóla staðurinn er og hve ágengni er mikil. Þessu mætti snúa í andhverfu sína og gera það að höfuðgildi staðarins, þ.e. að tengja hann kennslu grunnskólabarna með beinum hætti.
5. Selstaða? Staðurinn er skammt frá bæjarstæði Fífuhvamms. Nálægðin bendir til þess að hér sé ekki selstaða, en þó er ekki loku fyrir það skotið að hér hafi verið haft í seli svo nálægt bæ. Örnefnin Selflatir,Selvellir og Selhryggur eru nokkuð langt frá til að geta verið í tengslum við þessar rústir. Hvort sem um er að ræða selstöðu eða annað þá eru rústirnar (mjög) fornlegar að sjá. Þær eru býsna nálægt fjölbýlishúsum og við þær liggja stígar. [Ef grannt er skoðað er ljóst að tóftirnar eru ekki leifar sels. Meiri líkur benda til beitarhúsatófta, enda vottar fyrir heykumli aftan við ílanga megintóftina. Sel Fífuhvamms má enn sjá norðan í Rjúpnahæð þar sem byggðin hefur enn ekki náð til þess og þess er getið í heimildum. Selsins er hins vegar ekki getið í fornleifaskráningarskýrslunni, sjá annars á vefsíðunni; Fífuhvammur – Fífuhvammssel].

Landamerkjasteinn

Landamerkjasteinn.

6. Landamerkjasteinninn Markasteinn. Fallegasti landamerkjasteinninn í Kópavogi. Hann hefur fengið nýtt hlutverk á seinni tímum, auk síns gamla, en það er að vera hluti af girðingu utan um Rjúpnahæð.
7. Beitarhús suður af Litlabás. Eins og algengt er þá er beitarhúsið ekki langt frá landamerkjum Vatnsenda og Vífilsstaða. Þannig var hægt að nýta betur sitt eigið land og jafnvel land nágrannans einnig. Húsið er eitt tveggja beitarhúsa í Kópavogi (eða á hinu skráða svæði) og það elsta. [Hér ber að hafa í huga fyrri umfjöllun um beitarhús því tóftir meints sels skammt frá Fífuhvammi virðast eldri en hér um ræðir].
BeitarhúsÍ þéttbýli Kópavogs og næsta nágrenni eru sem fyrr segir 53 staðir skráðir sem fornleifar og geyma þeir 75 stakar fornleifar. Kópavogur á sér ekki mjög mikla sögu sem lesa má um í rituðum heimildum, en fornleifarnar geyma býsna spennandi sögu sem nær að líkindum allt aftur til landnámsaldar. Eitt megin hlutverk þessarar fornleifaskrár er að hjálpa skipulagsyfirvöldum að standa vörð um fornleifarnar og marka stefnu í skipulagsmálum/minjavernd sem tekur mið af þessum fornleifum. Fornleifaskráningu lýkur í raun aldrei og hana þarf að endurskoða reglulega. Þegar einhverjar áður óþekktar fornleifar finnast við jarðrask ber að færa slíka staði inn á fornleifaskrá auk ákvæðanna um tilkynningu í þjóðminjalögum.”
Rétt er að taka undir og árétta orð Bjarna um mikilvægi fornleifanna með hliðsjón af menningarlegu mikilvægi þeirra því þau geta, ef vel er að verki staðið, sagt engu minni sögur en þær sem skráðar hafa verið með fjaðurstaf á hinu fornu skinnhandrit – og jafnvel bætt um betur.
Meginheimildir:
-Fornleifaskrá Kópavogs – Bjarni F. Einarsson – 2000.Aðrar heimildir m.a.:
-Bjarni F. Einarsson (a). The Settlement of Iceland; a Critical Approach. Granastaðir and the Ecological Heritage. Reykjavík 1995.
-Bjarni F. Einarsson (b). Fornleifaskrá Reykjavíkur. Skýrslur Árbæjarsafns XLVI. Reykjavík 1995.
-Bjarni F. Einarsson (c). „Um fornleifaskráningu á Íslandi, upphaf og ástæður. Fyrrigrein: Upphafið og lögin.“ Sveitarstjórnarmál. 1. tbl. 1996.
-Bjarn F. Einarsson. „Um fornleifaskráningu á Íslandi, upphaf og ástæður. Síðari grein: Skyldur okkar gagnvart fortíðinni. Sveitarstjórnarmál. 2. tbl.1996.
-Bjarni F. Einarsson. „Fornleifaskráning á Íslandi: Forsendur og markmið.“ Fréttabréf safnmanna. 6. árg. 1. tbl. 1997.
-Frásögur um fornaldarleifar 1817- 1823. Fyrri hluti. Sveinbjörn Rafnsson bjó til prentunar. Reykjavík 1983. Guðlaugur R. Guðmundsson.
-Hinar fornu jarðir Kópavogsþingstaðar. Örnefnastofnun. Handrit 1970.
-Guðmundur Ólafsson. „Sakamannadysjar í Kópavogi.“ LesbókMorgunblaðsins 23. mars 1996.
-Guðmundur Ólafsson. „Þingnes by Elliðavatn: The first Local Assembly in Iceland. “Proceedings of the Tenth Viking Congress. Universitetets Oldsaksamlings Skrifter. Ny Rekke. Nr. 9. Ósló 1987.
-Guðrún Sveinbjarnardóttir. Rannsókn á Kópavogsþingstað. Meðviðaukum. Kópavogur 1986.
-Íslenskt fornbréfasafn. Fyrsta bindi. Kaupmannahöfn 1857-76.
-Íslenskt fornbréfasafn. Annað bindi. Kaupmannahöfn 1888.
-Íslenskt fornbréfasafn. Níunda bindi. Reykjavík 1909-13.
-Íslenskt fornbréfasafn. Tólfta bindi. Reykjavík 1923-32.
-Kaalund, Kristian P.E. Íslenskir sögustaðir I. Sunnlendingafjórðungur. Reykjavík 1984.
-Lýður Björnsson. „Kópavogur 1936 – 1955.“ Saga Kópavogs II. Frumbyggð og hreppsár 1935 – 1955. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjóri Adolf J.E. Petersen. Kópavogur 1990.
-Magnús Þorkelsson (a). „Af Kópavogsbæjum frá fyrri öldum.“ Saga Kópavogs I. Saga lands og lýðs á liðnum öldum. Safn til sögubyggðarlagsins. Ritstjóri Árni Waage. Kópavogur 1990.
-Magnús Þorkelsson (b). „Þingstaðir í Kópavogslandi.“ Saga Kópavogs I. Saga lands og lýðs á liðnum öldum. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjóri ÁrniWaag. Kópavogur 1990.
-Matthías Þórðarson. „Nokkrar Kópavogsminjar.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1929. Reykjavík 1929.
-Orri Vésteinsson. „Fornleifaskráning og fornleifarannsóknir.“ Fréttabréf safnmanna. 5. árg. 4. tbl. 1996.
-Skipulags- og byggingalög 1997, nr. 73, 28. maí.
-Þjóðminjalög 1989, nr. 88, 29. maí. Með síðari breytingum.
-Þór Magnússon. „Skýrsla um Þjóðminjasafnið 1986.“· Árbók Hins ísl.fornleifafélags 1986. Reykjavík 1987

Víghóll

Á Víghóll/Víghólum í Kópavogi er upplýsingaskilti. Þar segir m.a.:

Víghóll

Víghóll var friðlýstur sem náttúrvætti 1983 skv. náttúruverndarlögum nr. 47/1971. Stærð friðlýsts svæðis er um 1 hektari en útivistarsvæðið er rúmir 3 hektarar.

Víghóll

Víghóll.

Um tíma stóð til að byggja Digraneskirkju á svæðinu og voru framkvæmdir við grunn kirkjunnar hafnar þegar horfið var frá því skipulagi. Digraneskirkja stendur nú á fallegum stað í Digraneshlíðum.
Þar sem kirkjan átti að standa er nú hvammur í landinu þar sem grágrýtisklappir grunnbergsins eru sýnilegar. Form hvammsins hefur verið undirstrikað með fallegum og vel gerðum grjóthleðslum.
Að sögn Erlu Stefánsdóttur má sjá ljósstrengi frá Víghól milli huldubyggða á stóru svæði í nálægum bæjum. En í sjálfum hólnum má finna einskonar musteri hulduvera á háu tíðnissviði og í stökum húsum á hólnum búa rólyndislegir dvergar með ljúfar árur.

Víghóll er í 74.7 metrum yfir sjávarmáli og stendur hæst í byggðu landi Kópavogs. Bergið í Víghól er grágrýti og virðist vera hluti af víðáttumiklum berggrunni (hraunlagasyrpu) á höfðuborgarsvæðinu sem gengur undir samheitinu Reykjavíkurgrágrýti.
Reykjavíkurgrágrýtið tilheyrir yngri grágrýtismyndun Íslands, til aðgreiningar frá eldri grágrýtismynduninni, og er einkum um dyngjuhraun að ræða sem runnu á hlýskeiðum seinni hluta ísaldar fyrir 100.000-700.000 árum.
Upptök Reykjavíkurgrágrýtsins í Kópavogi eru óþekkt, en aldurinn er líklega 300.000-400.000 ár.

Víghóll

Víghóll.

Hvalbök nefnast jökulsorfnir klapparhólar og þekkjast á því að hlið klapparinnar sem vissi á móti skriðstefnu jökulsins, þar sem jökulþunginn mæddi mest á, er fremur slett og aflíðandi. Hin hliðin sem vissi undan skriðstefnunni er hins vegar oft brött og stöllótt, enda náði jökullinn að rífa flyksur úr berginu þeim megin. Jökulrákir á Víghól urðu til fyrir um 10.000 árum þegar jökullinn skreið fram og rispaði undirlagið með urð og grjóti. Af stefnu hvalbaka og jökulráka má ráða skriðstefnu jökla. Jökulrispurnar á Víghól liggja frá suðaustri til norðvesturs.
Á Víghóli, Álfhóli og víðar á höfuðborgarsvæðinu hefur jökullinn sem síðast gekk yfir svæðið fyrir um 10.000 árum, haft stefnuna norðvestur til suðausturs. Líklega hafa ísaskil þessa jökuls legið austan Bláfjalla og skriðjöklar gengið frá honum bæði út á Faxaflóða og niður í Ölfus.

Kópavogur

Víghóll.