Gengið var um Skammaskarð frá Norður-Reykjum í Reykjadal og inn í Skammadal milli Æsustaðafjalls og Reykjafells. Ætlunin var að skoða minjar, sem þar áttu að vera – og fundist höfðu á loftmynd.
Í Skammadal hafa sprottið kartöflugarðar og skúraþyrping á fyrrum ræktarsvæði. Stóri-hóll er hægra (vestan) megin þegar komið er upp, á norðurbrúninni. Litli-hóll er skammt sunnan hans. Þegar staðið er upp á þeim og horft yfir þyrpinguna má sjá þar sambærileg svæði og víða annars staðar í Evrópu; grænt og gróið með afmörkuðum reitum, tré og truntur á beit og ekki var hitastigið (í lok septembermánaðar) til að spilla stemmningunni – 18°C.
Norðan og undir Stóra-hól er Víghóll (Vígahóll), sem af sumum hefur verið nefndur Kvíahóll. Hann er neðan skarðs milli Stóra-hóls og Helgafells (Stóri-hóll er norðaustasti hluti Helgafells). Þegar skarðið er gengið til suðurs með austanverðu fellinu er komið að góðum gróningum í Helgafellslandi þrátt fyrir lág hamrabelti þar á millum. Í einni slíkri, mót suðri, er nokkuð stór gróin tóft, þrískipt að sjá. Suðvestan tóftarinnar er gróin mýrarlæna og handan hennar lítill lækur. Þá taka við þúfóttir gróningar og síðan melhlíðar að efstu húsunum austan Helgafells.
Tóftin, sem er ca. 6.0×3.0 m að stærð, er í gróinni hlíð og ber með sér að hún hafi gegnt hlutverki beitarhúss. Það snýr suðvestur/norðaustur með framgafl mót suðvestri. Tvö önnur rými, minni, virðast hafa verið beggja vegna við hana ofanverða. Þá má sjá, líkt og lítið gerði, eða jafnvel stekk, norðaustan við hana. Af því mætti hæglega draga þá ályktun að þarna hefði verið selstaða fyrrum. En það passar hvorki við staðsetninguna né hlutfallslega stærð rýmanna ef tekið er mið af öðrum seljum á þessu landssvæði. Hæð á veggjum, sem eru standandi grónir, er um 0.6 m.
Þegar húsfreyjan að Helgafelli var spurð um tóft þessa eftir gönguna, kvaðst hún ekki kannast við hana. Afi hennar hafi búið að Helgafelli á undan henni, en hann hefði ekki minnst á hana.
Gömul gata virðist hafa legið að beitarhúsinu frá Helgafelli. Þegar hlíðinni er fylgt koma hleðslur við götuna í ljós á a.m.k. tveimur stöðum.
Daniel Bruun og Jón Jónasson frá Hrafnagili skilgreindu beitarhús á sínum tíma á eftirfarandi hátt: “Beitarhús eru fjárhús sem standa í úthögum fjarri bœjum, hugsuð til útbeitar á vetrum. Oft er erfitt að greina hvort um er að rœða beitarhús eða sel, en sel-byggingar voru oft notaðar sem beitarhús á vetrum. Beitarhús voru oft reist á gömlum bœjarstœðum og jafnvel stekkjarstœðum.”
Í Orðasafni fornleifafræðinnar (sjá http://www.instarch.is) eru beitarhús (hk.) skýrð á eftirfarandi hátt: “Fjárhús utan túns, oft fjarri bæ, sem miðar að því að nýta útbeit eða fjörubeit. Hugtakið er oft notað í ft. og var talað um „að hafa fé á beitarhúsum“. Annað hugtak sem stundum er notað yfir beitarhús er „hagahús“. [enska] Sheephouse in the outfield.
Ef tekið er dæmi um fornleifar eins og beitarhús, þar sem kindur voru hafðar yfir veturinn og þeim beitt á landið (kjarrið eða sinuna), þá eru beitarhúsin leifar ákveðinna búskaparhátta sem eru löngu horfnir. Þessum húsum var gjarnan komið fyrir nálægt landamerkjum á milli bæja svo að kindurnar gætu skroppið yfir til nágrannans og náð þar í eina og eina tuggu svona rétt til að létta bónda sínum byrðina. Því eru beitarhús jafnframt nokkurskonar vitnisburður um tilfinningu manna gagnvart lögunum og kannski eilítið gagnvart hvor öðrum.
Þótt þetta flestum ómeðvitaða beitarhús undir suðurhlíðum Helgafells í Mosfellsbæ geti í hugum þeirra sem það hafa aldrei barið augum hvorki talist merkilegt né viðlitsins vert þá er það engu að síður verðugur fulltrúi þeirra fyrrum búskaparhátta er að því laut – og það í verðandi þéttbýli, ef byggingaáætlanir svæðisins verða að veruleika. Og þeir voru ekki svo litlir þegar á heildina er litið.
Frábært veður.
Heimildir m.a.:
-www.instarch.i.