Þingvallavegur

“Lagning gamla Þingvallavegarins hófst árið 1886 og var að fullu lokið árið 1891. Þessi þjóðvegur gegndi því hlutverki í rúmlega 40 ár að greiða mönnum leið yfir langa og oft torsótta heiði, þegar farartækin voru eigi önnur en fætur manna thingvallavegurinn gamli-901og hesta, og síðar á bifreiðum, en telja verður því lokið eftir alþingishátíðina árið 1930.
Vegurinn liggur austan við Seljadalinn, en áður lá leiðin um þann dal. Eftir dalnum rennur Seljaá. Þar sem Seljaá beygir meðfram Borgarhólum, hefur verið byggð brú yfir ána. Við Háamel hefur sæluhús  verið byggt úr tilhöggnu grjóti. Austan við Morldabrekkur mótar fyrir tóftum. Það eru leifar elsta sæluhússins á heiðinni sem kunnugt er um. Það sæluhús var lagt niður og nýja sæluhúsið byggt á Háamel, á sama tíma og vegurinn var lagður, sem fyrr segir.
Verkstjóri við lagningu Þingvallavegarins var Erlendur Zakaríasson, en hann og bróðir hans Árni, voru þekktir vegaverkstjórar á síðustu áratugum 19. aldar og fram á fyrstu áratugi þeirrar tuttugustu.
Einar Finnsson járnsmiður frá Meðalfelli í Kós hafði lært vegalagningu í Noregi. Hann byggði brúna á Seljaá og ræsin á veginum eru hans handverk. Sigurður Hannesson, bróðir hins kunna landspósts, Hans Hannessonar, hlóð vörðurnar og sæluhúsið. Þessir menn hafa báðir hlaðið sér veglega minnisvarða, sem enn standa að mestu óhreyfðir.
Vörður, brýr, veggir og vegræsi gamla Þingvallavegarins heyra undir listaverk hagleiksmanna og hvort mun það ekki í verkahring komandi kynslóða að vernda þau sem slík um aldur og ævi?
Þegar leið að alþingishátíðinni 1930, var farið að huga að veginum milli Reykjavíkur og Þingvalla. Þá þótti sýnt, að vegurinn myndi ekki bera uppi þá umferð sem ætla mátti að yrði milli þessara höfuðstaða. Því varð að ráði að leggja annan veg um Mosfellsdal og Mosfellsheiði norðanverða. Þeirri vegagerð lauk svo um vorið 1930 áður en hátíðin hófst. Umferð var þá þannig hagað, að frá Reykjavík var farið um nýja veginn um Mosfellsdal, en gamla veginn að austan.
Þegar alþingishátðinni var lokið, var hlutverki gamla Þingvallavegarins líka lokið. Honum var ekki lengur haldið við, þörfin fyrir hann var ekki nein orðin, þar sem nýrri vegurinn var framtíðarleiðin.”

Heimild:
-Safn til sögu Reykjavíkur – Reykjavík, miðstöð þjóðlífs, samgönguleiðir til Reykjavíkur að fornu og nýju, bls. 79-97.

Mosfellsheiði

Gamli Þingvallavegurinn.