Í bókinni Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, er m.a. fjallað um landnám í Mosfellsveit. Þar segir um landnámsmennina: “Landnámabók (Landnáma) greinir frá því að liðlega 400 nafngreindar fjölskyldur, ásamt vinnufólki, þrælum og búpeningi, hafi numið land á Íslandi á árunum eftir 870.
Landnám Ingólfs Arnarssonar náði frá Hvalfjarðarbotni, suður um Þingvallavatn og austur að Ölfusi og öll nes út. Hann byggði bæ sinn í Reykjavík.
Í Sturlubók Landnámu er landnámi í Mosfellssveit lýst þannig: “Þórðr skeggi hét maðr. Hann var sonr Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórðr átti Vilborgu Ósvaldsdóttur. Helga hét dóttir þeirra. Hann átti Ketilbjörn hinn gamli.
Þórðr fór til Íslands ok nam land með ráði Ingólfs í hans landnámi á milli Úlfarsár ok Leiruvágs. Hann bjó á Skeggjastöðum. Frá Þórði er margt stórmenni komit á Íslandi.” Þórður og Vilborg gætu hafa komið frá Englandi eða víkingabyggðum á Íralandi en Vilborg er sögð dóttir Úlfrúnar hinnar óbornu sem var dóttir Játvarðar Englakonungs.
Áður en Þórður og Vilborg settust að í Mosfellssveit bjuggu þau á Bæ í Lóni, skammt austan Hornafjarðar [líkt og landnámsmaður Grindavíkur 60 árum áður, Molda-Gnúpur Hrólfsson].
Í Hauksbók Landnámu segir af þeim hjónum: “Þórðr byggði fyrst í Lóni austr tíu vetr eða fimmtán; en er hann frá til öndvegissúlna sinna í Leirvági, þá seldi hann lönd sín Úlfljóti; … En hann fór vestr með allt sitt ok nam land at ráði Ingólfs millum Úlfarsár og Leirvágsár ok bjó síðan á Skeggjastöðum. Hans dóttir var Helga, er átti Ketilbjörn hinn gamla at Mosfelli.”
[Í ljósi sögunnar um Helgufoss, Helgusel og Helgustein er ekki óraunhæft að ætla að nafngiftin tengist dóttur landnámsmannsins, enda selstaðan landfræðilega eðlileg frá Skeggjastöðum þótt hún hafði síðar tilheyrt Mosfelli.]
Talið er að þau Þórður og Vilborg hafi komið í Lón um 890 og gætu því hafa verið í Mosfellssveit um 900 eða laust eftir það.
Ættingjar Þórðar skeggja bjuggu í næsta nágrenni við hann. Helgi bjóla nam land á Kjalarnesi frá Mógilsá og var kvæntur Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar, en Helgi og Þórður voru bræðrasynir. Örlygur gamli Hrappsson, bróðir Þórðar, fékk hluta af landnámi Helga bjólu og settist að á Esjubergi á Kjalarnesi þar sem hann byggði fyrstu kirkju á Íslandi eftir því sem Landnáma hermir. Þriðji frændi Þórðar var Hallur goðlausi sem fékk land frá Leirvogsá og að Mógilsá í Kollafirði, Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar og þar með frændi Þórðar skeggja, fékk landið þar sem síðar varð Bessastaðahreppur, Garðbær og Hafnarfjörður.
Vestan við landnám Þórðar skeggja er Gufunes sem var hluti af Mosfellssveit fram á 20. öld. Í einni gerð Landnámabókar er getið um Gufu Ketilsson sem vildi reisa þar bæ en Ingólfur Arnarson rak hann þaðan á brott. Ljóst er að bæjarnafnið Gufunes er ævafornt.
Ritheimildir greina ekki frá því hvernig Mosfellssveit byggðist, utan þess sem sagt er um landnámsfólkið á Skeggjastöðum.
Við landnám var Ísland viði vaxið frá fjöru til fjalls. Af þeim sökum var auðveldara að nýta landið til beitar við efri skógarmörk en nær sjó og upphaf byggðar í landinu [er því] að jafnaði frekar til fjalla en við sjávarsíðuna: “Sumir þeir, er fyrstir kómu út, byggðu næstir fjöllum ok merktu at því landskostina, at kvikfét fýstisk frá sjónum til fjallanna.”
Bær Þórðar og Vilborgar, Skeggjastaðir, stóð í norðausturjaðri landnámsins, skammt sunnan Leirvogsár þar sem bæði var lax- og silungsveiði. Bærinn komst fljótt í þjóðbraut því reiðleiðin yfir Svínaskarð liggur framhjá Skeggjastöðum og svonefndur Stardalsvegur yfir Mosfellsheiði lá um bæjarhlaðið.
Landnáma greinir frá fjölmörgum dæmum um landnámsmenn sem reistu bæi sem urðu engin stórbýli, jafnvel þvert á móti. Þannig var því farið með Skeggjastaði, lítið fer fyrir landnámsjörð Mosfellinga í heimildum frá miðöldum, hennar er þó getið í skrá yfir jarðir sem komust undir Viðeyjarklaustur árið 1395 og þá sögð vera 12 hundruð. Hins vegar er ekki minst á Skeggjastaði í upptakningu konungsjarða í Mosfellssveit í svonefndum Fógetareikningum frá miðri 16. öld. Getið eru um Skeggjastaði í Jarðabók 1704 þar sem lýst er Minna-Mosfelli. Þar segir að “selstaða var áður brúkuð frí þar sem nú eru Skeggjastaðir.”
Þórður skeggi og Vilborg eignuðust þrjár dætur, Helgu, Þuríði og Arndísi. Helgu og Þuríðar er getið í Landnámu og Arndísar í Kjalnesinga sögu. Þessar landnámsdætur settust ekki að í Mosfellssveit, þær fluttu með mönnum sínum í aðrar sveitir, á Kjalarnes, í Biskupstungur og Goðdali. Arndís giftist t.a.m. Þorgrími Helgasyni bjólu frá Brautarholti og bjuggu þau í Hofi á Kjalaranesi. Þau eignuðust soninn Búa og er hann ein aðalpersónan í Kjalnesinga sögu.”
Heimild:
-Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, Pjaxi 2005, bls. 13-15.