Færslur

Mosfellsheiði

Eftirfarandi umfjöllum um “Töfra Mosfellsheiðar” birtist í Morgunblaðinu árið 2021:

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort.

“Mosfellsheiði er víðlent heiðarflæmi á suðvesturhorni landsins. Má með nokkurri einföldun segja að Þingvallavegur og Suðurlandsvegur rammi heiðina inn að norðan- og sunnanverðu, hún nái að íbúðarbyggð í Mosfellsbæ að vestanverðu og langleiðina að Þingvallavatni í austri.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði-kort 1908.

Heiðin er innan lögsögumarka sex sveitarfélaga. Þau eru Mosfellsbær, Reykjavíkurborg, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Sveitarfélagið Ölfus og Kópavogsbær. Eignarhaldið er ýmist á hendi sveitarfélaganna sjálfra eða einstakra bújarða en nafn heiðarinnar vísar til prestssetursins á Mosfelli í Mosfellsdal sem átti vesturhluta heiðarinnar til ársins 1933 þegar íslenska ríkið festi kaup á þeim hluta. Mosfellsheiði rís hæst 410 m y.s. í Borgarhóum sem eru kulnuð eldstöð. Eldvirkni hefur verið víðar á háheiðinni enda er hún að stórum hluta þakin grónum hraunum. Víðfeðmir melar og móar, grashvammar og tjarnir setja einnig sterkan svip á nátt­úru heiðar­inn­ar.

Mosfellsheiðarleiðir

Mosfellsheiðarleiðir.

Fyrir tveimur árum kom út gönguleiðaritið Mosfellsheiðarleiðir sem Ferðafélag Íslands gaf út. Í ritinu eru lýsingar á samtals 23 leiðum. Tólf þeirra eru gamar þjóðleiðir, sex hringleiðir og fimm línuvegir.

Nokkrir lykilstaðir eru á Mosfellsheiði og frá þeim liggja síðan áhugaverðar gönguleiðir.

Bringur

Bringur

Bringur – bærinn; loftmynd 1954.

Ekið er austur Mosfellsdal í átt til Þing­valla. Beygt er til hægri af Þingvallavegi ofan við Gljúfrastein og síðan farið eftir allgrófum malarvegi um 900 metra leið að eyðijörðinni Bringum, þar sem hægt er að leggja bílum. Náttúrufegurð er mikil í Bringum, útsýni til hafs og mannvistarleifar frá þeim tíma þegar búseta var þar.

Náttúran og sagan voru aðalástæður þess að hluti af Bringnajörðinni var gerður að fólkvangi árið 2014. Hægt er að ganga hringleið um fólkvanginn eftir göngustíg sem liggur frá bílstæðinu, fyrst niður að Köldukvísl, þar sem getur að líta tóftir Helgusels, síðan upp með ánni að Helgufossi og loks í norðurátt að bæjarrústum ofarlega í túninu og til baka á bílastæðið. Sú ganga tekur um 40 mínútur. Þeir sem kjósa lengri ferðir geta valið um sjö leiðir sem eiga upphaf sitt hér.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Leiðin að Skeggjastöðum liggur til norðurs af Þing­valla­vegi efst í Mos­fells­dal, á móts við bæinn Selja­brekku. Eft­ir að hafa ekið 2,2 km í norðurátt kom­um við að Skeggja­stöðum sem var landnámsjörðin í Mosfellssveit eins og fram kemur í Landnámu: „Þórðr skeggi hét maðr. Hann var sonr Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórðr átti Vilborgu Ósvaldsdóttur. Helga hét dóttir þeira. Hana átti Ketilbjörn inn gamli. Þórðr fór til Íslands ok nam land með ráði Ingólfs í hans landnámi á milli Úlfarsár ok Leiruvágs. Hann bjó á Skeggjastöðum. Frá Þórði er margt stórmenni komit á Íslandi.“ Með þennan fróðleiksmola úr Landnámu í veganesti hefjum við för okkar um Stardalsleið.

Vilborgarkelda

Vilborgarkelda

Vilborgarkelda – kort.

Vilborgarkelda, oft kölluð Keldan, er blautlent og grasi gróið landsvæði í 220 metra hæð yfir sjávarmáli, austarlega á Mosfellsheiði. Þeir sem hyggjast fara þangað og koma akandi yfir Mosfellsheiði eftir Þingvallavegi beygja til hægri inn á Grafningsveg og síðan fljótlega aftur til hægri við Gíslhól, á móts við gámasvæði sem þar er. Þá erum við komin á Þingvallaveginn frá ár­inu 1930 sem liggur hér ofan á Gamla Þingvallaveginum frá 1896. Farið er um Harðavöll, Ferðamannahorn og Þorgerðarflöt. Eftir 2,8 km akstur komum við í Vilborgarkeldu.

Draugatjörn

Draugatjörn

Draugatjörn og Draugatjarnarrétt.

Leiðin að Draugatjörn liggur frá Suðurlandsvegi fyrst í áttina að Hellisheiðarvirkjun, fram hjá stöðvarhúsinu og síðan til vinstri, inn á gamla þjóðveginn sem lagður var frá Reykjavík og austur yfir Hellisheiði á árunum 1876-1878 og var þjóðbrautin austur fyrir Fjall til ársins 1958.

Á mótum nýja og gamla vegarins er við hæfi að staldra við og horfa heim að Kolviðarhóli og jafnvel að aka þangað um leið og við rifjum upp þá tíma þegar staður­inn var í alfaraleið og gestkvæmt var á Hólnum.

Búasteinn

Búasteinn.

Grasi gróin veggjabrot minna á blómlegt mannlíf og merka sögu á horfinni öld og skammt frá bæjarhólnum má sjá stóran, stakan klett. Þetta er Búasteinn, nefndur eftir Búa Andríðssyni í Kjalnesingasögu en samkvæmt henni banaði hann Kolfinni og mönnum hans á þessum slóðum.

Eftir þennan krók á vit sögunnar ökum við stuttan spöl eftir veginum í vesturátt, fram hjá Húsmúlarétt sem var byggð árið 1967 og endurbyggð 2006. Loks er beygt til hægri á vegamótum og fljótlega komum við að læstu hliði á veginum. Þar leggjum við bílnum.

Lyklafell

Lyklafell

Lyklafell.

Við Lyklafell á sunnanverðri Mosfellsheiði eru hreppamörk, sýslumörk og vegamót margra leiða sem áður voru fjölfarnar. Lyklafell var því sannkallaður lykilstaður og gæti það verið skýring á nafninu, þótt þjóðsögur hafi tengt það við lykla Skálholtsstaðar. Sunnan við fellið eru Vatnavellir við Fóelluvötn sem voru algengur náttstaður ferðamanna á fyrri tíð.

Lyklafell

Uppþornuð tjörn vestan Lyklafells við vestari austurleiðina.

Hægt er að aka í áttina að Lyklafelli eftir vegi sem liggur með fram Búrfellslínu 3. Beygt er af Suðurlandsvegi til norðurs inn á línuveginn en vegna aðgreiningar akstursleiða á Suðurlandsvegi er aðeins hægt að aka inn á hann þegar komið er úr austri. Þeir sem eru á austurleið þurfa því að aka að Bláfjallavegi, snúa þar við og aka til baka smáspöl í áttina að Reykjavík þar til beygt er til hægri inn á línuveginn. Hafa skal allan varann á, því að þarna þrengist þjóðvegurinn í eina akrein í hvora átt og þar er engin vegöxl.

Línuvegurinn liggur norður yfir Fossvallaá um Vatnahæð að vegamótum við dælustöð. Þar er beygt til hægri og ekið í áttina að fjallinu eftir vegi sem lagður var vegna lagningar á heitavatnsleiðslu. Þegar við komum að öðrum vegamótum beygjum við til vinstri inn á línuveg og komum fljótlega á stórt plan þar sem gott er að leggja bílum.

Elliðakot

Elliðakot

Elliðakot.

Elliðakot er fornt býli í sunnanverðri Mosfellssveit. Það hét fyrst Hellar og síðan Helliskot fram á síðari hluta 19. aldar. Bærinn fór í eyði um miðja síðustu öld en fyrrum var Elliðakot þekktur áningarstaður ferðamanna af Suðurlandi sem gistu þar gjarnan áður en þeir lögðu í síðasta áfangann til Reykjavíkur. Þeir sem koma akandi úr Reykjavík og hyggjast fara að Elliðakoti beygja af Suðurlandsvegi (nr. 1) til vinstri skammt austan við býlið Gunnarshólma. Við vegamótin er skilti með bæj­arnafninu Elliðakot. Ekið er yfir brú á Hólmsá og gegnum sumarhúsahverfi og þá komum við fljótlega að rústum Elliðakots þar sem við leggjum bílnum og höldum af stað, gangandi eða ríðandi.

Djúpidalur

Djúpidalur

Djúpidalur.

Stysta leiðin frá Reykjavík í Djúpadal liggur um Suðurlandsveg og síðan er beygt inn á Hafravatnsveg. Eftir 4,6 km akstur eftir þeim vegi er komið að gatnamótum. Á vinstri hönd liggur vegur að Hafravatni en við höldum áfram inn á Nesjavallaleið. Okkur ber fljótlega upp á Rjúpnaás þar sem við beygjum til hægri inn á sumarbústaðaveg og leggjum bílnum þar á litlu stæði. Hér blasir Djúpidalur við okkur en hann var fyrrum vinsæll áningarstaður hestamanna. Þar var haldin mikil veisla til heiðurs Friðriki VIII. konungi og föruneyti hans þegar hann ferðaðist til Þingvalla sumarið 1907.

Seljadalur

Seljadalur

Seljadalur.


Til að komast að lykilstaðnum Seljadal er beygt af Hafravatnsvegi inn á veg sem liggur að bænum Þormóðsdal. Á hægri hönd niðar Seljadalsá en snemma á 20. öld var grafið eftir gulli við ána með litlum árangri. Leið okkar liggur fram hjá Þormóðsdal og áfram að stórri grjótnámu þar sem unnið hefur verið efni í malbik. Þar beygjum við til hægri og komum fljótlega á malarplan sem er ágætt bíla stæði. Þar tökum við fram gönguskóna, fjallahjólið eða leggjum hnakk á hest.”

Heimild:
-Ferðalög – Ferðalög innanlands; Töfrar Mosfellsheiðar,  Morgunblaðið 20.2.2021.
-https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2021/02/20/tofrar_mosfellsheidarleidar/

Mosfellsheiði

Gamli Seljadalsvegur um Kambsrétt.

Mosfell

Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, benti FERLIR á athyglisverðar mannvistarleifar á mosagrónum jökulsruðningsmel vestan í Skógarbringum, skammt austan Mosfells. Um er að ræða bátslaga (egglaga) hleðslur á melnum. Hann hafði fyrst skoðað þetta “fyrirbæri” á níunda áratug síðustu aldar.

Mosfell

Bátslag.

Lengd og breidd mannvirkisins var ekki mælt að þessu sinni, en innanmálið gæti verið 8×16 metrar.
Útlínur eru markaðar með svipuðum stærð af viðráðanlegum steinum, að öllu líkindum úr holtinu og/eða lækjarfarvegi, sem þar er skammt austar. U.þ.b. meter er milli steina að jafnaði. Grjótið er sokkið að 1/3 í smámalarjarðveginn. “Stefnið” snýr í vestur. Skuturinn hefur ekki “víkingaskipalag”, heldur mun frekar “nútímabátalag”.
Spurningin er – hversu gamalt gæti fyrirbærið verið? Er það mjög fornt, eins og sumir vilja ætla, eða er það tiltölulega nýlegt?
Hafa ber í huga að herinn var með umfangsmikla starfsemi á nálægum slóðum á stríðsárunum.
Hvað ætli þessi jafnlagða hleðsla að tákna? Í Svíþjóð og Danmörku eru hliðstæðir staðir þekktir frá víkingatímanum þar sem steinar hafa verið reistir í bátslaga líki. Hér liggja þeir á jörðu, miklu, miklu mun smærri. Ekki er að sjá nein ummerki um rót eða upphækkun í miðju verksins.
Hvenær gæti hleðslan hafa verið gerð? Líklega á síðustu öld. Einhverjir, sem skoðað hafa hana gætu andmælt og borið til vitnis aðrar meintar reglulegar hleðslur í holtinu, en engin þeirra er sannanlega af mannavöldum. Meira að segja regluleg steinaröð norðan þessa gæti annað hvort verið gerð í öðrum tilgangi, s.s. vegna leiðar, eða myndast þar af tilviljun.
Þegar umhverfið er skoðað koma í ljós myndarlegar grastorfur norðaustan og austan við steinauppröðunina. Af þeim má lesa hvernig landið leit út fyrrum; vel gróið og grænt (á sumrum). Víðir er að reyna á ný að teygja anga sína upp á við og lyngið er áberandi berjavænt. Þarna hafa því áður verið skjólsælar brekkur, enda ekki heitir Skógarbringur af engu. Hleðslan hefur því ekki verið gerð á grónu landinu því þá væri hún miklu mun óreglulegri. Þegar steini í henni er velt má sjá mosaleifar undir. Það bendir til nútímatilbúnings.
Hver gæti hafa búið þetta til? Í rauninni hver sem er, en þegar horft er á steinlagninguna frá austri til vesturs má sjá hversu formlega hún er gerð. Listamaður eða hugsuður á einhverju sviði gætu komið til greina. Hafa ber í huga að á holti ofan (sunnan) Þingvallavegar sunnan Stardals er fjárborgarlíki. Það á að tákna stað er ákvarðar “sólarmerki” milli Reykjavíkur, aðsetur hins fyrsta landnámsmanns, og hins fyrsta þingstaðar. Mannvirkið var hlaðið á seinni hluta 20. aldar af Tryggva Hansen, steinhleðslumanni. Í Þormóðsdal (heitir reyndar Seljadalur Innri) er hringlaga steinahleðsla lík þessari. Sumir hafa áætlað að þær væri Þormóðsleiði þess er getið er um í sögnum, en skv. þeim átti það að vera skammt sunnan bæjar. Það mun nú komið undir veginn upp í grjótnámurnar sunnan í Grímarsfelli.
Hvers vegna skyldi einhverjum hafa dottið í hug að búa þetta til þarna? Það er spurninginn, þ.e. hver, hvers vegna og í hvaða tilgangi.
Fróðlegt væri að fá upplýsingar um “listamanninn” sem og tilganginn fyrir framangreindri bátlagamyndalíkandlegri hleðslu á austanverðum mel Mosfells.
Ef einhver gæti búið yfir hinni minnstu vitneskju um “listaverkið” er hann vinsamlegast beðinn að hafa samband við ferlir@ferlir.is.

Heimild:
-Guðmundur Ólafsson.

Mosfell

Mosfell – bátslag.

Nessel

Nú er ljóst að Seljadalur rís undir nafni. Áður fékkst einungis tilvist einnar seltóftar staðfest í dalnum, Nessels við Nesselslæk ofan við Innri-Seljadal. Fyrir skömmu skoðaði FERLIR Nærsel ofan Árnesgils norðan Seljadalsár í Fremri-Seljadal. Tvær aðrar tóftir á því svæði eru nú til skoðunnar.

Seljadalur

Tóft í Seljadal.

Af loftmyndum að dæma virtist móta fyrir tóftum á tveimur öðrum stöðum í Innri-Seljadal, norðan Seljadalsáar, auk þess sem vísbending hafði borist um aðra þeirra. Ætlunin var að reyna að staðsetja þær og skoða. Ekki er með öllu útilokað að þar kynnu að leynast enn fleiri sel, enda Seljadalsnafnið í fleirtölu.
Á leiðinni upp með Seljadalsánni, austan Þormóðsdals, eru fallegar skemmtilegar rústir, risastór fjárborg, mjög jarðlæg og rétt vestan við hana stórt sauðahús með einskonar gerði fyrir framan og svo hlöðu aftan við. Allt er þetta hlaðið úr torfi. Þetta gæti verið sama sauðahúsið og talað er um í örnefnalýsingunni um Þormóðsdal, sem Tryggvi frá Miðdal skráði; “og þá rennur um gilið Árneslækur”. Ef þetta er rétt túlkað er skilti, er geymir loftmynd af svæðinu niður við gatnamót Hafravatnsvegar og Þormóðsdalsvegar algjör della. Mjög falleg mosagróin varða, hlaðin úr þunnum steinflögum, stendur á holti rétt við línuna, sem þarna liggur. Tryggvi talar um Innri-Seljadal og gæti sá legið fyrir innan Kambhól því þar koma aðeins þrengsli í dalinn.

Seljadalur

Tóft í Seljadal.

Kíkt var á Nærselið á vallendistungu nokkru austan við Árnesgilslæk. Lítill lækur rennur úr grunnu gili ofan við tóftirnar. Þá var haldið áfram til austurs inn að Kambhól og litið á Kambs(hóls)réttina áður en stefnan var tekin í svo til miðjan norðanverðan Innri-Seljadal.
Gömlu þjóðleiðinni var fylgt að mýrarbrú, sem liggur þarna nokkurn spotta beint yfir mýrina. Hann er nú aflagður, enda gatan verið færð ofar á trébrú. Skammt austan hennar var stefnan tekin til norður upp í gróið afhallandi sléttlendi með lágum bakka að austanverðu. Þar undir bakkanum kúrir títil tóft með tveimur rýmum. Stærra rýmið, er hefur dyr mót vestri, hefur verið ca. 120×160 cm að innanmáli. Hitt er norðan hennar og snúa dyr mót norðri. Það hefur verið enn minna, ca. 60×80 cm. Norðan við tóftina virðist vera ferköntuð afmörkun, líkt og garður. Þetta gæti hafa verið sel og þá notað til skjóls og/eða geymslu. Hrístaka hefur verið þarna, sem og mótaka.
Skammt austan við þessa tóft er gróinn hvammur. Í honum miðjum er þúfóttur hóll. Uppspretta er norðan við hann undir grasbakkanum og rennur lítill lækur niður með hólnum að vestanverðu.

Nessel

Nessel.

Ekki sést móta fyrir veggjum eða hleðslum í hólnum, en hann sker sig úr öðru, sem þarna er. Ekki er með öllu útilokað að þar kynna að hafa verið hús, en ef svo er þá er það mjög fornt. Handan við ás ofan við tóftina er Nessel, undir grónum hól í grónum dal, í skjóli fyrir austanáttinni.
Tóftirnar eru mjög greinilegar. Í tóftarhólnum eru þrjú rými, eitt stærra en hin. Lækir renna hjá selinu, bæði að sunnanverðu og vestanverðu. Sameinast þeir í Nesselslækinn sunnar. Þegar svæðið var gaumgæft betur en áður hefur verið gert, komu í ljós tvö önnur mannvirki, að mestu jarðlæg. Sunnan við selið mótar fyrir hringlaga gerði. Annað svipað er skammt suðvestar. Vel má sjá lögunina, en erfitt er að segja til um hvaða hlutverki þessi mannvirki hafa þjónað. Giskað er þó á að það, sem er nær selinu, hafi verið stekkur, en það sem er fjær, hafi verið fjárborg eða nátthagi. Það gæti einnig hafa verið stekkur eða rétt.
Í bakaleiðinni var gengið fram á nokkur lóuhreiður.
Frábært veður – stafalogn og hlýindi. Fuglasöngur mófuglanna fyllti loftið og svanir sveimuðu tignarlega yfir ánni. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.

Nærsel

Að minnsta kosti – og einungis – eitt sel, Nessel, er (var) þekkt í Seljadal. En af hverju er þá um fleirtöluorð á dalnum að ræða? Ætti ekki dalurinn þá að heita Seldalur eða Seljardalur, sbr. Selfjall, Selvatn, Selbrekkur eða Seltjörn (Selvatn)!!?? (Margar spurningar hljóta að vakna).

Nærsel

Nærsel.

Nessel er sagt norðan í Seljadal. Það er ofarlega í fallega grónum þverdal, við værukæra lækjarsitru, austarlega í honum norðanverðum, undir suðurbúnum Grímarsfells. Selið er bæði myndarlegt og dæmigert fyrir sel á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs). Hins vegar virðist það ekki nægilega umkomumikið og ætlast væri af seli af slíkum “stofni”, þ.e. frá stórbýli á þeirra tíma mælikvarða. Auðvitað má ekki véfengja ábendingar fróðra manna um selstöðuna, en í örnefnaskrám segir einungis (og ótilgreint) að Nes hafi haft í seli í Seljadal. En Seljadalurinn er langur, og auk þess er hans jafnan getið í FLEIRTÖLU, eins og hér verður nánar lýst á eftir.
En hvaða sjálfsagða vísbendingu ætti bæði langur og gróinn dalur, í landnámi Ingólfs – með heila á rennandi um sig miðja og ótal læki allt um kring – að gefa? Hvar voru sérfræðingarnir – og hvar er áhuginn??
Hafa ber í huga að áhugi sérfræðinganna liggur jafnan, og eðlilega, í verkefnum er geta gefið eitthvert “lífsviðurværi” af sér. Annað, og allt umfram, er áhugafólksins. Afrakstur þess er þó jafnan vanmetinn – ekki síst af sérfræðingunum. En nóg um það í bili.

Nærsel

Nærsel.

Eftir nákvæma skoðun loftmynda af svæðinu vöknuðu grunsemdir um að dalurinn geymdi fleiri sel, bæði í honum suðaustanverðum (á eftir að gaumgæfa betur) sem og miðsvæðis í honum – og er þá Kambsréttin undanskilin. FERLIR hafði áður skoðað Nesselið fyrrnefnda, Kambsréttina og fleiri minjar í ofanverðum SELJADAL. En eitthvað stemmdi ekki alveg við heildarmynd þess tíma, sem um hefur verið fjallað, hvort sem um var að ræða staðsetningu eða stærð. Nesselið er óneitanlega á fallegum, en vandfundnum, stað og æði myndrænt, en samt…
Á leiðinni upp í Seljadal var rætt við húsmóðurina í Þormóðsdal. Þar er nú járnkætt timburhús, greinilega með nýrri viðbætum. Hún sagði eldra húsið hafa verið byggt um 1932. Nafnið Þormóðsdalur næði einungis yfir bæinn og jörðina, en dalurinn allt frá ofanverðu Illagili sunnan í Grímarsfelli, um hið hrikalega Hrafnagil, sléttlendi milli ása, um Kambshól og niður að Hafravatni norðan og vestan Búrfells hafi ávallt allur verið nefndur Seljadalur, enda áin, sem rennur um dalinn, einatt nefnd Seljadalsá (fleirtala+eintala) – alla leiðina.

Nærsel

Nærsel.

Ávallt hafi verið talið að á Þormóðsdalur hafi verið forn jörð og að þar hafi búið einn landnámsmanna. Þormóðsleiði er einn vottur um það [en það er eitt af verkefnum FERLIRs á næstunni að staðsetja það]. Enn vöknuðu spurningar: Hvers vegna er dalurinn í heild nefndur í eintölu þrátt fyrir að um fleiri dali virðist um að ræða? Var hér um að ræða eina af þessum dæmigerðu nafnabreglum er verða jafnan og óhjákvæmilega í gegnum langa tíð (og umbreytingar)?

Húsmóðirin sagði að tóftir hafi áður verið bæði austan við húsið og ofan við það. Hinar síðarnefndu sjást enn. Þegar grafið var fyrir viðbyggingunni austan við húsið fyrir nokkrum árum hafi verið komið niður á ýmislegt fornfálegt. Ekki er ólíklegt að ætla að þar hafi verið um að ræða leifar enn eldri bæjar. Ekki er hins vegar með vissu vitað hvar bær Þormóðs hafi verið, en hann gæti hafa verið þarna eða skammt austar, handan gilsins, sem þar er. Tóftir sjást þar enn, en ekki væri vitað til þess að þær hafi verið rannsakaðar sérstaklega, ekki frekar en hugsanlegt bæjarstæði við núverandi íbúðarhús.

Nærsel

Nærsel – loftmynd.

Aðspurð um mögulegar tóftir upp með Seljadalsánni, norðan Silungatjarnar, sagðist húsmóðirin oft hafa gengið upp með ánni, en aldrei orðið vör við slíkar tóftir á þeim stað, sem tilnefndur var. Einu tóftirnar, sem hún kannaðist við, væru hleðslur undir Kambhól og rústir ofarlega í Seljadal [Nessel].
Áður en lagt var af stað höfðu grunsemdirnar verið bornar undir Bjarka Bjarnason, þann er líklega veit manna mest um fyrrum mannanna verk í Mosfellsdal og nágrenni. Hann kannaðist ekki við rústirnar, en taldi þó að þarna einhvers staðar hafði áður verið eitthvert ónefnt kot. Vitað er um rústir Búrfellskots sunnan undir Búrfelli. Auk þess mótar fyrir rústum (mögulegu kotbýli) á sléttu, skurðgröfnu (framræstu) túni allnokkru vestan við meintar rústir (svona mitt á milli Þormóðsdals og þeirra).
Og þá var bara að leggja í lokaáfangann að hinum meintu rústum.

Nærsel

Nærsel.

Á litlum grónum “bleðli” norðan Seljadalsár (austan við austasta sumarbústaðinn norðan Silungatjarnar, en sunnan Seljadalsár) mótaði fyrir tóftum. Settir höfðu verið girðingastaurar á “bleðilinn” og hestum greinilega verið beitt á hann um tíma – sem og í tóftirnar báðar. Girðingarstrengir höfðu þó verið fjarlægðir, sem og bikkjurnar. Hið jákvæða var samt sem áður það að bletturinn var nú mun grænni en umhverfið og tóftirnar því greinilegri (og auðveldari til myndatöku). Eflaust hafa þær löngum átt auðvelt með að dyljast þarna á barðinu án nýlegs ágangs.
Tóftirnar voru tvær; sú eystri er stök. Dyraop snýr til suðurs, líkt og í vestari tóftinni, sem virtist þrískipt. Stærsta rýmið var nyrst, en síðan tvö minni framan við það, til beggja ganghanda. Tóftirnar eru mjög grónar og því að líkindum gamlar. Álitlegur lækur vestan við þær hafa ákvarðar staðsetningu þeirra á sínum tíma. Ofan við tóftirnar vottar fyrir hleðslu í læknum og í honum skammt vestan við þær virðist hafa verið lagaður (eða jafnvel hlaðinn) brunnur eða aðgengilegt vatnsstæði.
Neðan við tóftirnar mótar fyrir stekk, ofan við barð er hallar niður að Seljadalsánni. Ekki var að sjá aðrar mannvistaleifar, sem telja má með öruggri vissu, í næsta nágrenni við tóftirnar og ekki var að sjá að þarna hefðu verið gerðir garðar eða önnur mannvirki er bent gætu til varanlegri búsetu.

Nærsel

Nærsel.

Nú var úr svolitlum vanda að velja. Ekki getið um selstöðu frá Þormóðsdal í Jarðabókinni 1703. Í henni segir að Úlfarsfell hafi haft “selstöðu góða“, en ekki hvar. Í heimildum er þó getið um Nærsel í Seljadal, en ekki er vitað hvar það hefur verið. Viðey á að hafa haft selstöðu á þessum slóðum og samnýtt selstöðu með Bessastöðum. Það er ekki ólíklegt því í Jarðabókinni 1703 er sagt frá því að Þormóðsdalur hafi haft “dagslættir í Viðey”. Þarna gæti hafa verið um hlunnindaskipti að ræða. Fyrir liggur þó vísbending um Nærsel. Stórt skilti (loftmynd) frá Skógræktinni er rétt innan við beygjuna inn í Þormóðsdal (frá Hafravatnsvegi) og á því eru örnefni, m.a. Nærsel og það sýnt beint framan við bæinn þeim megin árinnar, en Árnes Búrfellsmegin við. Þetta passar ekki miðað við örnefnalýsingu Tryggva frá Miðdal. en hann segir um Þormóðsdal (mörk Miðdals og Þormóðsdals eru um ána): ” Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. .. Árneslækur…. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. … Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sérst þar vel fyrir tóftum. Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir….”

Nærsel

Nærsel – uppdráttur ÓSÁ.

Framangreind lýsing getur alveg passað við tóftirnar sem lýst hefur verið. Svo má velta fyrir sér frá hvaða jörð Nærsel var? Og hvaða sel er þá ”fjærsel”? E.t.v. Nessel?
Þekkt er víða um land að kot hafi vaxið upp úr seljum. En einungis örfá dæmi eru um það í landnámi Ingólfs, s.s. í Seljadal ofan við Fossárdal í Hvalfirði og Straumssel ofan við Hraunin. En tóftir þessar virðust ekki hafa hýst kot. Þær voru og keimlíkar öðrum selsrústum á Reykjanesskaganum til þess; þrískiptar (vistarverur, búr og eldhús), auk stekks. Þá kemur afstaða og staðsetning tóftanna heim og saman við sambærileg mannvirki víða á svæðinu.
Af varfærnislegum ástæðum er niðurstaðan sú að hugsanlega hafi þarna verið um kot að ræða – EN það hafi þá vaxið upp úr fyrrum selstöðu. Hvaðan sú selstaða hefur verið er erfitt um að segja á þessari stundu, en eitt er víst – að Seljadalurinn rís nú loksins undir nafni.
Hafa ber í huga að vangaveltur FERLIRs eru og verða einungis dregnar út frá sýnilegum minjum, sem og útliti þeirra, eins og þær birtast augum sjáandans á vettvangi nútímans – dagsins í dag. Örnefnalýsingar geta hugsanlega staðfest þær, eða jafnvel kveðið á um eitthvað allt annað – fyrrum. Hafa ber þó í huga að áætluð heiti eða staðsetningar örnefna eða rústa geta (og hafa) hnikast til í gegnum tíðina (eins og dæmin sanna) og þannig smám saman orðið aðrar en þær voru.
Rétt er þó jafnan að byggja á fyrirliggjandi bestu og áreiðanlegustu upplýsingum á hverjum tíma, treysta hæfileikum skrásetjarans og vona að þar hafi allt verið eins og best verður á kosið – þá og þegar.
Frábært veður – rigning umhverfis, en himininn opnaði sig með bjartviðri yfir rústasvæðinu. Blómstur

Mosfellsheiði

Í skýrslu Óbyggðanefndar fyrir Stór-Reykjavíkursvæðið má m.a lesa eftirfarandi um Mosfellsheiði:

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort.

“Í Landnámu er minnst á Mosfell. Jarðarinnar er einnig getið í Egils sögu. Þar stendur að Grímur Svertingsson, lögsögumaður 1002-03, hafi búið á Mosfelli fyrir neðan heiði. Kirkja hefur staðið að Mosfelli þegar um 1200 er Páll biskup Jónsson tók saman kirknaskrá sína.
Bæði Stærra- og Minna-Mosfell er að finna í fógetareikningunum 1547-1552 og hefur jörðin því verið í eigu Viðeyjarklausturs áður en konungur sló eign sinni á jarðir klaustursins. Einungis kúgilda og innanstokksmuna er getið í máldaga Mosfellskirkju í Gíslamáldögum frá um 1575.
Mosfell var meðal þeirra jarða sem samkvæmt konungsboði 3. október 1580 voru lagðar til fátækra presta.
MosfellskirkjaBrynjólfur Sveinsson, biskup í Skálholti, stóð fyrir vísitasíu á Mosfelli árið 1642. Í visitasíubókinni stendur eftirfarandi: Kyrckian ad Mosfelli i Mosfellssveit, ä suo mikid i landi sem bref og mäldagar fullnast, er heima jordin lógd til prests upphelldis med óllum gógnum og giædum, öskar Biskup landamerkia af sera Einari Olafssyni, epter eignar halldi edur hefdar vitnum. Sómuleidis er prestinum veitt jórdin Mögilsä, leygd fiörum ä gilldum hid sama öskar Biskup um hennar landamerki ad skiallega tekin sieu og hvorutveggiu send Innan Jafnleingdar til Skalhollts. Undir þetta rita Einar Ólafsson prestur, Hallur Árnason prestur, Gunnar Magnússon, Pétur Gissursson og Stefán Ólafsson prestur.
Í visitasíu Mosfells sem fram fór 23. ágúst 1646 var lagður fram vitnisburður Guðrúnar Þorsteinsdóttur, eiginkonu séra Þorsteins heitins Einarssonar sem var prestur á Mosfelli 1582–1625, um að enginn hefði sér vitanlega notað Mosfellsskóg nema með leyfi eiginmanns síns. Í sama vitnisburði sagði ennfremur að: … Mosfells landamerki væri Bláskrida sem rennur med hrijsbrunar túne, Somuleydes þess land Móar fyrir sunnan Ána sem kalladur er kyrkiu Móe og þar heffdi Asgrijmur heijtinn Gijsla Son Sinn stekk sem þá Bió i Hittukoti hvortt ad stendur i mosfellstune. Datum þess vittnisburdar Anno 1643 7. februarij á Vollum undir Svijnskardi. Undir skrifadir menn Nikulas Eyolfsson Hallgrijmur Þolleijfsson Jon Jorundsson Nikulas Hendriksson.

Helgusel

Helgusel (Mosfellssel) í Bringum.

Í sömu visitasíu var birtur vitnisburður Árna Magnússonar í Ytri–Njarðvík frá 23. október 1626. Þar kom m.a. fram að í þau þrjú ár sem hann var á Mosfelli hafi bóndinn haft selstöðu í skóginum heima á bringunum. Í sama vitnisburði kemur eftirfarandi fram: … i þeim skóge sem greijndu Mosfelle var þá i þann tijma Eignadur leijfdist ongvum sier ad nijta nema med þeirra leijffe sem á mosfelle voru. Undir visitasíuna skrifa Einar Ólafsson prestur á Mosfelli, Stefán Hallkelssson prestur í Seltjarnarnesþingum, Sigurður Árnason, Halldór Eiríksson, Jón Árnason og Bjarni Eiríksson.

Bringur

Bringur.

Í visitasíu Þórðar Þorlákssonar biskups þann 30. ágúst 1678 kemur eftirfarandi fram: Þann 30 Augusti visiterud kÿrkiann ad Mosfelle i Mosfellssveit heima stadurinn og jordinn Mögilsä er lógd prestinum ad Mosfelli til uppheldis nota, eirnenn eru stadnum eignadar tuær selstodur su ejna under Grymanzfellzfossi, en ønnur hejmar i Brÿngunum, veidj i kietilhiloz ofann efter leirvox a, ad sunnan bædj i Skrautä og Backafliotj, enn umm landa merki stadarins finnst vïsitatiubok sal. M Brinjolfs sub dato 1646. Undir þetta rita Þórður Þorláksson, Einar Ólafsson prestur, Einar Einarsson, Árni Álfsson, séra Hannes Björnsson, Bjarni Jónsson, Pétur Ámundason og Bjarni Sigurðsson.
Jón Vídalín visiteraði Mosfell 2. ágúst 1703. Þar kemur fram að presturinn hafi jörðina Mógilsá til uppihalds, að staðurinn hafi tvær selstöður og að kirkjan eigi ákveðin veiðiréttindi. Textinn er í samræmi við það sem stendur í vísitasíunni frá 1678. Síðan segir: Item ä Hun Möan fÿrer sunnann äna sem kalladur er Kÿrkiu möi. Undir þetta rita Þórður Konráðsson prestur, Pétur Ámundason, Pétur Daðason Gamm, Benedikt Einarsson, Einar Ísleifsson og Árni Gíslason.

Hrísbrúarsel

Hrísbrúarsel (Mosfellssel).

Þann 23. júní 1751, í tíð Ólafs Gíslasonar biskups í Skálholti, var Mosfell visiterað. Sú vísitasía er keimlík þeirri frá 1703 en þar segir: Enn Jórdenn Mögilsä er lögd prestinum til upphelldis. Stadnum eru eignadar 2 Selstodur. Su eina under Grimansfelles Fosse, enn ónnur heimar í bringunum. Kyrkiann ä Veide i Ketilshil og ofann efter Leirvogsä ad sunnann bæde i Skrautä og Backar Flióte. It: a hun möann fÿrer sunnan Äna, sem kalladur er Kÿrkiumöe. Undir þetta rita Ólafur Gíslason, Guðmundur Jónsson, Sigurður Ólafsson, S. Sigurðsson, Gísli Einarsson og Oddur Jónsson. Finnur Jónsson Skálholtsbiskup visiteraði Mosfell þann 12. júní 1758. Vísitasían sem samin var í kjölfarið er nánast samhljóða vísitasíunni árið 1751 og því vísast til hennar.

Minna-Mosfellssel

Minna-Mosfellssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þann 26. júní 1800 var Mosfellskirkja visiteruð af Geir Vídalín. Í greinargerðinni sem samin var í kjölfar eftirlitsferðarinnar segir: Anno 1800 þann 26ta Junii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin Kirkiuna ad Mosfelli i Mosfellssveit; – hun á heimaland allt og eru þessi Landamerki ad utannverdu, eftir Visitatiu Magr. Brynjólfs Sveinssonar 1646; ad Bláskrida, sem rennur med Hrísbrúar túni ad austanverdu, skylie Löndinn.
Í vísitasíubókinni er líka texti sem er keimlíkur upplýsingum sem er að finna í eldri vísitasíum Mosfells: Hún á 2 Selstödur, adra undir Grímansfells fossi, (nu kölludum Helgusels fossi) hina nordur í Bríngunum, þar sem nú eru kalladar Blásteinns Bríngur; Veidi í Kétilshil, og ofann eftir Leyrvogsá ad sunnannverdu, bædi í Skrauta og Barkarflióti; item á hun Móann fyrir sunnann Ána, þar sem kalladur er Kirkiu mói. – Jördinn Mógillsá er lögd Prestinum til upphelldis. Undir skrifa; Geir Vídalín, A. Jónsson, Þórarinn Kolbeinsson og Auðunn Bjarnason.

Hvannavellir

Hvannavellir.

Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1704 virðast bændur í allstórum hluta Kjalarneshrepps hafa rekið geldneyti og hross á Mosfellsheiði. Er þar einkum talað um Hvannavelli, og virðist ekki hafa verið greitt fyrir. Slíkur geldneytarekstur er nefndur við Álfsnes og Varmadal. Norðurgröf, Vellir, Kollafjörður, Mógilsá, Esjuberg, Vallá vestri og Hof (þar með talin afbýlin Jörvi, Krókur og Lykkja) höfðu geldneyta- og hrossarekstur á Mosfellsheiði. Um Vallá vestri segir: Hesta og nautagánga um sumur hefur frá þessari jörðu so vel sem öðrum í þessari sveit brúkuð verið frí og átölulaust um lánga æfi á Mosfellsheiði, þar sem heita Hvannavellir.
Og í lýsingu Hofs stendur: Geldnauta og hesta upprekstur hefur frá þessari jörðu um lánga tíma brúkaður verið til sumarbeitar upp á Mosfellsheiði þángað sem heita Hvannavellir, og það frí og átölulaust. Nú um stundir síðan menn urðu hjer so fátækir, að þeir áttu ekki slíkan peníng, hafa þeir þetta ekki megnað að brúka.

Draugatjörn

Draugatjörn – rétt.

Móar og Saltvík höfðu geldneyta- og geldfjárupprekstur á Mosfellsheiði. Vallá eystri hafði hrossagöngu: Hestagánga um sumur þykist eigandinn af eldri mönnum heyrt hafa frá þessari jörð hafi brúkuð verið frí og átölulaust á Mosfellsheiði, þar sem heitir Hvannavellir.
Jarðabók Árna og Páls minnist ekki á „afrétt“ varðandi Sjávarhóla, Öfugskeldu og Skrauthóla en ætla má að sama hafi gilt um þær og aðrar jarðir innan til í Kjalarneshreppi. Raunar voru þessar jarðir í einkaeign eða eign Kjalarnesþinga en Hof, sem hafði þennan rétt samkvæmt Jarðabókinni, var líka í einkaeign. Stóðhrossa- og geldneytaganga á Mosfellsheiði er ekki nefnd við jarðir yst á Kjalarnesi.
Í greinargerð Þjóðskjalasafns Íslands er vakin athygli á því að samkvæmt Jarðabók Árna og Páls átti konungur eða hafði átt allar jarðir í Kjalarneshreppi innanverðum, þ.e. Þerney, Álfsnes, Fitjakot, Varmadal, Stardal, Hrafnhóla, Þverárkot, Gröf (Norðurgröf), Velli, Kollafjörð, Mógilsá, Esjuberg, Móa, Saltvík og Skrauthóla. Veki þetta upp vangaveltur um rétt bænda á framantöldum jörðum á Kjalarnesi til gjaldfrjáls upprekstrar, hvort hann hafi byggst á réttindum, sem Viðeyjarklaustur hafi náð. Í því sambandi væri rétt að líta til rekstrarréttinda Eystri- og Vestri-Vallár, en Vallárnar voru meðal þeirra jarða sem konungur seldi Henrik Bjelke 30. apríl 1675.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort 1909.

Hvannavellir munu nú kallast Bolavellir samkvæmt frásögn Kolbeins Guðmundssonar: Ég sé á landabréfum, að búið er að færa örnefni og sýslumörkin talsvert austur á bóginn fyrir vestan Hengilinn, t.d. heita nú Vatnaöldur, þar sem til skamms tíma hét Bolöldur. En Bolalda er komin austur undir Húsmúla. Ekki veit ég, hvort þetta á rætur sínar að rekja til ósamkomulagsins í fjallleitunum eða það er af því, að fáir virðast vita, hvar Bolavellir voru kallaðir til forna, en þeir eru fyrir austan Lyklafell norður af Bolöldum, sem nú eru nefndar Vatnaöldur. En þar, sem nú eru kallaðir Bolavellir, hétu til forna Hvannavellir. (Sjá lýsingu Ölfushrepps eftir Hálfdan á Reykjum 1702).

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort 1964.

Í lýsingu Skúla Magnússonar á Gullbringu- og Kjósarsýslum frá 1782-1785 segir: “Mosfellsheiði og Kjósarheiði nefnist öll víðáttan frá byggð í Kjós og Mosfellssveit upp að Henglinum, sem áður er nefndur. Þar er mjög gott og grösugt afréttarland á sumrum og er notað úr öllum sýslunum, Gullbringusýslu, Kjósarsýslu og Árnesssýslu. Þar hefir og verið haldinn nautamarkaður 1. október árlega á svæði, sem til þess er afgirt við gjá eina”.
Áður hafði Skúli Magnússon sagt í sama riti: Skilyrði eru og góð til að hafa í seli á heiðinni [Mosfellsheiði] uppi undir afréttarlandinu.
Af Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem og lýsingu Skúla Magnússonar virðist því mega ráða að Kjalnesingar hafi stundað stóð- og geldneytarekstur á Mosfellsheiði. Er það stutt af öðrum gögnum sem hér verða nefnd á eftir. Einnig má ráða af Jarðabókinni og lýsingu Skúla að Mosfellsheiði og heiðalöndin milli Kjósar-, Gullbringu- og Árnessýslna hafi verið notuð sem „afréttur“ fyrir sauðfé líka.
Árið 1740 lögfesti Markús Snæbjörnsson, prestur á Þingvöllum, Þingvallastað. Í þeirri lögfestu eru teknar með jarðir Þingvallakirkju í Þingvallasveit þannig að segja má að sveitarmörkum sé lýst að mestu leyti. Hluta marka Mosfellsheiðarlands er að finna í lögfestunni: … úr Riúpnagili i Steininn á litla Saudafelli, frá Steini þeim i Sysluvördur á eystri Moldbreckum, og so þvert yfir i Klofnínga, enn úr þeim i Þingvallavatn …

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort; fornar leiðir – Jón Svanþórsson.

Þann 9. júní 1801 á manntalsþingi á Esjubergi lagði séra Auðunn Jónsson fram lögfestu fyrir landi Mosfellskirkju frá 22. maí 1770 sem að hans sögn var grundvölluð á máldagabók Brynjólfs biskups Sveinssonar, undirskrifuð af sálugum séra Böðvari Högnasyni og upplesin af sálugum sýslumanninum Guðmundi Runólfssyni á þremur þingstöðum í Kjósarsýslu árið 1770. Lögfestan var lesin upp á ný en ekkert kemur hins vegar fram um innihald hennar.
Í jarðamatinu 1804 er að finna eftirfarandi upplýsingar um Mosfell: Med denne Jord bruges tillige et Kirken paa Mosfell tilhörende Stykke Land oppe paa Fiældet; men da dette er forbunden med saa megen besværlighed, formedest at det er saa langt bortliggende, formodes samme Stk. Land at blive i Tiden solgt særskildt og taxeres derfor a parte saaledes.

Helgusel

Helgusel (Helgasel) – uppdráttur ÓSÁ.

Auk þess segir í lýsingu gæða heiðarlandsins: Medens dette bruges med nærverende No 6 [Mosfell], kan det ikke taxeres saa höyt som her er skeet, men kunde da kun udgiöre en 6 a 7 hndr.Lagt var mat á Mosfellsbrauð árið 1839. Hluti skýrslunnar sem samin var af því tilefni fer hér á eftir: Ecki heldur gjet eg eiginlega til nefnt Hlunnindi, edur Itok, utann Kyrkju Landsins Stærd til Fialls, og þvj fylgiandi Slægna Utrymi, Hagabeit og Selstodu, sem gétur verid med stórum Erfidismunum til Nota á Sumrum; – Ecki heldur eru Máldagar infærdir, eins og ecki afskriftir af Documentum, sem bevísa adkomst til hlunnenda, eda Itaka, utann jeg finn i Visitatiu Hra. Biskups G. Vidalins sáluga, af 26ta Junii 1800, Ad Kyrkjann eigi … og 2r Selstödur, adra hiá Helgaselsfossi, þar sem jeg hefi látid byggia Sel – og Fiárhús, og adra í Blasteinsbringum.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er Hitta sögð hjáleiga Mosfells (Stóra-Mosfell). Um Hittu segir síðan neðanmáls: 1802 segir, að yrkt sé land uppá fjalli frá Stóra Mosfelli, sem mjög er örðugt tilsóknar, en fyrir því það þykir bezt, að selt væri og yrkt sér, er það metið sér í lagi til 12 h. 36 al.

Fellsendi

Fellsendi.

Í jarðamatinu 1849 segir m.a. um Mosfell: Eingjar litlar heimavið, en talsverðt beitiland. Heiðarland gott og mikið til slægna og selstöðu, en lángt fráliggjandi og mjög örðugt til allrar notkunar. Þvínær ónytt á flestum vetrum.
Útmæling á nýbýlinu Fjallsenda/Fellsenda fór fram 8. júlí 1850. Við hana mættu auk úttektarmanna: Þingvallaprestur, fulltrúi Mosfellsprests, ábúendur Fremraháls og Stíflisdals og útmælingarbeiðandinn. Mosfellsprestur lagði fram skýrslu um merki milli Mosfells- og Þingvallakirknalanda en hún er ekki innfærð, en hana má finna í uppskrift í skjölum, sem lögð voru fram í Landsyfirrétti árið 1860.

Mosfellssel

Mosfellssel við Leirvogsvatn.

Fylgir einnig vitnisburður mannsins, sem var umboðsmaður Mosfellsprests við áreiðina. Hljóða skýrsla og vitnisburðurinn svo: Með því bóndinn Arni Björnsson á nýbýlinu Fjallsenda hefur gefið mjer í skyn, að næstkomandi mánudag eða þann 8. þ.m. væri áformuð skoðun á landamerkjum og úthlutun lands til tjeðrar nýlendu hans af Sýslumanni með þartil kvaddri nefnd manna, og þareð jeg, sem Beneficiarius á Mosfelli, sem á land að hjer að vestan verðu, hlýt samkvæmt skyldu minni, að eiga þar að nokkruleyti hlut að máli, leyfi jeg mjer hjermeð, til nauðsynlegrar aðgæslu fyrir tjeða nefnd, að geta um og taka fram þau landamerki, sem mjer með samhljóða vitnisburðum gamalla og áreiðanlegra manna hafa verið sögð, og eru þau þessi: Sjónhenda úr Rjúpnagilsdrögum eða upptökum í aflangan stóran stein einstakan austantil á litla Sauðafelli, og aftur sjónhenda úr tjeðum steini, sem sumir kalla markastein (Sýslustein) í austari Moldbrekkur svonefndar, og en<n> sjónhenda úr Moldbrekkum suðaustanvert við Borgarhóla.

Mosfellssel

Mosfellssel við Leirvogsvatn – uppdráttur ÓSÁ.

Á þessum landamerkjum hefi jeg aldrei heyrt neinn vafa leika, hversvegna jeg vona bæði að nefndin taki þessi merki til greina með sannsýni samkvæmt skyldu sinni, sem og hitt, að enginn leyfi sjer að hagga þeim eða raska, eins og ég líka vil reyna til að láta þá kirkju eða prestakall, sem mjer er trúað fyrir halda rjetti sínum óskertum. Býst jeg því við að halda áfram bæði að tileinka Mosfellskirkju fjalllendi alt, að vestanverðu við tjeð merki, sem og að nota það eptir mætti, þörfum og kríngumstæðum. Mosfelli þann 5. dag júlím. 1850. Stefán Þorvaldsson prestur til Mosfells. Framan og ofan skrifuð landamerki milli Þíngvalla og Mosfells kirkna landa á Mosfellsheiði eru einmitt gjörsamlega samkvæmt því, sem jeg heyrði optlega föður minn sáluga. Jón bónda Eyólfsson á Laxnesi og föðurbróður minn Þorstein sál. þar og fleiri greinda og kunnuga menn glögglega tala um. Hraðastöðum þann 6ta Júlí 1850. vitnar Ólafur Jónsson bóndi á Hraðastöðum.

Mosfellsheiði

Nautapollur.

Útmæling nýbýlisins Fjallsenda fór fram 8. júlí 1850: Þarnæst var nýbýlinu Fjallsenda útvísad til yrkíngar hagbeitar og sérhverrar annarar notkunar land þad er liggur innan fylgjandi takmarka: Frá mörkum jardarinnar Fremraháls í Kjós á hæstu nordurbrún stóra Saudafells, í landsudur eptir brúninni beina stefnu í Grjóta, og eptir þessari á til sudurs uppad efri Gljúfrunum, þadan sömu stefnu yfir midja Startjörn í midja Grjótártjörn vestanhallt vid Þrítjarnir í hatt hollt fyrir austan Stórasund og hedan í Sæluhúsid á Eystri moldbrekkum. Hedan til utnordurs í stein austanhallt hæst á Litla Saudafelli, þadan í Rjupnagil á Eyrunum og eptir því uppad austasta klofníngi þess og hedan loksins til landnordurs yfir vestasta Tjarnhól í ádur téda brún nordan og hæst á Stóra-Saudafelli.

Mosfellsheiði

Sæluhúsið í Moldarbrekkum.

Þann 22. maí 1852 var gefið út byggingarbréf fyrir nýbýlinu Fjallsenda. Því var þinglýst 3. júní 1852.
Mosfellsbrauð var metið á nýjan leik árið 1855 en í lýsingu segir m.a.: Skírsla um tekjur og útgjöld Mosfells prestakalls í Gullbríngu og Kjósarsýslu profastsdæmi eptir 5 ára meðaltali 1849-1853. Jörðin er að vísu mikil jörð að öllu samanlögðu og á mikið víðlendi til fjalls og það allgott land til sumarbeitar og slægna, en bæði er erfitt að nota sér það vegna fjarlægðar og líka þvínær ómögulegt að verja það fÿrir ágángi afréttar fénaðar og stóðhrossa, – en heimaland jarðarinnar er mjög lítid og ligg<u>r ónotalega vegna þéttbýlis. Tun jarðarinnar eru stór mjög og harðlend og vóru komin í ena mestu órækt, en eru nú held<u>r að lagast, og munu þau nú í meðalari fóðra 7-8 kýr, og jörðin þessutan hérumbil 80 ær og máské viðlíka af sauðum, en vetrarbeit er lítil og fÿrir hross svo að kalla engin, verður því að koma þeim burtu til hagagaungu. …

Mosfellsheiði

Sæluhúsið í Moldarbrekkum 1896 – Daniel Bruun.

Í lýsingu sinni á Mosfells- og Gufunessóknum frá 1855 minnist Stefán Þorvaldsson stuttlega á Mosfellsheiði með eftirfarandi orðum: Suðaustur með Litla-Sauðafelli liggur allmikill stararflói, grasgefinn, en mjög votlendur, er liggur að landamærum millum Mosfells- og Þingvallakirkna landa á Mosfellsheiði.
Árið 1856 hugðist presturinn á Mosfelli leyfa býli í Mosfellskirkjulandi, svokölluðum Gullbringum. Um þetta atvik er fjallað í kafla 5.21. um jörðina Bringur.

Í bréfi sem presturinn á Mosfelli sendi biskupi þann 12. júní 1858 kemur fram að hann hafi ekkert á móti því að Jón Bjarnason bóndi á Varmá sæki um að fá að reisa nýbýli í landnorðurhorni heiðarlands Mosfellskirkju við Sauðafell. Hann hugðist þó áskilja sér rétt til þess að vera við áreið og útmælingu landsins til að gæta hagsmuna kirkjunnar.
Mosfellsheiði

Stiftsyfirvöld sendu Mosfellspresti bréf þann 22. júní 1858. Þar kemur fram að stiftsyfirvöld töldu sig ekki geta fyrirskipað útvísun lands handa Jóni Bjarnasyni. Síðan segir: … skulu Stiptsyfirvöldin þó hér með láta yðar velæruverðugheitum í ljósi, að frá þeirra hálfu er ekkert á móti því, að þér semjið við Jón Bjarnason öldungis prívat um bæarbyggingu í Mosfellskirkjulandi, á líkan hátt og skeð er um bæarbygginguna í Gullbringum, þó svo að merki kringum land það, er þér leyfið honum til byggingar, sé nákvæmlegra og greinilegra tiltekin … Um 1860 hófust deilur um hvort jörðin Fellsendi í Þingvallasveit teldist nýbýlisland eða Þingvallaeign. Málið fór fyrir dóm og var dæmt í því fyrir Landsyfirrétti árið 1860. Ýmis vitni voru kölluð fyrir í þessu máli.

Mosfellsheiði

Vörður við sæluhúsið í Moldarbrekkum.

Í júlí 1858 lagði t.d. verjandi Árna Björnssonar, sem byggt hafði Fjallsenda/Fellsenda og gerði kröfu til landsins (Árni var þá orðinn bóndi í Brautarholti á Kjalarnesi), fram eftirfarandi vitnisburði nokkurra Kjalnesinga og Kjósverja: ad No 3 -a.
“Jeg undirskrifaður – sem allan minn aldur hefi dvalið í Kjalarneshreppi – gef þann vitnisburð: að frá því jeg fyrst man til mín, hjer um bil á árunum 1802-1803 til þess á árunum 1835-1836 var afrjettar landið á Mosfellsheiði, kríngum litla Sauðafell og í svo kölluðum Hálsum brúkað árlega öldungis átölulaust og óhindrað af öllum bæði frá uppeldis föður mínum, Brinjólfi sál. Einarssyni lögrjettumanni á Bakka og öðrum bændum í Kjalarneshreppi, samt sjálfum mjer, eptir að jeg varð búsráðandi – til uppreksturs fyrir stóð, hross fjallagrasatekju og fl. … Stad<d>ur að Brautarholti þann 18da Júní 1858 M. Sigurðsson (fyrv. hreppst. í Kjalarnes hreppi).”
“Jeg undirskrifaður sem einnig hef dvalið allan minn aldur í Kjalarneshreppi (nú á 61ta aldurs ári) ber vitni um brúkun afrjettarins eða almenningsins á Mosfellsheiði og í Hálsum öldungis samkvæmt þeim, er Magnús Sigurðsson, fyrrverandi hreppstjóri Kjalnesinga hefur þegar útgefið af dató í dag, og hjer að framan er ritaður … Hofi þann 18. Júní 1858 Jón Runólfsson.
Framlagt fyrir aukarjetti að Þíngvöllum 27. Júlí 1858. Th. Gudmundsen.” ad No 3 – b.

Mosfellsheiði
Vjer undirskrifaðir gjörum svolátandi grein fyrir og vitnisburð um hvað vjer þekkjum til og heyrt höfum um landrjettindi, einkum hvað afrjett snertir, á hinni svokölluðu Mosfellsheiði. Frá því vjer fyrst munum til höfðu Kjósarmenn og Kjalnesingar nauta upp rekstur á Mosfellsheiði. …Þá var þetta land af áðurgreindum sveitum einnig brúkað bæði til trippa uppreksturs og svo fóru menn þangað til grasatekju. Álitu þá Kjósarmenn og Kjalnesingar, að land þetta væri almenningur og afrjettur, sem þessum sveitum væri heimilt að brúka til áður greindra notkana, án þess nokkurs manns leyfi þyrfti til … Þetta vottum vjer eptir áskorun og erum fúsir til að staðfesta þetta vottorð vort með eiði, ef þess verður krafist. Árni Stefánsson á Meðalfelli 68 ára Þorsteinn Torfason á Þorláksstöðum aldur 68.

Mosfellsheiði
Guðmundur Eyolfsson á Sandi 78 ára Jón Jónsson á Grjóteyri 63 ára Framlagt fyrir aukarjetti að Þíngvöllum 27. Júlí 1858. Th. Gudmundsen.Nokkru síðar eða þann 10. september 1858 voru fjögur vitni leidd fyrir aukarétt Kjósar- og Gullbringusýslu þar sem þau voru spurð um landamerki Þingvalla- og Mosfellskirkna.
8. Hvað vitið þjer um brúkun Kjalnesinga á Mosfellsheiði; hvaða skepnur hafa þeir rekið þangað; hvert hafa þeir rekið; í hvers leyfi hafa þeir rekið? Einnig lagði umboðsmaður stefnda (Árna Björnssonar) fram gagnspurningar:
1 Hefir vitnið ekki heyrt þess getið, eða veit það ekkert um að Kjósarmenn og Kjalnesingar hafi talið sér nauta og stóðhrossa afrétt í því landi, sem Fellsendi nú er, eða jafnvel brúkað það sem þvílíkt?
2 Spurning: Veit vitnið til að þeirri brúkun hafi verið mótmælt? Vitnin annað hvort töldu Mosfellskirkjuland og Þingvallaland liggja saman á umræddum mörkum eða voru því ókunnugir.
Á manntalsþingi sem haldið var að Lágafelli þann 30. maí 1864 var þinglesið forboð frá sr. J. K. Benediktssyni, er samið var 27. maí sama ár, gegn óleyfilegri hrossagöngu á Mosfellsland. Sama forboð var þinglesið á manntalsþingi á Hofi þann 1. júní 1864.

Mosfellsheiði
Árið 1867 var Mosfellsbrauð metið og í lýsingu kom m.a. þetta fram: Skýrsla um tekjur og útgjöld Mosfellsprestakalls í Gullbringu og Kjósarprófastsdæmi eptir 5 ára medaltali, frá fardögum 1862 til fardaga 1867. Jördin er til fjalls vídlend og kostagód til sumarbeitar og slægna, en mjög ördug af-nota sökum vegalengdar.
Í byrjun 8. áratugar 19. aldar reis upp ágreiningur milli Þorkels Bjarnasonar prests á Mosfelli, vegna Mosfellskirkju, og Ófeigs Vigfússonar á Nesjum í Grafningi um landamerki á Mosfellsheiðinni. Orsök deilunnar var sú að sumarið 1868 hafði Ófeigur yrkt svæði á Mosfellsheiði sem nefndist Sauðafellsflói. Þetta var Þorkell ósáttur við því að hann taldi þetta landsvæði tilheyra Mosfellskirkjulandi og eftir að deiluaðilar höfðu árangurslaust reynt að ná sáttum í málinu kærði séra Þorkell Ófeig vegna Mosfellskirkju.

Mosfellsheiði
Krafa Þorkels var sú að Mosfellskirkjulandi væri dæmdur Sauðafellsflóinn og landið þar um kring, austur að beinni línu sem dregin væri úr Rjúpnagili í Sýslustein austast á Litla-Sauðafelli og þaðan í Eystri-Moldbrekkur við sæluhúsið á Mosfellsheiði. Þorkell studdi þessa kröfu með lýsingum vitna, lögfestu Þingvallakirkjulands frá 1740, sýslulýsingu Skúla Magnússonar, sóknarlýsingu frá 1855, dómi Landsyfirréttar í máli Þingvallakirkju og Árna Björnssonar árið 1859, þeirri staðreynd að Mosfellsmenn höfðu lengi yrkt Sauðafellsflóann án nokkurra mótmæla og staðsetningu sæluhússins á Mosfellsheiði en það var byggt fyrir gjafafé Mosfellssveitunga.
Ófeigur Vigfússon hélt því hins vegar fram að Mosfellskirkju ætti aðeins að dæmast land austur að þeirri línu á uppdrætti [Halldórs Guðmundssonar og Sigurðar málara], er að öðru leyti var samþykktur af báðum málsaðilum, sem dregin væri beint úr Borgarhólum (yfir Syðri- eða Vestari-Moldbrekkur) og í Rjúpnagil. Hann rökstuddi kröfuna með því að vísa í uppdrátt Íslands frá 1848 eftir Björn Gunnlaugsson, skjöl þar sem fjallað var um línuna frá Borgarhóli í Rjúpnagil, sýslulýsingu Árnessýslu frá 1848, vitnisburð vitna, og að enginn hefði kært Nesjabændur þó að þeir hefðu af og til í tuttugu og átta ár slegið í Sauðafellsflóa.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – Eiturhóll.

Kveðinn var upp dómur í málinu 22. nóvember 1873 sem féll Þorkatli og Mosfellskirkju í vil. Í honum kemur eftirfarandi fram: … vill hinn stefndi [Ófeigur í Nesjum] eiga land úr Rjúpnagili og beint í Borgarhóla, en sækjandi [Mosfellsprestur] aptur úr Rjúpnagili í Sýslustein („Merkjastein“) á Sauðafelli, beint í Moldbrekkur eystri og þaðan sjónhendíng í Borgarhóla.
Sem sönnun fyrir að þetta sé rétt hefur sækjandi komið fram með ýms skjöl og skilríki, svo sem þíngsvitni úr Gullbríngusýslu, eptir hverju 4 vitni hafa vitnað þessu samkvæmt … þar næst 3 skýrslur prófasts séra Stefáns Þorvaldssonar á Stafholti, sem áður var prestur að Mosfelli, frá 1850, 1855 og 1869; lögfestu fyrir Mosfellslandi frá 1740; útskript af lýsingu Skúla landfógeta yfir Gullbríngu sýslur. – Hinar þarnefndu „Þrívörður“ eru nú ei lengur til, því þær segir sækjandi að brúkaðar hafi verið í veggi sæluhússins á Moldbrekkum, þegar það var byggt 1841; (óeiðfesta) vitnisburði, sem nefndir eru undir No 10, 11, og 12 í sóknarskjalinu frá 28. Ágúst 1873.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – Sýsluþúfa.

Öll hin nefndu skjöl og skilríki eru í öllu verulegu samhljóða framburði hinna getnu vitna. Þess er enn vert að geta, að hið umgetna sæluhús á Moldbrekkum var 1841 reist og byggt bæði af Mosfellssveitarmönnum og Árnesíngum eins og hins að sækjandi og og fyrirrennarar hans – Mosfellsprestar – hafa stöðugt yrkt eða léð slægjur í Sauðafellsflóa, einnig átölulaust af öllum. …Eptir öllu því sem nú hefur verið tilfært fær rétturinn eigi betur séð, en að prestinum að Mosfelli eða Mosfellskirkju beri að tildæma hið umþrætta landstykki þannig, að landamerki Mosfells að austan sé úr Rjúpnagili í Sýslustein, þaðan í Moldbrekkur við sæluhús og svo beint í Borgarhóla. …
Mosfellsheiði
Því dæmist rétt að vera. Landamerki Mosfellskirkjulands á Mosfellsheiði skulu vera: úr Rjúpnagili í Sýslustein, þaðan beint í Moldbrekkur við sæluhús og þaðan eptir beinni línu í Borgarhóla. Að öðru leyti á hinn stefndi að vera frí af ákæru sækjandans.
Rekstur þessa máls hófst árið 1870. Í aukarétti Árnessýslu 12. júní 1870 var lagt fram skjal frá Stefáni Þorvaldssyni, fyrrum presti á Mosfelli, dagsett 18. maí 1869, sem vitnað er til í dómnum að framan, svohljóðandi: No 7. „Í þau 12 ár, sem jeg hélt Mosfell í Mosfellssveit og bjó þar , -ə: frá 1843-1855. – notaði jeg atölulaust fjalllendi Mosfells, eptir þessum ummerkjum: Leirvogsá ræður merkjum að norðanverðu, neðan frá Skegg<j>astaða hólum og allt uppí Leirvogsvatn, þá ræður lítill lækur, sem rennur vestan til við „Sauðafellstúngu“ og fellur í sama Leirvogsvatn. Þá er tekin sjónhenda úr svonefndu „Rjúpnagili“ í stóran stein, á austan- eða norðanverðu litla Sauðafelli, – úr þeim steini sjónhenda í „Moldbrekkur“, – verður þá allur Sauðafellsflóinn innan Mosfellslands takmarka, enda notaði jeg hann, ásamt Sauðafellstúngunni átölulaust að meira og minna leyti um áðursagt tímabil, bæði til selveru, beitar og slægna.

Markúsarsel

Markúsarsel.

Austurbóginn var sjónhenda tekin úr Fellshala, nefl. Grímansfellshala og austur heiði, beint austur að fyrr nefndum „Moldbrekkum“. Í mæli var það eptir sögnum gamalla manna, að Mosfell ætti selstöðu í Grímansfelli, og ætti „Fellshalann“ allan suður undir „Seljadal“. – En þessar selstöður notaði jeg allar á víxl, 1, Í Helguseli norðan undir Grímansfelli, – þar sem seinna var sett nýbýlið „Gullbrínga“. – 2, Leirtjarnarsel, fyrir norðan Leirtjörn, – sem líka var af sumum kallað „Markúsarsel“ – 3ju selstöðu hafði jeg og seinast nokkur ár vestan undir illa klifi ofanvert við Leirvogsvatn.
Mosfellsheiði

Áreið á landið fór fram samhliða réttarhaldinu 12. júlí 1870: Því næst mæta fyrir rjettinum þeir hinir áðurnefndu menn úr Árnesssýslu og segja það sitt álit um landamerki milli Árness- og Kjósarsýslu: Úr Rjúpnagili eða gljúfrum þess í landsuður beina stefnu á Borgarhólinn hinn hæsta, sunnarlega á Mosfellsheiði. – Hinir tilkjörnu menn úr Gullbringu- og Kjósarsýslu segja aptur á móti takmörkin þannig: Úr áðurnefndu Rjúpnagili beina stefnu í stóran stein á Litla-Sauðafelli austanverðu, sem hvílir á steinum við báða enda en loptar undir allan í miðju, þaðan beint í Moldbrekkur við Sæluhús á Mosfellsheiði og loksins þaðan í áðurnefndan hæsta Borgarhól. Þessar álits- og skoðunargjörðir segjast allir skoðunarmenn vera reiðubúnir að staðfesta með eiði ef krafist verður, að þær sje gjörðar eptir bestu samvizku og vitund.

Mosfellsheiði

Borgarhólar – kort.

Eptir að leitast hafði verið við að koma á sáttum milli málsparta án þess það lukkaðist, komu þeir sjer saman um, að skjóta málinu á frest uns upplýsingar fengjust viðvíkjandi ummerkjum Árness- og Kjósarsýslu, það er að segja afskriptir af sýslulýsingum og sóknalýsingum sem allar eru hjá deild hins íslenzka bókmenntafjelags í Kaupmannahöfn.
Var þannig málinu frestað. Upplesið staðfest. Rjetturinn hafinn. Þ. Jónasson. Th. Gudmundsen. Páll Melsted. Þ. Guðmundsson. Haldór Jonsson. G. Gíslason. O. Ólafsson. Clausen. Preben Hoskiær. Halldór Melsted.
Aukaréttur Gullbringu- og Kjósarsýslu var haldinn 10. október 1871 í Reykjavík. Var þangað stefnt ýmsum vitnum, sem búsett voru í Mosfellssveit, Seltjarnarneshreppi og Reykjavík. Af þeim mættu Jón Jónsson í Lambhaga, Erlendur Þorsteinsson frá Hlaðgerðarkoti, Ólafur Ólafsson frá Hrólfsskála og Ásta Guðmundsdóttir í Reykjavík, fyrrum húsfreyja í Stardal.

Mosfellsheiði

Litla-Sauðafell – kort.

Vitnisburður eins [Kláusar] var svohljóðandi: Jeg undirskrifadur sem nú er Nálægt 67 ára gamall og hefi Búið hier i Mosfellssveit á 34da ár enn Borinn og barnfæddur í [í, tvítekið] Biskupstungumm í Árnessíslu hefi aldrei heirt annars gietið enn að Sísslumörk milli Árnes- og Kjosarsísslu væru á svokölldum Moldbrekkum Sem Sæluhúsid stendur á á Mosfellsheidi og vil ieg ennfremur gieta þess ad þegar firnemt sæluhús var bigt var jeg feingi enn til ad Flitja vid til uppgierdar þess af Jóni Sál. Stephensen á Korpúlfsstödum sem þá var Hreppstjóri hjer í Mosfellssveit og Sem í Sameiníngu med Kristjáni sál. á Skógarkoti í Þingvallasveit sá umm Biggíngu Hússins og eptir samkomulægie millumm Beggia firnemdra Hreppstjóra eptir ad þejr höfdu leitad þar um álíts Sveita og síslslubúa sinna lietu biggia þettad firnemda Sæluhús á Sísslu mörkumm þar sem Svokalladar Síssluvördur stódu á Svonemdumm Moldbrekkumm og vóru þessar Síssluvördur hafdar til ad biggia úr Sæluhúsið enfremur hef ieg heirt bædi fir og Sjdar ad svokalladar Þrívördur stædu á Næstu hæd firir utann svo nemda VilborgarKjeldu austast á Mosfellsheidi og [hef, yfirstrikað] hef jeg aldrei þekt og þekkje ekkie adrar Þrívördur enn þessar á Mosfellsheidi. Þennann vittnisburd minn gief ieg eptir bestu Þekkíngu og Samvisku hvurn jeg stadfesti med minni Eiginhandar undirskrift Blikastödum 20 November 1871. Kláus Bjarnason. Vidstaddir vottar Olafur Olafsson (á Ejdi) Jón Arnason.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – landamerkjavarða.

Lagðir voru fram ýmsir vitnisburðir um sýslumörk af hálfu verjanda: Ýmsir þeirra vörðuðu fyrst og fremst sýslumörk og eru færðir í þann kafla, þ.e. vitnisburðir Ingimundar Gíslasonar, Narfa Þorsteinssonar, Árna Björnssonar og Guðmundar Jakobssonar.
Björn Bjarnarson gaf eftirfarandi vitnisburð: Eg sem þetta ber: er á sextugs aldri og var á Þyngvöllum í 17 Ár og Heiðarbæ í 14 gef – að: skoðaðri Teiknun og lesnum Vitnisburðum – það sem eg veit nærst sanni. Götuna frá vegamótum, og að syðri þrívörðum lagði Ófeigur Jónsson á Heiðarbæ hana fór eg hana með honum fyrir 42 Árum, sýndi hann mér þá syðri þrívörður, sem hafa síðan staðið – framaní Kláfusi – norðan við götuna á avölum klapparhol sem hann kallaði Helluhól, sem nærst mitt á milli Sæluhúss og syðri Moldbrekkna sem hann sagði sýslumerki- sömuleiðis Þórsteinn Einarsson í Stíflisdal – á þessum moldbrekkum hefir allan þennan 42 Ára tíma staðið Varða og mun ekki langt frá línu þeirri sem dregin er milli Borgarhóla og Rjúpnagils.
Mosfellsheiði
Sýsluvörður á Moldbrekkum eistri, hefi eg aldrey séð, og egi fyrr heirt að Sæluhusið hafi verið biggt úr þeim, heldur á þessum stað: vegna einkennilegrar brúnar góðs grundvallar og vatnslindar sem opt rennur þar undan. Að sunnan vissi eg aldrey slegið austar, en um línu þá sem stefnir á Vífilfell. í Mosfells sókn var eg í 11 ár í fjögra Presta tíð sr. Magnusar Grímssonar sr. Jóhann Knúts – uppalins á Mosfelli sr. Þórðar Árnasonar þessir allir töluðu, um yrkingu Sauðafells flóa – að austan [hér er merkt við með x og neðan máls stendur: það er að skilja héðan]- en eingann klögunar anda fann eg í þeim, en séra Þorkeli fanst ser óþolanlega misboðið með slíkri yrkingu bar hann sem hinir þetta undir mig – sem einhvern þann grann kunnugasta sem kostur væri á en er eg ekk<i> gat rétt dansað eptir hans kröftugu pipu gat hann ekki brúkað mig. séra Þórður sál. sagðist „aungvan staf géta fundið fyrir: að Mosfell ætti land ofar en Bringurnar“ Rjúpnagil þikir mér ógreinilega teiknað og vantar neðri hluta þess ofan í Bugðu, svo efast eg um að stefnan úr Rjúpnagili þaðan sem hún er tekin úr því géti feingist bein um steininn í Húsið. Línan úr því í Borgarhóla er of laung móti þeirri í Steininum sem bendir á Vífilfell því holarnir eru of hallir við. Nesjum 3. September 1873 – Björn Bjarnarson.

Mosfellsheiði

Borgarhólar.

Við skoðun á Fellsendalandi, fól sr Steffan Ólafi heitnum Jónssyni að frammfylgja Skjali því sem frammburður hans og föður hans eru skráðir á, um um stefnuna úr Sæluhusi suðaustan við Borgarhóla, en standandi á: sauðafelli sagði hann – að mér og fleirri mönnum áheirandi: að sú stefna „hefði eingann stað“ og hann „gæfi sig með öllu frá henni“ Sami B.B.
Sækjandi málsins, Þórður Guðmundsson, sýslumaður, sem verið hafði sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu, sagði í sóknarskjali, 28. ágúst 1873: að í dómi hins konunglega Landsyfirréttar í málinu milli Þingvalla kirkju og Árna bónda Björnssonar á Fellsenda um eignarréttinn að Fellsenda landi, sem dæmt var þar 1859, stendur um þá framlögðu skýrslu Séra Stefans Þorvaldssonar af 5. Júli 1850 „að skýrsla þessi sé af engum reyngd, að hún sýni það að Landamerki Mosfells og Þingvalla kirkna liggi saman á hinu umrædda svæði“ nefnilega: um línu þá, sem dregin er úr Rjúpnagili yfir steininn austast á Sauðafelli í Moldbrekkur, hvar sæluhúsið stendur.
Í framhaldssókn, 3. október 1873, sagði sækjandinn, að bræðurnir Jón Jónsson í Lambhaga og Ólafur Jónsson á Hraðastöðum, fæddir í Laxnesi, hefðu sagt sér við skoðunargerð á sæluhúsinu á Mosfellsheiði árið 1841 að þar við við sæluhúsið næðu Mosfells og Þingvalla kirkna lönd saman, og það sama sagði Hreppstjóri J. B. Stephensen, og að sæluhúsið væri byggt í sýslumorkunum milli Kjósar- og Gullbringusýslu annars vegar, en Árness sýslu hins vegar.

Mosfellsheiði

Steyptur stöpull í Borgarhólum.

Á aðalfundi sýslunefndarinnar í Kjósarsýslu sem haldinn var í Hafnarfirði 28. mars 1912 var lögð fram beiðni prestsins í Mosfellsprestakalli um kaup á ábýlisjörð hans Mosfelli í Mosfellssveit. Hreppsnefndin falaðist einnig eftir kaupum á jörðinni sem hún taldi heppilega til almenningsafnota fyrir hreppinn t.d. sem upprekstrarland. Sýslunefndin taldi óheimilt að selja jörðina án sérstakra laga því hún væri eins og hreppsnefndin hafði tekið fram heppileg til almenningsafnota.
Samkvæmt gerðabók Mosfellshrepps 1908-1925 kom Mosfellsheiðarmál iðulega til umræðu á hrepps- og hreppsnefndarfundum líkt og rakið verður hér á eftir: Á hreppsfundi 10. júní 1911 var samþykkt að ganga að tilboði Mosfellsprests um að hreppsnefndin mætti óátalið láta smala heiðarland Mosfellskirkju þetta ár, en prestur tók jafnframt fram að hann leyfði ekki þar með upprekstur í landið. Á sama fundi var samþykkt áskorun á hreppsnefnd um að leitast við af ítrasta megni að hreppurinn nyti réttar síns viðvíkjandi „afréttarlöndum“ sem hreppurinn kynni að eiga en aðrir nú vildu eigna sér.
Á hreppsnefndarfundi 8. desember s.á. var samþykkt að reyna að fá Bringnaland keypt handa hreppnum sem upprekstrarland og helst allt heiðarlandið sem tilheyrði Mosfelli.
Fimmtánda júní 1912 kom fram á almennum hreppsfundi að spurst hefði verið fyrir um leigu á heiðarlandi Mosfells til upprekstrar. Var það fáanlegt til eins árs með skilyrðum og 75 kr. leigu. Felldi fundurinn tillöguna. Hins vegar leyfði prestur almennar smalamennskur á heiðarlandinu (væntanlega rúningssmalamennskur).

Mosfellsheiði

Landamerkjavarða í Moldarbrekkum.

Kaup á heiðarlandi Mosfells kom til umræðu á hreppsnefndarfundi 4. ágúst 1918 og á fundi 27. desember s.á. var ákveðið að leggja fyrir lögfræðing öll gögn, sem fyrir hendi væru um eignarheimild hreppsins á upprekstrarlandi og landamerki þess lands, og fá álit hans um hvað hægt væri að gera í því efni. Kaup á heiðarlandi Mosfells voru síðan til umræðu á hreppsnefndarfundi 22. júní 1919 og hreppsfundi 20. október 1922.
Í fasteignamatinu 1916-1918 er Mosfelli lýst ásamt Hittu. Þar kemur m.a. fram: Land ekki mikið heima, nægt gripum að sumri, nokkur vetrarbeit. … Kostir: Selland, afrétt og allmiklar slægjur í kirkjulandi á Mosfellsheiði. Í sama fasteignamati er talað um Mosfellskirkjuheiðarland (að frátöldum Bringum) sem sé norðurhluti Mosfellsheiðar. Landið er sagt vera sem „afrétt“ þó ekki sé goldið fyrir og að Mosfellshreppur láti smala það til rétta.
Þann 11. maí 1922 sendi hreppstjórinn í Mosfellshreppi fyrirspurn til Stjórnarráðsins varðandi land sem hin aflagða kirkja á Mosfelli ætti á norðanverðri Mosfellsheiði. Í bréfinu kom fram að tvær jarðir væru á þessu landi; býlið Mosfellsbringur og Mosfellsheiðarland sem stundum væri nýtt til slægna. Samkvæmt jarðabókinni frá 1861 væru þær innifaldar í mati Mosfells en í fasteignabókinni 1921 voru þær metnar hvor í sínu lagi og nú vildi hreppstjórinn vita hver ætti að hafa umsjón með þessum kirkjujörðum þannig að hann gæti áttað sig á því hver ætti að annast merkjagerð þar.

Bringur

(Mosfells-) Bringur 1968.

Fyrirspurnin var send biskupi og sendi hann dóms- og kirkjumálaráðuneytinu svarbréf 30. maí 1922. Þar lýsti biskup þeirri skoðun sinni að þar sem jarðirnar hefðu verið í mati Mosfellsprestseturs, eins og það var metið presti til tekna tveimur árum áður, þá væru þær í umsjón hans og þar með einnig merkjagerðin. Í bréfinu kom líka fram að biskupinn hefði aldrei heyrt [Mosfells]-bringur nefndar kirkjujörð fyrr en nú í bréfi hreppstjórans og ráðuneytisins. Í þeim matsgerðum sem hann hefði undir höndum væru Mosfellsbringur nefndar afbýli frá heimajörðinni. Því hefði það verið metið sem hluti prestsetursins. Að sögn biskupsins var það fasteignabókin nýja sem varð fyrst til þess að gera þetta kot að sjálfstæðri jörð. Hreppstjórinn hafi síðan gert úr því kirkjujörð.
Eftir að ráðuneytinu hafði borist þetta bréf sendi það, þann 10. júlí 1922, hreppstjóranum úrskurð sinn. Hann var á þá leið að kirkjuheiðarlandið á Mosfellsheiði og [Mosfells]-bringur skyldu vera í umsjá sóknarprestsins að Mosfelli sem bæri þar með að annast gerð jarðarmerkja.
Mosfell
Á seinni hluta 3. áratugarins fór hreppsnefnd Mosfellshrepps þess á leit við 2. þingmann Gullbringu- og Kjósarsýslu að hann flytti frumvarp um sölu Mosfellsheiðarlands á Alþingi. Að baki lá brýn nauðsyn hreppsins að fá meira „afréttarland“ til eignar og umráða. Þingmaðurinn samdi frumvarp og leitaði umsagnar Hálfdanar Helgasonar prests og ábúanda Mosfells á því. Hann taldi sig verða fyrir talsverðum tekjumissi yrði það að lögum því að hann hefði, eins og fyrri ábúendur Mosfells, leigt bæði innnan- og utansveitarmönnum nokkuð af heiðarlandinu til slægna og átti hann von á því að þær tekjur myndu aukast í framtíðinni. En þar sem að 2. grein frumvarpsins mælti fyrir um að andvirði sölunnar yrði varið til að rækta upp heimajörðina þá taldi hann sér tekjumissinn bættan og lagði blessun sína yfir frumvarpið.

Mosfellsheiði

Varða á Mosfellsheiði.

Frumvarpið fór næst fyrir allsherjarnefnd sem var mótfallin sölunni því að jörðin væri bæði landlítil til beitar og útheysslægnalaus heima fyrir og því hætt við að salan myndi rýra ábúðarhæfi jarðarinnar. Þrátt fyrir aukna ræktun heimajarðarinnar sem myndi með tíð og tíma auka heyaflann þá myndi jörðina skorta beitiland vegna landleysis. Um afarlangt skeið hefði heyja verið aflað í umræddu landi og að auki væri það aðalbeitiland jarðarinnar. Í heiðarlandinu væri sauðfé Mosfellsbóndans haldið árið um kring og þaðan hefði aðalútheyskap jarðarinnar verið aflað. Er stórbú var á Mosfelli var mikilla heyja aflað þaðan og séu slægnanot enn mikil þó aðrir en ábúandinn færi þau sér til nytja.

Sýslusteinn

Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.

Einnig benti nefndin á að Víðirinn, sem væri aðalgraslendið heima fyrir, hefði verið plægður og væri nú flag eitt. Búið væri að selja hluta af honum og frekari sala fyrirhuguð og því væri graslendi jarðarinnar heima orðið afar lítið. Í heiðarlandinu fengi sauðfénaður sveitarmanna að ganga óáreittur og því lítil ástæða fyrir hreppsnefndina að eignast landið enda hefði henni til skamms tíma ekki þótt það nauðsynlegt og talið sveitina vel komast af án þess. Svo fór þó að lokum að frumvarpið var samþykkt og var það afgreitt frá efri deild Alþingis þann 19. maí 1927.
Þann 31. maí 1927 samþykkti Kristján konungur X. lög um sölu á nokkrum hluta úr kirkjueigninni Mosfellsheiðarlandi. Undanskilið sölunni var svonefnt Jónssel en kaupverðinu skyldi varið til ræktunar heimajarðar prestsetursins Mosfells.

Mosfellsheiði

Á Mosfellsheiði 1836.

Í kjölfar þess að yfirvöld fengu heimild til að selja Mosfellshreppi hluta Mosfellsheiðarlands, nánar tiltekið 30. júlí 1927, skrifaði oddviti hreppsins Stjórnarráðinu bréf þar sem hann hvatti það til þess að nýta sér söluheimildina. Stuttu síðar létu yfirvöld meta landsvæðið og töldu matsmenn það að allmiklu leyti gróðurlítið heiðarland en að nokkru leyti mýrar og valllendisbrekkur. Einnig leituðu þau umsagnar prestsins á Mosfelli um söluna. Í bréfi dagsettu 18. janúar 1928 samþykkti Mosfellsprestur hana með því skilyrði að andvirðið yrði nýtt til að bæta heimajörðina.447 Einnig kom fram í bréfinu að prestur teldi að hjáleigan Mosfellsbringur væri undanþegin sölunni.
Ekkert varð af sölunni að þessu sinni en þann 29. desember 1932 báðu yfirvöld Mosfellsprest á ný um að veita ýmsar upplýsingar vegna hugsanlegrar sölu landsvæðisins. Presturinn sendi svarbréf þann 7. febrúar 1933 þar sem fram kom að hann væri sem fyrr samþykkur sölu landsins, með skilyrðum þó. Í fyrsta lagi vildi hann fá ákveðin hitaveitu- og leiguréttindi. Hann vildi líka fá staðfestingu þess að landið yrði notað sem upprekstrarland. Einnig krafðist hann þess að undanskilið sölunni yrðu Jónssel, Mosfellsbringur og veiðirétturinn í Leirvogsvatni og hluta Leirvogsár.

Mosfellsheiði

Gluggvarða.

Í bréfinu kom einnig fram að presturinn hefði reynt að afla sér gagna um landamerki heiðarlandsins. Þau fara hér á eftir: Landamerkin að norðaustan, austan og sunnan eru þessi, að því er Björn Bjarnarson, hreppsstjóri Mosfellshrepps hefir skýrt mér frá: Stefna úr gljúfrinu í Rjúpnagili í sýslustein austanhalt á há – Sauðafelli. Þaðan úr sýslusteini í sæluhústóftina á Vestri – Moldbrekkum og þaðan úr sæluhústóftinni beina stefnu í vörðu á Stóra – Hnúk á Grímmannsfelli. Ræður sú stefna alt að ánni niður að Hraðastaðamörkum. Að norðan ræður svo Leirvogsá mörkum en að vestan Skeggjastaðir, Jónssel og grasbýlið Mosfellsbringur.
Samkvæmt Mosfellspresti var ágreiningur um landamerki milli Skeggjastaða og heiðarlandsins í svonefndum Neðri-Sogum. Bóndinn í Laxnesi, Einar Björnsson, sem eitt sinn bjó á Skeggjastöðum, hafði sagt prestinum að hann teldi landamerkin að sunnan þessi: Úr skógarvörðu á Skógarbringum í Klofningsstein á Langahrygg í Ríp norðan Leirvogár.

Jónssel

Jónssel.

Í bréfi sem oddviti hreppsnefndar Mosfellshrepps sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytinu þann 1. mars 1954 grennslaðist hann fyrir um afstöðu ráðuneytisins til stofnunar nýbýlis í Mosfellsheiðarlandi. Ráðuneytið sendi hreppsnefnd Mosfellshrepps svarbréf 6. júlí 1954. Þar kom fram að það vilji leyfa, þrátt fyrir ákvæði samnings frá 24. maí 1933 um að heiðarlandið yrði aðeins notað sem beitiland, að þar yrði reist nýbýli í svokölluðum Neðri Sogum. Sú krafa var gerð af hálfu ráðuneytisins að land nýbýlisins yrði aðeins nýtt til ræktunar og því eigi látið fylgja annað land en slíkt nema ef nauðsyn kræfi. Í bréfinu kemur einnig fram að ráðuneytið fallist á lítilsháttar landskipti við jörðina Seljabrekku til hagræðis við setningu landamerkja milli nýbýlisins og Seljabrekku. Þar stendur einnig að ókeypis upprekstur frá Mosfelli og Svanastöðum, sem fjallað sé um í samningnum frá 24. maí 1933, nái, þegar nýbýlið hefur verið stofnað, ekki lengur til lands þess sem býlinu verði úthlutað.

Stardalur

Stardalur.

Hitaveita Reykjavíkur keypti öll jarðhitaréttindi í Mosfellsheiðarlandi Mosfellshrepps með kaupsamningi 12. nóvember 1955. Vísað er þannig til landsins í samningnum: Allt land heiðarinnar, sem hreppurinn hefir öðlast eignarrétt og umráðarétt á.
E.J. Stardal kemur inn á heiti Mosfellsheiðar í grein frá árinu 1985 og segir: Heiti þessa mikla heiðarfláka, Mosfellsheiði, virðist dálítið langsótt, því þetta svæði skiptist milli tveggja sýslna og fjögurra hreppa, en Mosfellið, sem það er kennt við sem heild, er lítið fell á mörkum Kjalarnesshrepps og Mosfellssveitar, alllangt vestan við ystu heiðarsporðana. En sú er orsök þessarar nafngiftar að kirkjujörðin Mosfellsstaður átti á sínum tíma miklar lendur upp af Mosfellsdal sem náðu yfir mikinn hluta heiðarinnar austur að sýslumörkum Kjósarsýslu og Árnessýslu og að hreppamörkum Kjalarness-, Þingvalla- og Grafningshrepps um leið. Um þennan hluta heiðarinnar lágu hinar fornu ferðamannaleiðir milli Faxaflóabyggða að vestanverðu og uppsveita Árnessýslu að austanverðu og þannig hefur nafngiftin orðið til.
Um heyskap á Mosfellsheiði nálægt Sauðafellslæk ræðir E.J. Stardal stuttlega í sömu grein: Heiðin er grösug á þessu svæði, einkum við jaðarinn og víða stórir mýrarflákar með holtum á milli. Sóttu menn heyskap þangað úr Mosfellssveit fyrr meir, jafnvel alla leið úr Reykjavík, þótt langur engjavegur væri.

Mosfellsheiði

Litla-Sauðafell og nágrenni – loftmynd.

Árið 1991 var birt auglýsing um staðfestingu félagsmálaráðuneytisins á samkomulagi um mörk á Mosfellsheiði milli Ölfushrepps og Grafningshrepps annars vegar og Mosfellsbæjar og Miðdals I í Mosfellsbæ hins vegar á grundvelli landamerkjabréfs frá 23. janúar 1991. Mörkum er lýst þannig:
1. gr. Mörk milli Grafningshrepps og Ölfushrepps annars vegar og Mosfellsbæjar og jarðarinnar Miðdals I hins vegar eru bein lína frá Sæluhústótt á Moldbrekkum í steyptan stöpul á Borgarhólum, þaðan bein lína í Sýsluþúfu, þaðan bein lína í Sýslustein austan Lyklafells, og þaðan bein lína í steyptan stöpul hæst á Vífilsfelli.
Undirritaðir aðilar eru sammála um það að ofangreind merki séu rétt túlkun merkja í eldri landamerkjabréfum um þessi mörk.
2. gr. Sveitarfélagamörk Grafningshrepps og Ölfushrepps annar vegar og Mosfellsbæjar hins vegar eru þau sömu og greind eru í 1. gr.

Mosfellsheiði

Borgarhólar – loftmynd.

Fylgdi uppdráttur af mörkunum sem fylgiskjal I, en í fylgiskjali II, sem var yfirlýsing samningsaðila, 23. janúar 1991, segir að mörkin teldust ekki endanlega staðfest fyrr en Kópavogskaupstaður, Reykjavíkurborg og Seltjarnarneskaupstaður hefðu samþykkt þau eða eins og þar segir: Undirritaðir aðilar … sem undirritað hafa í dag landsmerkjabréf um mörk á Mosfellsheiði frá Sæluhússtótt á Moldbrekkum í norðri í Vífilsfell í suðri lýsa því hér með yfir að mörk í téðu landamerkjabréfi frá Sýslusteini austan Lyklafells í Vífilsfell teljast ekki endanlega staðfest fyrr en þeir aðilar aðrir en Mosfellsbær sem telja sig eiga lögsögu og/eða eiganarrétt að þeim mörkum þ.e. Kópavogskaupstaður, Reykjavíkurborg og Seltjarnarneskaupstaður hafa fallist á mörk þessi fyrir sitt leyti.
Mosfellsbær telur þau mörk sem um getur í landamerkjabréfinu í heild vera mörk lögsagnarumdæmis bæjarfélagsins, en er kunnugt um að ofangreind sveitarfélög eru ekki sammála þeirri afstöðu, hvað varðar mörk frá Sýslusteini au<s>tan Lyklafells í Vífilsfell.

Mosfellssveit

Mosfellssveit og Mosfellsheiði – mörk (rauð heil lína) 2022.

Bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi og borgarstjórinn í Reykjavík féllust á merkin með yfirlýsingu 30. janúar s.á. en mótmæltu lögsögu og/eða eignarrétti Mosfellsbæjar á landi vestan við mörkin. Bæjarstjórinn í Kópavogi féllst einnig á merkin með yfirlýsingu 6. mars s.á. en mótmælti kröfum um lögsögu og/eða eignarrétt Mosfellsbæjar og Reykjavíkurborgar svo og lögsögu Seltjarnarneskaupstaðar á landinu vestan við mörkin.”

Heimild:
-https://obyggdanefnd.is/wp-content/uploads/04_2004-2_urskurdur.pdf
-Kort úr Árbók FÍ 2019 um Mosfellsheiði.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði.

Mosfellsbær

Þegar leitað er efnis um Mosfellsbæ má finna ágætt upplýsingakort af því helsta sem sveitarfélagið býður upp á hvað varðar útivist og sögulegan fróðleik:

Mosfellsbær – sveit með sögu

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Mosfellsbær er um 200 ferkílómetrar að flatarmáli og afmarkast af Reykjavík (áður Kjalarneshreppi) að norðan, að austan af Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppi og Sveitarfélaginu Ölfusi, að sunnanverðu af Kópavogi og að vestanverðu af Reykjavík. Í aldanna rás hét sveitarfélagið Mosfellshreppur og náði allt að Elliðaám fram á 20. öld en 9. ágúst 1987 lauk langri sögu hreppsins og Mosfellsbær varð til.  [Mosfellssveit náði framan af að Elliðaám. Öll braggabyggð austan Elliðaáa var því í Mosfellssveit – SH].
Sögu byggðar í Mosfellssveit má rekja aftur á landnámsöld þegar Þórður skeggi og Vilborg Ósvaldsdóttir námu land milli Leirvogsár og Úlfarsár. Þau bjuggu á Skeggjastöðum en „frá Þórði er margt stórmenni komið á Íslandi,“ segir í Landnámu.

Mosfellsbær

Lágafell – Þarna er viðbygingin sem hýsti m.a. Lestarfrélagið.  Þinghúsið er ekki risið.
Í ágúst árið 1890 komu nítján Mosfellingar saman við hamarinn hjá Seljadalsá við sunnanvert Hafravatn. Þar stofnuðu þeir Lestrarfélag Lágafellssóknar; nú Bókasafn Mosfellsbæjar. Lestrarfélagið var eitt fyrsta félagið sem stofnað var í Mosfellssveit og lét fleira til sín taka en söfnun bóka og útlán þeirra. Félagið var eign þeirra sem greiddu árgjald, og safnaði fé með ýmsum hætti til bókakaupa, m.a. með tombóluhaldi og öðrum skemmtunum. Árið 1890 voru íbúar í sókninni 404 sálir.

Allt fram á síðari hluta 19. aldar ríkti kyrrstætt bændasamfélag í Mosfellssveit, líkt og annarsstaðar á Íslandi. Sveitin var að vísu í þjóðbraut því um hana lágu leiðir til Vesturlands, Þingvalla og austur fyrir fjall. En íslenskir bændur voru ekki alltaf að flýta sér til móts við nútímann og þegar fyrsti hestvagninn sást í Mosfellssveit á ofanverðri 19. öld töldu menn að eigandinn væri genginn af göflunum!
Kringum aldamótin 1900 varð félagsleg vakning í Mosfellssveit, ýmis félög voru stofnuð, til dæmis lestrarfélag, kvenfélag og ungmennafélag. Smám saman urðu atvinnumálin einnig fjölbreyttari: Ullarverksmiðjan á Álafossi tók til starfa árið 1896 og fyrsta gróðurhús landsins var byggt á Reykjum árið 1923. Mikinn jarðhita er að finna í Reykjahverfi og Mosfellsdal og vagga íslenskrar ylræktar stóð í Mosfellssveit.
Mosfellssveit og þegar þeim lauk voru yfirgefnir hermannabraggar meðal annars nýttir undir starfsemi Reykjalundar sem tók þá til starfa.
Allt frá stríðslokum hefur verið mikil fólksfjölgun í sveitarfélaginu, fyrsta stóra stökkið í þeim efnum varð á 8. áratugnum og nú búa meira en átta þúsund manns í sveitinni milli fellanna þar sem fjölbreytt náttúra og áhugaverð saga haldast í hendur.

Hernámsárin

Mosfellsbær

Helgafells hospital.

Hinn 10. maí 1940 steig breskt hernámslið á land í Reykjavík og tók fljótlega að hreiðra um sig í Mosfellssveit, í tjöldum og síðan bröggum. Umsvif hernámsliðsins gjörbreytti ásýnd sveitarinnar og mannfjöldinn margfaldaðist; ári síðar kom bandarískt herlið til sögunnar og leysti það breska af hólmi. Braggahverfi, svonefndir kampar, risu víða í Mosfellssveit og hlutu erlend nöfn, til dæmis Whitehorse, Victoria Park og McArthur. Flestir kamparnir voru í námunda við Varmá og í sunnanverðri sveitinni, meðal annars í grennd við Hafravatn og Geitháls.
Norðvestan við Hafravatn stóð kampurinn Jeffersonville. Þar var meðal annars bakarí og ekið með framleiðsluna í önnur braggahverfi en einnig voru hér skotfæra- og birgðageymslur svo og bílaverkstæði. Braggabyggðin við Hafravatn er horfin en enn má sjá marga húsgrunna á þessum slóðum sem vitna um mannlíf undir bogalaga bárujárni á liðinni öld.

Stekkur

Helgafell

Helgarfell – stekkur í Stekkjargili.

Við erum stödd neðan við Stekkjargil í austanverðu Helgafelli og grjóthóllinn sem blasir við okkur heitir Stórhóll. Gilið dregur nafn sitt af fjárstekk frá bænum Helgafelli og má sjá rústir hans hér undir brekkunni. Stekkur er lítil fjárrétt, notaður til að mjalta ær og var þessi stekkur sennilega nýttur fram yfir aldamótin 1900 en var þá stækkaður og breytt í fjárhús eða beitarhús.
Í Stekkjargili eru ágætir bithagar en gróðurfar í Mosfellssveit mótast af landslagi og hæð yfir sjávarmáli. Efst eru fellin gróðursnauð en gróðurþekjan þéttist þegar neðar dregur, líkt og hér í Stekkjargili.
Jarðvegurinn í Mosfellsbæ er víða frjór og lífrænn og reyndist hentugur til mótekju en mór er jurtaleifar sem var áður fyrr notaður til húshitunar og eldamennsku. Mógrafir voru allvíða í sveitarfélaginu, meðal annars í Stekkjarmýri sunnan við Stekkjargil.

Helgafell
Helgafell
Helgafell rís 216 metra yfir sjávarmáli og þeir sem ganga á fjallið verða verðlaunaðir með góðu útsýni yfir Mosfellsbæ og Sundin blá. Efst á fellinu má sjá rústir af varðbyrgi frá hernámsárunum og vestan fjallsins eru leifar fjöruborðs, í 55 metra hæð yfir sjávarmáli, sem skýrist af því að eftir að ísaldarjökullinn tók að hopa fyrir um 10.000 árum gekk sjór inn á láglendið í Mosfellssveit.
Algengasta gönguleiðin á Helgafell hefst á svonefndum Ásum við Þingvallaveg. Leiðin liggur framhjá tveimur steyptum vatnstönkum frá hernámsárunum sem voru notaðir til að miðla köldu vatni í stórt sjúkrahúshverfi sem reis á Ásunum og nefnt var Helgafell Hospital.

Helgafell

Helgafell – Stekkjartjörn (loftmynd).

Göngusneiðingur liggur upp fjallið að vestanverðu og þar sem lagt er á brattann er smálaut sem er leifar af lítilli gullnámu frá því snemma á 20. öld. Forsaga málsins er sú að skömmu eftir aldamótin 1900 tóku menn að gera sér vonir um að finna gull í Mosfellssveit, einkum við Seljadalsá í suðurhluta sveitarinnar. Þegar bóndinn á Reykjum auglýsti jörð sína til sölu árið 1911 skrifaði hann í blaðaauglýsingu: „Reykjaland liggur meðfram Þormóðsdals landareign að norðan, og stefnir gullæðin þar á það mitt. Líka kvað hafa fundist gull í næstu landareign að norðan í líkri stefnu (Helgafelli).“ Engar frekari sögur fara af gullinu í Helgafelli.

Reykir

Mosfellsbær – herseta á Reykjum.

Árið 1942 voru reistar spítalabúðir í landi Suður­Reykja,­ þar sem Reykjalundur er í dag. Spítalinn hóf starfsemi með 250 sjúkrarúmum í októbermánuði,­ en hafði rými fyrir 550 sjúklinga í neyðartilvikum. Álafoss Hospital var aðeins starfræktur í eitt ár en starfsemin þá flutt í Helgafell Hospital vegna fækkunar í herliðinu. Reykjabændur,­ þeir Bjarni Ásgeirsson og Guðmundur Jónsson,­ voru leigusalar lóðarinnar til hersins. Flestir braggarnir voru fljótlega fjarlægðir en S.Í.B.S. keypti lóðina og hóf starfsemi sína m.a. í þeim sem eftir stóðu og voru í notkun fram á sjöunda áratuginn.

Sjá upplýsingaskilti Mosfellsbæjar HÉR og HÉR.

Mosfellsbær

Liðskönnun Bandaríkjahers í íbúðarhverfi Camp Jeffersonville. Fjær sér í verkstæðisbyggingar í neðri hluta búðanna og rýkur úr reykháfi kaffibrennslunnar sem þar var ásamt þvottahúsi, birgðageymslum og margskonar verkstæðum, t.d. fyrir vopnabúnað auk skóvinnustofu. Hafravatnsfell í baksýn.

Hamrahlíð

Hér eru tekin til frásagnar tvö smábýl, Hamrahlíð og Eiði, í Mosfellssveit. Hvorugt býlið stendur enn, einungis má sjá tóftir þeirra við fjölfarna vegi. Tóftir þess fyrrnefnda er nálægt Vesturlandsvegi ofan við Korpúlfsstaði og hið síðarnefnda á hæðarrana vestan við eiðið landmegin að Geldinganesi. Þau hafa verið svipuð að stærð og svipuð að gerð; lítið hús og matjurtargarður umleikis. Útihús stóðu skammt frá.
TóftirÍ bókinni Mosfellsbær, Saga í 1100 ár, er m.a. getið um smábýli þessi: “Smábýlið Hamrahlíð var á 19. öld í mólendinu ofan við Korpúlfsstaði og neðan við Úlfarsfell. Sumir þjófar létu sér ekki segjast þrátt fyrir dóma. Þannig var farið um Friðrik Þorkelsson (1834-1861) frá smábýlinu Hamrahlíð sem stóð skammt frá Blikastöðum. Hamrahlíð var í ábúð á síðari hluta 19. aldar og má enn sjá rústir bæjarins norðan Vesturlandsvegar á móts við samnefnt skógræktarsvæði. Árið 1857 var Friðrik í Hamrahlíð dæmdur til að greiða fjóra ríkisdali í fátækrasjóð fyrir að hagnýta sér 2-5 lítra af útskorinni kræklingabeitu. Þremur árum síðar var aftur kveðinn upp dómur yfir honum og skyldi hann hljóta 14 vandarhögg fyrir að hafa “snemma morguns í haust, er var, áður en fólk var komið á fætur á heimili hans, Gufunesi, stolið frá ekkjunni Helgu Hafliðadóttur (1790-1872) 3 dönskum specíum heilum, er voru í stokk í kistu hennar, sem stóð þar niður í stofuhúsi, var bæði stofan og kistan ólæst;… Enn fremur er það sannað, að hann hafi í fyrra vetur stolið frá húsbónda sínum Hafliða Hannessyni, gráum vaðmálsstúf…”
MosfellskirkjaÁrið 1850 bjó í Hamrahlíð Jón hreppstjóri er var dannebrogsmaður. Var hann sagður forlíkunarmaður og sáttargerðarmaður. Hann lenti þó sjálfur í illdeilum við sveitunga sína svo úr varð dómsmál. Í Hamrahlíð fæddist dóttir hans, Guðrún (1852-1936 sem er þekkt persóna í Innansveitarkróniku Halldórs Laxness í sögunni af brauðinu dýra. Þar segir frá vinnukonu prestsins á Mosfelli, Guðrúnu Jónsdóttur, sem hélt yfir Dalinn til að baka hverabrauð en villtist upp á Mosfellsheiði og fannst loks eftir nokkur dægur. Brauðið, sem henni hafði verið trúað fyrir, hafði hún ekki snert. Þessi kafli er nokkurs konar dæmisaga um að vera trúr yfir litlu en hér sækir Halldór hins vegar efniviðinn alls ekki í Mosfellsdal heldur á Suðurnes og var það allt önnur kona en Guðrún sem lenti í þeim hremmingum sem lýst er í bókinni. Guðrún bjó lengi í Mosfellsdal en það voru einmitt sex bændur úr Dalnum og einn að auki sem höfðuðu mál gegn föður hennar fyrir orðastríð í Kollafjarðarrétt hinn 27. september 1850.

Guðrún Jónsdóttir

Jón hreppstjóri átti að stjórna réttunum ásamt hreppstjóranum á Kjalaranesi en reiddist þegar bóndinn á Minna-Mosfelli fór ekki út úr almenningnum er féð var rekið inn í réttina. Bóndi kvaðst ekki fara eftir orðum hreppstjóra “til nokkurs hlutar, eða eftir því sem nokkur vitni hafa borið, ekki meira en hundi.” Af þessu urðu orðaskipti og háreysti á milli hreppstjóra og Dalbúa. Jón hreppstjóri kallaði Ólaf Jónsson (1805-1855) á Hraðastöðum versta tíundaþjóf og alla í Mosfellsdalnum þjófa. Bændur svörðuðu um hæl og höfðu í hótunum um að binda hreppstjórann. Tugur vitna var ekki sammála um hvað sagt var og sérstaklega áttu orðin að hafa fallið í hálfkæringi og því ekki marktæk. Svo fór að bændur í Mosfellsdal voru dæmdir í eins til fimm ríkisdala sekt fyrir kjafthátt við yfirvald sitt.
Hamrahlíð var í Lágafellssókn. Fyrrnefnd Guðrún var eitt síðasta dæmið um að vandalausum Mosfellingi var komið fyrir á heimili gegn greiðslu. Það var árið 1935. Á hreppsnefndarfundi, sem haldinn var um haustið, upplýsti oddviti að “Guðrún Jónsdóttir  hefði verið sögð til sveitar frá 1. júní þ. árs og hefði hann komið henni fyrir hjá Hjalta Þórðarsyni bónda á Æsustöðum fyrir kr. 50.000 á mánuði.

Kaleikur

Hamrahlíð var þá komið í eyði fyrir löngu, en hún var á níræðisaldri er hér var komið við sögu. Guðrún lést árið síðar og var borin til grafar að Mosfelli þótt engin væri þar kirkjan. Tími sveitarmeðlima var liðinn en í fórum Guðrúnar Jónsdóttur fannst silfurkaleikur kirkjunnar að Mosfelli sem hafði verið jöfnuð við jörðu á horfinni öld. Helgigripnum var skilað til síns heima og prýðir nú Mosfellskirkju hina nýju. Eftir lifir örnefnið “Guddulaug” við Köldukvísl neðan við Gljúfrastein. Innansveitarkronika er sérkennileg blanda af sagnfræði og skáldskap og einstök meðal verka skáldsins. Efniviðurinn er sóttur í Mosfellssveit og byggir m.a. á deilu sem varð vegna kirkjumála í Mosfellssveit á ofanverðri 19. öld. Þá náði sveitin niður að Elliðaám og kirkjur voru í Gufunesi og á Mosfelli. Kirkjuyfirvöld ákváðu hins vegar að leggja þær niður og byggja nýja kirkju miðsvæðis í sveitinni, að Lágafelli. Ekki voru allir hrifnir af þessum ákvörðunum, einkum var mikil andstaða í Mosfellsdal gegn niðurrifi Mosfellskirkju sem var alls ekki gömul bygging, byggð 1852.
Ákvörðun yfirvalda varð ekki hnekkt, Mosfellskirkja var rifin árið 1888 og sama árið reis GuddulaugLágafellskirkja af grunni. Hins vegar skiluðu einstakir gripir kirkjunnar sér ekki, menn söknuðu bæði kaleiks og kirkjuklukku sem var ævaforn. Kaleikurinn fannst, sem fyrr sagði, í fórum vinnustúlkunnar Guðrúnar Jónsdóttur, en klukkan var geymd að Hrísbrú í tæp 80 ár.
Í byrjun 20. aldar var þjóðvegur lagður ofan við Hamrahlíð. Árið 1957 gerði Skógræktarfélag Mosfellsbæjar samning við eigendur Blikastað um skógrækt í norðurhlíðum Úlfarsfells. Skógræktarreiturinn var nefndur Hamrahlíð til heiðurs smábýlinu skammt neðar, rétt ofan við mýrardrögin ofan Korpúlfsstaða.
Í Mosfellsveit var fjörugróður nýttur til beitar á fyrri öldum. Á bænum Eiði, sem stóð skammt frá Geldinganesi, var “Sölvafjara gagnvænleg til heimamanna brúkunar og þó óhæg mjög fyrir klúngri og klettum. ..Marálmur nokkur, …brúkast til að bjarga peningi í heyjaskorti.” Nafnið fékk bærinn af eiðinu milli lands og Geldingarness.  Geldinganes er tengt landi með eiði þessu og var áður fyrr aðeins fært á fjöru. Geldinganes er óbyggt, en þar voru á sínum tíma geldsauðir aldir fyrir fálkarækt þá sem fór fram á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi svo sem síðar er getið. Þessi geldsauðir áttu að verða fálkunum fóður þegar þeir voru fluttir utan. Er nafnið þannig tilkomið.
KollafjarðarréttKlaustur var stofnað í Viðey árið 1225 eða 1226. Ekki liðu mörg ár frá stofnun Viðeyjarklausturs þar til að það tók að leggja undir sig bújarðir í grennd eyjarinnar. Tíu árum eftir stofnun þess hafði það eignast fimm jarðir og voru tvær þeirra í Mosfellsveit. Alls eignaðist Viðeyjarklaustur 28 jarðir í Mosfellsveit áður en yfir lauk, og gáfu þær af sér um fjórðung af tekjum þess. Eiði (1313) var ein þeirra. Svonefndar fóðurkvaðir voru miklar á smábýlin. Átti bóndinn t.d. að láta klaustrinu í té helming af heyjum sínum. Árið 1704 voru þrjú kúgildi að Eiði. Skúli fógeti Magnússon settist að í Viðey um miðja 18 öld og lagði tilað spítali, sem þar var, yrði fluttur þaðan í Gufunes. Jörðin Eiði var þá, ásamt fleiri nálægum jörðum (Brandskot, Hólkot, Fjóskot og Helguhjáleiga) lögð undir spítalann. Eiði var notað til að ala kvikfé sem æti handa fálkum. Um miðja 18. öld var þar tvíbýli. Býlið var smátt og bústofninn lítill, hús voru gluggalaus, þiljulaus og allslaus að innan.
Enn má sjá í tóftum Eiðis útlínur býlisins. Því fylgja og aðrar búsetuminjar líkt og gerðist á nágrenninu, einkum á Blikastaðanesi. Þar má enn sjá bæði leifar sjóbúða, verslunar og gerðist frá fyrri tíð.

Gerði

Í Blikastaðansi eru minjar um sjósókn Mosfellinga á fyrri öldum. Þar eru friðlýstar rústir í svonefndu Gerði fremst á nesinu. Rústirnar eru grjóthlaðnar leifa sjóbúða og jafnvel verslunarstaðar fyrrum.
Sjóslys voru tíð fyrr á öldum. “Þann 15. maí 1776 drukknaði Árni Ánason frá Eiði út af Seltjarnarnesi og var jarðsettur í Neskirkjugarði. Á 3. áratug 20. aldar hugðu Reykvíkingar á landvinninga í Mosfellshreppi. Árið 1924 eignaðist Reykjavíkurborg jarðirnar Gufunes, Knútskot (innst í Grafarvogi) og Eiði. Kaupverðið var 150 þúsund krónur. Árið 1943 voru jarðirnar færðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur með lögum nr. 52, 14. apríl. Þá voru einnig jarðirnar Elliðavatn og Hólmur í Seltjarnarnehreppi lagðar r af smáhýsum og görðum. engar ritaðar heimildir eru um mannaferðir þarna en rústirnar benda þó til þess að hér hafi verið útræði.
undir Reykjavík.
Brautryðjendur í rekstri áætlunar- og flutningabíla í Mosfellssveit voru Víglundur Pálsson og Karl (1903-1975) bróðir hans.  Þeir voru frá bænum Eiði í Mosfellshreppi til 1923, en búskapur lagðist þar af um svipað leyti.”

Heimild:
-Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, Pjaxi 2005, bls. 23, 73, 77, 78, 103, 105, 109, 122, 123, 132, 140, 156, 169, 174, 186.

Eiði

Mosfell

Í bókinni Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, er m.a. fjallað um landnám í Mosfellsveit. Þar segir um landnámsmennina: “Landnámabók (Landnáma) greinir frá því að liðlega 400 nafngreindar fjölskyldur, ásamt vinnufólki, þrælum og búpeningi, hafi numið land á Íslandi á árunum eftir 870.

Landnám

Landnám Ingólfs Arnarssonar náði frá Hvalfjarðarbotni, suður um Þingvallavatn og austur að Ölfusi og öll nes út. Hann byggði bæ sinn í Reykjavík.
Í Sturlubók Landnámu er landnámi í Mosfellssveit lýst þannig: “Þórðr skeggi hét maðr. Hann var sonr Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórðr átti Vilborgu Ósvaldsdóttur. Helga hét dóttir þeirra. Hann átti Ketilbjörn hinn gamli.
Þórðr fór til Íslands ok nam land með ráði Ingólfs í hans landnámi á milli Úlfarsár ok Leiruvágs. Hann bjó á Skeggjastöðum. Frá Þórði er margt stórmenni komit á Íslandi.” Þórður og Vilborg gætu hafa komið frá Englandi eða víkingabyggðum á Íralandi en Vilborg er sögð dóttir Úlfrúnar hinnar óbornu sem var dóttir Játvarðar Englakonungs.
Áður en Þórður og Vilborg settust að í FjölskyldanMosfellssveit bjuggu þau á Bæ í Lóni, skammt austan Hornafjarðar [líkt og landnámsmaður Grindavíkur 60 árum áður, Molda-Gnúpur Hrólfsson].
Í Hauksbók Landnámu segir af þeim hjónum: “Þórðr byggði fyrst í Lóni austr tíu vetr eða fimmtán; en er hann frá til öndvegissúlna sinna í Leirvági, þá seldi hann lönd sín Úlfljóti; … En hann fór vestr með allt sitt ok nam land  at ráði Ingólfs millum Úlfarsár og Leirvágsár ok bjó síðan á Skeggjastöðum. Hans dóttir var Helga, er átti Ketilbjörn hinn gamla at Mosfelli.”
[Í ljósi sögunnar um Helgufoss, Helgusel og Helgustein er ekki óraunhæft að ætla að nafngiftin tengist dóttur landnámsmannsins, enda selstaðan landfræðilega eðlileg frá Skeggjastöðum þótt hún hafði síðar tilheyrt Mosfelli.]
Talið er að þau Þórður og Vilborg hafi komið í Lón um 890 og gætu því hafa verið í Mosfellssveit um 900 eða laust eftir það.
Ættingjar Þórðar skeggja bjuggu í næsta nágrenni Á Mosfellsheiðivið hann. Helgi bjóla nam land á Kjalarnesi frá Mógilsá og var kvæntur Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar, en Helgi og Þórður voru bræðrasynir. Örlygur gamli Hrappsson, bróðir Þórðar, fékk hluta af landnámi Helga bjólu og settist að á Esjubergi á Kjalarnesi þar sem hann byggði fyrstu kirkju á Íslandi eftir því sem Landnáma hermir. Þriðji frændi Þórðar var Hallur goðlausi sem fékk land frá Leirvogsá og að Mógilsá í Kollafirði, Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar og þar með frændi Þórðar skeggja, fékk landið þar sem síðar varð Bessastaðahreppur, Garðbær og Hafnarfjörður.
Vestan við landnám Þórðar skeggja er Gufunes sem var hluti af Mosfellssveit fram á 20. öld. Í einni gerð Landnámabókar er getið um Gufu Ketilsson sem vildi reisa þar bæ en Ingólfur Arnarson rak hann þaðan á brott. Ljóst er að bæjarnafnið Gufunes er ævafornt.
SkeggjastaðirRitheimildir greina ekki frá því hvernig Mosfellssveit byggðist, utan þess sem sagt er um landnámsfólkið á Skeggjastöðum.
Við landnám var Ísland viði vaxið frá fjöru til fjalls. Af þeim sökum var auðveldara að nýta landið til beitar við efri skógarmörk en nær sjó og upphaf byggðar í landinu [er því] að jafnaði frekar til fjalla en við sjávarsíðuna: “Sumir þeir, er fyrstir kómu út, byggðu næstir fjöllum ok merktu at því landskostina, at kvikfét fýstisk frá sjónum til fjallanna.”
Bær Þórðar og Vilborgar, Skeggjastaðir, stóð í norðausturjaðri landnámsins, skammt sunnan Leirvogsár þar sem bæði var lax- og silungsveiði. Bærinn komst fljótt í þjóðbraut því reiðleiðin yfir Svínaskarð liggur framhjá Skeggjastöðum og svonefndur Stardalsvegur yfir Mosfellsheiði lá um bæjarhlaðið.

Helgusel

Landnáma greinir frá fjölmörgum dæmum um landnámsmenn sem reistu bæi sem urðu engin stórbýli, jafnvel þvert á móti. Þannig var því farið með Skeggjastaði, lítið fer fyrir landnámsjörð Mosfellinga í heimildum frá miðöldum, hennar er þó getið í skrá yfir jarðir sem komust undir Viðeyjarklaustur árið 1395 og þá sögð vera 12 hundruð. Hins vegar er ekki minst á Skeggjastaði í upptakningu konungsjarða í Mosfellssveit í svonefndum Fógetareikningum frá miðri 16. öld. Getið eru um Skeggjastaði í Jarðabók 1704 þar sem lýst er Minna-Mosfelli. Þar segir að “selstaða var áður brúkuð frí þar sem nú eru Skeggjastaðir.”
Þórður skeggi og Vilborg eignuðust þrjár dætur, Helgu, Þuríði og Arndísi. Helgu og Þuríðar er getið í Landnámu og Arndísar í Kjalnesinga sögu. Þessar landnámsdætur settust ekki að í Mosfellssveit, þær fluttu með  mönnum sínum í aðrar sveitir, á Kjalarnes, í Biskupstungur og Goðdali. Arndís giftist t.a.m. Þorgrími Helgasyni bjólu frá Brautarholti og bjuggu þau í Hofi á Kjalaranesi. Þau eignuðust soninn Búa og er hann ein aðalpersónan í Kjalnesinga sögu.”

Heimild:
-Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, Pjaxi 2005, bls. 13-15.

Mosfellssveit

Þormóðsdalur

Þormóðsdalur er í Seljadal. Í rauninni er nafnið tengt bænum og jörðinni Þormóðsdal, vestast í Seljadal, norðan Búrfells. Seljadalsáin rennur þar á millum. Samkvæmt aldagamalli sögn er landnámsmaðurinn Þormóður, sem Þormóðsdalur er kenndur við, heygður í Þormóðsleiði. Í landi Dalsins eru nokkrar minjar, sem telja verður áhugaverðar.
FjárborgÓljóst er hvar hinn forni bær stóð nákvæmlega, en þegar verið var að grafa fyrir viðbyggingu austan við nýjasta íbúðarhúsið fyrir nokkrum árum komu í ljós allnokkrar hleðslur og aðrar mannvistarleifar. Tóftir útihúsa eru þarna skammt frá sem og uppi á hól eða hæðarbrún ofan við núverandi íbúðarhús. Ljóst er að bæði land og landkostir hafa breyst þarna umtalsvert á liðnum öldum. Stór gróin svæði hafa orðið gróðureyðingu að bráð og sumsstaðar, þar sem fyrrum voru grónar þústir, eru nú berir melhólar.
Vangaveltur hafa verið um hver hafi verið umræddur Þormóður. Hann hefur að öllum líkindum verið tengdur landeigandanum á einn eða annan hátt. Þess má geta að Þormóður hét sonur Þorkels mána. Þorkell var sonur Þorsteins, sonar Ingólfs Arnarssonar og Hallgerðar Fróðadóttur frá Reykjavík, þeirra er fyrst norrænna manna eru sögð hafa staðfest varanlega búsetu hér á landi (um 874). Þau hjónin bjuggu um tíma búi sínu ofan við tjarnarbakkann, þar sem hús Happdrættis Háskóla Íslands og Herkastalinn eru nú gegnt núverandi ráðhúsi Reykjavíkur. Leifar þeirrar búsetu eru nú horfnar, líkt og svo margt annað. Enn er þó ekki útilokað að takist að endurheimta hluta þeirra við uppgröft á Alþingisreitnum við Tjarnargötu – og rúmlega það.

Fjárhús

Í Sturlubók segir m.a. um þetta: “Ingólfur var frægastur allra landnámsmanna, því að hann kom hér að óbyggðu landi og byggði fyrstur landið; gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum.
Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla; þeirra son var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi var sett.
Son Þorsteins var Þorkell máni lögsögumaður, er einn heiðinna manna hefir best verið siðaður, að því er menn viti dæmi til. Hann lét sig bera í sólargeisla í banasótt sinni og fól sig á hendi þeim guði, er sólina hafði skapað; hafði hann og lifað svo hreinliga sem þeir kristnir menn, er best eru siðaðir. Son hans var Þormóður, er þá var allsherjargoði, er kristni kom á Ísland. Hans son var Hamall, faðir Más og Þormóðar og Torfa.”
Ekki síst þessa vegna hefði verið áhugavert að reyna að staðsetja þann stað er þessi náintengdi landnámsmaður hefur verið talinn hvíla æ síðan.
FjárhúsÞótt nafn Þormóðsdals hafi fyrrum tengst gulum geisla hefur nafnið í nútíma einkum tengst samlitum málmi. Og enn er hafin leit að gulli í Þormóðsdal.
“Forsaga þessarar leitar hófst fyrir tæpum 20 árum síðan þegar ÍSOR, sem þá var hluti Orkustofnunar, hóf skipulega leit að gulli. Ástæða gullleitarinnar voru niðurstöður rannsókna um að gull félli út við sérstakar aðstæður í jarðhitakerfum, og ekkert sem mælti því í mót að slíkt ætti einnig við hér. Fyrsti áfangi leitarinnar tók um þrjú ár, og var farið víða um land. Snemma kom í ljós að Þormóðsdalur, rétt austan Hafravatns, bar af öðrum stöðum hvað varðar magn gulls í bergi. Árið 1997 fór gullleit aftur af stað, og var stofnað fyrirtækið Melmi og fengust fjárfestar í gegnum verðbréfamarkaðinn í Kanada. Leit var haldið áfram og meðal annars voru gerðar viðamiklar yfirborðsrannsóknir í Þormóðsdal og boraðar 9 rannsóknarholur til að kanna útbreiðslu gullríka kvarsgangsins. Þegar rannsókn lauk kom annað hlé, enda áhuginn minni, að hluta til vegna afar lágs gullverðs.
Nú er gullverð enn á ný komið í sögulegt hámark, og hefur ekki verið hærra síðan 1984, og hefur áhugi leitaraðila aukist mikið. Hafa tekist samningar við félag í Bretlandi um að fjármagna enn frekari gullleit í samstarfi við fyrirtækið Melmi. Verður áhersla fyrst lögð á að kortleggja mun betur með borunum kvarsganginn áðurnefnda, og meta rúmmál hans og hæfni til námuvinnslu. Enn fremur eru uppi áform um að hefja enn frekari leit að gulli á svæðum á Vestur-, Norður- og Suðurlandi.”
TóftÞormóðsdalur tilheyrir nú Mosfellsbæ. Í landi bæjarins má víða finna fornminjar og af þeim hafa fjórar verið friðlýstar af Þjóðminjasafni Íslands. Þær eru rústirnar á Blikastaðanesi, Sámsstaðarústir í Hrafnhólum, leifar tveggja fjárborga skammt fyrir ofan Gljúfrastein og Hafravatnsrétt við austurenda Hafravatns. Auk þessara merku friðlýstu minja má nefna hólana tvo eða fornmannaleiðin: Hraðaleiði á landamærum Hraðastaða og Mosfells og Þormóðsleiði í Seljadal. Samkvæmt aldagamalli sögn er Hraði, þræll sem fékk frelsi til forna og byggði Hraðastaði, heygður í Hraðaleiði og, eins og fyrr er lýst, er Þormóður heygður í Þormóðsleiði.

Ef skoðuð er örnefnalýsing Tryggva Einarssonar í Miðdal um Þormóðsdal kennir ýmissa grasa. Tryggvi var gagnkunnugur í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi var fæddur í Miðdal árið 1901 og hafði átt þar heima alla sína tíð. Hann skráði lýsinguna veturinn 1976-77.
“Að vestan ræður Hafravatn mörkum, að sunnan Seljadalsá og árförin inn í Leirdal. Lýsi ég örnefnum frá vesturmörkum.
Hafravatnseyrar eru að mestu uppgrónar (nú ræktað tún), markast af Seljadalsá að vestan og Hafravatni að norðan. Fyrir sunnan Hafravatnseyrar er hólaþyrping að Seljadalsá, er Vesturhólar heita. Austur af Vesturhólum, upp með Seljadalsá, eru stakir hólar, sem Sandhólar heita. Norðan við Sandhóla er mýri, sem Reiðingsmýri heitir, var þar nothæf reiðingsrista, en heytorf gott. Voru til menn, sem ristu allt að 300 torfur á dag. Norður af Reiðingsmýri er Grafarmýri; var þar mótak, frekar lélegt. Upp með Seljadalsá að Þormóðsdal eru melar, er Þormóðsdalsmelar heita. Vestur af Þormóðsdalsmelum eru grastorfur, er Torfur heita.
KambsréttVið Hafravatn er Hafravatnsrétt. Sunnan við réttina er fallegur klettahóll, sem Stekkjarhóll heitir. Skammt austan við Stekkjarhól er Stekkjarás.
Vestan undir Stekkjarás er stekkur ásamt beitarhúsum frá Þormóðsdal. Norðaustur af Hafravatnsrétt er Stekkjargil.”
Þegar svæðið milli Stekkjargils og Seljadalsáar er skoðað má sjá móta fyrir víðfeðmri fjárborg, dómhring eða öðru hringlaga mannvirki á vind- og vatnssorfnum melhól, nokkru suðvestan við bæjartóftirnar. Markað hefur verið fyrir mannvirkinu með grjóthring, sem sést enn. Mannvirkið hefur verið gert úr torfi, en er nú löngu horfið af hólnum, enda gróðureyðingin þarna mikil. Eftir stendur grjóthringurinn mótunarumlegi.

“Í túninu í Þormóðsdal, skammt sunnan við bæinn, er talið, að Þormóður, sem bærinn dregur nafn sitt af, sé grafinn. Er þar en[n] að sjá upphlaðið leiði. Hefur því verið haldið við, svo lengi sem ég man eftir. Eru ámæli á leiði þessu, að sé það slegið, eiga að farast 3 stórgripir. Leiðið var slegið með vilja og vitund einu sinni í minni tíð. Fórust þá á árinu 3 stórgripir á hryllilegan hátt.”
Þrátt fyrir leit að leiðinu fannst það ekki svo öruggt mætti teljast. Bæði hefur svæðinu sunnan við bæinn verið raskað með Nærselvegagerð og athafnasvæði, auk tún- og trjáræktar. Mun gamall maður, Steingrímur, fyrrum ábúandi og hagvanur þarna á svæðinu, eitt sinn hafa skimað eftir leinu, en þá talið að það hefði farið undir nýja veginn. Gamli vegurinn sést þarna enn að hluta (lá fast niður við íbúðarhúsið), en þegar malbikaði vegurinn var lagður fyrir nokkrum árum (upp í malargryfjurnar undir Stórhól ofar í dalnum) er talið að hann hafi verið lagður yfir Þormóðsleiði, líkt og gert var við Járngerðarleiðið í Grindavík á sínum tíma. A.m.k. eru engin (eða nær því engin) ummerki eftir það sjáanleg nú – og er það skaði. Þar með er a.m.k. ein minjaperla Mosfellsbúa, sem fyrr er getið, horfin vegna gátleysis.
Á brún austan við Þormóðsdal eru leifar lítillar tóftar. Þegar nýi vegurinn var lagður hefur verið krukkað utan í syðsta hluta hennar. Tóftin er þrískipt; tvö rými og gerði vestast. Fróðlegt væri að komast að því hvað þessi tóft hefur haft að geyma, en a.m.k. austasti hluti hennar er nokkuð heillegur að sjá.
“Í túninu norðan við Þormóðsdalsbæinn er stór hóll, er Gapi heitir [á honum eru tóftir]; vestan undir Gapa er Gapamýri.
Norður af Þormóðsdalsbænum er fell, sem Þverfell heitir að gildragi nokkru austar. Þá tekur við Þormóðsdalsfjall. [Sukkar eru ofar og austar}. Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. Heitir sá lækur Árneslækur. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. Voru þar aðalútengjaslægjur Þormóðsdals. Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sést þar vel fyrir tóftum.”

Nessel

Sauðahús þetta er mjög stórt. Vel sést enn móta fyrir útlínum þess. Aftan (norðan) við það er hlaða eða heygarður. Sunnan við húsið mótar fyrir gerði. Skammt norðaustan við tóftina er næstum jarðlæg fjárborg eða fyrrum hús á lágum grónum hól. Mannvirki þetta hefur allt verið úr torfi, líkt og mannvirkið er áður var lýst á melhólnum suðvestan við bæinn. Enn má þó sjá móta fyrir stærð þess og lögun. Það hefur eflaust tengst sauðahúsinu, en virðist þó eldra af ummerkjum að dæma. Kannski sauðahúsið hafi orðið til þarna vegna borgarinnar.

Ofar er varða á klapparholti. Norðan hennar sést móta fyrir tóft í valllendi. Hún er að mestu jarðlæg og erfitt er að áætla notkunargildi hennar.
“Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir.”
Hér er um að ræða tóftir, sem FERLIR fann nýlega eftir loftmynd. Við skoðun komu í ljós tvo mannvirki, er benda til þess að hafi verið sel. Ef ekki hefði komið til uppbit hrossa á þessu svæði hefðu tóftirnar að öllum líkindum horfið í landslagið, eins og þær hafa gert um langan aldur.
Kambsrétt“Skammt fyrir norðan Hesthól er brattur hóll, sem Kambhóll heitir. Sunnan undir Kambhól er fjárrétt, er Kambsrétt heitir. Var hún notuð sem vorrétt. Við Kambsrétt er fallega gerður vegarspotti, sem var gerður fyrir konungskomuna 1874. Skammt fyrir austan Kambsrétt er árspræna, sem rennur niður í Seljadalsá í Seljadal; heitir hún Nesselsá. Upptök Nesselsár eru í sérkennilega fallegum krika undir suðvesturhorni Grímannsfells. Heitir sá kriki Nessel, talið sel frá Gufunesi; sést þar fyrir seltóftum.” Hér er Nessel talið hafa verið frá Gufunesi, en í örnefnalýsingu Ness er það talið hafa verið frá Nesi á Seltjarnarnesi. Reyndar er einungis sagt að Nes hafi haft selstöðu í Seljadal, en telja má líklegt að enn eigi eftir að finnast tóftir selja í dalnum – við nánari leit. (Enn á eftir að gaumgæfa suður- og austurhluta dalsins). Þá er ekki vitað með vissu hvaða bæ Nærsel hafi tilheyrt, en það er jú í Seljadal.
Vekjandi athygli á ógætilegri vegagerð í nálægð má vel sjá á veginum í gegnum Kambsréttina miðja hversu lítið hugsunarháttur vegagerðarhönnuða hefur lítið breyst í langan tíma, eða allt frá tímum fyrstu vegargerðar hér á landi allt að því til dagsins í dag. Á allra síðustu árum virðist þó vera farið að rofa svolítið til í þessum efnum – til hins betra.

FERLIR skoðaði nýlega Kambsréttina sem og Nesselið, auk tófta tveggja annarra selja í Seldalnum.
Að lokum segir í örnefnalýsingu Tryggva að “suðvestur af Nesseli er hár hóll með klettaborgum að ofan, sem Hulduhóll heitir. Norðan við Nessel er hár melhryggur, sem Torfadalshryggur heitir. Norðaustur af Nesseli, uppi í Grímannsfelli, er áberandi urð, er Skollaurð heitir; þar er tófugreni. Nálægt miðju Grímannsfelli að sunnan er Illagil. Nær það hátt upp í fellið og er með öllu ófært yfirferðar; er tófugreni skammt frá efri enda gilsins.”
Sem fyrr segir verður eitt af verkefnum FERLIRs að skoða sunnanverðan Seljadalinn m.t.t. hugsanlegra tófta þar. Fjallað er og um gullvinnslu í Þormóðsdal HÉR.

Heimildir m.a.:
-isor.is
-mosfellsbaer.is
-Sturlubók.
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal.

Járnbrautarteina

Egill Skalla-Grímsson

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kristian kålund

P.E. Kristian Kålund.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Kjósarsýsla – Egill Skalla-Grímsson

Kålund

Rit Kålunds.

Kjósarsýsla hefur allt annað yfirbragð en Gullbringusýsla, og inn í hana liggur leiðin af Seltjarnarnesi. Þegar komið er yfir Elliðaár, blasir við mikill hluti Mosfellssveitar; eru þar einnig grýtt holt og ógrónir melar, en mestur hluti landsins er þó grösugur, sums staðar þýfðar mýrar eða engjadrög, en bæir með græn tún liggja dreift þar sem hærra er og þurrara, en smáfjöll og hæðir skipta bygðinni í daladrög og smábyggðir. Í fiskibyggðum er algengt, að bæir og hús standi saman í þyrpingum næstum eins og sveitaþorp í Danmörku, en upp til landsins er annar háttur á; aðeins hér og þar má sjá stóran bæ, þar sem landi hefur verið skipt og mynduð svokölluð hverfi eða þorp, heldur liggur hver bær venjulega út af fyrir sig mitt í landareign sinni.

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

En tvímælalaust er Mosfellsdalurinn, sem liggur nyrst, merkilegastur dalur í Mosfellssveit. Hann er þeirra stærstur og einnig merkilegur sögulega, því að þar dvaldist Egill Skalla-Grímsson síðustu æviár sín. Hann nær upp frá Leirvognum frá vestri til austurs. Norðan við hann er Mosfell, aflangt hvelft fjall, liggur í sömu stefnu og dalurinn, og hallast jafnt niður til austurs, nær í fremur lága heiði. Undir eða í suðurbrekku Mosfells eru þrír bæir, Hrísbrú, Mosfell og Minna-Mosfell. –

Mosfell

Mosfell.

Mosfell er myndarlegur bær, prestsetur og kirkjustaður, í miðið, Minna Mosfell. Á Mosfelli bjó að sögn Egils sögu höfðinginn Grímur Svertingsson, kvæntur Þórdísi stjúpdóttur Egils Skalla-Grímssonar og bróðurdóttur. Egill fluttist þangað eftir dauða konu sinnar, varð gamall maður og síðast með öllu blindur.
Sagan segir (297-98), að eitt sinn þegar Grímur var á Alþingi og Þórdís í seli sínu, skipaði Egill kveld eitt tveimur þrælum sínum að fylgja sér til laugar; þeir fengu honum hest. Menn sáu, að Egill tók með sér silfurkistur sínar, sem Aðalsteinn konungur hafði gefið honum, og fór ásamt þrælunum niður túnið og hvarf bak við hæð sem þar er. Næsta morgun sáu menn að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan túnið (eiginlega; gerðið) og teymdi hestinn. Menn fylgdu honum heim; hann sagði að hann hefði drepið þrælana og falið kisturnar, en meira sagði hann engum. Margar ágiskanir komu síðar fram, segir sagan, hvar Egill hefði falið fé sitt. Austan við túnið á Mosfelli liggur gil mikið niður úr fjallinu; þar hafa fundist enskir peningar, er hljóp úr gilinu eftir mikla leysingu; því giska sumir á þann stað. Fyrir neðan túnið á Mosfelli eru stór og mjög djúp fen, og halda margir, að Egill hafi kastað þar í fé sínu. Sunnan við ána eru “laugar” og skammt frá djúpar jarðholur, og ætla sumir, að þar hafi Egill falið fé sitt, því oft hefur sést þar haugaeldur. Egill lést skömmu síðar og var fluttur niður í Tjaldarnes og orpinn haugur yfir hann. En þegar Grímur á Mosfelli var skírður, lét hann reisa þar kirkju (þ.e. á Mosfelli). Er sagt, að Þórdís hafi þá látið flytja bein Egils til kirkjunnar. Til þess bendir, “að síðan er kirkja var gerð á Mosfelli, en ofan tekin á Hrísbrú sú kirkja, er Grímur hafði gera látið, þá var þar grafinn kirkjugarður”, og þá fundust undir altarinu mjög stór mannabein, sem að sögn gamalla manna voru bein Egils. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarðinum á Mosfelli. (Eg.s. 298-99). Meðal þeirra sem voru viðstaddir þegar þetta gerðist nefnir sagan Skafta prest Þórarinsson, en hann er telinn sá sem nefndur er lifandi árið 1143, og hafa menn því ætlað að kirkjan hafi verið flutt um miðja 12. öld.

Samkvæmt Gunnlaugs sögu (61) bjó höfðinginn Önundur nokkru síðar á Mosfelli, sem hafði goðorð “suður um nesin”, sonur hans var Hrafn, er fær að konu Helgu hinnar fögru í fjarveru sambiðils síns, Gunnlaugs ormstungu. Eftir að Gunnlaugur og Hrafn höfðu fellt hvor annan í hólmgöngu í Noregi, ríður Illugi, faðir Gunnlaugs með 30 menn til Mosfells. Önundur og synir hans komust í kirkju, en Illugi náði tveimur frændum hans og lét drepa anna, en fóthöggva hinn (Gunnlaugs saga 105).

Kýrgil

Kýrgil – uppdráttur ÓSÁ.

Sjá má á frásögn Egils sögu, að kirkja sú er Grímur reisti, hefur staðið við Hrísbrú, en hún hefur ekki getað verið sjálfstæð jörð, því sagan segir, að kirkjan hafi verið á Mosfelli, en segir sjálf síðar, að hún hafi verið að Hrísbrú. Í samræmi við þetta er það, að rétt við bæinn Hrísbrú nokkur skref til útnorðurs, er hóll, Kirkjuhóll, þar sem gamla kirkjan á að hafa staðið. En bærinn hlýtur næstum að hafa staðið þar sem kirkjan var upphaflega reist. Svo sem áður hefur verið tekið fram, má það heita föst reglu á íslenskum kirkjustöðum, að kirkjan er upphaflega sett annaðhvort gagnvart eða fast við bæjarhús, fyrirkomulag sem var mjög hagkvæmt, svo sem sjá má af tilvitnunni í Gunnlaugs sögu, að kirkjuna mátti nota sem nokkurn veginn öruggt hæli, ef óvinir sóttu að. Ekkert er það heldur sem mælir á mót, að bærinn á Mosfelli hafi upphaflega staðið þar sem Hrísbrú er nú, og þessi staður hefði vel getað þótt heppilegastur fyrir fyrsta ábúanda; hér er fjallshlíðin hæst og graslendið breiðast þaðan og fram að mýrinni, og miðað við þann mikla búrekstur sem einkenndi höfuðbólin í fornöld er ekkert óeðlilegt að hugsa sér, að túnið hafi náð langt austur á við og jafnvel yfir tún Mosfells og Minna-Mosfells. Bærinn hefur auðvitað ekki breytt um nafn, þó að hann væri fluttur, aftur á móti hlaut bærinn, sem byggður var úr Mosfells landi og reistur var annað hvort samstundis eða síðar á gamla bæjarstæðinu, að fá nýtt nafn, og það kann að hafa legið beint við, þar sem Hrísbrú var, því að bærinn hefur verið nefndur eftir vegi, sem var lagður hrísi, og kann að hafa verið þess ærinn þörf á leið yfir mýrina fyrir neðan bæinn.

Kýrgil

Tóft í Kýrgili.

Gilið sem sagan minnist á, þar sem Egill kynni að hafa falið fé sitt, er vafalaust Kýrgil, sem svo er nefnt; það liggur austan túns á Minna-Mosfelli; þar nær efst ofan úr fjalli niður í rætur og er alldjúpt, og rennur lítill lækur eftir botni þess. Auk þess eru tvö önnur gil, en miklu minni, í fjallinu milli Hrísbrúar og Mosfells.
Margir hafa velt fyrir sér hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og auðvitað er það vafamál. Giskað hefur verið á (Magnús Grímsson prestur á Mosfelli hefur skrifað ritgerð; “Athugasemdir við Egils sögu Skallagrímssonar”, er hún í Safni til sögu Íslands II. Er stuðst við frásögn hans í lýsingunni hér á staðháttum í Mosfellsdalnum), að Egill hafi fyrst farið venjulega leið til laugar og þegar hann á heimleið hafi komið að “jarðholnum” við ána, hafi hann kastað kistunum þar niður og ef til vill múta þrælunum til að þegja og síðan haldið ferð áfram, þar til hann kom að Köldukvísl, en síðan farið upp eftir árbakkanum, milli hennar og mýrarinnar blautu, sem fyrr er nefnd, þar til niðurinn í Kýrgilinu heyrist; þar er um það bil niður af Minna-Mosfelli mikill og djúpur forarpyttur, er nefnist Þrælapyttur, og segja munnmæli, að þar hafi þrælarnir fundist – en ekki er það nefnt í sögunni. Hafi Egill drepið þrælana þarna, hefur hann auðveldlega getað komist þaðan að gilinu – er þá gert ráð fyrir, að vatn hafi verið í því – og síðan upp með því.
Sjá meira um Kýrgil og Þrælapytt HÉR.
Jón Ólafsson frá Grunnavík segir svo frá í stuttri íslenski ritgerð um fornminjar fundnar víðs vegar á Íslandi utan hauga” (Addit, 44 fol.), að Erlendur bróðir hans – sýslumaður í Ísafjarðarsýslu – hefði sagt honum, að um 1725 þegar hann var á unga aldri var í þjónustu skólameistara í Skálholti, hefðu eitt sinn nokkru af földu fé Egils skolað fram í vatnavöxtum; hefðu um 3 peningar fundist, hefði hann séð einn þeirra og hefði hann verið á stærð sem tískildingur (“tískildingr heill vorra tíma”); á honum hefði verið ógreinileg áletrun ef til vill ANSLAFR eða eitthvað þess háttar. Magnús Grímsson greinir frá munnmælum um, að fátækur bóndi eigi að hafa fundið fé Egils í Kýrgili, leynt fundinum, en allt að einu orðið auðugur maður.

Hrísbrúarsel

Hrísbrúarsel ofan við Selás.

Ekki er ljóst, hvar selið hefur verið þar sem Þórdís dvaldist, meðan Egill kom áformi sínu fram. Norðan við Mosfell er dálítið hæðardrag, sem heitir Selás, og telja flestir að þar sé staðurinn. Nú eru selfarir sjaldgæfar á Íslandi, til þeirra þarf mikinn mannafla, en áhöfn sjaldan svo stór, að slíkt borgi sig. Mosfell er þó einn þeirra bæja, þar sem það hefur jafnan verið stundað, en á síðari tímum hefur seljalandið verið í hallanum í Mosfellsheiði niður í Mosfellsdalinn, þar sem heita Gullbringur.

Egill Skalla-Grímsson

Höfuðkúpa Egils Skalla-Grímssonar?

Örnefnið Tjaldanes þekkist nú ekki, en lítill oddi, Víðiroddi (eftir nafni slétturnar Víðir), er þar sem árnar tvær renna saman, um 7-800 faðma suðvestan við Hrísbrú; liggur þarna yfir alfaraleið meðfram Köldukvísl, en einmitt oddinn á á vera áfangastaður sá sem nafnið Tjaldanes bendir á, og orð sögunnar “ofan í Tjaldanes” eiga vel við staðinn; í oddanum er lítil hæð, sem gæti verið leifar af haug. Staðurinn er fallegur, og ef Egill hefur verið jarðsettur þar, hefur sannarlega verið vel valið.”

Í “Skráning fornleifa í Mosfellsbæ” 2006 segir m.a. um Hrísbrú:
“Í Örnefnalýsingu Hrísbrúar getur um stæði kirkjunnar, sem þar var talin hafa verið: „Vestur af bæ er stór hóll, sem heitir Kirkjuhóll. Hann er norðvestur frá bæ; þar stóð kirkjan áður fyrr, og kirkjugarður var hér ofan við tröðina“ (Ari Gíslason). Svo segir Magnús Grímsson: „Þess er þegar getið, að þegar kristni var í lög leidd á Íslandi var Grímr að Mosfelli skírðr, og lét þar kirkju gjöra. En sú kirkja stóð á Hrísbrú. Er eptir því alllíklegt, að bær Gríms, sem þá var hinn eini undir fellinu, hafi staðið þar, sem Hrísbrú er nú, og skal þar um tala síðar betr. Grímr hefir byggt sína kirkju eptir árið 1000, líklega stuttu eptir, en hún stóð á sama stað þángað til í tíð Skapta prests Þór-arinssonar, eðr þángað til um miðja tólftu öld. Þessi Skapti prestr Þórarinsson er að ætlan manna sá, sem talinn er meðal nokkurra presta, kynborinna íslenzkra, er uppi voru árið 1143. Og í formálanum fyrir Egils sögu (Rvík 1856, vi bls.) byggir Jón Þorkelsson á því þá ætlan sína, að kirkjuflutningurinn hafi farið fram einhvern tíma á árunum 1130-1160. Hefir því kirkjan staðið á Hrísbrú hérumbil … 150 ár“ (bls. 255). Talsverðar vangaveltur eru um hvar hinn fyrsti bær að Mosfelli hafi staðið. Kålund álítur að hann hafi upphaflega staðið á Hrísbrú ásamt kirkjunni. Síðan hafi bærinn verið fluttur að Mosfelli og kirkjan á eftir (Kålund, bls. 50). Sigurður Vigfússon ræðir þetta mál einnig en kemst að annarri niður-stöðu en Kålund. Álítur hann frásögn Egils sögu um kirkju á Hrísbrú, sem seinna var flutt að Mosfelli, rétta. Um bæjarflutning og þar með nafnbreytingu var ekki að ræða. Álítur Sigurður að kirkjan á Hrísbrú hafi verið flutt að Mosfelli á árabilinu 1130-1160 (Sigurður Vigfússon, bls. 62-74). Í útgáfu sinni að Egils sögu telur Sigurður Nordal líklegast að kirkjan hafi fyrst verið byggð fjarri bænum að Mosfelli en seinna verið flutt að bænum og hjáleigan Hrísbrú byggð á gamla kirkjustaðnum (Egils saga, bls. 298 n.m.).

Hrísbrú

Uppgröftur á Hrísbrú.

Sunnan við Köldukvísl er hluti af stykki því, sem nefnt er Víðir og er í eigu Hrísbrúar. Neðsti oddinn á Víðinum nefnist Tjaldanes en á nesi því var Egill Skalla-Grímsson heygður (Ari Gíslason). Haugurinn liggur fast við ána (Köldukvísl) að sunnanverðu, um 100 m frá oddanum, þar sem Suðurá og Kaldakvísl mætast. Um 50 m neðan (N) þjóðvegarins upp Mosfellsdal. Haugurinn er um 7,70 m langur í vestur og um 5 m í norður. Hann er á árbakkanum og sýnilegt er að áin hefur brotið talsvert af honum. Auðsætt er, að haugurinn hefur einhvern tíma náð talsvert lengra í norður, eða alveg að farveg árinnar nú. Upphafleg stærð hans hefur mjög líklega verið um 7,70 m í norður og vestur, sem jafnframt hefur verið þvermál hans í báðar áttir. Enn sést greinilega að haugur þessi, sem svo er kallaður, hefur verið hringlaga. Sker hann sig vel frá umhverfinu og sést nokkuð langt að, sjái maður oddann á annað borð. Haugurinn er hæstur um miðjuna um 0,5 m, en er aflíðandi í suður. Norðan miðju er hann mikið skemmdur, örugglega af vatnagangi árinnar, sem framhjá rennur. Fáeinar þúfnamyndanir eru utan á haugnum. Til að sjá er haugurinn eins og lág bunga eða upphækkun fremst á bakka Köldukvíslar. Nú er girðing yfir hann endilangan frá austri til vesturs. Land það, sem hann stendur á er nú notað til hestabeitar og er allt afgirt. Haugurinn er líkastur því, sem um náttúrumyndun sé að ræða, en skal þó ekkert fullyrt í þeim efnum. Engar hleðslur eru heldur sjáanlegar þar. Um 14 m sunnan við hauginn eru undirstöður stálgrindahúss eða bragga. Vestan við haug þennan er smáþýfi, um 20-50 m, og eilítið grænna. Líklega er þetta svona frá náttúrunnar hendi, e.t.v. getur lítil tóft eða tóftir leynst þarna þótt ótrúlegt sé (Ágúst Ó. Georgsson). Í Víðisoddanum er sagt að verið hafi áningarstaður ferðamanna fyrr á tímum.”

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 31-37.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.