Mosfellsbær

Þegar leitað er efnis um Mosfellsbæ má finna ágætt upplýsingakort af því helsta sem sveitarfélagið býður upp á hvað varðar útivist og sögulegan fróðleik:

Mosfellsbær – sveit með sögu

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Mosfellsbær er um 200 ferkílómetrar að flatarmáli og afmarkast af Reykjavík (áður Kjalarneshreppi) að norðan, að austan af Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppi og Sveitarfélaginu Ölfusi, að sunnanverðu af Kópavogi og að vestanverðu af Reykjavík. Í aldanna rás hét sveitarfélagið Mosfellshreppur og náði allt að Elliðaám fram á 20. öld en 9. ágúst 1987 lauk langri sögu hreppsins og Mosfellsbær varð til.  [Mosfellssveit náði framan af að Elliðaám. Öll braggabyggð austan Elliðaáa var því í Mosfellssveit – SH].
Sögu byggðar í Mosfellssveit má rekja aftur á landnámsöld þegar Þórður skeggi og Vilborg Ósvaldsdóttir námu land milli Leirvogsár og Úlfarsár. Þau bjuggu á Skeggjastöðum en „frá Þórði er margt stórmenni komið á Íslandi,“ segir í Landnámu.

Mosfellsbær

Lágafell – Þarna er viðbygingin sem hýsti m.a. Lestarfrélagið.  Þinghúsið er ekki risið.
Í ágúst árið 1890 komu nítján Mosfellingar saman við hamarinn hjá Seljadalsá við sunnanvert Hafravatn. Þar stofnuðu þeir Lestrarfélag Lágafellssóknar; nú Bókasafn Mosfellsbæjar. Lestrarfélagið var eitt fyrsta félagið sem stofnað var í Mosfellssveit og lét fleira til sín taka en söfnun bóka og útlán þeirra. Félagið var eign þeirra sem greiddu árgjald, og safnaði fé með ýmsum hætti til bókakaupa, m.a. með tombóluhaldi og öðrum skemmtunum. Árið 1890 voru íbúar í sókninni 404 sálir.

Allt fram á síðari hluta 19. aldar ríkti kyrrstætt bændasamfélag í Mosfellssveit, líkt og annarsstaðar á Íslandi. Sveitin var að vísu í þjóðbraut því um hana lágu leiðir til Vesturlands, Þingvalla og austur fyrir fjall. En íslenskir bændur voru ekki alltaf að flýta sér til móts við nútímann og þegar fyrsti hestvagninn sást í Mosfellssveit á ofanverðri 19. öld töldu menn að eigandinn væri genginn af göflunum!
Kringum aldamótin 1900 varð félagsleg vakning í Mosfellssveit, ýmis félög voru stofnuð, til dæmis lestrarfélag, kvenfélag og ungmennafélag. Smám saman urðu atvinnumálin einnig fjölbreyttari: Ullarverksmiðjan á Álafossi tók til starfa árið 1896 og fyrsta gróðurhús landsins var byggt á Reykjum árið 1923. Mikinn jarðhita er að finna í Reykjahverfi og Mosfellsdal og vagga íslenskrar ylræktar stóð í Mosfellssveit.
Mosfellssveit og þegar þeim lauk voru yfirgefnir hermannabraggar meðal annars nýttir undir starfsemi Reykjalundar sem tók þá til starfa.
Allt frá stríðslokum hefur verið mikil fólksfjölgun í sveitarfélaginu, fyrsta stóra stökkið í þeim efnum varð á 8. áratugnum og nú búa meira en átta þúsund manns í sveitinni milli fellanna þar sem fjölbreytt náttúra og áhugaverð saga haldast í hendur.

Hernámsárin

Mosfellsbær

Helgafells hospital.

Hinn 10. maí 1940 steig breskt hernámslið á land í Reykjavík og tók fljótlega að hreiðra um sig í Mosfellssveit, í tjöldum og síðan bröggum. Umsvif hernámsliðsins gjörbreytti ásýnd sveitarinnar og mannfjöldinn margfaldaðist; ári síðar kom bandarískt herlið til sögunnar og leysti það breska af hólmi. Braggahverfi, svonefndir kampar, risu víða í Mosfellssveit og hlutu erlend nöfn, til dæmis Whitehorse, Victoria Park og McArthur. Flestir kamparnir voru í námunda við Varmá og í sunnanverðri sveitinni, meðal annars í grennd við Hafravatn og Geitháls.
Norðvestan við Hafravatn stóð kampurinn Jeffersonville. Þar var meðal annars bakarí og ekið með framleiðsluna í önnur braggahverfi en einnig voru hér skotfæra- og birgðageymslur svo og bílaverkstæði. Braggabyggðin við Hafravatn er horfin en enn má sjá marga húsgrunna á þessum slóðum sem vitna um mannlíf undir bogalaga bárujárni á liðinni öld.

Stekkur

Helgafell

Helgarfell – stekkur í Stekkjargili.

Við erum stödd neðan við Stekkjargil í austanverðu Helgafelli og grjóthóllinn sem blasir við okkur heitir Stórhóll. Gilið dregur nafn sitt af fjárstekk frá bænum Helgafelli og má sjá rústir hans hér undir brekkunni. Stekkur er lítil fjárrétt, notaður til að mjalta ær og var þessi stekkur sennilega nýttur fram yfir aldamótin 1900 en var þá stækkaður og breytt í fjárhús eða beitarhús.
Í Stekkjargili eru ágætir bithagar en gróðurfar í Mosfellssveit mótast af landslagi og hæð yfir sjávarmáli. Efst eru fellin gróðursnauð en gróðurþekjan þéttist þegar neðar dregur, líkt og hér í Stekkjargili.
Jarðvegurinn í Mosfellsbæ er víða frjór og lífrænn og reyndist hentugur til mótekju en mór er jurtaleifar sem var áður fyrr notaður til húshitunar og eldamennsku. Mógrafir voru allvíða í sveitarfélaginu, meðal annars í Stekkjarmýri sunnan við Stekkjargil.

Helgafell
Helgafell
Helgafell rís 216 metra yfir sjávarmáli og þeir sem ganga á fjallið verða verðlaunaðir með góðu útsýni yfir Mosfellsbæ og Sundin blá. Efst á fellinu má sjá rústir af varðbyrgi frá hernámsárunum og vestan fjallsins eru leifar fjöruborðs, í 55 metra hæð yfir sjávarmáli, sem skýrist af því að eftir að ísaldarjökullinn tók að hopa fyrir um 10.000 árum gekk sjór inn á láglendið í Mosfellssveit.
Algengasta gönguleiðin á Helgafell hefst á svonefndum Ásum við Þingvallaveg. Leiðin liggur framhjá tveimur steyptum vatnstönkum frá hernámsárunum sem voru notaðir til að miðla köldu vatni í stórt sjúkrahúshverfi sem reis á Ásunum og nefnt var Helgafell Hospital.

Helgafell

Helgafell – Stekkjartjörn (loftmynd).

Göngusneiðingur liggur upp fjallið að vestanverðu og þar sem lagt er á brattann er smálaut sem er leifar af lítilli gullnámu frá því snemma á 20. öld. Forsaga málsins er sú að skömmu eftir aldamótin 1900 tóku menn að gera sér vonir um að finna gull í Mosfellssveit, einkum við Seljadalsá í suðurhluta sveitarinnar. Þegar bóndinn á Reykjum auglýsti jörð sína til sölu árið 1911 skrifaði hann í blaðaauglýsingu: „Reykjaland liggur meðfram Þormóðsdals landareign að norðan, og stefnir gullæðin þar á það mitt. Líka kvað hafa fundist gull í næstu landareign að norðan í líkri stefnu (Helgafelli).“ Engar frekari sögur fara af gullinu í Helgafelli.

Reykir

Mosfellsbær – herseta á Reykjum.

Árið 1942 voru reistar spítalabúðir í landi Suður­Reykja,­ þar sem Reykjalundur er í dag. Spítalinn hóf starfsemi með 250 sjúkrarúmum í októbermánuði,­ en hafði rými fyrir 550 sjúklinga í neyðartilvikum. Álafoss Hospital var aðeins starfræktur í eitt ár en starfsemin þá flutt í Helgafell Hospital vegna fækkunar í herliðinu. Reykjabændur,­ þeir Bjarni Ásgeirsson og Guðmundur Jónsson,­ voru leigusalar lóðarinnar til hersins. Flestir braggarnir voru fljótlega fjarlægðir en S.Í.B.S. keypti lóðina og hóf starfsemi sína m.a. í þeim sem eftir stóðu og voru í notkun fram á sjöunda áratuginn.

Sjá upplýsingaskilti Mosfellsbæjar HÉR og HÉR.

Mosfellsbær

Liðskönnun Bandaríkjahers í íbúðarhverfi Camp Jeffersonville. Fjær sér í verkstæðisbyggingar í neðri hluta búðanna og rýkur úr reykháfi kaffibrennslunnar sem þar var ásamt þvottahúsi, birgðageymslum og margskonar verkstæðum, t.d. fyrir vopnabúnað auk skóvinnustofu. Hafravatnsfell í baksýn.