Færslur

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall er margbrotið fjall norðaustan Grindavíkur, stærsti stapinn á svæðinu. Örnefni í Fagradalsfjalli má t.d. nefna Langhól, efstu bungu fjallsins í norðri. Auðveldasta uppgangan á hann er upp af Görninni í suðvestanverðu fjallinu. Þaðan er þægilegu aflíðandi gangur á hólinn. Fagurt útsýni er af honum allt til höfuðborgarsvæðisins. Þá ma nefna Geldingadal þar sem „dys“ Ísólfs er að finna. Stóri-hrútur er í austanverðu fjallinu, keilulagaður stapi, og Borgarfjall er í því sunnanverðu. Kastið vestan í Fagradalsfjalli er sögustaður flugvélaflaks úr Seinni Heimstyrjöldinni, líkt og Langihryggur autan í því sem og Langóllinn fyrrnefndi. Fagridalur, sem fjallið tekur nafn sitt af er undir því norðvestanverðu. Þar hvílir Dalsselið, selstaða frá Þórkötlustöðum. Skammt ofar og austar er mikilfenglegur, þverskorinn, gígur fjallsins í Kálffelli. Samnefnt fell er einnig skammt norðvestar.

Í Náttúrufræðingnum árið 2011 er fjallað um jarðskjálftahrinu við Fagradalsfjall í maí 2009.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni.

Árið 2009 var rólegt á skjálftasviðinu. Mestu skjálftar ársins urðu í allsnarpri skjálftahrinu við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Forskjálftavirkni hófst um kl. 17 þann 29. maí, en meginskjálftinn, 4,7 stig, varð kl. 21:33 sama kvöld. Upptök hans voru við vestanvert Fagradalsfjall. Hann fannst víða um suðvestanvert landið, vestur í Búðardal og austur að Hvolsvelli og olli meira aðsegja grjóthruni í Esju, eins og nefnt er í kaflanum um skriðuföll. Fjöldi eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið, sá stærsti kl. 13:35 daginn eftir með upptök við norðanvert fjallið. Hann var 4,3 stig og fannst einnig víða. Alls mældust um 2000 skjálftar í hrinunni sem gengin var um garð fyrir mánaðamótin.

Í Náttúrufræðingnum 1966 fjallar Guðmundur Kjartansson um „Stapakenninguna og Surtsey“. Fagradalsfjall er vestastur stapa landsins.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.

Á þremur stórum svæðum Íslands er berggrunnurinn að mjög miklu leyti úr móbergi og allur myndaður af eldgosum seint á ísöld, einkum síðasta jökulskeiðinu. Þetta eru móbergssvæði Norðurlands, Miðsuðurlands og Suðvesturlands. Þau eru öll fjöllótt, og fjöllin, sem eru úr móbergi með mismiklu ívafi af bólstrabergi, eru tvenns konar að gerð: flest hryggir, en sum stapar.

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli.

Svo er um þessa fjallgerð, stapana, sem aðrar „gerðir“, að hún bendir til sameiginlegs uppruna einstaklinganna, sem til hennar teljast. Uppruni stapanna hefur verið skýrður á þrjá allólíka vegu:
1. Rofkenningin: Fjöllin hafa meitlazt fram við gröft vatna, jökla eða jafnvel sjávar úr víðáttumiklu hálendi, sem var h. u. b. jafnhátt og brúnir fjallanna eru nú.
2. Misgengis- eða höggunarkenningin: Fjöllin eru ris (horstar), þ.e. misgengnar jarðskorpuspildur, og fylgja misgengissprungurnar hlíðum þeirra allt í kring.
3. Upphleðslukenningin: Fjöllin hafa hlaðizt upp í eldgosum og fremur lítið breytzt síðan að stærð eða lögun.
Fyrstu áratugi þessarar aldar voru mjög skiptar skoðanir meðal jarðfræðinga um það, hver þessara kenninga ætti helzt við ummyndun íslenzku stapanna. — Þeir Þorvaldur Thoroddsen og Helgi Pjeturss létu þetta deilumál lítið til sín taka, enda var viðhorf þeirra fremur hlutlaust. Báðir lýsa stöpunum sem eldfjallarústum, þeir hafi hlaðizt upp í eldgosum, en síðan bæði haggazt og rofizt, svo að hin upphaflega eldfjallslögun er nú farin út um þúfur (Þorv. Thoroddsen 1906 og Helgi Pjeturss 1910).

Í Faxa árið 1984 er fjallað um fjöllin ofan Grindavíkur, þ.á.m. Fagradalsfjall.

Jón Jónsson, jarðfræðingur hefur varið mörgum árum til rannsókna á Reykjanesskaga. En furðu hljótt hefur þó verið um þær rannsóknir hans og lítt verið minnst á þær hér í Faxa.
1978 gaf Jón út fjölritað rit um rannsóknir sínar. Trúlega er það nú í fárra höndum. En mjög er æskilegt að hann gefi það síðar út á prenti, svo að flestir eigi aðgang að þeim upplýsingum, sem þar eru. Hér verða birtir örstuttir kaflar úr riti Jóns, sem fjalla um fjöllin á skaganum næst okkur: Þorbjarnarfell, Lágafell, Hagafell, Sýlingafell, Skógfellin, Fagradalsfjall og Keili.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn). Misgengi gengur í gegnum fellið.

Þorbjarnarfell (243 m) vekur athygli fyrst og fremst af því hvað það er mikið brotið og verður að því nánar vikið síðar. Fellið er úr bólstrabergi og móbergsþursa með bólstrum á víð og dreif, en lítið er um blágrýtisæðar í því það séð verður og hraun eru þar engin. Bergið í fellinu hefur ekki verið athugað nánar. Að norðaustan er það mjög ummyndað af jarðhita. Þorbjarnarfell hefur án efa myndast við gos undir ís meðan jöklar huldu landið. Vestur úr Þorbjarnarfelli gengur hæðarbunga, sem Lágafell heitir. Það er forn eldstöð, líklega frá því seint á síðasta jökulskeiði. Ennþá sér fyrir hrauni og nokkrum gígum kringum hann ásamt gjalli, en engin merki sjást til þess að jökull hafi gengið þar yfir.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Lágafell virðist vera yngra en Þorbjarnarfell. Norðaustur af Þorbjarnarfelli liggur Selás og tengir það við Hagafell og Svartsengisfell. Þessi fell eru að langmestu leyti úr bólstrabergi og kemur það sérstaklega vel fram í Gálgaklettum í Hagafelli, en þeir eru misgengi, sem brýtur fellið um þvert. Stór björg hafa losnað og hrapað ofan á hraunið. Er þar þægilegt að grannskoða bólstraberg. Norðan undir Gálgaklettum er svæðið þakið hraunum upp að Svartsengisfelli (206 m), sem svo er nefnt af Grindvíkingum, en á kortinu er það nefnt Sýlingafell og mun það hafa verið málvenja í Vogum og á Vatnsleysuströnd. Hið neðra Svartsengisfell að mestu úr bólstrabergi og þursa en efst á því er gígur allstór eða raunar öllu heldur tveir samhangandi gígir og grágrýtishraun kringum þá. Fjallið er því sennilega byggt sem stapi og mjög unglegt, hefur sennilega verið virkt seint á síðasta jökulskeiði. Vestan í fjallinu eru gosmyndanir, sem samanstanda af ösku og vikri, og hefur það efni verið unnið um árabil, og er svo enn. Sú myndun hverfur inn undir fellið sjálft. Misgengissprunga liggur um fellið þvert með stefnu norðaustur-suðvestur og ummyndun eftir jarðhita er þar mikil enda er virkur jarðhiti (háhiti) við rætur fjallsins. Ummyndunina má rekja um norðanverðan Selháls yfir í Þorbjarnarfell eins og áður var drepið á. Tengist þessi ummyndun jarðhitasvæðinu Svartsengi. (Bls. 31-32).

Skógfellavegur

Litla-Skógfell.

Stóra-Skógfell (188m) er um 1,5 km austur af Svartsengisfelli. Það er algjörlega úr bólstrabergi. Litla-Skógfell er um 3 km austar og einnig það er úr bólstrabergi, en ólíkt er það berginu í Stóra-Skógfelli. (Bls. 32).

Fagradalsfjall

Flugvélaflak í Fagradalsfjalli.

Fagradalsfjall (385 m) er byggt upp sem stapi, hið neðra úr bólstrabergi, brotabergi og túffi, en með hettur úr grágrýti. Líta verður á f jallið sem dyngju og er gígurinn nyrst í fjallinu. Hefur það að mestu leyti byggst upp undir ís og virðist ekki ólíklegt að jökull hafi legið að því norðaustanverðu fram til þess að eldvirkni hætti. Mætti ætla að jökull hafi legið umhverfis það, þegar grágrýtishraun, sem þekja það, runnu, en þau eru frá áðurnefndum gíg komin og hafa runnið til suðurs og suðvesturs en ekki norðurs. Norðurendi fjallsins er úr móbergsbrotabergi allt frá toppgígnum og niður úr svo langt sem sér. Í gíg Fagradalsfjalls er ennþá grágrýtishraun. (Bls. 34-35).
Til skýringar fyrir þá sem ekki þekkja Fagradalsfjall, skal þess getið, að það er aflangt, ekki ólíkt hval í laginu, séð frá Keflavík. Er gígurinn í þeim hluta fjallsins sem fjær veit bænum. Skógfellin eru á vinstri hönd úti í hrauninu þegar ekið er til Grindvíkur.

Trölladyngja

Gömul FERLIRsmynd tekin ofan Soga. Keilir fjær, Spákonuvatn t.h.

Keilir (379 m) er frægastur fjalla á Reykjanesskaga. Norðaustan við hann eru þrír hnúkar, sem nefndir eru Keilisbörn. Þeir eru úr lagaskiptu móbergstúffi og raunar er það sumsstaðar í Keili sjálfum að neðanverðu. Í þessu túffi má víða finna báruför, sem sýna að efni þetta hefur sest til í vatni. Útlit þeirra bendir til að um grunnt vatn hafi verið að ræða.
Milli Keilis og Keilisbarna er hringlaga dalur. Víða má sjá að túfflögum hallar inn að þessum dal. Grágrýti er í toppum á Keili og sums staðar utan í honum virðist það koma fram og gæti það verið berggangur. Sennilega er þetta hraun í gosrás fjallsins því ekki er að efa að Keilir er eldstöð frá jökultíma. (Bls. 41).

Sjá meira um jarðfræði Fagradalsfjalls HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, Náttúrfarsallnáll 2009, 3.-4. tbl. 2011, bls. 166.
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1966, Stapakenningin oog Surtsey, Guðmundur Kjartansson, bls. 2-4.
-Faxi, 3. tbl. 01.03.1984, Úr flæðamálinu, bls. 88.Stapar

Lágafell

Á Lágafelli stóð bænhús fyrir árið 1700 en staðurinn tengdist aftur kristnisögu sveitarinnar seint á síðustu öld þegar Lágafellskirkja var reist eftir harkalegar deilur, en af þeim segir í Innansveitarkroniku eftir Halldór Laxness. Lágafellskirkja hefur verið endurbyggð en er að stofninum til sama kirkjan. Að Lágafelli bjó athafnamaðurinn Thor Jensen síðustu æviár sín.

Lágafellskirkja

Nokkur þúsund hermenn bjuggu í bröggum í Mosfellssveit í síðari heimsstyrjöldinni (frá Lágafelli að Suður-Reykjum og Hafravatni). Ein eftirminnilegasta ljósmyndin frá þeim tíma er af nokkrum hermönnum við loftvarnabyssu á lágri hæð í virki norðvestan við Lágafellskirkju. Byssan er horfin og mennirnir einnig, en eftir stendur gróið virkið til áminningar um hinu válynda tíma í sögu mannkynsins, ekki bara hér á landi heldur og um gjörvalla heimsbyggðina.
Á skilti við Lágafellskirkju stendur: „Hér að Lágafelli var bænhús seint á miðöldum en Lágafellskirkja var vígð árið 1889 (sjá meira HÉR) og er að stofni til sú sama og hér stendur. Endurbætur voru gerðar á kirkjunni 1956 og 1979. Lágafellskirkja tekur 160-180 manns í sæti.
Lágafellskirkja 2009Lágafell er gömul bújörð og prestar Mosfellinga sátu hér í kringum aldamótin 1900. Á þriðja ártaug 20. aldar eignaðist athafnamaðurinn Thor Jensen (1863-1947) jörðina og bjó hér á efri árum sínum í íbúðarhúsi sem stendur enn. Á 5. áratugnum keypti Mosfellshreppur hluta af Lágafellslandi og var því skipt niður í nokkur nýbýli þar sem búskapur var um nokkurt skeið. Stór hluti af þéttbýliskjarna Mosfellsbæjar hefur risið í landi Lágafells.“
Meðfylgandi ljósmynd er af Mosfellingum árið 1901 eftir messu að Lágafelli. Guðrún Þorláksdóttir og Sigurður Guðmundsson héldu þá gullbrúðkaup sitt hátíðlegt þennan dag.

Sandfellshæð

Hér er ætlunin að geta tveggja merkilegra jarðfræðifyrirbrigða skammt vestan Eldvarpa ofan við Grindavík. Annað er Sandfellshæðargígurinn og hitt er gígurinn austan við Lágafell sunnan Þórðarfells. Hvorutveggja eru verðug skoðunnar, enda aðgengileg þeim er áhuga hafa.

Sandfellshæð - dyngjan

Nútímahraun nefnast þau hraun sem upp hafa komið eftir að jökla leysti á Reykjanes-skaganum, líklega fyrir 12-13 þúsund árum. Venja er að skipta hraununum í tvo flokka eftir uppruna og útliti: Dyngjuhraun, sem eru dæmigerð helluhraun úr þunnum hraunlögum, slétt, reipótt og með ávölum hraunhólum, oft með alldjúpum sprungum í kollinum. Bergið er gráleitt og með brúnleita veðrunarkápu, oft grófkornótt. Hraunin dreifast gjarnan yfir stór svæði því kvikan er heit og þunnfljótandi þegar hún kemur upp.
Yst á skaganum eru þrjár stórar dyngjur. Sú ysta er fyrrnefnd Sandfellshæð og þrátt fyrir að hraun hennar þeki uppundir 150 km2 og eru tæpir 6 km3 er gígur hennar aðeins 90 metrar yfir sjávarmáli. Þráinsskjöldur byggir síðan upp Vogaheiðina. Þriðju dyngjuna er að finna uppundir Sveifluhálsi og er hún kennd við Hrútagjá en hraun hennar runnu til sjávar á milli Afstapahrauns og Straums. Dyngja þessi er mun minni en hinar tvær og einnig snöggtum yngri.
Nokkrar minni dyngjur er einnig að finna á Reykjanesi og má þar til nefna Háleyjarbungu og Skálafell enn utar á Reykjanesi.
Gígur við LágafellSprunguhraun sem runnið hafa frá gossprungum og gígaröðum eru úr mun seigari kviku en dyngjuhraunin og mynda því þykk hraun með mikinn gjallkarga. Þau eru því úfin og ill yfirferðar og hraunjaðar þeirra hár og brattur. Nefnast slík hraun apalhraun. Frá einstaka eldvarpi geta þó báðar hraungerðirnar runnið í einu og sama gosinu. Apalhraunin renna gjarnan frá gosrásinni eftir hraunám sem nefnast hrauntraðir að gosi loknu en helluhraunin eftir rásum undir storknuðu yfirborðinu. Þau síðarnefndu eru því mun auðugri af hellum. Sprunguhraunin eru flest yngri en dyngjuhraunin og nokkur þeirra hafa runnið eftir að land var numið.
Eldvörpin eru mjög fjölbreytt að gerð og lögun, en mun meira af lausum gosefnum koma upp í þeim en dyngjunum og heildar magn gosefna einstakra gosa er oftast langt innan við 1 km3. Erfitt er að gera sér grein fyrir Eldvörpfjölda þeirra eldvarpa sem gosið hafa á nútíma en Jón Jónsson jarðfræðingur hefur kortlagt hraun frá meira en 150 uppkomustöðum en þeir hljóta að vera fleiri því einhverjir hafa lent undir yngri hraunum. Gosin verða í hrinum innan hverrar gosreinar. Glöggt dæmi um það er gos sem hófst út á Reykjanestá 1226, sem síðan breiddist norðaustur eftir skaganum allt til Arnarseturs sem er rétt austan Grindavíkurvegar. Sömu sögu má segja þegar Ögmundarhraun rann 1151.
Reykjanes er framhald Reykjaneshryggjarins á landi. Flest sjávargos á sögulegum tíma hafa verið undan Reykjanesi. Stórbrotin jarðfræði, meðal annars gígaraðirnar Eldvörp og Stampar, dyngjurnar Skálafell, Háleyjarbunga og Sandfellshæð, ásamt fjölda gjáa, sprungna og hrauntjarna. Óvíða annars staðar en á Reykjanestá má sjá eins glögg merki gliðnunar Mið-Atlantshafshryggjarins.
Umhverfisstofnun hefur bent á að Reykjanesið, þ.m.t. framkvæmdasvæði Hitaveitu Suðurnesja, hefur lengi verið á Sand-700Náttúruminjaskrá eða allt frá árinu 1981. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku. Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum. Jarðhiti er enn í Eldvörpum.
Stapafell, Sandfell, Súlur og Þórðarfell (allt nálæg fjöll) myndaðust undir ís eða í sjó. Í þeim er mikið bólstraberg. Ástæður fyrir myndun bólstrabergs eru lítt kannaðar en talið er, að mismunur hitastigs hrauns og vatns og þrýstingur í vatninu hafi áhrif á myndun þess. Sprungur liggja víða á svæðinu, m.a. í gegnum Stapafell.  Búið er að fjarlægja slatta af fjallinu til mannvirkjagerðar, m.a. Keflavíkurflugvallar.
Rauðamelur er fyrrum sjávargrandi, sem liggur austur úr Stapafelli, myndaður úr efni úr fellinu. Hann varð til við hærri sand-500sjávarstöðu, þegar sjór braut úr því. Síðan flæddu hraun. Þau eru úr Sandfellshæðinni.
Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hraunið upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Í hrauninu ber mikið á hraunhólum sem eru sprungnir í kollinn.
Haugsvörðugjá er ein gjánna skammt vestan Sandfellshæðar. Uppi á bakkanum vestan megin gjárinnar eru gjallgígahrúgöld og nefnist þar Haugur. Í kringum gígana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára.
Ef veður er gott er þess virði að taka stuttan útúrdúr og ganga á Einiberjahól sem er ævagamall, stakur gígur skammt sunnan við Prestastíg, suðvestur af Sandfellshæð.
Sandfellshaed-2Sunnan undir Sandfellshæð er stakur gíghóll, Rauðhóll og frá honum hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára. Hóllinn er nú í mosagrónu apalhrauni. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann árið 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku. Um tveimur kílómetrum norðar en þar sem Prestastígur fer yfir gígaröðina er allnokkur jarðhiti og þar hefur verið borað á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk þó á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum. Allt þetta má enn sjá með opnum augum á réttum stað.
Gígurinn austan Lágafells er dæmi um einstakt eldvarp. Frá honum liggur tilkomumikil hrauntröð, eins sú fallegasta á landinu – og er þá mikið sagt.

Heimild m.a.:
-Kristján Sæmundsson.
-Ægir Sigurðsson.Sand-800

Lágafell

Í marsmánuði árið 1944 nauðlenti B-24H Liberator flugvél frá ameríska flughernum á Lágafellsheiði ofan við Járngerðarstaði í Grindavík. Mannbjörg varð, en vélin varð ónýt á eftir. Hermenn sáu síðan um að hluta hana í sundur og færa bútana upp á Keflavíkurflugvöll, líkt og gert var við B-17 flugvél, sem nauðlenti þarna nokkur vestar í Eldvarpahrauni skammt norðan Sundvörðuhrauns tæplega ári áður.

Lágafell

Flakið í Lágafelli.

Skammt þarna vestan við slysstaðinn reistu Bandaríkjamenn síðar loftnetsstöð, sem þeir reka enn. Afgirt svæði þeirrar stöðvar er, því miður, þvert á Skipsstíginn ofan við Títublaðavörðu, skammt ofan Járngerðarstaða.
Myndin hér til hliðar er frá vettvangi óhappsins við Grindavík og sýnir B-24H Liberatorvélina. Húsin í baksýn eru í Grindavík, ef vel er að gáð.
Erling Einarsson, innfæddur og af góðum Grindavíkurættum, bæði vestlægum og austlægum, skoðaði myndina og sá strax aðvettvangurinn væri á „svæði sem kallað var uppi í Leynum Eyjabyggðin er þarna núna, norð-austur af Silfru. Hægt er að sjá hús á myndinni sem ber í þennan með kaskeitið, það er Krosshús, næst því til vinstri er Hvoll, þá háreyst hús er nefnist Hamraborg (læknishúsið), það ber reyndar saman við Borgargarð og Kirkjuna, þar neðan undir er langt hús sem var hænsnabú þá Eystri Krosshúsum, Þorvaldsstaðir (prestssetrið), Baldurshagi, Sólheimar, Hellur, Holt, Pálshús, Brimnes, Efri-Baldurshagi, Ásgarður, Blómsturvellir, Þrúðvangur og reyndar sést slysavarnaskúrinn og Múli sem ber í hólinn.“
Það var varla hægt að fá nákvæmari staðarákvörðun. En þótt hægt sé að rekja flestar staðsetningar flugslysa og -óhappa til ummerkja á vettvangi, verður það ekki hægt í þessu tilviki. Brak og aðrar leifar hafa þurft að víkja fyrir nýrri byggð – á Lágafellsheiði.
Einhverjir hinna öldruðu Grindvíkinga hefði á þeirra ungdómsárum ekki órað fyrir að heiðin myndi nokkur sinni byggjast, hvað þá jafnvel upp að Kúadal, en staðreyndin er nú samt orðin önnur – einungis tæpum mannsaldri síðar.
Bandaríski herinn reisti einnig loftnetsstöð ofan við Hraunssand, undir Húsafjalli/Fiskidalsfjalli, en ummerki eftir hana eru nú að mestu horfin – einungis steypt ankeri mastursfestinganna sjást þar enn í malargryfjum Hraunsmanna.
Sá algengi misskilningur hefur jafnan verið landlægur á Suðurnesjum að brak úr flugvél Andrews, yfirmanns Evrópuherafla Bandaríkjamanna, sé að finna í Þorbjarnarfelli, skammt frá Lágafelli. Hugsanlega gæti fyrrnefnd nauðlending hafa skapað þann misskilning. Brak úr flugvél þeirri er hann var í, ásamt fleirum, má sjá í Kastinu vestan undir Fagradalsfjalli. Einn maður slapp lifandi úr því flugslysi.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur.
-Erling Einarsson.
-Friðþór Eydal.

Lágafell

Lágafell – loftmynd.

Eldvörp

Gengið var um sunnanverð Eldvörp, skoðaðar mannvistaleifar í helli og Árnastíg fylgt áleiðis að Sandfellshæð, með Sandfelli að Lágafelli.

Eldvörp

Hleðslur í skúta í Eldvörpum.

Gengið var upp á Lágafell, gígurinn skoðaður og síðan haldið áfram niður á Árnastíg og gengið um Klifið í Klifgjá, austur með sunnanverðu Þórðarfelli, skoðaðir hellar þar í hrauninu, og síðan gengið upp á brún Gígsins, mikils eldgígs í hrauninu. Frá honum liggur stór hrauntröð til austurs og beygir síðan til suðurs. Henni var fylgt áleiðis að upphafsstað í Eldvörpum.
Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum. Nokkur yfirborðsjarðhiti er á afmörkuðu svæði í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti. Örstutt vestan við meginborholuna er hellir í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.

Gígur

Gígur.

Árnastígurinn liggur um slétt helluhraunið norðan Sundhnúkahrauns og í gegnum Eldvörpin á leið hans að Þórðarfelli og áfram að Rauðamel þar sem hann sameinast Skipsstíg. Stígnum var fylgt spölkorn yfir hraunið uns vikið var út af honum utan í Sandfellshæð.
Á toppi Sandfellshæðar er stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku.
Gengið var noður með vesturhlíðum Sandfells og upp á Lágafell. Í fellinu er stór gróinn gígur. Talsverðar minjar eru þarna eftir æfingar varnarliðsmanna, s.s. hleðslur og símalínur. Gengið var niður af Lágafelli að austanverðu og Árnastíg fylgt niður Klifið, áleiðis að Þórðarfelli. Þar var beygt upp á hraunið ofan við Klifgjá og skoðaðir nokkrir hellar á svæðinu. Loks var haldið upp á brún Gígsins og hann skoðaður. Hrauntröðinni miklu var síðan fylgt sem leið lá til austurs og síðan til suðurs með hraunkantinum. Í fordyrum hennar eru fallegar hraunmyndanir og rúmgóðir skúta. Þegar líða tekur á hana fellur hún inn í misgengi samhliða sprungureinum svæðisins.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.