Við Lágafell í Mosfellsbæ er skilti. Á því má lesa eftirfarandi upplýsingar:
“Að Lágafelli var bænahús á miðöldum en Lágafellskirkja var vígð árið 1889 og er að stofni til sú sama og hér stendur. Endurbætur voru gerðar á kirkjunni 1956 og 1979. Lágafellskirkja tekur 160-180 manns í sæti.
Lágafell er gömul bújörð pg prestar Mosfellinga sátu hér í kringum aldamótin 1900, Á þriðja áratug 20. aldar eignaðist athafnamaðurinn Thor Jensen (1863-1947) jörðina og bjó hér á efri árum sínum í íbúðarhúsi sem stendur enn. Á 5. áratugnum keypti Mosfellshreppur hluta af Lágafellslandi og var því skipt niður í nokkur nýbýli þar sem búskapur var um nokkurt skeið. Stór hluti þéttbýliskjarna Mosfellsbæjar hefur risið í landi Lágafells.”