Færslur

Stekkjargil

Neðan Stekkjargils vestan Helgafells í Mosfellsbæ eru tvö upplýsingaskilti. Annað fjallar um plöntur og hitt um búskaparhætti.

Stekkjargil

Stekkjargil – skilti.

Á fyrra skiltinu; “Stekkjargil“, segir m.a.: “Í Stekkjargili eru margar tegundir platna. Hér fyrir neðan eru myndir og lýsingar á nokkrum plöntutegundum sem finna má í gilinu. Gáðu hvort þú finnur þesssa fulltrúa íslenskrar náttúru, sem saman mynda eina heild, á göngu þinni og leggðu útlit jurtarinnar, ilm og viðkomu á minnið. Þá hefur þú örugglega gaman af að finna tegundina aftur og þekkja í næstu gönguferð um náttúru landsins”.
Á skiltinu eru síðan myndir og fróðleikur um Gulmöðru, Holurt, Maríustakk, Ljónslappa, Blóðberg, Friggjargras, Holtasóley, Kornsúru, Mjaðjurt, Tungljurt, Fjalldalafífil og Krossmöðru.

Á síðara skiltinu: “Stekkur“, má lesa eftirfarandi fróðleik: “Við erum stödd neðan við Stekkjargil í austanverðu Helgafelli og grjóthóllinn, sem blasir við okkur heitir Stórhóll. Gilið dregur nafn sitt af fjárstekk frá bænum Helgafelli og má sjá rústir hans hér undir brekkunni. Stekkur er lítil fjárrétt, notaður til að mjalta ær og var þessi stekkur sennilega nýttur fram yfir aldamótin 1900 en var þá stækkaður og breytt í fjárhús eða beitarhús.

Stekkjargil

Stekkjargil – skilti.

Í Stekkjargili eru ágætir bithagar en gróðufar í Mosfellssveit mótast af landslagi og hæð yfir sjávarmáli. Efst eru fellin gróðursnauð en gróðurþekja þéttist þegar neðar dregur, líkt og hér í Stekkjargili.
Jarðvegurinn í Mosfellsbæ er víða frjór og lífrænn og reyndist hentugur til mótekju en mór er jurtaleifar sem var áður fyrr notaður til húshitunar og eldamennsku. Mógrafir voru allvíða í sveitarfélaginu, meðal annars í Stekkjarmýri sunnan við Stekkjargil.
Víða í mýrum sveitarfélagsins má finna leifar af birkilurkum og þeir eru vitnisburður um tvö löng birkitímabil sem runnu upp eftir að ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Eftir landnám hófst mikil landeyðing af ýmsum orsökum og í upphafi 20. aldar var allur skógur horfinn úr Mosfellssveit. Með friðun og skipulagðri skógrækt hefur sveitarfélagið tekið miklum stakkaskiptum síðustu áratugina.

Stekkjargil

Stekkjargil – skilti.

Á fyrri tíð voru ær frá Helgafelli hafðar á beit hér í Stekkjargili en reknar á hverjum degi hingað í stekkinn þar sem þær voru mjólkaðar. Samkvæmt íslenskri þjóðtrú stundaði óboðinn gestur þá iðju að sjúga mjólk úr lambám í stekkjum og fjárhúsum. Það var jólasveinninn Stekkjastaur sem Jóhannes úr Kötlum orti um á þessa leið:

Stekkjastaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék við bóndans fé.

Hann vildi sjúgja ærnar,
-þá varð þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
-það gekk nú ekki vel.

Stekkjargil

Stekkjargil – Stórhóll t.h.

Helgafell

Á svonefndum Ásum norðan Helgafells eru tvö upplýsingaskilti. Annað er um gönguleið á fellið og sjáanlegar minjar. Hitt er um jarðfræði og gróður í Mosfellssveit. Hér má lesa textann á báðum skiltunum:

Helgafell

Horft að bænum Helgafelli á stríðsárunum.

“Helgafell er úr blágrýti og rís 217 m yfir sjávarmáli. Sunnan undir fjallinu stendur samnefnt býli sem fyrst er getið um í heimildum á 16. öld. Við erum stödd á svonefndum Ásum, hér reis mikil byggð á hernámsárunum, mest norðan við akveginn, m.a. geysistórt sjúkrahús. Flest mannvirkin eru horfin en þó má sjá hér á hæðinni tvo vatnsgeyma frá stríðsárunum sem miðluðu köldu vatni í bragga og önnur hús. Vatni var dælt úr Köldukvósl í geyminn, sem austar stendur, en í hinn var safnað vatni úr hlíðum Helgafells. Þriðji vatnsgeymirinn, nú hrofinn, var úr stáli og fyrir heitt vatn sem dælt var frá Reykjum og notað til upphitunar hér á Ásunum.

Helgafell

Helgafell – gönguleið.

Héðan liggur stikuð gönguleið upp á Helgafell framhjá leifum af námu þar sem leitað var að gulli snemma á 20. öld. Gönguleiðin liggur austur um fjallið og niður í Stekkjargil þar sem sjá má rústir af fjárstekk frá Helgafelli.

Þar getur göngufólk valið um tvær leiðir og gengið annaðhvort eftir stikaðri leið í áttina að Reykjalundi eða um Skammadal og Mosfellsdal aftur hingað að Ásum.

Helgafell

Hermenn á ferð um vegamót Vesturlandsvegar og Þingvallavegar – Vegatálmar.

Lífseig er sagan um hjúkrunarkonu sem starfaði hér á Ásum á stríðsárunum en fórst með vofveiflegum hætti. Sumir telja að hún sé hér enn á kreiki, stöðvi bíla og dimmum kvöldum og biðji um far. Þegar ökumenn hyggjast spjalla við þennan kynlega farþega eða hleypa honum út er hann á bak og burt!

Mosfellsbær

Helgafells hospital.

Pétur B. Guðmundsson (1906-1978) bóndi á Laxnesi var einn þeirra sem lenti í slíkri lífsreynslu og ritað um hana í bók: “Allt í einu greip hún eldsnöggt með annarri hendinni í stýrið og þverbeygði útaf veginum, svo bíllinn stakkst útaf, en um leið og hún greip í stýrið leið eins og sársaukastuna frá henni.
Ég gerði mér ekki grein fyrir neinu, en rauk út úr bílnum, hljóp aftur fyrir hann, og þegar ég kom að hinni hurðinni þreif ég hana upp og rétti höndina inn í bílinn, því ég var ákveðinn í því, að farþeginn skyldi út hvað sem tautaði. En – hönd mín greip í tómt. Það var enginn í sætinu.”

Velkomin á stikaðar gönguleiðir Mosfellsbæjar

Reykir

Mosfellsbær – herseta ofan Reykja.

Mosfellsbær er um 200 ferkílómetrar að stærð. Hér eru víðáttumikil náttúrleg svæði og einstakir útivistarmöguleikar í lítt snertu landslagi upp til heiða, við vötn og ár og strandlengjuna. Áberandi eru fellin og gróðursælir dalir auk tveggja jarðhitasvæða.

Helgufoss

Helgufoss.

Leirvogur gengur inn úr Kollafirði og í hann falla þrjár ár: Leirvogsá, Kaldakvísl og Varmá. Leirvogur er nefndur í fornsögum, þar var alþekkt skipalægi til forna og þaðan lá leið til Þingavalla og annarra landshluta.
Gönguleiðir eru margar og fjölbreyttar í Mosfellsbæ. Fjöllin eru að vísu ekki há, það hæsta er Grímannsfell, tæplega 500 m.y.s. Náttúruperlur og skoðunarverðir staðir eru víða við gönguleiðirnar. Má þar nefna Leirvogsá og Tröllafoss, sem er friðlýst náttúruvætti, Köldukvísl og Helgufoss, Varmá og Álafosskvos, Nóngilsfoss og Katlagil, Grettistak á Þverfelli og Seljadal. Fornar þjóðleiðir, seljarústir og aðrar sögulegar minjar eru einnig víða við gönguleiðirinar.

Jarðfræði

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort.

Frá því að Stardalsmegineldstöðin kulnaði fyrir um tveimur milljónum ára hafa roföflin grafið dali og myndað það landslag sem við þekkjum í dag. Berggrunnurinn er að mestu hraun, sem runnu á hlýskeiði, og í fellunum má sjá hraunlög sem hafa hlaðist upp á löngum tíma.
Mosfellsheiði er dyngja og þaðan runnu hraunlög niður á láglendið í Mosfellssveit. Víða er jarðhiti í tengslum við virkar sprungur og misgengi sem teygja sig út frá gosbeltinu. Í Mosfellsdal eru þykk setlög sem benda til þess að þar hafi verið stöðuvatn.

Gróður

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur – Katlagil framundan.

Við landnám var Mosfellssveit skógi vaxin en miklar breytingar hafa orðið vegna landnýtingar og uppblásturs. gróður teygir sig frá sjávarsíðunni, ipp dalina og fellin. Ofan tileru fellin gróðursnauð. Þar eru ríkjandi skófir á steinum og klöppum, mosi og hálendisplöntur. Við gönguleiðina um Stekkjargil, sunnan undir Helgafelli, hafa verið merktar nokkrar tegundir úr íslenskri flóru.”

Auk framangreinds texta má hér sjá stutta lýsingu á gönguleiðini frá Ásum á Helgafell:

“Stutt gönguleið sem opnar göngumönnum gott útsýni yfir nyrðri hluta höfuðborgarsvæðisins. Upphaf gönguleiðarinnar er við skilti á Ásum. Skammt ofar má sjá gönguslóðann á ská upp fellið. Honum er fylgt á toppinn og svo sömu leið til baka.

Helgafell

Helgafell – leifar vatnstanka.

Á Ásum má sjá leifar af mannvirkjum frá síðari heimsstyrjöldinni. Þarna voru vatnstankar sem voru notaðir til að dæla vatni í sjúkrahús þarna rétt hjá. Var það kallað Helgafell hospital.

Göngustígurinn liggur á ská upp fjallið og er hann merktur með appelsínugulum stikum. Fara þarf varlega á leiðinni upp og niður.

Rétt áður en lagt er á brattann má sjá litla dæld eða laut í fjallinu. Þetta eru leifar af gullnámu frá því rétt eftir aldamótin 1900. Ekki var mikið leitað að gulli né fannst mikið og var gröftur meira byggður á væntingum en öðru.

Helgafell

Helgafell – vatnstakar/loftmynd.

Þegar upp er komið er um 3 – 400 metra gangur að hæsta punkti fjallsins. Sést vel yfir Mosfellsbæ, Esju og yfir sundin svo og hluta Reykjavíkur. Með því að ganga aðeins út á suðurbrúnir má Stekkjartjörn og niður eftir Stekkjargili þar sem gamlan stekk frá Helgafelli er að finna.

Efst má sjá leifar af gömlu varðbyrgi frá hernámsárunum. “

Helgafell

Helgafell – skilti.

Mosfellsbær

Þegar leitað er efnis um Mosfellsbæ má finna ágætt upplýsingakort af því helsta sem sveitarfélagið býður upp á hvað varðar útivist og sögulegan fróðleik:

Mosfellsbær – sveit með sögu

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Mosfellsbær er um 200 ferkílómetrar að flatarmáli og afmarkast af Reykjavík (áður Kjalarneshreppi) að norðan, að austan af Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppi og Sveitarfélaginu Ölfusi, að sunnanverðu af Kópavogi og að vestanverðu af Reykjavík. Í aldanna rás hét sveitarfélagið Mosfellshreppur og náði allt að Elliðaám fram á 20. öld en 9. ágúst 1987 lauk langri sögu hreppsins og Mosfellsbær varð til.  [Mosfellssveit náði framan af að Elliðaám. Öll braggabyggð austan Elliðaáa var því í Mosfellssveit – SH].
Sögu byggðar í Mosfellssveit má rekja aftur á landnámsöld þegar Þórður skeggi og Vilborg Ósvaldsdóttir námu land milli Leirvogsár og Úlfarsár. Þau bjuggu á Skeggjastöðum en „frá Þórði er margt stórmenni komið á Íslandi,“ segir í Landnámu.

Mosfellsbær

Lágafell – Þarna er viðbygingin sem hýsti m.a. Lestarfrélagið.  Þinghúsið er ekki risið.
Í ágúst árið 1890 komu nítján Mosfellingar saman við hamarinn hjá Seljadalsá við sunnanvert Hafravatn. Þar stofnuðu þeir Lestrarfélag Lágafellssóknar; nú Bókasafn Mosfellsbæjar. Lestrarfélagið var eitt fyrsta félagið sem stofnað var í Mosfellssveit og lét fleira til sín taka en söfnun bóka og útlán þeirra. Félagið var eign þeirra sem greiddu árgjald, og safnaði fé með ýmsum hætti til bókakaupa, m.a. með tombóluhaldi og öðrum skemmtunum. Árið 1890 voru íbúar í sókninni 404 sálir.

Allt fram á síðari hluta 19. aldar ríkti kyrrstætt bændasamfélag í Mosfellssveit, líkt og annarsstaðar á Íslandi. Sveitin var að vísu í þjóðbraut því um hana lágu leiðir til Vesturlands, Þingvalla og austur fyrir fjall. En íslenskir bændur voru ekki alltaf að flýta sér til móts við nútímann og þegar fyrsti hestvagninn sást í Mosfellssveit á ofanverðri 19. öld töldu menn að eigandinn væri genginn af göflunum!
Kringum aldamótin 1900 varð félagsleg vakning í Mosfellssveit, ýmis félög voru stofnuð, til dæmis lestrarfélag, kvenfélag og ungmennafélag. Smám saman urðu atvinnumálin einnig fjölbreyttari: Ullarverksmiðjan á Álafossi tók til starfa árið 1896 og fyrsta gróðurhús landsins var byggt á Reykjum árið 1923. Mikinn jarðhita er að finna í Reykjahverfi og Mosfellsdal og vagga íslenskrar ylræktar stóð í Mosfellssveit.
Mosfellssveit og þegar þeim lauk voru yfirgefnir hermannabraggar meðal annars nýttir undir starfsemi Reykjalundar sem tók þá til starfa.
Allt frá stríðslokum hefur verið mikil fólksfjölgun í sveitarfélaginu, fyrsta stóra stökkið í þeim efnum varð á 8. áratugnum og nú búa meira en átta þúsund manns í sveitinni milli fellanna þar sem fjölbreytt náttúra og áhugaverð saga haldast í hendur.

Hernámsárin

Mosfellsbær

Helgafells hospital.

Hinn 10. maí 1940 steig breskt hernámslið á land í Reykjavík og tók fljótlega að hreiðra um sig í Mosfellssveit, í tjöldum og síðan bröggum. Umsvif hernámsliðsins gjörbreytti ásýnd sveitarinnar og mannfjöldinn margfaldaðist; ári síðar kom bandarískt herlið til sögunnar og leysti það breska af hólmi. Braggahverfi, svonefndir kampar, risu víða í Mosfellssveit og hlutu erlend nöfn, til dæmis Whitehorse, Victoria Park og McArthur. Flestir kamparnir voru í námunda við Varmá og í sunnanverðri sveitinni, meðal annars í grennd við Hafravatn og Geitháls.
Norðvestan við Hafravatn stóð kampurinn Jeffersonville. Þar var meðal annars bakarí og ekið með framleiðsluna í önnur braggahverfi en einnig voru hér skotfæra- og birgðageymslur svo og bílaverkstæði. Braggabyggðin við Hafravatn er horfin en enn má sjá marga húsgrunna á þessum slóðum sem vitna um mannlíf undir bogalaga bárujárni á liðinni öld.

Stekkur

Helgafell

Helgarfell – stekkur í Stekkjargili.

Við erum stödd neðan við Stekkjargil í austanverðu Helgafelli og grjóthóllinn sem blasir við okkur heitir Stórhóll. Gilið dregur nafn sitt af fjárstekk frá bænum Helgafelli og má sjá rústir hans hér undir brekkunni. Stekkur er lítil fjárrétt, notaður til að mjalta ær og var þessi stekkur sennilega nýttur fram yfir aldamótin 1900 en var þá stækkaður og breytt í fjárhús eða beitarhús.
Í Stekkjargili eru ágætir bithagar en gróðurfar í Mosfellssveit mótast af landslagi og hæð yfir sjávarmáli. Efst eru fellin gróðursnauð en gróðurþekjan þéttist þegar neðar dregur, líkt og hér í Stekkjargili.
Jarðvegurinn í Mosfellsbæ er víða frjór og lífrænn og reyndist hentugur til mótekju en mór er jurtaleifar sem var áður fyrr notaður til húshitunar og eldamennsku. Mógrafir voru allvíða í sveitarfélaginu, meðal annars í Stekkjarmýri sunnan við Stekkjargil.

Helgafell
Helgafell
Helgafell rís 216 metra yfir sjávarmáli og þeir sem ganga á fjallið verða verðlaunaðir með góðu útsýni yfir Mosfellsbæ og Sundin blá. Efst á fellinu má sjá rústir af varðbyrgi frá hernámsárunum og vestan fjallsins eru leifar fjöruborðs, í 55 metra hæð yfir sjávarmáli, sem skýrist af því að eftir að ísaldarjökullinn tók að hopa fyrir um 10.000 árum gekk sjór inn á láglendið í Mosfellssveit.
Algengasta gönguleiðin á Helgafell hefst á svonefndum Ásum við Þingvallaveg. Leiðin liggur framhjá tveimur steyptum vatnstönkum frá hernámsárunum sem voru notaðir til að miðla köldu vatni í stórt sjúkrahúshverfi sem reis á Ásunum og nefnt var Helgafell Hospital.

Helgafell

Helgafell – Stekkjartjörn (loftmynd).

Göngusneiðingur liggur upp fjallið að vestanverðu og þar sem lagt er á brattann er smálaut sem er leifar af lítilli gullnámu frá því snemma á 20. öld. Forsaga málsins er sú að skömmu eftir aldamótin 1900 tóku menn að gera sér vonir um að finna gull í Mosfellssveit, einkum við Seljadalsá í suðurhluta sveitarinnar. Þegar bóndinn á Reykjum auglýsti jörð sína til sölu árið 1911 skrifaði hann í blaðaauglýsingu: „Reykjaland liggur meðfram Þormóðsdals landareign að norðan, og stefnir gullæðin þar á það mitt. Líka kvað hafa fundist gull í næstu landareign að norðan í líkri stefnu (Helgafelli).“ Engar frekari sögur fara af gullinu í Helgafelli.

Reykir

Mosfellsbær – herseta á Reykjum.

Árið 1942 voru reistar spítalabúðir í landi Suður­Reykja,­ þar sem Reykjalundur er í dag. Spítalinn hóf starfsemi með 250 sjúkrarúmum í októbermánuði,­ en hafði rými fyrir 550 sjúklinga í neyðartilvikum. Álafoss Hospital var aðeins starfræktur í eitt ár en starfsemin þá flutt í Helgafell Hospital vegna fækkunar í herliðinu. Reykjabændur,­ þeir Bjarni Ásgeirsson og Guðmundur Jónsson,­ voru leigusalar lóðarinnar til hersins. Flestir braggarnir voru fljótlega fjarlægðir en S.Í.B.S. keypti lóðina og hóf starfsemi sína m.a. í þeim sem eftir stóðu og voru í notkun fram á sjöunda áratuginn.

Sjá upplýsingaskilti Mosfellsbæjar HÉR og HÉR.

Mosfellsbær

Liðskönnun Bandaríkjahers í íbúðarhverfi Camp Jeffersonville. Fjær sér í verkstæðisbyggingar í neðri hluta búðanna og rýkur úr reykháfi kaffibrennslunnar sem þar var ásamt þvottahúsi, birgðageymslum og margskonar verkstæðum, t.d. fyrir vopnabúnað auk skóvinnustofu. Hafravatnsfell í baksýn.