Færslur

Helgafell

Á svonefndum Ásum norðan Helgafells eru tvö upplýsingaskilti. Annað er um gönguleið á fellið og sjáanlegar minjar. Hitt er um jarðfræði og gróður í Mosfellssveit. Hér má lesa textann á báðum skiltunum:

Helgafell

Horft að bænum Helgafelli á stríðsárunum.

“Helgafell er úr blágrýti og rís 217 m yfir sjávarmáli. Sunnan undir fjallinu stendur samnefnt býli sem fyrst er getið um í heimildum á 16. öld. Við erum stödd á svonefndum Ásum, hér reis mikil byggð á hernámsárunum, mest norðan við akveginn, m.a. geysistórt sjúkrahús. Flest mannvirkin eru horfin en þó má sjá hér á hæðinni tvo vatnsgeyma frá stríðsárunum sem miðluðu köldu vatni í bragga og önnur hús. Vatni var dælt úr Köldukvósl í geyminn, sem austar stendur, en í hinn var safnað vatni úr hlíðum Helgafells. Þriðji vatnsgeymirinn, nú hrofinn, var úr stáli og fyrir heitt vatn sem dælt var frá Reykjum og notað til upphitunar hér á Ásunum.

Helgafell

Helgafell – gönguleið.

Héðan liggur stikuð gönguleið upp á Helgafell framhjá leifum af námu þar sem leitað var að gulli snemma á 20. öld. Gönguleiðin liggur austur um fjallið og niður í Stekkjargil þar sem sjá má rústir af fjárstekk frá Helgafelli.

Þar getur göngufólk valið um tvær leiðir og gengið annaðhvort eftir stikaðri leið í áttina að Reykjalundi eða um Skammadal og Mosfellsdal aftur hingað að Ásum.

Helgafell

Hermenn á ferð um vegamót Vesturlandsvegar og Þingvallavegar – Vegatálmar.

Lífseig er sagan um hjúkrunarkonu sem starfaði hér á Ásum á stríðsárunum en fórst með vofveiflegum hætti. Sumir telja að hún sé hér enn á kreiki, stöðvi bíla og dimmum kvöldum og biðji um far. Þegar ökumenn hyggjast spjalla við þennan kynlega farþega eða hleypa honum út er hann á bak og burt!

Mosfellsbær

Helgafells hospital.

Pétur B. Guðmundsson (1906-1978) bóndi á Laxnesi var einn þeirra sem lenti í slíkri lífsreynslu og ritað um hana í bók: “Allt í einu greip hún eldsnöggt með annarri hendinni í stýrið og þverbeygði útaf veginum, svo bíllinn stakkst útaf, en um leið og hún greip í stýrið leið eins og sársaukastuna frá henni.
Ég gerði mér ekki grein fyrir neinu, en rauk út úr bílnum, hljóp aftur fyrir hann, og þegar ég kom að hinni hurðinni þreif ég hana upp og rétti höndina inn í bílinn, því ég var ákveðinn í því, að farþeginn skyldi út hvað sem tautaði. En – hönd mín greip í tómt. Það var enginn í sætinu.”

Velkomin á stikaðar gönguleiðir Mosfellsbæjar

Reykir

Mosfellsbær – herseta ofan Reykja.

Mosfellsbær er um 200 ferkílómetrar að stærð. Hér eru víðáttumikil náttúrleg svæði og einstakir útivistarmöguleikar í lítt snertu landslagi upp til heiða, við vötn og ár og strandlengjuna. Áberandi eru fellin og gróðursælir dalir auk tveggja jarðhitasvæða.

Helgufoss

Helgufoss.

Leirvogur gengur inn úr Kollafirði og í hann falla þrjár ár: Leirvogsá, Kaldakvísl og Varmá. Leirvogur er nefndur í fornsögum, þar var alþekkt skipalægi til forna og þaðan lá leið til Þingavalla og annarra landshluta.
Gönguleiðir eru margar og fjölbreyttar í Mosfellsbæ. Fjöllin eru að vísu ekki há, það hæsta er Grímannsfell, tæplega 500 m.y.s. Náttúruperlur og skoðunarverðir staðir eru víða við gönguleiðirnar. Má þar nefna Leirvogsá og Tröllafoss, sem er friðlýst náttúruvætti, Köldukvísl og Helgufoss, Varmá og Álafosskvos, Nóngilsfoss og Katlagil, Grettistak á Þverfelli og Seljadal. Fornar þjóðleiðir, seljarústir og aðrar sögulegar minjar eru einnig víða við gönguleiðirinar.

Jarðfræði

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort.

Frá því að Stardalsmegineldstöðin kulnaði fyrir um tveimur milljónum ára hafa roföflin grafið dali og myndað það landslag sem við þekkjum í dag. Berggrunnurinn er að mestu hraun, sem runnu á hlýskeiði, og í fellunum má sjá hraunlög sem hafa hlaðist upp á löngum tíma.
Mosfellsheiði er dyngja og þaðan runnu hraunlög niður á láglendið í Mosfellssveit. Víða er jarðhiti í tengslum við virkar sprungur og misgengi sem teygja sig út frá gosbeltinu. Í Mosfellsdal eru þykk setlög sem benda til þess að þar hafi verið stöðuvatn.

Gróður

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur – Katlagil framundan.

Við landnám var Mosfellssveit skógi vaxin en miklar breytingar hafa orðið vegna landnýtingar og uppblásturs. gróður teygir sig frá sjávarsíðunni, ipp dalina og fellin. Ofan tileru fellin gróðursnauð. Þar eru ríkjandi skófir á steinum og klöppum, mosi og hálendisplöntur. Við gönguleiðina um Stekkjargil, sunnan undir Helgafelli, hafa verið merktar nokkrar tegundir úr íslenskri flóru.”

Auk framangreinds texta má hér sjá stutta lýsingu á gönguleiðini frá Ásum á Helgafell:

“Stutt gönguleið sem opnar göngumönnum gott útsýni yfir nyrðri hluta höfuðborgarsvæðisins. Upphaf gönguleiðarinnar er við skilti á Ásum. Skammt ofar má sjá gönguslóðann á ská upp fellið. Honum er fylgt á toppinn og svo sömu leið til baka.

Helgafell

Helgafell – leifar vatnstanka.

Á Ásum má sjá leifar af mannvirkjum frá síðari heimsstyrjöldinni. Þarna voru vatnstankar sem voru notaðir til að dæla vatni í sjúkrahús þarna rétt hjá. Var það kallað Helgafell hospital.

Göngustígurinn liggur á ská upp fjallið og er hann merktur með appelsínugulum stikum. Fara þarf varlega á leiðinni upp og niður.

Rétt áður en lagt er á brattann má sjá litla dæld eða laut í fjallinu. Þetta eru leifar af gullnámu frá því rétt eftir aldamótin 1900. Ekki var mikið leitað að gulli né fannst mikið og var gröftur meira byggður á væntingum en öðru.

Helgafell

Helgafell – vatnstakar/loftmynd.

Þegar upp er komið er um 3 – 400 metra gangur að hæsta punkti fjallsins. Sést vel yfir Mosfellsbæ, Esju og yfir sundin svo og hluta Reykjavíkur. Með því að ganga aðeins út á suðurbrúnir má Stekkjartjörn og niður eftir Stekkjargili þar sem gamlan stekk frá Helgafelli er að finna.

Efst má sjá leifar af gömlu varðbyrgi frá hernámsárunum. “

Helgafell

Helgafell – skilti.

Hrísbrú

Undanfarin ár hefur farið fram fornleifauppgröftur á Hrísbrú undir Mosfelli í Mosfellsdal (landnámi Ingólfs). Rannsóknin hefur m.a. verið styrkt af tímabundnum “Kristnitökusjóði”. Sjóðurinn hefur gefið fornleifafræðingum hér á landi örskots tækifæri til að “öskubuskast”, þ.e. dafna um stund upp úr undirmálsmennskunni.

Kýrgil

Kýrgil – neðsti hluti.

Ef ætlun hinna (greindu) stjórnmálamanna hefði verið að nota sjóðinn til að byggja upp öfluga fræðigrein er væri í stakk búin til að takast á við og ljósumumvarpa hið óþekkta í stað þess að leita staðfestingar á því sem þegar hafði verið skráð á skinn væri staða hennar í dag allt önnur en var fyrir aðeins nokkrum árum.
Fjármagn má nota til ýmissa nota. Því er hægt að sóa, nýta án meðvitaðrar arðsemi, eða fá þá til baka, bæði með vöxtum og verðtryggingu. Með því að fjárfesta meðvitað og markvisst í “íslenskri” fornleifafræði má auðveldlega uppskera dýrmætar upplýsingar er varpað gætu ljósi á annars óskýrða fortíð þjóðarinnar (og það í eiginlegri merkingu). Framtíðin byggist jú á fortíðinni – uppruna, reynslu og þekkingu. Það er því ekki verra fyrir fámenna þjóð að þekkja grundvöll sinn þegar takast þarf á við stór og mikilvæg verkefni framtíðarinnar. Þá verður og heldur aldrei horft framhjá þeirri staðreynd að menningararfurinn er og verður sá hornsteinn sem samfélagið byggir tilvist sína á hverju sinni. Grundvöllur Alþingis Íslendinga (hátindar mikilfengleikans) byggir t.a.m. á þeirri hugmyndafræði.

Tjaldanes

Tjaldanes – dys Egils Skallagrímssonar.

Þegar kristni var leidd í lög “undan feldi” á Íslandi um árið 1000 e. Kr., bjó Grímur á Mosfelli. Um það vitnar Egilssaga. Nú væri hægt að skrifa lærða grein um tilurð og meðferð handritsins, en að því slepptu var nefndur Grímur í framhaldi af því skírður til þeirrar trúar og kirkja byggð á jörðinni. Fólk sagði að Þórdís, kona hans, hefði þá flutt bein Egils Skallagrímssonar úr dys hans í Tjaldarnesi í kirkjuna þegar hún var byggð að Hrísbrú. Ef einhverjar spurningar vakna hér um hver þessi Egill hafi verið verður sá hinn sami bara að lesa Egilssögu.
Skriða hljóp á kirkjuna, segir sagan, og ný var byggð að Mosfelli. Bein Egils voru þá tekin úr gröfinni undir kirkjugólfinu og þau flutt í utanverðan kirkjugarðinn. Sagt var að beinin og gröfin í gömlu kirkjunni hafi verið stærri en að meðaltali þótti. Taldi eldra fólk almennt að þar hefðu verið um bein Egils Skallagrímssonar að ræða. Sögunni fylgja þau munnmæli að maður sá er flutti beinin á milli kirkjunnar gömlu og grafreitsins hafi viljað merkja hvort þar gætu verið um leifar Egils að ræða. Hafi hann barið duglega í hauskúpuna en hún vart látið á sjá. Hafi það verið til staðfestingar á sannleiksgildinu. Hafa ber í huga að munnmæli mann fram af manni hafa oftar en ekki leidd til árangurs – þegar betur hefur verið að gáð.

Árið 2001 gaf fornleifarannsókn á Hrísbrú til kynna ýmislegan árangur. Hann staðfesti m.a staðsetningu kirkju á staðnum sem og kirkjugarð líkt og Egilssaga greinir frá. Kirkjubyggingin hefur verið gerð úr torfi og grjóti. Landnámsöskulagið staðfestir og tímatalið. Telja má nokkuð öruggt að hún sé frá þeim tíma er sagan greinir frá. Egill mun hafa látist háaldraður á ofanverðri 10. öld.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur á Kirkjuhól.

Í fréttum Mbl. 2004 er grein frá því að þúsund ára gömul kirkja hafi verið grafin upp í Mosfellsdal. “Í gær varið unnið að því að grafa upp beinagrind sem legið hefur í moldinni í um þúsund ár. Kirkja sem getið er um í Egilssögu hefur verið grafin upp að bænum Hrísbrú í Mosfellsdal. Kirkjan var byggð um árið 1000, strax eftir að Íslendingar tóku kristni, með merkilegum byggingarstíl og þykir einstaklega vel varðveitt. Þar hafa einnig fundist um 20 beinagrindur.
Magnús Guðmundsson sagnfræðingur segir að talið sé að þarna sé komin kirkja sem Grímur Svertingsson byggði í kringum árið 1000 þegar kristni var tekin upp á Íslandi. Kirkjan sé ein af 6-7 kirkjum sem byggðar voru á Íslandi strax við kristnitökuna. Hún hafi verið sóknarkirkja, aðallega fyrir Mosfellsdalinn og norðanvert Kjalarnes.
Kirkjan er um fjórir metrar að lengd og þrír metrar að breidd. Dagfinn Skre, prófessor í fornleifafræði við Óslóarháskóla, segir að uppgröfturinn að Hrísbrú gefi nýjar pplýsingar um kirkjubyggingar á Norðurlöndum frá þessum tíma. Ellefu kirkjur frá sama tíma hafi verið grafnar upp í Noregi, en engin þeirra sé byggð með sömu aðferð og kirkjan að Hrísbrú.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur.

“Margar mismunandi byggingaraðferðir voru notaðar. Í fyrsta lagi eru tréstöplar í hornunum, sem voru grafnir niður og báru uppi þakið. Síðan er biti eftir endilöngu gólfinu, með rauf sem veggþiljur voru settar í. Svona gólfbiti með þiljum hefur aldrei áður fundist í norrænum kirkjum. Það er áhugavert og mikilvægt,” segir Skre. Steinhleðsla er innan við tréþiljurnar, sem hefur borið uppi bekk meðfram veggnum fyrir kirkjugesti. Skre segir að kórinn hafi verið skör hærra en steingólf kirkjunnar og gólf hans hafi líklega verið klætt viði. Að utan var kirkjan klædd torfi.
“Það er merkilegt að sjá hvernig þiljur voru settar í grunntré. Þetta er mjög sjaldgæft,” segir Jesse Byock. Viðarbitarnir eru enn heilir og segir Byock að nú verði þeir þurrkaðir. Viðurinn hafi varðveist jafn vel og raun ber vitni þar sem súrefni hafi ekki komist að honum. Inntur eftir því hvort unir hafi fundist inni í kirkjunni segir Byock að lítið sé um það, en smábitar úr kopar og járni hafi þó komið í ljós.
Uppgröfturinn að Hrísnesi mun síðan halda áfram, en undir kirkjunni virðast vera leifar af landnámsbæ. Byock segir að útlit sé fyrir að eldur hafi komist í kirkjuna, viðurinn sé sums staðar
sviðinn, en engar heimildir séu þó til um bruna þar.
Krabbamein og berklar þjökuðu fólkið Þá hafa um 20 beinagrindur fundist til hliðar við kirkjuna. Sumar þeirra eru mjög vel varðveittar en aðrar ekki. “Fólk var ekki við góða heilsu á þessum tíma,” segir Byock og bætir við að fólkið hafi náð 40-45 ára aldri og verið hrjáð af ýmsum kvillum.
“Þetta fólk bjó við erfiðar aðstæður, var greinilega vannært og sumir mjög smávaxnir. Það kemur heim og saman við hluta af heimildum sem við höfum um Ísland á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og hvernig lífið var hér,” segir Magnús. Hann segir að beinagrindurnar séu af smávaxnara fólki en þær beinagrindur sem grafnar hafa verið upp á Íslandi frá svipuðum tíma. Augljóst sé að sumir hafi lifað mikinn skort.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Hann segir að ein beinagrindin sé af karlmanni á þrítugsaldri sem hafi greinlega látist úr krabbameini í heila. “Þeir hafa fundið meinvörp í höfuðkúpunni sem benda til þess að hann hefur dáið kvalarfullum og óþægilegum dauðdaga. Þeir eru með fleiri heimildir, telja sig jafnvel hafa fundið vísbendingar um berkla, þetta er í kringum árið 1000, og gæti bent til þess að þetta væru fyrstu vísbendingar um berkla hér á landi,” segir Magnús. Hann segir að Egill Skallagrímsson, sem dvaldi í Mosfellsdalnum síðustu æviár sín, hafi t.d. verið með höfuðriðu, orðinn fótkaldur og getulaus og lifað frekar slæmu lífi.
“Þó hafði hann það að mörgu leyti ágætt í horninu hérna hjá Þórdísi bróðurdóttur sinni og Grími Svertingssyni. Þau bjuggu hérna, það er talið að Egill hafi búið hérna á Mosfelli frá 974-990, um það leyti deyr hann og hann er grafinn hérna niðri í Tjaldanesi [sunnan við Hrísbrú]. Þórdís tók upp beinin og færði til kirkju sem Grímur þessi Svertingsson lét reisa hér á Mosfelli árið 1000, þegar Egilssaga segir að hann hafi tekið kristni,” segir Magnús. Hann segir að sumir telji að býlið að Hrísbrú hafi áður heitið Mosfell, en einhverjar nafnatilfærslur hafi átt sér þarna stað.

Hrísbrú

Hrísbrú.

Samkvæmt Egilssögu var kirkjan lögð niður í kringum árið 1150 og gæti það einnig vel verið raunin varðandi kirkjuna að Hrísbrú að sögn Byock.
Egla greinir frá því að bein Egils hafi þá verið tekin upp og færð að Mosfelli, en það var skylda samkvæmt kristnirétti Grágásar að færa grafir og kirkjugarða sömuleiðis ef kirkjur voru fluttar til. Magnús segir ómögulegt að segja til um hvort bein Egils séu meðal þeirra beina sem fundist hafa í uppgreftrinum. “Það vitum við ekki. Þeir hafa að vísu fundið einhver stór og mikil bein sem voru í kassa alveg við hliðina á kirkjunni, en það verður víst seint sem við getum útkljáð það. Öll erum við jú komin af Agli og vitum ekki hvort við getum útvegað þeim einhver lífssýni og séð hvort hann sé eitthvað skyldur okkur þessi maður. Egla reyndar segir að bein Egils hafi endað í utanverðum kirkjugarði að Mosfelli,” segir Magnús.

Ekkert bólar á silfri Egils. “Nei ekki enn þá,” segir Byock hlæjandi, þegar hann er inntur eftir því hvort ekkert hafi fundist af silfrinu hans Egils og bætir við að það sé lítil von til þess. Magnús segir að þó silfrið hafi ekki beint komist í leitinar telji margir Mosfellingar að heita vatnið sem hafi fundist í dalnum sé í raun silfur Egils. “Í það minnsta hafi þetta heita vatn verið gulls ígildi og sjálfsagt meira virði en einn lítill silfursjóður ættaður af Englandi,” segir Magnús.
Skre telur fulla ástæðu til að endurreisa kirkjuna að Hrísbrú og gera fólki þannig kleift að bregða sér þannig aftur í aldir. “Þetta er eitt af fáum tilfellum þar sem við höfum mikið af upplýsingum um hvers konar bygging þetta var og hvernig hún var byggð þannig að það er vel hægt að gera góða eftirlíkingu,” segir hann og bætir við að hann vonist eftir því að yfirvöld muni hrinda slíkri
endurbyggingu í framkvæmd. Slíkt segir hann að yrði gott framlag til lífsins í Mosfellsdal við upphaf Íslandsbyggðar.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Í Mosfellspóstinum frá þessum tíma segir frá því að “Stór gröf hefur fundist í kirkjustæðinu við Hrísbrú í Mosfellsdal en gröfin var undir gólfi kórsins í kirkjunni og í henni hafa fundist leifar af timbri. Jesse Byock, sem stýrir uppgreftrinum við Hrísbrú, segir ljóst að timburleifarnar séu úr líkkistu en miðað við stærð grafsögu. Í öðru lagi benda allar lýsingar Egilssögu til þess að Egill hafi verið mun hærri en flestir samtímamenn sínir og er hann meðal annars sagður „vel í vexti og hverjum manni hærri“. Jesse er þó ekki tilbúinn að fullyrða að þarna hafi Egill legið og bendir á að ekki sé hægt að segja að allt sem standi í Egilssögu sé rétt.
Við athugun kom í ljós að líkkistan hafi verið meira en tveggja metra löng. Ýmislegt bendir til þess að þetta hafi verið gröf Egils Skallagrímssonar, þó að vitaskuld sé ekki hægt að fullyrða það. Fyrir það fyrsta er talið að gröfin sé frá því í kringum árið 1000 og ef rétt reynist fer sú tímasetning ágætlega saman við frásögn Egils en uppgröftur á svæðinu hefur staðið yfir undanfarin ár og hafa fundist um 20 beinagrindur á svæðinu, þar á meðal stór og mikil bein sem gætu verið bein Egils, þótt það sé ekki víst. Þess má þó geta að í Eglu er sagt frá því að undir altarisstaðnum í kirkjunni hafi fundist mannabein, sem „voru miklu meiri en annarra manna bein“ og segir sagan að menn hafi þóst vita að þar væru bein Egils.
Byock segir að að öðru leyti gangi rannsóknir og uppgröftur vel og í sumar hafi strúktúr og er hugsanlegt að um gröf Egils Skallagrímssonar sé að ræða. Gröfin var undir gólfi kórsins í kirkjunni og í henni hafa fundist leifar af timbri.
Hrísbrú
Jesse segir ljóst að timburleifarnar séu úr líkkistu sem þar hafi legið og miðað við stærð grafarinnar sé líkkistan sú stærsta sem fundist hafi á svæðinu. Ýmislegt bendir til þess að þetta hafi verið gröf Egils, þó að vitaskuld sé ekki hægt að fullyrða það. Fyrir það fyrsta er talið að gröfin sé frá því í kringum árið 1000 og ef rétt reynist fer sú tímasetning ágætlega saman við frásögn Egilssögu. Þar er talað um að Egill hafi verið færður úr haugi við Tjaldanes og að kirkjunni, sem var að öllum líkindum byggð skömmu eftir að Íslendingar tóku kristni. Í öðru lagi benda allar lýsingar Egilssögu til þess að Egill hafi verið mun hærri en flestir samtímamenn sínir og er hann meðal annars sagður „vel í vexti og hverjum manni hærri“. Miðað við stærð grafarinnar er talið að líkkistan hafi verið meira en tveggja metra löng.

Byock er þó ekki tilbúinn að fullyrða að þarna hafi Egill legið. „Maður getur aldrei sagt,“ segir hann og bendir á að ekki sé hægt að segja að allt sem stendur í Egilssögu sé rétt. Þegar grafarstæðið fannst kom í ljós að grafin hafði verið hola í moldina sem lá yfir gröfinni. Byock segist ekki vita af hverju holan hafi verið grafin en líklegt sé að einhver hafi viljað komast að líkkistunni. Holan var hins vegar það lítil að ekki hefði verið hægt að ná kistunni upp um hana.

Í Egilssögu er sagt frá því að Egill Skallagrímsson hafi eytt síðustu æviárum sínum í Mosfellsdal en talið er að hann hafi látist um árið 990. Hann var fyrst um sinn heygður í Tjaldanesi en Þórdís, bróðurdóttir hans, lét síðar flytja hann að kirkjunni í Mosfelli, sem Grímur Svertingsson, maður hennar, lét reisa. Engin bein fundust í grafarstæðinu, sem fannst fyrir helgi. Þá hafi verið unnið að því að grafa upp veggstæði sem fannst norðanmegin við kirkjuna. Hugmyndir eru uppi um að gera líkan að kirkjunni í fullri stærð og segir Byock að arkitektar og fleiri muni koma að þeirri vinnu. „Það er samt bara hugmynd,“ segir hann.
Þegar Byock er síðan að lokum spurður þeirrar spurningar sem Íslendingar allir vilja vita svarið við, nefnilega hvar silfur Egils sé niðurkomið, svarar hann hlæjandi: „Ég er með það í vasanum!“ Hann viðurkennir þó fljótt að silfrið sé enn ófundið og að sennilega sé lítil von til að það finnist.

Staðarnafna úr dalnum er víða getið í heimildum frá landnámsöld og í Íslendingasögunum, m.a. í Eglu, Gunnlaugssögu og Hallfreðarsögu vandræðaskálds. Að sögn Mosfellsbæjar er það nær einsdæmi í norrænum fræðum að dæmi úr Íslendingasögunum séu jafn vel staðfestanleg með fornleifaminjum og komið hefur í ljós við uppgröftinn í Mosfellsdal. Við uppgröft stafkirkju að Hrísbrú hafi til að mynda verið sannreyndar upplýsingar sem koma fram í 89. kafla Egilssögu þar sem sagt er frá kirkjunni að Hrísbrú og örlögum hennar.

Ein athyglisverðasta niðurstaða um frumbyggjana í Dalnum er hve gömul bein hafa fundist í fornum kirkjugarði við Hrísbrú. Kolefnisgreining (C-14) bendir til þess að þar séu grafnir einstaklingar sem fæddir eru einhvern tíma um eða eftir aldamótin 900. Örlög þessa einstaklinga hafa einnig verið söguleg, því bein þeirra bera ummerki bardaga og þar er líklega komin fyrsta áþreifanlega vísbending hérlendis um einstakling sem hogginn hefur verið í herðar niður.
Fornleifaverkefnið Mosfell, er alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem nýtir sér verkfæri fræðigreina eins og sagnfræði, fornleifafræði, mannfræði, norrænufræða og umhverfisvísinda til að skapa heildstæða mynd af aðlögun landnámsmanna að náttúru og umhverfisbreytingum. Rannsóknin beinist að Mosfellsdalnum sem vistkerfi allt frá tímum víkinga. Mosfellsbær hefur styrkt verkefnið samkvæmt samningi til 3ja ára og er eitt ár eftir af þeim samningi.

Innansveitarkronika Halldórs Kiljan fjallar um kirkjuna á Mosfelli eins og fyrr greinir. Um það urðu mikil átök á sínum tíma, hvort rífa skyldi kirkjuna eða ekki og byggja aðra á Lágafelli. Mosfellskirkja var rifin. Inn í sagnfræðilegan stíl fyrri hluta bókarinnar kemur þessi skemmtilega frásögn af því, þegar Ólafur bóndi Magnússon á Hrísbrú kemur að Mosfelli og stendur á hlaðinu með orf sitt reitt um öxl og veit ljásoddurinn beint upp … Nokkru utar á hlaðinu og nær sáluhliði stendur Bogi sonur hans sem gerst hafði skjaldsveinn föður síns í þessari för og hafði hrífu í hendi.“ Þeir eru að mótmæla sameiningu kirkna og niðurrifi Mosfellskirkju:
“Ég er búinn að fara til klénsmiðs, mælti þá Ólafur á Hrísbrú, en þessir ræflar eru svo úrættaðir að þeir kunna ekki leingur að smíða sverð.
Og hverjir ætla sosum að fara að berjast með sverðum núna Ólafur minn, spyr séra Jóhann.
Ólafur svarar: Til er ég og til er Bogi.
Ja það er nú það Ólafur minn, segir séra Jóhann. Mér dettur í hug hvort ég ætti ekki að vekja hana Gunnu þó í fyrra lagi sé og biðja hana að snerpa á könnunni.
Þá segir Ólafur: Heldur þú og þið anskotar að Egill Skallagrímsson frændi minn hafi farið að drekka kaffi þegar hann var í vígahug?
Því er nú ver og miður að ég á ekki öl einsog Egill var vanur að drekka, segir séra Jóhann. En gott kaffi er gott ef það er gott.“
Halldór Laxness sagði mér að séra Jóhann hefði skírt sig, þegar hann var prestur í Reykjavík. “Hann var síðasti prestur á Mosfelli áður en kirkjan var rifin. Yfirvöld létu rífa kirkjuna samkvæmt lögum um sameiningu kirkna frá 1882; þau lög voru reist á konungskipun frá 1774. Það tók því meira en hundrað ár að fá þessu boði framfylgt; guð tók stinnt í á móti í Mosfellssveit. Séra Jóhann þjónaði aldrei Lágafellskirkju, en fluttist til Reykjavíkur og varð dómkirkjuprestur og gekk í svörtum frakka og gallossíum og var með stórt nef. Hann hafði dimman og hlýjan málróm og talaði ósjálfrátt í einföldum spakmælum. Það var hann sem sagði meðal annars þessi minnisverðu orð: Góð blöð eru góð ef þau eru góð. Svona spakmæli eru þægileg og meiða engan,“ segir skáldið.
Í sögunni segir, að séra Jóhann hafi látið aftur annað augað fyrir guðssástar sakir, þegar hann gaukaði klukkunni að Ólafi á Hrísbrú, eftir að kirkjan hafði verið rifin.
“Ég hef heyrt, að kannski hafi það ekki verið að séra Jóhanni forspurðum sem klukkan hvarf,“ segir Halldór Laxness og bætir við að – “þeir höfðu gott álit á honum hér í sveitinni, enda var það líkt honum að gefa klukkuna höfuðóvininum til að dangla í, þegar honum leiddist.“ Skáldið bætir því við, að séra Jóhann hafi verið honum mjög hugleikinn.  Mér þótti feikna gaman að sjá hann á götu í Reykjavík og heyra hann skiptast á orðum við fólk. Hann kemur fyrir í Heimsljósi sem fangelsispresturinn og einnig kemur hann mikið við sögu í Brekkukotsannál. Hann er mjög ólíkur séra Jóni Prímusi, svo ég gat ekki komið honum að í Kristnihaldinu.“
Ólafur á Hrísbrú og Bjartur í Sumarhúsum eru ólíkar manngerðir, þó það sé nokkur svipur með þeim sem bændum. Viss skyldleiki er með svona bændakalla-harðhausum, eins og skáldið komst að orði. “En Bjartur er útpenslaðri en Ólafur, þ.e.a.s. meira málaður út í hörgul. Ólafur á Hrísbrú er bara teiknaður með fáum strikum; ekki útfyllt mynd; ekki rakin slóð hans frá æsku eins og Bjarts. Bjartur var fullur af rímum og skáldskap og hafði marga góða kosti umfram Ólaf. Þegar deilurnar stóðu sem hæst, lét Ólafur mikið að sér kveða hér í sveitinni og vildi fara í stríð út af kirkjunni. Þá sagði hann: Til er ég og til er Bogi.“ Þetta er nú orðtak hér í Mosfellssveit, jafnvel stundum notað hér í húsinu. Þessi orð mætti festa upp yfir dyrum Mosfellskirkju. Mosdælir hafa séð, að þau voru fyndin. Bogi, sonur Ólafs, var manna ólíklegastur til hermennsku þeirra manna sem Mosdælir þekktu.“
Í Innansveitarkroniku segir skáldið á einum stað um Íslendinga: “Því hefur verið haldið fram að Íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um tittlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls… þó er enn ein röksemd sem Íslendíngar eru fúsir að hlíta, þegar alt um þrýtur, en það er fyndni; má vera aulafyndni. Við hlægilega lygisögu mýkist þjóðfélagið og fer að ljóma upp; jarðvegur sálarinnar verður jákvæður.“ Í samtalinu bætir skáldið við: “Þessi íslenzka fyndni er mjög sérkennileg og lætur stundum átök milli manna linast.“

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Allt er þetta aðdragandi sjálfrar sögunnar um Mosfellskirkju. Síðari hlutinn fjallar um það, hvernig munaðarlaus drengur, Stefán Þorláksson úr Reykjavík, sonur Ösku-Láka sem kallaður var, lenti í Mosfellsdal og leiddi af því að kirkja var endurreist á Mosfelli í okkar tíð. Þó vissi enginn til þess “að Stefán Þorláksson hefði nokkru sinni farið með gott orð í lifanda lífi; prestur nokkur hefur sagt við undirritaðan, að Stefán þessi muni hafa verið álíka trúlaus og Konstantín mikli, sem þó sannanlega bjargaði kristindóminum. Að minsta kosti mundi enn sem komið er teljast ofílagt að reikna hann með trúarhetjum í Mosfellssveit. Samt varð hann styrkari stoð sönnum kristindómi í sveit þessari, mælt í krónum og aurum, en flestir helgir menn vorir urðu hvort heldur með þöglum bænahöldum eða háværum sálmasaung eða laungum prédikunum.“ Hann var kallaður Stefi og muna hann enn margir. Einkunnarorð hans í sögunni eru: kaupa, kaupa sama hvað kostar – en að sögn skáldsins eru þessi orð upphaflega komin frá Oddi í Glæsi. “En ég hef krítað þau hjá Stefa af skáldsöguteknískum ástæðum.“

Innansveitarkronika er helgisaga eða jarteinabók að því leyti sem jarteinir eru þau undur sem guð notar til að sanna almætti sitt undir votta í einhverju sérstöku máli á einhverjum tilteknum stað. Ólíklegasta fólkið verður verkfæri til að sanna almætti guðs; Stefán, fátækur drengur með nafnmiðann sinn saumaðan inn í úlpuna sína; Guðrún Jónsdóttir, kölluð Gunna stóra, ösku- og mógrafakerling; og Ólafur á Hrísbrú, þessi rustakarl sem var sannanlega enginn dýrlingur. “Ekkert af þessu fólki virðist hafa haft nokkra trúarlega glætu. Það bara sannaði almætti guðs í Mosfellssveit.“

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Kaflinn um Stefa, þegar hann kemur fyrst lítill drengur að Hrísbrú, er skáldskapur sem festist í minni. Orðaskipti hans og Ólafs bónda, sem annars ekki vék hlýlega að gestum, óttaleysi drengsins við raunveruleikann, stórfljót og fjallgarða, en barnslegur ótti hans við ímyndanir sínar svo sem ræningja og hrynjandi fjöll, allt verður þetta ógleymanlegt. Hann vildi gera ál að hákarli með því að ala hann nógu vel á hornsílum, sem sagt; vildi einlægt gera mikið úr litlu. Mosfellskirkja hin nýja fæddist af framsýni í fébrögðum Stefáns Þorlákssonar. Klukkan í hana er komin þangað aftur fyrir tilstuðlan Ólafs bónda á Hrísbrú og kaleikurinn úr rusli eftir gamla konu sem dó á hreppnum á níræðisaldri 1936. “Einginn hafði vitað til að þetta munaðarlausa gamalmenni geymdi dýrgripa frammí dauðann; þaðanafsíður hvernig þessi kaleikur var kominn í hennar vörslur.“
Hver var þessi kona?
Hún hét Guðrún Jónsdóttir eins og í sögunni og “var í raun og veru kapítalisti, því hún var aldrei vistráðin en talin lausakona“. Í samtali okkar segir skáldið ennfremur: “Það er rétt, Guðrún Jónsdóttir var kapítalisti. Hún var ekki verkamaður. Hún lifði til að skemmta sér; hún tók ekki kaup; skemmtun hennar var að taka upp mó: hún var frjáls. Þessi kona veitti öðrum mönnum af auðlegð sinni ævilangt. Þegar hún var orðin gömul og farlama fór hún auðvitað á hreppinn.“ Skáldið heldur nafni hennar í sögunni eins og nafni á öðrum persónum, sem koma við kroniku Mosfellssveitar – en auðvitað með þeim fyrirvara sem stendur aftan á titilsíðu: Skírskotanir til nafngreindra manna rita skjala staða tíma og atburða þjóna ekki sagnfræðilegu hlutverki í texta þessum.“ Halldór Laxness segir í samtalinu: “Krakki hér í sveitinni, hlustaði ég eftir öllu sem sagt var, og ég á mér ótæmandi endurminningasjóð um fólk sem ég samneytti á bernskuárum mínum. Það var ólíkt fólki sem ég kynntist síðar. Ég kom hingað á fjórða ári úr Reykjavík og þetta fólk var minn félagsskapur, þangað til ég fór að vera á vetrum í Reykjavík 12 ára við ýmiss konar nám. Guðrún Jónsdóttir var oft hjá okkur í Laxnesi, stundum misserum saman. Ég man enn eftir ýmsum orðatiltækjum hennar, og kem þeim að í sögunni. Hún sagði til að mynda þetta: Ég kann bezt við mig í einhverju benvítis síli.“ Ég hef spurt orðabókamenn og þeir kannast ekki við þetta orðatiltæki. Það hefur ekki komizt á prent, svo ég viti, og ég hef engan heyrt nota það annan. En mér dettur ekki í hug að Guðrún Jónsdóttir hafi fundið það upp. Ég held að síli sé draslvinna eða vinnubjástur.“

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur (Jesse Byock).

Guðrún Jónsdóttir kom til Þórðar Jónssonar og Kristínar Vigfúsdóttur að Æsustöðum 1926 og hafði þá verið í Laxnesi. Hún átti kindur og hryssu, þegar hún var í fyrra skipti á Æsustöðum. Hún heyjaði þá Gunnubarð, sem svo var kallað, en nú er innan túns. Hún sló sjálf og batt. Hún hafði sérstakt skap og gott að vera í návist hennar. Hún var fædd í Hamrahlíð 26. desember 1854 og lézt á Æsustöðum 24. marz 1936. Hún var greftruð á Mosfelli. Hamrahlíð er ekki lengur í byggð, en er nú undir Blikastöðum. Andlit Guðrúnar og höfuðlag allt var af mynd að dæma stórskorið eins og landið.
Í upphafi ellefta kapítula sögunnar segir svo: “29unda júní sama vor og Mosfellskirkja var rifin mátti lesa eftirfarandi grein undir fyrirsögninni “Saga af dýru brauði“ í vikublaðinu Öldinni, og má gánga þar að henni ef einhver nennir að fara á bókasöfn og lesa gamlar blaðagreinar.“ Saga þessi fjallar um villu Gunnu stóru á Mosfellsheiði, þegar hún vitjaði pottbrauðs. Ungur piltur úr sveitinni tekur hana tali og spyr um villuna, rétt eins og blaðamaður eigi samtal við sérkennilega konu – en þó verðum við að hafa á þann fyrirvara, að hvorki frásögnin í Öldinni né lýsing Gunnu stóru í samtalinu eiga rætur í raunveruleikanum, og ekki heldur samtalið sjálft. Villur Guðrúnar í Innansveitarkroniku eru uppspuni. En svipaða sögu heyrði skáldið sunnan af Suðurnesjum. Þar var stúlka að villast hátt upp í viku í hrauninu á Reykjanesskaga. Hún hafði verið að vitja pottbrauðs í hveraholu. Gunnar Eyjólfsson leikari sagði skáldinu þessa sögu. Stúlkan sem villtist var að hann minnir amma leikarans eða ömmusystir. Þetta dæmi sýnir vel að skáld leita víða fanga. “Flest verður fróðum að kvæði,“ segir máltækið. Allt verður að söguefni, þótt ekki sé það sagnfræði í venjulegum skilningi.
“Ég var að hlusta á útvarpið um daginn,“ segir skáldið. Þar kom fram maður, sem spurður var frétta úr byggðarlagi sínu. Hann byrjaði frásögnina svona: “Vorið hefur verið gott fyrir sauðfé.“ Þessi maður kom mér í gott skap.“

Hrísbrú

Hrísbrú – kirkjan; fornleifauppgröftur.

Í Innansveitarkroniku miðast allt líf og öll tilvera við sauðfé. Þegar feðgarnir á Hrísbrú taka menn tali á hlaðinu og spyrja frétta, beinist talið alltaf að sauðfé, “því alt líf í landinu var einsog þann dag í dag miðað við sauðfé. Til dæmis þegar talað var um veður þá var það eitt sjónarmið ráðandi hversu það mætti henta sauðfé. Gott veður var það veður sem var gott fyrir sauðfé. Gott ár var það þegar óx gras handa sauðfé. Fallegt landslag á Íslandi þykir þar sem góð er beit handa sauðfé. Afkoma og sjónarmið manna í lífinu voru ákvörðuð af þessari skepnu. Hrísbrúíngar höfðu fréttir af sauðfé hvaðanæva af landinu og sögðu sögur af afkomu sauðfjár í Mosfellssveit. Þeir mundu nákvæmlega hvernig viðrað hafði fyrir sauðfé ár framaf ári þrjátíu ár aftur í tímann. Þessir menn fóru aldrei í utanyfir sig, en ullartreyur þeirra og peysur héldu vatni og vindi einsog reifið á íslenskri sauðkind.“

“Nú er sveitasagnfræðin komin í blöðin,“ segir Halldór Laxness enn í samtali okkar. “Bændur romsa upp einhverjum lifandi feiknum um harðærið í sveitunum með tilheyrandi útmálun á því hvernig veðrið var í fyrra og hitteðfyrra. Þetta eru oft einu greinarnar sem ég les í blöðunum. Steini á Valdastöðum var eftirlætisblaðamaður minn. Ég las einlægt fréttirnar hans í Morgunblaðinu tvisvar, stundum í þriðja sinn upphátt fyrir heimilisfólkið. Þrátt fyrir mörg mótdræg tíðindi í sveitum var hann eini fréttaritarinn í blöðunum sem sló ævinlega huggunarríka nótu. Þegar hann var búinn að lýsa þessum feiknarlegum óþurrkum sem gengið höfðu allt sumarið bætti hann alltaf við að það væri von manna að nú færi að breytast til batnaðar upp úr höfuðdeginum.“

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Fornleifarannsóknir í Mosfellsdal fylla upp í sjúkrasögu landsins. Rannsóknir á beinum sýna bæði krabbamein og berkla. Við bæinn Hrísbrústóð stafkirkja til forna og við hlið hennar heiðið brunakuml. Við bæinn Hrísbrú í Mosfellsdal fer fram mikill fornleifauppgröftur, en þar hafa fundist mannvistarleifar allt frá upphafi byggðar hér. Vísbendingar í Egilssögu urðu til þess að Jesse Byock, fornleifafræðingur og norrænufræðingur við Kaliforníuháskóla, fann þar eina af elstu kirkjum landsins, frá þjóðveldisöld. „Hérna var höfðingjasetur og kirkjan hefur sjálfsagt verið mikilfengleg, en hóllinn sem hún stóð á hefur lækkað mikið frá því á söguöld,“ segir hann.
Rétt við stafkirkjustæðið forna er smáhæð þar sem er að finna eina brunakumlið sem fundist hefur hér á landi. Þannig eru vísbendingar um byggð bæði í heiðni og kristni þarna á sama stað og jafnvel talið að nálægð greftrunarstaðanna gæti bent til að heiðni og kristni hafi þarna verið stunduð samhliða um einhvern tíma. Jesse Byock segir að ekki hafi áður fundist kirkja þar sem viðurinn hefur verið í jafngóðu ástandi og í stafkirkjunni við Hrísbrú.

Mosfell

Mosfellskirkja 1883.

„Kirkjan var yfirgefin og skilin eftir og hægt að sjá hvernig viðarhlutar hennar eru á sínum stað,“ segir hann og telur einna merkast að sjá svokallað grunntré kirkjunnar. Hann segir fundinn kenna okkur mikið um hvernig kirkjubyggingum var háttað fyrr á öldum, en byggingarlagið er í stíl við fornar stafkirkjur sem fundist hafa í Noregi.
Jesse segir sérstakt við þennan fornleifauppgröft hversu afmarkað tímabil sé verið að fást við. „Kirkjan var byggð og svo yfirgefin, en látin standa þegar sú nýja var tekin í notkun, þannig að tímabilið markast af 150 til 200 árum, frá upphafi tíundu aldar fram á elleftu öld.“ Hann segir tímamælingar á staðnum standast við rannsóknir á öskulögum sem sýni að kirkjan var byggð eftir árið 926.
Rannsóknir á beinum sem grafin hafa verið upp við kirkjustæðið hafa leitt í ljós sjúkdóma á borð við krabbamein og berkla.

„Hér fáum við miklar og góðar upplýsingar sem fylla í sjúkdómasögu þjóðarinnar,“ segir Jesse, en þarna kunna að vera fyrstu dæmin um berkla hér á landi. Hann segir rannsóknir á beinunum jafnframt leiða í ljós margvíslegar upplýsingar um mataræði og lifnaðarhætti fólks. Aðspurður taldi Jesse ekki miklar líkur á að meðal beinagrindanna sem grafnar hafa verið upp við Hrísbrú væru bein Egils Skallagrímssonar, en bein hans er sögð hafa verið grafin upp og flutt annað.
Björn Þráinn Þórðarson, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Mosfellsbæjar, segir að bæjarfélagið hafi mikinn áhuga á að nýta sér þessar merku fornminjar sem fundist hafa þarna í Mosfellsdal
með einhverjum hætti. Nefnir hann möguleika á að stofna fræðasetur þar sem fólki gæfist kostur á að kynna sér minjarnar og sögu landsins. Hann segir þessar hugmyndir tengjast áætlunum um menningarhús til minningar um Halldór Laxness. Björn telur stofnun minjaseturs mögulega í kringum fornleifauppgröft í Mosfellsdal, forn skipalægi í Leiruvogi og minningarsetur um ritun, ritstörf og menningu í dalnum allt frá tímum Egils Skallagrímssonar til daga nóbelsskáldsins frá Laxnesi.

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur.

Guðmundur Magnússon lýsti sjónarmiðum sínum um fornleifarannsóknirnar á Hrísbrú. “Ekki er víst að allir taki undir með fornleifafræðingunum sem grafið hafa upp leifar þúsund ára gamallar kirkju í Mosfellsdal og halda því fram að hún sé “einstaklega vel varðveitt”. Sannleikurinn er sá að það þarf bæði ímyndunarafl og þekkingu á fornri byggingararfleifð, sem ekki öllum er gefin, til að sjá fyrir sér kirkju þar sem nú er grjót og fátæklegar timburleifar. Það hjálpar þó að greinilega má sjá útlínur kirkjunnar í grunninum og þannig átta sig á flatarmáli hennar. Stoðholur veita ennfremur vísbendingar um byggingartækni.
En við Íslendingar erum líklega orðnir nægjusamir þegar fornleifafræði á í hlut. Við vitum að varðveisluskilyrði minja eru ekki góð hér á landi vegna veðurfars og jarðvegs. Við erum fyrir löngu hættir að bíða eftir því að upp úr jörðinni komi gersemar sem við getum flaggað í viðhafnarskápum í Þjóðminjasafninu. Líklega er hið eina sem þjóðin biður um og vonast eftir – þótt ekki fari það alltaf hátt eða sé opinberlega viðurkennt – að í moldinni sem fornleifafræðingarnir róta í með teskeiðum sínum leynist nýjar sannanir fyrir því að kappar og kvenskörungar fornbókmenntanna hafi verið af holdi og blóði; verið raunverulegar persónur. Óhætt er að segja að fæstir fornleifafræðingar hafi nú orðið sterka trú á víðtækri leiðsögn fornritanna við rannsóknir á leifum frá fyrri öldum. Aftur á móti eru þeir nógu þjóðhollir – eða bara skynsamir – til að nefna persónur fornsagnanna til sögu þegar þeir rekja rannsóknir sínar fyrir almenningi og fjölmiðlum. Þannig hafa skáldið Egill Skallagrímsson og Grímur Svertingsson komist í sviðsljósið nú þegar fundist hafa leifar kirkju frá frumkristni við merkilegar rannsóknir að Hrísbrú í Mosfellsdal. Þeir kappar eru ekki nefndir til sögu vegna þess að eitthvað nýtt sé um þá að segja á grundvelli fornleifanna heldur er hér á ferðinni meinlaus og oft bráðskemmtileg undirgrein almannatengsla, iðju sem margir þekkja frá stjórnmálaflokkum og stórfyrirtækjum.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Fyrir fræðimenn eru upplýsingar um byggingarform fornra mannvirkja, sjúkdóma, mataræði og hæð fólks, sem bein hafa fundist af, eða vísbendingar um lifnaðarhætti sem lesnar verða úr jarðvegi og dýraleifum, nægileg réttlæting og hvati rannsókna. Þeim verður iðulega heitt í hamsi og komast í uppnám út af leifum og gripum sem almenningur getur ekki lesið glóru í eða tengt frásögnum á fornum bókum. Fræðimönnum finnast nafnlausar minjar ekkert síður merkilegar en hinar sem hefðin og þjóðtrúin setur nafnspjöld á. Þetta gap á milli fræðimanna og almennings er eðlilegt og óhjákvæmilegt og þekkist í einni eða annarri mynd í öllum vísindum. Fornleifafræðingar, sem unnið hafa við rannsóknir á Íslandi, eiga hrós skilið fyrir að hafa mörgum öðrum fræðimönnum okkar fremur lagt sig í framkróka um að miðla rannsóknum sínum, hugmyndum og kenningum til almennings. Það hafa þeir einkum gert á vettvangi fornleifauppgrafta með leiðsögn, fyrirlestrum og upplýsingaskiltum. Þeir hafa líka notað netið til að koma efni til almennings svo að til fyrirmyndar er.
Við Íslendingar getum verið harla glaðir þótt okkur takist ekki nema að litlu leyti að tengja fornleifar og fornbókmenntir okkar. Við þurfum í rauninni hvorki að leita né finna hetjur og kappa sagnanna í moldinni og getum einbeitt okkur að hversdagslegri minjum sem ekki eru síður mikilvægar til skilnings á sögu genginna kynslóða. Sannleikurinn er nefnilega sá að þótt gaman væri að finna höfuðkúpu Egils Skallagrímssonar í kirkjugarðinum að Mosfelli eða Hrísbrú eru margfalt meiri verðmæti falin í “Höfuðlausn” hans í Egils sögu. Við þurfum ekki að fara yfir bæjarlækinn til að sækja vatnið.”

Samkvæmt Egilssögu ætlaði öldungurinn sagnaþulni að dreifa silfursjóð sínum (sem hann mun hafa fengið að launum frá Aðalsteini konungi fyrir yrkingar sínar) yfir þingheim á Alþingi að Þingvöllum sumarið 990, en ákvað þess í stað, eftir fortölur, að fela hann nálægt Mosfelli. “Egill tók sótt eftir um haustið, þá er hann leiddi til bana”.

Heimild m.a.:
-http://66.249.93.104/search?-http://66.249.93.104/search?
-www.gljufrasteinn.is/
-Mbl. 5. apríl 2004.
-Árni Helgason – Mbl.
-Mosfellingur.
-Egilssaga – höfundur ókunnur.

Mosfell

Mosfellskirkja.

Mosfellsbær

Þegar leitað er efnis um Mosfellsbæ má finna ágætt upplýsingakort af því helsta sem sveitarfélagið býður upp á hvað varðar útivist og sögulegan fróðleik:

Mosfellsbær – sveit með sögu

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Mosfellsbær er um 200 ferkílómetrar að flatarmáli og afmarkast af Reykjavík (áður Kjalarneshreppi) að norðan, að austan af Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppi og Sveitarfélaginu Ölfusi, að sunnanverðu af Kópavogi og að vestanverðu af Reykjavík. Í aldanna rás hét sveitarfélagið Mosfellshreppur og náði allt að Elliðaám fram á 20. öld en 9. ágúst 1987 lauk langri sögu hreppsins og Mosfellsbær varð til.  [Mosfellssveit náði framan af að Elliðaám. Öll braggabyggð austan Elliðaáa var því í Mosfellssveit – SH].
Sögu byggðar í Mosfellssveit má rekja aftur á landnámsöld þegar Þórður skeggi og Vilborg Ósvaldsdóttir námu land milli Leirvogsár og Úlfarsár. Þau bjuggu á Skeggjastöðum en „frá Þórði er margt stórmenni komið á Íslandi,“ segir í Landnámu.

Mosfellsbær

Lágafell – Þarna er viðbygingin sem hýsti m.a. Lestarfrélagið.  Þinghúsið er ekki risið.
Í ágúst árið 1890 komu nítján Mosfellingar saman við hamarinn hjá Seljadalsá við sunnanvert Hafravatn. Þar stofnuðu þeir Lestrarfélag Lágafellssóknar; nú Bókasafn Mosfellsbæjar. Lestrarfélagið var eitt fyrsta félagið sem stofnað var í Mosfellssveit og lét fleira til sín taka en söfnun bóka og útlán þeirra. Félagið var eign þeirra sem greiddu árgjald, og safnaði fé með ýmsum hætti til bókakaupa, m.a. með tombóluhaldi og öðrum skemmtunum. Árið 1890 voru íbúar í sókninni 404 sálir.

Allt fram á síðari hluta 19. aldar ríkti kyrrstætt bændasamfélag í Mosfellssveit, líkt og annarsstaðar á Íslandi. Sveitin var að vísu í þjóðbraut því um hana lágu leiðir til Vesturlands, Þingvalla og austur fyrir fjall. En íslenskir bændur voru ekki alltaf að flýta sér til móts við nútímann og þegar fyrsti hestvagninn sást í Mosfellssveit á ofanverðri 19. öld töldu menn að eigandinn væri genginn af göflunum!
Kringum aldamótin 1900 varð félagsleg vakning í Mosfellssveit, ýmis félög voru stofnuð, til dæmis lestrarfélag, kvenfélag og ungmennafélag. Smám saman urðu atvinnumálin einnig fjölbreyttari: Ullarverksmiðjan á Álafossi tók til starfa árið 1896 og fyrsta gróðurhús landsins var byggt á Reykjum árið 1923. Mikinn jarðhita er að finna í Reykjahverfi og Mosfellsdal og vagga íslenskrar ylræktar stóð í Mosfellssveit.
Mosfellssveit og þegar þeim lauk voru yfirgefnir hermannabraggar meðal annars nýttir undir starfsemi Reykjalundar sem tók þá til starfa.
Allt frá stríðslokum hefur verið mikil fólksfjölgun í sveitarfélaginu, fyrsta stóra stökkið í þeim efnum varð á 8. áratugnum og nú búa meira en átta þúsund manns í sveitinni milli fellanna þar sem fjölbreytt náttúra og áhugaverð saga haldast í hendur.

Hernámsárin

Mosfellsbær

Helgafells hospital.

Hinn 10. maí 1940 steig breskt hernámslið á land í Reykjavík og tók fljótlega að hreiðra um sig í Mosfellssveit, í tjöldum og síðan bröggum. Umsvif hernámsliðsins gjörbreytti ásýnd sveitarinnar og mannfjöldinn margfaldaðist; ári síðar kom bandarískt herlið til sögunnar og leysti það breska af hólmi. Braggahverfi, svonefndir kampar, risu víða í Mosfellssveit og hlutu erlend nöfn, til dæmis Whitehorse, Victoria Park og McArthur. Flestir kamparnir voru í námunda við Varmá og í sunnanverðri sveitinni, meðal annars í grennd við Hafravatn og Geitháls.
Norðvestan við Hafravatn stóð kampurinn Jeffersonville. Þar var meðal annars bakarí og ekið með framleiðsluna í önnur braggahverfi en einnig voru hér skotfæra- og birgðageymslur svo og bílaverkstæði. Braggabyggðin við Hafravatn er horfin en enn má sjá marga húsgrunna á þessum slóðum sem vitna um mannlíf undir bogalaga bárujárni á liðinni öld.

Stekkur

Helgafell

Helgarfell – stekkur í Stekkjargili.

Við erum stödd neðan við Stekkjargil í austanverðu Helgafelli og grjóthóllinn sem blasir við okkur heitir Stórhóll. Gilið dregur nafn sitt af fjárstekk frá bænum Helgafelli og má sjá rústir hans hér undir brekkunni. Stekkur er lítil fjárrétt, notaður til að mjalta ær og var þessi stekkur sennilega nýttur fram yfir aldamótin 1900 en var þá stækkaður og breytt í fjárhús eða beitarhús.
Í Stekkjargili eru ágætir bithagar en gróðurfar í Mosfellssveit mótast af landslagi og hæð yfir sjávarmáli. Efst eru fellin gróðursnauð en gróðurþekjan þéttist þegar neðar dregur, líkt og hér í Stekkjargili.
Jarðvegurinn í Mosfellsbæ er víða frjór og lífrænn og reyndist hentugur til mótekju en mór er jurtaleifar sem var áður fyrr notaður til húshitunar og eldamennsku. Mógrafir voru allvíða í sveitarfélaginu, meðal annars í Stekkjarmýri sunnan við Stekkjargil.

Helgafell
Helgafell
Helgafell rís 216 metra yfir sjávarmáli og þeir sem ganga á fjallið verða verðlaunaðir með góðu útsýni yfir Mosfellsbæ og Sundin blá. Efst á fellinu má sjá rústir af varðbyrgi frá hernámsárunum og vestan fjallsins eru leifar fjöruborðs, í 55 metra hæð yfir sjávarmáli, sem skýrist af því að eftir að ísaldarjökullinn tók að hopa fyrir um 10.000 árum gekk sjór inn á láglendið í Mosfellssveit.
Algengasta gönguleiðin á Helgafell hefst á svonefndum Ásum við Þingvallaveg. Leiðin liggur framhjá tveimur steyptum vatnstönkum frá hernámsárunum sem voru notaðir til að miðla köldu vatni í stórt sjúkrahúshverfi sem reis á Ásunum og nefnt var Helgafell Hospital.

Helgafell

Helgafell – Stekkjartjörn (loftmynd).

Göngusneiðingur liggur upp fjallið að vestanverðu og þar sem lagt er á brattann er smálaut sem er leifar af lítilli gullnámu frá því snemma á 20. öld. Forsaga málsins er sú að skömmu eftir aldamótin 1900 tóku menn að gera sér vonir um að finna gull í Mosfellssveit, einkum við Seljadalsá í suðurhluta sveitarinnar. Þegar bóndinn á Reykjum auglýsti jörð sína til sölu árið 1911 skrifaði hann í blaðaauglýsingu: „Reykjaland liggur meðfram Þormóðsdals landareign að norðan, og stefnir gullæðin þar á það mitt. Líka kvað hafa fundist gull í næstu landareign að norðan í líkri stefnu (Helgafelli).“ Engar frekari sögur fara af gullinu í Helgafelli.

Reykir

Mosfellsbær – herseta á Reykjum.

Árið 1942 voru reistar spítalabúðir í landi Suður­Reykja,­ þar sem Reykjalundur er í dag. Spítalinn hóf starfsemi með 250 sjúkrarúmum í októbermánuði,­ en hafði rými fyrir 550 sjúklinga í neyðartilvikum. Álafoss Hospital var aðeins starfræktur í eitt ár en starfsemin þá flutt í Helgafell Hospital vegna fækkunar í herliðinu. Reykjabændur,­ þeir Bjarni Ásgeirsson og Guðmundur Jónsson,­ voru leigusalar lóðarinnar til hersins. Flestir braggarnir voru fljótlega fjarlægðir en S.Í.B.S. keypti lóðina og hóf starfsemi sína m.a. í þeim sem eftir stóðu og voru í notkun fram á sjöunda áratuginn.

Sjá upplýsingaskilti Mosfellsbæjar HÉR og HÉR.

Mosfellsbær

Liðskönnun Bandaríkjahers í íbúðarhverfi Camp Jeffersonville. Fjær sér í verkstæðisbyggingar í neðri hluta búðanna og rýkur úr reykháfi kaffibrennslunnar sem þar var ásamt þvottahúsi, birgðageymslum og margskonar verkstæðum, t.d. fyrir vopnabúnað auk skóvinnustofu. Hafravatnsfell í baksýn.

Grímannsfell

Við Grímannsfell í Mosfellsbæ er skilti. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Halldór Laxnes

Halldór Laxnes við Köldukvísl.

“Kaldakvísl er dragá sem á upptök sín austan Grímannsfells og fellur eftir endilöngum Mosfellsdal. Suðurá sameinast ánni neðst í dalnum en Kaldakvísl fellur til sjávar í Leirvog.
Handan árinnar rís Grímannsfell 484 metra yfir sjávarmáli og er eitt hæst þeirra fella sem prýða sveitarfélagið. Fjallið, sem er að mestu úr móbergi og grágrýti, er einnig nefnt Grímarsfell og hafði Halldór Laxnes skýringu á þeirri nafnbreytingu. Hann ritaði í bókinni “Grikklandsárið” sem kom út árið 1980: “Frá Laxnesi lokar Grímarsfell sjóndeildarhringnum til suðausturs og horfa klettabelti fjallsins í norður mót okkur, og safna skugga; fjallið hefur upphaflega verið kennt við Grímar sem síðan breyttist í Grímann uppá dönsku eins og annað hér. Efst í klettabeltunum klofnar fjallið fyrir miðju, en fyrir neðan kluftina byrja grænar hlíðar og hallar niðrað á þeirri sem fellur meðfram fjallinu ofan dalinn, Köldukvísl.”

Kaldakvísl

Foss í Köldukvísl.

Laxnes

Fyrir neðan bæinn Laxnes í Mosfellsdal er upplýsingaskilti. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Laxnes

Laxnes – skilti.

“Laxnes er gömul bújörð og fyrst getið í heimildum á 16. öld. Seint á 19. öld reis hér stórt íbúðarhús. Það varð bernskuheimili Halldórs Laxness sem flytti hingað með forledrum sínum voru 1905. Hér átti hann björt benskuæar sem hann hefur lýst ítarlega, einkum í endurminngabókinni “Í túninu heima”.
Halldóri voru bersnkustöðvarnar sérlega hugleiknar og ungur að árum hóf hann að kenna sig við bæinn. Hann skrifaði á efri árum: “Oft er ég í draumi aftur staddur í þessu túni bernskunnar, Laxnestúninu, og nú er ekki lengur til. Ég var eitt af grösunum sem uxu í túninu.”
Bernskuheimili Halldórs stendur enn og er eitt elsta íbúðarhúsið í Mosfellsbæ. Í Laxnesi var rekið stórt kúabú, sem kallað var Búkolla, um miðja síðustu öld og hestaleiga tók hér til starfa árið 1968.”
Laxnes

Mosfellsdalur

Í vestanverðum Mosfellsdal er upplýsingaskilti. Á því er eftirfarandi texti:

“Velkomin í Mosfellsdal.

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur – skilti.

Mosfellsdalur er umkringdur fjöllum, í norðri rís Mosfell (276 m.ys.) en að austanverðu eru Grímannsfell eða Grímarsfell (484 m.y.s.), Æsustaðafjall (220 m.y.s.) og Helgafell (217 m.y.s.). Talið er að jökullón hafi fyllt dalinn á ísöld og skýrir það mikið jarðvegsdýpi á dalbotninum. Hann var fyrrum mýrlendur en ræktaður upp smám saman ogvar lagður akvegur eftir miðjum dalnum um 1930 en áður lá leiðin meðfram fjöllunum.

Tvær ár renna um Mosfellsdal, Kaldakvísl að norðanverðu og Suðurá um sunnanverðan dalinn. Þær fallast í faðma hér skammt frá í svonefndum Víðiodda og renna til sjávar í Leiruvogi undir nafninu Kaldakvísl.

Mikill jarðhiti er í suðurhluta Mosfellsdals. Jarðhitinn var á sínum tíma virkjaður og vatninu dælt um Skammadal og áfram til Reykjavíkur.

Í Mosfellsdal eru starfrækt vistheimili. Í Reykjadal er starfrækt heimili fyrir fötluð börn. Í Hlaðgerðarkoti er meðferðarheimili og í norðanverðum dalnum gnæfir Mosfellskirkja á háum hól. [Tjaldanes var heimili þroskaheftra drengja í Mosfellsdal þar til í maí 2004.]

Mosfellsdalur

Í Mosfellsdal.

Landbúnaður var fyrrum blómlegur í dalnum en nú er hefðbundinn búskapur að mestu aflagður, sauðfé er á örfáum bæjum og á Hrísbrú er rekið eina kúabúið í sveitarfélaginu. Í dalnum er einnig að finna gróðrastöðvar, tjaldstæði, hestaleigu, golfvöll og húsdýragarð.

Austast í dalnum er bújörðin Laxnes þar sem Halldór Laxness ólst upp, hann hleypti undir heimdraganum úr Mosfellsdal en orti árið 1930 þegar hann kom til bernskustöðvanna:

Í dalnum frammi undi eg áður fyr,
við ána greri fífillinn minn bestur.
En brott eg fór, og fjöllin urðu kyr.
Eg fer hér nú sem þúsundáragestur.”

[Auk margra annarra áhugaverðra staða, s.s. Hraðastaði, Æsustaði og Helgadal, geymir dalurinn fjölmarga aðra minjastaði, m.a. Hrísbrú og Mosfell þar sem t.d. Egill Skallagrímsson bjó um tíma, auk aðliggjandi staða.]

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur – horft frá Laxnesi.

Gljúfrasteinn

Við Gljúfrastein í austanverðum Mosfellsdal er upplýsingaskilti. Á því er eftirfarandi texti:

Gljúfrasteinn

Halldór Kiljan Laxnes á vinnustofu sinni að Gljúfrasteini.

“Gljúfrasteinn var byggður í Laxneslandi og arkitekt hússins var Ágúst Pálsson. Húsið reis á hálfu ári. Auður Laxnes segir þannig frá í ævisögu sinni, “Á Gljúfratseini”: “Á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1945, kom ég mér vel fyrir í sólkskininu á svölum Landspítalans, og vélritaði samning um byggingu Gljúfrasteins, og dagana á eftir var hafist handa. Fyrstu merki þess að framkvæmdir væru hafnar, var sími festur uppá steini hér úti á hól, og breiddur yfir hann segldúkur á kvöldin. Þá var fátt um byggingarefni, og þurfti að hringja í ýmsar áttir og tína það saman héðam og þaðan af landinu.”
Um jólin 1945 fluttu Halldór og Auður að Gljúfrasteini og varð heimili þeirra strax einstaklega hlýlegt og prýtt mörgum fallegum listaverkum. Hér var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness um hálfrar aldar skeið og húsið skipar sérstakan virðingarsess í augum íslensku þjóðarinnar.”

Gljúfrasteinn opnaði sem safn 2004 og er húsinu haldið óbreyttu frá því sem var. Boðið er upp á hljóðleiðsögn um húsið á ýmsum tungumálum.

Gljúfrasteinn

Halldór Kiljan Laxnes og Auður með Nóbelsverðlaunaskjalið 1955.

Árið 2018 fór fram fornleifarannsókn vegna framkvæmda við bílaplan við Mosfellskirkju. Í framhaldinu var skrifuð skýrsla; “Mosfell í Mosfellsdal – Framkvæmdir við bílaplan austan við kirkjuna“. Höfundur var Ragnheiður Traustadóttir.

Saga Mosfells

Mosfell

Í skýrslunni “Skráning fornleifa í Mosfellsbæ”, sem var gefin út árið 2006 er rakin saga Mosfells og er bæjarstæðið skráð ásamt kirkjunni sem stóð þar. Þessi skýrsla var unnin upp úreldri skráningargögnum. Skipuleg skráning fornleifa í Mosfellsbæ hófst árið 1980 og var það fyrsta skráning sinnar tegundar á Íslandi. Í skýrslunni er að finna góðar lýsingar á fornleifum í sveitarfélaginu en hún er háð þeim takmörkunum að minjar voru ekki allar settar á kort og þær sem hafa ratað inn á vefsjá sveitarfélagsins eru oft ekki nákvæmt staðsettar enda voru mælingartæki á þeim tíma ekki jafn nákvæm og þau eru í dag. Lýsingar úr fornleifaskráningunni á bæjarstæðinu og kirkjunni er að finna í skýrslunni:

Magnús Grímsson segir í athugasemdum við Egilssögu: „Bærinn á Mosfelli stendr á 122 austr-hala hóls þess, sem kirkjan stendr á. Hóll þessi er hæstr að vestan, næst Merkrvallargili, og að sunnan, sem fram veit að Köldukvísl; þar er brekka framan í honum, há og allfögur tilsýndar.

Mosfell

Mosfell – Gamli preststaðurinn á uppgraftarsvæðinu.

Fellsmegin við hól þenna er landslag nokkru lægra. Hæstr er hóllinn þar, sem kirkjan nú stendrá honum, og þar norðan undir er lægðin milli hans og fjallsins mest, þar sem kirkjan stóð áður. Austr af hólnum er jafnaflíðandi, og þar er nú bærinn; ætla eg að hann hafi þar staðið síðanhann var fluttur af Hrísbrú, því engar rústir eru þær þar nærlendis, sem bendi á annað, enda eru og hér öskuhaugar miklir og fornir. Eru þeir hér, eins og á Hrísbrú, beint fram undan bæjardyrum og skammt frá þeim, svo stórir, eins og smáhólar. En að Minna-Mosfell sé laungu síðarbyggt, byggi eg meðal annars á því, að þar eru engir fornir öskuhaugar að sjá. En það bregzt sjaldan að þeir sé til, jafnvel grasi vaxnir hólar, á fornum stórbæjum á Íslandi, og eins við fornarbæjarrústir, optast nær beint framundan bænum. Gæti þeir opt verið til góðs leiðarvísis, ef uppskyldi grafa slíkar rústir, sem á mörgum stöðum væri án efa vel gjörandi. Eitt það, sem eg byggi áætlan mína um það er þegar sagt er, um bæjarflutninginn frá Hrísbrú að Mosfelli …“.

Sigurður Vigfússon segir svo um öskuhauga: „…enn á Mosfelli veit eg að það hefir prófazt viðhúsbyggingar og umrót; þar fannst mikil aska, bæði undir bænum og í kálgörðunum fram undan bænum“.

Mosfell
Í Lýsingu Mosfells- og Gufunessókna segir svo: „Mosfell (Stóra Mosfell) stendr á hæð lítilli, sunnan undir Mosfelli (Mosfellsfjalli), norðanvert í Mosfellsdal“ .

Seinna var bærinn fluttur: „Mosfell, prestssetrið, var sunnan í fellinu, en nú er bærinn fluttur suður yfir Köldukvísl á Víðinn, til að geta hitað húsin með hveravatni frá Norður Reykjum…“.

Mosfell

Bæjarhúsin skv. túnakortinu 1916 sett inn á uppgraftarsvæðið.

Á Túnakorti frá 1916 sést bærinn rétt austan við grafreitinn. Bæjarhúsin samanstanda af íbúðarhúsi úr timbri, eldhúsi úr torfi og skemmu úr torfi með timburþili. Þessi bæjarhús eru nú líklega að einhverju leyti horfin undir núverandi kirkju og kirkjugarð.

Nokkur orð um Mosfellsprestakall: Kirkja var fyrst reist að Hrísbrú þegar kristni var lögtekin á Íslandi. Sú kirkja var seinna flutt að Mosfelli. Getið er kirkna að Varmá, í Þerney, talað var um bænhús að Lágafelli fyrir 1700, kirkja var að Suður-Reykjum og var hún lögð niður 1765. Kirkjan að Varmá er með vissu niðurlögð fyrir 1600 (sbr. síðar). Með konungsbréfi 6/1 1774 var skipað að setja kirkju á Lágafelli og leggja þangað Mosfells- og Gufunessóknir, en það var afturkallað með kgbr. 7/6 1776. Viðey var lögð til Mosfells 1847. Árið 1880 er Brautarholtssókn lögð undir Mosfell. Með landshöfðingjabréfi 21/9 1886 eru Mosfells- og Gufunessóknir sameinaðar og ákveðið að reisa eina kirkju fyrir báðar að Lágafelli. Árið 1901 er Mosfellsprestakall lagt niður og Lágafells- og Viðeyjarsóknir lagðar undir Reykjavík en Brautarholtssókn til Reynivalla. Þetta kom þó aldrei til framkvæmda og 1927 er Mosfellsprestakall tekið upp á ný,óbreytt.

Í Egilssögu er getið um að kirkja sem reist var á Hrísbrú, er kristni var lögtekin, hafi verið flutt að Mosfelli.

Segir dr. Jón Þorkelsson að kirkjuflutningurinn hafi líklega verið á árunum 1130-1160. Segir Sigurður Vigfússon það eftir honum í grein sinni „Rannsókn í Borgarfirði 1884“.

Sama kemur fram í Prestatali og prófasta og er líklega einnig haft eftir Jóni Þorkelssyni. Nokkrar umræður urðu um staðsetningu hinnar fyrstu kirkju og bæjarins að Mosfelli. Vildu sumir meina að bæði kirkja og bær hafi verið flutt fráHrísbrú og að Mosfelli. Jafnframt hafi nafnið flust (þ.e. Hrísbrú hafi upphaflega heitið Mosfell). Helstutalsmenn þessarar kenningar voru Magnús Grímsson og Kålund.

Á annarri skoðun eru t.d. SigurðurVigfússon í grein sem hann birti í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1884-1885 og Sigurður Nordal íútgáfu sinni að Egilssögu 1933, þ. e. að einungis hafi verið að ræða um flutning kirkjunnar.Í Prestatali og prófasta eru taldir upp allir prestar á Mosfelli frá upphafi. Skafti Þórarinsson er fyrsti prestur þar, sem heimildir geta um. Hann var prestur að Mosfelli fyrir 1121 og til um 1143 en þá tekur næsti prestur við og þjónaði hann til um 1180. Kirkju er getið að Mosfelli í kirknaskrá Páls biskups frá um 1200 yfir kirkjur í Skálholtsbiskupsdæmi, sem presta vantaði að.
Af heimildum að dæma leggst kirkjan á Mosfelli niður snemma á miðöldum og er jörðin komin í eigu leikmanna á 15. öld.

Mosfell

Mosfell – framkvæmdarsvæðið.

Næst er kirkja reist að Mosfelli á fyrri hluta 16. aldar, ef marka má heimildir, og er prests getið þar um 1536 .
Er nú kirkja samfellt að Mosfelli fram til ársins 1888 að hún er rifin og ný kirkja reist að Lágafelli.
Kirkja var vígð að Mosfelli 4. apríl 1965 og stendur sú kirkja enn.
Úttekt var gerð á Mosfellskirkju árið 1887 að skipan prófastsins í Görðum og er úttektarskjalið til enn. Segir í því, að kirkjan hafi verið 11 álnir og 11 þumlungar að lengd innan gafla, en það mun vera um 7metrar. Breiddin var 9 álnir og 12 þumlungar, innan veggja, en það er um 5,7 metrar. Kirkjan hefur því verið rétt tæpir 40 fermetrar.

Um staðsetningu kirkjunnar segir Magnús Grímsson: „Kirkjan stendr enn í dag á Mosfelli, en ekki er hún þar nú í sama stað og hún hefir fyrst verið sett á. Kirkjan stendr nú á háum hól fyrir vestan bæinn. Áðr hefir hún staðið norðanvert við hól þenna, eðr í norðrjaðri hans. Norðanvert við kirkjugarðinn, sem nú er á Mosfelli, sér enn til kirkjugarðsrústar innar fornu… Kirkjan sjálf hefir staðið austast í garðinum, og verðr ekkert ráðið í um stærð hennar, því rúst hennar er, eins og garðsins alls, og öllu fremr, gjörfallin og grasi vaxin… Hafi bærinn á Mosfelli staðið þar, sem nú er hann, sem ekki er ólíklegt, þegar kirkjan var hingað flutt, þá hefir kirkjan verið sett viðlíka lángt frá bænum og öldúngis í sömu átt frá honum, eins og kirkja Gríms áðr á Hrísbrú, og er það ekki með öllu óeptirtektan vert… Enga veit eg ástæðu til þess, hví kirkjan og kirkjugarðurinn hafa hér verið færð úr stað, né heldr nær það hefir verið gjört. En rústin sýnir að lángt muni vera síðan… Vera má hið forna kirkju stæði ekki þótt fagrt, því það liggr heldr lágt, og miklu hrósar kirkjan sér betr uppi á hólnum þar sem nú er hún.“

Um staðsetningu kirkjunnar segir Kålund: „Nu står kirken – som sædvanligt midt i kirkegården – på enhøj, der falder temmelig brat af mod mosen, men tidligare har kirken og kirkegården, af hvilken endnulævninger ses, været lidt nordligere umiddelbart nord for den nuvær ende“.

Mosfell
Í Örnefnalýsingu Mosfells segir: „Stór hóll var þar sem kirkjan var, og heitir hann Kirkjuhóll“.
„Norðanvert við kirkjugarðinn, sem nú er á Mosfelli, sér enn til kirkjugarðsrústarinnar fornu; er hún auðséð að vestan, norðan og austanverðu, en að sunnanverðu hefir garðrinn gengið að eða inn í kirkjugarðinn, sem nú er, og sést því ekki til hans þar; ætla ég, að þessi kirkjugarðr hafi verið ferskeyttr, hérum-bil 18 eðr 20 faðmar á lengd austr og vestr, en 12 eðr 14 faðma breiðr norðr og suðr. Kirkjan sjálf hefir staðið austast í garðinum, og verðr ekkert ráðið í um stærð hennar, því rúst hennar er, eins og garðsins alls, og öllu fremr, gjörfallin og grasi vaxin. Í þessum garði sjást enn glögg merki til leiða, sem snúa í austr og vestr, sumstaðar í skipulegum röðum. Enginn steinn sést hér neinstaðar, nema einn eða tveir hleðslusteinar norðanvert í garðsrústinni. Gata vestr úr túninu á Mosfelli liggr nú sunnan til um garð þenna, norðan undir hinum nýja kirkju garði… Enga veit eg ástæðu til þess, hví kirkjan og kirkju garðurinn hafa hér verið færð úr stað, né heldr nær það hefir verið gjört. En rústin sýnir, að lángt muni vera síðan.Mjög eru og bæði leiði og gröptur forn orðinn í þeim kirkjugarði, sem nú er, og sá garðr mjög útgrafinn; er hann þó allstór (hérumbil 72 faðmar umhverfis í átthyrningsmynd). Vera má hið forna kirkjustæði ekki þótt fagrt, því það liggr heldr lágt, og miklu hrósar kirkjan sér betr uppi á hólnum þar sem nú er hún. Svolítr og út, sem hinn forni kirkjugarður hafi verið mjög útgrafinn orðinn, og má vera, að hann hafi verið fluttr af því, að þar hafi ekki orðið jarðsett lengr“.

Mosfell

Mosfell – fyrirhugað rannsóknarsvæði eftir að hafa verið raskað með stórtækum vinnuvélum.

Magnús ræðir nokkuð hvar bein Egils Skalla-Grímssonar hafi verið lögð niður eftir að þau voru tekin úr haugi hans. Munnmæli um að þau séu í kirkjugarðinum „sem nú er“ telur hann ósennileg. Síðar segir hann: „Þó er ekki svo vel, að munnmæli þessi sé öldúngis viss í, hvar helzt á hólnum leiði Egils muni vera, hvort heldr undir kirkjunni, sem nú er, eðr skammt suðr frá henni. Er þar og ekkert að sjá, sem á þetta bendi með vissu, hvorki í hinum forna kirkjugarði, né hinum nýja; því hin fornu leiði eru hvort öðru lík, en engir eru steinar neinstaðar ofanjarðar, sem neina upplýsing gefi“.

Í Mosfellskirkjugarði eru þrír legsteinar frá 17. öld, legsteinn Jarþrúðar Þórólfsdóttur, dáin 1606 og legsteinn bróður hennar Þorvarðar Þórólfssonar, auk legsteins Arnórs Jónssonar.

Þar er einnig legsteinn Magnúsar Grímssonar, dáinn 1860 (Morgunblaðið, 4. nóvember 1962, einnig er steinsins getið í Innansveitarkroniku Halldórs Laxness). Í sömu grein í Morgunblaðinu, og áðan var vitnað til, er einnig getið um, að á Mosfelli hafi fundist steinkola árið 1962. Ekki er sagt neitt frá kringumstæðum, nema að kolan hafi verið grafin úr jörðu.”

Þess má geta að framangreind framkvæmd, þ.e. að kalla á fornleifafræðinga eftir að fyrirhuguðu rannsóknarsvæði hefur verið raskað með stórtækum vinnuvélum, verður að telja lítt til eftirbreytni.

Heimild:
-Mosfell í Mosfellsdal – Framkvæmdir við bílaplan austan við kirkjuna; Ragnheiður Traustadóttir, 2018.

Mosfell

Minna-Mosfell

Á Mosfelli bjó að sögn Egils sögu höfðinginn Grímur Svertingsson, kvæntur Þórdísi stjúpdóttur Egils Skalla-Grímssonar og bróðurdóttur. Egill fluttist þangað eftir dauða konu sinnar, varð gamall maður og síðast með öllu blindur.

Mosfell

Mosfellskirkja.

Sagan segir (297-98), að eitt sinn þegar Grímur var á Alþingi og Þórdís í seli sínu, skipaði Egill kveld eitt tveimur þrælum sínum að fylgja sér til laugar; þeir fengu honum hest. Menn sáu, að Egill tók með sér silfurkistur sínar, sem Aðalsteinn konungur hafði gefið honum, og fór ásamt þrælunum niður túnið og hvarf bak við hæð sem þar er. Næsta morgun sáu menn að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan túnið (eiginlega; gerðið) og teymdi hestinn. Menn fylgdu honum heim; hann sagði að hann hefði drepið þrælana og falið kisturnar, en meira sagði hann engum. Margar ágiskanir komu síðar fram, segir sagan, hvar Egill hefði falið fé sitt. Austan við túnið á Mosfelli liggur gil mikið niður úr fjallinu; þar hafa fundist enskir peningar, er hljóp úr gilinu eftir mikla leysingu; því giska sumir á þann stað. Fyrir neðan túnið á Mosfelli eru stór og mjög djúp fen, og halda margir, að Egill hafi kastað þar í fé sínu. Sunnan við ána eru “laugar” og skammt frá djúpar jarðholur, og ætla sumir, að þar hafi Egill falið fé sitt, því oft hefur sést þar haugaeldur.

Margir hafa velt fyrir sér hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og auðvitað er það vafamál. Giskað hefur verið á (Magnús Grímsson prestur á Mosfelli hefur skrifað ritgerð; “Athugasemdir við Egils sögu Skallagrímssonar”, er hún í Safni til sögu Íslands II. Er stuðst við frásögn hans í lýsingunni hér á staðháttum í Mosfellsdalnum), að Egill hafi fyrst farið venjulega leið til laugar og þegar hann á heimleið hafi komið að “jarðholnum” við ána, hafi hann kastað kistunum þar niður og ef til vill múta þrælunum til að þegja og síðan haldið ferð áfram, þar til hann kom að Köldukvísl, en síðan farið upp eftir árbakkanum, milli hennar og mýrarinnar blautu, sem fyrr er nefnd, þar til niðurinn í Kýrgilinu heyrist; þar er um það bil niður af Minna-Mosfelli mikill og djúpur forarpyttur, er nefnist Þrælapyttur, og segja munnmæli, að þar hafi þrælarnir fundist – en ekki er það nefnt í sögunni. Hafi Egill drepið þrælana þarna, hefur hann auðveldlega getað komist þaðan að gilinu – er þá gert ráð fyrir, að vatn hafi verið í því – og síðan upp með því.

Sjá meira HÉR.

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason.

Vefsíðuritari FERLIRs sendi Bjarka Bjarnasyni, hinum mætasta vísi Mosfellinga, eftirfarandi fyrirspurn:

“Sæll Bjarki;
Getur þú bent mér á hvar örnefnið „Þrælapyttur“ er í landi Minna-Mosfells?”

Bjarki svaraði:
“Sæll og blessaður.
Já, ég kannast vel við örnefnið en heyrði það þó ekki í mínum uppvexti á Mosfelli. Kynntist því ekki fyrr en ég las það í heimildum eftir að ég komst til vits og ára.
Séra Magnús Grímsson, sem var prestur á Mosfelli 1855-1860 skrifaði: “Þrælapyttur er á barði nálægt Kýrgili „… býsna stór og furðu djúpr, með forarleðju í botninum. …er mælt að þar hafi seinna
fundist í þrælarnir, sem Egill drap, eðr bein þeirra.”

Staðsetning Þrælapytts virðist hafa verið ljós á tímum séra Magnúsar en síðan virðist fjara undan því og það einfaldlega týnst. Ég hafði samband við Sigurð Skarphéðinsson (f. 1939) sem er alinn upp á Minna-Mosfelli. Hann kannaðist ekki við örnefnið þannig að það virðist ekki hafa verið lifandi í munni manna, amk. eftir miðja síðustu öld.

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell. Tjörnin fyrrum, áður en hún var framræst.

Hinsvegar sagði Sigurður mér þá sögu að fyrir neðan bæinn á Minna-Mosfelli hafi verið hringlaga og nafnlaus tjörn, 5-8 metrar í þvermál. Var haft á orði að silfur Egils væri fólgið þar.
Þegar tjörnin var ræst fram var fylgst vel með því hvort einhver ummerki um silfrið kæmu í ljós.”

Vefsíðuritari fór í framhaldinu á vettvang og knúði dyra hjá Bjarka og þakkaði honum svarið. Hann hafði greinilega haft fyrir því að grúska bæði í minni og gömlum heimildum, auk þess sem hann hafi leitað til annarra er gerst þekkja til staðhátta. Í samræðum kom fram að landshagir væru verulega breyttir frá því sem áður var. Í stað mýra neðan bæjanna á Mosfelli væru nú gróin tún. Engin þekkt vilpa, sem ætti við lýsingu Magnúsar, sem var prestur á Mosfelli í fimm ár, væri nú á bökkum Kýrgils, enda væru þar nú engin mýrardrög. Benti Bjarki á fyrrnefndan Sigurð, sem væri einstök sagnarkista og byggi nú þar skammt austar við Minna-Mosfell, á bæ nefndum Sigtún.

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell. Fyrrum tjarnarstæði “Þrælapytts”,

Ritari heimsótti Sigurð, vingjarnlegan eldri mann. Hann sagðist vel muna eftir pyttinum djúpa beint niður af Minna-Mosfelli þar sem hann var uppalinn. Líkt og Bjarki sagði hann umhverfið neðan Mosfells, sem börnin frá Hrísbrú vildu nefna Hrísbrúarfjall, væri mikið breytt frá því sem áður var. Í stað mýranna væru nú komin framræst tún. Einhvern tíma hafi hann minnst jarðfræðing segja frá því að neðanjarðará, aðra en Kaldá, rynni um dalinn. A.m.k. hafi hann fyrrum jafnan sótt rennandi vatn í vilpu neðst í honum. Vilpuna þá lagði aldrei, jafnvel í miklum frostum. Þegar miklir þurrkar urðu á níunda áratug síðustu aldar og flestir lækir þornuðu upp, var alltaf hægt að sækja vatn í vilpuna. En þetta er nú útúrdúr.
Sigurður sagði að beint niður af bænum Minna-Mosfelli hafi verið fyrrnefnd tjörn í mýrinni. Orð hafi verið haft á að þar hafi þrælarnir, er getið er um í Egils-sögu, fundist. Tjörnin hafi verið ræst fram fyrir mörgum árum og sést frárennslisskurðurinn vel. Nú hafi verið grafin rotþró frá bænum skammt austan við tjarnarstæðið. Í hans minni hafi þetta verið eina vilpan á þessu svæði, í hvarfi frá Hrísbrú, þar sem hóllinn, sem Mosfellskirkja stendur nú á – er getið um í Egils-sögu.
Sigurður vildi þó ekki bera ábyrgð á að um sömu vilpu væri að ræða og séra Magnús skrifaði um á sínum tíma.
Frábært veður.

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

Sigurður Greipsson

Í Skinnfaxa 1931 segir Sigurður Greipsson frá “Vetraferð” hans og félaga hans frá Biskupstungum til Reykjavíkur.
“Það hefði varla talizt frásagnarvert fyrir tveimur áratugum, að ungir, frískir menn færu gangandi austan úr Biskupstungum, um Mosfellsheiði til Reykjavikur, þótt um hávetur væri. Þá var það venja, að flestir karlmenn, sem gátu komizt að heiman um lengri tíma, færu til sjóróðra. Það var kallað að fara í verið.
Sigurður GreipssonÍ þessum verferðum hrepptu menn oft vond veður og þunga færð. Þeir urðu að bera þungar byrðar: nesti og fatnað. Að líkindum hefir þetta oft verið helzt til mikið álag fyrir lítt harðnaða unglinga, en það hefir kennt þeim að treysta að nokkuru á mátt sinn og megin og stælt vilja þeirra og harðfengi. Stundum leiddu þessi ferðalög til hörmuleguslu tíðinda. Það var mjög á annan veg að ferðast um landið þá en nú. Þegar sótt var suður um Mosfellsheiði, var fátt um kennileiti í hriðarveðrum. Nú er síminn ágætur vegvísir og hægt að kallast á millum Kárastaða og Laxness.
Eg fór aldrei þessar ferðir; eg var svo ungur þá, að eg taldist ekki hlutgengur. En það man eg, að mér þótti, sem litlum dreng, mikið um vermanninn, er hann var ferðbúinn. Mig minnir, að gamla fólkið teldi þann bezt búinn i verið, sem klæddist heima – unnum fötum, yzt sem innst. Eg trúði þessu þá, og eg trúi því enn, að íslenzku nærfötin séu bezt í hríðarveðrum á heiðum uppi. Það voru meðal annars minningarnar um vermanninn, sem bentu mér á leiðina, sem eg fór til Reykjavíkur í vetur. Það var og, að margir af félögum mínum höfðu ekki farið þessa leið fyr. Á þessum slóðum er margt að skoða og íhuga, þótt um vetur sé. Landslagið er að sjálfsögðu dauflegra, þegar það er sveipað hvítavoðum vetrar, en vegfarandinn getur þó, sér til lítillar tafar, lyft blæjuhorninu og skyggnzt inn í vorlendurnar.

Geysir

Frá Geysisskólanum.

[Þann] 15. febr. fórum við 23 saman frá Haukadal. Það voru nemendur mínir og kennari, Jón Kristgeirsson. Námsskeiðinu var lokið. Ferðinni var fyrst heitið að Laugarvatni. Það var glaða sólskin, er við lögðum af stað, en eftir stuttan tíma var komið versta veður, norðanrok og skafbylur. Þó héldum við áfram án tafar og náðum greiðlega að Laugarvatnsskóla.
Á Laugarvatni var okkur fagnað á bezta hátt. Kveldvakan leið fljótt við skemmtiföng Laugvetninga, ræðuhöld, söng og dans. Næsta dag urðum við hríðartepptir. Skemmtu menn sér þá við allskonar íþróttir, svo sem fimleika, sund og glímur. Sund er mjög iðkað á Laugarvatni. Þar er líka Þjálfi og Röskva í þeirri mennt, að ógleymdri prinsessunni. Svo eru tignarnöfn þeirra, sem fremst standa í sundinu við skólann.

Kárastaðir

Kárastaðir.

Í Laugarvatnsskóla dvelja í vetur 120 nemendur. Er þetta því stærsti lýðskóli Íslands. Húsakynni eru þar mikil og hin vönduðustu. Virðast nemendur njóta þar hinnar beztu aðbúðar í hvívetna. Flestir þeir, sem barizt hafa fyrir málum skólans, hafa gert það vegna öruggrar trúar á vaxandi kynslóð. Vonandi skilur æskan, að hér er mikið gert hennar vegna og endurgreiðir það með auknu manngildi.
Þá var ákveðið að halda ferðinni áfram að Kárastöðum, um Gjábakkahraun og Þingvöll. Við lögðum af stað kl. 10 árdegis. Bjarni skólastjóri bauð öllum nemendum sínum að fylgja okkur á leið. „Út! út! í hreina fjallaloftið.” Svo mælti hann. Við þessi orð varð ys og þys um allan skólann, því að nú átti að búa sig til ferðar. Bjarni skólastjóri er íþróttavinur og maður heill að hugsun og háttum. Nú stóð allur hópurinn ferðbúinn á skólahlaðinu.
Leiðin lá vestur Laugarvatnshálsa, sem nú voru þaktir harðfenni. Það markaði því hvergi spor. Ekkert fast skipulag var á fylkingunni og gengu tveir eða fleiri saman, eftir því sem verkast vildi.
Ánægjulegt var að horfa yfir hópinn, 150 manns, allt ungt fólk, konur og karlar. Það bar við, að ekki var ærslum stillt betur í hóf en svo, að mönnum var brugðið til glímu, ef þeir virtust liggja vel við bragði. Þegar kom upp á hálsana, var numið staðar og notið útsýnis, sem er hið tignarlegasta.
Litlu seinna kvöddum við Laugvetninga og árnuðu hvorir öðrum langra lífdaga. Hygg eg, að aldrei hafi farið stærri hópur ungra mann á þessa slóð um þetta leyti árs.
Þá vorum við að eins orðnir 16 í förinni; hinir félagarnir höfðu skilizt við okkur á Laugarvatni og héldu þaðan heim til sín.

Þingvellir

Þingvellir.

Ferðin gekk greiðlega til Þingvalla. Hittum við þar Guðm. Davíðsson. Er hann, sem kunnugt er, umsjónarmaður Þingvalla. Hjá honum dvöldum við um stund og þágum kaffi.
Guðmundur fylgdi okkur á leið og fræddi hann okkur um marga merkilega hluti, er snertu sögu Þingvalla. Hugurinn hvarflaði ósjálfrátt til liðins sumars:
„Nú er þrotin þyrping tjalda,
þögult og dapurt hraunið kalda.”
Veturinn hafði tjaldað sínu milda tjaldi. Almannagjá var sem tröllslegur kastali, en í gegnum snjóklamhrið og ísströnglana grisjaði í biksvartan hamravegginn. Efst á múrnum risu ótal varðlurnar og virtust risar standa í hverjum þeirra með kylfur eða önnur vopn í höndum. Okkur fannst tvísýnt um leiðina og horfðum við með ótta til þessara varðmanna. Við vorum þó að mestu öruggir, meðan Guðmundur var í förinni; hann virtist kunna skil á þeim flestum og vera kunningi þeirra. Við komumst klaklaust áfram, sjálfsagt fyrir góðar bænir Guðmundar, einnig virtust varðrisarnir líta með aumkvun til þessara þumalinga, sem veltust í snjónum fram hjá kastala þeirra.

Sigurjón Péturson

Sigurjón Pétursson.

Að Kárastöðum náðum við um kveldið. Gerðum við þar mikið ónæði, en það virtist ekki eftir talið, þvi að hjónin gerðu allt til þess að veita okkur sem hezta aðbúð.
Einar á Kárastöðum er einn hinna atorkusömustu bænda í Árnesþingi. Honum þótti gott að tala um íþróttir. Gat hann sagt sem Grettir: „Lagt hefi eg niður að rjá, en gaman þótti mér að því um skeið.”

Næsta dag var frekar dimmt til loftsins. Þó var ákveðið að fara suður yfir heiði til Reykjavíkur; eru það fullir 50 km., þegar farinn er Mosfellsdalur.
Þegar kom út að heiðinni gerði skafrenning. Færðin var fremur stirð, hraut snjóinn á kálfa. Fylgdum við símanum að mestu og stefndum til Mosfellsdals.
Eftir 6 klst. göngu komum við að Laxnesi; er það bær ofarlega í Mosfellsdal. Þaðan er Halldór skáld, sem allir kannast við. Í Laxnesi hvíldum við okkur nokkura stund og þágum góða hressingu.
Þá var næsti áfangi að Álafossi. Þangað eiga allir ungir menn erindi, þó að ekki væri nema til þess eins, að sjá húshóndann þar. Sigurjón hafði frétt af komu okkar. Hafði hann dregið íslenzka fánann á stöng.
Svo fagnar Sigurjón jafnan flokki ungra manna, sem koma í heimsókn til hans. Sigurjón virtist gjörla skilja hvað okkur myndi þarfast eftir svo langa göngu, sem við höfðum að baki. Bjó hann okkur því laug. Eftir að við komum úr lauginni, var okkur vísað til stofu; var þar íslenzkur matur framreiddur.
Hvatti Sigurjón okkur að taka rösklega til fæðunnar; gerðist þess þó sízt þörf. Að máltíð lokinni sýndi Sigurjón okkur ullverksmiðjuna, sem hann starfrækir. Var það okkur bæði til skemmtunar og fróðleiks. „Styðjið íslenzkan iðnað. ” Svo hefir Sigurjón auglýst. Margir lesa þetta sem hvert annað auglýsingaskrum. En vert er að taka það alvarlega. Fjötrar fjárkreppunnar eru nú sem óðast að læsast um þjóðina; þá mun öllum ljóst, að „hollt er heima hvat.”

Varmá

Sundaðstaðan í Varmá.

Frá Álafossi fórum við seint um kveldið til Reykjavíkur; fórum við það í bifreiðum. Á leiðinni sáum við fólksbifreið á hlíðinni utan við veginn. Er það ekki sjaldgæft, að sjá slíkt í grennd Reykjavíkur. Eru það oftast merki Bakkusar, sem þar eru reist. Markar þar fyrir stórum sporum megnustu ógæfu einstakra manna, sem leitt getur og til ófarsældar heillar þjóðar.
Sigurjón var í för með okkur til Reykjavíkur. Þar kvöddum við hann og þökkuðum honum fyrir mikla risnu, er hann hafði sýnt.
Í Reykjavík dvaldi eg vikutíma með félögum mínum. Skoðuðum við helztu byggingar og söfn bæjarins. Þennan tíma hafði eg daglega leikfimi með nemöndum mínum.
Að síðustu bauð eg nokkrum kunningjum mínum að horfa á fimleika okkar. Bjóst eg við, að þeir mundu hafa af því skemmtun nokkra, og að þeir gerðu ekki hærri kröfur en efni stóðu til.
„Ármenningar ” voru mér hjálplegir með hús til æfinga, og kann eg þeim beztu þakkir fyrir, svo og öðrum þeim, er sýndu okkur hlýleika og góðar móttökur, útilegumönnunum frá Langjökli.” – Sigurður Greipsson.

Heimild:
-Skinnfaxi, 4. tbl. 01.04.1931, Sigurður Greipsson, Vetraferð, bls. 73-78.

Sigurður Greipsson

Sigurður Greipsson – 22.08.1897-19.07.1985.