Undanfarin ár hefur farið fram fornleifauppgröftur á Hrísbrú undir Mosfelli í Mosfellsdal (landnámi Ingólfs). Rannsóknin hefur m.a. verið styrkt af tímabundnum “Kristnitökusjóði”. Sjóðurinn hefur gefið fornleifafræðingum hér á landi örskots tækifæri til að “öskubuskast”, þ.e. dafna um stund upp úr undirmálsmennskunni.
Ef ætlun hinna (greindu) stjórnmálamanna hefði verið að nota sjóðinn til að byggja upp öfluga fræðigrein er væri í stakk búin til að takast á við og ljósumumvarpa hið óþekkta í stað þess að leita staðfestingar á því sem þegar hafði verið skráð á skinn væri staða hennar í dag allt önnur en var fyrir aðeins nokkrum árum.
Fjármagn má nota til ýmissa nota. Því er hægt að sóa, nýta án meðvitaðrar arðsemi, eða fá þá til baka, bæði með vöxtum og verðtryggingu. Með því að fjárfesta meðvitað og markvisst í “íslenskri” fornleifafræði má auðveldlega uppskera dýrmætar upplýsingar er varpað gætu ljósi á annars óskýrða fortíð þjóðarinnar (og það í eiginlegri merkingu). Framtíðin byggist jú á fortíðinni – uppruna, reynslu og þekkingu. Það er því ekki verra fyrir fámenna þjóð að þekkja grundvöll sinn þegar takast þarf á við stór og mikilvæg verkefni framtíðarinnar. Þá verður og heldur aldrei horft framhjá þeirri staðreynd að menningararfurinn er og verður sá hornsteinn sem samfélagið byggir tilvist sína á hverju sinni. Grundvöllur Alþingis Íslendinga (hátindar mikilfengleikans) byggir t.a.m. á þeirri hugmyndafræði.
Þegar kristni var leidd í lög “undan feldi” á Íslandi um árið 1000 e. Kr., bjó Grímur á Mosfelli. Um það vitnar Egilssaga. Nú væri hægt að skrifa lærða grein um tilurð og meðferð handritsins, en að því slepptu var nefndur Grímur í framhaldi af því skírður til þeirrar trúar og kirkja byggð á jörðinni. Fólk sagði að Þórdís, kona hans, hefði þá flutt bein Egils Skallagrímssonar úr dys hans í Tjaldarnesi í kirkjuna þegar hún var byggð að Hrísbrú. Ef einhverjar spurningar vakna hér um hver þessi Egill hafi verið verður sá hinn sami bara að lesa Egilssögu.
Skriða hljóp á kirkjuna, segir sagan, og ný var byggð að Mosfelli. Bein Egils voru þá tekin úr gröfinni undir kirkjugólfinu og þau flutt í utanverðan kirkjugarðinn. Sagt var að beinin og gröfin í gömlu kirkjunni hafi verið stærri en að meðaltali þótti. Taldi eldra fólk almennt að þar hefðu verið um bein Egils Skallagrímssonar að ræða. Sögunni fylgja þau munnmæli að maður sá er flutti beinin á milli kirkjunnar gömlu og grafreitsins hafi viljað merkja hvort þar gætu verið um leifar Egils að ræða. Hafi hann barið duglega í hauskúpuna en hún vart látið á sjá. Hafi það verið til staðfestingar á sannleiksgildinu. Hafa ber í huga að munnmæli mann fram af manni hafa oftar en ekki leidd til árangurs – þegar betur hefur verið að gáð.
Árið 2001 gaf fornleifarannsókn á Hrísbrú til kynna ýmislegan árangur. Hann staðfesti m.a staðsetningu kirkju á staðnum sem og kirkjugarð líkt og Egilssaga greinir frá. Kirkjubyggingin hefur verið gerð úr torfi og grjóti. Landnámsöskulagið staðfestir og tímatalið. Telja má nokkuð öruggt að hún sé frá þeim tíma er sagan greinir frá. Egill mun hafa látist háaldraður á ofanverðri 10. öld.
Í fréttum Mbl. 2004 er grein frá því að þúsund ára gömul kirkja hafi verið grafin upp í Mosfellsdal. “Í gær varið unnið að því að grafa upp beinagrind sem legið hefur í moldinni í um þúsund ár. Kirkja sem getið er um í Egilssögu hefur verið grafin upp að bænum Hrísbrú í Mosfellsdal. Kirkjan var byggð um árið 1000, strax eftir að Íslendingar tóku kristni, með merkilegum byggingarstíl og þykir einstaklega vel varðveitt. Þar hafa einnig fundist um 20 beinagrindur.
Magnús Guðmundsson sagnfræðingur segir að talið sé að þarna sé komin kirkja sem Grímur Svertingsson byggði í kringum árið 1000 þegar kristni var tekin upp á Íslandi. Kirkjan sé ein af 6-7 kirkjum sem byggðar voru á Íslandi strax við kristnitökuna. Hún hafi verið sóknarkirkja, aðallega fyrir Mosfellsdalinn og norðanvert Kjalarnes.
Kirkjan er um fjórir metrar að lengd og þrír metrar að breidd. Dagfinn Skre, prófessor í fornleifafræði við Óslóarháskóla, segir að uppgröfturinn að Hrísbrú gefi nýjar pplýsingar um kirkjubyggingar á Norðurlöndum frá þessum tíma. Ellefu kirkjur frá sama tíma hafi verið grafnar upp í Noregi, en engin þeirra sé byggð með sömu aðferð og kirkjan að Hrísbrú.
“Margar mismunandi byggingaraðferðir voru notaðar. Í fyrsta lagi eru tréstöplar í hornunum, sem voru grafnir niður og báru uppi þakið. Síðan er biti eftir endilöngu gólfinu, með rauf sem veggþiljur voru settar í. Svona gólfbiti með þiljum hefur aldrei áður fundist í norrænum kirkjum. Það er áhugavert og mikilvægt,” segir Skre. Steinhleðsla er innan við tréþiljurnar, sem hefur borið uppi bekk meðfram veggnum fyrir kirkjugesti. Skre segir að kórinn hafi verið skör hærra en steingólf kirkjunnar og gólf hans hafi líklega verið klætt viði. Að utan var kirkjan klædd torfi.
“Það er merkilegt að sjá hvernig þiljur voru settar í grunntré. Þetta er mjög sjaldgæft,” segir Jesse Byock. Viðarbitarnir eru enn heilir og segir Byock að nú verði þeir þurrkaðir. Viðurinn hafi varðveist jafn vel og raun ber vitni þar sem súrefni hafi ekki komist að honum. Inntur eftir því hvort unir hafi fundist inni í kirkjunni segir Byock að lítið sé um það, en smábitar úr kopar og járni hafi þó komið í ljós.
Uppgröfturinn að Hrísnesi mun síðan halda áfram, en undir kirkjunni virðast vera leifar af landnámsbæ. Byock segir að útlit sé fyrir að eldur hafi komist í kirkjuna, viðurinn sé sums staðar
sviðinn, en engar heimildir séu þó til um bruna þar.
Krabbamein og berklar þjökuðu fólkið Þá hafa um 20 beinagrindur fundist til hliðar við kirkjuna. Sumar þeirra eru mjög vel varðveittar en aðrar ekki. “Fólk var ekki við góða heilsu á þessum tíma,” segir Byock og bætir við að fólkið hafi náð 40-45 ára aldri og verið hrjáð af ýmsum kvillum.
“Þetta fólk bjó við erfiðar aðstæður, var greinilega vannært og sumir mjög smávaxnir. Það kemur heim og saman við hluta af heimildum sem við höfum um Ísland á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og hvernig lífið var hér,” segir Magnús. Hann segir að beinagrindurnar séu af smávaxnara fólki en þær beinagrindur sem grafnar hafa verið upp á Íslandi frá svipuðum tíma. Augljóst sé að sumir hafi lifað mikinn skort.
Hann segir að ein beinagrindin sé af karlmanni á þrítugsaldri sem hafi greinlega látist úr krabbameini í heila. “Þeir hafa fundið meinvörp í höfuðkúpunni sem benda til þess að hann hefur dáið kvalarfullum og óþægilegum dauðdaga. Þeir eru með fleiri heimildir, telja sig jafnvel hafa fundið vísbendingar um berkla, þetta er í kringum árið 1000, og gæti bent til þess að þetta væru fyrstu vísbendingar um berkla hér á landi,” segir Magnús. Hann segir að Egill Skallagrímsson, sem dvaldi í Mosfellsdalnum síðustu æviár sín, hafi t.d. verið með höfuðriðu, orðinn fótkaldur og getulaus og lifað frekar slæmu lífi.
“Þó hafði hann það að mörgu leyti ágætt í horninu hérna hjá Þórdísi bróðurdóttur sinni og Grími Svertingssyni. Þau bjuggu hérna, það er talið að Egill hafi búið hérna á Mosfelli frá 974-990, um það leyti deyr hann og hann er grafinn hérna niðri í Tjaldanesi [sunnan við Hrísbrú]. Þórdís tók upp beinin og færði til kirkju sem Grímur þessi Svertingsson lét reisa hér á Mosfelli árið 1000, þegar Egilssaga segir að hann hafi tekið kristni,” segir Magnús. Hann segir að sumir telji að býlið að Hrísbrú hafi áður heitið Mosfell, en einhverjar nafnatilfærslur hafi átt sér þarna stað.
Samkvæmt Egilssögu var kirkjan lögð niður í kringum árið 1150 og gæti það einnig vel verið raunin varðandi kirkjuna að Hrísbrú að sögn Byock.
Egla greinir frá því að bein Egils hafi þá verið tekin upp og færð að Mosfelli, en það var skylda samkvæmt kristnirétti Grágásar að færa grafir og kirkjugarða sömuleiðis ef kirkjur voru fluttar til. Magnús segir ómögulegt að segja til um hvort bein Egils séu meðal þeirra beina sem fundist hafa í uppgreftrinum. “Það vitum við ekki. Þeir hafa að vísu fundið einhver stór og mikil bein sem voru í kassa alveg við hliðina á kirkjunni, en það verður víst seint sem við getum útkljáð það. Öll erum við jú komin af Agli og vitum ekki hvort við getum útvegað þeim einhver lífssýni og séð hvort hann sé eitthvað skyldur okkur þessi maður. Egla reyndar segir að bein Egils hafi endað í utanverðum kirkjugarði að Mosfelli,” segir Magnús.
Ekkert bólar á silfri Egils. “Nei ekki enn þá,” segir Byock hlæjandi, þegar hann er inntur eftir því hvort ekkert hafi fundist af silfrinu hans Egils og bætir við að það sé lítil von til þess. Magnús segir að þó silfrið hafi ekki beint komist í leitinar telji margir Mosfellingar að heita vatnið sem hafi fundist í dalnum sé í raun silfur Egils. “Í það minnsta hafi þetta heita vatn verið gulls ígildi og sjálfsagt meira virði en einn lítill silfursjóður ættaður af Englandi,” segir Magnús.
Skre telur fulla ástæðu til að endurreisa kirkjuna að Hrísbrú og gera fólki þannig kleift að bregða sér þannig aftur í aldir. “Þetta er eitt af fáum tilfellum þar sem við höfum mikið af upplýsingum um hvers konar bygging þetta var og hvernig hún var byggð þannig að það er vel hægt að gera góða eftirlíkingu,” segir hann og bætir við að hann vonist eftir því að yfirvöld muni hrinda slíkri
endurbyggingu í framkvæmd. Slíkt segir hann að yrði gott framlag til lífsins í Mosfellsdal við upphaf Íslandsbyggðar.
Í Mosfellspóstinum frá þessum tíma segir frá því að “Stór gröf hefur fundist í kirkjustæðinu við Hrísbrú í Mosfellsdal en gröfin var undir gólfi kórsins í kirkjunni og í henni hafa fundist leifar af timbri. Jesse Byock, sem stýrir uppgreftrinum við Hrísbrú, segir ljóst að timburleifarnar séu úr líkkistu en miðað við stærð grafsögu. Í öðru lagi benda allar lýsingar Egilssögu til þess að Egill hafi verið mun hærri en flestir samtímamenn sínir og er hann meðal annars sagður „vel í vexti og hverjum manni hærri“. Jesse er þó ekki tilbúinn að fullyrða að þarna hafi Egill legið og bendir á að ekki sé hægt að segja að allt sem standi í Egilssögu sé rétt.
Við athugun kom í ljós að líkkistan hafi verið meira en tveggja metra löng. Ýmislegt bendir til þess að þetta hafi verið gröf Egils Skallagrímssonar, þó að vitaskuld sé ekki hægt að fullyrða það. Fyrir það fyrsta er talið að gröfin sé frá því í kringum árið 1000 og ef rétt reynist fer sú tímasetning ágætlega saman við frásögn Egils en uppgröftur á svæðinu hefur staðið yfir undanfarin ár og hafa fundist um 20 beinagrindur á svæðinu, þar á meðal stór og mikil bein sem gætu verið bein Egils, þótt það sé ekki víst. Þess má þó geta að í Eglu er sagt frá því að undir altarisstaðnum í kirkjunni hafi fundist mannabein, sem „voru miklu meiri en annarra manna bein“ og segir sagan að menn hafi þóst vita að þar væru bein Egils.
Byock segir að að öðru leyti gangi rannsóknir og uppgröftur vel og í sumar hafi strúktúr og er hugsanlegt að um gröf Egils Skallagrímssonar sé að ræða. Gröfin var undir gólfi kórsins í kirkjunni og í henni hafa fundist leifar af timbri.
Jesse segir ljóst að timburleifarnar séu úr líkkistu sem þar hafi legið og miðað við stærð grafarinnar sé líkkistan sú stærsta sem fundist hafi á svæðinu. Ýmislegt bendir til þess að þetta hafi verið gröf Egils, þó að vitaskuld sé ekki hægt að fullyrða það. Fyrir það fyrsta er talið að gröfin sé frá því í kringum árið 1000 og ef rétt reynist fer sú tímasetning ágætlega saman við frásögn Egilssögu. Þar er talað um að Egill hafi verið færður úr haugi við Tjaldanes og að kirkjunni, sem var að öllum líkindum byggð skömmu eftir að Íslendingar tóku kristni. Í öðru lagi benda allar lýsingar Egilssögu til þess að Egill hafi verið mun hærri en flestir samtímamenn sínir og er hann meðal annars sagður „vel í vexti og hverjum manni hærri“. Miðað við stærð grafarinnar er talið að líkkistan hafi verið meira en tveggja metra löng.
Byock er þó ekki tilbúinn að fullyrða að þarna hafi Egill legið. „Maður getur aldrei sagt,“ segir hann og bendir á að ekki sé hægt að segja að allt sem stendur í Egilssögu sé rétt. Þegar grafarstæðið fannst kom í ljós að grafin hafði verið hola í moldina sem lá yfir gröfinni. Byock segist ekki vita af hverju holan hafi verið grafin en líklegt sé að einhver hafi viljað komast að líkkistunni. Holan var hins vegar það lítil að ekki hefði verið hægt að ná kistunni upp um hana.
Í Egilssögu er sagt frá því að Egill Skallagrímsson hafi eytt síðustu æviárum sínum í Mosfellsdal en talið er að hann hafi látist um árið 990. Hann var fyrst um sinn heygður í Tjaldanesi en Þórdís, bróðurdóttir hans, lét síðar flytja hann að kirkjunni í Mosfelli, sem Grímur Svertingsson, maður hennar, lét reisa. Engin bein fundust í grafarstæðinu, sem fannst fyrir helgi. Þá hafi verið unnið að því að grafa upp veggstæði sem fannst norðanmegin við kirkjuna. Hugmyndir eru uppi um að gera líkan að kirkjunni í fullri stærð og segir Byock að arkitektar og fleiri muni koma að þeirri vinnu. „Það er samt bara hugmynd,“ segir hann.
Þegar Byock er síðan að lokum spurður þeirrar spurningar sem Íslendingar allir vilja vita svarið við, nefnilega hvar silfur Egils sé niðurkomið, svarar hann hlæjandi: „Ég er með það í vasanum!“ Hann viðurkennir þó fljótt að silfrið sé enn ófundið og að sennilega sé lítil von til að það finnist.
Staðarnafna úr dalnum er víða getið í heimildum frá landnámsöld og í Íslendingasögunum, m.a. í Eglu, Gunnlaugssögu og Hallfreðarsögu vandræðaskálds. Að sögn Mosfellsbæjar er það nær einsdæmi í norrænum fræðum að dæmi úr Íslendingasögunum séu jafn vel staðfestanleg með fornleifaminjum og komið hefur í ljós við uppgröftinn í Mosfellsdal. Við uppgröft stafkirkju að Hrísbrú hafi til að mynda verið sannreyndar upplýsingar sem koma fram í 89. kafla Egilssögu þar sem sagt er frá kirkjunni að Hrísbrú og örlögum hennar.
Ein athyglisverðasta niðurstaða um frumbyggjana í Dalnum er hve gömul bein hafa fundist í fornum kirkjugarði við Hrísbrú. Kolefnisgreining (C-14) bendir til þess að þar séu grafnir einstaklingar sem fæddir eru einhvern tíma um eða eftir aldamótin 900. Örlög þessa einstaklinga hafa einnig verið söguleg, því bein þeirra bera ummerki bardaga og þar er líklega komin fyrsta áþreifanlega vísbending hérlendis um einstakling sem hogginn hefur verið í herðar niður.
Fornleifaverkefnið Mosfell, er alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem nýtir sér verkfæri fræðigreina eins og sagnfræði, fornleifafræði, mannfræði, norrænufræða og umhverfisvísinda til að skapa heildstæða mynd af aðlögun landnámsmanna að náttúru og umhverfisbreytingum. Rannsóknin beinist að Mosfellsdalnum sem vistkerfi allt frá tímum víkinga. Mosfellsbær hefur styrkt verkefnið samkvæmt samningi til 3ja ára og er eitt ár eftir af þeim samningi.
Innansveitarkronika Halldórs Kiljan fjallar um kirkjuna á Mosfelli eins og fyrr greinir. Um það urðu mikil átök á sínum tíma, hvort rífa skyldi kirkjuna eða ekki og byggja aðra á Lágafelli. Mosfellskirkja var rifin. Inn í sagnfræðilegan stíl fyrri hluta bókarinnar kemur þessi skemmtilega frásögn af því, þegar Ólafur bóndi Magnússon á Hrísbrú kemur að Mosfelli og stendur á hlaðinu með orf sitt reitt um öxl og veit ljásoddurinn beint upp … Nokkru utar á hlaðinu og nær sáluhliði stendur Bogi sonur hans sem gerst hafði skjaldsveinn föður síns í þessari för og hafði hrífu í hendi.“ Þeir eru að mótmæla sameiningu kirkna og niðurrifi Mosfellskirkju:
“Ég er búinn að fara til klénsmiðs, mælti þá Ólafur á Hrísbrú, en þessir ræflar eru svo úrættaðir að þeir kunna ekki leingur að smíða sverð.
Og hverjir ætla sosum að fara að berjast með sverðum núna Ólafur minn, spyr séra Jóhann.
Ólafur svarar: Til er ég og til er Bogi.
Ja það er nú það Ólafur minn, segir séra Jóhann. Mér dettur í hug hvort ég ætti ekki að vekja hana Gunnu þó í fyrra lagi sé og biðja hana að snerpa á könnunni.
Þá segir Ólafur: Heldur þú og þið anskotar að Egill Skallagrímsson frændi minn hafi farið að drekka kaffi þegar hann var í vígahug?
Því er nú ver og miður að ég á ekki öl einsog Egill var vanur að drekka, segir séra Jóhann. En gott kaffi er gott ef það er gott.“
Halldór Laxness sagði mér að séra Jóhann hefði skírt sig, þegar hann var prestur í Reykjavík. “Hann var síðasti prestur á Mosfelli áður en kirkjan var rifin. Yfirvöld létu rífa kirkjuna samkvæmt lögum um sameiningu kirkna frá 1882; þau lög voru reist á konungskipun frá 1774. Það tók því meira en hundrað ár að fá þessu boði framfylgt; guð tók stinnt í á móti í Mosfellssveit. Séra Jóhann þjónaði aldrei Lágafellskirkju, en fluttist til Reykjavíkur og varð dómkirkjuprestur og gekk í svörtum frakka og gallossíum og var með stórt nef. Hann hafði dimman og hlýjan málróm og talaði ósjálfrátt í einföldum spakmælum. Það var hann sem sagði meðal annars þessi minnisverðu orð: Góð blöð eru góð ef þau eru góð. Svona spakmæli eru þægileg og meiða engan,“ segir skáldið.
Í sögunni segir, að séra Jóhann hafi látið aftur annað augað fyrir guðssástar sakir, þegar hann gaukaði klukkunni að Ólafi á Hrísbrú, eftir að kirkjan hafði verið rifin.
“Ég hef heyrt, að kannski hafi það ekki verið að séra Jóhanni forspurðum sem klukkan hvarf,“ segir Halldór Laxness og bætir við að – “þeir höfðu gott álit á honum hér í sveitinni, enda var það líkt honum að gefa klukkuna höfuðóvininum til að dangla í, þegar honum leiddist.“ Skáldið bætir því við, að séra Jóhann hafi verið honum mjög hugleikinn. Mér þótti feikna gaman að sjá hann á götu í Reykjavík og heyra hann skiptast á orðum við fólk. Hann kemur fyrir í Heimsljósi sem fangelsispresturinn og einnig kemur hann mikið við sögu í Brekkukotsannál. Hann er mjög ólíkur séra Jóni Prímusi, svo ég gat ekki komið honum að í Kristnihaldinu.“
Ólafur á Hrísbrú og Bjartur í Sumarhúsum eru ólíkar manngerðir, þó það sé nokkur svipur með þeim sem bændum. Viss skyldleiki er með svona bændakalla-harðhausum, eins og skáldið komst að orði. “En Bjartur er útpenslaðri en Ólafur, þ.e.a.s. meira málaður út í hörgul. Ólafur á Hrísbrú er bara teiknaður með fáum strikum; ekki útfyllt mynd; ekki rakin slóð hans frá æsku eins og Bjarts. Bjartur var fullur af rímum og skáldskap og hafði marga góða kosti umfram Ólaf. Þegar deilurnar stóðu sem hæst, lét Ólafur mikið að sér kveða hér í sveitinni og vildi fara í stríð út af kirkjunni. Þá sagði hann: Til er ég og til er Bogi.“ Þetta er nú orðtak hér í Mosfellssveit, jafnvel stundum notað hér í húsinu. Þessi orð mætti festa upp yfir dyrum Mosfellskirkju. Mosdælir hafa séð, að þau voru fyndin. Bogi, sonur Ólafs, var manna ólíklegastur til hermennsku þeirra manna sem Mosdælir þekktu.“
Í Innansveitarkroniku segir skáldið á einum stað um Íslendinga: “Því hefur verið haldið fram að Íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um tittlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls… þó er enn ein röksemd sem Íslendíngar eru fúsir að hlíta, þegar alt um þrýtur, en það er fyndni; má vera aulafyndni. Við hlægilega lygisögu mýkist þjóðfélagið og fer að ljóma upp; jarðvegur sálarinnar verður jákvæður.“ Í samtalinu bætir skáldið við: “Þessi íslenzka fyndni er mjög sérkennileg og lætur stundum átök milli manna linast.“
Allt er þetta aðdragandi sjálfrar sögunnar um Mosfellskirkju. Síðari hlutinn fjallar um það, hvernig munaðarlaus drengur, Stefán Þorláksson úr Reykjavík, sonur Ösku-Láka sem kallaður var, lenti í Mosfellsdal og leiddi af því að kirkja var endurreist á Mosfelli í okkar tíð. Þó vissi enginn til þess “að Stefán Þorláksson hefði nokkru sinni farið með gott orð í lifanda lífi; prestur nokkur hefur sagt við undirritaðan, að Stefán þessi muni hafa verið álíka trúlaus og Konstantín mikli, sem þó sannanlega bjargaði kristindóminum. Að minsta kosti mundi enn sem komið er teljast ofílagt að reikna hann með trúarhetjum í Mosfellssveit. Samt varð hann styrkari stoð sönnum kristindómi í sveit þessari, mælt í krónum og aurum, en flestir helgir menn vorir urðu hvort heldur með þöglum bænahöldum eða háværum sálmasaung eða laungum prédikunum.“ Hann var kallaður Stefi og muna hann enn margir. Einkunnarorð hans í sögunni eru: kaupa, kaupa sama hvað kostar – en að sögn skáldsins eru þessi orð upphaflega komin frá Oddi í Glæsi. “En ég hef krítað þau hjá Stefa af skáldsöguteknískum ástæðum.“
Innansveitarkronika er helgisaga eða jarteinabók að því leyti sem jarteinir eru þau undur sem guð notar til að sanna almætti sitt undir votta í einhverju sérstöku máli á einhverjum tilteknum stað. Ólíklegasta fólkið verður verkfæri til að sanna almætti guðs; Stefán, fátækur drengur með nafnmiðann sinn saumaðan inn í úlpuna sína; Guðrún Jónsdóttir, kölluð Gunna stóra, ösku- og mógrafakerling; og Ólafur á Hrísbrú, þessi rustakarl sem var sannanlega enginn dýrlingur. “Ekkert af þessu fólki virðist hafa haft nokkra trúarlega glætu. Það bara sannaði almætti guðs í Mosfellssveit.“
Kaflinn um Stefa, þegar hann kemur fyrst lítill drengur að Hrísbrú, er skáldskapur sem festist í minni. Orðaskipti hans og Ólafs bónda, sem annars ekki vék hlýlega að gestum, óttaleysi drengsins við raunveruleikann, stórfljót og fjallgarða, en barnslegur ótti hans við ímyndanir sínar svo sem ræningja og hrynjandi fjöll, allt verður þetta ógleymanlegt. Hann vildi gera ál að hákarli með því að ala hann nógu vel á hornsílum, sem sagt; vildi einlægt gera mikið úr litlu. Mosfellskirkja hin nýja fæddist af framsýni í fébrögðum Stefáns Þorlákssonar. Klukkan í hana er komin þangað aftur fyrir tilstuðlan Ólafs bónda á Hrísbrú og kaleikurinn úr rusli eftir gamla konu sem dó á hreppnum á níræðisaldri 1936. “Einginn hafði vitað til að þetta munaðarlausa gamalmenni geymdi dýrgripa frammí dauðann; þaðanafsíður hvernig þessi kaleikur var kominn í hennar vörslur.“
Hver var þessi kona?
Hún hét Guðrún Jónsdóttir eins og í sögunni og “var í raun og veru kapítalisti, því hún var aldrei vistráðin en talin lausakona“. Í samtali okkar segir skáldið ennfremur: “Það er rétt, Guðrún Jónsdóttir var kapítalisti. Hún var ekki verkamaður. Hún lifði til að skemmta sér; hún tók ekki kaup; skemmtun hennar var að taka upp mó: hún var frjáls. Þessi kona veitti öðrum mönnum af auðlegð sinni ævilangt. Þegar hún var orðin gömul og farlama fór hún auðvitað á hreppinn.“ Skáldið heldur nafni hennar í sögunni eins og nafni á öðrum persónum, sem koma við kroniku Mosfellssveitar – en auðvitað með þeim fyrirvara sem stendur aftan á titilsíðu: Skírskotanir til nafngreindra manna rita skjala staða tíma og atburða þjóna ekki sagnfræðilegu hlutverki í texta þessum.“ Halldór Laxness segir í samtalinu: “Krakki hér í sveitinni, hlustaði ég eftir öllu sem sagt var, og ég á mér ótæmandi endurminningasjóð um fólk sem ég samneytti á bernskuárum mínum. Það var ólíkt fólki sem ég kynntist síðar. Ég kom hingað á fjórða ári úr Reykjavík og þetta fólk var minn félagsskapur, þangað til ég fór að vera á vetrum í Reykjavík 12 ára við ýmiss konar nám. Guðrún Jónsdóttir var oft hjá okkur í Laxnesi, stundum misserum saman. Ég man enn eftir ýmsum orðatiltækjum hennar, og kem þeim að í sögunni. Hún sagði til að mynda þetta: Ég kann bezt við mig í einhverju benvítis síli.“ Ég hef spurt orðabókamenn og þeir kannast ekki við þetta orðatiltæki. Það hefur ekki komizt á prent, svo ég viti, og ég hef engan heyrt nota það annan. En mér dettur ekki í hug að Guðrún Jónsdóttir hafi fundið það upp. Ég held að síli sé draslvinna eða vinnubjástur.“
Guðrún Jónsdóttir kom til Þórðar Jónssonar og Kristínar Vigfúsdóttur að Æsustöðum 1926 og hafði þá verið í Laxnesi. Hún átti kindur og hryssu, þegar hún var í fyrra skipti á Æsustöðum. Hún heyjaði þá Gunnubarð, sem svo var kallað, en nú er innan túns. Hún sló sjálf og batt. Hún hafði sérstakt skap og gott að vera í návist hennar. Hún var fædd í Hamrahlíð 26. desember 1854 og lézt á Æsustöðum 24. marz 1936. Hún var greftruð á Mosfelli. Hamrahlíð er ekki lengur í byggð, en er nú undir Blikastöðum. Andlit Guðrúnar og höfuðlag allt var af mynd að dæma stórskorið eins og landið.
Í upphafi ellefta kapítula sögunnar segir svo: “29unda júní sama vor og Mosfellskirkja var rifin mátti lesa eftirfarandi grein undir fyrirsögninni “Saga af dýru brauði“ í vikublaðinu Öldinni, og má gánga þar að henni ef einhver nennir að fara á bókasöfn og lesa gamlar blaðagreinar.“ Saga þessi fjallar um villu Gunnu stóru á Mosfellsheiði, þegar hún vitjaði pottbrauðs. Ungur piltur úr sveitinni tekur hana tali og spyr um villuna, rétt eins og blaðamaður eigi samtal við sérkennilega konu – en þó verðum við að hafa á þann fyrirvara, að hvorki frásögnin í Öldinni né lýsing Gunnu stóru í samtalinu eiga rætur í raunveruleikanum, og ekki heldur samtalið sjálft. Villur Guðrúnar í Innansveitarkroniku eru uppspuni. En svipaða sögu heyrði skáldið sunnan af Suðurnesjum. Þar var stúlka að villast hátt upp í viku í hrauninu á Reykjanesskaga. Hún hafði verið að vitja pottbrauðs í hveraholu. Gunnar Eyjólfsson leikari sagði skáldinu þessa sögu. Stúlkan sem villtist var að hann minnir amma leikarans eða ömmusystir. Þetta dæmi sýnir vel að skáld leita víða fanga. “Flest verður fróðum að kvæði,“ segir máltækið. Allt verður að söguefni, þótt ekki sé það sagnfræði í venjulegum skilningi.
“Ég var að hlusta á útvarpið um daginn,“ segir skáldið. Þar kom fram maður, sem spurður var frétta úr byggðarlagi sínu. Hann byrjaði frásögnina svona: “Vorið hefur verið gott fyrir sauðfé.“ Þessi maður kom mér í gott skap.“
Í Innansveitarkroniku miðast allt líf og öll tilvera við sauðfé. Þegar feðgarnir á Hrísbrú taka menn tali á hlaðinu og spyrja frétta, beinist talið alltaf að sauðfé, “því alt líf í landinu var einsog þann dag í dag miðað við sauðfé. Til dæmis þegar talað var um veður þá var það eitt sjónarmið ráðandi hversu það mætti henta sauðfé. Gott veður var það veður sem var gott fyrir sauðfé. Gott ár var það þegar óx gras handa sauðfé. Fallegt landslag á Íslandi þykir þar sem góð er beit handa sauðfé. Afkoma og sjónarmið manna í lífinu voru ákvörðuð af þessari skepnu. Hrísbrúíngar höfðu fréttir af sauðfé hvaðanæva af landinu og sögðu sögur af afkomu sauðfjár í Mosfellssveit. Þeir mundu nákvæmlega hvernig viðrað hafði fyrir sauðfé ár framaf ári þrjátíu ár aftur í tímann. Þessir menn fóru aldrei í utanyfir sig, en ullartreyur þeirra og peysur héldu vatni og vindi einsog reifið á íslenskri sauðkind.“
“Nú er sveitasagnfræðin komin í blöðin,“ segir Halldór Laxness enn í samtali okkar. “Bændur romsa upp einhverjum lifandi feiknum um harðærið í sveitunum með tilheyrandi útmálun á því hvernig veðrið var í fyrra og hitteðfyrra. Þetta eru oft einu greinarnar sem ég les í blöðunum. Steini á Valdastöðum var eftirlætisblaðamaður minn. Ég las einlægt fréttirnar hans í Morgunblaðinu tvisvar, stundum í þriðja sinn upphátt fyrir heimilisfólkið. Þrátt fyrir mörg mótdræg tíðindi í sveitum var hann eini fréttaritarinn í blöðunum sem sló ævinlega huggunarríka nótu. Þegar hann var búinn að lýsa þessum feiknarlegum óþurrkum sem gengið höfðu allt sumarið bætti hann alltaf við að það væri von manna að nú færi að breytast til batnaðar upp úr höfuðdeginum.“
Fornleifarannsóknir í Mosfellsdal fylla upp í sjúkrasögu landsins. Rannsóknir á beinum sýna bæði krabbamein og berkla. Við bæinn Hrísbrústóð stafkirkja til forna og við hlið hennar heiðið brunakuml. Við bæinn Hrísbrú í Mosfellsdal fer fram mikill fornleifauppgröftur, en þar hafa fundist mannvistarleifar allt frá upphafi byggðar hér. Vísbendingar í Egilssögu urðu til þess að Jesse Byock, fornleifafræðingur og norrænufræðingur við Kaliforníuháskóla, fann þar eina af elstu kirkjum landsins, frá þjóðveldisöld. „Hérna var höfðingjasetur og kirkjan hefur sjálfsagt verið mikilfengleg, en hóllinn sem hún stóð á hefur lækkað mikið frá því á söguöld,“ segir hann.
Rétt við stafkirkjustæðið forna er smáhæð þar sem er að finna eina brunakumlið sem fundist hefur hér á landi. Þannig eru vísbendingar um byggð bæði í heiðni og kristni þarna á sama stað og jafnvel talið að nálægð greftrunarstaðanna gæti bent til að heiðni og kristni hafi þarna verið stunduð samhliða um einhvern tíma. Jesse Byock segir að ekki hafi áður fundist kirkja þar sem viðurinn hefur verið í jafngóðu ástandi og í stafkirkjunni við Hrísbrú.
„Kirkjan var yfirgefin og skilin eftir og hægt að sjá hvernig viðarhlutar hennar eru á sínum stað,“ segir hann og telur einna merkast að sjá svokallað grunntré kirkjunnar. Hann segir fundinn kenna okkur mikið um hvernig kirkjubyggingum var háttað fyrr á öldum, en byggingarlagið er í stíl við fornar stafkirkjur sem fundist hafa í Noregi.
Jesse segir sérstakt við þennan fornleifauppgröft hversu afmarkað tímabil sé verið að fást við. „Kirkjan var byggð og svo yfirgefin, en látin standa þegar sú nýja var tekin í notkun, þannig að tímabilið markast af 150 til 200 árum, frá upphafi tíundu aldar fram á elleftu öld.“ Hann segir tímamælingar á staðnum standast við rannsóknir á öskulögum sem sýni að kirkjan var byggð eftir árið 926.
Rannsóknir á beinum sem grafin hafa verið upp við kirkjustæðið hafa leitt í ljós sjúkdóma á borð við krabbamein og berkla.
„Hér fáum við miklar og góðar upplýsingar sem fylla í sjúkdómasögu þjóðarinnar,“ segir Jesse, en þarna kunna að vera fyrstu dæmin um berkla hér á landi. Hann segir rannsóknir á beinunum jafnframt leiða í ljós margvíslegar upplýsingar um mataræði og lifnaðarhætti fólks. Aðspurður taldi Jesse ekki miklar líkur á að meðal beinagrindanna sem grafnar hafa verið upp við Hrísbrú væru bein Egils Skallagrímssonar, en bein hans er sögð hafa verið grafin upp og flutt annað.
Björn Þráinn Þórðarson, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Mosfellsbæjar, segir að bæjarfélagið hafi mikinn áhuga á að nýta sér þessar merku fornminjar sem fundist hafa þarna í Mosfellsdal
með einhverjum hætti. Nefnir hann möguleika á að stofna fræðasetur þar sem fólki gæfist kostur á að kynna sér minjarnar og sögu landsins. Hann segir þessar hugmyndir tengjast áætlunum um menningarhús til minningar um Halldór Laxness. Björn telur stofnun minjaseturs mögulega í kringum fornleifauppgröft í Mosfellsdal, forn skipalægi í Leiruvogi og minningarsetur um ritun, ritstörf og menningu í dalnum allt frá tímum Egils Skallagrímssonar til daga nóbelsskáldsins frá Laxnesi.
Guðmundur Magnússon lýsti sjónarmiðum sínum um fornleifarannsóknirnar á Hrísbrú. “Ekki er víst að allir taki undir með fornleifafræðingunum sem grafið hafa upp leifar þúsund ára gamallar kirkju í Mosfellsdal og halda því fram að hún sé “einstaklega vel varðveitt”. Sannleikurinn er sá að það þarf bæði ímyndunarafl og þekkingu á fornri byggingararfleifð, sem ekki öllum er gefin, til að sjá fyrir sér kirkju þar sem nú er grjót og fátæklegar timburleifar. Það hjálpar þó að greinilega má sjá útlínur kirkjunnar í grunninum og þannig átta sig á flatarmáli hennar. Stoðholur veita ennfremur vísbendingar um byggingartækni.
En við Íslendingar erum líklega orðnir nægjusamir þegar fornleifafræði á í hlut. Við vitum að varðveisluskilyrði minja eru ekki góð hér á landi vegna veðurfars og jarðvegs. Við erum fyrir löngu hættir að bíða eftir því að upp úr jörðinni komi gersemar sem við getum flaggað í viðhafnarskápum í Þjóðminjasafninu. Líklega er hið eina sem þjóðin biður um og vonast eftir – þótt ekki fari það alltaf hátt eða sé opinberlega viðurkennt – að í moldinni sem fornleifafræðingarnir róta í með teskeiðum sínum leynist nýjar sannanir fyrir því að kappar og kvenskörungar fornbókmenntanna hafi verið af holdi og blóði; verið raunverulegar persónur. Óhætt er að segja að fæstir fornleifafræðingar hafi nú orðið sterka trú á víðtækri leiðsögn fornritanna við rannsóknir á leifum frá fyrri öldum. Aftur á móti eru þeir nógu þjóðhollir – eða bara skynsamir – til að nefna persónur fornsagnanna til sögu þegar þeir rekja rannsóknir sínar fyrir almenningi og fjölmiðlum. Þannig hafa skáldið Egill Skallagrímsson og Grímur Svertingsson komist í sviðsljósið nú þegar fundist hafa leifar kirkju frá frumkristni við merkilegar rannsóknir að Hrísbrú í Mosfellsdal. Þeir kappar eru ekki nefndir til sögu vegna þess að eitthvað nýtt sé um þá að segja á grundvelli fornleifanna heldur er hér á ferðinni meinlaus og oft bráðskemmtileg undirgrein almannatengsla, iðju sem margir þekkja frá stjórnmálaflokkum og stórfyrirtækjum.
Fyrir fræðimenn eru upplýsingar um byggingarform fornra mannvirkja, sjúkdóma, mataræði og hæð fólks, sem bein hafa fundist af, eða vísbendingar um lifnaðarhætti sem lesnar verða úr jarðvegi og dýraleifum, nægileg réttlæting og hvati rannsókna. Þeim verður iðulega heitt í hamsi og komast í uppnám út af leifum og gripum sem almenningur getur ekki lesið glóru í eða tengt frásögnum á fornum bókum. Fræðimönnum finnast nafnlausar minjar ekkert síður merkilegar en hinar sem hefðin og þjóðtrúin setur nafnspjöld á. Þetta gap á milli fræðimanna og almennings er eðlilegt og óhjákvæmilegt og þekkist í einni eða annarri mynd í öllum vísindum. Fornleifafræðingar, sem unnið hafa við rannsóknir á Íslandi, eiga hrós skilið fyrir að hafa mörgum öðrum fræðimönnum okkar fremur lagt sig í framkróka um að miðla rannsóknum sínum, hugmyndum og kenningum til almennings. Það hafa þeir einkum gert á vettvangi fornleifauppgrafta með leiðsögn, fyrirlestrum og upplýsingaskiltum. Þeir hafa líka notað netið til að koma efni til almennings svo að til fyrirmyndar er.
Við Íslendingar getum verið harla glaðir þótt okkur takist ekki nema að litlu leyti að tengja fornleifar og fornbókmenntir okkar. Við þurfum í rauninni hvorki að leita né finna hetjur og kappa sagnanna í moldinni og getum einbeitt okkur að hversdagslegri minjum sem ekki eru síður mikilvægar til skilnings á sögu genginna kynslóða. Sannleikurinn er nefnilega sá að þótt gaman væri að finna höfuðkúpu Egils Skallagrímssonar í kirkjugarðinum að Mosfelli eða Hrísbrú eru margfalt meiri verðmæti falin í “Höfuðlausn” hans í Egils sögu. Við þurfum ekki að fara yfir bæjarlækinn til að sækja vatnið.”
Samkvæmt Egilssögu ætlaði öldungurinn sagnaþulni að dreifa silfursjóð sínum (sem hann mun hafa fengið að launum frá Aðalsteini konungi fyrir yrkingar sínar) yfir þingheim á Alþingi að Þingvöllum sumarið 990, en ákvað þess í stað, eftir fortölur, að fela hann nálægt Mosfelli. “Egill tók sótt eftir um haustið, þá er hann leiddi til bana”.
Heimild m.a.:
-http://66.249.93.104/search?-http://66.249.93.104/search?
-www.gljufrasteinn.is/
-Mbl. 5. apríl 2004.
-Árni Helgason – Mbl.
-Mosfellingur.
-Egilssaga – höfundur ókunnur.