Illaklif

Í Nýjum vikutíðindum árið 1969 er sagt frá “Munnskaðanum mikla á Mosfellsheiði” í marsmánuði árið 1957:
“Einhver hin átakanlegasta og slysalegasta ferð í verið. sem um getur, var farin fyrir rúmum hundrað árum, í öndverðum marzmánuði 1857, er fjórtán útróðramenn úr Biskupstungum og Laugardal í Árnessýlu börðust við dauðann á Mosfellsheiði í blindbyl og frosti.
laufdaelingastigur-221Segir nú ekki af ferðum þeirra félaga fyrr en kemur utarlega í svonefnda Vilborgarkeldu. Sjá þeir þá draga upp ský yfir Esjunni. Litlu síðar fór að hvessa, og að vörmu spori var skollin á þá grimmasta norðanhríð. Jafnframt herti frostið óðfluga, svo að hálfblaut föt þeirra manna, er gist höfðu á Þingvöllum, stokkgödduðu, og torvelduðu þeim mjög að komast áfram. Réðust þeir nú um, hvað til bragðs skyldi taka. Vildu sumir snúa aftur og leita bæja. Aðrir töldu það óráð, og þótti lítil von til að finna bæi í Þingvallasveit, þar sem þeir eru strjálir, en dauðinn vís ef þeir villtust út á vatnið eða í hraunið. Þótti þeim meiri von að takast mætti að finna sæluhús kofa þann, sem var á svo nefndum Moldbrekkum, austan til á miðri Mosfellsheiði. Gætu þeir látið þar fyrir berast, meðan verst væri veðrið. Ef það brygðist, myndu þeir að öllum líkindum finna Mosfellsdalinn. Mundi hríðin þar vægari og meiri von, að þeir hittu þar einhvern bæinn. Var þetta ráð tekið og halda þeir nú áfram vestur heiðina. Hríðin var svo svört, að ekkert sá frá sér, og sterkviðrið og frostharkan að sama skapi. Fuku höfuðfötin af sumum, og var engin kostur að elta þau. Gekk ferðin afar seint, bæði vegna ófærðar, veðurs og eigi sízt þess, hve klæðin frusu að þeim og gerðu þeim stirt um ganginn. Þegar á leið daginn, tóku þeir mjög að þreytast og sumir að gefast upp. Hinir, er færari voru, reyndu að hjálpa þeim eftir megni. Egill frá Hjálmstöðum hafði gengið fyrir um hríð. Þótti félögum hans sem hann mundi hafa haldið of mikið í veðrið og stefna of norðanlega. Ekki fundu þeir sæluhússkofann, enda sá vart út úr augum fyrir hríðinni. Þar á heiðinni er klif nokkurt, er verða átti á leið þeirra. Það urðu þeir eigi varir við. Kom þeim nú saman um, að snúa meira undan veðrinu, svo sem þeir hugðu stefnu vera á Mosfellsdalinn.

illaklif-223

Þótti þeim sem helzta lífsvonin væri sú, úr því sem komið var, að reyna að ná til bæjar í Gullbringum, en þangað var enn löng leið fyrir höndum. Gengu þeir nú enn um hríð, unz fimm voru svo þrotnir, að enginn var þess kostur, að þeir mættu lengra komast. Flestir hinna voru og mjög þjakaðir orðnir. Vildu sumir halda áfram og láta þá hvern þar eftir, er hann mátti eigi lengra komast.
Þó varð það úr, að þeir ákváðu að láta allir fyrir berast um nóttina, þar sem þeir voru komnir. Var þó ekki álitlegt til þess að hugsa, því að þarna var ekkert afdrep, allt slétt af jökli og veðrið svo ofsalegt, að ekki var stætt. Þeir, sem mest voru af sér gengnir, fleygðu sér þegar niður á hjarnið, en hinir stóðu uppi yfir þeim. Sumir reyndu að pjakka með stöfum sínum holu niður í harðfennið, til að reyna að fá eitthvert skýli, lögðust svo þar niður og létu skefla yfir sig. Þá félaga tók nú suma mjög að kala. Klakahúð var komin yfir andlit þeirra og öll föt voru stokkfreðin. Á Agli bónda á Hjálmstöðum var allt andlitið orðið hvítt af kali. —
Leið svo fram um dagsetur. Stóðu þá enn nokkrir uppi. Þá heyrðu þeir yngsta manninn í hópnum, Þorstein frá Kervatnsstöðum, reka upp hljóð þrisvar, og hneig hann niður við hið síðasta.
„Hörmulegt er að heyra,” mælti Kristján.
„Ef þú getur ekki að gert,” mælti Pétur, „þá er bezt að þegja.”
illaklif-224Gerði nú myrkt af nótt, svo að enginn sá annan. Þar kom, að enginn stóð uppi, nema Einar og Pétur. Sömdu þeir það þá með sér, að þeir skyldu aldrei niður leggjast, meðan þeir mættu uppi standa. Áttu þeir nóg að vinna að verjast sterkviðrinu, að eigi hrekti þá burt frá hinum. Þeir voru þá báðir ókalnir enn. Ekkert sást fyrir náttmyrkri og snjódrífu. Öðru hvoru heyrðust hljóð frá félögum þeirra, er lágu þar umhverfis í skaflinum, huldir í snjónum. Þá er langt var liðið á nótt, heyrði Pétur að kallað var í snjónum fyrir fótum honum og beðið í guðs nafni að rífa snjóinn, því að sér lægi við köfnun. Pétur þreifaði fyrir sér og fann þar Þorstein frá Kervatnsstöðum örendan. Hafði hann hnigið ofan á höfuðin á þeim Bjarna og Ísak. Voru þeir báðir á lífi, en máttu sig hvergi hræra, vegna líksins, sem lá yfir þeim, og svo voru þeir frosnir niður við hjarnið. Pétur snaraði burt líkinu, og tóku þeir Einar svo báðir að losa þá Bjarna og Ísak. Vöknuðu nú fleiri í skaflinum, er niður höfðu lagzt, en fæstir máttu upp standa, svo voru þeir frosnir. Hafði snjórinn þiðnað lítið undir þeim, er þeir lögðust niður, en frosið síðan við klæði þeirra. Þegar þeir heyrðu, að einhverjir voru uppi standandi, kölluðu þeir á þá og báðu þá hjálpar. Þeir Pétur tóku þá hvern af öðrum og svo hjálpaði hver, sem á fætur komst eftir megni. Guðmundur frá Hjálmsstöðum hafði lítt eða ekkert sofið. Hafði hann á sér þá hreyfingu, sem hann mátti, til að halda á sér hita. Heyrði hann nú angistaróp í snjónum hið næsta sér, og fór að huga frekar að því. Var það mágur hans, Egill Jónsson frá Hjálmstöðum. Var hann fastur í fönninni, berhöfðaður og berhentur á annarri hendinni. Eftir mikla erfiðismuni tókst Guðmundi að ná honum á fætur, batt tveimur vasaklútum um höfuð honum, en reyndi að koma hendinni í buxnavasann.

Mosfellsheidi-221

Var hún þá stálgödduð og ósveigjanleg og kvaðst hann ekkert finna til hennar. Enn heyrði Guðmundur hrópað nálægt sér. Var það Þiðrik Þórðarson frá Útey. Var hann einnig fastur í fönninni og búinn að fá brjóstkrampa, sem hann átti vanda til. Að lokum tókst Guðmundi að ná honum á fætur. Héldu þeir, sem eitthvað gátu, áfram að losa hina úr skaflinum, en það var torsótt mjög. Urðu þeir að beita höndum einum, því að eigi var þorandi að neyta stafbroddanna, þar sem bæði var niðamyrkur og handastjórn tekin að fatast, er flestir voru kalnir og varla hægt að ráða sér fyrir ofviðrinu. Sveinn frá Stirtlu hafði pikkað laust í hjarnið og lagzt þar niður aflangur. Var lengi strítt við að losa hann, og tókst að lokum. Var hann lítt kalinn eða ekki. Örðugast var að losa þá, er lagzt höfðu endilangir, en hægar þá, er lagzt höfðu krepptir. Í þessari svipan kól þá báða, Pétur og Einar, mjög á höndum og fótum.
Að lyktum voru allir komnir á fætur, nema Þorsteinn. Gátu sumir þó naumast staðið, og voru að detta niður öðru hvoru, en hinir hressari reistu þá upp aftur og reyndu að styðja þá. Undir dögun slotaði veðrinu lítið eitt. Töluðu þeir félagar þá saman, og mælti enginn æðruorð.
Þegar hálfbjart var orðið af degi gerði þann feiknasvip, og herti svo frostið, að langt bar af því, er verið hafði. Skullu þeir þá niður hver af öðrum, en nokkrir þeir, sem færastir voru, leituðust við að reisa þá á fætur aftur. Til marks um frosthörkuna er það, að á Pétri var orðin svo þykk  klakaskán yfir öll andlitinu, að hann gat eigi brotið hana frá. Var hvergi gat á, nema fyrir öðru munnvikinu, og frosið allt saman hár og skegg og klæði. Bað hann þá Kristján að brjóta klakann og lagðist niður á bakið. Kristján pikkaði með staf sínum rauf fyrir enninu. Þreif Pétur þar í og reif frá allt saman. Svo var veðrið nú mikið og frostið, að þeim félögum fannst sem stæðu þeir alveg berir og hröktust þeir undan veðrinu í hvössustu hryðjunum. Gekk á þessu um hríð, unz Jón frá Ketilvöllum, Þiðrik, Ísak og Egill hnigu niður í höndum félaga sinna. Var naumast hægt að merkja, hvort þeir væru með lífsmarki eða þegar örendir.
mosfellsheidi-222Harðasta hrynan hafði staðið um það bil klukkustund. Hefði hún staðið aðra klukkustund í viðbót, má fullvíst telja, að enginn hefði komizt lífs af. Veðrið dró niður um það leyti, sem albjart var orðið. Var þó enn rok og hörkubylur. Sáu þeir þó á milli hryðjanna höggva fyrir toppnum á Grímmannsfelli. Voru þeir rétt fyrir neðan Leirvogsvatn, heldur nær Stardal en Bringunum, og höfðu lítið sem ekkert farið afvega.
Þeim, sem eftir stóðu, níu samtals, kom nú saman um að halda af stað og leita byggða. Skildu þeir eftir poka sína alla og stafi. Er þeir höfðu skamma stund gengið, kallaði Guðmundur frá Múla til Péturs og bað hann að leiða sig. Gerði Pétur svo. Brátt fann hann, að sér mundi verða það of þungt einum. Kallaði hann þá til Einars og bað hann að leiða Guðmund með sér. Einar var fús til þess. Í sama bili þraut Gísla Jónsson. Reyndu þeir Pétur að hjálpa honum áfram, en varð nú seinfarið, er þeir urðu að draga tvo aðra máttfara með sér, enda misstu þeir í þessum svifum sjónar á félögum sínum öðrum.
Frá þeim er það að segja, að þeir héldu saman allir fimm og komust um miðjan morgun ofan að bænum Gullbringu, til Jóhannesar Lund, er þar bjó. Voru þeir þá svo aðfram komnir, að enginn þeirra var fær um að standa upp hjálparlaust, þegar þeir settust eða duttu.
Jóhannes bóndi og fólk hans tók þeim hið bezta, og fengu þeir þegar þá aðhlynningu og hjúkrun, sem framast voru föng á. Svo voru þeir rænulausir, að þeir gátu ekki um þá félaga sína, sem á eftir voru, fyrr en eftir drjúga stund, er einhver heimamanna var að aumka þá, hve bágt þeir ættu. Rankaði þá einn þeirra við og sagði: „Bágt eigum við, en bágara eiga þeir, sem eru á eftir.”
Þegar húsbóndinn heyrði þetta, bjóst hann þegar að leita þeirra, er á eftir væru, og var það jafnsnemma og upp stytti hríðinni.
Bringnavegur-221Í Gullbringum bjó fátækt fólk. Voru þar lítilfjörleg húsakynni og knappt um bjargræði og eldivið. Hinir hröktu menn fengu þegar kaffi og nýmjólk, voru færðir úr vosklæðum og að þeim hlynnt eftir fremsta megni. Síðan fóru þeir niður í vatnsílát með hendur og fætur, og voru í vatninu fram eftir degi.
Nú er að segja frá þeim Pétri og Einari, er þeir voru viðskila orðnir við alla félaga sína, nema þá tvo, er þeir leiddu. Höfðu þeir Guðmund á milli sín, en Gísli hélt sér í þá. Héldu þeir svo fram ferðinni langa hríð. Lítt skiptust þeir orðum við félagar, nema einu sinni segir Guðmundur: „Ætlarðu að yfirgefa mig, Pétur?”
„Nei, aldrei!” svaraði í því kipptist Guðmundur við svo hart að hann ýtti þeim frá sér. Það voru dauðateygjurnar, er hann tók fyrsta andvarpið. Báru þeir hann þó enn góða stund á milli sín, unz þeir skildu, að það kom fyrir ekki.
Þá var stytt upp hríðinni, og var það eins snögglega og hún hafði skollið á. Létu þeir nú lík Guðmundar eftir, og er þeir höfðu skamma stund farið, sýndust þeim koma þrír menn á móti sér. Það var Jóhannes bóndi í Gullbringum einn saman, er kominn var að leita þeirra. Stefndu þeir þá fyrir austan endann á Grímmannsfelli, er Jóhannes kom að þeim. Komust þeir nú allir heim með honum, en svo voru þeir máttfarnir, að Jóhannes varð að lyfta undir þá, til þess að þeir kæmust upp baðstofutröppurnar. Var Pétur verst farinn. Þegar þeir voru komnir inn á baðstofugólfið var spurt, hvort þeir vildu kaffi.
thingvallavegur-221Pétur svaraði: „Því ætli ég vilji ekki kaffi.”
Hann stóð á gólfinu, meðan hann drakk úr bollanum og meðan bóndi náði af honum fötunum. Hann talaði allt af ráði, en stutt og reiðilega, en sjálfur vissi hann ekki af sér, frá því að hann kom inn, til þess er stund leið frá.
Það var litlu fyrir hádegi, er þeir þremenningarnir komu til bæja. Voru nú sóttir menn og hestar til að flytja mennina á bæi, þar sem hægt var að hjúkra þeim. Voru sex þeirra fluttir þaðan. Bjarni og Guðmundur þóttu eigi flutningsfærir, og voru kyrrir um nóttina í Gullbringum.
Daginn eftir voru þeir fluttir niður í byggð. Allir voru þeir meira og minna kalnir, en urðu allir græddir að lokum, þótt sumir yrðu aldrei örkumlalausir. Einar lá lengi með óráði, en varð þó heill að lokum. Pétur var mest kalinn og lá mjög lengi í sárum og varð aldrei jafngóður.
Samhliða þessum flutning um voru þrír menn með duglega hesta sendir svo skjótt sem verða mátti til að leita hinna látnu og farangursins. Fundu þeir brátt lík Guðmundar frá Múla skammt frá Smalaskála nokkrum.
Því næst fundu þeir Ísak allmiklu norðar. Var hann enn með lífsmarki, þá er að var komið. Fluttu þeir hann strax að Stardal, því að þangað var skemmst, en hann dó á leiðinni. Byggðamenn sneru síðan aftur upp á heiðina og fundu brátt farangurinn og hina mennina fjóra sunnan til við Leirvogsvatn, hjá svonefndum Lómatjarnarlæk. Höfðu þeir lagzt rétt við lækinn og sumir þeirra legið í vatni úr læknum. Jón frá Ketilvöllum var þá enn með lífsmarki. Fluttu þeir hann að Stardal, en hann dó einnig á leiðinni.
Líkin voru öll lögð í snjó og vakað yfir þeim, en ekki leyndist líf með neinu þeirra. Voru líkin flutt til greftrunar að Mosfelli, en kistur gerðar að þeim í Rvík. Pétur kvaðst leggja til líkklæði utan um vin sinn og félaga, Guðmund frá Múla, og það gerði hann. —
Nokkru síðar dreymdi hann að Guðmundur komi til sín. Þóttist hann spyrja, hvernig honum liði — og fá þetta svar:
„Ekki vel. Mér er svo kalt.”
Frétti Pétur síðar, að líkklæðin höfðu orðið eftir í Reykjavík í ógáti, og þótti þá draumurinn benda til þess.”

Heimild:
-Ný vikutíðindi, 10. árg., 39. tbl, 1969, bls. 4, 5, 6 og 7.

Illaklif

Varða ofan Illaklifs.