Heiðarblóm

Haldið var inn Seljadalinn og áfram upp á gamla Þingvallaveginn og síðan línuveginn á Þingvallaveg.

Seljadalur

Brú á hinum gamla Seljadalsvegi í Seljadal.

Farið var inn á slóðina skammt neðan við grjótnám Reykjavíkurborgar innan við Þormóðsdal. Síðan var haldið upp með Seljadalsá að norðanverðu. Sást þá gamla leiðin þar sem hún kemur að sunnan og yfir ána. Komið var að grindarhliði á girðingunni um höfuðborgarsvæðið vestan við Kambhól. Hlið er bæði fyrir bíla og fyrir hesta. Framundan eru hólar þvert yfir dalinn og liggur slóðin á milli hólana og síðan í gegnum gamla hlaðna rétt sunnan undir Kambhól, Kambsrétt. Slóðinn er flóraður á þessum kafla. Þessi gata var lögð á seinni hluta 19. aldar og var um tíma aðalvegurinn til Þingvalla eða þangað til gamli Þingvallavegurinn (sjá á eftir) var lagður í tilefni að Alþingishátíðinni 1907.

Seljadalur

Seljadalur – brúin.

Dalbotninn er sléttur og algróinn. Leiðin liggur nú upp til vinstri um holt þar sem þurrast er. Næst er komið þar sem slóð kemur á slóðina frá vinstri. Sú slóð liggur út dalinn horðan við Hulduhól að girðingunni umhverfis malarnámið, sem fyrr getur. Varða er á Hulduhól sem er norðan við Kambhól og gæti bent til þess að leið hafi verið þar ef menn voru á leið um Þormóðsdal (þurrari en hin leiðin). Framundan er vik í dalbotninum norður í holtinn og sést hlaðin jarðvegsbrú þvert og beint yfir vikið. Hefur verið mikið mannvirki á þeim tíma. Við förum yfir læk og er trébrú á honum.

Seljadalur

Seljadalsvegur.

Nú er komið að raflínu sem liggur upp Seljadalinn og liggur slóðin sem er hér línuvegur norður fyrir vikið og er farið yfir aðra trébrú. Slóðinn sameinast svo gamla veginum á ný austan við vikið.
Sunnan í dalnum er hamraveggur á kafla. Neðan við hann er nokkuð slétt svæði, grasgeiri og er ekki útilokað að þar kunni að leynast tóftir á tungunni. Leiðin liggur svo upp með gili sem heitir Hrafnagil upp í Efri-Seljadal, þaðan á vatnaskil þar sem fer að halla í Leirdal og efstu drög Köldukvíslar, sem rennur niður Mosfellsdalinn.

Mosfellsheiði

Gamli Þingvallavegurinn.

Leirdalur er nokkuð vel gróinn og liggja gamlar götur um hann. Nú er orðið stutt upp á heiðina og hér sést hrunin varða. Farnir höfðu verið 6,5 km frá upphafsstað. Hrundar vörður eru hér með um 100m millibili. Slóð liggur hér til suðurs upp á gamla Þingvallaveginn sem kemur úr suð-vestri með Seljadalsbrúnum. Gatan liggur áfram upp á Háamel á gatnamót gamla Þingvallavegarins.
Nú var farið að svipast eftir stæði veitingahússins sem reist var hér.

Gamli Þingvallavegur

Tóftir Heiðarblómsins.

Farið var suð-vestur veginn að slóðamótunum sem áður var getið og litast þar um. Haldið var spölkorn til baka í norð-austur upp Háamel, stundum nefndur Aldan. Þegar komið var að talsverðu úrrennsli í veginum sást í hleðslu skammt norðan við veginn, vestur undir lágri grasivaxinni brekku. Hleðslan mun hafa verið grunnur að veitingahúsi. Giskað var á að grunnflöturinn gæti verið 3-3.5×4-4,5m. Grösugt er í kring um hleðsluna og virðast vera götur framan við hússtæðið. Ekki var vatn í læknum sem hefur rofið veginn en en vatn hefur líklega verið í honum áður. Hefur kannski breyst við að svörðurinn hefur rofnað og vatnið gengur niður? Veitingahúsið hefur staðið nokkurn veginn miðja vegu milli gömlu leiðarinnar upp úr Seljadal og Leirdal, áleiðis til Þingvalla og gamla Þingvallavegarins (sunnar). Veitingahús þetta var reist árið 1920 og nefnt Heiðarblóm.

Þingvallavgegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Skammt austar kemur gamla leiðin inn á gamla veginn. Við mótin er fallega hlaðinn varða er líkst mest bergþurs. Hefur þurft menn (eða konur) ramma að afli til að koma miðjusteininum fyrir. Tilgangur þessara leiðarmerkja var að vísa vegfarendum veginn í slæmu skyggni eða vondum veðrum, ólíkt því sem ekki ósvipuðum mannvirkjum er ætlað á Njarðvíkurheiði vestra, þar sem þeim er beinlínis ætlað að villa um fyrir fólki.
Hér áður fyrr höfðu mannvirki ákveðin tilgang. Vörður voru leiðarmerki. Hlaðin skýli voru skjól fyrir veðrum. Kennileiti í landslagi voru eyktarmörk eða viðmið. Tveir steinar, hvor upp á öðrum, merktu greni. Þannig hafði allt sinn tilgang. Engin ástæða er til annars fyrir afkomendurna en að hafa þetta í heiðri. Varða á hól, án tilgangs, er eins og álfur út úr hól – góðir Íslendingar.
Veður var frábært – sól og hiti. Ferðin tók 2 klst og 22 mín.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.