Færslur

Reykjavík

Á uppdrætti, sem fylgir örnefnalýsingu fyrir Grafarholt og Korpúlfsstaði má sjá gamlar þjóðleiðir frá og til Reykjavíkur að norðan og austan, þ.e. “Norður- og Vesturlandsveg fyrir aldamótin 1900”, “Þingvallaveg hinn forna” og “Austurveg hinn forna”.

Vesturlandsvegur

Þjóðleið sem lá fyrir norðan Bústaði yfir vaðið í Árhólmana sunnan við Búrfoss, sunnan við Innréttingarhúsin í Árhólmanum yfir Ártúnsvað og áfram sunnan við túngarðinn og upp Reiðskarðið. Leiðin er teiknuð á kort Björns Gunnlaugssonar frá árinu 1831.

Í “Byggðakönnun 7 fyrir Árbæ” frá árinu 2017 m.a lesa eftirfarandi um “fornar leiðir og greiðasölu“:
“Elsta þjóðleiðin til og frá Reykjavík lá frá Skólavörðuholti um Öskjuhlíð og áfram austur Bústaðaholt á þeim slóðum þar sem Bústaðavegur er nú. Frá Bústöðum lá leiðin austur yfir vaðið á vestari kvísl Elliðaánna, um Árhólmann sunnan við Drekkjarhyl og rústirnar af húsum Innréttinganna og yfir eystri kvísl Elliðaánna á Ártúnsvaði, rétt austan við þar sem Toppstöðin er í dag og framundan bæjarhól Ártúns. Á meðan Ártún var í þjóðleið var rekin þar greiðasala. Þaðan lá leiðin að Árbæ um Reiðskarð en þar var skarð í gömlu ísaldaráreyrina og því greiðast að fara þar upp.
VesturlandsvegurLeið þessi var aðalvegurinn austur úr bænum þar til byggðar voru tvær brýr yfir Elliðaárnar árið 1883 og nýr vegur var lagður í framhaldi af Laugavegi norður fyrir Grensás og í gegnum Sogamýri, sem ýmist var nefndur Suðurlandsvegur eða Suðurlandsbraut (núverandi Suðurlandsbraut). Fyrir austan brýrnar færðist vegstæðið norðar og eftir það var Ártún ekki í sömu alfaraleið og áður og greiðasala lagðist af þar. Um svipað leyti hófu ábúendur í Árbæ rekstur greiðasölu, eins og áður er nefnt, sem var rekin þar fram undir 1940.

Elliðaár

Hluti úr korti eftir Sigurð málara 1869. Vaðið á Elliðaánum er merkt inn á kort eftir Sigurð málara frá árinu 1869 og hefur verið þekkt þá. Í örnefnaskrá segir „Almenningsvöð eru neðstu vöðin á ánum [Elliðaánum].“  

Um 1900 var búið að gera vagnveg frá Elliðaárbrúm að Árbæ og áfram austur. Þessi vegur (gamli Suðurlandsvegur) er þar sem gatan Rofabær er nú. Vegurinn hélt síðan áfram til austurs framhjá Rauðavatni og að Geithálsi.
Áður lá vegurinn hjá Rauðavatni aðeins sunnar, samanber kort sem til er af svæðinu frá 1902 en þar eru merktir nokkrir gamlir slóðar. „Gamli vegurinn“ er sennilega elsti slóðinn sem lá á milli Árbæjar og Hólms yfir Klapparholtsmóa og er líklega elsti forveri Suðurlandsvegar. Enginn örugg merki eru sjáanleg eftir hann nema hugsanlega nyrst við núverandi Norðlingabraut. Annar slóði lá suðvestur frá Rauðavatni inn Margrófina og inn að Norðlingaholti.
Þessi vegur var forveri Breiðholtsbrautar og er nyrsti hluti hans nú notaður sem reiðvegur. Þá lá slóði yfir Klapparholtsmóa og Klapparholtsvað vestan við býlið Klapparholt yfir að Elliðavatni. Inn á kortið er einnig teiknaður vagnavegurinn meðfram Rauðavatni eða fyrsti Suðurlandsvegurinn”.
Norður- og Vesturlandsvegur lá fyrrum yfir Elliðaár frá Bústöðum að Ártúni. Þar beygði vegurinn upp á brúninar og niður að botni Grafarvogs, upp með vestanverðum Keldum að Korpúlfsstöðum að vaði ofan ósa Blikdalsár.

Vesturlandsvegur

Vegirnir gömlu ofan Reykjavíkur er fjallað er um – færðir inn á nútíma loftmynd.

Þingvallavegur hinn forni og Austurvegur lágu yfir vaðið á Elliðaánum, upp ásinn að Árbæ að Selási. Þar skyldu leiðir. Fyrri vegurinn lá áfram um holtið að Bullaugum, áfram hvylftina ofan Grafarholt (þar sem nú er golfvöllur), upp að Reynisvatni, upp með því til austurs að norðanverðu með Langavatni, niður að austanverðu Hafravatni, upp með Búrfellskoti að Selvatni og áfram inn Seljadal. Síðari vegurinn fór suður fyrir Selásinn og áfram i gegnum Rauðhólanna. Þar skyldiu leiðir; önnur lá upp að Elliðakoti og áfram til austurs að norðanverðu Lyklafelli, hin upp Lækjarbotna um Bolöldur og upp með norðanverðu Svínahrauni. Þar mættust vegirnir til áframhalds upp Hellisskarð og yfir Hellisheiði.

Heimildir:
-Byggðakönnun, Borgarhluti 7 – Árbær; Reykjavík 2017, bls. 17-19.
-Ártúnshöfði – Fornleifaskrá; Reykjavík 2021.

Bullaugu

Uppdráttur með örnefnum (1963)
Uppdráttur með örnefnum í nágrenni Grafarholts og Korpúlfsstaða, sem unnin var árið 1963 af Steindóri Björnssyni í Gröf, að beiðni Þorvarðar Árnasonar, eins framámanns í Golfklúbbi Reykjavíkur. Uppdrátturinn hékk lengi í klúbbhúsinu í Grafarholti en er nú geymdur á Korpúlfsstöðum. Höfundur er óþekktur.

Heiðarblóm

Haldið var inn Seljadalinn og áfram upp á gamla Þingvallaveginn og síðan línuveginn á Þingvallaveg.

Seljadalur

Brú á hinum gamla Seljadalsvegi í Seljadal.

Farið var inn á slóðina skammt neðan við grjótnám Reykjavíkurborgar innan við Þormóðsdal. Síðan var haldið upp með Seljadalsá að norðanverðu. Sást þá gamla leiðin þar sem hún kemur að sunnan og yfir ána. Komið var að grindarhliði á girðingunni um höfuðborgarsvæðið vestan við Kambhól. Hlið er bæði fyrir bíla og fyrir hesta. Framundan eru hólar þvert yfir dalinn og liggur slóðin á milli hólana og síðan í gegnum gamla hlaðna rétt sunnan undir Kambhól, Kambsrétt. Slóðinn er flóraður á þessum kafla. Þessi gata var lögð á seinni hluta 19. aldar og var um tíma aðalvegurinn til Þingvalla eða þangað til gamli Þingvallavegurinn (sjá á eftir) var lagður í tilefni að Alþingishátíðinni 1907.

Seljadalur

Seljadalur – brúin.

Dalbotninn er sléttur og algróinn. Leiðin liggur nú upp til vinstri um holt þar sem þurrast er. Næst er komið þar sem slóð kemur á slóðina frá vinstri. Sú slóð liggur út dalinn horðan við Hulduhól að girðingunni umhverfis malarnámið, sem fyrr getur. Varða er á Hulduhól sem er norðan við Kambhól og gæti bent til þess að leið hafi verið þar ef menn voru á leið um Þormóðsdal (þurrari en hin leiðin). Framundan er vik í dalbotninum norður í holtinn og sést hlaðin jarðvegsbrú þvert og beint yfir vikið. Hefur verið mikið mannvirki á þeim tíma. Við förum yfir læk og er trébrú á honum.

Seljadalur

Seljadalsvegur.

Nú er komið að raflínu sem liggur upp Seljadalinn og liggur slóðin sem er hér línuvegur norður fyrir vikið og er farið yfir aðra trébrú. Slóðinn sameinast svo gamla veginum á ný austan við vikið.
Sunnan í dalnum er hamraveggur á kafla. Neðan við hann er nokkuð slétt svæði, grasgeiri og er ekki útilokað að þar kunni að leynast tóftir á tungunni. Leiðin liggur svo upp með gili sem heitir Hrafnagil upp í Efri-Seljadal, þaðan á vatnaskil þar sem fer að halla í Leirdal og efstu drög Köldukvíslar, sem rennur niður Mosfellsdalinn.

Mosfellsheiði

Gamli Þingvallavegurinn.

Leirdalur er nokkuð vel gróinn og liggja gamlar götur um hann. Nú er orðið stutt upp á heiðina og hér sést hrunin varða. Farnir höfðu verið 6,5 km frá upphafsstað. Hrundar vörður eru hér með um 100m millibili. Slóð liggur hér til suðurs upp á gamla Þingvallaveginn sem kemur úr suð-vestri með Seljadalsbrúnum. Gatan liggur áfram upp á Háamel á gatnamót gamla Þingvallavegarins.
Nú var farið að svipast eftir stæði veitingahússins sem reist var hér.

Gamli Þingvallavegur

Tóftir Heiðarblómsins.

Farið var suð-vestur veginn að slóðamótunum sem áður var getið og litast þar um. Haldið var spölkorn til baka í norð-austur upp Háamel, stundum nefndur Aldan. Þegar komið var að talsverðu úrrennsli í veginum sást í hleðslu skammt norðan við veginn, vestur undir lágri grasivaxinni brekku. Hleðslan mun hafa verið grunnur að veitingahúsi. Giskað var á að grunnflöturinn gæti verið 3-3.5×4-4,5m. Grösugt er í kring um hleðsluna og virðast vera götur framan við hússtæðið. Ekki var vatn í læknum sem hefur rofið veginn en en vatn hefur líklega verið í honum áður. Hefur kannski breyst við að svörðurinn hefur rofnað og vatnið gengur niður? Veitingahúsið hefur staðið nokkurn veginn miðja vegu milli gömlu leiðarinnar upp úr Seljadal og Leirdal, áleiðis til Þingvalla og gamla Þingvallavegarins (sunnar). Veitingahús þetta var reist árið 1920 og nefnt Heiðarblóm.

Þingvallavgegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Skammt austar kemur gamla leiðin inn á gamla veginn. Við mótin er fallega hlaðinn varða er líkst mest bergþurs. Hefur þurft menn (eða konur) ramma að afli til að koma miðjusteininum fyrir. Tilgangur þessara leiðarmerkja var að vísa vegfarendum veginn í slæmu skyggni eða vondum veðrum, ólíkt því sem ekki ósvipuðum mannvirkjum er ætlað á Njarðvíkurheiði vestra, þar sem þeim er beinlínis ætlað að villa um fyrir fólki.
Hér áður fyrr höfðu mannvirki ákveðin tilgang. Vörður voru leiðarmerki. Hlaðin skýli voru skjól fyrir veðrum. Kennileiti í landslagi voru eyktarmörk eða viðmið. Tveir steinar, hvor upp á öðrum, merktu greni. Þannig hafði allt sinn tilgang. Engin ástæða er til annars fyrir afkomendurna en að hafa þetta í heiðri. Varða á hól, án tilgangs, er eins og álfur út úr hól – góðir Íslendingar.
Veður var frábært – sól og hiti. Ferðin tók 2 klst og 22 mín.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Þingvallavegur

Forn leið frá Reykjavík til Þingvalla lá m.a. um Seljadal. Sjá má endurbætur á henni við Kambhól þar sem vegurinn liggur í gegnum Kambsréttina. Þar er hlaðið í vegkantinn. Gamli Þingvallvegurinn svonefndi lá hins vegar sunnar og vestar á Mosfellsheiði. Við hann er er margt að skoða, auk þess sem vegurinn er ágætt dæmi um vandaða vegagerð þess tíma.

Þingvallavegur

Nýi Þingvallavegur – brú.

Nýi Þingvallavegurinn var lagður fyrir Alþingishátíðina á Þingvöllum árið 1930. Þar sem gamli vegurinn mætir þeim nýja að austanverðu , skammt vestan við vegamótin, er mikil lægð í heiðinni og blautar mýrar. Þetta er Vilborgarkelda. Örnefnið er ævafornt, að líkindum frá þjóðveldisöld. Ekki er vitað við hvaða Vilborgu þetta keldusvæði er kennt.
Gamli Þingvallavegurinn, sem liggur áfram yfir háheiðina, var lagður á árunum 1890-96. Byrjað var á honum af Suðurlandsvegi við Geitháls. Vegalagningin miðaðist þá að sjálfsögðu við umferð hestvagna og ríðandi fólks.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Vegurinn var lagður nær á sömu slóðum sem hinar fornu ferðamannaslóðir lágu um, en þó ívið sunnar eins og fyrr sagði. Eftir lagningu hans beindist nær öll umferð um heiðina að þessum vegi. Vörður voru hlaðnar við hann á allri heiðinni til leiðbeiningar ferðamönnum. Byggt var nýtt sæluhús við veginn í stað gamla hússins, sem stóð talsvert austar og norðar, á sýslumörkunum. Talsverðar endurbætur voru gerðar á þessum vegi vegna konungskomunnar 1907. Sumarið 1913 var í fyrsta sinn ekið bifreið eftir þessum vegi til Þingvalla og var notast við hann sem bílveg eftir það í hálfan annan áratug.

Gamli Þingvallavegurinn er ekki síst áhugaverður vegna vinnubragða þeirra manna, sem fyrstir ruddu brautir og lögðu vegi milli héraða með handverkfærum einum, skóflu og haka, járnkarli og handbörum. Enn vottar fyrir leifum af hellurennum, hlöðnum brúarstöplum og fallega hlöðnum vörðum sem vísuðu veginn þegar ekki sást í dökkan díl. Vegalengdin frá Krókatjörn þar sem gamli leiðin kemur inn á götuna ofan við Langavatn um Miðdal og austur að beygjunni á nýja Þingvallaveginum er um 20 km. Leiðin er u.þ.b. hálfnuð er komið er á Háamel.

Mosfellsheiði

Sæluhúsið við Gamla-Þingvallaveginn.

Minjar gamla sæluhússins eru þar sem skerast markalínur sýslanna og hreppamörk Mosfells-, Grafnings- og Þingvallahrepps. Tóft nýrra sæluhússins er norðan vegarins. Það var hlaðið úr tilhöggnu grjóti. Sagt hefur verið að þar hafi verið reimt og til af því sögur. Tveimur kílómetrum austan þess eru fornar steinbrýr á veginum, nefnd Loft.

Þingvallavegur

Brú á Gamla Þingvallaveginum.

Þegar haldið var austur eftir Gamla-Þingvallaveginum sást vel hversu mikið mannvirki hann hefur verið á sínum tíma, bæði beinn og breiður. Púkkað er svo til í allan veginn og jafnvel hlaðið í kanta. Nú er yfirborðið fokið út í veður og vind, en eftir stendur undirlagið og frostupphleyft grágrýti er torveldar leiðina. Fallega hlaðin ræsi eru mörg á veginum og er ótrúlegt að sjá hversu stóra steina mönnum hefur tekist að forfæra við gerð þeirra. Ræsin á veginum eru tvenns konar; annars vegar hlaðnar rásir með þykkum og þungum hellum og hins vegar “púkkrás” þvert í gegnum veginn.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Vestan við Háamel er fallega hlaðin brú. Lækjarfarvegurinn undir brúnni hefur verið flóraður. Brúarendarnir eru listasmíð, steinarnir nákvæmlega felldir saman og ofan á brúnni beggja vegna hvíla brúarsteinarnir. Í þá hefur verið festur teinn og væntanlega hefur keðja verið strengd á milli þeirra.
Efst á Háamel kemur gamla leiðin ofan úr Seljadal og Leirdal saman við nýju götuna. Gamla leiðin er vel vörðuð yfir Háamelin og áfram austur. Hún heldur áfram yfir melinn, en kemur inn á nýju götuna skammt austar. Skammt frá mótunum er há heil varða, gerð úr stóreflis bjargi. Það hvílir á hveimur “fótsteinum”, en ofan á “búknum” hvílir “höfuð” með “nefi” er bendir vegfarendum rétta leið við stíginn. Austan vörðunnar er gatan flóruð í kantinn annars vegar.

Seljadalur

Seljadalur – brú á Seljadalsvegi.

Haldið var til baka og nú um Seljadalsleið. Við hana sést gamli stígurinn (eldri þjóðleiðin til Þingvalla) víða þar sem hún liggur í hlykkjum upp úr dalnum, upp með Hrafnagjá og áfram austur. Vestan við Kambshól sést gatan vel þar sem hún hlykkjast um landslagið. Neðan þverdalsins, þars em Nessel er, er nokkurt mannvirki; landbrú yfir mýrlendi. Þetta hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma, en er nú sem minnismerki um löngu liðnar ferðir margra á merkisstað.

Frábært veður – sól og hiti. Ferðin tók 5 klst og 5 mín.

Efni m.a. úr Árbók FÍ – 1985.
Einnig úr Áfangar, ferðahandbók – 1986.

Thingvallavegur gamli - 217

Gamli Þingvallavegur – ræsi.

Friðrik VIII

Í Tímanum 19. des. 1958 segir Þ.M.J. frá útgáfu bókarinnar um “Íslandsferðina 1907”, þ.e. ferð Friðriks VIII, Danakonungs til Íslands það ár.

Friðrik VIII

Konungsheimsókn Friðriks VIII. Bæjarbryggjan, Steinbryggjan í forgrunni. Danski fáninn við hún. Konungsflotinn sést fyrir utan, 1907. Ljósmyndari: Magnús Ólafsson.

“Sama árið og Friðrik VIII. varð konungur, bauð hann og ríkisþing Dana alþingismönnum og ráðherrum Íslands til Danmerkur, og var þeim tekið þar með mikilli viðhöfn og vinahótum.

Árið á eftir (1907) kom svo konungur hingað til lands ásamt fjörutíu dönskum ríkisþingmönnum og fleira dönsku stórmenni, þar á meðal Haraldi prinsi syni sínum, J.C. Christensen, forsætisráðherra Dana og sagnfræðingnum Troels-Lund. Með í förinni voru og blaðamennirnir Holger Rosenbérg og Sven Poulsen, sem skrifuðu bók um förina til Íslands, og kom hún út á dönsku sama ár og förin var farin, en nú í fyrsta sinn hefur hún verið þýdd og gefin út á íslenzku.

J. C. Cristensen

Jens Christian Christensen (J.C. Christensen); 21. nóvember 1856 – 19. desember 1930. Embættismenn er jafnan vanmetnir þegar kemur að sögulegum “ákvörðunartökum” valdhafa.

Segja þeir í inngangi bókarinnar, að sá hafi orðið árangur Íslandsferðarinnar, að hinn norðlægari og suðlægari hluti ríkisins hafi tengzt stórum traustari böndum en áður. Íslendingar tóku vel á móti konungi og fylgdarliði hans.
Konungur vann sér hér vinsældir vegna ljúfmannlegrar framkomu snnar, en fyrst og fremst fyrir það, að Íslendingar álitu hann vera sér hliðhollan í sjálfstæðisbaráttu sinni. En blaðamennimir hafa misskilið Íslendinga er þeir halda, að gestrisni þeirra hafi táknað, að þeir vildu bindast Danmörku enn fastari böndum en áður. Eg man að vísu eftir einni þingmálafundarsamþykkt frá vorinu 1907, þar sem samþykkt var, að fundurinn óskaði eftir, að Ísland yrði bundið sem traustustu ríkissambandi við Danmörku. Á öðrum fundi í sama kjördæmi kom fram samskonar tillaga, en henni var vikið til hliðar, áður en hún var borin upp. En þetta voru undantekningar. Samþykkt Þingvallafundarins 1907 segir aftur á móti vilja meirihluta þjóðarinnar, eins og sannaðist við þingkosningarnar 1908.”

Friðrik VIII

Friðrik VIII Kristjánsson.

Í Morgunblaðinu 4. ágúst 2007 mátti m.a. lesa eftirfarandi um “Íslandsheimsókn Friðriks VIII. Danakonungs árið 1907”: “Þriðjudaginn 30. júlí eða níu dögum eftir að lagt var af stað [frá Danmörku], með viðkomu Færeyjum, gekk konungur á land í Reykjavík. Allt var með hátíðabrag í bænum, hús voru skreytt og spariklætt fólk á ferli. Í fjöldanum mátti sjá konur í þjóðbúningi, einkennisklædda embættismenn, danska og franska sjóliðsforingja, ræðismenn erlendra ríkja í viðhafnarbúningi, bændur, sjómenn og fleiri.

Friðrik VIII. gekk upp Steinbryggjuna eftir rauðum flosdregli en við enda hans reis hár heiðursbogi, inngangur í bæinn.

Friðrik VIII

Friðrik VIII og fylgdarlið koma til Reykjavíkur 30. júlí 1907.

Hannes Hafstein ráðherra bauð konung velkominn og kynnti fyrir honum helstu embættismenn. Á bryggjunni voru meðal annars eftirtaldir meðlimir í móttökunefnd: Jón Jakobsson landsbókavörður, Guðmundur Björnsson landlæknir, Skúli Thoroddsen ritstjóri og Tryggvi Gunnarsson bankastjóri. Síðan fylgdi Hannes konungi og fylgdarliði um götur til búsetu í latínuskólanum sem breytt hafði verið í konungsbústað og var fljótlega nefndur konungshöllin.

Hannes hafstein

Hannes Hafstein (1861-1922). Fyrsti ráðherra Íslands (01.02.1904-31.03.1909). Hannes varð fyrsti ráðherra Íslands frá og með 1. febrúar 1904. Meðan Hannes var ráðherra var sími lagður til landsins. Deilur risu um uppkast að nýrri stjórnarskrá og var kosið um „Uppkastið“ árið 1908. Andstæðingar Uppkastsins unnu sigur og Björn Jónsson varð ráðherra 31. mars 1909. Þá varð Hannes bankastjóri Íslandsbanka. Hannes varð ráðherra í annað sinn 24. júlí 1912, þá fyrir Sambandsflokk, þegar Kristján Jónsson lét af embætti, og sat til 21. júlí 1914. Á því tímabili var fánamálið mjög til umræðu, og tapaði Hannes atkvæðagreiðslu um skipan nefndar um tilhögun og tillögugerð í fánamálinu. Tók Sigurður Eggerz við ráðherraembætti af Hannesi. Hannes settist þá aftur í bankastjórastól Íslandsbanka og sat þar til 1917 er hann sagði af sér vegna heilsubrests.

Í latínuskólanum undirritaði konungur þrenn lagafyrirmæli handa Íslendingum, ein um aðflutningsgjöld en hin varðandi útvegsmál. Voru það fyrstu lög sem staðfest höfðu verið á íslenskri grund. Frá sama stað var ennfremur tilkynnt um að skipuð yrði nefnd ríkisþingmanna og alþingismanna til þess að gera ráðstafanir til nýrrar löggjafar varðandi stjórnskipunarlega stöðu Íslands í Danaveldi.

Seinna um daginn var móttökuhátíð í Alþingishúsinu. Deginum lauk með stórri veislu sem Íslandsráðherra og alþingisforsetar buðu til…”

Á vefsíðunni Hugi.is mátti árið 2013 m.a. lesa eftirfarandi um konungskomuna eftir Örn H. Bjarnason árið 1907 undir fyrirsögninni “Gamlar götur”:

“Í byrjun ágúst árið 1907 hefði verið vandalaust að feta sig slóð Friðriks 8. og 200 manna fylgdarliðs hans. [Friðrik 8. af Glücksborg var konungur Danmerkur frá 1906 – 1912. Hann var elstur barna Kristjáns konungs 9. og Lovísu af Hessen-Kassel.]
Fyrst var riðið á Þingvöll, svo austur að Laugarvatni, að Geysi og Gullfossi, yfir Hvítá á nýrri brú við Brúarhlöð. Síðan niður Hreppa hjá Álfaskeiði, yfir Stóru- Laxá og að Þjórsárbrú. Þaðan um Ölfusárbrú í Arnarbæli í Ölfusi, upp Kambana, yfir Hellisheiði á Kolviðarhól, niður hjá Lækjarbotnum og til Reykjavíkur aftur. Vandlætingafólk þess tíma taldi að fikra mætti sig Kóngsveginn svonefnda eftir tómum kampavínsflöskum.
Víst er um það að ríkisþingmenn fengu fyrir brottför silfurslegna svipu að gjöf frá Alþingi og ferðabikar í ól til að smeygja um öxl sér. En að þetta hafi verið einhver fyllirístúr er af og frá, menn kannski fengið sér í annan fótinn en ekki mikið meira, flestir. Sérstök gullplata var á svipu konungs og hafði Árni Gíslason grafið á hana “Ísland 1907.”
Áhugavert er að skoða ljósmyndir teknar þessa sumardaga, pípuhattar í öllum áttum og harðkúluhattar, barðastórir kvenhattar, upphlutur og skotthúfur, skautbúningur og möttull. Í bakgrunninum voru derhúfur en á húfum lúðurþeytara voru sérstakir borðar. Allir báru höfuðföt sem er hyggilegt enda fer að sögn veðursérfræðinga 75% af hitatapi líkamans um höfuðið.

Friðrik VIII

Skrúðganga í Reykjavík í tilefni heimsóknar Friðriks VIII.

Svo voru það skínandi einkennisbúningarnir. Myndir frá þessum tíma eru allar í svart/hvítu og þess vegna heldur maður kannski að í gamla daga hafi allt verið svo leiðinlegt. Svo var þó ekki ef marka má allar sögurnar og eitt er víst að þarna var ekki litlaus hópur á ferð, öðru nær.
Tildur segjum við í dag á stíllausri öld, en gleymum því ekki að á bak við stífa framkomu þessa fólks leyndist oft hörku dugnaðar. Það er meira en að segja það að fara í 7 daga hestaferð á Íslandi að viðbættum íþyngjandi ræðuhöldum, ofáti og skjalli hvers konar sem sterk bein þarf til að þola. Auk þess var mikil pólitísk spenna í loftinu vegna sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Frá Reykjavík á Þingvöll
Friðrik VIIIFerðin hófst 1. ágúst og var lagt af stað frá Latínuskólanum í Reykjavík. Konungur reið gráum hesti og var í búningi sjóliðsforingja með derhúfu að hætti aðmiráls og í uppháum leðurstígvélum. Hannes Hafstein Íslandsráðherra var á léttvígum, rauðskjóttum gæðingi Glæsir að nafni, kallaður Ráðherra-Skjóni. Seinna í ferðinni reið hann brúnum hesti en konungur hélt sig við gráa litinn enda hafði honum verið ætlaðir fjórir í þeim lit í ferðina. Þegar til kom líkaði honum aðeins við tvo þeirra. Mér skilst að Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum, stórbýli rétt fyrir austan Selfoss, hafi skaffað þessa gráu hesta.

Haraldur prins var í húsarabúningi. Þarna voru líka Axel Tulinius sýslumaður Suður-Múlasýslu, aðalskipuleggjari ferðarinnar, Rendtorff yfirhestasveinn konungs í rauðum búningi, J.C. Christensen forsætisráðherra og Rosenstand leyndaretatsráð svo að einhverjir séu nefndir.

Axel V. Tulinius

Axel V. Tulinius.

Leiðsögumenn voru m.a. þeir Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Magnússon skrifstofustjóri, síðar forsætisráðherra. Jón var hæglætismaður og frekar orðfár, en hvar sem hann sýndi sig fóru hjólin að snúast. Þannig var það einnig við undirbúning þessarar ferðar.
Það þurfti töluverða skipulagshæfileika til að henda reiður á öllu því hafurstaski sem fylgdi þessu liði, kerrur með tjöld og matföng og trússhestar, klyfsöðlar, hnakkar, beisli, lyfjaskrín, hattaöskjur og ferðakoffort. Þetta líktist meira innrásinni í Rússland eða herleiðingu eins og sagt er frá í Gamla testamentinu hjá Móse frá Egyptalandi eða Esekiel til Babylon, erillinn var svo mikill. Að morgni fyrsta dags voru allir að ganga af göflunum og þá var notalegt að hafa Jón Magnússon með sína góðu nærveru.

Friðrik VIIIHófaskellirnir á götum Reykjavíkur þennan dag komu öllum í ferðaham og góðhestarnir sem bændur sunnanlands og norðan höfðu lánað af þessu tilefni voru ekki af verri endanum. Flestar sýslur landsins lögðu til 18 hesta hver landssjóði að kostnaðarlausu, en einnig voru fjöldinn allur af leiguhestum.
Af lista yfir íslenska alþingismenn sem varðveist hefur er svo að sjá, að flestir þeirra hafi fengið tvo hesta til afnota. Númer 13 á listanum er Hannes Hafstein, 1. Þingmaður Eyfirðinga, Tjarnargötu. Hann fékk bara einn hest enda lagði hann sjálfur til Ráðherra-Skjóna. Björn M. Olsen, 3. Konungskjörinn þingmaður, Lækjargötu 8, fékk 3 hesta. Tryggvi Gunnarsson 1. Þingmaður Reykvíkinga fékk 2 hesta og sömuleiðis Þórhallur Bjarnarson þingmaður Borgfirðinga síðar biskup yfir Íslandi.

Guðmundur Björnsson

Guðmundur Björnsson, alþingismaður. Alþingismaður Reykvíkinga 1905–1908, konungkjörinn alþingismaður 1913–1915, landskjörinn alþingismaður 1916–1922 (Heimastjórnarflokkurinn, Sambandsflokkurinn, Heimastjórnarflokkurinn).
Forseti efri deildar 1916–1922. Milliþingaforseti efri deildar 1915.

Guðmundur Björnsson 2. Þingmaður Reykvíkinga, Amtmannsstíg 1, fékk engan hest enda hefur hann sjálfsagt verið með sína eigin hesta í ferðinni.
Í bréfi dagsettu 7. febrúar 1907 býður Daniel Danielsson hinni háttvirtu Heimboðsnefnd vagnhesta til kaups á kr. 160 stykkið. Hann segir í bréfinu, að hann treysti sér ekki til að fara neðar þar sem hann telji að verð á hestum á sumri komandi verði mjög hátt. Þetta var svo sannarlega uppgripstími fyrir hestaspekúlanta.
Þar sem riðið var upp Hverfisgötu blakti danski fáninn við hún. Farið var upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði, en þar byrjar hinn eiginlegi gamli Þingvallavegur. Svipusmellir fylltu loftið og öllum mátti vera ljóst að þetta var enginn venjulegur reiðtúr. Á leiðinni bættust í hópinn bændur sem höfðu hlaupið frá búum sínum til að skoða kónginn. Þegar til kom gátu þeir ekki stillt sig um að slást í för á Þingvöll. Sumir voru ekki einir á ferð heldur með allt sitt hyski, konu og krakka.
Í Djúpadal var framreiddur hádegisverður. Eins og allir vita þá eru Danir fyrst í essinu sínu þegar matur er annars vegar. Þeir borða ekki eingöngu til að lafa á fótunum. Matargerð er í þeirra augum listgrein og að skeggræða um mat umræðuefni sem stendur jafnfætis heimspekitali á gangstéttarkaffihúsum stórborganna. Virkilega siðaður Dani getur rifjað upp matseðla áratugi aftur í tímann af jafn mikilli nákvæmni og veðurglöggur Íslendingur lýsir skýjafari. Danir eru heimsmenn.

Djúpidalur

Djúpidalur.

Nema hvað í Djúpadal hafði Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 látið senda 150 rúnstykki, 7 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Pagh veitingastjóri var staðráðinn í því, að hvað sem öðru liði þá myndi Friðrik 8. Danakonungur ekki verða hungurmorða í ferðinni og þyrstur yrði hann ekki, enda sést í skjölum að Thomsens Magasin lét senda 4000 flöskur vestur að Rauðamel. Þar var tappað ölkelduvatni á flöskurnar. Þetta ölkelduvatn var haft til hressingar í heimsókn konungs.

Friðrik VIII

Gamli Þingvallavegurinn 1907.

Að loknum málsverði þumlungaðist hersingin áfram fyrir norðan Borgarhóla í áttina að Þrívörðum og sunnan við Vilborgarkeldu á Mosfellsheiði, sem er forn áningarstaður. Þaðan var ekki langt í Ferðamannahorn, en það heitir svo vegna þess að þar sést fyrst til langferðamanna að koma á Þingvöll. Svo lá leiðin um Kárastaðastíg og niður í Almannagjá. Þegar konungur reið niður gjána hrópaði fólkið sem hafði raðað sér þar upp nífalt húrra, ég endurtek nífalt, minna mátti ekki gagn gera.

Friðrik VIII

Friðrik VIII.

En hver var þessi konungur sem verið var að hrópa húrra fyrir? Friðrik 8. var fæddur árið 1843 og dó árið 1912. Hann ríkti frá árinu 1906 til 1912. Faðir hans var Kristján 9. Þann stutta tíma sem Friðrik var við völd ferðaðist hann mikið um ríki sitt og komst í nána snertingu við þjóð sína. Hann beitti sér m.a. fyrir bættum samskiptum við Íslendinga. Árið 1869 gekk hann að eiga sænska prinsessu Louise að nafni.

Friðrik VIII

Frímerki af tilefni eitt hundrað ára minningar um komu Friðriks VIII. Danakonungs til Íslands 1907.

Og þjóðin sem hann var að heimsækja hvernig var hún? Af því að maður er svolítið blindur á sitt eigið fólk þá gerði ég það að gamni mínu að fletta upp í Nordisk Konversasions Leksikon, 5. bindi, bls. 183. Þar stendur: “Íslendingar tilheyra hinum hvíta kynstofni, flestir eru háir, ljósir yfirlitum og langhöfðar. Þeir eru með blá augu og grannvaxnir.” Þetta fannst mér áhugaverð lesning, en meira hafði ég samt gaman af að koma út af bókasafninu og labba eftir Austurstræti og sjá margbreytileikann í útliti fólks enda er þjóðin örugglega ekki svona einslit eins og stendur í alfræðiritinu. Rannsóknir á blóðflokkum Íslendinga sýna raunar að þjóðin er af margvíslegum uppruna.

Friðrik VIIIEn við vorum stödd á Þingvöllum. Þar höfðu miklar vegabætur farið fram sem og annars staðar á leið konungs. Árið 2000 voru líka lagðir vegir á Þingvöllum. Það tengdist Kristnitökuhátíðinni. Þetta voru mjög snotrir vegir út um alla móa, en lágu svo sem ekkert sérstakt að mér fannst. Áhugavert þótti mér að sjá hvílíkri tækni vegakarlar bjuggu yfir þegar þeir mokuðu þessum sömu vegum upp á vörubíla aftur og keyrðu í burtu. Þarna hófst nýr kafli í samgöngusögu þjóðarinnar. Það er ekki enn búið að moka í burtu Kóngsveginum gamla en slitróttur er hann orðinn á köflum.
Að loknum kvöldverði þennan fyrsta dag gekk konungur um meðal fólksins í tvo klukkutíma. Hann var skrafhreyfinn og lék við hvern sinn fingur. Engin þreytumerki voru á honum að sjá.

Þjóðhátíð á Þingvöllum

Friðrik VIII

Friðrik VIII á Þingvöllum.

Næsta dag 2. ágúst var haldin þjóðhátíð á Þingvöllum. Drifhvítar tjaldborgir höfðu risið þar og byggður hafði verið konungsskáli í hallanum upp að Almannagjá ekki langt frá Öxarárfossi en í Hestagjá voru höfð hross sem þurftu að vera til taks. Ekki létu fréttamennirnir sig vanta en Guðmundur Finnbogason var fulltrúi Blaðamannafélagsins. Þegar á ferðina leið reyndust fréttamennirnir hvað dugmestir. Það er ótrúlegt hvað forvitnin er mikið hreyfiafl.
Friðrik VIIIÍ Valhöll var snæddur hádegisverður, en kl. 1 hófst Lögbergsgangan og tóku nær 6000 manns þátt í henni. Það var regnkápuveður þennan dag og margar ræður voru fluttar og mikið sungið. Hannes Hafstein flutti konungsminni. Ýmsir aðrir tóku til máls. Tulinius sýslumaður stjórnaði glímukeppni og sigraði Hallgrímur Benediktsson í þessari keppni en þriðji varð Jóhannes Jósefsson sem síðar var kenndur við Hótel Borg en hann hafði lagt sig eftir grísk rómverskum fangbrögðum og var talinn öflugur glímumaður. Sem sigurmerki fékk Hallgrímur birkigrein og síðan var hann borinn af sviðinu í gullstól.

Björn M. Olsen

Björn M. Olsen; Konungkjörinn alþingismaður 1905–1908 (Heimastjórnarflokkurinn).

Björn M. Olsen prófessor fræddi fólkið um Úlfljótslög, Grágás, Járnsíðu og Jónsbók. Eins sagði hann frá því hvernig Gissur Þovaldsson sendi árið 1238 Hjalta biskupsson upp á þing með stóran flokk manna til að hleypa þinginu upp. Svo var það bardaginn á Alþingi eftir Njálsbrennu og hvernig dómi var hleypt upp árið 999 er dæma skyldi í máli á hendur Hjalta Skeggjasyni um goðgá. Það var síður í frásögur færandi að oftast fór þingið fram með hinni mestu friðsemd og spekt.
Lítillega sagði prófessorinn frá því hvernig þjófar höfðu verið hengdir við Gálgaklett og konur sem höfðu borið út börn sín eða deytt á annan hátt drekkt í Drekkingarhyl. Þetta gerði stóra lukku.
Um kvöldið var haldin hátíðarveisla. Þar flutti Sveistrup þjóðþingsmaður ræðu fyrir minni íslenska hestsins, en konungur mælti fyrir minni kvenna. Aðeins ein kona Ragnheiður Hafstein eiginkona Íslandsráðherra var í veislunni, sem mönnum þótti alveg kappnóg. Konungur beindi orðum sínum til hennar frekar en að tala út í buskann til allra þeirra kvenna sem voru annars staðar. Dansað var á palli fram á nótt og tók konungur þátt í dansinum.

Friðrik VIII

Verst var að hesturinn sem Sveistrup lofaði hvað mest í fjörugri ræðu sinni fældist nokkrum dögum seinna fyrir vagni hans uppi á Hellisheiði. Sveistrup hlaut nokkrar skrámur á enni og mikil mildi að ekki hlaust verra af.”

Frá Þingvöllum að Geysi

Friðrik VIII

Minningarsteinn um komu Friðriks VIII til Geysis 1907.

Næsta dag þann 3. ágúst var svo riðið hjá Skógarkoti Skógarkotsveg og í Vatnsvíkina hjá Vellankötlu um Gjábakkastíg og Barmaskarð á Laugarvatnsvelli. Þangað var komið um hádegisbil og beið þar stórt veitingatjald. Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 hafði sent þangað 160 rúnstykki, 8 rúgbrauð og 12 franskbrauð…”

Í Fréttablaðinu 7. maí 2019 er fjallað um Gamla Þingvallaveginn á þeim nótum að hann “fái veglegri sess með friðlýsingu”. Þar segir:

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði.

“Þrjú sveitarfélög við Mosfellsheiði og minjavörður Suðurlands vilja að hafið verði ferli til að breyta skilgreiningu á nítjándu aldar hestvagnavegi sem liggur frá Geithálsi að Almannagjá úr því að vera friðaður í það að verða friðlýstur. Þá yrði vegurinn merktur og vakin á honum athygli sem menningarminjum.
Minjastofnun vinnur nú að því með þremur sveitarfélögum að Gamli Þingvallavegurinn frá því á 19. öld verði friðlýstur.
„Vegna aldurs síns er vegurinn friðaður samkvæmt lögum en vert er að skoða hvort ekki sé ástæða til að ganga lengra og friðlýsa hann. Með friðlýsingu fengi Gamli Þingvallavegurinn veglegri sess, hann yrði merktur og vakin athygli á honum sem merkum menningarminjum,“ segir í minnisblaði Tómasar G. Gíslasonar, umhverfisstjóra Mosfellsbæjar, sem lagt var fram er bæjarstjórnin þar staðfesti vilja sinn í málinu.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur frá 1907 millum Djúpadals og Þingvalla.

Í framhaldinu var málið borið undir yfirvöld í Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð þar sem Gamli Þingvallavegurinn liggur einnig um lönd þeirra sveitarfélaga. „Að langstærstum hluta er leiðin á landi Mosfellsbæjar; sker svo norðurhorn Grímsnes-og Grafningshrepps við Klofningstjörn á stuttum kafla en fer þá yfir í Bláskógabyggð, í Vilborgarkeldu nálægt núverandi Þingvallavegi við Torfdalslæk,“ segir Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands, í samantekt um málið.
Vegurinn hafi verið geysimikið mannvirki á sinni tíð; upphlaðinn á köflum með vatnsræsum, brúm og vel hlöðnum vörðum. Hann sé vel varðveittur hestvagnavegur.

Friðrik VIII

Konungsheimsókn Friðriks VIII 1907. Hannes Hafstein ráðherra kveður konung á Bæjarabryggju (Steinbryggjunni).
Ljósmyndari: Magnús Ólafsson.

„Hann markaði tímamót í samgöngusögu heiðarinnar og við hann var einnig hlaðið sæluhús úr tilhöggnu grágrýti. Eftir að önnur þjóðbraut var lögð yfir norðanverða
heiðina til Þingvalla um 1930 var þessi leið aflögð að mestu og hlaut hún þá nafnið Gamli Þingvallavegurinn,“ rekur Tómas umhverfisstjóri.
Nú liggur fyrir að afla þurfi upplýsinga um minjarnar og síðan fá ráðgefandi álit Fornminjanefndar áður en málið er kynnt almenningi og á endanum lagt fyrir mennta- og menningarmálaráðherra til endanlegrar ákvörðunar um friðlýsingu eður ei.”

Heimildir:
-Tíminn 19. des. 1958, Íslandsferðin 1907, bls. 8.
-Gamlar götur-Konungskoman árið 1907, Örn H. Bjarnason – https://www.hugi.is/saga/greinar/130222/gamlar-gotur-konungskoman-1907/
-Örn H. Bjarnason. Konungskoman árið 1907. Heima er bezt 53. árg., 3. tbl., mars 2003, bls. 122-127.
-Fréttablaðið 7. maí 2019, Gamli Þingvallavegurinn fái veglegri sess með friðlýsingu, bls. 6.
-“Aukinn skilning mun hún færa oss, þessi Íslandsferð”, Þ. M. J – Heimsókn Friðrik VIII Danakonungs til Íslands 1907, rit Landsbókasafns Íslands 2007 – https://rafhladan.is/bitstream/handle/10802/9442/Konungskoma_%C3%ADslenska.pdf?sequence=1
-Morgunblaðið 4. ágúst 2007, Íslandsheimsókn Friðriks VIII. Danakonungs árið 1907, Lesbók Morgunblaðsins.

Friðrik VIII

Friðrik VIII. með ríkisþings- og alþingismönnum við Miðbæjarskólann í Reykjavík.

Þingvallavegur

“Lagning gamla Þingvallavegarins hófst árið 1886 og var að fullu lokið árið 1891. Þessi þjóðvegur gegndi því hlutverki í rúmlega 40 ár að greiða mönnum leið yfir langa og oft torsótta heiði, þegar farartækin voru eigi önnur en fætur manna thingvallavegurinn gamli-901og hesta, og síðar á bifreiðum, en telja verður því lokið eftir alþingishátíðina árið 1930.
Vegurinn liggur austan við Seljadalinn, en áður lá leiðin um þann dal. Eftir dalnum rennur Seljaá. Þar sem Seljaá beygir meðfram Borgarhólum, hefur verið byggð brú yfir ána. Við Háamel hefur sæluhús  verið byggt úr tilhöggnu grjóti. Austan við Morldabrekkur mótar fyrir tóftum. Það eru leifar elsta sæluhússins á heiðinni sem kunnugt er um. Það sæluhús var lagt niður og nýja sæluhúsið byggt á Háamel, á sama tíma og vegurinn var lagður, sem fyrr segir.
Verkstjóri við lagningu Þingvallavegarins var Erlendur Zakaríasson, en hann og bróðir hans Árni, voru þekktir vegaverkstjórar á síðustu áratugum 19. aldar og fram á fyrstu áratugi þeirrar tuttugustu.
Einar Finnsson járnsmiður frá Meðalfelli í Kós hafði lært vegalagningu í Noregi. Hann byggði brúna á Seljaá og ræsin á veginum eru hans handverk. Sigurður Hannesson, bróðir hins kunna landspósts, Hans Hannessonar, hlóð vörðurnar og sæluhúsið. Þessir menn hafa báðir hlaðið sér veglega minnisvarða, sem enn standa að mestu óhreyfðir.
Vörður, brýr, veggir og vegræsi gamla Þingvallavegarins heyra undir listaverk hagleiksmanna og hvort mun það ekki í verkahring komandi kynslóða að vernda þau sem slík um aldur og ævi?
Þegar leið að alþingishátíðinni 1930, var farið að huga að veginum milli Reykjavíkur og Þingvalla. Þá þótti sýnt, að vegurinn myndi ekki bera uppi þá umferð sem ætla mátti að yrði milli þessara höfuðstaða. Því varð að ráði að leggja annan veg um Mosfellsdal og Mosfellsheiði norðanverða. Þeirri vegagerð lauk svo um vorið 1930 áður en hátíðin hófst. Umferð var þá þannig hagað, að frá Reykjavík var farið um nýja veginn um Mosfellsdal, en gamla veginn að austan.
Þegar alþingishátðinni var lokið, var hlutverki gamla Þingvallavegarins líka lokið. Honum var ekki lengur haldið við, þörfin fyrir hann var ekki nein orðin, þar sem nýrri vegurinn var framtíðarleiðin.”

Heimild:
-Safn til sögu Reykjavíkur – Reykjavík, miðstöð þjóðlífs, samgönguleiðir til Reykjavíkur að fornu og nýju, bls. 79-97.

Mosfellsheiði

Gamli Þingvallavegurinn.

 

Þingvallavegur

Í Vísi árið 1928 er fjallað um fyrirhugaðan Nýjan Þingvallaveg: “Eins og kunnugt er, hefir verið ákveðið að leggja nýjan veg yfir Mosfellsheiði fyrir 1930.
thingvallavegur-233— Var byrjað á vegagerð þessari í vor og mun svo til ætlast, að henni verði lokið að hausti. Hefst hinn nýi vegur við túníð á Hraðastöðum eða efst í Mosfellsdalnum, en þangað var áður búið að leggja akbraut. Hefir að vísu verið kvartað um, að akbrautin upp Mosfellsdal væri svo mjó, að bifreiðir gæti tæplega mæst á henni, en sennilega verður hún breikkuð, áður en hinn nýi Þingvallavegur verður tekinn til notkunar. Hin nýja akbraut liggur norðanvert við túnið á Hraðastöðum og þaðan upp hjá svo nefndu Jónsseli, norðan Leirvogsvatns og sunnan Sauðafells. Þaðan er sagt að hún eigi að liggja austur um lágheiði og muni ætlað að sameinast gömlu brautinni nálægt Þrívörðum eða nokkuru austar. Kunnugir menn á þessum slóðum telja, að heppilegra mundi, að brautin lægi norðan Vilborgarkeldu alla leið austur úr og sameinaðist ekki gömlu brautinni fyrri en á milli Torfdals og Móakotsár. Má og vel vera, að sú verði niðurstaðan, er nánari rannsókn hefir fram farið á vegarstæðinu. Þessi nýja leið verður miklu skemtilegri en hinn gamli Mosfellsheiðarvegur, og vafalaust verður nýi vegurinn lengur fær bifreiðum framan af vetri.
thingvallavegur-236En hætt er við, að þessir tveir vegir verði hvergi nærri nægilegir meðan stendur á Alþingishátíðinni 1930. Þess ber að gæta, að vegurinn verður aðeins einn alllangan spöl leiðarinnar, ef til vill alla leið frá Þrívörðum og niður á Þingvöll. En sá vegarspotti er mjór og hefir verið slæmur umferðar alla tíð, þó að alt af er verið að gera við hann. Hann er svo mjór, að bifreiðir geta rétt smogið hver fram hjá annari og þyrfti því allur að breikka, ef vel væri. En það mundi kosta allmikið fé og hins vegar ekki brýn nauðsyn, að hann sé breiðari vegna venjulegrar umferðar. En verði vegurinn ekki breikkaður og honum ætlað að taka við allri bifreiðaumferð til Þingvalla sumarið 1930, má búast við, að þar verði nokkuð þröngt umferðar og seinfarið þjóðhátíðardagana.
— Mundi tæplega mega við það una. Er vonandi, að þessi nauðsynlega samgöngubót verði komin í framkvæmd fyrir Alþingishátíðina.”

Heimild:
-Vísir 29. júlí 1928, bls. 2.

Km-steinn

Km-steinn við Þingvallaveg.

Vilborgarkelda

Svarthöfði skrifaði í Vísi árið 1981 um Nýja og Gamla Þingvallvegina undir fyrirsögninni “Vilborgarkeldan og vegamálin”:
thingvallavegur-230“Þótt enn sé snemmt og sumardagurinn fyrsti ekki alveg kominn, bauð tíðarfarið upp á margvíslegar ferðir um páskana. Flestir munu hafa lagt leið sína um nágrenni Stór-Reykjavíkursvæðisins og látið sig hafa það að aka nokkurn óþarfa í bíl, þótt bensínið sé dýrt. Dýrara á það eftir að verða. Nú er olíutunnan í 32 dollurum, en talið er að hún verði komin í áttatíu dollara árið 1985. Þá mætti ætla að bensínlítrinn hér verði um fimmtán hundruð krónur gamlar. Þýðir lítið í slíku árferði að tala um sparneytna bíla einfaldlega vegna þess að bensin verður ekki kaupandi, hvorki á þau tæki, sem eyða tíu lítrum á hundraðið eða tæki sem eyða tuttugu lítrum.
Miðað við slíka þróun má ætla að svonefnd helgidagakeyrsla falli niður að mestu nema á móti komi mikil lagfæring vega, sem sparar í raun mikið bensín. Þó eru góðir vegir ekki nema hluti af lausn vandans, en engu að síður sú lausn sem við ráðum yfir. Um verðlag á bensíni ráðum við hins vegar engu. Fólk sem býr í þéttbýli og vinnur langan vinnudag, eins og dæmið um rúmlega milljón króna verkamannalaun sýnir, þarf að eiga þess kost að komast út í náttúruna um helgar. Úr þessari þörf hefur verið leyst með ökuferðum austur yfir fjall, eins og það er kallað, kaffidrykkja í Eden og Þingvallahringnum.
thingavallavegur-231Um hundrað þúsund manns búa á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa, og mikill hluti þess mannsafnaðar telur eitt helsta útivistarsvæði sitt vera á Þingvöllum og þar í grennd. Aftur á móti bendir vegalagning til Þingvalla ekki til þess að þar hafi hundrað þúsund manns hagsmuna að gæta. Lengi vel hefur það verið svo, að fé til Þingvallavegar hefur verið falið í vegafé til Suðurlands alls, og hafa þá svonefndir „nauðsynjavegir” verið látnir ganga fyrir. Þess vegna hefur í raun aldrei verið unnið neitt að ráði að lagfæringum á Þingvallavegi nema fyrir Þjóðhátíðir, og hefur það þó orðið að hávaðamáli í hvert sinn. Fyrir Alþingishátíðina 1930 var gerð tilraun til að leggja nýjan veg alla leið til Þingvalla. Nýi vegurinn náði eftir það að Vilborgarkeldu. Síðan hefur ekki verið bætt við hann.
Vilborgarkelda er mýrardrag austast í Mosfellsheiði áður en stefna er tekin beint niður af heiðinni. Á þeirri beygju mættust gamli Mosfellsheiðarvegur og nýi vegurinn 1930. Fyrir þjóðhátíðina 1974 náðu framkvæmdir á Þingvallaleið ekki austur fyrir Vilborgarkeldu heldur, þótt unnið væri að lagfæringu vega á Þingvallasvæðinu sjálfu. Þannig er Vilborgarkelda orðið eitt helsta kennileiti íslenskra vegamála í dag, og að þvl er virðist hreint óyfirstíganleg kelda. Ætti raunar að reisa af henni lóðrétt minnismerki, svona eins og „acupuncture” kríuna um hann Ragnar í Mundakoti, sem reist var við Eyrarbakka á dögunum. Ekki er við þvi að búast að Þingvallavegur komist í lag áður en bensínlítrinn fer í fimmtán hundruð krónur. Þó gæti það skeð ef bæjarfélög á þéttbýlissvæðum við Faxaflóa gripu inn i málið og segðu sem svo: Þingvellir eru okkar útivistarsvæði og þess vegna leggjum við í sameiningu varanlegan veg þangað, þó gegn því skilyrði að ríkið leggi varanlegan veg frá Þingvöllum og um Sog niður á Grímsnesveg. Þannig mætti með sameiginlegu átaki flýta fyrir vegarlagningu á þessari vinsælu og fjölförnu sumarleið, og komast fram úr Vilborgarkeldunni, þar sem framkvæmdir hafa setið fastar síðan sumarið 1930.
Enginn veit lengur hver þessi Vilborg [Þorgerður] hefur verið. En þetta hefur að líkindum verið ein herjans kerling, fyrst kelda hennar hefur orðið slíkur farartálmi á leiðinni austur á gamla þingstaðinn. – Svarthöfði.”

Heimild:
-Vísir 21. apríl 1981, bls. 31.

Þingvallavegur

Mílusteinn við gömlu Þingvallaleiðina.

Öxarárfoss

Í Eimreiðinni árið 1922 er grein eftir Dr. Louis Westerna Sambon um Þingvallaför hans:

Dr. Louis Westenra Sambon fæddist á Ítalíu (1871?), af frönskum, ítölskum, enskum og dönskum ættum. Faðir hans var franskur í föðurætt, en ítalskur í móðurætt. Móðir hans var ensk, skyld skáldinu Charles Dickens og komin af hinum fræga danska siglingamanni, Vitus Bering. Faðir hans, er barðist sem fríliði í her Qaribaldi, var frægur fornfræðingur, einkum myntfræðingur.
Louis lést 30. águst 1931 (63 ára).

“Þriðjudag 28. júní. — Klukkan rúmlega níu, leggur löng bifreiðalest af stað úr Reykjavík til Þingvalla með konungsfólkið og um hundrað gesti. Meðal gestanna eru yfirvöldin á staðnum, prófessorar háskólans og allmargir blaðamenn.

Louis Westenra Sambon

Þingvallavegurinn er vel kunnur. Hann liggur til suðausturs um ófrjótt og grýtt ölduland, yfir Elliðaárnar, fræga laxelfi, rétt ofan við ósana, stígur svo smámsaman í tvö hundruð og tuttugu feta hæð yfir sjávarmál, liggur um vesturbakka Rauðavatns og þaðan nálega samhliða Hólmsá upp að Geithálsi. Hólmsá rennur í Elliðaárnar og líður í bragðfögrum bugðum fram með Rauðhólum, þyrpingu rauðra og svartra smágíga, er minna á forngrísk skapker, steind rauðum og svörtum myndum. Þessa stundina speglar Hólmsá algrátt loftið og er sem gjörð úr skygðu stáli um hraunhólana. Allt er svæðið skolbrúnt eða hnotbrúnt yfirlits, með óreglulegum flekkjum hér og þar af rauðbrúnu gjallkenndu hrauni og grænleitum engjum, drifnum ótali frostalinna þúfna. Í þúfunum eru hvítar, mórauðar og svartar kindur í ró að kroppa hýjunginn. Kringum hina strjálu bæi eru skýrt afmarkaðar, fagurgrænar flatir. Það eru túnin, sem gefa af sér töðuna, vetrarfóðrið handa kúnum. Alt hitt er grjót, hrúgald af hraunhellum og -molum á víð og dreif, af hvers konar stærð og lögun. Átakanlega ófrjótt, grátt og eyðilegt, og þó er þessi grjótauðn svipmikil og full af fegurð. Klettarnir eru ýmist flekkóttir af skófum eða í mosareifi. Á milli steinanna og í hraungjótunum vaxa burknar og blómjurtir. Stór svæði eru þakin lágvöxnu, silfruðu birki- og víðikjarri svo þjettu sem þófi væri, eða purpurábreiðu af sauðamerg (Loiseleuria poocumbens). Túnið þakið sóleyjum glóir sem gullþynna. Stórir skúfar af rjómalitum rósum — hinum elskulegu holtasóleyjum (Dryas octopetala), skína í svartri umgerð veðurbitinna kletta: Á víð og dreif um ömurlegustu auðnir glitra smaragðlifar mosalegar þúfur af lambagrasi, settar rúbínrauðum stjörnum. Þessar blómperlur eru gleðin síunga. Á vinstri hönd er Esjan, verndarvættur Reykjavíkur, mikið fjall krýnt björtum skýjabólstrum; hlíðarnar eru með fönnum, sóldílum og skýjaskuggum. Framundan rísa þrír tindar úr mistrinu. Það eru Móskarðshnúkar og Skálafell og líta út sem vofur í snjóhempunum.

Louis Westerba Sambon

Louis Westenra Sambon á Íslandi.

Við Geitháls skiftist vegurinn í tvær álmur. Vér förum þar til vinstri, í norð-austlæga stefnu, og komum nú brátt inn á milli margra smávatna og tjarna. Við Krókatjörn komum vér auga á bifreiðalestina okkar löngu, fulla af prúðbúnum körlum og konum, háværum og glaðværum. Vér förum fram hjá tveimur biluðum bifreiðum og tökum strandaðan farþega: Það var vitamálastjórinn.
Vér erum nú á heljarvíðu hringsviði. Veggir og sæti eru fjöll, áhorfendur ský, leikvöllurinn hraunbreiða, skylmingamennirnir hundraðhentir risar, og munda sumir logasverð, en sumir í ísbrynjum. Blýgrátt og drungalegt loftið dregur mjög úr litunum á landinu. Mest ber á dökkgráum og dumbungslitum. En hvað þetta litskrúðsleysi er þó áhrifamikið þrátt fyrir allt! Með höfuðskeljastaðinn Skálafell frammi fyrir oss og regnskýin yfir höfðum vorum, minnumst vér »Krossfestingarinnar« eftir Vandyke og »Syndaflóðsins« eftir Poussin, tveggja meistaraverka þar sem grálitunum hefir verið beitt af mikilli snild. Í bröttum hlíðum og gljúfrum fjallanna liggja fannir og breðar, ömurlega ataðir eldfjallaösku.

Konungsvegur

Vér erum nú að fara upp Mosfellsheiði, sem er víðáttumikil auðn, yfirlits eins og grjótnáma og öll úr gjallmylsnu og hraungrjóti í kynlegustu myndum. Klettarnir eru flekkóttir af krabbalegum skófum, hvítum, svörtum, bronsgrænum, dúfulitum, og alstaðar eru, eins og njarðarvettir á kóralrifi, mjúkir grænir koddar af lambagrasi, þar sem urmull af purpurarauðum blómum glóir eins og hin stjörnumynduðu dýr á kóralgrein. Sauðfé er einkennilega sólgið í þessa jurt. Meira að segja fór svo, að þegar nokkrar kindur voru fluttar til einnar af Farne-eyjunum, þá varð það til þess að fálkapungurinn (Silene maritima), náskyld tegund, varð nálega upprætt þar, og höfðu þó hinar grænu og ljósrauðu breiður hans lengi verið einkennileg prýði á eynni.
Hér um bil miðja vega á heiðinni nemum vér staðar við tvö stór tjöld, er þar höfðu verið reist, og förum úr vögnunum til að fá oss hressingu. Ég tek í höndina á franska ræðismanninum, borgarstjóranum í Reykjavík, rektor háskólans, landlækninum, og er nafngreindur fyrir öðrum gestum. Konungurinn gengur um og býður kvenfólkinu Dourneville súkkulað. Hann heilsar mér á frönsku og gefur mér það seinasta af sælgætinu. Ég sting því í vasa minn hjá kæru bréfi, rituðu í flýti, og getur verið að bréfritarinn fái að flytja hin konunglegu sætindi úr purpurapappírnum og silfurþynnunni að rauðum vörum og perlutönnum.

Þingvallavegur

Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Vér erum nú að fara upp Mosfellsheiði, sem er víðáttumikil auðn, yfirlits eins og grjótnáma og öll úr gjallmylsnu og hraungrjóti í kynlegustu myndum. Klettarnir eru flekkóttir af krabbalegum skófum, hvítum, svörtum, bronsgrænum, dúfulitum, og alstaðar eru, eins og njarðarvettir á kóralrifi, mjúkir grænir koddar af lambagrasi, þar sem urmull af purpurarauðum blómum glóir eins og hin stjörnumynduðu dýr á kóralgrein. Sauðfé er einkennilega sólgið í þessa jurt. Meira að segja fór svo, að þegar nokkrar kindur voru fluttar til einnar af Farne-eyjunum, þá varð það til þess að fálkapungurinn (Silene maritima), náskyld tegund, varð nálega upprætt þar, og höfðu þó hinar grænu og ljósrauðu breiður hans lengi verið einkennileg prýði á eynni.
Hér um bil miðja vega á heiðinni nemum vér staðar við tvö stór tjöld, er þar höfðu verið reist, og förum úr vögnunum til að fá oss hressingu. Ég tek í höndina á franska ræðismanninum, borgarstjóranum í Reykjavík, rektor háskólans, landlækninum, og er nafngreindur fyrir öðrum gestum. Konungurinn gengur um og býður kvenfólkinu Dourneville súkkulað. Hann heilsar mér á frönsku og gefur mér það seinasta af sælgætinu. Ég sting því í vasa minn hjá kæru bréfi, rituðu í flýti, og getur verið að bréfritarinn fái að flytja hin konunglegu sætindi úr purpurapappírnum og silfurþynnunni að rauðum vörum og perlutönnum.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – ræsi.

Vér hverfum aftur til vagnanna og ökum áfram yfir eyðilega og tilbreytingarlausa heiðina. Ömurleikinn alt umhverfis er ógurlegur; þögnin er sem farg; ekkert hreyfist í hrauninu; ekkert bærist í loftinu, ekkert heyrist nema vagnahljóðið og skraf og hlátur samferðamannanna; og þó ber sjónarsviðið von um æðistryltan orraleik: haf í uppnámi storknað í stein, and í flogateygjum fyrir einhverju ógnarafli. Væri ekki víðáttan; gæti þessi grjótauðn vel verið mynd af þeirri stundu opunarinnar þegar óskapnaðurinn var að taka á sig lögun heimsins okkar, höggvin í basalt af voldugum hamri Einars Jónssonar.
Meðfram veginum á hægri hönd hafa stórar steinvörður verið reistar, til að vísa ferðamönnum veg, þegar landið er undir snjó. Aflangur steinn skagar út úr vörðunni ofanverðri og bendir á veginn. Mér er sagt að hrafnar, sem nú eru farnir til að boða komu konungsins, sitji altaf á þessum fingravörðum, og fari hin prestlega fjaðrahempa þeirra vel við svartar vörðurnar. Þarna sitja þeir, blaka vængjum, krunka, gala og bomsa. Heimildarmaður minn segir: »Þeir virðast altaf vera rétt komnir að því að vitna í ritninguna«. Honum skjátlast: Þessir »ljótu, leiðu, myrku, mögru, mösknu-fuglar eða djöflar« hafa altaf hugann á holdlegum efnum og eru að harma fornar hryðjualdir vígamanna og ræningja, þegar nóg var af manna- og nautaslátri. Það er því ekki furða þó viðkvæði þeirra sé: »Aldrei, aldrei meir!«

Þingvallavegur

Brú á gamla Þingvallaveginum.

Vér erum nú komnir á heiðina þar sem hún er hæst (1222 fet yfir sjávarmál) og veginum fer að halla ofan í móti. Útsýnið fram undan er ljómandi, því að nú er að birta yfir. Umhverfis eru öldumynduð bláfjöll, með smágerðum snjóhniplingum. Hæsti tindur í sólfáðri fjallaröðinni á hægri hlið vora, eru hinar snæviþöktu Súlur, 3571 fet yfir sjávarflöt. Sum fjöllin til vinstri handar, ljósgul að lit, eru stórir líparítpýramídar.
Vér förum fram hjá dálitlu steinskýli (sæluhúsi), þar sem ferðamenn, þegar snögglega brestur á, geta leitað sér hælis og fundið ekki aðeins skýli, heldur og eldsneyti, vatn og fæði að því er mér er sagt. Margur kaldur, þreyttur, fannbarinn ferðalangur hefir átt þessum sæluhúsum lífið að launa. Þó hefir það borið við, að menn hafa fundist helfrosnir innan veggja þeirra, er þeir náðu þangað of seint og voru orðnir of dasaðir og sljóvir til að færa sér hressingu og eldsneyti í nyt; aðrir, er voru að ná sér, og þó enn með óráði, þóttust heyra marra í snjónum undan hestum, er væru að skjögra að kofanum, og hottið í aðframkomnum mönnum, hásum af kulda og þreytu. Sumir hafa séð menn, sem ekki voru þarna. Magnaðar draugasögur eru til um það, að í grenjandi blindösku byljum, sem hverjum manni er ólíft úti í, komi stundum náfölar vofur ríðandi að sæluhúsi, til að nema þaðan hvern þann, er þar kynni að hafa leitað skjóls, en gleymt guði sínum:

Hann sendir orð sitt til jarðar,
boö hans hleypur með hraða.
Hann gefur snjó eins og ull,
stráir út hrími sem ösku.
Hann sendir hagl sitt sem brauðmola;
hver fær sfaðist frost hans?
Sálm. 47., 15.—17. v.

Konungsvegur

Sæluhúsið við Þingvallaveginn á Mosfellsheiði.

Þegar lengra kemur, förum vér fram hjá smátjörnum nokkurum, og komum nú sem snöggvast auga á blett af Þingvallavatni, eins og í hillingu, mjóa rák af skínandi safírbláma. Þungbrýndu ólundarskýin, sem sátu á fjallatindunum, hafa hjaðnað burt, aðeins fáeinir dúnmjúkir skýjahnoðrar svífa um silkifölblátt loftið, niður við sjóndeildarhringinn, og gætu vel sýnst svanir á flugi. Bláminn er dýpri uppi í hvolfinu, en vatnsbláminn er sterkari og gagnsærri, skærari en himinbláminn. Það er dásamlegur blámi, sem ekki verður með orðum lýst.
Bifreiðarnar okkar þeysa nú eftir veginum, hver rétt á eftir annari, sem færi þar eimlest með fullhraða, og þyrla upp gulum rykmökkum. Vér förum fram hjá hóp söðlaðra hesta, er standa við veginn. Á tveimur eru kvensöðlar með purpurarauðu silkiflossæti og söðulboga. Vér förum fram úr mörgum fótgöngumönnum og hjólamönnum, sem allir eru á leinni til Þingvalla. Vatnið kemur aftur í augsýn, hinn laðandi bláflötur þess ljómar í sólskininu eins og biflaust, seiðandi afarauga. Lækur með sama fágæta blámanum, Torfdalslækurinn, rennur sína leið á vinstri hönd við oss. Hver minsta gára er fagurbláma safíra. En hve fjöllin handan við vatnið skýr og sýnast nærri, séð gegnum undurskært loftið! Hver gróf og geiri sést, svo skýrt sem í sjónauka væri. Mógulur vegurinn liggur í bugðum, eins og snákur á snarferð.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – brú.

Vér brunum yfir rauðmálaða trjábrú. Stúlknahópur hrópar »húrra« fyrir oss, um leið og vér förum fram hjá. Tuttugu og tveir vagnar þeysa á undan oss og stórir rykmekkir þyrlast upp hægra megin við oss. Vér förum yfir aðra brú, yfir Móakotsá, sem rennur úr Drykkjartjörn. Fjöldi hrossa er á beit í þúfunum til hægri handar, og stara þau á oss stórum augum. Vér þjótum áfram og yfir þriðju brúna, móts við Kárastaðabæinn. Túnið þar líkist austrænum gullofnum dúk, ljósgrænt grasið ofið sóleyjagulli. Það líður aftur fyrir oss, eins og töfraábreiða. Hraðskriður vagnanna, indælt landslagið, dýrðlegt sólskinið, fjörgar oss, vér skröfum kátir við samferðamennina og vagnarnir bruna hraðar og hraðar, geysast áfram í rykstormi.
Alt í einu breytir vegurinn um stefnu, vagnarnir taka snögga sveiflu, vér hverfum inn í gapandi ginið á gjá og vitum naumast af fyrr en vér erum komnir miðja vegu ofan í kok á ferlíkinu. En augað greinir margt í einu bragði. Vér sjáum hina miklu stuðlabergsveggi, skuggann á milli, snarbrattann, sólfagra sléttuna niður undan, fagnandi mannfjöldann í þyrpingu við innganginn, nýreistan boga með þrílitum fánum og bláum skildi og skarlatsrautt klæði, strengt þversum, og á það letrað stórum stöfum, ekki »Lasciate ogni speranza« hans Dante, heldur hjartanleg heillakveðja til konungs og drotningar.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – brú yfir Öxará.

Vér ökum ofan eftir, yfir járnbrú, sem Öxará þrumar undir á leið sinni til vatnsins, komum ofan á opna völlu og nemum loks staðar framundan palli, er fánar blakta yfir og reistur hefir verið dagsins vegna. Gjá sú hin mikla, er vér fórum um, er Almannagjá og heitir svo fyrir þá sök, að í lok júnímánaðar ár hvert, streymdu þúsundir ríðandi manna úr öllum héruðum Íslands niður einstigið undir hamrinum bratta, ofan á völluna, til að vera á hálfsmánaðar þingi, kaupstefnu og íþróttamóti, sem haldið var á Þingvöllum.
Almannagjá er eitt af Íslands mörgu furðuverkum. Hún myndast annarsvegar af þverhníptum hamravegg, full 100 fet á hæð, og endar þar hraunsléttan, er vér fórum yfir, og hins vegar af klettagarði, tuttugu álnir frá, og talsvert lægri, er hallast aftur eins og framhlið hans togaði í hann um leið og hún bugast niður á hraunsléttuna, fimm rasta breiða. Austurjaðar þessarar hraunsléttu endar í samsvarandi gjá — Hrafnagjá, sem að vísu er minni, en engu að síður prýðileg.

Almannagjá

Almannagjá 1862 – málað af Bayard Taylor, 1862.

Almannagjá er nokkrar rastir á lengd og liggur frá norðaustri til suðvesturs. Má rekja hana frá Ármannsfelli niður fyrir Þingvelli, meðfram vesturströnd Þingvallavatns. Botninn er sem í virkisgröf og stráður stórum stuðlabjörgum, er fallið hafa úr veggjunum beggja megin; annars er hann grasivaxinn, nema á svo sem sex hundruð álna svæði, sem Öxará freyðir um á leið sinni til vatnsins.
Hið sokkna hraunsvæði, er takmarkast af gjánum tveimur, — Almannagjá og Hrafnagjá — nær frá eldfjallinu Skjaldbreið að Hengli, og hallast frá norðaustri til suðvesturs, lækkar undir vatnið og myndar botn þess. Fyrir mörgum öldum, lá þessi langa hraunbreiða jafnhátt hásléttunni umhverfis, en einhver voðaveila, sem líklega hefir komið af því, að vatnsrensli neðanjarðar gróf undan, varð til þess, að hún rifnaði um jaðrana og sökk þangað sem hún er nú, skekin sundur í hreinasta tíglagólf, úr óreglulegum brotum, með rifum og glufum á milli.

Þingvallavatn

Þingvallavatn.

Og hér er Þingvallavatn, bláast vatna, og horfir skygðum kristalsfletinum til himins, eins og það segði: »Ertu alveg eins blár?« En himininn er ekki eins blár, né heldur hafið með andstæðugulum dílum sargassoþangsins, og ekki gulldröfnóttur blámasteinninn, né heldur kornblómið á akrinum. Og þó kannast ég við þennan skínandi heiðbláma. Ég hefi séð hann í Bláa hellinum á Capri, á fjaðraskrauti ísfugla, páfagauka og blárra paradísarfugla, á vængjum stóru bláfiðrildanna í Brasilíuskógum, í brosandi augum drengsins míns.
Líttu á þetta undursamlega vatn í brúnni hraunskálinni, með ýmislega grænum rákum á grynningum og rifjum meðfram ströndinni; eru dröfnurnar á páfuglsfjöðrum eins fagurbláar? Líttu á það, þegar sólin skín sem glaðast og það logar eins og blátt bál, hefir nokkur safír nokkurn tíma ljómað svo?
Þvílíkur töfrablámi! Hvað hann gleður og heillar! Frá mér numinn af aðdáun, hreifur af litadýrðinni, finst mér ég verði, eins og Glákus forðum, að sökkva mér í þennan bráðna hlákristall.

Þingvallavatn

Þingvallavatn.

Þingvallavatn er í lögun sem hálfmáni, 16 rasta langt og 5-8 rasta breitt. Dýptin er frá grynningum að 60 föðmum. Upp úr því nálega miðju, rísa tveir eyhnúkar, með eldgígum, svartir og ófrjóir. Það eru Sandey og Nesjaey. Þar verpir svartbakur. Ýmsir höfðar ganga út í vatnið frá norður-, austur-, suður- og vesturströnd þess, eins og spælabrot í brotnu hjóli. Norðan að vatninu liggur endinn á hraunbreiðunni milli gjánna, í mosareifi, og Öxarársandur, að vestan sprungin brún hásléttunnar, að austan og sunnan brött fjöll: Arnarfell, Miðfell, Búrfell, Hengill — nú í tígulegum purpuraskikkjum. Úr mynni á suðausturenda vatnsins rennur Sogið sem slanga, er sýgur vatn þess, eins og nafnið bendir til. Ekkert segl sést á hinu friðsæla vatni, ekkert gárar flöt þess, nema fiskar sem vaka.
Vatnið er fult af silungi, bleikju og urriða, og er það einmitt fiskur á konungsborð. Fiskurinn af urriðanum er rósrauður, en af bleikjunni með lítið eitt rauðgulum blæ, hvortveggja bráðfeitur og óviðjafnanlega bragðgóður. Annar meðlimur uggaþjóðarinnar er þarna líka: hið herskáa hornsíli (Qasterosteus), ofurlítill velsporaður vígabarði vatnspyttanna, er gerir hreiður með handstúkulagi, af engu minni list en vefarafuglinn, og gætir eggja og unga ræktarlausra og ómóðurlegra maka sinna, með trú og dygð fram í rauðan dauðann. Hreiður hornsílisins er gert úr smágervum jurtatægjum, tengdum saman með sterkum silkiþræði, er myndast í nýrunum og kemur frá blöðrunni, þegar hornsílið er fullþroska og hinn hugrakki litli riddari kemur til burtreiðar í ljómandi purpuralitum brúðkaupsklæðum.

Nikulásargjá

Nikurlásagjá.

Þarna eru ýmsar tegundir af vatnabobbum af Limnaea-, Pisidiutn- og Lepidurus- kyni og lirfur og púpur margra vatnaskordýra. Gnótt er af reki og er það einkum smákrabbadýr (Daphnia, Diaptomus, Cvelops), hjóldýr (Rotifera) og fáeinar tegundir af kísilþörungum (Melosirae, Asterionella o.s.frv.), Af augljósum vatnaplöntum skal eg að eins nefna Rivularia cylindrica, blágrænan þörung með löngum svipu-líkum þráðum og tvær stórar grænþörungategundir, Chara og Nitella sem vaxa á fimtíu til níutíu feta dýpi. Fjöldi fugla: sefandir, lómar, sendlingar, maríuerlur, tjaldar, andir, gæsir, máfar, trönur, hegrar og svanir, lifa á því, eða á ströndum þess, eða fljúga yfir ljómandi safírbláan flötinn, og með þeim svífur andi fegurðarinnar, því að hvar getur indælli sjón?

Flosagjá

Flosagjá.

Þingvallasléttan með vatninu, ánni og hamraveggnum minnir mig á svæðið kringum Avernus vatnið, þar sem Virgill setti hlið undirheima, og reyndar eru hér Elysium-vellir og Tartarusklettar hlið við hlið eins og á Phlegra-sléttunni í Campania Felix. Mikla undra kviðu mætti yrkja út af Þingvallavatni. Þúsundir manna í hátíðabúningi — konurnar prúðbúnar eins og blóm — hafa safnast í hópum á víð og dreif, sumir standa og sumir sitja, í grasgrónum brekkunum niður af austurvegg Almannngjár. Álengdar eru þessar brekkur með mannþyrpingunum til að sjá eins og persneskar flosábreiður, sem af ásettu ráði eru með óreglulegum myndum og litum til að bægja á braut illu augnaráði og heilla til sín hamingjuna.
Þegar vér komum inn á sléttuna, leikur hornaflokkur þjóðsönginn, karlaflokkur syngur og mannfjöldinn lýstur upp fagnaðarópi og klappar hrifinn höndum. Hinir miklu stuðlabergsveggir endurkveða og magna þessi fjölbreyttu hljóð og margfalt bergmál hljómar frá gjá til gjár, frá fjalli til fjalls, yfir sléttuna og vatnið og aftur til baka, safnast í volduga velkomanda kveðju til konungs og drottningar.

Flosagjá

Tært vatnið í Flosagjá.

Vér stöndum nú á helgum stað, á stað sem er vígður sögu og sögnum. Gjáin mikla, hraunsléttan, hin streymandi á, heiðblátt vatnið eru minjar frægrar fortíðar og yfir þeim skín sem forðum hin dýrðlega sól. En hvað það er ósamræmilegt að sjá rétt hjá Lögbergi gistihús, sem með goðgá kallast »Valhöll«, og niður undan Öxarárfossi timburhús með rauðu þaki fyrir konunginn, nauðalíkt leikfangi sniðnu eftir örkinni hans Nóa. Hvað það á undarlega illa við að sjá bifreiðaröðina löngu öðru megin vegarins og þessar mörgu stikur af baðmullardúk skornar niður í smáfána og veifur, sem blakta í blænum og rjúfa samræmi náttúrunnar með prjáli ósamstæðra lita.

Konungskoman

Fólk í tjöldum á Þingvöllum 1907 – danskir sjóliðar.

Rúmlega sextíu tjöld hafa verið reist út um vellina og fólkið þyrpist um þau eins og býflugnasveimur. Stúlkurnar, á sullbaldíruðum bolum, glitra í sólskininu eins og frjórykaður rósatordýfill, en tveir konungsþjónar skoppa um í skarlatsrauðum maríuhænu einkennisbúningi og gefa hinu kvika sjónarspili bjartari blæ. Um leið og ég geng yfir veginn kemur bifreið, sem seinkað hefir, þjótandi ofan á vellina og á eftir henni ríðandi menn, lausir hestar og hestar undir klyfjum, alt Skundar ofan gjána og glamrar margvíslega í, eins og trjásöngva þreytti þar sinn glamurkliðandi kveldsöng.
Vér etum dögurð á gistihúsinu. Þar hefir rétthyrndu vegtjaldi verið aukið við hinn venjulega borðsal til að koma gestafjöldanum fyrir, og liggja tjalddyrnar fram í salinn og ekki minsta smuga til loftræsingar. Hinn ljúffengi rósrauði Þingvallasilungur með «mayonnaise«-sós og agurka-salati, er indæll, jafnvel þó honum sé ekki skolað niður með sólskinsvökva frá Burgund, Rínlöndum eða Campagne, en hitinn inni í tjaldinu er afaróþægilegur. Vér hlustum á Matthías Þórðarson, hinn lærða vörð Þjóðmenjasafnsins í Reykjavík. Hann býður konung og drottningu velkomin og talar um forna frægð Þingvalla á dögum lýðveldisins. Vér hlustum á hann með athygli þrátt fyrir það, þó hitinn stigi í líkbrennslutjaldi voru og líkurnar fyrir því, að «Valhöll« verði að sannri valhöll fyrir hetjur þær, er nú sitja að veislu innan veggja hennar. Flestir félagar mínir eiga eflaust þennan heiður skilinn, en ég held nú samt, að frestur væri ekki illa þeginn, þar sem við eigum eftir að sjá Geysi. »Til þess að okkur líði vel«, segir sessunautur minn til hægri hliðar, »þyrftum við að fara úr holdinu og sitja í beinunum einum«. »Það væri ekki til neins«, svaraði ég, »við yrðum undir eins að bruðningi«.
Það er gott að koma út og fylla lungun hreinu lofti himinsins. Þarna andspænis oss, er vér horfum í norðvestur, fellur hinn svali, ólgandi, freyðandi straumur Öxarár ofan í gjána eins og mjöður í mundað horn. Hærra, fimm röstum norðar, rísa demantstindar Súlnanna á ameþýst grunni. Nær, til hægri handar, stendur Ármannsfell, nálega snjólaust og purpuragrátt. Að lögun hefir því verið líkt við dalaðan hjálm.
Lengra burtu og austar liggur stór snæþakin eldfjallshvelfing. Það er Skjaldbreið. Það er trú manna að þessi fjöll séu jötunhlífar á dreif; hjálmur og skjöldur Ármanns, írsks risa, sem sagt er að hvíli undir Ármannsfelli og sé þar haugur hans.

Konungsvegur

Konungur og föruneyti á Þingvöllum.

Margt fólk er að klifra upp á austurbarm Almannagjár til að sjá fossinn nær. Ég fer á eftir þeim og klifra upp klettabrekkuna, sem er að nokkru vaxin grasi, birkikjarri, mosa og steinbrjótum, uns ég næ upp á austurbarminn. Hér hitti ég suma af »Gullfoss«-vinum mínum og með þeim fer eg ofan í gjána. Fossinn er ljómandi! Á rás sinni yfir móinn kemur Öxará allt í einu á brún hengiflugsins, og eins og jagúar stekkur á tapírahjörð, hendist hún á svipstundu, dunandi og freyðandi á dökkgrá stuðlabjörg, er liggja í þyrpingu í og í kringum djúpan hyl við rætur bergsins. Á slíkum stað mætti búast við að mæta dýrunum ógurlegu, er vörnuðu Dante vegarins í myrkviðinum forðum, jagúarnum, ljóninu og úlfynjunni mögru. Og þarna eru þau reyndar! steypast öll saman ofan í einu bræði-froðu-kófi: snjóhvíti hlébarðinn að norðan, sandlita ljónið og vefrarvaður blágrárra úlfa, sem vel má vera að einhverntíma hafi verið flokkur guðlausra manna. Líttu á þau þegar þau koma á brúnina; þau virðast nema staðar sem snöggvast og geysast svo fram í tryltum vígamóð. Hlustaðu á! Þau urra, ýlfra, hvæsa, frísa, öskra og drynja ógurlega. Má ekki, þar sem æðandi flóðið skellur í stórgrýtisurðina fyrir neðan, sjá voðastökkið, heljarhramminn, sem lýstur banahögg, leiftrið í logandi augunum, skína í hvítar vígtennurnar, glampa á mislitan hrygg og froðuhvítan kvið? Hve það er undarlegt, þetta samband forms- og litarfegurðar og æðistrylts eðlis, tignar og grimdar, mjúkleiks og þokka og óbifandi eyðingarfýsnar.

Þingvellir

Öxarárfoss.

En Öxará verður naumast með orðum lýst, þar sem hún hendist í gagnsæjum kristallsdyngjum ofan í gjána. Og lítið nú á hana þar sem hún rennur ofan gjána milli hinna háu hamraveggja. Hún freyðir, niðar og dunar yfir stórgrýtisbjörgin og milli þeirra. Feldurinn hennar fagurhvíti er allur með svörtum flekkjum. Þar sem hún finnur hlið í lægri hamravegginn tekur hún enn eitt stökk með háum dyn, nálgast svo vatnið, teygir úr sér endilangri á flötum söndunum og mókir suðandi og malandi eins og kátur og fullur köttur.

Þingvellir

Þingvallafundurinn 1907.

Á stórum votum steini rétt neðan við fossinn sé ég frú Björnsson, er starir inn í leiftrandi augu gnýjandans. Hún minnir á konur, er verða frægar fyrir það að temja villidýr og standa óskelfdar hjá strókum af ljónum, tígrum og jagúörum, en regnbogalitur úði skýst til og sleikir hendur hennar og andlit góðlátlega eins og lébarðahvolpur.

Ég klifrast upp fyrir fossinn og gefur mér þar góða fuglsýn af dalnum milli gjánna og vatninu í fangi hans. Það minnir mig á japönsku skjaldbökuna, sem segir af í þjóðsögum og var með ljómandi páfuglsstéli, því að hinn þurri hluti sokknu hraunsléttunnar, allur skoraður sundur í plötur eða skildi af ýmsri stærð og lögun, bendir á að þetta sé skjöldur af risavaxinni skjaldböku, en vatnið sýnir grænt og gullið og blátt stélið, breitt út sem prúðlegast. Hraunbreiðan fyrir fótum mér er grágrænflekkótt. Náttúran hefir klætt hið rifna og molnaða yfirborð mosaþembu, lyngi og birkikjarri. Á miðri þessari hraunsléttu glitrar fagurgrænt túnið í Skógarkoti, eins og landbrot í eyðimörku. Annað tún lengra norður heitir Hrauntún.
Við endann á vatninu, nálægt Öxarármynni, stendur hin litla timburkirkja Þingvalla, með kirkjugarðinn, prestsetrið og túnið umhverfis. Vegurinn heim að kirkjunni er nú svartur af mannfjölda; eflaust er konungurinn þar að skoða gamla predikunarstólinn og altaristöfluna, eða hinn fræga lögkvarða Íslands, sem er einsteinungur skoraður djúpt á austurhlið.
Ég fer ofan á sléttuna til þess að komast aftur í konungsfylgdina og skoða hið tröllslega tíglaverk, sem myndaði gólfið á hinum forna þingstað. Hér má fylgja gjám og glufum langa leið undir skærum vatnsfletinum. Alt hið sokkna svæði er því líkast sem það væri jötunheima steingrind, er hallaðist hálfsokkin í jökulvatnið, sem streymir frá Langjökli, seitlar undir Skjaldbreiðarhraun, fyllir vatnsskálina og rennur svo um Sog og Ölfusá út í Atlantshaf.
Þingvellir
Þegar vér komum á Geysisveginn, mætum vér konunginum, er kemur frá kirkjunni, og nemum staðar til að skoða staðinn, þar sem dómar fóru fram í fornöld. Það er hraunrimi, þrjúhundruð álnir á lengd og tuttugu til sextíu á breidd, og nálega umluktur sem tangi af tveimur djúpum gjám, Flosagjá að vestan og Nikulásargjá að austan, er renna saman við norðurendann með tónkvíslar móti. Gjárnar eru frá átján til fjörutíu fet á breidd og fimmtíu fet á dýpt ofan að djúpu vatni, sem í þeim er. Nikulásargjá var svo nefnd 1742, er Nikulás nokkur sýslumaður, er flæktur var mjög í málaferli, drekkti sér í gjánni; hin dregur nafn sitt af Flosa, söguhetju, er stökk skyndilega yfir gjána og komst þann veg undan. Milli þessara tveggja gjáa er grasi gróinn hjalli, þar sem sakamenn voru reyndir, og yrðu þeir sannir að sök, voru þeir teknir þar samstundis af lífi. Á þessum Tarpejukletti voru lagaverðirnir öruggir fyrir afskiftum annara. Leiðin þangað var af náttúrunnar hendi svo mjó, að auðvelt var að verja. Efst á þessum kletti situr nú hinn sérstaki konungsmálari, hávaxinn, fríður og góðlegur Dani og dregur mynd af útsjóninni yfir vatnið, aðdáanlega vel og fimlega.

Þingvellir

Þingvallabærinn 1900.

Af brúnni yfir Nikulásargjá horfum vér ofan í gjána. Vatnið er svo furðulega tært, að smæstu hlutir sjást skýrt á miklu dýpi. Fjöldi silfurpeninga, er menn hafa leikið sér að að kasta í vatnið, liggja þar á mosa- eða þang-koddum, og sýnast stærri, bjartari og nær gegnum kristallstært vatnið. Þetta stækkunarmagn vatnsins hefir lengi verið kunnugt, Seneca segir í sínum Quaestiones náturales, þar sem hann er að skýra það hvernig regnboginn kemur fram: »Hver hlutur sýnist miklu stærri þegar menn sjá hann í gegnum vatn«, og Macrobius segir oss, að rómverskir veitingamenn á hans dögum voru vanir að setja við veitingahúsdyrnar hjá sér egg, grænmeti og ávexti í glerkerum fullum af vatni, svo að matvæli þeirra virtust stærri og girnilegri en þau voru í raun og veru. En vatnið í þessum gjám er merkilegt, ekki svo mjög íyrir það hve algerlega tært það er og hve mikið það stækkar, sem fyrir hitt hve geysifagrir og breytilegir litir þess eru. Horfið beint ofan í vatnið, og þér munuð sjá það fagurlega grænt með blæbrigðum frá malakít og smaragð yfir í dökkasta brons, þó að það þegar dýpra kemur, sé nálega bleksvart. Horfið nú á það á ská, og það verður himinblátt, heiðblátt, rússablátt eða sterkblátt, en yfir bæði græna og bláa litnum leika glampar af purpura, fjólubláu og gulli eins og slást í kristallsstrendingum, skelplötu og sápubólum. Þessir löngu vatnsálar í djúpri og þröngri hamragjánni eru því tilsýndar sem regnbogaslöngur, er teygja úr sínum ljómandi, bragandi “Ugðum”, eða eins og bláir og grænir purpuraroðnir hátsar á Páfuglum á Ceylon eða í Birma.

Þingvellir

Konungsfylgdin fer frá Þingvöllum 1907.

Þetta skæra vatn, logandi eins og eldur, kalt sem ísinn, líður svo mjúklega milli stuðlabergsveggjanna, að ætla mætti að það stæði kyrt, ef ekki væru þaraþræðirnir, sem teygjast í áttina sem það rennur í. Frá neðanjarðaræðum streymir þessi töfrakristall fullur af dásamlegri fegurð, skrýddur vökvasilki og gimsteinagliti. Hann hrífur hvert hjarta með alsigrandi töfrum ljóss og ljóma, hverfur um djúpar, ósýnilegar æðar og rennur að lokum út í bláa vatnið mikla. Að vatnið í gjánum stendur í sambandi við stöðuvatnið, sanna silungarnir, er stundum koma upp í þær hópum saman.
Ég lít upp í gjáveggina og sé að þeir eru tjaldaðir grænum mosabreiðum, lögðum fögrum burknum. Hátt uppi, rétt á gjábarminum, eru margar plöntur rétt komnar að því að falla, svo ákafar virðast þær að gægjast ofan í gjána, og með þeim gægist hinn gullni guð ljóssins sjálfur. Það er líka kunnugt, að vagninn hans svífur kringum þennan stað mánuðum saman, bæði dag og nótt. Hver veit nema þessi djúpu vötn séu bústaður dáfagurra dísa? Eru engar hafmeyjar á Þingvöllum?
Jú, víst, hvað ætti hún Hallgerður lævísa að hafa verið annað, hún sem seiddi hann Gunnar í glötunina! Sá tigni maður sá hana fyrst við búðardyrnar hennar hjá vatninu. Hún var nýstigin úr lauginni og kembdi hár sitt langt og hrynjandi eins og sönnum hafmeyjum er títt.
Ég get ekki slitið mig burt. Vatnsdísin heillar mig, hinn frábæri yndisleiki kristallsvatnsins færir mér unað, sem engin önnur skynjan má veita. Eins og hinn skygngi starir á skyggða kúlu úr bergkristalli eða beryl, reyni eg líka að rjúfa blæjuna er skilur hið »verulega líf« umhverfis oss frá andlega lífinu, sem er enn þá verulegra fyrir þá sem trúa. »Hof Demeter í Patras«, segir Pausanias, »á óskeikandi véfrétt í sinni helgu lind«. Svo munu og hin bláu berylvötn á Þingvöllum gædd sannleikskrafti og megna að vekja vitranir, ef horft er í þau af hreinu hjarta.” – G. F. þýddi.

Heimild:
-Eimreiðin, 5.-6. hefti 01.12.1922, Þingvallaför, Dr. Luis Westenra Sambon, bls. 344 og 349-362 – https://timarit.is/page/4819435?iabr=on#page/n0/mode/2up/search/%C3%BEingvallaf%C3%B6r

Þingvellir