Færslur

Þingvallavegur

„Lagning gamla Þingvallavegarins hófst árið 1886 og var að fullu lokið árið 1891. Þessi þjóðvegur gegndi því hlutverki í rúmlega 40 ár að greiða mönnum leið yfir langa og oft torsótta heiði, þegar farartækin voru eigi önnur en fætur manna thingvallavegurinn gamli-901og hesta, og síðar á bifreiðum, en telja verður því lokið eftir alþingishátíðina árið 1930.
Vegurinn liggur austan við Seljadalinn, en áður lá leiðin um þann dal. Eftir dalnum rennur Seljaá. Þar sem Seljaá beygir meðfram Borgarhólum, hefur verið byggð brú yfir ána. Við Háamel hefur sæluhús  verið byggt úr tilhöggnu grjóti. Austan við Morldabrekkur mótar fyrir tóftum. Það eru leifar elsta sæluhússins á heiðinni sem kunnugt er um. Það sæluhús var lagt niður og nýja sæluhúsið byggt á Háamel, á sama tíma og vegurinn var lagður, sem fyrr segir.
Verkstjóri við lagningu Þingvallavegarins var Erlendur Zakaríasson, en hann og bróðir hans Árni, voru þekktir vegaverkstjórar á síðustu áratugum 19. aldar og fram á fyrstu áratugi þeirrar tuttugustu.
Einar Finnsson járnsmiður frá Meðalfelli í Kós hafði lært vegalagningu í Noregi. Hann byggði brúna á Seljaá og ræsin á veginum eru hans handverk. Sigurður Hannesson, bróðir hins kunna landspósts, Hans Hannessonar, hlóð vörðurnar og sæluhúsið. Þessir menn hafa báðir hlaðið sér veglega minnisvarða, sem enn standa að mestu óhreyfðir.
Vörður, brýr, veggir og vegræsi gamla Þingvallavegarins heyra undir listaverk hagleiksmanna og hvort mun það ekki í verkahring komandi kynslóða að vernda þau sem slík um aldur og ævi?
Þegar leið að alþingishátíðinni 1930, var farið að huga að veginum milli Reykjavíkur og Þingvalla. Þá þótti sýnt, að vegurinn myndi ekki bera uppi þá umferð sem ætla mátti að yrði milli þessara höfuðstaða. Því varð að ráði að leggja annan veg um Mosfellsdal og Mosfellsheiði norðanverða. Þeirri vegagerð lauk svo um vorið 1930 áður en hátíðin hófst. Umferð var þá þannig hagað, að frá Reykjavík var farið um nýja veginn um Mosfellsdal, en gamla veginn að austan.
Þegar alþingishátðinni var lokið, var hlutverki gamla Þingvallavegarins líka lokið. Honum var ekki lengur haldið við, þörfin fyrir hann var ekki nein orðin, þar sem nýrri vegurinn var framtíðarleiðin.“

Heimild:
-Safn til sögu Reykjavíkur – Reykjavík, miðstöð þjóðlífs, samgönguleiðir til Reykjavíkur að fornu og nýju, bls. 79-97.

Þingvallavegur

Í Vísi árið 1928 er fjallað um fyrirhugaðan Nýjan Þingvallaveg: „Eins og kunnugt er, hefir verið ákveðið að leggja nýjan veg yfir Mosfellsheiði fyrir 1930.
thingvallavegur-233— Var byrjað á vegagerð þessari í vor og mun svo til ætlast, að henni verði lokið að hausti. Hefst hinn nýi vegur við túníð á Hraðastöðum eða efst í Mosfellsdalnum, en þangað var áður búið að leggja akbraut. Hefir að vísu verið kvartað um, að akbrautin upp Mosfellsdal væri svo mjó, að bifreiðir gæti tæplega mæst á henni, en sennilega verður hún breikkuð, áður en hinn nýi Þingvallavegur verður tekinn til notkunar. Hin nýja akbraut liggur norðanvert við túnið á Hraðastöðum og þaðan upp hjá svo nefndu Jónsseli, norðan Leirvogsvatns og sunnan Sauðafells. Þaðan er sagt að hún eigi að liggja austur um lágheiði og muni ætlað að sameinast gömlu brautinni nálægt Þrívörðum eða nokkuru austar. Kunnugir menn á þessum slóðum telja, að heppilegra mundi, að brautin lægi norðan Vilborgarkeldu alla leið austur úr og sameinaðist ekki gömlu brautinni fyrri en á milli Torfdals og Móakotsár. Má og vel vera, að sú verði niðurstaðan, er nánari rannsókn hefir fram farið á vegarstæðinu. Þessi nýja leið verður miklu skemtilegri en hinn gamli Mosfellsheiðarvegur, og vafalaust verður nýi vegurinn lengur fær bifreiðum framan af vetri.
thingvallavegur-236En hætt er við, að þessir tveir vegir verði hvergi nærri nægilegir meðan stendur á Alþingishátíðinni 1930. Þess ber að gæta, að vegurinn verður aðeins einn alllangan spöl leiðarinnar, ef til vill alla leið frá Þrívörðum og niður á Þingvöll. En sá vegarspotti er mjór og hefir verið slæmur umferðar alla tíð, þó að alt af er verið að gera við hann. Hann er svo mjór, að bifreiðir geta rétt smogið hver fram hjá annari og þyrfti því allur að breikka, ef vel væri. En það mundi kosta allmikið fé og hins vegar ekki brýn nauðsyn, að hann sé breiðari vegna venjulegrar umferðar. En verði vegurinn ekki breikkaður og honum ætlað að taka við allri bifreiðaumferð til Þingvalla sumarið 1930, má búast við, að þar verði nokkuð þröngt umferðar og seinfarið þjóðhátíðardagana.
— Mundi tæplega mega við það una. Er vonandi, að þessi nauðsynlega samgöngubót verði komin í framkvæmd fyrir Alþingishátíðina.“

Heimild:
-Vísir 29. júlí 1928, bls. 2.

Vilborgarkelda

Svarthöfði skrifaði í Vísi árið 1981 um Nýja og Gamla Þingvallvegina undir fyrirsögninni „Vilborgarkeldan og vegamálin“:
thingvallavegur-230„Þótt enn sé snemmt og sumardagurinn fyrsti ekki alveg kominn, bauð tíðarfarið upp á margvíslegar ferðir um páskana. Flestir munu hafa lagt leið sína um nágrenni Stór-Reykjavíkursvæðisins og látið sig hafa það að aka nokkurn óþarfa í bíl, þótt bensínið sé dýrt. Dýrara á það eftir að verða. Nú er olíutunnan í 32 dollurum, en talið er að hún verði komin í áttatíu dollara árið 1985. Þá mætti ætla að bensínlítrinn hér verði um fimmtán hundruð krónur gamlar. Þýðir lítið í slíku árferði að tala um sparneytna bíla einfaldlega vegna þess að bensin verður ekki kaupandi, hvorki á þau tæki, sem eyða tíu lítrum á hundraðið eða tæki sem eyða tuttugu lítrum.
Miðað við slíka þróun má ætla að svonefnd helgidagakeyrsla falli niður að mestu nema á móti komi mikil lagfæring vega, sem sparar í raun mikið bensín. Þó eru góðir vegir ekki nema hluti af lausn vandans, en engu að síður sú lausn sem við ráðum yfir. Um verðlag á bensíni ráðum við hins vegar engu. Fólk sem býr í þéttbýli og vinnur langan vinnudag, eins og dæmið um rúmlega milljón króna verkamannalaun sýnir, þarf að eiga þess kost að komast út í náttúruna um helgar. Úr þessari þörf hefur verið leyst með ökuferðum austur yfir fjall, eins og það er kallað, kaffidrykkja í Eden og Þingvallahringnum.
thingavallavegur-231Um hundrað þúsund manns búa á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa, og mikill hluti þess mannsafnaðar telur eitt helsta útivistarsvæði sitt vera á Þingvöllum og þar í grennd. Aftur á móti bendir vegalagning til Þingvalla ekki til þess að þar hafi hundrað þúsund manns hagsmuna að gæta. Lengi vel hefur það verið svo, að fé til Þingvallavegar hefur verið falið í vegafé til Suðurlands alls, og hafa þá svonefndir „nauðsynjavegir“ verið látnir ganga fyrir. Þess vegna hefur í raun aldrei verið unnið neitt að ráði að lagfæringum á Þingvallavegi nema fyrir Þjóðhátíðir, og hefur það þó orðið að hávaðamáli í hvert sinn. Fyrir Alþingishátíðina 1930 var gerð tilraun til að leggja nýjan veg alla leið til Þingvalla. Nýi vegurinn náði eftir það að Vilborgarkeldu. Síðan hefur ekki verið bætt við hann.
Vilborgarkelda er mýrardrag austast í Mosfellsheiði áður en stefna er tekin beint niður af heiðinni. Á þeirri beygju mættust gamli Mosfellsheiðarvegur og nýi vegurinn 1930. Fyrir þjóðhátíðina 1974 náðu framkvæmdir á Þingvallaleið ekki austur fyrir Vilborgarkeldu heldur, þótt unnið væri að lagfæringu vega á Þingvallasvæðinu sjálfu. Þannig er Vilborgarkelda orðið eitt helsta kennileiti íslenskra vegamála í dag, og að þvl er virðist hreint óyfirstíganleg kelda. Ætti raunar að reisa af henni lóðrétt minnismerki, svona eins og „acupuncture“ kríuna um hann Ragnar í Mundakoti, sem reist var við Eyrarbakka á dögunum. Ekki er við þvi að búast að Þingvallavegur komist í lag áður en bensínlítrinn fer í fimmtán hundruð krónur. Þó gæti það skeð ef bæjarfélög á þéttbýlissvæðum við Faxaflóa gripu inn i málið og segðu sem svo: Þingvellir eru okkar útivistarsvæði og þess vegna leggjum við í sameiningu varanlegan veg þangað, þó gegn því skilyrði að ríkið leggi varanlegan veg frá Þingvöllum og um Sog niður á Grímsnesveg. Þannig mætti með sameiginlegu átaki flýta fyrir vegarlagningu á þessari vinsælu og fjölförnu sumarleið, og komast fram úr Vilborgarkeldunni, þar sem framkvæmdir hafa setið fastar síðan sumarið 1930.
Enginn veit lengur hver þessi Vilborg [Þorgerður] hefur verið. En þetta hefur að líkindum verið ein herjans kerling, fyrst kelda hennar hefur orðið slíkur farartálmi á leiðinni austur á gamla þingstaðinn. – Svarthöfði.“

Heimild:
-Vísir 21. apríl 1981, bls. 31.

Heiðarblóm

Haldið var inn Seljadalinn og áfram upp á gamla Þingvallaveginn og síðan línuveginn á Þingvallaveg.

Seljadalur

Mýrarbrú í Seljadal.

Farið var inn á slóðina skammt neðan við grjótnám Reykjavíkurborgar innan við Þormóðsdal. Síðan var haldið upp með Seljadalsá að norðanverðu. Sást þá gamla leiðin þar sem hún kemur að sunnan og yfir ána. Komið var að grindarhliði á girðingunni um höfuðborgarsvæðið vestan við Kambhól. Hlið er bæði fyrir bíla og fyrir hesta. Framundan eru hólar þvert yfir dalinn og liggur slóðin á milli hólana og síðan í gegnum gamla hlaðna rétt sunnan undir Kambhól, Kambsrétt. Slóðinn er flóraður á þessum kafla. Þessi gata var lögð á seinni hluta 19. aldar og var um tíma aðalvegurinn til Þingvalla eða þangað til gamli Þingvallavegurinn (sjá á eftir) var lagður í tilefni að Alþingishátíðinni 1907. Dalbotninn er sléttur og algróinn. Leiðin liggur nú upp til vinstri um holt þar sem þurrast er. Næst er komið þar sem slóð kemur á slóðina frá vinstri. Sú slóð liggur út dalinn horðan við Hulduhól að girðingunni umhverfis malarnámið, sem fyrr getur. Varða er á Hulduhól sem er norðan við Kambhól og gæti bent til þess að leið hafi verið þar ef menn voru á leið um Þormóðsdal (þurrari en hin leiðin). Framundan er vik í dalbotninum norður í holtinn og sést hlaðin jarðvegsbrú þvert og beint yfir vikið. Hefur verið mikið mannvirki á þeim tíma. Við förum yfir læk og er trébrú á honum.
Nú er komið að raflínu sem liggur upp Seljadalinn og liggur slóðin sem er hér línuvegur norður fyrir vikið og er farið yfir aðra trébrú. Slóðinn sameinast svo gamla veginum á ný austan við vikið.
Sunnan í dalnum er hamraveggur á kafla. Neðan við hann er nokkuð slétt svæði, grasgeiri og er ekki útilokað að þar kunni að leynast tóftir á tungunni. Leiðin liggur svo upp með gili sem heitir Hrafnagil upp í Efri-Seljadal, þaðan á vatnaskil þar sem fer að halla í Leirdal og efstu drög Köldukvíslar, sem rennur niður Mosfellsdalinn.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Leirdalur er nokkuð vel gróinn og liggja gamlar götur um hann. Nú er orðið stutt upp á heiðina og hér sést hrunin varða. Farnir höfðu verið 6,5 km frá upphafsstað. Hrundar vörður eru hér með um 100m millibili. Slóð liggur hér til suðurs upp á gamla Þingvallaveginn sem kemur úr suð-vestri með Seljadalsbrúnum. Gatan liggur áfram upp á Háamel á gatnamót gamla Þingvallavegarins.
Nú var farið að svipast eftir stæði veitingahússins sem reist var hér. Farið var suð-vestur veginn að slóðamótunum sem áður var getið og litast þar um. Haldið var spölkorn til baka í norð-austur upp Háamel, stundum nefndur Aldan. Þegar komið var að talsverðu úrrennsli í veginum sást í hleðslu skammt norðan við veginn, vestur undir lágri grasivaxinni brekku. Hleðslan mun hafa verið grunnur að veitingahúsi. Giskað var á að grunnflöturinn gæti verið 3-3.5×4-4,5m. Grösugt er í kring um hleðsluna og virðast vera götur framan við hússtæðið. Ekki var vatn í læknum sem hefur rofið veginn en en vatn hefur líklega verið í honum áður. Hefur kannski breyst við að svörðurinn hefur rofnað og vatnið gengur niður? Veitingahúsið hefur staðið nokkurn veginn miðja vegu milli gömlu leiðarinnar upp úr Seljadal og Leirdal, áleiðis til Þingvalla og gamla Þingvallavegarins (sunnar). Veitingahús þetta var reist árið 1920 og nefnt Heiðarblóm.
Skammt austar kemur gamla leiðin inn á gamla veginn. Við mótin er fallega hlaðinn varða er líkst mest bergþurs. Hefur þurft menn (eða konur) ramma að afli til að koma miðjusteininum fyrir. Tilgangur þessara leiðarmerkja var að vísa vegfarendum veginn í slæmu skyggni eða vondum veðrum, ólíkt því sem ekki ósvipuðum mannvirkjum er ætlað á Njarðvíkurheiði vestra, þar sem þeim er beinlínis ætlað að villa um fyrir fólki.
Hér áður fyrr höfðu mannvirki ákveðin tilgang. Vörður voru leiðarmerki. Hlaðin skýli voru skjól fyrir veðrum. Kennileiti í landslagi voru eyktarmörk eða viðmið. Tveir steinar, hvor upp á öðrum, merktu greni. Þannig hafði allt sinn tilgang. Engin ástæða er til annars fyrir afkomendurna en að hafa þetta í heiðri. Varða á hól, án tilgangs, er eins og álfur út úr hól – góðir Íslendingar.
Veður var frábært – sól og hiti. Ferðin tók 2 klst og 22 mín.

Gamli Þingvallavegur

Tóftir Heiðarblómsins.

Þingvallavegur

Forn leið frá Reykjavík til Þingvalla lá m.a. um Seljadal. Sjá má endurbætur á henni við Kambhól þar sem vegurinn liggur í gegnum Kambsréttina. Þar er hlaðið í vegkantinn. Gamli Þingvallvegurinn svonefndi lá hins vegar sunnar og vestar á Mosfellsheiði. Við hann er er margt að skoða, auk þess sem vegurinn er ágætt dæmi um vandaða vegagerð þess tíma.

Gamli Þingvallavegur

Ræsi á Gamla Þingvallaveginum.

Nýi Þingvallaveginn var lagður fyrir Alþingishátíðina á Þingvöllum árið 1930. Þar sem gamli vegurinn mætir þeim nýja að austanverðu , skammt vestan við vegamótin, er mikil lægð í heiðinni og blautar mýrar. Þetta er Vilborgarkelda. Örnefnið er ævafornt, að líkindum frá þjóðveldisöld. Ekki er vitað við hvaða Vilborgu þetta keldusvæði er kennt.
Gamli Þingvallavegurinn, sem liggur áfram yfir háheiðina, var lagður á árunum 1890-96. Byrjað var á honum af Suðurlandsvegi við Geitháls. Vegalagningin miðaðist þá að sjálfsögðu við umferð hestvagna og ríðandi fólks. Vegurinn var lagður nær á sömu slóðum sem hinar fornu ferðamannaslóðir lágu um, en þó ívið sunnar eins og fyrr sagði. Eftir lagningu hans beindist nær öll umferð um heiðina að þessum vegi. Vörður voru hlaðnar við hann á allri heiðinni til leiðbeiningar ferðamönnum. Byggt var nýtt sæluhús við veginn í stað gamla hússins, sem stóð talsvert austar og norðar, á sýslumörkunum. Talsverðar endurbætur voru gerðar á þessum vegi vegna konungskomunnar 1907. Sumarið 1913 var í fyrsta sinn ekið bifreið eftir þessum vegi til Þingvalla og var notast við hann sem bílveg eftir það í hálfan annan áratug.

Gamli Þingvallavegur

Brú á Gamla Þingvallaveginum.

Gamli Þingvallavegurinn er ekki síst áhugaverður vegna vinnubragða þeirra manna, sem fyrstir ruddu brautir og lögðu vegi milli héraða með handverkfærum einum, skóflu og haka, járnkarli og handbörum. Enn vottar fyrir leifum af hellurennum, hlöðnum brúarstöplum og fallega hlöðnum vörðum sem vísuðu veginn þegar ekki sást í dökkan díl. Vegalengdin frá Krókatjörn þar sem gamli leiðin kemur inn á götuna ofan við Langavatn um Miðdal og austur að beygjunni á nýja Þingvallaveginum er um 20 km. Leiðin er u.þ.b. hálfnuð er komið er á Háamel.
Minjar gamla sæluhússins eru þar sem skerast markalínur sýslanna og hreppamörk Mosfells-, Grafnings- og Þingvallahrepps. Tóft nýrra sæluhússins er norðan vegarins. Það var hlaðið úr tilhöggnu grjóti. Sagt hefur verið að þar hafi verið reimt og til af því sögur. Tveimur kílómetrum austan þess eru fornar steinbrýr á veginum, nefnd Loft.
Þegar haldið var austur eftir Gamla-Þingvallaveginum sást vel hversu mikið mannvirki hann hefur verið á sínum tíma, bæði beinn og breiður. Púkkað er svo til í allan veginn og jafnvel hlaðið í kanta. Nú er yfirborðið fokið út í veður og vind, en eftir stendur undirlagið og frostupphleyft grágrýti er torveldar leiðina. Fallega hlaðin ræsi eru mörg á veginum og er ótrúlegt að sjá hversu stóra steina mönnum hefur tekist að forfæra við gerð þeirra. Ræsin á veginum eru tvenns konar; annars vegar hlaðnar rásir með þykkum og þungum hellum og hins vegar „púkkrás“ þvert í gegnum veginn. Vestan við Háamel er fallega hlaðin brú. Lækjarfarvegurinn undir brúnni hefur verið

Gamli Þingvallavegur.

Varða við Gamla Þingvallaveginn.

flóraður. Brúarendarnir eru listasmíð, steinarnir nákvæmlega felldir saman og ofan á brúnni beggja vegna hvíla brúarsteinarnir. Í þá hefur verið festur teinn og væntanlega hefur keðja verið strengd á milli þeirra.
Efst á Háamel kemur gamla leiðin ofan úr Seljadal og Leirdal saman við nýju götuna. Gamla leiðin er vel vörðuð yfir Háamelin og áfram austur. Hún heldur áfram yfir melinn, en kemur inn á nýju götuna skammt austar. Skammt frá mótunum er há heil varða, gerð úr stóreflis bjargi. Það hvílir á hveimur “fótsteinum”, en ofan á “búknum” hvílir “höfuð” með “nefi” er bendir vegfarendum rétta leið við stíginn. Austan vörðunnar er gatan flóruð í kantinn annars vegar.
Haldið var til baka og nú um Seljadalsleið. Við hana sést gamli stígurinn (eldri þjóðleiðin til Þingvalla) víða þar sem hún liggur í hlykkjum upp úr dalnum, upp með Hrafnagjá og áfram austur. Vestan við Kambshól sést gatan vel þar sem hún hlykkjast um landslagið. Neðan þverdalsins, þars em Nessel er, er nokkurt mannvirki; landbrú yfir mýrlendi. Þetta hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma, en er nú sem minnismerki um löngu liðnar ferðir margra á merkisstað.

Frábært veður – sól og hiti. Ferðin tók 5 klst og 5 mín. (Sjá meira undir Lýsingar).

Efni m.a. úr Árbók FÍ – 1985.
Einnig úr Áfangar, ferðahandbók – 1986.Thingvallavegur gamli - 217