Vilborgarkelda

Svarthöfði skrifaði í Vísi árið 1981 um Nýja og Gamla Þingvallvegina undir fyrirsögninni “Vilborgarkeldan og vegamálin”:
thingvallavegur-230“Þótt enn sé snemmt og sumardagurinn fyrsti ekki alveg kominn, bauð tíðarfarið upp á margvíslegar ferðir um páskana. Flestir munu hafa lagt leið sína um nágrenni Stór-Reykjavíkursvæðisins og látið sig hafa það að aka nokkurn óþarfa í bíl, þótt bensínið sé dýrt. Dýrara á það eftir að verða. Nú er olíutunnan í 32 dollurum, en talið er að hún verði komin í áttatíu dollara árið 1985. Þá mætti ætla að bensínlítrinn hér verði um fimmtán hundruð krónur gamlar. Þýðir lítið í slíku árferði að tala um sparneytna bíla einfaldlega vegna þess að bensin verður ekki kaupandi, hvorki á þau tæki, sem eyða tíu lítrum á hundraðið eða tæki sem eyða tuttugu lítrum.
Miðað við slíka þróun má ætla að svonefnd helgidagakeyrsla falli niður að mestu nema á móti komi mikil lagfæring vega, sem sparar í raun mikið bensín. Þó eru góðir vegir ekki nema hluti af lausn vandans, en engu að síður sú lausn sem við ráðum yfir. Um verðlag á bensíni ráðum við hins vegar engu. Fólk sem býr í þéttbýli og vinnur langan vinnudag, eins og dæmið um rúmlega milljón króna verkamannalaun sýnir, þarf að eiga þess kost að komast út í náttúruna um helgar. Úr þessari þörf hefur verið leyst með ökuferðum austur yfir fjall, eins og það er kallað, kaffidrykkja í Eden og Þingvallahringnum.
thingavallavegur-231Um hundrað þúsund manns búa á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa, og mikill hluti þess mannsafnaðar telur eitt helsta útivistarsvæði sitt vera á Þingvöllum og þar í grennd. Aftur á móti bendir vegalagning til Þingvalla ekki til þess að þar hafi hundrað þúsund manns hagsmuna að gæta. Lengi vel hefur það verið svo, að fé til Þingvallavegar hefur verið falið í vegafé til Suðurlands alls, og hafa þá svonefndir „nauðsynjavegir” verið látnir ganga fyrir. Þess vegna hefur í raun aldrei verið unnið neitt að ráði að lagfæringum á Þingvallavegi nema fyrir Þjóðhátíðir, og hefur það þó orðið að hávaðamáli í hvert sinn. Fyrir Alþingishátíðina 1930 var gerð tilraun til að leggja nýjan veg alla leið til Þingvalla. Nýi vegurinn náði eftir það að Vilborgarkeldu. Síðan hefur ekki verið bætt við hann.
Vilborgarkelda er mýrardrag austast í Mosfellsheiði áður en stefna er tekin beint niður af heiðinni. Á þeirri beygju mættust gamli Mosfellsheiðarvegur og nýi vegurinn 1930. Fyrir þjóðhátíðina 1974 náðu framkvæmdir á Þingvallaleið ekki austur fyrir Vilborgarkeldu heldur, þótt unnið væri að lagfæringu vega á Þingvallasvæðinu sjálfu. Þannig er Vilborgarkelda orðið eitt helsta kennileiti íslenskra vegamála í dag, og að þvl er virðist hreint óyfirstíganleg kelda. Ætti raunar að reisa af henni lóðrétt minnismerki, svona eins og „acupuncture” kríuna um hann Ragnar í Mundakoti, sem reist var við Eyrarbakka á dögunum. Ekki er við þvi að búast að Þingvallavegur komist í lag áður en bensínlítrinn fer í fimmtán hundruð krónur. Þó gæti það skeð ef bæjarfélög á þéttbýlissvæðum við Faxaflóa gripu inn i málið og segðu sem svo: Þingvellir eru okkar útivistarsvæði og þess vegna leggjum við í sameiningu varanlegan veg þangað, þó gegn því skilyrði að ríkið leggi varanlegan veg frá Þingvöllum og um Sog niður á Grímsnesveg. Þannig mætti með sameiginlegu átaki flýta fyrir vegarlagningu á þessari vinsælu og fjölförnu sumarleið, og komast fram úr Vilborgarkeldunni, þar sem framkvæmdir hafa setið fastar síðan sumarið 1930.
Enginn veit lengur hver þessi Vilborg [Þorgerður] hefur verið. En þetta hefur að líkindum verið ein herjans kerling, fyrst kelda hennar hefur orðið slíkur farartálmi á leiðinni austur á gamla þingstaðinn. – Svarthöfði.”

Heimild:
-Vísir 21. apríl 1981, bls. 31.

Þingvallavegur

Mílusteinn við gömlu Þingvallaleiðina.