Færslur

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt er ein af 222 skráðum fjárréttum FERLIRs í landnámi Ingólfs fyrrum. Þær eru að öllum líkindum miklu mun fleiri þegar upp verður staðið.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1911.

Í “Örnefnalýsingu fyrir Þormóðsdal“, skráða af Tryggva Einarssyni frá Miðdal, segir m.a. um Hafravatnsrétt og nágrenni (heimildarmaður og skrásetjari er gagnkunnugur í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi er fæddur í Miðdal árið 1901 og hefur átt þar heima alla sína tíð. Hann skráði lýsinguna veturinn 1976-77):

“Við Hafravatn er Hafravatnsrétt. Sunnan við réttina er fallegur klettahóll, sem Stekkjarhóll heitir. Skammt austan við Stekkjarhól er Stekkjarás. Vestan undir Stekkjarás er stekkur ásamt beitarhúsum frá Þormóðsdal.
Norðaustur af Hafravatnsrétt er Stekkjargil. Upp af áðurnefndum Torfum eru smágrasblettir, er Blettir heita. Frá Hafravatnsrétt, norður með Hafravatni, er Hafrahlíð. Þar sem Hafrahlíð beygir í norðaustur, heitir Hlíðarhorn.”

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1952.

Í Tímanum 1957 er grein um Hafravatnsrétt; “rétt Reykjavíkurbarna” eftir Guðna Þórðarson:

“Reykvíkingar fjölmenntu í rétfirnar í fyrradag. Enda þótt tilvera réttanna séu mörgum Reykjavíkurbörnum aðeins óljós þjóðsaga, gefst þeim þó mörgum tækifæri til að fara í réttir, þegar réttað er í Hafravatnsrétt í Mosfellssveit. Þær eru stærstu réttirnar í nágrenni Reykjavíkur og eru því öðrum réttum framar réttir Reykvíkinga, að minnsta kosti Reykjavíkurbarna, sem ekki komast í sveit. En sá hópur fer stækkandi með hverju árinu sem líður og borgin vex.
Snemma morguns var orðið mikið annríki í Hafravatnsrétt. Frá Reykjavík komu bílar í löngum lestum með fullorðna og börn, og tveir lögregluþjónar höfðu ærinn starfa við að stjórna umferð mannfólksins fyrir utan réttarveggina, og á flötnum niður með vatninu, þar sem ökutækjum var fundinn staður.

Engir rekstrar en margir fjárbítar

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 1957.

Margir komu líka ríðandi í réttirnar. Leitarmenn höfðu flestir komið daginn áður, enda var vakað yfir safninu við réttina í fyrrinótt, þar til réttarstörfin hófust með birtnggu að kalla. Flestir bændanna lögðu flutningabílum að útvegg réttar hjá dilk sínum og fluttu féð jafnóðum heim á bílunum.

Ónæðisamt er að vera á ferð með fjárrekstra á þjóðvegunum í næsta nágrenni Reykjavíkur. Fæstir bændanna, sem sækja fé sitt til Hafravatnsréttar eru líka stórbændur á sauðfjárræktarsviðinu, enda búskapur þeirra rekinn í höfuðsveitum mjólkurframleiðslunnar. Engu að síður er fjáreign bænda í nágrenni Reykjavíkur nokkuð almenn og fer heldur vaxandi. Sauðfjárræktarbændurnir eru samt ekki fleiri en svo, að erfitt er fyrir þá eina að standa að smölun á öllum afréttarlöndum. Þau eru ótrúlega víðáttumikil og erfið til smölunar. Féð gengur saman allt austur í Grafning og heiðarnar eru stórar og margar hæðir og lautir, þar sem kindur géta leynzt vökulum augum leitarmanna.

Börnin ekki færri en lömbin
Hafravatnsrétt
Réttarstjórinn í Hafravatnsrétt er Kristinn bóndi á Mosfelli, skörulegur og geðgóður réttarstjóri, sem oft þarf að taka á þolinmæðinni allri, þegar annríkið stendur sem hæst. Þá kemur stundum fyrir að réttarstjórinn stígur upp á réttarvegginn, gætilega svo að grjót hrynji ekki úr hleðslunni og heldur hóflega orðaða ræðu til háttvirtra réttargesta. Hann biður þá með góðum orðum og fögrum að sýna sveitamönnum miskunnsemi og rýma til í réttinni sjálfri, í almenningnum, þar sem skilamenn þurfa að finna sitt fé og draga það í dilka.

Fyrst í stað gengur allt að óskum og fleira er af kindum en börnum í almenningnum, en börnunum fjölgar meir en kindunum fækkar, og þá þarf réttarstjórinn aftur að stíga í stólinn og gera ráðstafanir til þess að hægt sé að halda áfram störfum í réttum Reykjavikurbarnanna.

HafravatnsréttSveitin tæmist, er fólkið fer í réttir En það eru fleiri en börnin, sem fjölmenna í Hafravatnsrétt, þangað koma svo til allir vopnfærir menn og konur úr Mosfellssveit og dvelja lengi dags, svo að símstöðin á Brúarlandi nær varla í nokkurn mann, þegar kvaðning kemur frá landssímanum. Óvíða er svarað hringingu, því að allir ungir og gamlir eru í Hafravatnsrétt.
Réttin stendur skammt frá vatninu undir hlíðinni, þar sem margir sitja og fylgjast með réttarstörfum.
Þegar líður á réttardaginn, fara menn að gera nestinu einhver skil, en kvenfélagið sér fyrir góðum veitingum, heitu kaffi, pönnukökum og smáréttum.

Hafravatnsrétt

Mörgum er það svo mikið ævintýri að komast þarna í lifandi samband við kindurnar, að því fá engin orð lýst.
Fjögurra ára Reykjavíkurtelpa stóð við hliðina á átta ára bróður sínum fast við hliðgrindina og horfðu heilluð á fallegt lamb, sem stóð skorðað með höfuðið upp að grindinni. Þau höfðu aldrei séð lifandi kind fyrr. — Verst, að við skyldum ekki hafa með okkur brauðmola, sagði telpan við bróður sinn.
Þannig gerðust fjölmörg ævintýri í lífi Reykjavíkurbarna við Hafravatnsrétt í gær. Fyrsti réttardagurinn verður flestum ógleymanlegur, ekki sízt kaupstaðarbörnunum, sem vaxið hafa upp í faðmi borgarinnar, þar sem fá tækifæri gefast til náinna kynna við lifandi dýr. Og einhvern veginn er það svo, að lömbin eru í meira uppáhaldi hjá börnunum en flest önnur húsdýr, þó að oft séu kynnin stutt. Þau hverfa til fjalla, þegar þau eru fallegust á vorin og koma svo ekki aftur fyrr en í réttirnar á haustin. En ef til vill er það þessi langa eftirvænting sumarsins um samfundi í réttum að hausti, sem heillar hugi barnanna.
Og Reykjavíkurbörnin mörgu, sem í fyrsta sinn komust í lifandi snertingu við kindur í Hafravatnsrétt í fyrradag, munu heldur ekki gleyma því strax, að fundum bar þar saman. Þau hafa fengið í blóðið þann óróleika, sem verður þess valdandi að réttirnar gleymast ekki, þegar að þeim kemur á haustin. Vafalaust hafa mörg börn og jafnvel fullorðnir, sofnað út frá kindajarmi að loknum löngum og viðburðaríkum réttardegi, dreymt um fangbrögð við frískar kindur, draumar, sem verða að veruleika, þegar aftur verður enn á ný farið í réttir.”

Í Vísi 1964 er grein; “Í Hafravatnsrétt“:
Hafravatnsrétt
“Það var mikið um að vera í Hafravatnsrétt í gær. Bændur og búalið kepptust við að draga og fleiri tugir Reykvíkinga komu þangað í gær, með börn sin til þess að fylgjast með réttarstörfunum. Gizkað er á, að um fimm þúsund fjár hafi verið réttað núna í Hafravatnsrétt, og er það færra fé en nokkru sinni fyrr.
„Fénu er alltaf að fækka, og nú eru margir bæir hér að verða fjárlausir,” sagði Kristinn Guðmundsson, réttarstjóri, þegar við litum inn í skúrinn til hans í gær.

Hafravatnsrétt

Kristinn Guðmundsson (1893-1976), réttarstjóri um árabil (mynd frá 1963).

Réttarstjórinn í Hafravatnsrétt hefur það fram yfir flesta réttarstjóra á landinu, að hann hefur sérsakan skúr, eða skýli, við almenninginn, þar sem hann heldur til og stjórnar réttarstörfunum með kalllúðri.
Mikið kapp var lagt á að draga fyrir hádegi, vegna þess að eftir hádegi kemur margt aðkomumanna, einkum frá Reykjavík, og vilja þá réttarstörfin ganga nokkuð seint fyrir sig. Í Hafravatnsrétt hittum við bæði alvörubændur og sportbændur, og allir virtust vera í góðu skapi og menn voru komnir í réttarstemmningu síðdegis. — Kvenfélagskonurnar í Lágafellssókn sáu um veitingasölu í bragganum og tveimur tjöldum, þar sem fólki var gefinn kostur á að kaupa sér kaffisopa með gómsætu heimabökuðu meðlæti.
Mjög margt barna var í Hafravatnsrétt og mátti sjá flest andlit þeirra ljóma af ánægju, enda er þetta í eina skiptið, sem mörg reykvísk börn komast í snertingu við kindur. — Og það voru fleiri andlit, sem ljómuðu í Hafravatnsrétt. Þegar bændurnir voru búnir að draga og fá sér góða lögg af réttarpelanum mátti sjá ánægju svip á andlitum þeirra, þegar þeir litu yfir fjárhópinn sinn, sem þeir höfðu fengið heim af afrétt.”

Í Vísi 1965 er aftur fjallað um “Hafravatnsrétt”:
Hafravatnsrétt
“Það þykir ævinlega stór dagur til sveita, þegar réttað er. Þessi dagur er sannkallaður hátíðisdagur og ætti vitanlega að vera „rauður dagur” á almanakinu.
Það má líkja réttardeginum við uppskeruhátíðir erlendis, enda er alltaf haldið upp á réttardaginn og réttarskálin sopin.
Blaðamaður Vísis kom við í Hafravatnsrétt í gær, þar sem allt var á ferð og flugi. Í almenningnum í miðri réttinni voru bændur úr Mosfellssveit í óðaönn að draga fé sitt í dilkana og úr dilkunum var farið með féð á vörubílana sem biðu þess.

Hafravatnsrétt

Í Hafravatnsrétt.

Það var feitt fé og fallegt sem kom af Mosfellsheiði núna eftir gott sumar. Við sögðum í gær í frétt að það hefði verið um 1000 fjár, en það var vissulega sök prentvillupúkans, en í Hafravatns rétt munu um 5000 fjár væntanlega koma til skila eftir fyrstu leit og er það svipað og í fyrra.
Réttarstemningin var ekki byrjuð ennþá, þegar blaðamaðurinn fór af staðnum, — enginn réttarpeli var a.m.k. réttur að honum, — en í nefið fékk hann og það var allt i áttina.
Í dag verður brugðið upp svipmyndum af Hafravatnsrétt, rétt Mosfellinga, Kópavogsbúa, Seltirninga, þeirra fáu sem þar eiga enn kindur og svo þeirra Reykvíkinga, sem eru fjáreigendur, en reykvísku kindurnar munu vera á 4. þús. talsins. Segið svo að höfuðborgin eigi ekki álitlegan fjárstofn. Að vísu kemur ekki nema hluti fjárstofns Reykvíkinga í Hafravatnsrétt, en það mun samt vera álitlegur hluti hans.”

Í Morgunblaðinu 1982 er frétt; “Réttað í Hafravatnsrétt í síðasta sinn?”:
Hafravatnsrétt
“Sennilega var réttað í síðasta skipti í Hafravatnsrétt í gær, því nú er fyrirhugað að reisa fjárhelda girðingu umhverfis Stór-Reykjavíkursvæðið frá Straumsvík og upp að Kiðafellsá í Kjós. Fjárhald innan girðingar verður ekki leyft nema undir eftirliti, þannig að rekstur á heiði innan girðingar leggst fyrirsjáanlega af. Ekki er að efa að mörgum verður eftirsjá að réttinni ef hún hverfur, því að hana hafa margir sótt heim, enda sú rétt sem næst hefur verið þéttbýlustu svæðum landsins.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 2023.

Að sögn Hreins Ólafssonar, bónda í Helgadal, sem var leitarstjóri í leitunum, voru það ekki nema um 600 fjár, sem nú voru réttuð í Hafravatnsrétt, en undanfarin ár hafa það verið 1.500—2.000. Ástæða þess að það var svo fátt nú, er kuldinn sem verið hefur undanfarið, svo margt fé hafði sjálft skilað sér heim, enda um 10 sentimetra snjór á heiðinni á sunnudag, þegar smalað var. Fyrir 20 árum voru það 12—15.000 fjár sem réttuð voru í Hafravatnsrétt, svo að umskiptin hafa verið mikil, en fé hefur farið fækkandi ár frá ári. Eins og fyrr sagði var réttað í gær og tók það ekki langan tíma eins og gefur að skilja, þar sem féð var svo fátt. Til Hafravatnsréttar var smalað á sunnudaginn og taka leitirnar einn dag, en réttað er daginn eftir.”

Í Bændablaðinu 2017 er skemmtilega söguleg umfjöllun dr. Ólafs R. Dýrmundssonar undir fyrirsögninni “Reykjavík er eina höfuðborgin í heiminum með fjárhúsahverfi, afrétt og löggskilarétt“:

Ólafur R. Dýrmundsson

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson. “Ég held að það blundi sveitamaður í fjölda þéttbýlisbúa,“ segir Ólafur Dýrmundsson sem heldur 12 kindur, og forystusauðinn Hring, í fjárhúsi við heimili sitt í Breiðholti. Ólafur býr efst í Seljahverfinu, þar sem hann og fjölskylda hans voru frumbyggjar á sínum tíma. Hluti hverfisins var byggður upp með stórum lóðum með það fyrir augum að íbúar gætu haldið hesta og jafnvel önnur dýr og þar hefur Ólafur stundað fjárbúskap, eða það sem hann kallar örbúskap.
„Þetta er horfið að mestu, þannig að ég er einn af þeim sem held þessu vakandi. En ég held að það sé talsvert af ungu fólki sem hefði áhuga á því að byggja þetta upp aftur en þá þarf að skipuleggja það.“

“Sauðfjárbúskapurinn í Reykjavík er nú eitt af því fáa í höfuðborginni sem enn minnir á sveitabúskap. Liðin eru 90 ár síðan sauðfjárbændur í Reykjavík, bæði á lögbýlum og utan þeirra, stofnuðu fyrsta félag fjáreigenda í þéttbýli hér á landi, Fjáreigendafélag Reykjavíkur.
Fénu hefur fækkað mikið og þeir borgarbúar sem eiga þar kindur eru orðnir fáir. Engu að síður hefur kindaeignin menningarlegt, félagslegt og uppeldislegt gildi.

Fjáreigendafélagið stofnað 2. desember 1927
Fjárborg
Fyrir 90 árum var töluverður fjárbúskapur í Reykjavík og vel fram yfir miðja liðna öld var fé haldið á ýmsum stöðum í öllum hverfum hennar.
Þéttbýlismyndunin var ör, sveitaumhverfi var að breytast í borgarumhverfi og á meðal helstu hagsmunamála fjárbænda var að koma betri skipan á fjallskil í samvinnu við nágrannasveitarfélögin og fá nægilega stóra girðingu til vor- og haustbeitar til þess að koma í veg fyrir árekstra við garð- og trjárækt í Reykjavík. Þetta kom m.a. skýrt fram á fundi fjáreigenda 15. nóvember 1927 þar sem grunnur var lagður að stofnun Fjáreigendafélags Reykjavíkur rúmum tveim vikum síðar, 2. desember.

Helsti forvígismaður og fyrsti formaður félagsins var Maggi Júl, Magnús læknir á Klömbrum. Þann vetur voru 123 skráðir fjáreigendur í Reykjavík með samtals 1357 kindur á fóðrum og var fjárflest á Bústöðum, 164 kindur, en næst komu Breiðholt, Kleppur og Klambrar með fjártölu á bilinu 50–80 vetrarfóðraðar kindur. Sögulegt hámark fjárfjölda í Reykjavík var um 1960, nær 4.000 fjár í eigu vel á 2. hundrað manns.
Nú eru fjárhjarðirnar í Reykjavík aðeins 12 að tölu og 250 kindur settar á vetur. Svipuð þróun hefur verið í kaupstöðum og kauptúnum um land allt, jafnvel alveg fjárlaust í nokkrum þeirra.

Fjárborg

Fjárborg var byggð 1959, þarna voru reist rúmlega 30 fjárhús sem stóðu til 1968, var þar sem nú er stórhýsi Tengis.

Breiðholtsgirðingin og Breiðholtsréttin
Breiðholtsrétt
Á meðal helstu verkefnanna fyrst eftir stofnun félagsins var að semja við bæjarstjórnina um Breiðholtsgirðinguna og Breiðholtsréttina, hvort tveggja mikil mannvirki ofan við Blesugróf, tekin í notkun haustið 1933. Girðingin og réttin komu að miklu gagni allt til haustsins 1965 þegar stórfelldar byggingaframkvæmdir hófust í Breiðholtinu. Þangað var safnað fjölda fjár á haustin, einnig af Seltjarnarnesi og úr Kópavogi, bæði rekið úr Hafravatnsrétt og bílflutt úr ýmsum útréttum í Landnámi Ingólfs Arnarsonar.

Ólafur Dýrmundsson

Ólafur Dýrmundsson – síðasti fjárbóndinn í Reykjavík.

Oft var mannmargt og ágæt réttastemning í Breiðholtsrétt, bæði við rúning á vorin og í réttum á haustin en einnig notuðu hestamenn hana töluvert sem áningarstað. Réttin var ferhyrnd, vel viðuð, með háa veggi og klædd refaneti.
Almenningurinn var mjög stór og var safnið rekið beint inn í hann yfir Vatnsveituveginn í norðvesturhorni Breiðholtsgirðingar, skammt frá þeim stað þar sem mislægu gatnamótin eru á Stekkjarbakka. Breiðholtsgirðingin, sem var vönduð og vel strengd net- og gaddavírsgirðing, var í grófum dráttum á því svæði sem Stekkir, Bakkar, Hólar, Berg og Fell standa á en sunnan girðingarinnar var ógirt land Breiðholtsjarðarinnar þar sem Skógar og Sel eru núna.

Afréttur Seltjarnarneshrepps hins forna smalaður vor og haust

Fossvallarétt

Fossvallarétt ofan Lækjarbotna.

Eftir að Fjáreigendafélag Reykjavíkur var stofnað fór það að annast öll fjallskil í umboði Reykjavíkur samkvæmt afréttarlögum en Reykjavík hefur nýtingarrétt til sauðfjárbeitar í afrétti Seltjarnarneshrepps hins forna ásamt Kópavogi og Seltjarnarnesi, að jöfnum hluta hvert sveitarfélag. Afrétturinn er allur innan lögsagnarumdæmis Kópavogs og telst nú þjóðlenda.
Þar sem sauðfjáreigendur á Seltjarnarnesi voru í Fjáreigendafélagi Reykjavíkur gætti það einnig hagsmuna þeirra en Nesið hefur verið fjárlaust síðan 1966. Seltjarnarnes heldur þó fullum beitarrétti í afréttinum og hefur alltaf átt góð samskipti við Fjáreigendafélag Reykjavíkur og Sauðfjáreigendafélag Kópavogs sem var stofnað 1957. Fram til þess tíma voru nokkrir fjárbændur í Kópavogi í Reyjavíkurfélaginu. Í Kópavogi er nú aðeins eftir ein hjörð, á Vatnsendabýlinu.

Fossvallarétt

Fossvallarétt.

Allt til 1987 var allur afrétturinn smalaður til rúnings og á haustin voru þrennar göngur til 1985, en síðan er gengið tvisvar haust hvert. Eftir að vörslugirðingar voru reistar 2001 gengur Reykjavíkur- og Kópavogsféð allt norðan Suðurlandsvegar, samtals um 300. Eftir að Árnakróksrétt við Selvatn var aflögð varð Hafravatnsrétt í Mosfellssveit lögskilarétt frá 1903–1985, bæði fyrir Mosfellsbæ og sveitarfélögin þrjú sem eiga aðild að afrétti Seltjarnarneshrepps hins forna.
Leiðir skildu haustið 1986 þegar Fossvallarétt við Lækjarbotna var gerð að lögskilarétt fyrir Reykjavík, Kópavog og Seltjarnarnes. Mikil og góð samvinna er við önnur sveitarfélög sem hafa afréttarnot í svokölluðu Norðurhólfi, þ.e.a.s. Mosfellsbæ, Þingvallasveit, Grafning og Ölfus, og skilamenn eru sendir í helstu útréttir, þó færri en áður þegar féð var margt og fór víða um Landnám Ingólfs Arnarsonar.

Sauðfjárstríðið í Reykjavík og Fjárborgirnar
Fjárrekstur
Á seinni hluta 7. áratugar liðinnar aldar urðu mikil átök á milli ráðamanna Reykjavíkur og fjáreigenda þar með Fjáreigendafélag Reykjavíkur í broddi fylkingar.
Reykjavík stækkaði ört, allt sem tengdist búskap var á undanhaldi og félagið fékk spildu sumarið 1959 undir fjárhúsabyggingar á afgirtri mýrarspildu upp af Blesugróf, í tungu sem myndaðist á milli Nýbýlavegar (nú Smiðjuvegur) og Breiðholtsbrautar (nú Reykjanesbraut). Nú stendur þar stórhýsi Tengis. Þarna voru reist rúmlega 30 fjárhús og stóð þessi byggð til haustsins 1968 þegar reynt var að útrýma sauðfjárbúskap í Reykjavík með markvissum hætti.

Almannadalur

Fjárborg í Almanndal.

Svikið hafði verið samkomulag um aðstöðu fyrir fjárhúsabyggð og beitarhólf í Hólmsheiði frá 1964 og reyndist þetta tímabil í sögu félagsins mjög erfitt.
Með seiglu sauðkindarinnar að leiðarljósi lét stjórn félagsins ekki bugast og tókst að ná samkomulagi haustið 1970 við Reykjavíkurborg um 5 hektara spildu fyrir allt að 40 hús upp af Almannadal, neðst í Hólmsheiðinni, á móts við Rauðhóla. Þá lauk stríðinu með farsælum hætti og strax um haustið risu fyrstu fjárhúsin.
Þegar fénu fækkaði fóru hestamenn að kaupa og byggja hús í hinni nýju Fjárborg. Nú eru flestir fjáreigendur líka með hesta. Þar eru nú mun fleiri hross en kindur.
Allt Reykjavíkurféð er þar til húsa utan ein hjörð en samtals telur vetrarfóðrað fé í Reykjavík 250 kindur í 12 hjörðum eins og áður hefur verið greint frá. Þar hafa orðið litlar breytingar á síðan um aldamót.

Landakaup í Hvassahrauni

Hvassahraun

Kind í Hvassahrauni.

Eftir fjárskiptin, sem fólu í sér allsherjar niðurskurð fjár í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum í Landnámi Ingólfs Arnarsonar haustið 1951, fjölgaði fénu ört eftir að vestfirsku lömbin komu, flest haustið 1952 og nokkur 1954. Þá reyndi mikið á Fjáreigendafélag Reykjavíkur, bæði við fjárskiptin sjálf og einnig vegna þess að mun meira land vantaði til haustbeitar en tiltækt var í Breiðholtsgirðingunni þótt margir fjáreigendur væru að nýta afgirt tún og bletti á ýmsum stöðum í bænum. Reyndar heyjuðu þeir mikið á slíku landi á sumrin og notuðu jafnvel líka til beitar á vorin. Þá voru sinubrunar fátíðir.
Eftir miklar kannanir og umræður ákvað stjórnin 1957 að stofna félagið Sauðafell hf um kaup á rúmlega 2000 hektara landi í Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd.
Fjáreigendafélagið átti og á enn rúmlega 45% hlut en erfingjar 25 einstakra fjáreigenda, sem keyptu misstóra hluti á sínum tíma, samtals tæplega 55%. Síðan 2004 hefur félagið verið skráð sem Sauðafell sf. Þetta víðáttumikla, ógirta land nýttu sumir reykvískir fjáreigendur til haustbeitar og á sauðfjárstríðsárunum byggðu tveir þeirra myndarleg fjárhús þar, fluttu þangað féð ásamt nokkrum öðrum, aðallega úr gömlu Fjárborg, og höfðu fé sitt þar líka á sumrin. Þeir síðustu sem það gerðu voru reyndar úr Kópavogi og Hafnarfirði, fram yfir 1990, þegar mest allur Reykjanesskaginn var beitarfriðaður.”

Hafravatnsrétt

Skilti við Hafravatnsrétt.

Skilti við Hafravatnsrétt stendur m.a.:
“Um aldamótin 1900 var Hafravatnsrétt hlaðin og leysti af hólmi fjárréttina í Árnakrók við Selvatn. Hingað var rekið fé af Mosfellsheiði og var hún skilarétt Mosfellinga fram eftir allri 20. öld.”

Í “Skrá um friðlýstar fornleifar 1990” segir um Þormóðsdal: “Hafravatnsrétt, hin gamla skilarétt við austurenda Hafravatns. Skjal undirritað 14.07.1988. Þinglýst 20.07.1988.”

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal – Tryggvi Einarsson Miðdal.
-Tíminn, 214. tbl. 26.09.1957, Hafravatnsrétt; rétt Reykjavíkurbarna – Guðni Þórðarson, bls. 7.
-Vísir, 218. tbl. 23.09.1964 – Í Hafravatnsrétt, bls. 3.
-Vísir, 215. tbl. 22.09.1965 – Hafravatnsrétt, bls. 3.
-Morgunblaðið, 208. tbl. 21.09.1982, Réttað í Hafravatnsrétt í síðasta sinn?, bls. 3.
-Bændablaðið, 23. tbl. 30.11.2017, Reykjavík er eina höfuðborgin í heiminum með fjárhúsahverfi, afrétt og löggskilarétt dr. Ólafur R. Dýrmundsson, bls. 36-37.
-Skrá um friðlýstar fornleifar 1990.
-https://www.ruv.is/frett/2020/07/07/sidasti-fjarbondinn-i-borginni-0

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.

Minna-Mosfell

Á Mosfelli bjó að sögn Egils sögu höfðinginn Grímur Svertingsson, kvæntur Þórdísi stjúpdóttur Egils Skalla-Grímssonar og bróðurdóttur. Egill fluttist þangað eftir dauða konu sinnar, varð gamall maður og síðast með öllu blindur.

Mosfell

Mosfellskirkja.

Sagan segir (297-98), að eitt sinn þegar Grímur var á Alþingi og Þórdís í seli sínu, skipaði Egill kveld eitt tveimur þrælum sínum að fylgja sér til laugar; þeir fengu honum hest. Menn sáu, að Egill tók með sér silfurkistur sínar, sem Aðalsteinn konungur hafði gefið honum, og fór ásamt þrælunum niður túnið og hvarf bak við hæð sem þar er. Næsta morgun sáu menn að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan túnið (eiginlega; gerðið) og teymdi hestinn.

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

Menn fylgdu honum heim; hann sagði að hann hefði drepið þrælana og falið kisturnar, en meira sagði hann engum. Margar ágiskanir komu síðar fram, segir sagan, hvar Egill hefði falið fé sitt. Austan við túnið á Mosfelli liggur gil mikið niður úr fjallinu; þar hafa fundist enskir peningar, er hljóp úr gilinu eftir mikla leysingu; því giska sumir á þann stað. Fyrir neðan túnið á Mosfelli eru stór og mjög djúp fen, og halda margir, að Egill hafi kastað þar í fé sínu. Sunnan við ána eru “laugar” og skammt frá djúpar jarðholur, og ætla sumir, að þar hafi Egill falið fé sitt, því oft hefur sést þar haugaeldur.

Kýrgil

Tóft í Kýrgili.

Margir hafa velt fyrir sér hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og auðvitað er það vafamál. Giskað hefur verið á (Magnús Grímsson prestur á Mosfelli hefur skrifað ritgerð; “Athugasemdir við Egils sögu Skallagrímssonar”, er hún í Safni til sögu Íslands II. Er stuðst við frásögn hans í lýsingunni hér á staðháttum í Mosfellsdalnum), að Egill hafi fyrst farið venjulega leið til laugar og þegar hann á heimleið hafi komið að “jarðholnum” við ána, hafi hann kastað kistunum þar niður og ef til vill múta þrælunum til að þegja og síðan haldið ferð áfram, þar til hann kom að Köldukvísl, en síðan farið upp eftir árbakkanum, milli hennar og mýrarinnar blautu, sem fyrr er nefnd, þar til niðurinn í Kýrgilinu heyrist; þar er um það bil niður af Minna-Mosfelli mikill og djúpur forarpyttur, er nefnist Þrælapyttur, og segja munnmæli, að þar hafi þrælarnir fundist – en ekki er það nefnt í sögunni. Hafi Egill drepið þrælana þarna, hefur hann auðveldlega getað komist þaðan að gilinu – er þá gert ráð fyrir, að vatn hafi verið í því – og síðan upp með því.

Sjá meira HÉR.

Bjarki Bjarnason

Bjarki Bjarnason.

Vefsíðuritari FERLIRs sendi Bjarka Bjarnasyni, hinum mætasta vísi Mosfellinga, eftirfarandi fyrirspurn:

“Sæll Bjarki;
Getur þú bent mér á hvar örnefnið „Þrælapyttur“ er í landi Minna-Mosfells?”

Bjarki svaraði:
“Sæll og blessaður.
Já, ég kannast vel við örnefnið en heyrði það þó ekki í mínum uppvexti á Mosfelli. Kynntist því ekki fyrr en ég las það í heimildum eftir að ég komst til vits og ára.
Séra Magnús Grímsson, sem var prestur á Mosfelli 1855-1860 skrifaði: “Þrælapyttur er á barði nálægt Kýrgili „… býsna stór og furðu djúpr, með forarleðju í botninum. …er mælt að þar hafi seinna fundist í þrælarnir, sem Egill drap, eða bein þeirra.”

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell. Tjörnin fyrrum, áður en hún var framræst.

Staðsetning Þrælapytts virðist hafa verið ljós á tímum séra Magnúsar en síðan virðist fjara undan því og það einfaldlega týnst. Ég hafði samband við Sigurð Skarphéðinsson (f. 1939) sem er alinn upp á Minna-Mosfelli. Hann kannaðist ekki við örnefnið þannig að það virðist ekki hafa verið lifandi í munni manna, amk. eftir miðja síðustu öld.

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell. Fyrrum tjarnarstæði “Þrælapytts”,

Hinsvegar sagði Sigurður mér þá sögu að fyrir neðan bæinn á Minna-Mosfelli hafi verið hringlaga og nafnlaus tjörn, 5-8 metrar í þvermál. Var haft á orði að silfur Egils væri fólgið þar.
Þegar tjörnin var ræst fram var fylgst vel með því hvort einhver ummerki um silfrið kæmu í ljós.”

Vefsíðuritari fór í framhaldinu á vettvang og knúði dyra hjá Bjarka og þakkaði honum svarið. Hann hafði greinilega haft fyrir því að grúska bæði í minni og gömlum heimildum, auk þess sem hann hafi leitað til annarra er gerst þekkja til staðhátta. Í samræðum kom fram að landshagir væru verulega breyttir frá því sem áður var. Í stað mýra neðan bæjanna á Mosfelli væru nú gróin tún. Engin þekkt vilpa, sem ætti við lýsingu Magnúsar, sem var prestur á Mosfelli í fimm ár, væri nú á bökkum Kýrgils, enda væru þar nú engin mýrardrög. Benti Bjarki á fyrrnefndan Sigurð, sem væri einstök sagnarkista og byggi nú þar skammt austar við Minna-Mosfell, á bæ nefndum Sigtún.

Kýrgil

Tóft í Kýrgili.

Ritari heimsótti Sigurð, vingjarnlegan eldri mann. Hann sagðist vel muna eftir pyttinum djúpa beint niður af Minna-Mosfelli þar sem hann var uppalinn. Líkt og Bjarki sagði hann umhverfið neðan Mosfells, sem börnin frá Hrísbrú vildu nefna Hrísbrúarfjall, væri mikið breytt frá því sem áður var. Í stað mýranna væru nú komin framræst tún. Einhvern tíma hafi hann minnst jarðfræðing segja frá því að neðanjarðará, aðra en Kaldá, rynni um dalinn. A.m.k. hafi hann fyrrum jafnan sótt rennandi vatn í vilpu neðst í honum. Vilpuna þá lagði aldrei, jafnvel í miklum frostum. Þegar miklir þurrkar urðu á níunda áratug síðustu aldar og flestir lækir þornuðu upp, var alltaf hægt að sækja vatn í vilpuna. En þetta er nú útúrdúr.

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell; Þrælapyttur – loftmynd.

Sigurður sagði að beint niður af bænum Minna-Mosfelli hafi verið fyrrnefnd tjörn í mýrinni. Orð hafi verið haft á að þar hafi þrælarnir, er getið er um í Egils-sögu, fundist. Tjörnin hafi verið ræst fram fyrir mörgum árum og sést frárennslisskurðurinn vel. Nú hafi verið grafin rotþró frá bænum skammt austan við tjarnarstæðið. Í hans minni hafi þetta verið eina vilpan á þessu svæði, í hvarfi frá Hrísbrú, þar sem hóllinn, sem Mosfellskirkja stendur nú á – er getið um í Egils-sögu.
Sigurður vildi þó ekki bera ábyrgð á að um sömu vilpu væri að ræða og séra Magnús skrifaði um á sínum tíma.
Frábært veður.

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

Hrísbrú

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kristian kålund

P.E. Kristian Kålund.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Kjósarsýsla – Egill Skalla-Grímsson

Kålund

Rit Kålunds.

Kjósarsýsla hefur allt annað yfirbragð en Gullbringusýsla, og inn í hana liggur leiðin af Seltjarnarnesi. Þegar komið er yfir Elliðaár, blasir við mikill hluti Mosfellssveitar; eru þar einnig grýtt holt og ógrónir melar, en mestur hluti landsins er þó grösugur, sums staðar þýfðar mýrar eða engjadrög, en bæir með græn tún liggja dreift þar sem hærra er og þurrara, en smáfjöll og hæðir skipta bygðinni í daladrög og smábyggðir. Í fiskibyggðum er algengt, að bæir og hús standi saman í þyrpingum næstum eins og sveitaþorp í Danmörku, en upp til landsins er annar háttur á; aðeins hér og þar má sjá stóran bæ, þar sem landi hefur verið skipt og mynduð svokölluð hverfi eða þorp, heldur liggur hver bær venjulega út af fyrir sig mitt í landareign sinni.

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

En tvímælalaust er Mosfellsdalurinn, sem liggur nyrst, merkilegastur dalur í Mosfellssveit. Hann er þeirra stærstur og einnig merkilegur sögulega, því að þar dvaldist Egill Skalla-Grímsson síðustu æviár sín. Hann nær upp frá Leirvognum frá vestri til austurs. Norðan við hann er Mosfell, aflangt hvelft fjall, liggur í sömu stefnu og dalurinn, og hallast jafnt niður til austurs, nær í fremur lága heiði. Undir eða í suðurbrekku Mosfells eru þrír bæir, Hrísbrú, Mosfell og Minna-Mosfell. –

Mosfell

Mosfell.

Mosfell er myndarlegur bær, prestsetur og kirkjustaður, í miðið, Minna Mosfell. Á Mosfelli bjó að sögn Egils sögu höfðinginn Grímur Svertingsson, kvæntur Þórdísi stjúpdóttur Egils Skalla-Grímssonar og bróðurdóttur. Egill fluttist þangað eftir dauða konu sinnar, varð gamall maður og síðast með öllu blindur.
Sagan segir (297-98), að eitt sinn þegar Grímur var á Alþingi og Þórdís í seli sínu, skipaði Egill kveld eitt tveimur þrælum sínum að fylgja sér til laugar; þeir fengu honum hest. Menn sáu, að

Mosfell

Mosfell 2024.

Egill tók með sér silfurkistur sínar, sem Aðalsteinn konungur hafði gefið honum, og fór ásamt þrælunum niður túnið og hvarf bak við hæð sem þar er. Næsta morgun sáu menn að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan túnið (eiginlega; gerðið) og teymdi hestinn. Menn fylgdu honum heim; hann sagði að hann hefði drepið þrælana og falið kisturnar, en meira sagði hann engum. Margar ágiskanir komu síðar fram, segir sagan, hvar Egill hefði falið fé sitt. Austan við túnið á Mosfelli liggur gil mikið niður úr fjallinu; þar hafa fundist enskir peningar, er hljóp úr gilinu eftir mikla leysingu; því giska sumir á þann stað. Fyrir neðan túnið á Mosfelli eru stór og mjög djúp fen, og halda margir, að Egill hafi kastað þar í fé sínu. Sunnan við ána eru “laugar” og skammt frá djúpar jarðholur, og ætla sumir, að þar hafi Egill falið fé sitt, því oft hefur sést þar haugaeldur. Egill lést skömmu síðar og var fluttur niður í Tjaldarnes og orpinn haugur yfir hann. En þegar Grímur á Mosfelli var skírður, lét hann reisa þar kirkju (þ.e. á Mosfelli).

Egill Skalla-Grímsson

Gröf Egils Skalla-Grímssonar.

Er sagt, að Þórdís hafi þá látið flytja bein Egils til kirkjunnar. Til þess bendir, “að síðan er kirkja var gerð á Mosfelli, en ofan tekin á Hrísbrú sú kirkja, er Grímur hafði gera látið, þá var þar grafinn kirkjugarður”, og þá fundust undir altarinu mjög stór mannabein, sem að sögn gamalla manna voru bein Egils. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarðinum á Mosfelli. (Eg.s. 298-99). Meðal þeirra sem voru viðstaddir þegar þetta gerðist nefnir sagan Skafta prest Þórarinsson, en hann er telinn sá sem nefndur er lifandi árið 1143, og hafa menn því ætlað að kirkjan hafi verið flutt um miðja 12. öld.

Samkvæmt Gunnlaugs sögu (61) bjó höfðinginn Önundur nokkru síðar á Mosfelli, sem hafði goðorð “suður um nesin”, sonur hans var Hrafn, er fær að konu Helgu hinnar fögru í fjarveru sambiðils síns, Gunnlaugs ormstungu. Eftir að Gunnlaugur og Hrafn höfðu fellt hvor annan í hólmgöngu í Noregi, ríður Illugi, faðir Gunnlaugs með 30 menn til Mosfells. Önundur og synir hans komust í kirkju, en Illugi náði tveimur frændum hans og lét drepa anna, en fóthöggva hinn (Gunnlaugs saga 105).

Kýrgil

Kýrgil – uppdráttur ÓSÁ.

Sjá má á frásögn Egils sögu, að kirkja sú er Grímur reisti, hefur staðið við Hrísbrú, en hún hefur ekki getað verið sjálfstæð jörð, því sagan segir, að kirkjan hafi verið á Mosfelli, en segir sjálf síðar, að hún hafi verið að Hrísbrú. Í samræmi við þetta er það, að rétt við bæinn Hrísbrú nokkur skref til útnorðurs, er hóll, Kirkjuhóll, þar sem gamla kirkjan á að hafa staðið. En bærinn hlýtur næstum að hafa staðið þar sem kirkjan var upphaflega reist. Svo sem áður hefur verið tekið fram, má það heita föst reglu á íslenskum kirkjustöðum, að kirkjan er upphaflega sett annaðhvort gagnvart eða fast við bæjarhús, fyrirkomulag sem var mjög hagkvæmt, svo sem sjá má af tilvitnunni í Gunnlaugs sögu, að kirkjuna mátti nota sem nokkurn veginn öruggt hæli, ef óvinir sóttu að.

Hrísbrú

Hrísbrú – túnakort 1916.

Ekkert er það heldur sem mælir á mót, að bærinn á Mosfelli hafi upphaflega staðið þar sem Hrísbrú er nú, og þessi staður hefði vel getað þótt heppilegastur fyrir fyrsta ábúanda; hér er fjallshlíðin hæst og graslendið breiðast þaðan og fram að mýrinni, og miðað við þann mikla búrekstur sem einkenndi höfuðbólin í fornöld er ekkert óeðlilegt að hugsa sér, að túnið hafi náð langt austur á við og jafnvel yfir tún Mosfells og Minna-Mosfells. Bærinn hefur auðvitað ekki breytt um nafn, þó að hann væri fluttur, aftur á móti hlaut bærinn, sem byggður var úr Mosfells landi og reistur var annað hvort samstundis eða síðar á gamla bæjarstæðinu, að fá nýtt nafn, og það kann að hafa legið beint við, þar sem Hrísbrú var, því að bærinn hefur verið nefndur eftir vegi, sem var lagður hrísi, og kann að hafa verið þess ærinn þörf á leið yfir mýrina fyrir neðan bæinn.

Kýrgil

Tóft í Kýrgili.

Gilið sem sagan minnist á, þar sem Egill kynni að hafa falið fé sitt, er vafalaust Kýrgil, sem svo er nefnt; það liggur austan túns á Minna-Mosfelli; þar nær efst ofan úr fjalli niður í rætur og er alldjúpt, og rennur lítill lækur eftir botni þess. Auk þess eru tvö önnur gil, en miklu minni, í fjallinu milli Hrísbrúar og Mosfells.
Margir hafa velt fyrir sér hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og auðvitað er það vafamál. Giskað hefur verið á (Magnús Grímsson prestur á Mosfelli hefur skrifað ritgerð; “Athugasemdir við Egils sögu Skallagrímssonar”, er hún í Safni til sögu Íslands II. Er stuðst við frásögn hans í lýsingunni hér á staðháttum í Mosfellsdalnum), að Egill hafi fyrst farið venjulega leið til laugar og þegar hann á heimleið hafi komið að “jarðholnum” við ána, hafi hann kastað kistunum þar niður og ef til vill múta þrælunum til að þegja og síðan haldið ferð áfram, þar til hann kom að Köldukvísl, en síðan farið upp eftir árbakkanum, milli hennar og mýrarinnar blautu, sem fyrr er nefnd, þar til niðurinn í Kýrgilinu heyrist.

Minna-Mosfell

Minna-Mosfell. Fyrrum tjarnarstæði “Þrælapytts”,

Þar er um það bil niður af Minna-Mosfelli mikill og djúpur forarpyttur, er nefnist Þrælapyttur, og segja munnmæli, að þar hafi þrælarnir fundist – en ekki er það nefnt í sögunni. Hafi Egill drepið þrælana þarna, hefur hann auðveldlega getað komist þaðan að gilinu – er þá gert ráð fyrir, að vatn hafi verið í því – og síðan upp með því.
Sjá meira um Kýrgil og Þrælapytt HÉR.
Jón Ólafsson frá Grunnavík segir svo frá í stuttri íslenski ritgerð um fornminjar fundnar víðs vegar á Íslandi utan hauga” (Addit, 44 fol.), að Erlendur bróðir hans – sýslumaður í Ísafjarðarsýslu – hefði sagt honum, að um 1725 þegar hann var á unga aldri var í þjónustu skólameistara í Skálholti, hefðu eitt sinn nokkru af földu fé Egils skolað fram í vatnavöxtum; hefðu um 3 peningar fundist, hefði hann séð einn þeirra og hefði hann verið á stærð sem tískildingur (“tískildingr heill vorra tíma”); á honum hefði verið ógreinileg áletrun ef til vill ANSLAFR eða eitthvað þess háttar. Magnús Grímsson greinir frá munnmælum um, að fátækur bóndi eigi að hafa fundið fé Egils í Kýrgili, leynt fundinum, en allt að einu orðið auðugur maður.

Hrísbrúarsel

Hrísbrúarsel ofan við Selás.

Ekki er ljóst, hvar selið hefur verið þar sem Þórdís dvaldist, meðan Egill kom áformi sínu fram. Norðan við Mosfell er dálítið hæðardrag, sem heitir Selás, og telja flestir að þar sé staðurinn. Nú eru selfarir sjaldgæfar á Íslandi, til þeirra þarf mikinn mannafla, en áhöfn sjaldan svo stór, að slíkt borgi sig. Mosfell er þó einn þeirra bæja, þar sem það hefur jafnan verið stundað, en á síðari tímum hefur seljalandið verið í hallanum í Mosfellsheiði niður í Mosfellsdalinn, þar sem heita Gullbringur.

Egill Skalla-Grímsson

Höfuðkúpa Egils Skalla-Grímssonar?

Örnefnið Tjaldanes þekkist nú ekki, en lítill oddi, Víðiroddi (eftir nafni slétturnar Víðir), er þar sem árnar tvær renna saman, um 7-800 faðma suðvestan við Hrísbrú; liggur þarna yfir alfaraleið meðfram Köldukvísl, en einmitt oddinn á á vera áfangastaður sá sem nafnið Tjaldanes bendir á, og orð sögunnar “ofan í Tjaldanes” eiga vel við staðinn; í oddanum er lítil hæð, sem gæti verið leifar af haug. Staðurinn er fallegur, og ef Egill hefur verið jarðsettur þar, hefur sannarlega verið vel valið.”

Í “Skráning fornleifa í Mosfellsbæ” 2006 segir m.a. um Hrísbrú:
“Í Örnefnalýsingu Hrísbrúar getur um stæði kirkjunnar, sem þar var talin hafa verið: „Vestur af bæ er stór hóll, sem heitir Kirkjuhóll. Hann er norðvestur frá bæ; þar stóð kirkjan áður fyrr, og kirkjugarður var hér ofan við tröðina“ (Ari Gíslason). Svo segir Magnús Grímsson: „Þess er þegar getið, að þegar kristni var í lög leidd á Íslandi var Grímr að Mosfelli skírðr, og lét þar kirkju gjöra. En sú kirkja stóð á Hrísbrú. Er eptir því alllíklegt, að bær Gríms, sem þá var hinn eini undir fellinu, hafi staðið þar, sem Hrísbrú er nú, og skal þar um tala síðar betr. Grímr hefir byggt sína kirkju eptir árið 1000, líklega stuttu eptir, en hún stóð á sama stað þángað til í tíð Skapta prests Þórarinssonar, eðr þángað til um miðja tólftu öld. Þessi Skapti prestr Þórarinsson er að ætlan manna sá, sem talinn er meðal nokkurra presta, kynborinna íslenzkra, er uppi voru árið 1143. Og í formálanum fyrir Egils sögu (Rvík 1856, vi bls.) byggir Jón Þorkelsson á því þá ætlan sína, að kirkjuflutningurinn hafi farið fram einhvern tíma á árunum 1130-1160. Hefir því kirkjan staðið á Hrísbrú hérumbil … 150 ár“ (bls. 255). Talsverðar vangaveltur eru um hvar hinn fyrsti bær að Mosfelli hafi staðið. Kålund álítur að hann hafi upphaflega staðið á Hrísbrú ásamt kirkjunni. Síðan hafi bærinn verið fluttur að Mosfelli og kirkjan á eftir (Kålund, bls. 50). Sigurður Vigfússon ræðir þetta mál einnig en kemst að annarri niður-stöðu en Kålund. Álítur hann frásögn Egils sögu um kirkju á Hrísbrú, sem seinna var flutt að Mosfelli, rétta. Um bæjarflutning og þar með nafnbreytingu var ekki að ræða. Álítur Sigurður að kirkjan á Hrísbrú hafi verið flutt að Mosfelli á árabilinu 1130-1160 (Sigurður Vigfússon, bls. 62-74). Í útgáfu sinni að Egils sögu telur Sigurður Nordal líklegast að kirkjan hafi fyrst verið byggð fjarri bænum að Mosfelli en seinna verið flutt að bænum og hjáleigan Hrísbrú byggð á gamla kirkjustaðnum (Egils saga, bls. 298 n.m.).

Hrísbrú

Uppgröftur á Hrísbrú.

Sunnan við Köldukvísl er hluti af stykki því, sem nefnt er Víðir og er í eigu Hrísbrúar. Neðsti oddinn á Víðinum nefnist Tjaldanes en á nesi því var Egill Skalla-Grímsson heygður (Ari Gíslason). Haugurinn liggur fast við ána (Köldukvísl) að sunnanverðu, um 100 m frá oddanum, þar sem Suðurá og Kaldakvísl mætast. Um 50 m neðan (N) þjóðvegarins upp Mosfellsdal. Haugurinn er um 7,70 m langur í vestur og um 5 m í norður. Hann er á árbakkanum og sýnilegt er að áin hefur brotið talsvert af honum. Auðsætt er, að haugurinn hefur einhvern tíma náð talsvert lengra í norður, eða alveg að farveg árinnar nú. Upphafleg stærð hans hefur mjög líklega verið um 7,70 m í norður og vestur, sem jafnframt hefur verið þvermál hans í báðar áttir.

Víðir

Víðirinn – gröf Egils.

Enn sést greinilega að haugur þessi, sem svo er kallaður, hefur verið hringlaga. Sker hann sig vel frá umhverfinu og sést nokkuð langt að, sjái maður oddann á annað borð. Haugurinn er hæstur um miðjuna um 0,5 m, en er aflíðandi í suður. Norðan miðju er hann mikið skemmdur, örugglega af vatnagangi árinnar, sem framhjá rennur. Fáeinar þúfnamyndanir eru utan á haugnum. Til að sjá er haugurinn eins og lág bunga eða upphækkun fremst á bakka Köldukvíslar. Nú er girðing yfir hann endilangan frá austri til vesturs. Land það, sem hann stendur á er nú notað til hestabeitar og er allt afgirt. Haugurinn er líkastur því, sem um náttúrumyndun sé að ræða, en skal þó ekkert fullyrt í þeim efnum. Engar hleðslur eru heldur sjáanlegar þar. Um 14 m sunnan við hauginn eru undirstöður stálgrindahúss eða bragga. Vestan við haug þennan er smáþýfi, um 20-50 m, og eilítið grænna. Líklega er þetta svona frá náttúrunnar hendi, e.t.v. getur lítil tóft eða tóftir leynst þarna þótt ótrúlegt sé (Ágúst Ó. Georgsson). Í Víðisoddanum er sagt að verið hafi áningarstaður ferðamanna fyrr á tímum.”

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 31-37.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Helgafell

Í Mosfellsblaðiðnu árið 2001 er m.a. fjallað um “Fornleifaskráningu í Mosfellsbæ“, s.s. Hraðaleiði, Hafravatnsrétt o.fl. Auk þess má þar lesa um Æsuleiði.

Mosfellsbær

Mosfellsbær – bæjarmerkið: Höf. Kristín Þorkelsdóttir – TÁKN;  A) Tilvísun til silfurs Egils Skallagrímssonar Dóttir Egils, Þórdís, bjó að Mosfelli og dvaldi hann hjá henni síðustu árin. Í nágrenni Mosfells á Egill að hafa falið silfursjóð sem Aðalsteinn hinn sigursæli Englakonungur gaf honum. Táknið er stílfærð mynd af þremur skjöldum sem prýddu bakhlið penings sem var í umferð á tíma Aðalsteins hins sigursæla. B) Þrír skildir fléttast saman og mynda samstöðu, sbr. þrjá byggðarkjarna fyrrum Mosfellshrepps: Mosfellsdalur, Reykjahverfi og „niðursveitin“.

“Á síðasta ári gerðu Mosfellsbær og Þjóðminjasafn Íslands með sér samning um skráningu fornleifa í landi Mosfellsbæjar. Skráningin er unnin í tengslum við vinnu við aðalskipulag bæjarins. Samkvæmt Þjóðminjalögum er skylt að skrá fornleifar á skipulagsskyldum Jarðatali J. Johnsens frá 1847. Samkvæmt Jarðatalinu voru 25 jarðir innan þess svæðis sem tilheyrir Mosfellsbæ í dag.
HafravatnsréttJörðum hefur verið skipt upp og aðrar sameinaðar á þeim tíma sem liðinn er frá 1847. Sem dæmi má nefna jörðina Seljabrekku sem ekki verður tekin svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess. Eitt af markmiðum fornleifaskráningar er að sporna við því að minjar verði fyrir skemmdum af gáleysi eða að nauðsynjalausu.

Fornleifaskráning kemur að notum í minjavörslu þegar ákvarðanir eru teknar um aðgerðir til verndar einstökum minjastöðum eða minjasvæðum. Auk þess kemur hún að gagni í rannsóknum og kynningu. Það er einnig hagur þeirra sem stýra hvers konar framkvæmdum að eiga aðgang að yfírliti um fornleifar á tilteknu svæði. Segja má að við það vinnist tvennt. Unnt er að taka tillit til minjanna við skipulagsvinnu og nýta þær til að varðveita sögu staðarins í landslaginu. Einnig má minnka stórlega líkur á að finnist, öllum að óvörum, fornleifar sem nauðsynlegt verður að rannsaka. Auk kostnaðar við fornleifarannsóknir geta tafir á framkvæmdum haft mikinn kostnað í för með sér.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt 2022.

Skráning fornleifa í Mosfellsbæ hófst árið 1980. Þetta var fyrsta skrá sinnar tegundar sem gerð var á Íslandi. Vinnubrögð við fornleifaskráningu hafa breyst mikið á þeim tíma sem liðinn er frá því að skráningin fór fram árið 1980 þó svo að hún standi ennþá vel fyrir sínu og verði notuð sem grunnur fyrir þá vinnu sem nú er hafin. Í fornleifaskráningu Þjóðminjasafns Íslands eru minjar skráðar í nýtt skráningarkerfi sem fengið hefur nafnið Sarpur. Fornleifar eru flokkaðar eftir jörðum og miðað bæði við opinbera fasteignaskrá og jarðaskiptingu eins og hún kemur fyrir í sem sérstök jörð í fornleifaskráningunni því árið 1847 tilheyrði hún landi Mosfells. Mannvirki sem eru 100 ára eða eldri eru skilgreind sem fornleifar. Því er eðlilegt að miða fornleifaskrána við jarðaskiptingu eins og hún var fyrir rúmum 100 árum.

Hraðaleiði

Hraðaleiði.

Það eru ekki einungis leifar mannvirkja sem orðnar eru eldri en 100 ára sem eru skráðar. Þannig eru stríðsminjar teknar með í þessari skráningu. Og skráningin nær einnig út fyrir eiginleg mannvirki svo sem til álagabletta og annarra staða og kennileita sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnarhefð.

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

Vinnu við fornleifaskráningu má í stórum dráttum skipta í tvennt. Fyrri áfanginn felur í sér gagnaöflun. Farið er í gegnum ritaðar heimildir, bækur er fjalla um sögu svæðisins, jarðabækur, fornbréfasafn, örnefnalýsingar, túnakort o.fl. Allt er tínt til sem gæti bent til fornleifa. Örnefni geta t.d. falið í sér vísbendingu um að þar hafi staðið mannvirki.
Í Mosfellbæ eru til mörg slík örnefni, t.d. Rögnvaldarstekkur, Stekkjarmýri, Miðdalskot, Kvíaból, Keldnasel, Rikkudys, Reykjalaug, Skólavarða, Jónssel, Markasteinn, Skiphóll, Hraðaleiði, Lambalækur, Móholt, Blikastaðavað og Hafravatnsrétt. Þessum fyrri áfanga fornleifaskráningarinnar í Mosfellsbæ er nú lokið. Heimildum hefur verið safnað um 626 fornleifar í landi bæjarins. Í síðari áfanganum felst að farið er á vettvang og athugað hvort enn finnist leifar þeirra mannvirkja sem gagnasöfnunin leiddi í ljós að verið hefðu á svæðinu i eina tíð.

Nessel

Nessel.

Ástand fornleifanna er metið og staðsetning þeirra færð inn á kort. Vettvangsvinnan verður unnin í sumar. Gefin verður út skýrsla með skrá yfir allar fornleifar í Mosfellsbæ. Eins og áður segir er fornleifaskráningin unnin í tengslum við vinnu við aðalskipulag bæjarins. Vonandi verður fornleifaskráin þó gefin út þannig að hún verði öllum aðgengileg. Vönduð útgáfa fornleifaskráningar í Mosfellsbæ ætti að geta nýst mjög mörgum, t.d. fræðimönnum til rannsóknarstarfa, skólar bæjarins geta unnið verkefni upp úr henni fyrir nemendur sína, bæjaryfirvöld geta notað hana í kynningu bæjarins út á við og síðast en síst getur fólk sem nýtur útivistar í bæjarfélaginu kryddað göngutúra og reiðtúra með fróðleik úr henni um umhverfi sitt.

Æsuleiði

Æsuleiði – Bjarki Bjarnason stendur á leiðinu.

Þegar farið er að glugga í gamlar heimildir er ótrúlega margt sem kemur á óvart og aðeins virðist á fárra vitorði. Þessu til staðfestingar skulu tekin hér nokkur dæmi úr áfangaskýrslu Þjóðminjasafns Íslands. Býlið Hamrahlíð var við rætur samnefndrar hlíðar og mun hafa staðið fyrir neðan veginn á móts við hlið á girðingu Skógræktarfélags Mosfellssveitar. Var hjáleiga frá Blikastöðum. Byggð um 1850 og búið á henni að minnsta kosti til 1890. Rústir býlisins sást enn. Um 150 m norðnorðaustan bæjarins á Helgafelli er í brekkunni hóllinn Hjálmur. Sagnir eru um að í Hjálmi væri bústaður álfa.

Hamrahlíð

Fornleifauppgröftur í Hamrahlíð.

Á landamerkjum Mosfells og Hraðastaða um 20-30 m norðan við Köldukvísl er hóll sem nefndur hefur verið Hraðaleiði. Í Lýsingu Mosfells- og Gufunessóknar frá 1855 segir: Það er mælt, að Hraði hafi verið þræll í fornöld, er hafí fengið frelsi, og hafi hann þá reist bæ sinn þar, er enn kallast Hraðastaðir, og sé þessi haugur yfir hann orpinn og við hann kenndur.
Í Bjarnavatni, þar sem Varmá á upptök sín, segir þjóðsagan að búið hafi nykur. Nykur var talin vera skepna af öðrum heimi og líktist hesti, steingráum. Þessa skepnu mátti vart þekkja frá hesti nema á hófunum sem snéru öfugt.

Bjarnarvatn

Bjarnarvatn.

Nykrar höfðu þá ónáttúru að ef maður settist á bak límdist maður við bakið og skepnan stormaði beint í vatnið sitt og heimkynni með mann á baki og voru það hans endalok.
Brauðhver var austast í landi garðyrkjubýlisins Bjargs við Skammadalsveg. Eins og nafnið ber með sér var bakað í honum brauð. Á Suður-Reykjum var kirkja. Ekki er vitað hvar kirkjan stóð en talið er að hún hafi verið austan og sunnan við núverandi íbúðarhús Jóns M. Guðmundssonar. Kirkjunnar er fyrst getið í máldaga Þorláks biskups Þórhallssonar frá um 1180. Hún var lögð af með konungsbréfi 1765.

Helgusel

Helgusel.

Norðan undir Grímmannsfelli, undir hárri og fagurri brekku niðri við Köldukvísl, á norðurbakka hennar, eru rústir hins svo kallaða Helgusels. Sagt er að Helga, dóttir Bárðar Snæfellsáss, hafi hafst þar við um hríð og við hana sé selið kennt.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.

Innan Mosfellsbæjar eru friðlýstar fornleifar á fjórum stöðum. Hafravatnsrétt er þar á meðal. Í þjóðminjalögum stendur m.a.: Friðlýstar fornleifar skal þinglýsa sem kvöð á landareign þá sem í hlut á. Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Því miður hefur Hafravatnsrétt ekki notið þeirrar friðhelgi sem lögin kveða á um. Eins og sést á þeim tveimur myndum af réttinni sem fylgja þessari grein þá hefur hún látið mikið á sjá á síðustu 20 árum. Nauðsynlegt er að ráðist verði í viðgerð á réttinni sem fyrst svo að hún fái aftur það tignarlega útlit sem hún hafði áður.” – Agnes Stefánsdóttir og Kristinn Magnússon, fornleifafræðingar.

Í Selfossi í desember 2014, er m.a. fjallað um Hraðastaði og sýnd mynd af bænum.

Hraðastaðir

Hraðastaðir fyrrum.

“Síðasta bæjarmynd reyndist vera af Hraðastöðum í Mosfellssveit (Mosfellsbæ). Guðbrandur Jóhannesson segist hafa alist upp á bænum og þar búa foreldrar hans núna. Eins og sjá má er ekki komið rafmagn í bæinn þegar myndin er tekin. Auk húss er fjós og hlaða á myndinni. Gamla bæinn vildi heimafólk gefa sveitarfélaginu en það þáði ekki. Morgunblaðið segir frá þvi 10. desember 1988 en þá leit bærinn út eins og þessi mynd ber með sér. Fyrirsögnin var: Sögulegt gildi Hraðastaða ekki talið vera 3 m. kr. virði – segir Páll Guðjónsson bæjarstjóri. Það var sem sé talið að það myndi kosta þetta mikið að endurbyggja.

Mosfell

Mosfell 2024.

Sigurður Vigfússon rannsakar fornleifar í Borgarfirði 1884 og segir um Hraðastaði í Árbók fornleifafélagsins 1884: Hraðastaðir sýnast vera landnámsjörð og snemma bygðir; eru þeir líklega kenndir við Hraða þann, er Landn. nefnir bls. 53, sem fyrr segir. Hraðastaðir eru fyrir sunnan ána, er rennur fyrir sunnan Mosfell, enn standa nokkuð ofar undir Grímmannsfelli (Grrímarsfelli réttara). Skammt fyrir neðan Hraðastaði, suður viðs yðri ána, er dálítill hóll, sem kallaður er Hraðaleiði. Hraðablettur er og kallaðr fyrir ofan Hraðastaði upp með Grímmannsfelli.”

Egill Skalla-Grímsson

Gröf Egils Skalla-Grímssonar.

Í Alþýðublaðinu í maí 1964 fjallar Ragnar Lár m.a. um Æsu og Hraða, auk Egils Skallagrímsson:
“Mörg vötn hafa runnið til sjávar síðan, en dalurinn er sjálfum sér líkur, þó nokkuð hafi hann að sjálfsögðu breytt um svip, með tilkomu nýrra bygginga og ræktunarframkvæmda. Hér stendur Mosfell þar sem Egill Skallagrímsson lifði seinustu ár ævi sinnar og í þessum dal er gullið hans fólgið, en hvar, veit enginn.
Þarna eru Æsustaðir, en þar bjó Æsa, tröllkona, forðum, og sér ennþá móta fyrir leiði hennar í túninu. Æsa lézt af sárum, er hún hlaut í bardaga við Hlaðgerði í Hlaðgerðarkoti, en þær áttu í erjum og gengu loks hvor af annarri dauðri í bardaga. — Nú er mæðraheimili í Hlaðgerðarkoti, en þar koma mæður á sumrin til að hvíla sig, en heimilið er rekið af Mæðrastyrksnefnd. Þarna eru Hraðastaðir, en þar bjó Hraði sá, er þræll var — en fékk land og frelsi.

Æsustaðir

Æsustaðir.

Fyrir nokkrum áratugum var kirkja lögð niður að Mosfelli, en flutt að Lágafelli. Þetta þótti mörgum miður og þá sérstaklega „dalbúum,” enda sjónarsviptir fyrir þá. Einn bóndinn í dalnum gerði sér lítis fyrir og náði í kirkjuklukkuna og kvaðst ætla að varðveita hana, þar til kirkja yrði reist á Mosfelli að nýju.
Þegar við ökum í borgina á ný, og virðum fyrir okkur þéttbýli sveitarinnar kemur okkur í huga hversu langt þess verði að bíða að engin Mosfellssveit verði til lengur — aðeins Reykjavík. En nú þegar hefur hún teygt umráðasvæði sitt upp að Korpúlfsstöðum, en sú var tíðin að Mosfellssveit átti land niður að Elliðaám.”

Biskupsklettur

Biskupsklettur í Skammadal.

Í Dagblaðinu Vísir í júní 1986 er “Gengið á Helgafellið að austanverðu”. Þar er m.a. getið um hólinn Hjálm á Helgafelli og Biskupsklett í Skammadal.

Helgusel

Helgusel (Mosfellssel) í Bringum.

“Við höfum áður athugað gönguleiðina á Úlfarsfell og farið með fjörum í Mosfellssveitinni. Í dag skulum við stefna á „auðvelda” gönguleið og veljum Helgafellið. Á Íslandi eru mörg fjöll eða fell sem heita þessu nafni og þau eru hvert öðru lík. Helgafell í Mosfellssveit blasir við byggðinni og er freistandi að ganga á það og er það tiltölulega auðvelt.
Gott er að fara austur fyrir fellið og koma að því leiðina úr Mosfellsdalnum. Beygt er til suðurs af veginum þar sem fólk úr Reykjavík fer til þess að sinna kartöflugörðum sínum sem eru þarna á fellsöxlinni í litlu dalverpi. Takið fyrsta afleggjarann til hægri þegar ekið er austur Mosfellsdal.

Helgafell

Stekkur í Stekkjarmýri.

Þegar komið er upp er komið að svonefndum Stórhól sem er klettarani austur úr Helgafelli. Skarð er í fellið á þessu svæði en það skilur á milli hólsins og fellsins og heitir þar Stekkjarmýri. Síðan er haldið á fellið. Sé staldrað við og litið um öxl blasir við Skammidalur og eiga ýmsar jarðir þar land auk Helgafells. Að norðanverðu er Hlaðgerðarkot eða Reykjahlíð, eins og það er nú kallað. Þessi jörð er í eigu Reykjavíkurborgar. Þá koma Norður-Reykir sem eru í eigu Mosfellshrepps. Þar austur af er land Æsustaða og Æsustaðafell lokar dalnum að norðaustan og við tekur Vetrarmýrarháls. Þar mætast landamerki jarðanna Æsustaða, Suður-Reykja og Helgadals að hluta.

Mosfellsbær

Sæluhús við Moldarbrekkur.

Skammidalur er í raun tvískiptur í fremri og innri Skammadal. Klettur sá er dalnum skiptir heitir Biskupsklettur. Reykjabunga eða Reykjafell eins og margir kalla það, blasir við til suðurs en norðurhlíðar þessu eru brattar og grýttar. Biskupsklettur hefur ugglaust fengið nafn sitt af því að þar má greinilega sjá mannsmynd ef skoðað er frá gömlu mógröfunum á Reykjum sem eru í hinum svokallaða fremri Skammadal.
Er komið er upp á Helgafellið liggur svonefnd Langatorfa suður og ofan af því á móts við bæinn að Helgafelli.

Hrísbrú

Hrísbrúarklukka í Mosfellskirkju.

Að norðvestan er örnefnið Hjálmur við vesturhornið og Hjálmsmýri þar norður af. Norðan við fellið er skriða niður á jafnsléttu en þar tekur við gróinn mýrarfláki, sem heitir Langamýri og er sunnan þjóðvegarins, norðan Helgafells.
Útsýni af fellinu er ekki veruleg en þaðan sést byggðin í Mosfellssveit frá nýju sjónarhorni.
Leiðin vestur af og heim á leið blasir nú við og er auðveld og komið er niður í íbúðarhverfi þar sem götunöfnin enda á -fell.” – Unnið úr leiðarlýsingum eftir Jón M. Guðmundsson. -A.B.

Fleiri lýsingar af fornleifum og fornleifaskráningum í Mosfellsbæ eru að finna á vefsíðunni – ef grannt er skoðað…

Heimildir:
-Mosfellsblaðið, Fornleifaskráning í Mosfellsbæ, 6. tbl. 01.06.2001, bls. 15.
-Selfoss, 23. tbl., 04.12.2014, bls. 14.
-Alþýðublaðið, Dagstund í sveitasælu, Ragnar Lár, 109. tbl. 16.05.1964, bls. 4-5.
-Dagblaðið Vísir, Gengið á Helgafellið að austanverðu, 138. tbl. 21.06.1986, bls. 8.

Helgafell

Helgafell – örnefni.

Mosfellsbær

Við göngustíg bak við Þverholt 1 í Mosfellsbæ er upplýsingaskilti um “Reykjaveituna“, auk nokkra metra af leifum hans:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – Reykjaveita.

“Jarðhoti í Mosfellsbæ er einkum á tveimur lághitasvæðum, í Mosfellsdal og Reykjahverfi. Á Suður-Reykjum var íbúðarhús hitað upp með hveravatni í fyrsta skipti á Íslandi, árið 1908. Þar var einnig fyrsta upphitaða gróðurhús landsins reist, árið 1923.

Með vaxandi þéttbýli í Reykjavík á 20. öld jókst orkuþörfin og möguleikar voru kannaðir til að leita heitt vatn úr Mosfellssveit til borgarinnar. Hitaveituhjólin tóku að snúast árið 1933 þegar bormenn Íslands tóku til óspilltra málanna í Reykjahverfi og næstu 15 árin voru boraðar þar rúmlega 40 holur sem voru 135-721 metrar á dýpt með um 85 gráðu heitu vatni.

Á áttunda áratugnum vann Hitaveita Reykjavíkur að stórvirkum borunarframkvæmdum í Reykjahverfi. Urðu holurnar dýpri og á annað hundrað áður en yfir lauk. vatnsmagnið sjöfaldaðist og var nauðsynlegt að leggja nýjan hitaveitustokk til Reykjavíkur sem leysti þann gamla af hólmi.”

Mosfellsbær

Mosfellsbær; Reykjaveita – skilti.

Mosfellsbær

Við göngustíg bak við Þverholt 1 í Mosfellsbæ er upplýsingaskilti um “Hitaveitustokkinn“, auk nokkra metra af leifum hans:

Mosfellsbær

Hitaveitustokkurinn.

“Hér til hliðar má sjá hluta af hitaveitustokknum sem lagður var frá Dælustöðinni á Reykjum gegnum Mosfellssveit og til Reykjavíkur. Smíði stokksins hófst árið 1929. hann var rúmlega 15 km langur og meðal annars lagður yfir Varmá, Úlfarsá og Elliðaárnar í hitaveitutankana í Öskjuhlíð.

Tvær stálpípur voru í stokknum og fluttu 250 sekúndulítra af hveravatni til höfuðborgarinnar. Reiðingur (torf) var notaður til að einangra rörin og hænsnanet vafið utan um. Reyndist reiðingurinn ágætt einangrunarefni, að vísu eldfimur og gat skapað hættu þegar rörin voru rafsoðin.

Hinn 30. nóvember 1943 var vatni úr Reykjaveitu hleypt í fyrsta skipti á hús í Reykjavík. Þar var um að ræða Hnitbjörg, listasafn Einars Jónssonar á Skólavörðuholti.”

Mosfellsbær

Mosfellsbær; Hitaveitustokkur-skilti.

Gamli Þingvallavegur

Var fyrir stundu að grúska í hinum fjölmörgu gömlu uppdráttum mínum, sem ég hef aflað, ásamt félögum mínum,  á vettvangi í gegnum tíðina, með skýrskotun til gamalla skriflegra heimilda um fornar leiðir til og frá Reykjavík fyrrum. Skriflegar heimildir eru eitt; áþreifanlegar og sýnilegar minjar á vettvangi eru annað. Þess vegna fara “heimildirnar” ekki alltaf saman við vettvangsstaðreyndirnar. Opinberar skráningar fornminja hafa hingað til alls ekki verið sérstaklega nákvæmar. Að ekki sé talað um fornar leiðir; þær hafa sjaldnast verið rétt skráðar af neinu viti í opinberum fornleifaskráningum.

Þingvallaleiðir

Þingvallaleiðirnar fyrrum og nálægar leiðir út frá Reykjavík til austurs…

Hafði gengið allar leiðirnar margsinnis, rissað upp jafnhraðan og sett jafnóðum í sérstakan rissbunka – til geymslu.
Niðurstaðan varð meðfylgjandi loftmynd af leiðunum (áður en ég þurfti að henda þeim í ruslið til að skapa rými fyrir nýrri áhugaverðari athuganir)… – ÓSÁ.

Gamli Þingvallavegur

Ræsi á Gamla Þingvallaveginum.

Leiruvogur

Í “Fornleifaskráningu um Skiphól og Varmárbakka 2020 vegna deiliskipulagsbreytinga” má lesa eftirfarandi um Skiphól og Hestaþinghól, auk bæjarins Varmár í Mosfellsbæ.

Varmá

Varmá

Varmá – túnakort 1916

Jörðin Varmá kemur fyrir í heimildum þegar á 14. öld og var þar þá kirkja en hún lagðist af skömmu fyrir 1600. Jörðin er síðan nefnd í Fógetareikningum frá 1547-1552 og þá sem konungseign.

Varmá

Varmá – bæjarhóll.

Varmá var þingstaður og er fyrst getið sem slíks árið 1505.
Jörðin var áfram í konungseign við jarðaskráningu árin 1704 og 1847 og ábúendur tveir.

Varmá var svo lögð undir Lágafell um 1900.
Af Fasteignabókum má sjá að jörðin var ekki lengur í ábúð árin 1922-1932 og hefur ekki verið það síðan. Rústir gamla bæjarins eru greinilegar um 40-50 metra suðaustan og austan við Varmárskóla.

Varmá – Kirkja

Varmá

Varmá – uppgröftur kirkjutóftar.

Árin 1968 og 1969 fór fram fornleifauppgröftur að Varmá. Elsta tóftin, sem kom fram við uppgröftinn, var af lítilli kirkja úr kaþólsku. Þar var líklega vallgróin tóft 1721 en skömmu síðar er reist smiðja á staðnum.

Varmá

Varmá – uppgröftur kirkjutóftar.

Á nítjándu öld virðist hún fallin og er litlum kofa þá fundinn staður í tóftinni. Af rituðum heimildum er vitað um kirkju að Varmá á 14. öld. Messuhaldi er hætt þar á árunum 1554-1584. Að öðru leyti vísast til greinar Sveinbjarnar Rafnssonar „Kirkja frá síðmiðöldum að Varmá“.

Skv. ábendingu Hauks Níelssonar, bónda að Helgafelli, á kirkjan að hafa staðið um 5-7 m vestan við bæinn. Borið saman við mynd þá, sem birt er í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1970, bls. 32, virðist staðsetning Hauks nokkurn veginn rétt. Við byggingu skólans, sem er þarna vestan við, hefur verið ýtt fram mikilli möl og mold, þannig að nú er allhár bakki vestan við rústirnar. Líklega er kirkjan öll eða að hluta komin undir þennan bakka (Ágúst Ó. Georgsson).

Varmá

Herforingjaráðskort frá 1909. Hér sjást fornar leiðir og leirvogur nær lengra inn í landið en nú.

Leiðir
Á Herforingjaráðskortinu er að finna leið sunnan megin við hafnarsvæðið sem hefur verið sunnan Leiruvogs en er nú sunnan Köldukvíslar. Þessi leið hefur legið út í Langatanga og fram hjá Skiphól og komið þar sem eru krossgötur á austurbakka Varmár. Þessi leið hefur líka verið farin út að Hestaþingshól. Loks hefur legið leið niður að Skiphól frá bænum Varmá og sést hún líka á kortinu.

Skiphóll

Leiruvogur

Siglingar um Norður-Atlantshafið fyrrum.

Kålund nefnir Skiphól þegar árið 1877: „Nord for Guvenæs skærer sig Lervågene (Leiruvogur) eller som i oldskrifterne udtrykke sig Lerevågen (Leiruvágr) sig ind i landet; nu bruges ordet sædvanlig i flt., på grund af den huk Skibshol, som adskiller dem.“ Við örnefnaskráningu í Varmárlandi sagði Ari Gíslason: „Merkin móti Lágfelli eru frá Lækjarfarveg við sjó […]. Ef við höldum með sjó inn, þá er þar tangi fram í sjóinn og voginn. Þar eru tveir hólar. Heitir sá neðri Skiphóll, en sá, sem er ofar, er með þúfu á, og heitir hann Hestaþingshóll. Bendir nafn hans á forn hestaöt þarna niður við sjóinn. Hóll þessi er á tanganum, og ef vel er að gáð virðist þarna vera um gamalt mannvirki að gera.“ Árni Jónsson gerði athugasemdir við skráningu Ara og taldi að Skiphóll væri ofar: „Farið er út með Varmá að Skiphól ekki inn með. Skiphóll er ofar, Hestaþingshóll neðar.“

Skiphóll

Skiphóll.

Eins þarna kemur fram voru áður tveir hólar á svæðinu og nokkuð á reiki hvor hóllinn var Skiphóll. Samkvæmt Hauki Níelssyni, bónda á Helgafelli og heimildamanni við fornleifaskráningu árið 1980, var hóllinn næst Varmá nefndur Hestaþingshóll þótt sjálfur teldi hann líklegra, að það væri Skiphóll því þar væri betra skipalægi. Annar heimildamaður árið 1980, Einar Björnsson á Litla-Landi, var sömu skoðunar og sagði hólinn á Varmárbakka heita Skiphól. Einar ólst upp í Norður-Gröf í Kjalarneshreppi og var fyrrverandi bóndi á Skeggjastöðum og seinna Laxnesi og því mjög kunnugur staðháttum á svæðinu. Að hans sögn var byggingarefni fyrir Álafossverksmiðjuna skipað upp við Skipshól. Þar var líka skipað út heyi sem fór til Reykjavíkur og var notað sem fóður fyrir hesta. Einar taldi þó örnefnið vera eldra.

Skiphóll

Skiphóll.

Í „Lýsingu Mosfells- og Gufunessókna“ 1855 er fjallað um lendingar við Leiruvog: „Lendingar eru hér víðast góðar, því vogar þeir, er áður eru nefndir, skerast langt inn, svo að brimsjóir af hafi ganga sjaldan inn í þá, og eyjar þar, er einnig eru nefndar, eru til hlífðar við sjógangi.

Álfsnes

Álfsnes og Leirvogur – herforingjaráðskort 1903.

Í Þerney og Kollafirði eru góðar lendingar, sömuleiðis í Viðey og Gufunesi. Í Leiruvogum eru sléttar leirur og útgrynni mikið, en ekki sker eða boðar.“ Á fyrri öldum er eins og þarna stundum talað um Leiruvoga í fleirtölu; sjórinn virðist áður hafi teygt sig lengra inn og þá hefur mótað betur fyrir tveimur vogum við mynni ánna, Köldukvíslar og Varmár sunnar en Leirvogsár norðar. Landsvæðið á milli ánna nefnist Leirvogstunga. Vogarnir hafa hins vegar grynnkað með árframburði í aldanna rás og fleirtölumyndin Leiruvogar þá horfið úr málinu. Þegar nýleg kort af svæðinu eru borin saman við Herforingjaráðskort Dana frá árinu 1909 sést greinilega að landið nær lengra út nú en áður.
Í Landnámu og Íslendinga sögum er margsinnis getið um skipakomur í Leiruvog fyrir sunnan land eða neðan Heiði og er þá átt við Mosfellsheiði. Þarna hefur verið siglingastaður og ein mikilvægasta höfnin á suðvesturhorni landsins. Skjól var fyrir brimi og vindi af landi og hafnarskilyrði góð fyrir grunnrist skip. Á flóði hefur Leiruvogur verið skipgengur allt upp fyrir Hestaþingshól og að Skiphóli. Ætla má að skipum hafi verið lent við Skiphól allt frá þjóðveldisöld og þannig hefur örnefnið orðið til. Jafnframt er líklegt að þar hafi verið haldnar kaupstefnur þar sem skipt var á varningi sem skip komu með að utan og vörum heimamanna úr nærliggjandi sveitum.

Skiphóll

Skiphóll.

Skiphóll er lágur grasi vaxinn hóll á suðurbakka Köldukvíslar, skammt vestan við Varmá sem sameinast Köldukvísl rétt áður en hún rennur fram hjá hólnum. Hann er um 10 m sunnan árbakkans og um 20 m norðan við austasta hesthúsið. Hóllinn er sa. 26 x 21 m að stærð og 2,5 m á hæð. Birkitré hafa nú verið sett niður í hálfhring um hólinn eins og skjólveggur vestan, sunnan og austan við hann. Austan og vestan hans eru mýrarsund og sunnan megin eru hesthús.

Vesturlandsvegur

Uppdráttur Björn Gunnlaugssonar af Leirvogi og nágrenni.

Engin ummerki eru lengur um höfnina við Skiphól og engar rústir sjáanlegar, hvorki á hólnum eða við hann. Þegar rætt var við Hauk á Helgafelli kvaðst hann þó hafa séð hleðslur úr torfi á honum og sýndist honum það vera tóft eða tóftir. Á þeim tíma sást að grafið hafði verið í systa hluta hólsins og mátti þá sjá að hann var úr mold. Haukur minntist einnig á hróf og varir við hólinn. Þessar minjar eru horfnar en við fornleifakönnun og jarðsjármælingar árin 2012-2014 fundust minjar. Í könnunarskurði í hólnum sjálfum komu í ljós torfhleðslur og skurðir og virtist jafnvel mega greina skurð með skipslögun innan í hólnum auk þess fannst bátasaumur. Þessar minjar eru líklega frá því skömmu eftir 871 en ekki yngri en 1226. Tveir litlir skurðir voru teknir nokkru vestan við Skiphóll en engar mannvistarleifar fundust þar. En vel má vera að mannvistarleifar leynist vestan við hann og þarf að fara gætilega á því svæði en aðeins lítill hluti af svæðinu var kannaður.

Skiphóll

Fræðsluskilti við Skiphól; -Skiphóll er gamalt skipalægi við ísa Varmár en á flóði var hægt að sigla skipum alla leið að hólnum. Lengi mátti sjá tvö skipshróf (eins konar naust) hér við Skiphól en þau eru nú horfin. Í fornum sögum er getið um skipaferðir hér í Leiruvogi og stundum talað um að skip hafi komið út í Leiruvog fyrir neðan heiði, þ.e. Hellisheiði. Í Hallferðar sögu er sagt frá viðskiptum Hallfreðar vandræðaskálds og Mosfellinga eftir að hann hafði lent skipi sínu á þessum slóðum.- “Og að sumri fór Hallfreður út til Íslands og kom skipi sínu í Leiruvog fyrir sunnan land. Þá bjó Önundur að Mosfelli. Hallfreður átti að gjalda hálfa mörk silfurs húskarli Önundar og svaraði heldur harðlega. Kom húskarlinn heim og sagði sín vandræði. Hrafn kvað slíks von að hann mundi lægra hlut bera í þeirra skiptum. Og um morguninn eftir reið Hrafn til skips og ætlaði að höggva strengina og stöðva brottferð þeirra Hallfreðar. Síðan áttu menn hlut í að sætta þá og var gjaldið hálfu meira en húskarl átti og skildu að því.” (Úr Hallfreðar sögu)

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar af Varmá segir m.a.: “Ef við höldum með sjó inn, þá er þar tangi fram í sjóinn og voginn. Þar eru tveir hólar. Heitir sá neðri Skiphóll, en sá sem er ofar, er með þúfu á, og heitir hann Hestaþingshóll. Bendir nafn hans á forn hestaöt þarna niður við sjóinn. Hóll þessi er á tanganum, og ef vel er að gáð, virðist vera þarna um gamalt mannvirki að gera.”
Í athugasemdum við örnefalýsinguna segir: “Skiphóll er seinasta leiti á mörkum milli Helgafells og Varmár. Skip gátu komizt þar upp um flóð og tóku hey úr Skaftatungu.”

Hestaþinghóll

Hestaþinghóll.

Lágur grasivaxinn hóll á suðurbakka Leirvogsár, skammt þar frá, sem Varmá og Leirvogsá mætast. Hóllinn er um 10 m sunnan árbakkans og um 10-15 m norðan við austasta hesthúsið. Hóll þessi er ýmist kallaður Skipshóll eða Hestaþingshóll.
Engar rústir sjánlegar á eða við hólinn.
Mýrarsund eru austan og vestan við. Haukur Níelsson, bóndi á Helgafelli segir, að hóll þessi heiti Hestaþingshóll. Telur hann þó líklegra, að réttnefni sé Skipshóll. Þar sé betra skipalægi en neðar við ána (þar sem hann segir að Skipshóll sé).
Sem sagt: Munnmæli þau sem Haukur hefur heyrt segja, að Hestaþingshóll sé ofar við ána, en Skipshóll neðar. Haukur, sem pælir í Íslendingasögum, vill hins vegar ætla Skipshól stað ofar við ána.
Syðsti hluti hólsins er nú skemmdur. Hefur verið grafið þar í hann. Sýnir sárið að hóllinn er úr mold.
Á Hestaþingshól kveðst Haukur hafa séð einhverjar hleðslur, úr torfi einungis. Var því líkast sem um einhverjar tóftir eða tóft væri að ræða.
Einar Björnsson, Litla-Landi, uppalinn í Norður-Gröf, Kjalarneshr. og f.v. bóndi á Skeggjastöðum og seinna í Laxnesi, segir hól þennan heita Skiphól. Byggingarefni í Álafossverksmiðjuna hafi verið skipað upp við Skipshól. Þó telur Einar örnefni þetta vera eldra, en frá þessum tíma. Þarna var líka skipað út heyi, sem fór til Rvk og var notað sem fóður fyrir hesta.
17/9 1980 (Ágúst Ólafur Georgsson)

Hestþinghóll

Hestþinghóll

Hestþinghóll.

Auk Skiphóls var svonefndur Hest[a]þingshóll á þessu svæði. Honum er lýst í landamerkjalýsingu frá árinu 1889:
”1. Á suðursíðuna milli Varmár og Reykjahverfis: Úr Markarlæksfossi við ána Varmá ræður lækurinn upp að næsta krók á honum, og þaðan eptir beinni stefnu á Stórahnjúk allt að Lágafellslandi eptir svokallaðri Markakeldu.
2. Á vestursíðunni frá Markakeldu um Svartaklett og syðri Urðarþúfu, þaðan í stærstu steinana á svokölluðu Markholti og þaðan í beina línu í lækjarfarveg niður við sjó, þaðan ræður sjórinn merkjum að Hestaþingshól.
3. Á norður og suðursíðuna, frá nefndum Hestaþingshól, ræður áin Varmá merkjum milli Leirvogstungu og Helgafells alla leið upp að fyrstnefndum Markalæksfossi.“
Miðað við þessa lýsingu liggja merkin frá Hestaþingshól eftir Varmá og hljómar það eins og þarna sé átt við hólinn við bakka Varmár sem oftast hefur verið nefndur Skiphóll. En eins og komið hefur fram eru heimildir ekki samsagna um það hvor hóllinn hafi verið ofar með Köldukvísl og hvor þeirra utar. Ljóst er að þeir voru tveir en sá ytri er horfinn. Hann hefur verið úti á tanga sem nú er búið að ýta til og raska.
Nafnið Hestaþingshóll bendir til að þar hafi verið haldin hestaþing eða hestaöt og má ætla að efnt hafi verið til þeirra í tengslum við kaupstefnur við Skiphól. Á hestaþingum skemmtu menn sér við að etja saman stóðhestum og fara sögur af slíku allt frá landnámi. Siðurinn hefur flust hingað frá Noregi og hélst fram eftir öldum. Hestaöt virðast að lokum hafa lagst af á 16. og 17. öld í kjölfar þess að kirkjunnar menn fóru að amast við þeim eftir siðskiptin.
Leirurnar við Leiruvog hafa verið vinsælar meðal ríðandi fólks. Þar hefur verið hægt að spretta úr spori og enn í dag er þarna útivistarsvæði hestamanna og hesthúsahverfi reis sunnan Skiphóls á síðari hluta 20. aldar.

Heimild:
-Skiphóll og Varmárbakkar; Fornleifaskráning vegna deiliskipulags breytingar, Ragnheiður Traustadóttir og Rúna K. Tetzschner – ANTIKVA EHF 2020.
-Agnes Stefánsdóttir, Rúna K. Tetzschner o.fl., Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, 2006.
-Ari Gíslason. Varmá. Örnefnastofnun Íslands. ópr.
-Ágúst Ólafur Georgsson. Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980. Skráningarbók 1604-100.
-Árni Jónsson frá Varmá. Athugasemdir við handrit Ara Gíslasonar. Örnefnastofnun Íslands. ópr.
-Stefán Þorvaldsson. „Lýsing Mosfells- og Gufunessókna“. Sýslulýsingar og sóknalýsingar. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Félagið Ingólfur gaf út. Reykjavík 1937-1939.

Leiruvogur

Leiruvogur – loftmynd.

Mosfellsbær

Við Mosfellskirkju eru tvö skilti. Á því fyrra má lesa eftirfarandi upplýsingar:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

“Að Mosfelli var fyrst byggð kirkja á 12. öld og löngum var hér kirkja og prestssetur í aldanna rás. Mosfellskirkja var rifin árið 1888 og ný kirkja byggð að Lágafelli eftir miklar deilur eins og sagt er frá í Innansveitarkroniku eftir Halldór laxness.

Mosfellskirkja hin nýja er teiknuð af Ragnari Emilssyni arkitekt og reist fyrir gjafafé Stefáns Þorlákssonar (1895-1959 hreppstjóra í Reykjadal. Merkustu gripir krikjunnar eru gamall kaleikur og forn kirkjuklukka sem geymd var á Hrísbrú á meðan kirkjulaust var í Mosfellsdal. Mosfellskirkja var vígð 4. apríl 1965t.

Messan á Mosfelli
Eitt þekktasta kvæði Einars Benediktssonar (1864-1940) heitir Messan á Mosfelli og greinir frá breyskum presti sem hér bjó. Yfirvöld komu ríðandi úr Reykjavík til að setja prestinn af en hann tók þá menn til bæna í Mosfellskirkju í orðsins fyllstu merkingu.
MosfellsbærEinar sagði sjálfur að kvæðið byggði á þjóðsögu og fyrirmynd skáldsins að prestinum hefur ekki fundist svo óyggjandi sé. Fyrsta og síðasta erindi þessa magnaða kvæðis eru þannig:

Ein sga er geymd og er minningarmerk

um messu hjá gömlum sveitaklerk.

Hann sat á Mosfelli syðra.

Hann saup; en hann smaug um Satans garn.

Í sál bar hann trú, en dró kjólinn í skarn,

-einn herrans þjónn og eitt heimsins barn, með hjarta, sem kunni að iðra.

MosfellsbærÞar heyrðu þeir prest – við eitt bláfátækt brauð,

og brjóst þeirra eigin fundust svo snauð,

em bróðirinn brotlegi ríkur. –

Í minnum er höfðingja heimreiðin enn.

Þeir hurfu í messulok allir senn.

Og voru hljóðir, hógværir menn,

sem héldu til Reykjavíkur.

Egils saga greinir frá því þegar Egill Skallagrímsson dvaldi hér á Mosfelli á efri árum hjá Þórdísi bróðurdóttur sinni. Samkvæmt sögunni á hann að hafa falið silfursjóð sinn hér í nágrenninu. Frá þessu er sagt í 88. kafla sögunnar:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

“Það var eitt kveld, þá er menn bjuggust til rekkna að Mosfelli, að Egill kallaði til sín þræla tvo er Grímur átti. Hann bað þá taka sér hest “vil eg fara til laugar”. Og er Egill var búinn gekk hann út og hafði með sér silfurkistur sínar. Hann steig á hest, fór ofan eftir túninu fyrir brekku þá er þar verður er menn sáu síðast.

En um morguninn er menn risu upp þá sáu þeir að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan garð og leiddi eftir sér hestinn. Fara þeir þá til hans og fluttu hann heim.

En hvorki komu aftur síðan þrælarnir né kisturnar og voru þar margar gátur á hvar Egill hafi fólgið fé sitt.”

Á hinu skiltinu má lesa eftirfarandi:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

“Velkomin á stikaðar gönguleiðir Mosfellsbæjar.

Mosfellsbær er um 200 ferkílómetrar að stærð. Hér eru víðáttumikil náttúruleg svæði og einstakir útivistarmöguleikar í lítt snertu landslagi upp til heiða, við vötn og ár og strandlengjuna. Áberandi eru fellin og gróðursælir dalir auk tveggja jarðhitasvæða.

Leiruvogur gengur inn úr Kollafirði og í hann falla þrjár ár; Leirvogsá, kaldakvísl og Varmá. Leiruvogur er nefndur í fornsögum, þar var alþekkt skipalægi til forna og þaðan lá leið til Þingvalla og annarra landshluta.

Gönguleiðir eru margar og fjölbreyttar í Mosfellsbæ. Fjöllin eru að vísu ekki há, það hæsta er Grímansfell, tæplega 500 m.y.s. Náttúruperlur og skoðunarverðir staðir eru víða við gönguleiðirnar. Má þar nefna Leirvogsá og Tröllafoss, sem er friðlýst náttúruvætti, Köldukvísl og Helgufoss, varmá og Álafosskvos, Nóngilsfoss og Katlagil, grettistak á Þverfelli og Seljadal. fornar þjóðleiðir, seljarústir og aðrar sögulega minjar eru einnig víða við gönguleiðirnar.

Jarðfræði

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

Frá því að Stardalsmegineldstöðin kulnaði fyrir um tveimur milljónum ára hafa roföflin grafið dali og myndað það landslag sem við þekkjum í dag. Berggrunnurinn er að mestu hraun, sem runnu á hlýskeiði, og í fellunum má sjá hraunlög sem hafa hlaðist upp á löngum tíma.

Mosfellsheiði er dyngja og þaðan runnu hraunlög niður á láglendið í Mosfellssveit. Víða er jarðhiti í tengslum við virkar sprungur og misgengi sem teygja sig út frá gosbeltinu. Í Mosfellsdal er þykk setlög sem benda til þess að þar hafi verið stöðuvatn.

Gróður
Við landnám var Mosfellssveit skógi vaxin en miklar breytingar hafa orðið vegna landnýtingar og uppblásturs. Gróður teygir sig frá sjávarsíðunni, upp dalina og fellin. Ofan til eru felli gróðursnauð. Þar eru ríkjandi skófir á steinum og klöppum, mosi og hálendisplöntur. Við gönguleiðina um Stekkjargil, sunna undir Helgafelli, hafa verið merktar nokkrar tegundir úr íslenskri flóru.”

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Mosfell.

Mosfellsbær

Í Álafosskvos í Mosfellsbæ er skilti. Á því má lesa eftirfarandi upplýsingar:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti í Álafosskvos.

“Árið 1896 hófst ullarævintýrið á Álafossi en þá lét Björn Þorláksson (1854-1904) bóndi og hreppstjóri á Varmá reisa ullarvinnsluhús hér á árbakkanum og nýtti vatnsaflið til að knýja tóvinnuvélarnar. Fyrsta húsið sem reist var á staðnum stendur enn en hverfur inn í húsaþyrpinguna í brekkunni hér fyrir handan.

Smám saman myndaðist húsahverfi í kringum verksmiðjureksturinn sem efldist jafnt og þétt, ekki síst í tíð Sigurjóns Péturssonar (1888-1955) en hann rak Álafossverksmiðjuna frá 1919 til dauðadags. Hér ofar í brekkunni getur að líta brjóstmynd af Sigurjóni.

Húsin í Álafosskvos eru frá ýmsum tímaskeiðum. Á árbakkanum stendur gamla sundlaugarbyggingin, ein sú elsta á landinu, vígð árið 1933 og eina sundlaugin í Mosfellssveit um áratugaskeið. Sundlaugarhúsið hefur fengið nýtt hlutverk eins og önnur hús hér í kvosinni. Enginn ullariðnaður er stundaður lengur í Álafosskvos en hér er þó ullarafurðasala þannig að gamli ullarandinn svífur enn yfir vötnunum.”

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti í Álafosskvos. “Í tíð Sigurjóns Péturssonar var öflugt félags- og íþróttalíf hér á Álafossi. Hann gekkst m.a. fyrir svoköllum Fánadögum á 3. og 4. áratugnum í fjáröflunarskyni fyrir íþróttaskóla sem hann starfrækti á staðnum. Þá voru m.a. sýndir leikþættir, keppt í íþróttum og margt fleira sér til gamans gert en til að njóta betur skemmtiatriða á Fánadögum og öðrum mannamótum að Álafoss voru mótuð sérstök sæti í brekkuna. Dansað var í stóru samkomutjaldi og selt inn, hálftíma í senn. Þegar draga tók úr aðsókninni á einum dansleiknum kallaði Sigurjón yfir svæðið: “Allir inn í tjald, næsti hálftími verður þrjú korter!”
Myndir hér að ofan er tekin á Fánadögum árið 1936. Húsið lengst til vinstri er leikhús. Hægt var að opna austurhlið hússins og blasti þá leiksviðið við áhorfendum sem sátu í brekkunni.”