Færslur

Gamli Þingvallavegur

Var fyrir stundu að grúska í hinum fjölmörgu gömlu uppdráttum mínum, sem ég hef aflað, ásamt félögum mínum,  á vettvangi í gegnum tíðina, með skýrskotun til gamalla skriflegra heimilda um fornar leiðir til og frá Reykjavík fyrrum. Skriflegar heimildir eru eitt; áþreifanlegar og sýnilegar minjar á vettvangi eru annað. Þess vegna fara “heimildirnar” ekki alltaf saman við vettvangsstaðreyndirnar. Opinberar skráningar fornminja hafa hingað til alls ekki verið sérstaklega nákvæmar. Að ekki sé talað um fornar leiðir; þær hafa sjaldnast verið rétt skráðar af neinu viti í opinberum fornleifaskráningum.

Þingvallaleiðir

Þingvallaleiðirnar fyrrum og nálægar leiðir út frá Reykjavík til austurs…

Hafði gengið allar leiðirnar margsinnis, rissað upp jafnhraðan og sett jafnóðum í sérstakan rissbunka – til geymslu.
Niðurstaðan varð meðfylgjandi loftmynd af leiðunum (áður en ég þurfti að henda þeim í ruslið til að skapa rými fyrir nýjar áhugaverðari athuganir)… – ÓSÁ.

Gamli Þingvallavegur

Ræsi á Gamla Þingvallaveginum, sem er þó ekki eldri en elsti Þingvallavegurinn.

Gamli Þingvallavegur

Tómas Einarsson skrifaði grein í Morgunblaðið árið 1990 um “Leiðir á Mosfellsheiði”:
“Gamli Þingvallavegurinn og sá nýi koma saman við Vilborgarkeldu austast á Mosfellsheiðinni. Líklegt er að þessi leið milli Þingvalla og Reykjavíkur hafi verið fjölfarin frá fornu fari. Hún er greiðfær, laus við torfærur ogvíða gátu menn „skellt á skeið”.
thingvallavegur-222Á árunum 1890-96 voru gerðar miklar  vegabætur á leiðinni og hún gerð vagnfær frá Suðurlandsvegi við Geitháls að Þingvöllum. En þegar von var á Friðriki 8. konungi til landsins  árið 1907 var vegurinn endurbættur mjög, því farið var með konunginn austur að Gullfossi og Geysi um Þingvöll.
Frá vegamótunum liggur leiðin fyrst upp allbratta brekku og skömmu síðar er komið að lítilli dalkvos, sem liggur sunnan við veginn.
Þetta er Djúpidalur. Þar er skjólgott og mun dalurinn hafa verið grösugur áður fyrr, en það hefur breyst á síðari árum. Árið 1907 komst dalurinn á spjöld sögunnar, því á austurleið áði konungsfylgdin þar og snæddi hádegisverð. Var slegið upp miklu veitingatjaldi innst í dalnum og krásir bornar á borð ásamt viðeigandi vínföngum. Þar var veitt ríflega, svo ríflega, að mörgum landanum ofbauð bruðlið, kannske mest þeim sem ekki fengu aðgang. Þegar komið er lengra upp á brekkubrúnirnar austan við Djúpadal víkkar útsýnið að mun.
Grímarsfell (af sumum nefnt Grimmannsfell) blasir við í norðri, Mosfellsheiðin er framundan og þar ber Borgarhóla hæst, en í suðaustri rís Hengill upp frá sléttlendinu, hömrum girtur hið efra. Þar sést hæsti tindurinn, Skeggi (805 m y.s.). Að vestan við veginn er lítið stöðuvatn sem nefnist Krókatjörn. Vegna lögunar sinnar hefur hún stundum verið nefnd Gleraugnatjörn. Sunnan undir Grímarsfelli liggur alldjúp dalkvos, sem nær þaðan og langleiðina að Hafravatni. Þetta er Seljadalur og liggur vegurinn eftir suðurbrúnum hans. Vestasti hluti hans nefnist Þormóðsdalur. Dalurinn er hlýlegur, grasi vaxinn, enda var haft þar í seli áður fyrr, eins og nafnið gefur til kynna. Það sel var frá Nesi við Seltjörn og sjást rúsir þess enn. Við svonefndan Kambhól í miðjum dal eru tóttir af rétt, sem notuð var á vorin, þegar fé var smalað til rúnings. Seljadalsá rennur eftir dalnum og í Hafravatn. Fremst í honum er Silungatjörn. Vestan við tjörnina er lítil hæð, sem heitir Búrfell. Um 1910 fannst þar gull. Næstu árin var unnið að frekari rannsóknum á svæðinu, grafin tilraunagöng, sýni tekin og send utan til rannsóknar og fyrirtæki stofnuð til frekari framkvæmda. En þetta rann allt út í sandinn þegar heimsstyrjöldin hófst. Eftir stríðið vaknaði áhuginn ekki aftur og gullið bíður því enn í Búrfelli, kyrrt á sínum stað.
thingvallavegur-223Frá Djúpadal er gatan nokkuð á fótinn allt að Háamel, sem er á móts við Borgarhóla vestanverða. Þar liggur leiðin hæst, um 340 m y.s. Áður en ráðist var í vegarbæturnar, sem fyrr eru nefndar, lá reiðgatan eftir Seljadalnum endilöngum, utan í austurhlíðum Grímarsfells, um Leirdal og upp á Háamel, þar sem göturnar komu saman. Frá Leirdal hallar vötnum til norðurs. Þar eru efstu drög Köldukvíslar, ársprænunnar, sem rennur um Mosfellsdalinn fram hjá Gljúfrasteini, húsi Halldórs Laxness.
Borgarhólar eru skammt austan við Háamel. Þeir eru nokkrir talsins (sá hæsti þeirra 410 m y.s.), auðveldir uppgöngu og því sjálfsagt að leggja smá lykkju á leiðina og ganga þangað. Af þeim er mikið útsýni; til Esju og um Kjöl til Botnssúlna, fjallaklasinn sem umlykur Þingvallasveit að norðan og austan blasir við og þar fyrir sunnan taka við Sköflungur, Dyrafjöll, Hengill, Húsmúli, Vífilsfell og síðan fjöllin vestan þess allt til hafs.
Þegar vísindamenn fóru að brjóta heilann um myndun Mosfellsheiðar og nágrennis, ályktuðu þeir að hraunið, sem hana þekur hafi komið frá Borgarhólum. En við nánari athugun á síðari árum hefur thingvellir-224komið í ljós, að svo er ekki. Borgarhólar eru eldri. Hallast menn að því að upptök hraunsins séu vestur af svonefndum Eiturhól, sem er austur á heiðinni. Hóllinn fékk þetta nafn vegna þess að þar var oft eitrað fyrir refi. Um hann liggja mörk Árnes- og Kjósarsýslna.
Frá Háamel hallar austur af. Fátt er um kennileiti nærri veginum, en ýmislegt er samt að skoða. T.d. handaverk gömlu vegargerðar-mannanna sem eru víða sýnileg í vegarbrúnum, ræsahleðslum og vörðum. Austarlega á heiðinni, á sýslumörkum, er tótt af sæluhúsi, sem eitt sinn hafði hlutverki að gegna, en er nú fallið og aðeins minjar um liðna sögu. Örnefni, eins og Sæluhússbrekka og Þrívörður, sem er að finna á þessum slóðum hafa einnig sögur að segja, sem aldrei verða skráðar.
Eftir umbæturnar á veginum um síðustu aldamót óx umferð yfir heiðina að miklum mun. Hestvagnar voru þá komnir til sögunnar, nokkru síðar reiðhjól og síðast bílarnir, en fyrsta bílnum var ekið austur á Þingvöll yfir Mosfellsheiði sumarið 1913. Til marks um hve umferðin hefur þá verið mikil, má geta þess, að um 1920 byggði danskur maður lítinn veitingaskála sunnan við Háamel, sem hann nefndi Heiðarblómið. Ekki er vitað hvernig þetta fyrirtæki gekk meðan það var og hét, en þegar bifreiðaumferð lagðist niður eftir þessum vegi um það bil áratug síðar var starfseminni sjálfhætt.
Þegar farið var að undirbúa Alþingishátíðina á Þingvöllum sem haldin var 1930, töldu menn hyggilegra að leggja nýjan veg norðar, þ.e. frá Mosfellsdal til Þingvalla. Unnið var að þessum framkvæmdum á árunum fyrir hátíðina og þá lagður vegurinn sem allir þekkja.
thingvallavegir-235Gamla veginum var ekki haldið við og varð hann því fljótlega ófær bílum. Síðan eru liðin rúmlega 60 ár og komast nú ekki aðrir bílar þessa leið en öflugar torfærubifreiðar. Þetta sýnir og sannar að flest mannanna verk eru forgengileg. Flestum ber saman um það, er hafa farið gömlu Þingvallaleiðina, að hún sé miklu skemmtilegri en hin nýrri. Hún liggur hærra, er styttri og af henni er meira víðsýni. Það er því ekki út í hött að koma með þá tillögu hér, að gera þessari fornu, áður fjölförnu leið svo til góða, að hún verði sumarfær öllum farartækjum. Með þeim afkastamiklu tækjum, sem nú eru notuð við vegargerð, ætti það ekki að kosta stórar fjárhæðir. Vestan við vegamótin þar sem gamli og nýi Þingvallavegurinn mætast er blautlend lægð. Um hana fellur Vilborgarkelda, sem löngum þótt ill yfirferðar, áður en nýi vegurinn var lagður yfir hana. Engar heimildir eru til um ástæður þessarar nafngiftar, en nafnið er gamalt, því það kemur fyrir í sögu Harðar og hólmverja. Annað örnefni, kennt við konu, er nærri vegamótunum skammt austan við Vilborgarkeldu. Það er Þorgerðarflöt. Kona með þessu nafni mun hafa látist þar með voveiflegum hætti einhvern tímann á fyrri tíð. Hafa menn talið sig verða þar vara við slæðing, þótt engum hafi orðið það að meini enn. Á Þorgerðarflöt var oft áningarstaður ferðamanna, því þangað þótti hæfileg dagleið frá Reykjavík með hestalest.”

Heimild:
-Morgunblaðið 16. maí 1990, bls. 18-19.

Mosfellsheiði

Gluggvarða við Illaklifsleið.

Gamli Þingvallavegur

Eftirfarandi lýsing á örnefnum á Mosfellsheiði eftir Hjört Björnsson má lesa í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1937-1939:
Mosfellsheidi-552“Síðan hinn nýi vegur yfir Mosfellsheiði var lagður, fyrir Alþingishátíðina 1930, má svo heita, að ferðir um gamla veginn, sem lagður var nokkru fyrir síðustu aldamót, hafi lagzt niður. Vilja örnefni týnast og falla í gleymsku á þeim leiðum, sem nú eru sjaldfarnar eða þotið er um í bíl, þótt áður væru þær fjölfarnar, bæði af gangandi mönnum og ríðandi, og þá oft með langar og seinfærar lestir baggahesta, og síðar kerrur. — Þá var oft nægur tími fyrir ferðamanninn að virða fyrir sér það, sem fyrir augun bar, og þekkja nöfn á áningastöðum og kennileitum. Vil jeg nú leitast við að telja upp örnefni meðfram gamla Mosfellsheiðarveginum, frá Almannagjá að Geithálsi, þar sem hann sameinast Hellisheiðarveginum.
Þegar komið er upp úr Almannagjá og farið „suður” — en svo er alltaf að orði komizt um ofanverða Árnessýslu, þegar farið er yfir Mosfellsheiði, Mosfellsheidi-553þó að vegurinn liggi til vesturs og jafnvel norðvesturs — þá liggur vegurinn litlu vestar yfir Breiðabala; lága, en breiða upphækkun í hrauninu. Vestan við Breiðabala er „afleggjari”; liggur hann til hægri handar beint upp hraunið í malargryfjur miklar sunnan í Stórhöfða, sem er á milli Brúsastaða og Kárastaða. Var „afleggjari” þessi lagður litlu fyrir síðustu aldamót, um líkt leyti og aðalvegurinn var gerður, til aðflutninga á ofaníburði. Dálítið neðan við túnið á Kárastöðum liggur vegurinn yfir Árfar. Er það allbreiður, en grunnur, farvegur, sem oftast er þur á sumrum. Nafnið kemur af því, að stundum í leysingum stíflast öxará af krapi og íshröngli fyrir innan Brúsastaði og flæðir þá vestur hraunið, sunnan undir Stórhöfða, og hefur myndað sjer þar farveg greinilegan; sameinast hún svo lækjarseytlum, er koma úr giljunum fyrir ofan Kárastaði, og rennur svo niður hraunið út í Mosfellsheidi-554Þingvallavatn.
Þegar yfir Árfarið er komið, tekur við Kárastaðamýri vestur í Borgarskarð, sem oftast í seinni tíð er nefnt Kárastaðaskarð, því að þar sjest fyrst heim að Kárastöðum, þegar komið er austur af heiðinni. Í Borgarskarði var fyr fjárborg, og þar talið, að Mosfellsheiði byrji. Vestan til heitir skarðið Borgardalur, en Borgardalsbrekkur lyngbrekkur miklar á hægri hönd, en til vinstri er Skálabrekkuás. Milli ássins og vegarins er lítil valllendisflöt og heitir Norðlingaflöt. Er þá komið í Bæjardal; hann er kenndur við bæinn að Skálabrekku, sem stendur sunnan undir honum, en sjest ekki af veginum. Bæjardalur takmarkast að suðvestan af Skálabrekkuás, en að norðvestan Lyngás. Liggur vegurinn eftir endilöngum dalnum, unz hann þrýtur, og er þá farið yfir Móakotsá. Það er lítil árspræna, sem oftast er þur í þurkasumrum; kennd er hún við eyðibýlið Móakot, sem stendur á árbakkanum niður-undir Þingvallavatni.

Mosfellsheidi-555

Var Móakot byggt um 50 ára skeið á síðustu öld. Vestan við Móakotsá er farið yfir hæð eina litla, Spýtuás, og taka þá bráðlega við lágar og lyngi grónar hæðir, er Þrísteinaholt heita. Liggur vegurinn milli þeirra og yfir Torfdalslæk, og því næst norðanundir Gíslahóli, sem venjulega er nefndur Gíslhóll. Austan undir Gíslahóli liggur rudd braut til vinstri af aðalveginum niður að Heiðarbæ og svo áfram suður Grafning. Skömmu áður en komið er að steininum, er sýnir 40 km. vegalengd frá Reykjavík, er farið yfir litla valllendisflöt, er Harðivöllur heitir. Nokkru vestar er Ferðamannahorn, þar sem bugur verður á veginum á hæðarbrún ekki mikilli; er þá skammt að Þorgerðarflöt, sem er allstór flöt til vinstri handar. Gegnt Þorgerðarflöt eru mýradrög allmikil, er heita Vilborgarkelda. Sagt er, að keldan beri nafn af konu nokkurri, er fórst þar voveiflega, og þótti hún síðan vera þar á sveimi, er skyggja tók, og gera ferðamönnum glettingar. „í Keldunni”, eins og oftast var komizt að orði, var mjög tíður áningastaður, og lágu langferðaraenn þar oft með lestir sínar, enda er þar haglendi fyrst, svo teljandi sje, austan aðalheiðarinnar. Örskammt vestan við Vilborgarkeldu og Þorgerðarflöt skiptast leiðir, og liggur nýi vegurinn, sem lagður var 1928—9, þar vestur heiðina, sunnan undir Litla-Sauðafelli og niður í Mosfellsdal.
Þegar komið er fram hjá vegamótunum, er farið yfir Mosfellsheidi-556Þórðargil, lítið gildrag, og Þórðargilsmela. Á þeim er varða, þrír steinar miklir, hver ofan á öðrum; er hún af sumum nefnd Berserkjavarða. Þaðan er nokkur spölur að Þrívörðum. Þar er land hæðótt og eru Þrívarðnalautir á milli þeirra, en vegurinn liggur yfir Þrívarðnahrygg vestur heiðina. Nokkuð sunnan við veginn á Þrívarðnahrygg sjer í tjarnir nokkrar, er Klofningatjarnir heita. Vestan í Þrívarðnahrygg eru Moldbrekkur, og hallar þar niður í Lágheiði, breiða dæld, sem er þar í heiðinni. Upp frá Lágheiði er alllöng brekka, Sæluhúsbrekka, og nær hún vestur undir Sæluhús, sem stendur þar fáa metra norðan við veginn. Var það byggt um líkt leyti og vegurinn; og kom mörgum að góðum notum, bæði mönnum og skepnum, þótt ófullkomið væri. Standa nú að eins veggir eftir, en þak og innviðir rifnir burt.
Nokkru vestar er klappahóll til hægri við veginn, er heitir Rauðkuhóll. Mosfellsheidi-557Fótbrotnaði þar hryssa, er Rauðka hjet, hjá ferðamönnum úr Þingvallasveit. Meðal þeirra var Jónas hreppstjóri Halldórsson í Hrauntúni. Hafði hann broddstaf mikinn í hendi og keyrði í enni hryssunnar, og var hún þegar dauð. Frá Rauðkuhóli er æði spölur, unz vegurinn liggur norðan undir allstórum og mörgum klappahólum, er heita Borgarhólar. Telja jarðfræðingar Mosfellsheiði gamalt hraun, og að Borgarhólar sjeu uppvörp þess, og hafi síðan jökull gengið þar yfir og sorfið. Enda sjást víða jökulruðningar miklir og ísrákir á klöppum um heiðina. Frá Borgarhólum liggja götutroðningar, sæmilega glöggir, niður með Grímmannsfelli (Grímarsfelli) austanverðu, niður hjá Bringum og niður í Mosfellsdal.
Hallar nú upp á melkoll nokkurn, Háamel, sem stundum er líka nefndur Alda. Þar liggur vegurinn hæst, og er þaðan útsýni mikið og fagurt í björtu Mosfellsheidi-558veðri. Til austurs sjest þar austurhluti Þingvallasveitar og fjöllin þar umhverfis og allt inn á Langjökul, en Skjaldbreið fyrir miðju, og sýnist þá engu minni en frá Þingvöllum, þó að miklu muni á fjarlægðinni. Til suðvesturs sjest um Suðurnes og meðfram Reykjanessfjallgarði endilöngum og á haf út, um sunnanverðan Faxaflóa. Sunnan undir Háamel var eitt sumar — eða tvö — fyrir rúmum 20 árum lítill veitingaskúr, er danskur maður átti og nefndi Heiðarhlóm. Sjást þess nú nálega engin merki, að þar hafi mannabústaður verið. Þar suðvestur af taka við sljettir melar, Borgarhólamelar, og hallar úr því nokkuð jafnt niður í byggð í Mosfellssveit. Heita þar Seljadalsbrúnir, löng leið og heldur tilbreytingalítil. Er þá Grímmannsfeli allfjarri til hægri handar, en Efri-Seljadalur milli þess og heiðarinnar.
Við suðurenda Efri-Seljadals eru hólar Mosfellsheidi-559nokkrir, og heitir þar Þrengslin, en sunnan við þau tekur við Neðri-Seljadalur. Verður þar undirlendi meira og dalhvilftin öll grynnri. Þar sunnarlega er Silungatjörn og Silungatjarnarmýri. í Seljadölum er graslendi mikið og var þar tíður áningarstaður ferðamanna fyrrum, enda lá vegurinn um þá áður en akbrautin var lögð. Lítið sjest af veginum ofan í dalina fyr en komið er niður á móts við Silungatjörn. Þegar all-langt kemur niður eftir Seljadalsbrúnum, verða fyrir tvö lautardrög til vinstri við veginn: Efri-Hrossadalur, og litlu neðar Neðri-Hrossadalur, og enn neðar sömu megin Helgutjörn — grunnur tjarnarpollur, sem venjulega þornar upp á sumrum. Þá er til hægri handar Eiríkshóll, einstakur klappahóll, flatur að ofan, að öðru leyti en því, að fuglaþúfa hreykir sjer á honum miðjum. Litlu neðar, en lengra frá veginum, er Vörðuhóladalur, daldrag, sem lítið ber á. Tekur nú vegurinn að verða krókóttur, en hefur verið bugðulítill ofan frá Háamel, og er nú bráðlega komið að Krókatjörn, sem er við veginn til hægri. 

Mosfellsheidi-560

Gengur að norðan út í hana langur tangi, er skiptir henni nærri í tvennt, og er hún því af sumum nefnd Gleraugnatjörn. Mjög litlu neðar, hinu megin við veginn, er Djúpidalur, alldjúp kvos, er áður var klædd valllendisgróðri, en hefur í seinni tíð blásið upp og jetizt af vatni. Sumarið 1907 var þar búinn morgunverður Friðriki konungi VIII. og fylgdarliði hans, er hann reið til Þingvalla og Geysis. Móts við og fyrir neðan Djúpadal er vegurinn enn krókóttari en áður, og heita þar Krókar niður að Miðdalsmýri. Liggur vegurinn yfir hana þvera og Miðdalslæk, sem rennur eftir henni, en bærinn Miðdalur stendur í halla kippkorn norðar. Þegar kemur yfir Miðdalsmýri, er vegurinn yfir háls einn lágan, en allbreiðan, og stóðu norðar á honum fjárhús frá Miðdal. Litlu sunnar, til vinstri handar, er tjörn ein lítil, er Heiðartjörn heitir, og er þá örskammt ofan af hálsinum niður að Lynghólsmýri, og er Lynghóll norðvestan við hana. Var Lynghólsmýri einn af fyrstu blettunum, sem girtur var með gaddavír meðfram veginum, og þótti sumum ferðamönnum súrt í broti, að missa jafngóðan áningastað. Þegar komið er fram hjá mýrinni, er enn dálítil tjörn við veginn til vinstri, er Sólheimatjörn heitir, og spölkorn vestar Hofmannaflöt, allstórar valllendisflatir til hægri við veginn. Þaðan er svo mjög skammt að Geithálsi, þar sem vegurinn sameinast Suðurlandsbrautinni. Hefur þá verið fylgt veginum austan frá Almannagjá, sem er 35—40 km. leið, og skýrt frá örnefnum.” Hjörtur Björnsson frá Skálabrekku.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Örnefni á Mosfellsheiði, Hjörtur Björnsson, 46. árg. 1937-1939, bls. 164-165.

Þingvallavegur

Yfirgefinn bíll á gamla Þingvallaveginum.

Gamli Þingvallavegur

Í byrjun ágúst árið 1907 hefði verið vandalaust að feta sig slóð Friðriks 8. og 200 manna fylgdarliðs hans. Fyrst var riðið á Þingvöll, svo austur að Laugarvatni, að Geysi og Gullfossi, yfir Hvítá á nýrri brú við Brúarhlöð. Síðan niður Hreppa hjá Álfaskeiði, yfir Stóru- Laxá og að Þjórsárbrú. Þaðan um Ölfusárbrú í Arnarbæli í Ölfusi, upp Kambana, yfir Hellisheiði á Kolviðarhól, niður hjá Lækjarbotnum og til Reykjavíkur aftur. Vandlætingafólk þess tíma taldi að fikra mætti sig Kóngsveginn svonefnda eftir tómum kampavínsflöskum.

Gamli Þingvallavegur

Brú á Gamla Þingvallaveginum.

Víst er um það að ríkisþingmenn fengu fyrir brottför silfurslegna svipu að gjöf frá Alþingi og ferðabikar í ól til að smeygja um öxl sér. En að þetta hafi verið einhver fyllirístúr er af og frá, menn kannski fengið sér í annan fótinn en ekki mikið meira, flestir. Sérstök gullplata var á svipu konungs og hafði Árni Gíslason grafið á hana – Ísland 1907.
Ferðin á Þingvöll hófst 1. ágúst og var lagt af stað frá Latínuskólanum í Reykjavík. Konungur reið gráum hesti og var í búningi sjóliðsforingja með derhúfu að hætti aðmiráls og í uppháum leðurstígvélum. Hannes Hafstein Íslandsráðherra var á léttvígum, rauðskjóttum gæðingi Glæsir að nafni, kallaður Ráðherra-Skjóni. Seinna í ferðinni reið hann brúnum hesti en konungur hélt sig við gráa litinn enda hafði honum verið ætlaðir fjórir í þeim lit í ferðina. Þegar til kom líkaði honum aðeins við tvo þeirra. Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum, stórbýli rétt fyrir austan Selfoss, skaffaði þessa gráu hesta. Haraldur prins var í húsarabúningi. Þarna voru líka Axel Tulinius sýslumaður Suður-Múlasýslu, aðalskipuleggjari ferðarinnar, Rendtorff yfirhestasveinn konungs í rauðum búningi, J.C. Christensen forsætisráðherra og Rosenstand leyndaretatsráð svo að einhverjir séu nefndir.

Mosfellsheiði

Gamli Þingvallavegurinn.

Leiðsögumenn voru m.a. þeir Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Magnússon skrifstofustjóri, síðar forsætisráðherra. Jón var hæglætismaður og frekar orðfár, en hvar sem hann sýndi sig fóru hjólin að snúast.
Það þurfti töluverða skipulagshæfileika til að henda reiður á öllu því hafurstaski sem fylgdi þessu liði, kerrur með tjöld og matföng og trússhestar, klyfsöðlar, hnakkar, beisli, lyfjaskrín, hattaöskjur og ferðakoffort. Að morgni fyrsta dags voru allir að ganga af göflunum og þá var notalegt að hafa Jón Magnússon með sína góðu nærveru. Hófaskellirnir á götum Reykjavíkur þennan dag komu öllum í ferðaham og góðhestarnir sem bændur sunnanlands og norðan höfðu lánað af þessu tilefni voru ekki af verri endanum. Flestar sýslur landsins lögðu til 18 hesta hver landssjóði að kostnaðarlausu, en einnig voru fjöldinn allur af leiguhestum.

Gamli Þingvallavegur

Ræsi á Gamla Þingvallaveginum.

Af lista yfir íslenska alþingismenn sem varðveist hefur er svo að sjá, að flestir þeirra hafi fengið tvo hesta til afnota. Númer 13 á listanum er Hannes Hafstein, 1. þingmaður Eyfirðinga, Tjarnargötu. Hann fékk bara einn hest enda lagði hann sjálfur til Ráðherra-Skjóna. Björn M. Olsen, 3. konungskjörinn þingmaður, Lækjargötu 8, fékk 3 hesta. Tryggvi Gunnarsson 1. þingmaður Reykvíkinga fékk 2 hesta og sömuleiðis Þórhallur Bjarnarson, þingmaður Borgfirðinga, síðar biskup yfir Íslandi.
Þar sem riðið var upp Hverfisgötu blakti danski fáninn við hún. Farið var upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði, en þar byrjar hinn eiginlegi gamli Þingvallavegur. Svipusmellir fylltu loftið og öllum mátti vera ljóst að þetta var enginn venjulegur reiðtúr. Á leiðinni bættust í hópinn bændur sem höfðu hlaupið frá búum sínum til að skoða kónginn. Þegar til kom gátu þeir ekki stillt sig um að slást í för á Þingvöll. Sumir voru ekki einir á ferð heldur með allt sitt hyski, konu og krakka. Í Djúpadal var framreiddur hádegisverður.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Eins og allir vita þá eru Danir fyrst í essinu sínu þegar matur er annars vegar. Þeir borða ekki eingöngu til að lafa á fótunum. Virkilega siðaður Dani getur rifjað upp matseðla áratugi aftur í tímann af jafn mikilli nákvæmni og veðurglöggur Íslendingur lýsir skýjafari.
Nema hvað í Djúpadal hafði Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 látið senda 150 rúnstykki, 7 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Pagh veitingastjóri var staðráðinn í því, að hvað sem öðru liði þá myndi Friðrik 8. Danakonungur ekki verða hungurmorða í ferðinni og þyrstur yrði hann ekki, enda sést í skjölum að Thomsens Magasin lét senda 4000 flöskur vestur að Rauðamel. Þar var tappað ölkelduvatni á flöskurnar. Þetta ölkelduvatn var haft til hressingar í heimsókn konungs. Að loknum málsverði þumlungaðist hersingin áfram fyrir norðan Borgarhóla í áttina að Þrívörðum og sunnan við Vilborgarkeldu á Mosfellsheiði, sem er forn áningarstaður. Þaðan var ekki langt í Ferðamannahorn, en það heitir svo vegna þess að þar sést fyrst til langferðamanna að koma á Þingvöll. Svo lá leiðin um Kárastaðastíg og niður í Almannagjá.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Þegar konungur reið niður gjána hrópaði fólkið sem hafði raðað sér þar upp nífalt húrra, ég endurtek nífalt, minna mátti ekki gagn gera.
Ekki er minnst á sæluhúsin við Gamla Þingvallaveginn á Mosfellsheiði.
Friðrik 8. var fæddur árið 1843 og dó árið 1912. Hann ríkti frá árinu 1906 til 1912. Faðir hans var Kristján 9. Þann stutta tíma sem Friðrik var við völd ferðaðist hann mikið um ríki sitt og komst í nána snertingu við þjóð sína. Hann beitti sér m.a. fyrir bættum samskiptum við Íslendinga.

Heimild m.a.:
-http://www.847.is/index4.php?pistill_id=35&valmynd=3
-Höfundur: Örn H. Bjarnason.

Gamli Þingvallavegur

Varða við gatnamót Gamla Þingvallavegar og Seljadalsvegar.

Gamli Þingvallavegur

Ekki er langt síðan FERLIR fylgdi Gamla Þingvallaveginum frá Krókatjörn og upp á Háamel á Mosfellsheiði þar sem tóftir gamals greiðahúss voru skoðaðar. Nú var ætlunin að leita uppi tóftir sæluhúss ofan við Moldbrekkur skammt norðaustan við Háamel og í leiðinni skoða Þrívörður ofan við Heiðartjörn, Berserkjavörðuna og tóftir af hlöðnu sæluhúsi við gamla veginn. Samkvæmt kortum liggja gamlar götur þvers og kurs um heiðina, en mestur er Gamli Þingvallavegurinn, sem lagður var um 1880. Á honum eru fallega hlaðin ræsi á allnokkrum stöðum, fallega hlaðin steinbrú, sennilega ein sú elsta á landinu og heillagar vörður og fyrrnefnt sæluhús við sýslumörkin efst á heiðinni. Vegurinn var lagfærður við konungskomuna árið 1907 og viðhaldið allt til ársins 1930.

Gamli Þingvallavegur

Berserkjavarða.

Tóftir sæluhússins eru á klapparhrygg nokkru norðan við Þrívörður. Þær eru ranglega merktar inn á landakort. Tóftirnar eru ca. 5×8 m. Hurðaropið snýr mót suðvestri. Stór varða er vestan við húsið. Sýsluvörðurnar tvær eru enn vestar. Frá húsinu sér í vörður norður heiðina, áleiðis suður fyrir Leirvogsvatn.
Á þessum slóðum gerðist mikil harmsaga. Það var laugardagur, hinn þriðja í Góu, árið 1857, er 14 vertíðarmenn úr Biskupstungum og Laugardal höfðu lagt upp á Mosfellsheiði frá Þingvöllum. Veður var blítt um morguninn, frostlaust, en þung færð vegna snjóa.
Þegar þeir fóru frá Kárastöðum var slíkt þíðviðri að vatn draup af upsum, en þegar komið var vestur í Vilborgarkeldu brast skyndilega á iðulaus norðanhríð með grimmdarfrosti og slíku hvassviðri að vart varð stætt.

Vermennirnir kusu samt að freista þess að halda áfram í þeirri von að finna sæluhúsið vestan við Þrívörður eða ná til bæja í Mosfellsdal. Sæluhúsið fundu þeir ekki og héldu áfram meðan þróttur vannst, þó klæði þeirra, blaut eftir þíðviðrið og ösl í ófærðinni, frysi í stokk.

Illaklif

Varða við Illaklif.

Mennirnir voru flestir orðnir örmagna alllöngu fyrir dagsetur og grófu sig því fönn undir Illaklifi ofan við Leirvogsvatn, nema tveir sem gátu haldið sér uppréttum og vakandi alla næstu nótt. Hinir sofnuðu og féllu í ómegin, fennti í kaf og frusu fastir við snjóinn. Er leið að morgni tókst hinum vakandi að vekja félaga sína, sem enn voru lífs, og rífa þá upp úr snjónum. Voru 12 á lífi er dagaði. Þá herti veðrið enn og létust nú þrír í viðbót í höndum félags inna. Hinir brutust af stað og náðu fimm þeirra til bæjar í Bringum um miðjan morgun. Vour þeir svo þrekaðir að þeir gáðu ekki í fyrst að segja til þeirra sem ókomnir voru eða lágu dauðir uppi á heiðinni. En jafnskjótt og húsráðanda á Bringum varð ljóst hvað hafði gerst, sendi hann eftir hjálp á næstu bæi, en fór sjálfur að leita þeirra sem enn kynnu að vera á lífi. Fann hann tvo þeirra villta er drógu eða hálfbáru tvo örmagna félaga sína með sér.  Annar þeirra dó þó í höndum þeirra. Fórust þannig sex af þeim fjórtán, sem lagt höfðu upp í byrjun og þeir sem af komust voru flestir kalnir til stórskemmda og urðu örkulma lengi, sumir ævilangt. Hinir látnu fundust daginn eftir og voru jarðsettir að Mosfelli.

Gamli Þingvallavegur

Sæluhústóft.

Mennirnir fimm urðu úti við hól við Illaklif sunnan og ofan við Leirvogsvatn. Rennur lækur þar niður að vatninu, sem sjaldan frýs. Fylgdi frásögn eftirlifanda að óneining hefði komið upp í hópnum hvert halda skyldi. Sá sem hraustastur var, þekkti vel til og best slapp úr hrakningunum iðraðist þess jafnan að hafa ekki yfirgefið hópinn strax up kvöldið og reynt að brjóast til bæja eftir hjálp. Þessi atburður sýnir vel hversu alvarlegar afleiðingar vondur útbúnaður og fáfræði á ferðalögum gat haft í för með sér þegar í harðbakkan slær. En hann getur líka verið þörf áminning um um að ferðalög, um ekki lengri veg, geta verið varasöm ef ekki er allrar varúðar gætt og ferðabúnaður í góðu lagi. Auk þess má vel læra af honum þá lexíu að þegar allir vilja ráða för getur villan orðið þess meiri. Nauðsynlegt er að að láta þann ráða, sem mesta reynslu og besta þekkingu hefur á staðháttum.
Mennirnir, sem létust, eru grafnir í einni röð í ómerktum gröfum undir kirkjuveggnum í Mosfellskirkju.

Gamli Þingvallavegur

Sæluhús.

Þrívörður eru vestan við Þórðargil, ofan við svonefndar Þrívörðulautir við Þrívörðuhrygg. Hjá vörðunum lá hin gamla leið til Þingvalla. Vörðurnar þrjár mynda þríhyrning á klapparholti. Þaðan er gott útsýni niður heiðina til austurs. Þessar vörður sjást vel þegar komið er að austan með stefnu á hábrún heiðarinnar. Austasta varðan er mest um sig, en sú vestasta stendur hæst. Þær eru allar úr lagi gengnar. Fallega hlaðin leiðarvarða er suðaustan við Þrívörður.
Við Gamla Þingvallaveginn, á hábrún þar sem útsýni er best til Þingvalla, stendur gamalt steinhlaðið sæluhús.
Steinarnir í veggina eru tilhöggnir líkt og eru í Alþingishúsinu. Sennilega hafa þeir verið fluttir þangað á sleðum að vetrarlagi. Fróðlegt væri að fá nánari upplýsingar um hús þetta. Líklegt þykir að það hafi verið byggt við konungskomuna og verið notað við för konungs þessa leið til Þingvalla árið 1907. Nú er það að mestu hrunið, einungis mótar fyrir neðstu steinaröðum. Konungur fór um veginn með fríðu föruneyti. Sjálfur reið hann langleiðina, en eftir fylgdu vagnar með kost og klósett. Sögðu templaranir í sveitinni að rekja hefði mátt slóðina eftir föruneyti kóngs þar sem eftir lágu tómar kampavínsflöskur í götunni.

Gamli Þingvallavegur

Sýsluvarða.

Berserkjavarða er austarlega við Gamla Þingvallaveginn. Nafnið er hvorki fornt né kennt við hálftröll eða vígamenn. Vorið 1908 voru tveir unglingspiltar með viðlegu á heiðinni að hlaða vörður með fram veginum. Þessir piltar voru þeir Ólafur Magnússon frá Eyjum í Kjós og Jónas Magnússon, bóndi í Stardal. Þeir voru rétt innan við tvítugt. Þetta var í kauptíð og margt ferðamann á leið suður og sunnan. Áðu þeir gjarnan hjá vegamönnum, hvíldu hesta sína og þáðu kaffisopa. Þarna bar að ónefndan bónda austan úr Laugardal og fannst piltum hann vera með óþarflega herralæti og húsbóndahátt við þá, líkt og þeir væru hans þjónar en ekki gestgjafar. Kom þeim ásamt um, að rétt væri að gjöra honum einhvern grikk, ef hann kæmi við á leið úr kaupstaðnum. Tveim dögum síðar bar hann aftur að tjaldi þeirra, eitthvað við skál og ekki síður heimtufrekur og herralegur en í fyrra skiptið. En nú brá svo við að piltar voru stimamýktin holdtekin og til þjónustu reiðubúnir í hvívetna. Yfir kaffibollum dró ferðamaður upp axlarfulla flösku af brennivíni, fékk sér gúlsopa og baup piltum að dá sér bragð. Þeir kváðust, sem satt var, vera slíkum drykk alls óvanir en dreyptu þó örlítið á pyttlunni.

Gamli Þingvallavegur

Varða við Gamla Þingvallaveginn.

Fylgdu þeir síðan komumanni til hests hans og gengu með honum á leið, skínandi af vinsemd. Að skilnaði var þeim aftur boðið bragð, en þegar þeir höfðu fengið flöskuna í hendur kviknaði eitthvað við nára hestins, sem tók viðbragð og hentist af stað. En þegar reiðmaður hafði n áð valdi á gæðingi sínum og náð flösku sinni, lá hún galtóm milli þúfna og piltar farnir sína leið. Var þá fátt um kveðjur. En sakir kátínu yfir vel heppnuðu bragði, að senda hinn heimtufreka kaupstaðafara þurrbrjósta sinn veg, og þó kannski öllu fremur vegna óþekktra kynna af áhrifum Bakkusar konungs, rann á pilta mesta kraftaæði og voru þó hraustir fyrir, ekki síst Ólafur, sem var afarmenni að kröftum. Veltu þeir með járnkörlum gríðarstóru bjargi úr holtinu þangað sem varða skyldi standa, færðu ofan á það annan klett og þar upp á lyftu þeir þeim þriðja. Var þá varðan hlaðin, rúmlega mannhæðahá. Verkstjóri þeirra hló þegar hann sá vegsummerkin og kvað þá mestu berserki. Fékk varðan þetta nafn síðan.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Um tíma voru einungis tveir steinar í vörðunni, en nú hefur hún verið lagfærð og efsta steininum aftur komið á sinn stað. Ljóst er að þeir, sem hlóðu vörðuna, hafa verið vel rammir af afli, enda engra aukvisa að gera slíkt. Þessi varða er öðruvísi en aðrar vörður við Gamla Þingvallaveginn. Hinar eru vel til myndaðar, svipaðar að hæð og með vegprestum.
Gamli Þingvallavegurinn er nú fornleif. Vegurinn, ræsin, brýrnar, sæluhúsin, vörðurnar og KM-steinarnir eru minjasafn hinnar gömlu vegagerðar milli höfuðbýlis og þingstaðar – Þingvalla – þar sem fléttast saman gamlar þjóðleiðir og minnismerki þeim tengdum.
Þegar staðið er efst á Mosfellsheiði er auðvelt að setja sig í spor vermannanna að austan forðum daga. Fárra kennileita er á að byggja þegar hríð og bylur hylur útsýn og varla er þar skjól að finna þegar á reynir.
Frábært veður. Betra gerist það ekki á heiðum uppi á þessum árstíma. Og þvílíkt útsýni…..

Heimild m.a.:
-Árbók F.Í. 1986.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Heiðarblóm

Haldið var inn Seljadalinn og áfram upp á gamla Þingvallaveginn og síðan línuveginn á Þingvallaveg.

Seljadalur

Brú á hinum gamla Seljadalsvegi í Seljadal.

Farið var inn á slóðina skammt neðan við grjótnám Reykjavíkurborgar innan við Þormóðsdal. Síðan var haldið upp með Seljadalsá að norðanverðu. Sást þá gamla leiðin þar sem hún kemur að sunnan og yfir ána. Komið var að grindarhliði á girðingunni um höfuðborgarsvæðið vestan við Kambhól. Hlið er bæði fyrir bíla og fyrir hesta. Framundan eru hólar þvert yfir dalinn og liggur slóðin á milli hólana og síðan í gegnum gamla hlaðna rétt sunnan undir Kambhól, Kambsrétt. Slóðinn er flóraður á þessum kafla. Þessi gata var lögð á seinni hluta 19. aldar og var um tíma aðalvegurinn til Þingvalla eða þangað til gamli Þingvallavegurinn (sjá á eftir) var lagður í tilefni að Alþingishátíðinni 1907.

Seljadalur

Seljadalur – brúin.

Dalbotninn er sléttur og algróinn. Leiðin liggur nú upp til vinstri um holt þar sem þurrast er. Næst er komið þar sem slóð kemur á slóðina frá vinstri. Sú slóð liggur út dalinn horðan við Hulduhól að girðingunni umhverfis malarnámið, sem fyrr getur. Varða er á Hulduhól sem er norðan við Kambhól og gæti bent til þess að leið hafi verið þar ef menn voru á leið um Þormóðsdal (þurrari en hin leiðin). Framundan er vik í dalbotninum norður í holtinn og sést hlaðin jarðvegsbrú þvert og beint yfir vikið. Hefur verið mikið mannvirki á þeim tíma. Við förum yfir læk og er trébrú á honum.

Seljadalur

Seljadalsvegur.

Nú er komið að raflínu sem liggur upp Seljadalinn og liggur slóðin sem er hér línuvegur norður fyrir vikið og er farið yfir aðra trébrú. Slóðinn sameinast svo gamla veginum á ný austan við vikið.
Sunnan í dalnum er hamraveggur á kafla. Neðan við hann er nokkuð slétt svæði, grasgeiri og er ekki útilokað að þar kunni að leynast tóftir á tungunni. Leiðin liggur svo upp með gili sem heitir Hrafnagil upp í Efri-Seljadal, þaðan á vatnaskil þar sem fer að halla í Leirdal og efstu drög Köldukvíslar, sem rennur niður Mosfellsdalinn.

Mosfellsheiði

Gamli Þingvallavegurinn.

Leirdalur er nokkuð vel gróinn og liggja gamlar götur um hann. Nú er orðið stutt upp á heiðina og hér sést hrunin varða. Farnir höfðu verið 6,5 km frá upphafsstað. Hrundar vörður eru hér með um 100m millibili. Slóð liggur hér til suðurs upp á gamla Þingvallaveginn sem kemur úr suð-vestri með Seljadalsbrúnum. Gatan liggur áfram upp á Háamel á gatnamót gamla Þingvallavegarins.
Nú var farið að svipast eftir stæði veitingahússins sem reist var hér.

Gamli Þingvallavegur

Tóftir Heiðarblómsins.

Farið var suð-vestur veginn að slóðamótunum sem áður var getið og litast þar um. Haldið var spölkorn til baka í norð-austur upp Háamel, stundum nefndur Aldan. Þegar komið var að talsverðu úrrennsli í veginum sást í hleðslu skammt norðan við veginn, vestur undir lágri grasivaxinni brekku. Hleðslan mun hafa verið grunnur að veitingahúsi. Giskað var á að grunnflöturinn gæti verið 3-3.5×4-4,5m. Grösugt er í kring um hleðsluna og virðast vera götur framan við hússtæðið. Ekki var vatn í læknum sem hefur rofið veginn en en vatn hefur líklega verið í honum áður. Hefur kannski breyst við að svörðurinn hefur rofnað og vatnið gengur niður? Veitingahúsið hefur staðið nokkurn veginn miðja vegu milli gömlu leiðarinnar upp úr Seljadal og Leirdal, áleiðis til Þingvalla og gamla Þingvallavegarins (sunnar). Veitingahús þetta var reist árið 1920 og nefnt Heiðarblóm.

Þingvallavgegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Skammt austar kemur gamla leiðin inn á gamla veginn. Við mótin er fallega hlaðinn varða er líkst mest bergþurs. Hefur þurft menn (eða konur) ramma að afli til að koma miðjusteininum fyrir. Tilgangur þessara leiðarmerkja var að vísa vegfarendum veginn í slæmu skyggni eða vondum veðrum, ólíkt því sem ekki ósvipuðum mannvirkjum er ætlað á Njarðvíkurheiði vestra, þar sem þeim er beinlínis ætlað að villa um fyrir fólki.
Hér áður fyrr höfðu mannvirki ákveðin tilgang. Vörður voru leiðarmerki. Hlaðin skýli voru skjól fyrir veðrum. Kennileiti í landslagi voru eyktarmörk eða viðmið. Tveir steinar, hvor upp á öðrum, merktu greni. Þannig hafði allt sinn tilgang. Engin ástæða er til annars fyrir afkomendurna en að hafa þetta í heiðri. Varða á hól, án tilgangs, er eins og álfur út úr hól – góðir Íslendingar.
Veður var frábært – sól og hiti. Ferðin tók 2 klst og 22 mín.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Þingvallavegur

Forn leið frá Reykjavík til Þingvalla lá m.a. um Seljadal. Sjá má endurbætur á henni við Kambhól þar sem vegurinn liggur í gegnum Kambsréttina. Þar er hlaðið í vegkantinn. Gamli Þingvallvegurinn svonefndi lá hins vegar sunnar og vestar á Mosfellsheiði. Við hann er er margt að skoða, auk þess sem vegurinn er ágætt dæmi um vandaða vegagerð þess tíma.

Þingvallavegur

Nýi Þingvallavegur – brú.

Nýi Þingvallavegurinn var lagður fyrir Alþingishátíðina á Þingvöllum árið 1930. Þar sem gamli vegurinn mætir þeim nýja að austanverðu , skammt vestan við vegamótin, er mikil lægð í heiðinni og blautar mýrar. Þetta er Vilborgarkelda. Örnefnið er ævafornt, að líkindum frá þjóðveldisöld. Ekki er vitað við hvaða Vilborgu þetta keldusvæði er kennt.
Gamli Þingvallavegurinn, sem liggur áfram yfir háheiðina, var lagður á árunum 1890-96. Byrjað var á honum af Suðurlandsvegi við Geitháls. Vegalagningin miðaðist þá að sjálfsögðu við umferð hestvagna og ríðandi fólks.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Vegurinn var lagður nær á sömu slóðum sem hinar fornu ferðamannaslóðir lágu um, en þó ívið sunnar eins og fyrr sagði. Eftir lagningu hans beindist nær öll umferð um heiðina að þessum vegi. Vörður voru hlaðnar við hann á allri heiðinni til leiðbeiningar ferðamönnum. Byggt var nýtt sæluhús við veginn í stað gamla hússins, sem stóð talsvert austar og norðar, á sýslumörkunum. Talsverðar endurbætur voru gerðar á þessum vegi vegna konungskomunnar 1907. Sumarið 1913 var í fyrsta sinn ekið bifreið eftir þessum vegi til Þingvalla og var notast við hann sem bílveg eftir það í hálfan annan áratug.

Gamli Þingvallavegurinn er ekki síst áhugaverður vegna vinnubragða þeirra manna, sem fyrstir ruddu brautir og lögðu vegi milli héraða með handverkfærum einum, skóflu og haka, járnkarli og handbörum. Enn vottar fyrir leifum af hellurennum, hlöðnum brúarstöplum og fallega hlöðnum vörðum sem vísuðu veginn þegar ekki sást í dökkan díl. Vegalengdin frá Krókatjörn þar sem gamli leiðin kemur inn á götuna ofan við Langavatn um Miðdal og austur að beygjunni á nýja Þingvallaveginum er um 20 km. Leiðin er u.þ.b. hálfnuð er komið er á Háamel.

Mosfellsheiði

Sæluhúsið við Gamla-Þingvallaveginn.

Minjar gamla sæluhússins eru þar sem skerast markalínur sýslanna og hreppamörk Mosfells-, Grafnings- og Þingvallahrepps. Tóft nýrra sæluhússins er norðan vegarins. Það var hlaðið úr tilhöggnu grjóti. Sagt hefur verið að þar hafi verið reimt og til af því sögur. Tveimur kílómetrum austan þess eru fornar steinbrýr á veginum, nefnd Loft.

Þingvallavegur

Brú á Gamla Þingvallaveginum.

Þegar haldið var austur eftir Gamla-Þingvallaveginum sást vel hversu mikið mannvirki hann hefur verið á sínum tíma, bæði beinn og breiður. Púkkað er svo til í allan veginn og jafnvel hlaðið í kanta. Nú er yfirborðið fokið út í veður og vind, en eftir stendur undirlagið og frostupphleyft grágrýti er torveldar leiðina. Fallega hlaðin ræsi eru mörg á veginum og er ótrúlegt að sjá hversu stóra steina mönnum hefur tekist að forfæra við gerð þeirra. Ræsin á veginum eru tvenns konar; annars vegar hlaðnar rásir með þykkum og þungum hellum og hins vegar “púkkrás” þvert í gegnum veginn.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Vestan við Háamel er fallega hlaðin brú. Lækjarfarvegurinn undir brúnni hefur verið flóraður. Brúarendarnir eru listasmíð, steinarnir nákvæmlega felldir saman og ofan á brúnni beggja vegna hvíla brúarsteinarnir. Í þá hefur verið festur teinn og væntanlega hefur keðja verið strengd á milli þeirra.
Efst á Háamel kemur gamla leiðin ofan úr Seljadal og Leirdal saman við nýju götuna. Gamla leiðin er vel vörðuð yfir Háamelin og áfram austur. Hún heldur áfram yfir melinn, en kemur inn á nýju götuna skammt austar. Skammt frá mótunum er há heil varða, gerð úr stóreflis bjargi. Það hvílir á hveimur “fótsteinum”, en ofan á “búknum” hvílir “höfuð” með “nefi” er bendir vegfarendum rétta leið við stíginn. Austan vörðunnar er gatan flóruð í kantinn annars vegar.

Seljadalur

Seljadalur – brú á Seljadalsvegi.

Haldið var til baka og nú um Seljadalsleið. Við hana sést gamli stígurinn (eldri þjóðleiðin til Þingvalla) víða þar sem hún liggur í hlykkjum upp úr dalnum, upp með Hrafnagjá og áfram austur. Vestan við Kambshól sést gatan vel þar sem hún hlykkjast um landslagið. Neðan þverdalsins, þars em Nessel er, er nokkurt mannvirki; landbrú yfir mýrlendi. Þetta hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma, en er nú sem minnismerki um löngu liðnar ferðir margra á merkisstað.

Frábært veður – sól og hiti. Ferðin tók 5 klst og 5 mín. (Sjá meira undir Lýsingar).

Efni m.a. úr Árbók FÍ – 1985.
Einnig úr Áfangar, ferðahandbók – 1986.

Thingvallavegur gamli - 217

Gamli Þingvallavegur – ræsi.

Portfolio Items