Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn var lagður frá Geithálsi austur að Almannagjá á árunum 1890-1896 undir verkstjórn Árna Zakaríassonar og Einars Finnssonar. Guðjóni Helgason á Laxnesi vann m.a. að endurbótum vegarins snemma á 20. öld.

Gamli Þingvallavegur

Sæluhúsin við Gamla Þingvallaveginn.

Gamli Þingvallavegurinn var mikið framfaraspor á sínum tíma, hann var byggður á hestvagnaöld en nýttist einnig eftir að tímar bílsins runnu upp. Vegurinn var þó aðeins notaður í fáeina áratugi sem aðalleið til Þingvalla því ráðist var í vegagerð norðar á heiðinni fyrir Alþingishátíðina árið 1930. Gamli Þingvallavegurinn var þá fljótlega aflagður og hefur verið spillt til beggja enda en á háheiðinni er hann mjög heillegur á löngum kafla, þar er að finna ýmsar fornminjar, meðal annars hleðslur, vörður, grjóthlaðin ræsi og brýr.

Þrír áningastaðir eru þekktir á Mosfellsheiði; við elstu Þingvallaleiðina til vesturs að Seljadal og Bringum, undir Gluggavörðunni vestan Moldabrekkna, sæluhúsið í Moldabrekkum á sömu leið og loks sæluhúsin við Gamla Þingvallaveginn austan Rauðkuhóls. Rauðkuhóll er klappahóll til vinstri við veginn er vegurinn er farinn til austurs. Segir sagan að þar hafi fótbrotnað hryssa, er Rauðka hjet, hjá ferðamönnum úr Þingvallasveit. Meðal þeirra var Jónas hreppstjóri Halldórsson í Hrauntúni. Hafði hann broddstaf mikinn í hendi og keyrði í enni hryssunnar, og var hún þegar dauð.

Gamli Þingvallavegur

Sæluhúsið og “áningahúsið” við Gamla Þingvallaveginn.

Kålund lýsir Þigvallaveginum svo 1877: „Yfir Mosfellsheiði (400 feta há) liggur fjölfarinn vegur til gamla alþingisstaðarins, Þingvalla, og þaðan greinist leiðin til fjarlægra héraða landsins. Úr öllum dölum Mosfellssveitar liggur leið upp á Mosfellsheiði; þó er aðalvegurinn eftir hinum syðsta þeirra, svonefndur Seljadalsvegur. Þá er farið – ef Reykjavík er hugsuð sem upphafsstaður – þegar nýkomið er yfir Elliðaár – í landnorður yfir grjótholt, oftast upp brekkur, fram hjá nokkrum tjörnum, þar til eftir nokkurra stunda reið er komið í Seljadal, lítill óbyggður dalur, og liðast á eftir honum, þar er venjulega áfangastaður, áður en lagt er á Mosfellsheiði“ (bls. 47).

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur.

„Árið 1886 var hafin lagning vegar um Mosfellsheiði. Var sú vinna hafin við Suðurlandsveg um dálitla lægð í Hólmsheiði, þar sem síðar urðu mjög kunn vegamót, því árið 1904 byggði Guðmundur Nordahl allreisulegt hús við vegamótin og kallaði það Geitháls, sem svo var greiðasölu- og gistihús í hartnær hálfa öld. Um þessa áðurnefndu lægð var svo vegurinn lagður upp á Hólmsheiðina fyrir sunnan bæinn Miðdal og þaðan á Mosfellsheiði sunnan við Grímmannsfell, norðan Borgarhóla um Moldbrekkur, að þar sem þverbeygja er nú á Þingvallaveginum, og þar sér enn fyrir gamla veginum. …

Þingvallavgegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Þessari vegagerð um Mosfellsheiði, sem hófst árið 1886 var að fullu lokið árið 1891. Mikil vegagerð hefur það verið á þeim tíma, sem enn má sjá merki til, því enn má sjá ýmsar minjar, sem sýna hve vel hefur verið vandað til þessa vegar, sem þá var ætlað að taka við allmikilli umferð. Spá manna þá var sú að hestvagnar, sem reyndar voru ekki farnir að flytjast til landsins, myndu innan skamms tíma verða mikið notaðir á þessari leið. … Vegurinn liggur austan við Seljadalinn, en áður lá leiðin um þann dal…. Verkstjóri við lagningu Þingvallavegarins var Erlendur Zakaríasson, en hann og bróðir hans Árni, voru þekktir vegaverkstjórar á síðustu áratugum 19. aldar og fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu“ (Adolf J. E. Petersen, bls. 90-92).

Af framangreindri lýsingu Kålunds má a.m.k. lesa tvennt; hann skrifar lýsingu sína 1877 og er þá að lýsa elstu Þingvallaleiðinni um Seljadal um Moldabrekkur, sem er nokkuð norðan Gamla Þingvallavegarins, sem byggður var á árunum 1890-1896. Við þá leið var byggt sæluhús í Moldabrekkum 1841. Húsið var byggt úr svnefndum Sýsluvörðum (Þrívörðum). Vatnslind er þá neðan við húsið. Lýsingunni virðist hafa verið bætt við upphaflegu lýsinguna.

Gamli Þingvallavegur

Eldra sæluhúsið við Gamla Þingvallaveginn.

Í Lögbergi-Heimskringlu 1890 segir að við Gamla Þingvallaveginn hafi verið byggt sæluhús 1890, á háheiðinni. Hleðslumeistari hafi verið Sigurður Hansson (1834-1896), sem hlóð einnig reisulegar vörður meðfram veginum. Hafa ber í huga að vörður a fyrirhugðum vagnvegum voru jafnan hlaðnar nokkru áður en fyrirhuguð vegagerð hófst.

Í framangreinda lýsingu virðist hafa gleymst að “sæluhús” úrt torfi og grjóti hafði þegar verið reist á framangreindum stað, líklega fyrir 1890. Tóftir hússins eru skammt austan steinhlaðna hússins, sem líklegt er að hafi verið byggt um 1906 í tilefni af væntanlegri konungskomu Friðriks VIII árið 1907. Aftan (norðan) við gamla sæluhúsið mótar fyrir gerði.

Sæluhús

Sæluhúsið við gamla Þingvallaveginn um 1912.

Fyrirmenn hafa væntanlega ekki talið “sæluhús” vegagerðarmanna, gert upp á íslenskan máta úr torfi og grjóti, boðlegt hinum konungbornu og því verið ákveðið að gera nýtt álitlegra “áningahús” við hlið þess. Innandyra var aðstaða fyrir ferðamenn á upphækkuðum trépalli að austanverðu og fyrir nokkra hesta að vestanverðu.
Frá hússtæðunum er frábært útsýni, á góðum degi, yfir Þingvallasvæðið framundan. Framan við gamla “sæluhúsið” hefur verið grafinn og gerður upphlaðinn brunnur. Vel má enn merkja ummerki hans.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – horft til austurs, í átt til Þingvalla, frá sæluhúsinu.

FERLIRsfélagar heimsóttu verkmenn við endurbyggingu “áningahússins” við Gamla Þingvallaveginn og skoðuðu minjarnar. Var tekið vel á móti þeim og verkefninu lýst með ágætum.

Sjá meira um gamla sæluhúsið í Moldarbrekkum HÉR.

Heimildir:
-https://www.visir.is/g/2016161219351/thingvallavegur
-Adolf J. E. Petersen. Samgönguleiðir til Reykjavíkur að fornu og nýju. Reykjavík miðstöð þjóðlífs. Safn til sögu Reykjavíkur. Sögufélagið 1977.
-Kålund, P. E. Kristian. Íslenskir sögustaðir. þýð. Haraldur Matthíasson. Reykjavík 1984.
-Stefán Þorvaldsson. „Lýsing Mosfells- og Gufunessókna“. Sýslulýsingar og sóknalýsingar. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Félagið Ingólfur gaf út. Reykjavík 1937-1939.
-Sveinn Pálsson. Ferðabækur Sveins Pálssonar. Dagbækur og ritgerðir 1791-1797. Reykjavík 1945.

Gamli Þingvallavegurinn

FERLIRsfélagar ásamt verkönnum við endurgerð gamla “áningarstaðirns”.