Færslur

Kolviðarhóll

Þorsteinn Bjarnason frá Háholti skrifar í Örnefnalýsingum um “Sögu Kolviðarhóls”:

“Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niður Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit.

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni. Í ekkert hús var að venda nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan; munu nú flestar þessar draugasögur gleymdar. Heyrði ég í ungdæmi mínu haft eftir grobbnum karli, sem náttaði í kofa þessum, að hann sagðist hafa verið í áflogum við draug alla nóttina. „Hafði ég draugsa stundum undir, en hann slapp alltaf úr höndum mér, af því hvergi var eiginlega hægt að festa höndur á honum.“ Slíkar og þvílíkar sögur hafa skotið mönnum skelk í bringu, því draugatrú var á þessum tímum bráðlifandi. Forðuðust menn því kofann, og hefir óefað margur af því orðið úti. Í Þjóðólfi er þess getið, að svo megi telja, að á þessari leið hafi orðið úti maður annað hvort ár. Fóru menn nú að sjá, að þetta ástand var óþolandi.
Kolviðarhóll
Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hvatamenn þess voru þeir séra Páll Matthíasson, prestur í Arnarbæli, Ölfusi, og Jón Jónsson, bóndi á Elliðavatni. Var að þessu mikil bót, fækkaði nú slysförum, því nú var hægara að finna kofann. Draugatrúin hvarf að mestu leyti; sagt var, að mörgum hafi verið illa við, að spýtur úr Svínahraunskofanum voru látnar í nýja kofann.
Nú liggur þetta sæluhúsmál niðri í 28 ár, en árið 1873 er það aftur vakið upp af þessum þrem mönnum; Guðmundi Thorgrímssen, verzlunarstjóra á Eyrarbakka, séra Jens Pálssyni, presti að Arnarbæli í Ölfusi, og Randrup lyfsala og konsúl í Reykjavík. Í örnefnaskrá frá því um 1700 í Þjóðskjalasafninu er Hellisskarð nefnt Nautaskarð, Bolavellir nefndir Hvannavellir, en Bolavellir strekki sig út frá Norðurvöllum. Þannig til orða tekið. Þ.B. þeirra er, að á Kolviðarhóli sé byggt svo veglegt hús, að í því geti búið gestgjafi, sem geti veitt móttöku vegfarendum og látið þeim í té rúm, mat og kaffi, ef með þarf. Ennfremur hey og hús handa hestum þeirra.
Kolviðarhóll
Hófu þeir nú fjársöfnun, en svo virðist sem undirtektir væru daufar, því ekki höfðu safnazt nema 10 rd. og 18 sk., þegar komið er langt fram á árið 1874. Þó ekki blási byrlega, gefast þeir ekki upp. Árið 1876 rita þeir enn um málið og skora nú fastlega á menn að gangast fyrir samskotum. Við árslok 1876 eru komnar í samskotasjóðinn 1378 krónur, 35 aurar.
Nú snúa þeir máli sínu til landshöfðingja og sækja um 1500 króna tillag úr landssjóði. Landshöfðingi svarar beiðni þeirra svo, að hann lofar 1000 króna framlagi úr landssjóði, þó með því skilyrði, að húsið væri byggt á næsta vori (þ.e. 1877). Því þora þeir ekki að lofa, því þeir álíta, að samskotaféð og þetta tillag landssjóðs verði of lítið, þar eð þeir höfðu einsett sér, að útveggir hússins yrðu byggðir úr steini. Skrifa þeir enn um þetta mál í Þjóðólfi og fara þungum orðum um undirtektir landshöfðingja í þessu máli.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – loftmynd.

Árið 1877 eru samskotin orðin 2600 krónur. Þá eru þeir Björn Guðmundsson múrari og Helgi Helgason trésmiður fengnir til þess að gjöra áætlun um, hvað húsið muni kosta, og um leið að ákveða stærð hússins í samráði við séra Jens. Áætlunin varð 3600 krónur. Nú koma þeir landshöfðingja inn í málið í staðinn fyrir Randrup. Eflaust hefir landshöfðingi lagt fram fé úr landssjóði, sem á vantaði, því nú er ákveðið að byggja húsið, og er það fullgjört árið 1878. Húsinu er lýst þannig: Tvö herbergi niðri og annað með ofni, ennfremur eldhús með suðuvél. Uppi tvö herbergi, annað til geymslu, en hitt fyrir ferðamenn. Er nú loksins húsið komið upp eftir 5 ára látlausa baráttu. 27. ágúst 1878 er húsið auglýst til leigulausrar ábúðar. Þá flutti sig þangað frá Hreiðurborg í Flóa Ebeneser gullsmiður, sonur Guðmundar bókbindara og bónda á Minna-Hofi á Rangárvöllum, Péturssonar bónda s.st. Einarssonar bónda í Litla-Klofa á Landi, síðar á Minna-Hofi, Bergsteinssonar.

Kolviðarhóll
Á Kolviðarhóli átti Ebeneser við erfiðleika að stríða, og er það skiljanlegt, þar sem ekki var á öðru að lifa en greiðasölu til ferðamanna, sem ekki höfðu gjaldeyri nema af skornum skammti. Sezelja, kona Ebenesers, sagði sér hefði hvergi liðið eins illa um ævina. Þar hefði hún liðið bæði hungur og kulda. Vorið 1879 flytur Ebeneser frá Kolviðarhóli suður á Eyrarbakka.
KolviðarhóllÁrið 1879 sést enginn skrifaður á Kolviðarhóli, en 1880 flytur á Hólinn Ólafur bókbindari Árnason frá Eyrarbakka. Á Kolviðarhóli er hann til vorsins 1883. Ferðamenn gera það að blaðamáli, hve ófullkominn sé viðurgjörningur hjá Ólafi, þar fáist ekkert nema kuldi. Hóf nú Jón Jónsson ritari fjársöfnun í Reykjavík til hjálpar gestgjafanum á Kolviðarhóli. Safnaði hann 64 krónum og keypti nú mat, olíu og kol fyrir peningana, en Ölfusmenn fluttu vöruna upp á Kolviðarhól. Um vorið 1883 flytur Ólafur burtu, en þá tekur Kolviðarhólinn Sigurbjörn trésmiður Guðleifsson. Sama vorið sezt líka að á Kolviðarhóli Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum.
Jón náði fljótt hylli ferðamanna, svo Sigurbirni var ekki viðvært; flúði hann burtu eftir 3ja mánaða dvöl á Kolviðarhóli við lítinn orðstír. Jón var af traustu bergi brotinn, og yfirvann hann erfiðleikana með dugnaði. Hann var fæddur á Minna-Mosfelli árið 1838; var Jón bróðir Arnórs föður prófessors Einars hæstaréttardómara; voru þeir bræður synir Jóns bónda á Minna-Mosfelli, fæddur 1810, Jónssonar bónda á Reykjanesi, Grímsnesi, fæddur 1771, Sigurðssonar bónda í Miðdalskoti, Laugardal, fæddur 1722, Sigurðssonar Skíðastöðum, Tungusveit, og Hofi í Skagafjarðardölum, fæddur 1670, Jónssonar Flatatungu, fæddur 1633, Sigurðssonar Flatatungu Jónssonar. Kona Jóns á Minna-Mosfelli, móðir Jóns á Kolviðarhóli, fædd 1804, var dóttir Jóns bónda á Neðra-Apavatni, dáinn 1839, Jónssonar og Ingveldar Jónsdóttur.
KolviðarhóllÞegar Sigurbjörn fór frá Kolviðarhóli, flutti Jón í nýja húsið, en lét þó bæinn standa fyrst og hýsti ferðamenn í honum. Jón fór nú að græða út tún og girti með grjótgarði. Mótak fann hann í gilskorningi við austurenda Húsmúlans. Slægjur keypti hann austur í Ölfusi; fluttu ferðamenn oft hey fyrir hann á hestum sínum út á Hól, naut hann þar vinsældar sinnar.
Eftir að þau hjón Jón og Kristín – var hún dóttir Daníels bónda á Hæðarenda í Grímsnesi – komu að Kolviðarhóli, heyrðust aldrei neinar kvartanir koma frá vegfarendum yfir því, að ekki fengist það, sem um var beðið. Þó kröfurnar væru ekki gjörðar háar af þeim vegfarendum, sem þá komu oftast að Kolviðarhóli, hefir þurft mikla fyrirhyggju til að sjá um, að undan engu væri að kvarta. Næturgreiði var mjög sanngjarn. Rúm kostuðu frá 25 aurum upp í 50 aura, kaffibolli brauðlaus 10 aura, með brauði 25 aura. Hey var dýrast, og var það að vonum, því dýr var flutningur á því austan úr Ölfusi. Jón og Kristín mörkuðu fyrstu sporin til þess, sem Kolviðarhóll varð síðar.
Kolviðarhóll
Árið 1895 fór Guðni, tengdasonur Jóns, að búa á Kolviðarhóli, hann átti Margréti Jónsdóttur. Guðni var fæddur á Arnarstöðum í Flóa 1863, sonur Þorbergs bónda þar, fæddur 1829, Helgasonar bónda á Lambastöðum hjá Hraungerði, fæddur 1795, Jónssonar bónda í Ölvisholti, Flóa, fæddur 1766, Einarssonar bónda í Götu, Selvogi, Jónssonar. Guðni og Margrét kona hans voru mjög vinsæl og hinir mætustu gestgjafar.

Guðni var dugnaðarmaður. Sótti hann um nýbýlarétt á Kolviðarhólnum til Ölfushrepps, sem honum var veittur. Innti hann af hendi allar þær skyldur, sem nýbýlaréttur áskilur. Stækkaði túnið og afgirti stórt land undir suðurhlíð Húsmúlans. Bætti húsakynni mikið. Eftir að Guðni tók við gistihúsinu, sótti hann um styrk af opinberu fé, til þess að afla heyja handa hestum ferðamanna. Mælti sýslunefnd Árnessýslu með því. Árið 1900 fékk Guðni 150 krónur úr jafnaðarsjóði. Síðar fékk hann 200 krónur úr amtsjóði, sem viðurkenningu fyrir jarðabætur. Árið 1906 selur hann jörðina Kolviðarhól Sigurði Daníelssyni, og flytur Sigurður þangað.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – bæjarhóllinn 2008.

Brátt áunnu þau hjón sér virðingu og traust ferðamanna. Voru nú húsakynni orðin allgóð. 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Ég læt það öðrum eftir, að skrifa um þær miklu endurbætur, sem Sigurður gjörði á Kolviðarhóli, í jarðrækt og húsabyggingum.
Svo enda ég þessar línur með því að segja, að Suðurlandsundirlendið ásamt Reykjavík eru í mikilli þakkarskuld við þá menn, sem börðust fyrir því, að svo veglegt hús var byggt á Kolviðarhóli, að menn gátu búið í því, og þá ekki síður í þakkarskuld við þá þrjá búendur á Kolviðarhóli, Jón, Guðna og Sigurð, ásamt konum þeirra, sem gjörðu garðinn frægan. Nú taka aðrir við. „Eftir er yðvar hluti“, sagði Skarphéðinn.”

Heimild:
-Örnefnastofnun, Árnessýsla Saga Kolviðarhóls, Ölfushreppur – Saga Kolviðarhóls eftir Þorstein Bjarnason frá Háholti.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1914.

Engidalur

Í “Fornleifaskráningu á Hengilssvæðinu III – Fornleifar á afrétti Ölfushrepps“, gerða af Orra Vésteinssyni 1998, er fjallað um ýmsar minjar á og við Kolviðarhól, Hellisheiði og í Hengli. Hér veður getið nokkurra þeirra:

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – tóftir.

“Bú var reist á Kolviðarhóli 1883 og varði til 1954, en þar sem sá búskapur tengist fremur sögu samgangna á svæðinu en búnaðarsögu þess.
Helsta sérkenni Hellisheiðar og Hengilssvæðisins eru hinar mörgu samgönguleiðir sem liggja þar um. Að vísu var hlutfallslega minna farið um Hellisheiði á fyrri öldum en nú, því að milli Suðurlands og Vesturlands voru þá yfileitt farnar aðrar leiðir, um Kjöl, Uxahryggi, Leggjabrjót, Botnsheiði eða Grafning um Kjósarskarð. Engu að síður var Hellisheiðin aðalleið milli vesturhluta Árnessýslu og Kjalarnesþings og eftir að kaupstaðir festust í sessi, fyrst í Þerney, svo í Hafnarfirði og Hólminum/Reykjavík óx mikilvægi þessarar leiðar. Hellisheiðarvegur lá áður fyrr mun norðar en nú en þegar komið var að vestan var farið norðan við Svínahraun en ekki í gegnum það eins og nú enda var úfið hraunið illfært bæði hestum og fótgangandi mönnum. Sléttir vellir eru norðan við hraunið með fram Engidalskvísl og síðan var farið upp með Húsmúla, sem dregur nafn sitt af sæluhúsi sem þar var við Draugatjörn og er frægt bæði fyrir að vera eitt hið elsta sem góðar heimildir eru um á Íslandi og fyrir draugagang sem varð til þess að húsið var fært á Kolviðarhól 1844.

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

Frá Draugatjörn lá leiðin framhjá Kolviðarhóli og upp Hellisskarð og síðan eftir sléttum hellum austureftir heiðinni og niður Kambana heldur sunnar en vegurinn er nú. Á vestari hluta heiðarinnar hafa myndast rásir í móbergshelluna eftir járnaða hófa sem þarna hafa farið yfir um aldir og eru það bæði sérstakar og mikilfenglegar minjar.
Umferð jókst mjög á þessari leið á 19. öld eftir því sem mikilvægi Reykjavíkur óx og var hún einnig póstleið frá því að póstsamgöngur hófust í lok 18. aldar. Jókst þá einnig áhyggja manna af öryggi á leiðinni. Laust fyrir 1830 hlóð Þórður Erlendsson bóndi á Völlum í Ölfusi, að eigin frumkvæði að því er virðist, kofa úr hellugrjóti uppi á heiðinni sjálfri og stendur hann enn. Á þessum tíma hefur gamla sæluhúsið við Draugatjörn verið orðið hrörlegt auk þess sem margir virðast hafa veigrað sér við að gista þar vegna draugagangs. Það var síðan lagt niður er timburhús á hlöðnum sökkli var byggt á Kolviðarhóli 1844. Á þeim tíma voru ekki mörg timburhús á Íslandi og er þessi íburður til marks um mikilvægi leiðarinnar. Í hinu nýja húsi gátu sofið 24 menn og einnig var skjól fyrir 16 hesta. Þetta hús var síðan farið að láta á sjá þrjátíu árum síðar og 1878 var byggt, með opinberu fé, steinhús á Kolviðarhóli til að taka við timburhúsinu, sem eftir sem áður var notað sem hesthús. Sömu sögu er að segja að 1878 voru ekki mörg steinhús á Íslandi og sýnir þetta vel hversu mikilvægt það þótti að ferðamenn gætu leitað öruggs skjóls á þessari leið.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Vel var fylgst með byggingu þessa húss í Reykjavíkurblöðunum enda var þetta ein af fyrstu opinberu framkvæmdum sem Íslendingar réðust í eftir að þeir fengu sjálfstæðan fjárhag 1874.
Fimm árum eftir að steinhúsið á Kolviðarhóli reis, eða 1883, flutti þangað Jón Jónsson með fjölskyldu sína og var búið þar til 1954. Byggð á Kolviðarhóli byggðist fyrst og fremst á greiðasölu og var beinlínis hugsaður til að auka öryggi á leiðinni en þeir sem þar bjuggu fengust einnig við hefðbundinn búskap og má sjá um hann allmiklar minjar. Tún var ræktað á hólnum og sést enn vandaður túngarður í kring um það. Fleiri garðar voru hlaðnir í grenndinni sem minna á heyskap Kolviðarhólsbænda.
Um svipað leyti og nýja sæluhúsið var byggt á Kolviðarhóli 1878 var lagður vegur yfir Svínahraun,mun norðar þó en núverandi vegur, og upp Hellisskarð yfir heiðina á sama stað og gamla þjóðleiðin. Þessi vegur var þó ekki vagnfær sem dró mjög úr nytsemi hans. Nýr vegur var lagður yfir Hellisheiði 1894-1895 og var þá vegarstæðið flutt suður fyrir Reykjafell og vagnfær leið gerð um Hveradali sem síðan sameinaðist gömlu leiðinni austar á heiðinni. Frá þessari vegagerð er örnefnið Smiðjulaut sem kennt er við smiðju vegagerðarmanna. Vegurinn sem nú er farinn er mun sunnar í Svínahrauni en norðar á Hellisheiði en gamli vegurinn og má víða sjá minjar um þessa gömlu vegagerð á heiðinni.

Smiðjulaut

Smiðjulaut – Smiðjutóft.

Leiðin um Hellisheiði var fyrst og fremst farin af Ölusingum og þeim sem fóru yfir Sogið hjá Torfastöðum og síðan um Grafningsháls en úr Grafningi lá einnig fjölfarin leið um Dyrafjöll, Dyravegur, yfir Mosfellsheiði. Sá vegur liggur um nyrsta hluta afréttar Ölfusinga og er þessvegna getið hér. Fáfarnari leið var úr norðanverðum Grafningi um Ölkelduháls og Milli hrauns og hlíðar norðan við Orrustuhólshraun og saneinaðist hún Hellisheiðarvegi rétt austan við Hellisskarð. Þeir sem áttu leið í Þorlákshöfn eða Selvog frá innanverðum Faxaflóa fóru yfirleitt ekki Hellisheiði heldur Lágaskarðsveg eða Ólafsskarð, en Þrengslin sem eru á milli þessara leiða munu hafa verið fáfarin fyrrum.

Ólafsskarð

Ólafsskarð.

Bæði Þrengslavegur og Lágaskarðsvegur klofnuðu frá Hellisheiðarvegi hjá Kolviðarhóli og lágu beint til suðurs með austurbrún Svínahrauns. Ólfasskarðsleið liggur hinsvegar mun vestar og sameinast ekki öðrum vegum fyrr en niðri í byggð, Hellisheiðarvegi hjá Fóelluvötnum, en Þrengslavegi sunnan við Þúfnavelli. Í Ólafsskarði munu vera rásir í móbergshelluna eins og á Hellisheiðarvegi og Dyravegi. Þeir sem komu úr Borgarfirði eða enn lengra að vestan eða norðan og áttu erindi í Selvog, og þeir voru ekki fáir fyrr á öldum enda stórar verstöðvar þar suður með, fóru annaðhvort um Þingvöll eða Kjósarskarð og gátu þá valið að fara með bæjum um Grafning eða þræða austurbrún Mosfellsheiðar, vestur með Dyrfjöllum og koma á Hellisheiðarveg á Bolavöllum þaðan sem beinust leið var í Selvog um Lágaskarðsveg. Þó að þessi leið virðist auðveld og greiðfær eru sáralitlar heimildir um hana.
Aðrar leiðir sem skráðar eru á afrétti Ölfusinga voru fyrst og fremst notaðar af innasveitarmönnum og gangnamönnum. Þannig liggur leið, Skógarmannavegur, frá Þurá beint til norðurs yfir austurhluta Hellisheiðar og yfir Ölkelduháls til Nesja en þangað var farið til kolagerðar frá Hjalla. Frá Núpum liggur einnig gata upp á Hellisheiði og hefur hún einnig verið notuð af þeim sem fóru Hellisheiði en áttu erindi í vesturhluta Ölfushrepps.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – yngsta húsið á hólnum.

Almenn sögn segir, að í Kolviðarhól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.” Kolviðarhóll er hár og breiður náttúrulegur melhóll og stóð þar lengi sæluhús en bú var reist þar 1883.

Almenningsvegur liggur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba …, síðan vestur yfir Hellirsheiði, hvör að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísirs.”
1840: “Hellirsheiði er … vel rudd … Á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum.” SSÁ, 205
“Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niðurí Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit. Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni.”

Hellisheiði

Hellisheiði – gamla gatan.

“Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.”
“Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum […]. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn […] en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður […].”

Hellisheiðarvegur

Austurvegur 1880.

“Frá stóru vörðunni á Efra Skarði lá leiðin til austurs um greiðfært hraun. Þar má sjá götu, sem grjótið hefur verið týnt úr og beinan upphlaðinn veg, þann fyrsta sem lagður var á Hellisheiði. Sá vegur mun hafa verið lagður árið 1879 og kallaður Eiríksvegur. Kenndur við verkstjórann, Eirík Ásmundsson frá Grjótá. Bílaslóðin sunnan fyrir Reykjafell liggur yfir gömlu götuna hjá litlum gíghól . .. Vörðurnar standa sig vel, flestar, og eru 18 vörður frá gíghólnum og austur á Syðri-Þrívörðu. Þar kemur hraunbrún, sem liggur þvert á leiðina. Á brúninni norðan götunnar stendur gamalt sæluhús … Niður af hraunbrúninni liggur sniðgata og enn er helluhraun með sporuðum klöppum. Næsti áfangi er önnur hraunbrún. Sú er nefnd Eystri Þrívörður. Þar var talin hálfnuð leið yfir Hellisheiði. Þá tekur við ósléttara hraun, sunnan við apalhraunið. Þar er greinileg gata og hefur hún gróið grasi. Þegar nálgast austurbrúnina beygir hún til suðurs, vestan við Hurðarásinn, sem gamli bílvegurinn lá yfir. Síðan gegnum skarð sunnan á ásnum .. . Síðan lá leiðineftir vatnsfarvegi niður á Kambabrúnina … Síðan lá leiðin um sniðgötu niður Kambabrúnina, skammt ofan við gamla þjóðveginn, sem bíllinn notaði. Greinileg gata liggur niður Kambabrekkuna, gróin grasi. Síðan lá leiðin um melinn, sunnan Hamarsins.” Útivist 6(1980), 82-86.
“Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, b. 1877-78] lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. / Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur .. .

Hellisheiðarvegur

Austurvegurinn 1900.

Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjótá [!] tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum. Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba. 1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur … Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagðr áþann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim .. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.” Magnús Grímsson: Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi, Landnám Ingólfs 2 (1985), 88-89. Vegurinn var færður suður fyrir Reykjafell á svipaðar slóðir og hann er enn í dag 1894-95.
Vörður eru hlaðnar allt frá Hellisskarði og að Syðri Þrívörðum, skammt austan við neyðarskýli Slysavarnarfélagsins við þjóðveg 1. Þær eru vel hlaðnar úr þunnu hraungrýti, toppmyndaðar, um 1,5 í botninn og um 1,5 m háar, með töluverðu af skófum og mosa. Þær eru með 60-140 m millibili, 90 m að meðaltali.

Kambar

Kambavegurinn gamli.

“Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m í þvermál að innan á sömu klöppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak.” segir í örnefnalýsingu. Kofinn er um 70 m norður af hinni vörðuðu Hellisheiðarleið, um 1,3 km vestan við neyðarskýli LHS við þjóðveg 1. Kofinn stendur framarlega á klapparbrún og er hann sjálfur á upphækkun á klöppinni. Kofinn sést allsstaðar af heiðinni. Í kringum hann sést hvar hleðslugrjót hefur verið rifið upp. Friðlýst 13.5.1971. “var byggður um 1830. Það gerði Þórður Erlendsson [1797-1872], þá bóndi á Völlum, síðar Tannastöðum. Biskupsvarða var stór og hlaðin í kross með 4 arma, þá var skjól í kverkunum. Hún var mjög gömul og hrunin í rúst. Hún stóð á klöpp hægra megin við veginn, þegar suður var farið (til Faxaflóa). Kofinn var byggður úr sama grjótinu, og að öllum líkindum á sömu klöppinni. Heimild fyrir þessu er Skúli Helgason, eftir Kolbeini Guðmundssyni bónda á Úlfljótsvatni, en hann hafði það eftir gömlum mönnum og langminnugum.” Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr).

Hellukofinn

Hellukofinn.

“Á þeim stað sem hétu Syðri-Þrívörður var laust eftir 1820 byggður sæluhúskofi, orghlaðinn úr grjóti og þéttur með mosa. Kofi sá stendur enn óhaggaður eftir rúm 150 ár. Lítið skjól er þar nú því að þétting öll er fokin í burtu.” SB III, 282. Kofinn er ferhyrndur að innan, 2×2 m og 1,85 m undir þak, um 20 umför af 7-15 sm þykkum hraunhellum. Suðausturhorn þaksins er aðeins farið að síga inn en annars standa hleðslurnar mjög vel. Dyr eru á norðurhlið, austantil. Veggir eru um 0,8 m þykkir við dyraop, þar er þröskuldur, 2 umför af hraunhellum. Talsverður mosi og skófir eru á kofanum. Inni í kofanum er hart moldargólf, að mestu slétt. Ekkert friðlýsingarmerki er á staðnum. Um byggingarár kofans er flest á huldu annað en að hann mun byggður eftir 1824 er Þórður Erlendsson fór að búa á Völlum og fyrir 1844 er nýtt sæluhús var byggt á Kolviðarhóli og mun kofinn hafa verið reistur á því tímabili sem ekkert sæluhús var við lýði vestan við heiðina. Þórður flutti búferlum að Tannastöðum 1836 en ekki er víst hvort af því megi ráða að hann hafi hlaðið kofann fyrir þann tíma.”

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

1703: “Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur Sælhús (ei langt frá veginum) so kallað, hvort allt þessa tíma Ölves innbyggjarar hafa upp haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli.”
19.6.1793: “Skömmu áður en komið er að fjallinu, sést lítill kofi, hlaðinn úr hraungrjóti, en með torfþaki. Hann er ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallast sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda.”

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsatóft.

“Í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan; munu nú flestar þessar draugasögur gleymdar. […] Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól.” “Það var lagt niður og nýtt sæluhús byggt á Kolviðarhóli 1844.” “Norður af Bolavöllum vestarlega mun enn sjást votta fyrir hústóft einni. Var þar húskofi nokkur eða sæluhús, hið eina skýli, er til var vestan Hellisheiðar þar efra, og hæð sú, er sæluhús þetta stóð á, hinn svonefndi Húsmúli, er virðist hafa hlotið nafn þetta vegna sæluhúss þessa. En það sýnir, að það hefur staðið þarna langan tíma áður […].” “Þar sem norðaustur horn Svínahrauns nær næst Húsmúlanum er tjörn í bilinu. Hún heitir Draugatjörn. Austan við tjörnina er lítil rúst á litlum hól. Þar stóð Sæluhúsið við Húsmúlann frá fornu fari fram til 1844, að það var flutt upp á Kolviðarhól, vegna draugagangs meðal annars.” “Austan við tjörnina sést enn rúst af sæluhúsi, mjög gömlu… Þar hefur ekki verið rúm fyrir marga, eftir tóftarbrotinu að dæma, varla meira en einn mann og hest. Stærðin er 2,15×1,5 m.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Ferðamenn urðu oft fyrir ásóknum í þessu húsi, svo að þeim varð ekki svefnsamt. Frásagnir um það eru prentaðar í þjóðsögum.” Sæluhústóftin er á hraunhæð við austurenda Draugatjarnar, um 30 m frá henni. Uppi á lágum helluhraunshól eða hæð, þar sem mjór rani gengur norður úr Svínahrauni austan Draugatjarnar. Skammt frá tjörninni og læk sem rennur úr henni. Innan í tóftinni er hrunið hraungrýti en hún er allvel gróin í hliðum. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans; Gráskinna hin meiri I, 239-243.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.

“Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell, norðan í því er Dauðidalur, í honum er fjárrétt.” segir í örnefnalýsingu. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.

Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kring um hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við í dældinni og enn fjær eru mosaþembur. Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.

Þjófahlaup

Þjófahlaup.

1703: “Ei alllangt frá Engidal eru almennar nautaréttir Ölvesinga og Kjalarnesþingsmanna, er árlega haldast þann þriðja dag oktobris mánaðar, ef ei er helgur, annnars næsta dag fyrir. Þessi fjallgarður brúkast almennilega fyrir nauta og hrossa afrétt. Skammt fyrir sunnan réttirnar við Engidalsá standa tveir klettar, sinn hvoru megin árinnar, og nefnist bilið milli þeirra Þjófahlaup.” “Nauta- og sauðaafréttur liggur vestan og norðan Hellirsheiði, sameiginlegur við Grafningsmenn. […] nautaréttir [eru haldnar] þriðjudaginn í 23. viku sumars í Márardal undir Hengli.”
Réttirnar lögðust niður laust fyrir 1860. Engin eiginleg rétt er í Marardal en hlaðið er fyrir uppgönguleiðir. Dalurinn sjálfur er þverhníptur og er því rétt frá náttúrunnar hendi. Af lýsingu Hálfdanar er helst að sjá að réttin hafi verið við Engidalsá, og þar með ekki í Marardal heldur fyrir sunnan hann, hugsanlega á milli Marardals og Engidals en þar eru víða klettar við ána.

Orrustuhóll

Réttin við Orrustuhól.

“Eftir bardagann í Orustuhólsréttum áttu Ölfusingar og Mosfellssveitarmenn að hafa skilið félag sitt um fjallleitir, og fluttu þá Ölfusingar réttir sínar austur á heiðina, austur fyrir Hengladalaá. [Árið 1878 var fé rekið inn í Hengladali] Var riðið fram Smjörþýfi og fram með Hengladalaánni, og sýndi þá gamall maður, er í förinni var, okkur yngri rekstarmönnunum þessar réttir. Sást þá vel fyrir þeim, bæði almenning og dilkum, þótt djúp skörð væru hrunin í veggi. Sumir dilkanna voru allstórir, gerði ekkert, almenningsdyr sneru á Hengil. Sennilega hefir Ölfusingum þótt afundið að hafa lögréttir sínar uppi á fjalli, og voru því réttirnar færðar undir Ingólfsfjall að Hvammi þegar fyrir 1700.” Réttin fannst ekki og gæti verið farin í ána sem brýtur mikið af bökkunum. Smjörþýfi er um 1,5×0,5 km stór þúfnamói, mjög grösugur og greinilega gott beitiland. Suðaustan við tekur við lyngmói.
Af lýsingunni að dæma hefur réttin átt að vera norðan til á Smjörþýfi nálægt ánni og reiðgötunum sem liggja nálægt henni inn í Hengladali og eru mjög skýrar. Farvegur eftir leysingavatn er einnig undir brekkurótunum austanmegin norðantil á Smjörþýfi og gæti þar hafa verið réttarstæði sem síðan hefur horfið.

Engidalur

Engidalur – tóftir.

“Nokkrir hellar eru hingað og þangað í berginu umhverfis [Marar-] dalinn. Allir eru þeir nokkuð hátt uppi í hömrunum. Enginn þeirra er stór, en í flestum þeirra sjást einhver mannaverk: hleðslur, ártöl, fangamörk o.þ.h. Einn þessara hella er skammt frá götunni, sem liggur inn dalinn. Hann var notaður fyrir skýli handa réttamönnum. Fyrir framan hann hefir verið hlaðinn garður til skjóls. En líklega hefir hleðslan aldrei náð fast upp að berginu, enda hefir þess ekki þurft, því að þótt auðvelt sé fyrir menn að komast upp í hann, þá er hann svo hátt uppi, að nautin hafa ekki gert mönnum þar ónæði.” Hellir þessi er austanmegin í Marardal, um 30 m frá hinni merktu gönguleið, um 3 m upp í hlíðinni.
Grasi gróin brekka upp í skútann og er þar troðinn sneiðingur. Hleðslan er gróin en hellisgólfið er bert. Skútinn sjálfur er um 12 m langur og 3 m djúpur þar sem mest er en hleðslan er 6 m löng og er fyrir norðurhlutanum.

Marardalur

Marardalur – hellisskúti.

Hellir er og í vesturhlíð Marardals, fyrir miðjum dalnum, gegnt uppgangi úr honum og eru áletranir í honum en ekki fundust áletranir í öðrum hellum eða skútum í dalnum. Hellirinn er um 6 m uppi í berginu og er tiltölulega auðvelt að komast upp í hann. Hellisgólfið er silla, 1,5-2 breið og um 7 m löng. Áletranirnar eru á hellisveggnum ofan við silluna, sunnantil í hellinum en ekki norðan. Elsta ártalið sem greint verður með vissu er 1917 en steinninn þarna er mjúkur og veðrast fljótt.

Heimild:
-Fornleifaskráning á Hengilssvæðinu III – Fornleifar á afrétti Ölfushrepps, Orri Vésteinsson, Fornleifastofnun Íslands 1998.

Marardalur

Marardalur – fyrirhleðslur.

Öxarárfoss

Í Eimreiðinni árið 1922 er grein eftir Dr. Louis Westerna Sambon um Þingvallaför hans:

Dr. Louis Westenra Sambon fæddist á Ítalíu (1871?), af frönskum, ítölskum, enskum og dönskum ættum. Faðir hans var franskur í föðurætt, en ítalskur í móðurætt. Móðir hans var ensk, skyld skáldinu Charles Dickens og komin af hinum fræga danska siglingamanni, Vitus Bering. Faðir hans, er barðist sem fríliði í her Qaribaldi, var frægur fornfræðingur, einkum myntfræðingur.
Louis lést 30. águst 1931 (63 ára).

“Þriðjudag 28. júní. — Klukkan rúmlega níu, leggur löng bifreiðalest af stað úr Reykjavík til Þingvalla með konungsfólkið og um hundrað gesti. Meðal gestanna eru yfirvöldin á staðnum, prófessorar háskólans og allmargir blaðamenn.

Louis Westenra Sambon

Þingvallavegurinn er vel kunnur. Hann liggur til suðausturs um ófrjótt og grýtt ölduland, yfir Elliðaárnar, fræga laxelfi, rétt ofan við ósana, stígur svo smámsaman í tvö hundruð og tuttugu feta hæð yfir sjávarmál, liggur um vesturbakka Rauðavatns og þaðan nálega samhliða Hólmsá upp að Geithálsi. Hólmsá rennur í Elliðaárnar og líður í bragðfögrum bugðum fram með Rauðhólum, þyrpingu rauðra og svartra smágíga, er minna á forngrísk skapker, steind rauðum og svörtum myndum. Þessa stundina speglar Hólmsá algrátt loftið og er sem gjörð úr skygðu stáli um hraunhólana. Allt er svæðið skolbrúnt eða hnotbrúnt yfirlits, með óreglulegum flekkjum hér og þar af rauðbrúnu gjallkenndu hrauni og grænleitum engjum, drifnum ótali frostalinna þúfna. Í þúfunum eru hvítar, mórauðar og svartar kindur í ró að kroppa hýjunginn. Kringum hina strjálu bæi eru skýrt afmarkaðar, fagurgrænar flatir. Það eru túnin, sem gefa af sér töðuna, vetrarfóðrið handa kúnum. Alt hitt er grjót, hrúgald af hraunhellum og -molum á víð og dreif, af hvers konar stærð og lögun. Átakanlega ófrjótt, grátt og eyðilegt, og þó er þessi grjótauðn svipmikil og full af fegurð. Klettarnir eru ýmist flekkóttir af skófum eða í mosareifi. Á milli steinanna og í hraungjótunum vaxa burknar og blómjurtir. Stór svæði eru þakin lágvöxnu, silfruðu birki- og víðikjarri svo þjettu sem þófi væri, eða purpurábreiðu af sauðamerg (Loiseleuria poocumbens). Túnið þakið sóleyjum glóir sem gullþynna. Stórir skúfar af rjómalitum rósum — hinum elskulegu holtasóleyjum (Dryas octopetala), skína í svartri umgerð veðurbitinna kletta: Á víð og dreif um ömurlegustu auðnir glitra smaragðlifar mosalegar þúfur af lambagrasi, settar rúbínrauðum stjörnum. Þessar blómperlur eru gleðin síunga. Á vinstri hönd er Esjan, verndarvættur Reykjavíkur, mikið fjall krýnt björtum skýjabólstrum; hlíðarnar eru með fönnum, sóldílum og skýjaskuggum. Framundan rísa þrír tindar úr mistrinu. Það eru Móskarðshnúkar og Skálafell og líta út sem vofur í snjóhempunum.

Louis Westerba Sambon

Louis Westenra Sambon á Íslandi.

Við Geitháls skiftist vegurinn í tvær álmur. Vér förum þar til vinstri, í norð-austlæga stefnu, og komum nú brátt inn á milli margra smávatna og tjarna. Við Krókatjörn komum vér auga á bifreiðalestina okkar löngu, fulla af prúðbúnum körlum og konum, háværum og glaðværum. Vér förum fram hjá tveimur biluðum bifreiðum og tökum strandaðan farþega: Það var vitamálastjórinn.
Vér erum nú á heljarvíðu hringsviði. Veggir og sæti eru fjöll, áhorfendur ský, leikvöllurinn hraunbreiða, skylmingamennirnir hundraðhentir risar, og munda sumir logasverð, en sumir í ísbrynjum. Blýgrátt og drungalegt loftið dregur mjög úr litunum á landinu. Mest ber á dökkgráum og dumbungslitum. En hvað þetta litskrúðsleysi er þó áhrifamikið þrátt fyrir allt! Með höfuðskeljastaðinn Skálafell frammi fyrir oss og regnskýin yfir höfðum vorum, minnumst vér »Krossfestingarinnar« eftir Vandyke og »Syndaflóðsins« eftir Poussin, tveggja meistaraverka þar sem grálitunum hefir verið beitt af mikilli snild. Í bröttum hlíðum og gljúfrum fjallanna liggja fannir og breðar, ömurlega ataðir eldfjallaösku.

Konungsvegur

Vér erum nú að fara upp Mosfellsheiði, sem er víðáttumikil auðn, yfirlits eins og grjótnáma og öll úr gjallmylsnu og hraungrjóti í kynlegustu myndum. Klettarnir eru flekkóttir af krabbalegum skófum, hvítum, svörtum, bronsgrænum, dúfulitum, og alstaðar eru, eins og njarðarvettir á kóralrifi, mjúkir grænir koddar af lambagrasi, þar sem urmull af purpurarauðum blómum glóir eins og hin stjörnumynduðu dýr á kóralgrein. Sauðfé er einkennilega sólgið í þessa jurt. Meira að segja fór svo, að þegar nokkrar kindur voru fluttar til einnar af Farne-eyjunum, þá varð það til þess að fálkapungurinn (Silene maritima), náskyld tegund, varð nálega upprætt þar, og höfðu þó hinar grænu og ljósrauðu breiður hans lengi verið einkennileg prýði á eynni.
Hér um bil miðja vega á heiðinni nemum vér staðar við tvö stór tjöld, er þar höfðu verið reist, og förum úr vögnunum til að fá oss hressingu. Ég tek í höndina á franska ræðismanninum, borgarstjóranum í Reykjavík, rektor háskólans, landlækninum, og er nafngreindur fyrir öðrum gestum. Konungurinn gengur um og býður kvenfólkinu Dourneville súkkulað. Hann heilsar mér á frönsku og gefur mér það seinasta af sælgætinu. Ég sting því í vasa minn hjá kæru bréfi, rituðu í flýti, og getur verið að bréfritarinn fái að flytja hin konunglegu sætindi úr purpurapappírnum og silfurþynnunni að rauðum vörum og perlutönnum.

Þingvallavegur

Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Vér erum nú að fara upp Mosfellsheiði, sem er víðáttumikil auðn, yfirlits eins og grjótnáma og öll úr gjallmylsnu og hraungrjóti í kynlegustu myndum. Klettarnir eru flekkóttir af krabbalegum skófum, hvítum, svörtum, bronsgrænum, dúfulitum, og alstaðar eru, eins og njarðarvettir á kóralrifi, mjúkir grænir koddar af lambagrasi, þar sem urmull af purpurarauðum blómum glóir eins og hin stjörnumynduðu dýr á kóralgrein. Sauðfé er einkennilega sólgið í þessa jurt. Meira að segja fór svo, að þegar nokkrar kindur voru fluttar til einnar af Farne-eyjunum, þá varð það til þess að fálkapungurinn (Silene maritima), náskyld tegund, varð nálega upprætt þar, og höfðu þó hinar grænu og ljósrauðu breiður hans lengi verið einkennileg prýði á eynni.
Hér um bil miðja vega á heiðinni nemum vér staðar við tvö stór tjöld, er þar höfðu verið reist, og förum úr vögnunum til að fá oss hressingu. Ég tek í höndina á franska ræðismanninum, borgarstjóranum í Reykjavík, rektor háskólans, landlækninum, og er nafngreindur fyrir öðrum gestum. Konungurinn gengur um og býður kvenfólkinu Dourneville súkkulað. Hann heilsar mér á frönsku og gefur mér það seinasta af sælgætinu. Ég sting því í vasa minn hjá kæru bréfi, rituðu í flýti, og getur verið að bréfritarinn fái að flytja hin konunglegu sætindi úr purpurapappírnum og silfurþynnunni að rauðum vörum og perlutönnum.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – ræsi.

Vér hverfum aftur til vagnanna og ökum áfram yfir eyðilega og tilbreytingarlausa heiðina. Ömurleikinn alt umhverfis er ógurlegur; þögnin er sem farg; ekkert hreyfist í hrauninu; ekkert bærist í loftinu, ekkert heyrist nema vagnahljóðið og skraf og hlátur samferðamannanna; og þó ber sjónarsviðið von um æðistryltan orraleik: haf í uppnámi storknað í stein, and í flogateygjum fyrir einhverju ógnarafli. Væri ekki víðáttan; gæti þessi grjótauðn vel verið mynd af þeirri stundu opunarinnar þegar óskapnaðurinn var að taka á sig lögun heimsins okkar, höggvin í basalt af voldugum hamri Einars Jónssonar.
Meðfram veginum á hægri hönd hafa stórar steinvörður verið reistar, til að vísa ferðamönnum veg, þegar landið er undir snjó. Aflangur steinn skagar út úr vörðunni ofanverðri og bendir á veginn. Mér er sagt að hrafnar, sem nú eru farnir til að boða komu konungsins, sitji altaf á þessum fingravörðum, og fari hin prestlega fjaðrahempa þeirra vel við svartar vörðurnar. Þarna sitja þeir, blaka vængjum, krunka, gala og bomsa. Heimildarmaður minn segir: »Þeir virðast altaf vera rétt komnir að því að vitna í ritninguna«. Honum skjátlast: Þessir »ljótu, leiðu, myrku, mögru, mösknu-fuglar eða djöflar« hafa altaf hugann á holdlegum efnum og eru að harma fornar hryðjualdir vígamanna og ræningja, þegar nóg var af manna- og nautaslátri. Það er því ekki furða þó viðkvæði þeirra sé: »Aldrei, aldrei meir!«

Þingvallavegur

Brú á gamla Þingvallaveginum.

Vér erum nú komnir á heiðina þar sem hún er hæst (1222 fet yfir sjávarmál) og veginum fer að halla ofan í móti. Útsýnið fram undan er ljómandi, því að nú er að birta yfir. Umhverfis eru öldumynduð bláfjöll, með smágerðum snjóhniplingum. Hæsti tindur í sólfáðri fjallaröðinni á hægri hlið vora, eru hinar snæviþöktu Súlur, 3571 fet yfir sjávarflöt. Sum fjöllin til vinstri handar, ljósgul að lit, eru stórir líparítpýramídar.
Vér förum fram hjá dálitlu steinskýli (sæluhúsi), þar sem ferðamenn, þegar snögglega brestur á, geta leitað sér hælis og fundið ekki aðeins skýli, heldur og eldsneyti, vatn og fæði að því er mér er sagt. Margur kaldur, þreyttur, fannbarinn ferðalangur hefir átt þessum sæluhúsum lífið að launa. Þó hefir það borið við, að menn hafa fundist helfrosnir innan veggja þeirra, er þeir náðu þangað of seint og voru orðnir of dasaðir og sljóvir til að færa sér hressingu og eldsneyti í nyt; aðrir, er voru að ná sér, og þó enn með óráði, þóttust heyra marra í snjónum undan hestum, er væru að skjögra að kofanum, og hottið í aðframkomnum mönnum, hásum af kulda og þreytu. Sumir hafa séð menn, sem ekki voru þarna. Magnaðar draugasögur eru til um það, að í grenjandi blindösku byljum, sem hverjum manni er ólíft úti í, komi stundum náfölar vofur ríðandi að sæluhúsi, til að nema þaðan hvern þann, er þar kynni að hafa leitað skjóls, en gleymt guði sínum:

Hann sendir orð sitt til jarðar,
boö hans hleypur með hraða.
Hann gefur snjó eins og ull,
stráir út hrími sem ösku.
Hann sendir hagl sitt sem brauðmola;
hver fær sfaðist frost hans?
Sálm. 47., 15.—17. v.

Konungsvegur

Sæluhúsið við Þingvallaveginn á Mosfellsheiði.

Þegar lengra kemur, förum vér fram hjá smátjörnum nokkurum, og komum nú sem snöggvast auga á blett af Þingvallavatni, eins og í hillingu, mjóa rák af skínandi safírbláma. Þungbrýndu ólundarskýin, sem sátu á fjallatindunum, hafa hjaðnað burt, aðeins fáeinir dúnmjúkir skýjahnoðrar svífa um silkifölblátt loftið, niður við sjóndeildarhringinn, og gætu vel sýnst svanir á flugi. Bláminn er dýpri uppi í hvolfinu, en vatnsbláminn er sterkari og gagnsærri, skærari en himinbláminn. Það er dásamlegur blámi, sem ekki verður með orðum lýst.
Bifreiðarnar okkar þeysa nú eftir veginum, hver rétt á eftir annari, sem færi þar eimlest með fullhraða, og þyrla upp gulum rykmökkum. Vér förum fram hjá hóp söðlaðra hesta, er standa við veginn. Á tveimur eru kvensöðlar með purpurarauðu silkiflossæti og söðulboga. Vér förum fram úr mörgum fótgöngumönnum og hjólamönnum, sem allir eru á leinni til Þingvalla. Vatnið kemur aftur í augsýn, hinn laðandi bláflötur þess ljómar í sólskininu eins og biflaust, seiðandi afarauga. Lækur með sama fágæta blámanum, Torfdalslækurinn, rennur sína leið á vinstri hönd við oss. Hver minsta gára er fagurbláma safíra. En hve fjöllin handan við vatnið skýr og sýnast nærri, séð gegnum undurskært loftið! Hver gróf og geiri sést, svo skýrt sem í sjónauka væri. Mógulur vegurinn liggur í bugðum, eins og snákur á snarferð.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – brú.

Vér brunum yfir rauðmálaða trjábrú. Stúlknahópur hrópar »húrra« fyrir oss, um leið og vér förum fram hjá. Tuttugu og tveir vagnar þeysa á undan oss og stórir rykmekkir þyrlast upp hægra megin við oss. Vér förum yfir aðra brú, yfir Móakotsá, sem rennur úr Drykkjartjörn. Fjöldi hrossa er á beit í þúfunum til hægri handar, og stara þau á oss stórum augum. Vér þjótum áfram og yfir þriðju brúna, móts við Kárastaðabæinn. Túnið þar líkist austrænum gullofnum dúk, ljósgrænt grasið ofið sóleyjagulli. Það líður aftur fyrir oss, eins og töfraábreiða. Hraðskriður vagnanna, indælt landslagið, dýrðlegt sólskinið, fjörgar oss, vér skröfum kátir við samferðamennina og vagnarnir bruna hraðar og hraðar, geysast áfram í rykstormi.
Alt í einu breytir vegurinn um stefnu, vagnarnir taka snögga sveiflu, vér hverfum inn í gapandi ginið á gjá og vitum naumast af fyrr en vér erum komnir miðja vegu ofan í kok á ferlíkinu. En augað greinir margt í einu bragði. Vér sjáum hina miklu stuðlabergsveggi, skuggann á milli, snarbrattann, sólfagra sléttuna niður undan, fagnandi mannfjöldann í þyrpingu við innganginn, nýreistan boga með þrílitum fánum og bláum skildi og skarlatsrautt klæði, strengt þversum, og á það letrað stórum stöfum, ekki »Lasciate ogni speranza« hans Dante, heldur hjartanleg heillakveðja til konungs og drotningar.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – brú yfir Öxará.

Vér ökum ofan eftir, yfir járnbrú, sem Öxará þrumar undir á leið sinni til vatnsins, komum ofan á opna völlu og nemum loks staðar framundan palli, er fánar blakta yfir og reistur hefir verið dagsins vegna. Gjá sú hin mikla, er vér fórum um, er Almannagjá og heitir svo fyrir þá sök, að í lok júnímánaðar ár hvert, streymdu þúsundir ríðandi manna úr öllum héruðum Íslands niður einstigið undir hamrinum bratta, ofan á völluna, til að vera á hálfsmánaðar þingi, kaupstefnu og íþróttamóti, sem haldið var á Þingvöllum.
Almannagjá er eitt af Íslands mörgu furðuverkum. Hún myndast annarsvegar af þverhníptum hamravegg, full 100 fet á hæð, og endar þar hraunsléttan, er vér fórum yfir, og hins vegar af klettagarði, tuttugu álnir frá, og talsvert lægri, er hallast aftur eins og framhlið hans togaði í hann um leið og hún bugast niður á hraunsléttuna, fimm rasta breiða. Austurjaðar þessarar hraunsléttu endar í samsvarandi gjá — Hrafnagjá, sem að vísu er minni, en engu að síður prýðileg.

Almannagjá

Almannagjá 1862 – málað af Bayard Taylor, 1862.

Almannagjá er nokkrar rastir á lengd og liggur frá norðaustri til suðvesturs. Má rekja hana frá Ármannsfelli niður fyrir Þingvelli, meðfram vesturströnd Þingvallavatns. Botninn er sem í virkisgröf og stráður stórum stuðlabjörgum, er fallið hafa úr veggjunum beggja megin; annars er hann grasivaxinn, nema á svo sem sex hundruð álna svæði, sem Öxará freyðir um á leið sinni til vatnsins.
Hið sokkna hraunsvæði, er takmarkast af gjánum tveimur, — Almannagjá og Hrafnagjá — nær frá eldfjallinu Skjaldbreið að Hengli, og hallast frá norðaustri til suðvesturs, lækkar undir vatnið og myndar botn þess. Fyrir mörgum öldum, lá þessi langa hraunbreiða jafnhátt hásléttunni umhverfis, en einhver voðaveila, sem líklega hefir komið af því, að vatnsrensli neðanjarðar gróf undan, varð til þess, að hún rifnaði um jaðrana og sökk þangað sem hún er nú, skekin sundur í hreinasta tíglagólf, úr óreglulegum brotum, með rifum og glufum á milli.

Þingvallavatn

Þingvallavatn.

Og hér er Þingvallavatn, bláast vatna, og horfir skygðum kristalsfletinum til himins, eins og það segði: »Ertu alveg eins blár?« En himininn er ekki eins blár, né heldur hafið með andstæðugulum dílum sargassoþangsins, og ekki gulldröfnóttur blámasteinninn, né heldur kornblómið á akrinum. Og þó kannast ég við þennan skínandi heiðbláma. Ég hefi séð hann í Bláa hellinum á Capri, á fjaðraskrauti ísfugla, páfagauka og blárra paradísarfugla, á vængjum stóru bláfiðrildanna í Brasilíuskógum, í brosandi augum drengsins míns.
Líttu á þetta undursamlega vatn í brúnni hraunskálinni, með ýmislega grænum rákum á grynningum og rifjum meðfram ströndinni; eru dröfnurnar á páfuglsfjöðrum eins fagurbláar? Líttu á það, þegar sólin skín sem glaðast og það logar eins og blátt bál, hefir nokkur safír nokkurn tíma ljómað svo?
Þvílíkur töfrablámi! Hvað hann gleður og heillar! Frá mér numinn af aðdáun, hreifur af litadýrðinni, finst mér ég verði, eins og Glákus forðum, að sökkva mér í þennan bráðna hlákristall.

Þingvallavatn

Þingvallavatn.

Þingvallavatn er í lögun sem hálfmáni, 16 rasta langt og 5-8 rasta breitt. Dýptin er frá grynningum að 60 föðmum. Upp úr því nálega miðju, rísa tveir eyhnúkar, með eldgígum, svartir og ófrjóir. Það eru Sandey og Nesjaey. Þar verpir svartbakur. Ýmsir höfðar ganga út í vatnið frá norður-, austur-, suður- og vesturströnd þess, eins og spælabrot í brotnu hjóli. Norðan að vatninu liggur endinn á hraunbreiðunni milli gjánna, í mosareifi, og Öxarársandur, að vestan sprungin brún hásléttunnar, að austan og sunnan brött fjöll: Arnarfell, Miðfell, Búrfell, Hengill — nú í tígulegum purpuraskikkjum. Úr mynni á suðausturenda vatnsins rennur Sogið sem slanga, er sýgur vatn þess, eins og nafnið bendir til. Ekkert segl sést á hinu friðsæla vatni, ekkert gárar flöt þess, nema fiskar sem vaka.
Vatnið er fult af silungi, bleikju og urriða, og er það einmitt fiskur á konungsborð. Fiskurinn af urriðanum er rósrauður, en af bleikjunni með lítið eitt rauðgulum blæ, hvortveggja bráðfeitur og óviðjafnanlega bragðgóður. Annar meðlimur uggaþjóðarinnar er þarna líka: hið herskáa hornsíli (Qasterosteus), ofurlítill velsporaður vígabarði vatnspyttanna, er gerir hreiður með handstúkulagi, af engu minni list en vefarafuglinn, og gætir eggja og unga ræktarlausra og ómóðurlegra maka sinna, með trú og dygð fram í rauðan dauðann. Hreiður hornsílisins er gert úr smágervum jurtatægjum, tengdum saman með sterkum silkiþræði, er myndast í nýrunum og kemur frá blöðrunni, þegar hornsílið er fullþroska og hinn hugrakki litli riddari kemur til burtreiðar í ljómandi purpuralitum brúðkaupsklæðum.

Nikulásargjá

Nikurlásagjá.

Þarna eru ýmsar tegundir af vatnabobbum af Limnaea-, Pisidiutn- og Lepidurus- kyni og lirfur og púpur margra vatnaskordýra. Gnótt er af reki og er það einkum smákrabbadýr (Daphnia, Diaptomus, Cvelops), hjóldýr (Rotifera) og fáeinar tegundir af kísilþörungum (Melosirae, Asterionella o.s.frv.), Af augljósum vatnaplöntum skal eg að eins nefna Rivularia cylindrica, blágrænan þörung með löngum svipu-líkum þráðum og tvær stórar grænþörungategundir, Chara og Nitella sem vaxa á fimtíu til níutíu feta dýpi. Fjöldi fugla: sefandir, lómar, sendlingar, maríuerlur, tjaldar, andir, gæsir, máfar, trönur, hegrar og svanir, lifa á því, eða á ströndum þess, eða fljúga yfir ljómandi safírbláan flötinn, og með þeim svífur andi fegurðarinnar, því að hvar getur indælli sjón?

Flosagjá

Flosagjá.

Þingvallasléttan með vatninu, ánni og hamraveggnum minnir mig á svæðið kringum Avernus vatnið, þar sem Virgill setti hlið undirheima, og reyndar eru hér Elysium-vellir og Tartarusklettar hlið við hlið eins og á Phlegra-sléttunni í Campania Felix. Mikla undra kviðu mætti yrkja út af Þingvallavatni. Þúsundir manna í hátíðabúningi — konurnar prúðbúnar eins og blóm — hafa safnast í hópum á víð og dreif, sumir standa og sumir sitja, í grasgrónum brekkunum niður af austurvegg Almannngjár. Álengdar eru þessar brekkur með mannþyrpingunum til að sjá eins og persneskar flosábreiður, sem af ásettu ráði eru með óreglulegum myndum og litum til að bægja á braut illu augnaráði og heilla til sín hamingjuna.
Þegar vér komum inn á sléttuna, leikur hornaflokkur þjóðsönginn, karlaflokkur syngur og mannfjöldinn lýstur upp fagnaðarópi og klappar hrifinn höndum. Hinir miklu stuðlabergsveggir endurkveða og magna þessi fjölbreyttu hljóð og margfalt bergmál hljómar frá gjá til gjár, frá fjalli til fjalls, yfir sléttuna og vatnið og aftur til baka, safnast í volduga velkomanda kveðju til konungs og drottningar.

Flosagjá

Tært vatnið í Flosagjá.

Vér stöndum nú á helgum stað, á stað sem er vígður sögu og sögnum. Gjáin mikla, hraunsléttan, hin streymandi á, heiðblátt vatnið eru minjar frægrar fortíðar og yfir þeim skín sem forðum hin dýrðlega sól. En hvað það er ósamræmilegt að sjá rétt hjá Lögbergi gistihús, sem með goðgá kallast »Valhöll«, og niður undan Öxarárfossi timburhús með rauðu þaki fyrir konunginn, nauðalíkt leikfangi sniðnu eftir örkinni hans Nóa. Hvað það á undarlega illa við að sjá bifreiðaröðina löngu öðru megin vegarins og þessar mörgu stikur af baðmullardúk skornar niður í smáfána og veifur, sem blakta í blænum og rjúfa samræmi náttúrunnar með prjáli ósamstæðra lita.

Konungskoman

Fólk í tjöldum á Þingvöllum 1907 – danskir sjóliðar.

Rúmlega sextíu tjöld hafa verið reist út um vellina og fólkið þyrpist um þau eins og býflugnasveimur. Stúlkurnar, á sullbaldíruðum bolum, glitra í sólskininu eins og frjórykaður rósatordýfill, en tveir konungsþjónar skoppa um í skarlatsrauðum maríuhænu einkennisbúningi og gefa hinu kvika sjónarspili bjartari blæ. Um leið og ég geng yfir veginn kemur bifreið, sem seinkað hefir, þjótandi ofan á vellina og á eftir henni ríðandi menn, lausir hestar og hestar undir klyfjum, alt Skundar ofan gjána og glamrar margvíslega í, eins og trjásöngva þreytti þar sinn glamurkliðandi kveldsöng.
Vér etum dögurð á gistihúsinu. Þar hefir rétthyrndu vegtjaldi verið aukið við hinn venjulega borðsal til að koma gestafjöldanum fyrir, og liggja tjalddyrnar fram í salinn og ekki minsta smuga til loftræsingar. Hinn ljúffengi rósrauði Þingvallasilungur með «mayonnaise«-sós og agurka-salati, er indæll, jafnvel þó honum sé ekki skolað niður með sólskinsvökva frá Burgund, Rínlöndum eða Campagne, en hitinn inni í tjaldinu er afaróþægilegur. Vér hlustum á Matthías Þórðarson, hinn lærða vörð Þjóðmenjasafnsins í Reykjavík. Hann býður konung og drottningu velkomin og talar um forna frægð Þingvalla á dögum lýðveldisins. Vér hlustum á hann með athygli þrátt fyrir það, þó hitinn stigi í líkbrennslutjaldi voru og líkurnar fyrir því, að «Valhöll« verði að sannri valhöll fyrir hetjur þær, er nú sitja að veislu innan veggja hennar. Flestir félagar mínir eiga eflaust þennan heiður skilinn, en ég held nú samt, að frestur væri ekki illa þeginn, þar sem við eigum eftir að sjá Geysi. »Til þess að okkur líði vel«, segir sessunautur minn til hægri hliðar, »þyrftum við að fara úr holdinu og sitja í beinunum einum«. »Það væri ekki til neins«, svaraði ég, »við yrðum undir eins að bruðningi«.
Það er gott að koma út og fylla lungun hreinu lofti himinsins. Þarna andspænis oss, er vér horfum í norðvestur, fellur hinn svali, ólgandi, freyðandi straumur Öxarár ofan í gjána eins og mjöður í mundað horn. Hærra, fimm röstum norðar, rísa demantstindar Súlnanna á ameþýst grunni. Nær, til hægri handar, stendur Ármannsfell, nálega snjólaust og purpuragrátt. Að lögun hefir því verið líkt við dalaðan hjálm.
Lengra burtu og austar liggur stór snæþakin eldfjallshvelfing. Það er Skjaldbreið. Það er trú manna að þessi fjöll séu jötunhlífar á dreif; hjálmur og skjöldur Ármanns, írsks risa, sem sagt er að hvíli undir Ármannsfelli og sé þar haugur hans.

Konungsvegur

Konungur og föruneyti á Þingvöllum.

Margt fólk er að klifra upp á austurbarm Almannagjár til að sjá fossinn nær. Ég fer á eftir þeim og klifra upp klettabrekkuna, sem er að nokkru vaxin grasi, birkikjarri, mosa og steinbrjótum, uns ég næ upp á austurbarminn. Hér hitti ég suma af »Gullfoss«-vinum mínum og með þeim fer eg ofan í gjána. Fossinn er ljómandi! Á rás sinni yfir móinn kemur Öxará allt í einu á brún hengiflugsins, og eins og jagúar stekkur á tapírahjörð, hendist hún á svipstundu, dunandi og freyðandi á dökkgrá stuðlabjörg, er liggja í þyrpingu í og í kringum djúpan hyl við rætur bergsins. Á slíkum stað mætti búast við að mæta dýrunum ógurlegu, er vörnuðu Dante vegarins í myrkviðinum forðum, jagúarnum, ljóninu og úlfynjunni mögru. Og þarna eru þau reyndar! steypast öll saman ofan í einu bræði-froðu-kófi: snjóhvíti hlébarðinn að norðan, sandlita ljónið og vefrarvaður blágrárra úlfa, sem vel má vera að einhverntíma hafi verið flokkur guðlausra manna. Líttu á þau þegar þau koma á brúnina; þau virðast nema staðar sem snöggvast og geysast svo fram í tryltum vígamóð. Hlustaðu á! Þau urra, ýlfra, hvæsa, frísa, öskra og drynja ógurlega. Má ekki, þar sem æðandi flóðið skellur í stórgrýtisurðina fyrir neðan, sjá voðastökkið, heljarhramminn, sem lýstur banahögg, leiftrið í logandi augunum, skína í hvítar vígtennurnar, glampa á mislitan hrygg og froðuhvítan kvið? Hve það er undarlegt, þetta samband forms- og litarfegurðar og æðistrylts eðlis, tignar og grimdar, mjúkleiks og þokka og óbifandi eyðingarfýsnar.

Þingvellir

Öxarárfoss.

En Öxará verður naumast með orðum lýst, þar sem hún hendist í gagnsæjum kristallsdyngjum ofan í gjána. Og lítið nú á hana þar sem hún rennur ofan gjána milli hinna háu hamraveggja. Hún freyðir, niðar og dunar yfir stórgrýtisbjörgin og milli þeirra. Feldurinn hennar fagurhvíti er allur með svörtum flekkjum. Þar sem hún finnur hlið í lægri hamravegginn tekur hún enn eitt stökk með háum dyn, nálgast svo vatnið, teygir úr sér endilangri á flötum söndunum og mókir suðandi og malandi eins og kátur og fullur köttur.

Þingvellir

Þingvallafundurinn 1907.

Á stórum votum steini rétt neðan við fossinn sé ég frú Björnsson, er starir inn í leiftrandi augu gnýjandans. Hún minnir á konur, er verða frægar fyrir það að temja villidýr og standa óskelfdar hjá strókum af ljónum, tígrum og jagúörum, en regnbogalitur úði skýst til og sleikir hendur hennar og andlit góðlátlega eins og lébarðahvolpur.

Ég klifrast upp fyrir fossinn og gefur mér þar góða fuglsýn af dalnum milli gjánna og vatninu í fangi hans. Það minnir mig á japönsku skjaldbökuna, sem segir af í þjóðsögum og var með ljómandi páfuglsstéli, því að hinn þurri hluti sokknu hraunsléttunnar, allur skoraður sundur í plötur eða skildi af ýmsri stærð og lögun, bendir á að þetta sé skjöldur af risavaxinni skjaldböku, en vatnið sýnir grænt og gullið og blátt stélið, breitt út sem prúðlegast. Hraunbreiðan fyrir fótum mér er grágrænflekkótt. Náttúran hefir klætt hið rifna og molnaða yfirborð mosaþembu, lyngi og birkikjarri. Á miðri þessari hraunsléttu glitrar fagurgrænt túnið í Skógarkoti, eins og landbrot í eyðimörku. Annað tún lengra norður heitir Hrauntún.
Við endann á vatninu, nálægt Öxarármynni, stendur hin litla timburkirkja Þingvalla, með kirkjugarðinn, prestsetrið og túnið umhverfis. Vegurinn heim að kirkjunni er nú svartur af mannfjölda; eflaust er konungurinn þar að skoða gamla predikunarstólinn og altaristöfluna, eða hinn fræga lögkvarða Íslands, sem er einsteinungur skoraður djúpt á austurhlið.
Ég fer ofan á sléttuna til þess að komast aftur í konungsfylgdina og skoða hið tröllslega tíglaverk, sem myndaði gólfið á hinum forna þingstað. Hér má fylgja gjám og glufum langa leið undir skærum vatnsfletinum. Alt hið sokkna svæði er því líkast sem það væri jötunheima steingrind, er hallaðist hálfsokkin í jökulvatnið, sem streymir frá Langjökli, seitlar undir Skjaldbreiðarhraun, fyllir vatnsskálina og rennur svo um Sog og Ölfusá út í Atlantshaf.
Þingvellir
Þegar vér komum á Geysisveginn, mætum vér konunginum, er kemur frá kirkjunni, og nemum staðar til að skoða staðinn, þar sem dómar fóru fram í fornöld. Það er hraunrimi, þrjúhundruð álnir á lengd og tuttugu til sextíu á breidd, og nálega umluktur sem tangi af tveimur djúpum gjám, Flosagjá að vestan og Nikulásargjá að austan, er renna saman við norðurendann með tónkvíslar móti. Gjárnar eru frá átján til fjörutíu fet á breidd og fimmtíu fet á dýpt ofan að djúpu vatni, sem í þeim er. Nikulásargjá var svo nefnd 1742, er Nikulás nokkur sýslumaður, er flæktur var mjög í málaferli, drekkti sér í gjánni; hin dregur nafn sitt af Flosa, söguhetju, er stökk skyndilega yfir gjána og komst þann veg undan. Milli þessara tveggja gjáa er grasi gróinn hjalli, þar sem sakamenn voru reyndir, og yrðu þeir sannir að sök, voru þeir teknir þar samstundis af lífi. Á þessum Tarpejukletti voru lagaverðirnir öruggir fyrir afskiftum annara. Leiðin þangað var af náttúrunnar hendi svo mjó, að auðvelt var að verja. Efst á þessum kletti situr nú hinn sérstaki konungsmálari, hávaxinn, fríður og góðlegur Dani og dregur mynd af útsjóninni yfir vatnið, aðdáanlega vel og fimlega.

Þingvellir

Þingvallabærinn 1900.

Af brúnni yfir Nikulásargjá horfum vér ofan í gjána. Vatnið er svo furðulega tært, að smæstu hlutir sjást skýrt á miklu dýpi. Fjöldi silfurpeninga, er menn hafa leikið sér að að kasta í vatnið, liggja þar á mosa- eða þang-koddum, og sýnast stærri, bjartari og nær gegnum kristallstært vatnið. Þetta stækkunarmagn vatnsins hefir lengi verið kunnugt, Seneca segir í sínum Quaestiones náturales, þar sem hann er að skýra það hvernig regnboginn kemur fram: »Hver hlutur sýnist miklu stærri þegar menn sjá hann í gegnum vatn«, og Macrobius segir oss, að rómverskir veitingamenn á hans dögum voru vanir að setja við veitingahúsdyrnar hjá sér egg, grænmeti og ávexti í glerkerum fullum af vatni, svo að matvæli þeirra virtust stærri og girnilegri en þau voru í raun og veru. En vatnið í þessum gjám er merkilegt, ekki svo mjög íyrir það hve algerlega tært það er og hve mikið það stækkar, sem fyrir hitt hve geysifagrir og breytilegir litir þess eru. Horfið beint ofan í vatnið, og þér munuð sjá það fagurlega grænt með blæbrigðum frá malakít og smaragð yfir í dökkasta brons, þó að það þegar dýpra kemur, sé nálega bleksvart. Horfið nú á það á ská, og það verður himinblátt, heiðblátt, rússablátt eða sterkblátt, en yfir bæði græna og bláa litnum leika glampar af purpura, fjólubláu og gulli eins og slást í kristallsstrendingum, skelplötu og sápubólum. Þessir löngu vatnsálar í djúpri og þröngri hamragjánni eru því tilsýndar sem regnbogaslöngur, er teygja úr sínum ljómandi, bragandi “Ugðum”, eða eins og bláir og grænir purpuraroðnir hátsar á Páfuglum á Ceylon eða í Birma.

Þingvellir

Konungsfylgdin fer frá Þingvöllum 1907.

Þetta skæra vatn, logandi eins og eldur, kalt sem ísinn, líður svo mjúklega milli stuðlabergsveggjanna, að ætla mætti að það stæði kyrt, ef ekki væru þaraþræðirnir, sem teygjast í áttina sem það rennur í. Frá neðanjarðaræðum streymir þessi töfrakristall fullur af dásamlegri fegurð, skrýddur vökvasilki og gimsteinagliti. Hann hrífur hvert hjarta með alsigrandi töfrum ljóss og ljóma, hverfur um djúpar, ósýnilegar æðar og rennur að lokum út í bláa vatnið mikla. Að vatnið í gjánum stendur í sambandi við stöðuvatnið, sanna silungarnir, er stundum koma upp í þær hópum saman.
Ég lít upp í gjáveggina og sé að þeir eru tjaldaðir grænum mosabreiðum, lögðum fögrum burknum. Hátt uppi, rétt á gjábarminum, eru margar plöntur rétt komnar að því að falla, svo ákafar virðast þær að gægjast ofan í gjána, og með þeim gægist hinn gullni guð ljóssins sjálfur. Það er líka kunnugt, að vagninn hans svífur kringum þennan stað mánuðum saman, bæði dag og nótt. Hver veit nema þessi djúpu vötn séu bústaður dáfagurra dísa? Eru engar hafmeyjar á Þingvöllum?
Jú, víst, hvað ætti hún Hallgerður lævísa að hafa verið annað, hún sem seiddi hann Gunnar í glötunina! Sá tigni maður sá hana fyrst við búðardyrnar hennar hjá vatninu. Hún var nýstigin úr lauginni og kembdi hár sitt langt og hrynjandi eins og sönnum hafmeyjum er títt.
Ég get ekki slitið mig burt. Vatnsdísin heillar mig, hinn frábæri yndisleiki kristallsvatnsins færir mér unað, sem engin önnur skynjan má veita. Eins og hinn skygngi starir á skyggða kúlu úr bergkristalli eða beryl, reyni eg líka að rjúfa blæjuna er skilur hið »verulega líf« umhverfis oss frá andlega lífinu, sem er enn þá verulegra fyrir þá sem trúa. »Hof Demeter í Patras«, segir Pausanias, »á óskeikandi véfrétt í sinni helgu lind«. Svo munu og hin bláu berylvötn á Þingvöllum gædd sannleikskrafti og megna að vekja vitranir, ef horft er í þau af hreinu hjarta.” – G. F. þýddi.

Heimild:
-Eimreiðin, 5.-6. hefti 01.12.1922, Þingvallaför, Dr. Luis Westenra Sambon, bls. 344 og 349-362 – https://timarit.is/page/4819435?iabr=on#page/n0/mode/2up/search/%C3%BEingvallaf%C3%B6r

Þingvellir

Draugatjörn

Gestur Guðfinnsson skrifarði grein umm sæluhús í Alþýðublaðið árið 1967:
“Sæluhús er fallegt orð. Samkvæmt skilgreiningu orðabókar Menningarsjóðs er merking þess “hús til að gista í í óbyggðum, á Öræfum”.
Sú tegund gistihúsa átti þó fram á okkar daga lítið skylt við hin rúmgóðu og þægilegu hótel nútímans með fjölmennu þjónustuliði, útvarpi, sjónvarpi, síma og baði, Draugatjorn-21dýrlegum aðbúnaði í mat og drykk ásamt notalegri hvíld í þeim mjúka og ilhlýja sængurdúni, sem upphaflega taldist til forréttinda æðarfugls á Íslandi. Þetta voru oftast litlir og lágreistir moldarkofar, naumast manngengir, Þægindalausir með öllu, kannski í hæsta lagi grjótbálkur til að fleygja sér á, matur enginn. Samt var þessum vistarverum valið eitt af fegurstu orðum tungunnar til einkenningar: sæluhús. Bak við það heiti felst mikil saga. Skilgreining orðabóka á hugtakinu nær skammt, sem vonlegt er, þótt hún sé rétt það sem hún nær.
Ljóst er, að landsmenn hafa snemma komið upp slíkum kofum á heiðum og fjallvegum til afnota fyrir ferðamenn og gangnamenn, enda vegalengdir víða miklar á öræfum og tóku ferðir einatt langan tíma, stundum mörg dægur, hvort heldur menn voru gangandi eða ríðandi. Var þá ekki í annað hús að venda en sæluhúskofann og skildi þar oft og einatt í milli feigs og ófeigs, hvort það tókst eða tókst ekki að ná honum. Mátti hver prísa sig sælan, sem undir þak komst, þótt lélegt væri, því það er lakur skúti, sem ekki er betri en úti í hamslausu hríðarveðri á fjöllum. En það kom líka fyrir, að þeir sem náðu þangað við illan leik, geispuðu golunni í kofanum, kaldir og matarlausir og aðframkomnir af þreytu. Var þess þá oftast ekki langt að bíða að bera færi á reimleikum í sæluthúsinu, enda munu þau sæluhús fá, þar sem hreint var með öllu. Hitt var miklu algengara, að fleiri eða færri afturgöngur eða draugar væru þar viðloðandi, gerðu sér dælt við ferðamenn í vöku og svefni, berðu kofann utan eða riðu húsum næturlangt, þótt nú sé víðast úr þeim allur mergur.
Til er aragrúi sagna og munnmæla um gistingu manna í sæluhúsum og gangnakofum og reimleika á slíkum stöðum.. Skulu hér rifjaðar upp nokkrar slíkar sögur, þeim til fróðleiks, sem ekki hafa átt þess kost að lifa slíka atburði og þekkja lítið til drauga og afturgangna sjálfir.
Norðvestur af Bolavöllum á Kolviðarhóli er Húsmúli. Framan við hann stóð sælukofi allt fram um miðja nítjándu öld við svokallaða Draugatjörn. Kofi þessi var tvær og hálf alin á breidd og þrjár álnir á lengd og í honum grjótbálkur, þakinn torfi, sem á gátu legið þrír menn. Tvær hurðir voru fyrir dyrum og gengu báðar inn í húsið. Sveinn Pálsson, læknir, getur þess í ferðabók sinni, að margir ferðamenn hafi látizt í þessum kofa, ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda.

Draugatjörn

Draugatjörn – rétt

Í Sögu Kolviðarhóls er að finna frásögn af gistingu í Húsmúlakofanum. Hún er á þessa leið: „Gömul sögn úr Ölvesi hermir, að eitt sinn hafi ferðamaður um vetur í vondu veðri komið austan yfir Hellisheiði. Hann hafði náttstað í sæluhúsinu, lokaði dyrum að sér og lagðist til svefns. — Að nokkurri stundu liðinni heyrði hann að komið var við hurðina og gerð tilraun til að komast inn. Sá, er inni var, hugði það draug vera og opnaði ekki. Heyrði hann um hríð þrusk utan við hurðina, en svo þagnaði það. Um morguninn, þegar maðurinn leit út, brá honum ónotalega við. Utan dyra lá dauður maður. Var það sá, er um kvöldið hafði knúð hurðina og maðurinn hafði haldið vera draug. — Þetta spurðist víða og þóttu hörmuleg mistök. Eftir það hafði alvarlega verið brýnt fyrir ferðamönnum ..að loka aldrei húsinu að sér um nætur”.
Þessi saga mun raunar vera til í ýmsum tilbrigðum víða um land og heldur hver sögumaður fast við sína útgáfu og telur hana réttasta, leggur jafnvel fram óyggjandi sannanir fyrir máli sínu, ef því er að skipta. Í Hellukofanum gamla á Hellisheiði, sem enn stendur, bar líka eitthvað á reimleikum. T.d. segir frá því í Þjóðsögum Ólafs Davíðssonar, að einu sinni lágu þar menn. Þeir heyrðu skarkala mikinn uppi á húsinu alla nóttina og hugðu, að draugur hefði valdið honum, enda þóttust þeir sjá einhverja ófreskju í dyrunum við og við. Þá var gamla sæluhúsið á Kolviðarhóli alræmt draugabæli og eru margar sögur til af reimleik um þar. Ein þeirra er skrásett af Þorsteini Erlingssyni og er á þessa leið:
Einu sinni voru fimm Fljótshlíðingar á leið suður í ver. Það voru þeir Ísleifur Sigurðsson frá Barkarstöðum, Sigurður Ólafsson, vinnumaður þaðan, Halldór Jónsson frá Eyvindarmúla og svo sinn maðurinn frá hvorum bænum Árkvörn og Háamúla. Þeir félagar gengu suður Hellisheiði og lágu um nótt í sæluhúsinu á Kolviðarhóli. — Þeir kveiktu ljós og fóru að sofa, eftir að hafa matazt, nema Halldór. Hann gat ekki sofnað og lá vakandi um hríð. Allt í einu heyrði hann eitthvað gnauð fyrir utan kofann, en því næst heyrði hann, að einhver klifraði upp á kofaþakið og tók að lemja þekjuna — beggja megin á víxl. Halldóri þótti þetta kynlegt, og tók hann það til bragðs að vekja Sigurð. Þeir fóru út og leituðu í kringum kofann, en urðu einskis vísari, fóru því inn aftur, en jafnskjótt og þeir voru komnir inn, var hurðinni hrundið upp og lamið á þilið; lagði þá vindsúg inn um kofann, og slokknaði ljósið. Þeir Halldór og Sigurður kveiktu þegar aftur; fóru svo út, tóku jötu og skorðuðu hana fyrir dyrnar að innan. Eftir það voru dyrnar í skorðum, en þeir heyrðu högg og ókyrrð úti fyrir lengi nætur.”

Heimild:
-Alþýðublaðið 31. ágúst 1967, bls. 7 og 11.

Sandskeið

Vatna-sæluhúsið við Sandskeið.

Draugatjrön

Eftirfarandi er stytt grein eftir Gísla Sigurðsson í Lesbók Morgunblaðsins 31. mars 2001. Hún fjallar um Kolviðarhól undir Hellisskarði. Önnur grein Gísla um Kolviðarhól birtist í Lesbókinni 7. apríl 2001 og er hægt að sjá hana undir yfirskriftinni “Kolviðarhóll II” hér á vefsíðunni.

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

“Það þótti mikil framför þegar frumstæður kofi á Bolavöllum var lagður niður og sæluhús reist á Kolviðarhóli 1844. Betra hús reis þar 1877 og þá var sæluhúsavörður ráðinn. Eftir 1883 og fram til 1938 var úrvalsfólk á Hólnum, fyrst við frumstæð skilyrði og starfið fólst m.a. í því að bjarga aðframkomnum ferðamönnum ofan af Hellisheiði og úr Svínahrauni. Drykkjuskapur var algengur á ferðalögum, einkum á leið úr kaupstað. Fyrst var tímaskeið lestarferða, síðan hestvagnatímabilið og loks bílaöldin.

“Á árabilinu frá 1877 og framundir 1940 vissi hvert mannsbarn í Reykjavík og á Suðurlandi um Kolviðarhól, áningar- og gististaðinn við brún Hellisheiðar. Aðstöðunni þar átti fjöldi manns líf að launa og þar leituðu skjóls háir sem lágir, allt frá flökkurum til Íslandsráðherra og Kolviðarhóll var jafnvel viðkomustaður Friðriks konunngs VIII í Íslandsför hans 1907.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Menn komu á Hólinn fótgangandi og stundum aðframkomnir; sumir voru frægir förumenn, aðrir á leið í verið með föggur sínar og skrínur á bakinu. Lengi vel voru þó flestir ríðandi með hesta undir böggum, ýmist í lest eða ráku þá lausa, uns hestvagnatímabilið hófst. Þá var ekki lengur hægt að fara brattan stíginn upp Hellisskarðið ofan Kolviðarhóls, heldur var þá rudd braut suður með Reykjafelli og upp á Hellisheiðina um Hveradalabrekkur. Lengi vel lá Suðurlandsvegurinn sömu leið framhjá Kolviðarhóli og þaðan vestur yfir Svínahraun. Gistihúsið á Hólnum, hátt og reisulegt með þremur burstum, var rekið löngu eftir að bílaöld gekk í garð. En eftir að krókurinn upp að Kolviðarhóli var tekinn af og vegurinn lagður skemmri leið, fór svo að þessi frægi gististaður varð utan við alfaraleiðina. Árið 1977 urðu þau tímamót að húsið var brotið niður og síðan hefur Kolviðarhóll svo að segja fallið í gleymsku og dá.
Sá skortur á menningarlegum metnaði, sem lýsir sér í því að brjóta niður eitt prýðilegasta verk Guðjóns Samúelssonar húsameistara, er ótrúlegur og efni í sérstaka umfjöllun.

Hellisheiðavegur

Hellisheiðavegeur.

Húsráðendur á Kolviðarhóli, sem sinntu hjálparstarfi og sáu gestum jafnframt fyrir gistingu og veitingum voru framan af hjónin Jón Jónsson og Ksristín Daníelsdóttir, síðan Guðni Þorbergsson og Margrét Jónsdóttir fram til 1905 og þá tóku við frægustu gestgjafar staðarins; Sigurður Daníelsson og Valgerður Þórðardóttir, fólk sem allir Sunnlendingar vissu deili á.
Þjóðleiðin forna frá Árnessýslu til Mosfellssveitar lá úr Ölfusi upp Kamba og þaðan vestur á Hellisheiði, austan við Hurðarás ofan Kolviðarhóls. Upp og niður úr skarðinu var hægt að komast með klyfjahesta, en alls ekki með hestvagna. Þegar komið var niður úr Hellisskarði lá leiðin um Bolavelli, vestur með Húsmúla og síðan um norðanvert Svínahraun, framhjá Lyklafelli og oft var komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Þessi leið milli byggða var talin rösk þingmannaleið, eða um 35 km. Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er leiðinni lýst. Þá voru hestagöturnar sagðar greinilegar á hraunhellunni.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Hestagöturnar, sem markast hafa í hraunhelluna á Hellisheiði af umferð járnaðra hesta sjást mjög greinilega á þriggja km kafla, en eftirtektarvert er, að þær skuli hafa verið orðnar svo greinilegar þegar fyrir 300 árum. Hurðarás var aftur á móti svo nefndur vegna þess, að þegar þangað kom á austurleið yfir heiðina var allt í einu eins og hurð væri opnuð og víðerni Suðurlands blöstu við, allt til Vestmannaeyja.
Kolviðarhóll var og er í Árnessýslu. Við Bolaöldu, vestan Svínahrauns eru sýslumörkin. Þótt Kolviðarhóll eigi sér alllanga sögu sem áningar- og gististaður er hann einnig sögustaður, svo nefndur eftir Kolviði á Vatni (Elliðavatni) sem barðist við þann mikla kappa Búa Anríðsson eftir því sem Kjalnesingasaga segir. Í sögunni er hann reyndar ýmist nefndur Kolfinnur eða Kolfiðr. Vildu báðir eiga Ólöfu hina vænu í Kollafirði og höfðu háð einvígi þar sem Búa veitti betur, en báðir lifðu. Ekki lét Kolviður sér það að kenningu verða og sat um líf Búa, sem var á heimleið frá Noregi og hafði gengið frá skipi sínu á Eyrum (Eyrarbakka).

Búasteinn

Búasteinn.

Kolviður á Vatni hafði spurn af útkomu Búa og lét njósna um ferðir hans. Reið hann við tólfta mann í fyrirsát í Öxnaskarði ofan við Kolviðarhól. Biðu þeir þar við stein, rétt við götuna, sem nú er kallaður Búasteinn. Búi varð var við fyrirsátina af skarðinu og reið að steini einum miklum; sneri hannbaki að steininum svo ekki varð komist aftan að honum. Skiptust þeir búi og Kolviður á orðum og kvaðst Kolviður ætla að njóta þess að vera með flokk manna á móti honum; “skal þá vel við því taka,” sagði Búi.
Er skemmst frá því að segja, að Búa tókst að gera menn Kolviðar óvíga hvern á eftir öðrum og féllu sex, en sjálfur sparaði Kolviður sig uns ekki varð undan vikist. Hjó hann þá “hart og tíðum og sótti alldrengilega. Hjóst skjöldur Búa, en Kolviður tók að mæðast. Þurfti Búi þá ekki mörg högg; ónýtti hann skjöld Kolviðar og veitti honum síðan það slag að andstæðinginn tók sundur í miðju”. Búi var “ákaflega vígmóður og nokkuð sár”, en gat haldið ferð sinni áfram. Steinninn heitir síðan Búasteinn. En eftir honum ógæfusama Kolviði á Vatni er Kolviðarhóll nefndur.

Hellulofinn

Hellukofinn á Hellisheiði – byggður upp úr Biskupsvörðu.

Öldum saman höfðu menn farið alfaraleiðina yfir Hellisheiðina án þess að nokkuð væri um húsaskjól þar til 1830 að Þórður bóndi á Tannastöðum hlóð birgi uppi á heiðinni sem enn stendur. En elsta heimild um sæluhúskofa í námunda við Kolviðarhól er eftir Hálfdán Jónsson lögréttumann í lýsingu Ölfushrepps frá 1703. Þar er minnst á sæluhús á Hvannavöllum (nú Bolavöllum) og segir þar svo: “Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka við fyrir neðan skarðið, stendur sæluhús (ei langt frá veginum) svokallað, hverju allt til þess tíma Ölvesbyggjarar hafa uppi haldið, vegfarandi fólki til innivistar, er og lofsvert að þetta sæluhús ei niður falli.”

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

Sveinn Pálsson, náttúrfræðingur, minnist á sama sæluhús hátt í öld síðar; segir að þar sé lítill kofi hlaðinn úr hraungrýti með torfþaki og að margir hafi dáið úr kulda í þessum kofa, örmagna af hungri og kulda.
Skammt frá kofanum var dálítil tjörn, nefnd Draugatjörn, og töldu margir svo reimt í kofanum að þar væri naumast vært. Hafði Magnús bóndi Pálsson á Fossi í Grímsnesi heldur betur fengið að kenna á því, annálað hraustmenni og gerði grín að draugatrú og myrkfælni. Gisti hann við annan mann í kofanum og brá sér út að tjörninni. Þar réðst að honum ófreskja og komst hann við illan leik, rifinn og tættur, inn í kofann. Sár á nefi greri aldrei, enda var það eðli sára sem draugar veittu, og Magnús varð aldrei samur maður eftir.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Eiríkur bóndi í Haga í Eystrihreppi komst mun betur frá viðskiptum við sæluhúsadrauginn. Hann var á ferð til skreiðarkaupa, hafði sest að í myrkri í kofanum og tók til matar síns. Þá fór hann að sjá eldglæringar í hinum enda kofans og sagði bara sísona: “Kvekið þið, kindur sælar, svo Hagakarlinn sjái til að rífa roðbitann sinn.” Hættu þá glæringarnar og svaf Eiríkur þar rótt um nóttina. Svo skrái Brynjúlfur frá Minna-Núpi.
Sögur af þessu tagi urðu til þess að menn voru dauðsmeykir við að gista í kofanum, einkum ef þeir voru einir á ferð. Einu sinni hafði sú hræðsla alvarlegar afleiðingar. Gömul sögn úr Ölfusinu greinir frá því, að eitt sinn hafi ferðamaður leitað skjóls í kofanum og lokað kirfilega að sér að innanverðu. Um nóttina heyrði hann traðk utandyra og rjálað við hurðina eins og reynt væri að opna hana. Hirti hann ekki um það; hefur ugglaust búist þar við draugi og verið hræddur. Um morguninn brá þessum ferðalang ónotalega þegar hann opnaði og sá að utandyra lá dauður maður. Eftir það var gengið frá því að ekki væri hægt að loka kofanum að innanverðu með slagbrandi.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – sæluhúsið.

Kofinn við Draugatjörn var ísköld og ömurleg vistarvera, en þó sá skúti sem betri var en úti. Lengdin að innanverðu var aðeins 2,5 m og breiddin 1,5 m. Við annað hlaðgaflið var hlaðinn grjótbálkur, mýktur með torfi. Yfir dyrum var lítil gluggabora með gleri. Tóftin sést enn ef vel er að gáð.
Fleira gat verið varasamt á þessari óbyggðaleið en illviðri og draugar. Bolavellir og Bolasteinn minna á söguna um Skeiða-Otta og nautið ógurlega sem gekk í sumarhöum á völlunum við Kolviðarhól. Otti var bóndi austur á Skeiðum og átti erindi til Reykjavíkur þegar komið var að slætti og reið miklum kostahestum sem leið liggur vestur yfir Hellisheiði. Hann vissi um illræmdan griðung frá Viðey í högum hjá Kolviðarhóli og hafði hann orðið tveimur eða þremur mönnum að bana. Nautið lá við Bolastein og hóf þegar eftirför en Otti þeysti undan sem mest hann mátti. Samt dró saman með þeim og tók Otti þá það til ráðs að hann snaraðist af baki, tók upp hníf og lagðist niður milli krappra þúfna. Þar fleygði bolið sér yfir hann, en Otti skar hann á kvið og helltust yfir hann innyflin. Drapst bolinn þar en Otti gat haldið ferð sinni áfram.

Kolviðarhóll

Þau tímamót urðu 1844 að þá reis í fyrsta sinn hús uppi á sjálfum Kolviðarhólnum. Þá hafði farið fram fjársöfnun austan heiðar og vestan, og þótti vænlegast að reisa húsið á hólnum neðan við Hellisskarð. Séra Páll Matthíasson á Arnarbæli valdi staðinn og hafði forgöngu um málið ásamt Jóni Jónssyni á Elliðavatni. Nýja sæluhúsið var allt úr timbri og stóð á sökkli sem hlaðinn var úr grjóti. Grunnflöturinn var 16 fermetrar og loft yfir þars em viðbótargistirými fékkst. Járnrimlar voru fyrir gluggum, liklega til að koma í veg fyrir rúðubrot skemmdarvarga. 24 menn gátu gist í einu á loftinu og komið inn 16 hestum niðri.
Enn urðu tímamót 1876 þegar ákveðið var að hefja vegarlagningu um Svínahraun.Þremur árum síðar var tekið annað skref og segir svo í Þjóðólfi: “Vegagjörðin yfir Kamba á Hellisheiði skal byrja í sumar.” Eiríkur í Grjóta fór með flokk manna sumarið 1880 og lagði veg vestur yfir Hellisheiði, nokkru norðar og nær hinni fornu þjóðleið en núverandi Suðurlandsvegur.

Kolviðarhóll

Garður við Kolviðarhól.

Áratugi síðar, eða um 1870, hafði sú vakningaralda risið að bæta húsakost á Kolviðarhóli, enda var sæluhúsið frá 1844 þá orðið lélegt. Sigurður Guðmundsson málari hafði forgöngu um að reist yrði veitingarhús á Kolviðarhóli, sem gæti fullnægt þörfum ferðamanna.
Enn var efnt til samskota og Matthías Jochumsson, þá ritstjóri Þjóðólfs, hvatti menn til “drengilegra samskota”. Hægt gekk að safna, en það var svo loks 1877 að framkvæmdir hófust og landshöfðinginn lagði þá fram það sem til þurfti til viðbótar. Veggir voru hlaðnir úr tilhöggnu grjóti, ris var yfir og þar voru tvö herbergi. Niðri var eldhús með eldavél og ofni. Eftir að aðrar byggingar risu á Kolviðarhóli var þetta hús áfram notað til geymslu og öðru hverju var sofið í því fram til 1930. Fyrsta veturinn var þetta hús án gæslu, en öllum opið.
Ekki verður sagt að hlaðið hafi verið undir fyrsta sæluhúsavörðin, en Ebeneser Guðmundsson gullsmiður var náðarsamlegast ráðinn. Bergur Thorberg amtmaður yfir Suðuramtinu gaf út leyfisbréf og þar er tekið fram að Bergur sé riddari dannebrogsorðunnar og dannebrogsmaður. Ebeneser var “veitt leyfi til að hafa um hönd gestaveitingar á greindum stað, þannig að hann, auk þess að láta mönnum í té mat og kaffi m.m. einnig má veita áfenga drykki”. Þar með hafði náðst fram krafa margra um áfengissölu á fyrirhuguðum veitingastað á Kolviðarhól “til að auðvelda mönnum ferðina yfir heiðina”. Með þetta leyfi í höndum gat Ebenser kallast gestgjafi. Tekið var fram að hann ætti að hirða húsið, en það gat verið erfitt þar sem engin vatnsuppsspretta var.
Vatnsleysið á Kolviðarhóli varð strax til vandræða og réðst Ebeneser í að grafa brunn neðan við bæjarhólinn. Fyrir þetta fékk hann smáþóknun frá Suðuramtinu “með eftirtölum og ónotum”.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1939.

Ólafur Árnason tók að sér gestgjafahlutverkið á Kolviðarhóli 1880 og gegndi því næstu 3 árin. Hann eignaðist son með Málfríði, bústýru sinni, og var hann skírður Búi Kolviður eftir köppunum tveimur í Kjalnesingasögu. Þetta fyrsta barn sem fæddist á hólnum dó aðeins 5 vikna gamalt. Vorið 1883 giftust Ólafur og Málfríður og fluttu til Ameríku. Þar eignuðust þau 10 börn.
Þá fluttu á Kolviðarhól Jón Jónsson og kristín Daníelsdóttir. Þau sinntu gestgjafahlutverkinu næstu 12 árin. Eitt meginvandamálið var að ferðamenn voru flestir auralitlir og allur viðurgjörningur varð að vera eins ódýr og framast var kostur. Drykkjuskapur ferðamanna, slæm umgegni og fleira þurfti gestgjafinn að glíma við.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1957.

Guðni Þorbergsson frá Starkaðarhúsum í Flóa réðst vinnumaður að Kolviðarhóli 1886. Þar krækti hann í heimasætuna. Þau tóku við gestgjafahlutverkinu 1895. Þá var nýtt tímabil í samgöngum og flutningatækni hafið; Íslendingar búnir að finna upp hjólið og hestvagnaöld gengin í garð Gamla húsið á Hólnum var nú orðið allt of lítið og aldamótaárið 1900 byggði Guðni nýtt íbúðar- og gistihús við hlið hins eldra. Það var allt úr timbri, en kjallari var úr steinsteypu. Þá höfðu aðeins örfá hús verið steinsteypt í Reykjavík. Líklega hefur verið farið yfir lækinn til að sækja vatnið því steypumöl var sótt í fjöru við Reykjavík og ekið á hestvögnum. Með túnsléttun og garðhleðslum varð til nýbýli að Kolviðarhóli. Þar með var staðurinn orðinn bújörð í Ölfushreppi, en það stóð þó aðeins til 1936.
Nú er Orkuveita Reykjavíkur allsráðandi á svæðinu – með tilheyrandi eyðingarmætti.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – Gísli Sigurðsson – 31.03-2001.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1929.