Í “Fornleifaskráningu á Hengilssvæðinu III – Fornleifar á afrétti Ölfushrepps“, gerða af Orra Vésteinssyni 1998, er fjallað um ýmsar minjar á og við Kolviðarhól, Hellisheiði og í Hengli. Hér veður getið nokkurra þeirra:
“Bú var reist á Kolviðarhóli 1883 og varði til 1954, en þar sem sá búskapur tengist fremur sögu samgangna á svæðinu en búnaðarsögu þess.
Helsta sérkenni Hellisheiðar og Hengilssvæðisins eru hinar mörgu samgönguleiðir sem liggja þar um. Að vísu var hlutfallslega minna farið um Hellisheiði á fyrri öldum en nú, því að milli Suðurlands og Vesturlands voru þá yfileitt farnar aðrar leiðir, um Kjöl, Uxahryggi, Leggjabrjót, Botnsheiði eða Grafning um Kjósarskarð. Engu að síður var Hellisheiðin aðalleið milli vesturhluta Árnessýslu og Kjalarnesþings og eftir að kaupstaðir festust í sessi, fyrst í Þerney, svo í Hafnarfirði og Hólminum/Reykjavík óx mikilvægi þessarar leiðar.
Hellisheiðarvegur lá áður fyrr mun norðar en nú en þegar komið var að vestan var farið norðan við Svínahraun en ekki í gegnum það eins og nú enda var úfið hraunið illfært bæði hestum og fótgangandi mönnum. Sléttir vellir eru norðan við hraunið með fram Engidalskvísl og síðan var farið upp með Húsmúla, sem dregur nafn sitt af sæluhúsi sem þar var við Draugatjörn og er frægt bæði fyrir að vera eitt hið elsta sem góðar heimildir eru um á Íslandi og fyrir draugagang sem varð til þess að húsið var fært á Kolviðarhól 1844.
Frá Draugatjörn lá leiðin framhjá Kolviðarhóli og upp Hellisskarð og síðan eftir sléttum hellum austureftir heiðinni og niður Kambana heldur sunnar en vegurinn er nú. Á vestari hluta heiðarinnar hafa myndast rásir í móbergshelluna eftir járnaða hófa sem þarna hafa farið yfir um aldir og eru það bæði sérstakar og mikilfenglegar minjar.
Umferð jókst mjög á þessari leið á 19. öld eftir því sem mikilvægi Reykjavíkur óx og var hún einnig póstleið frá því að póstsamgöngur hófust í lok 18. aldar. Jókst þá einnig áhyggja manna af öryggi á leiðinni. Laust fyrir 1830 hlóð Þórður Erlendsson bóndi á Völlum í Ölfusi, að eigin frumkvæði að því er virðist, kofa úr hellugrjóti uppi á heiðinni sjálfri og stendur hann enn. Á þessum tíma hefur gamla sæluhúsið við Draugatjörn verið orðið hrörlegt auk þess sem margir virðast hafa veigrað sér við að gista þar vegna draugagangs. Það var síðan lagt niður er timburhús á hlöðnum sökkli var byggt á Kolviðarhóli 1844. Á þeim tíma voru ekki mörg timburhús á Íslandi og er þessi íburður til marks um mikilvægi leiðarinnar. Í hinu nýja húsi gátu sofið 24 menn og einnig var skjól fyrir 16 hesta. Þetta hús var síðan farið að láta á sjá þrjátíu árum síðar og 1878 var byggt, með opinberu fé, steinhús á Kolviðarhóli til að taka við timburhúsinu, sem eftir sem áður var notað sem hesthús. Sömu sögu er að segja að 1878 voru ekki mörg steinhús á Íslandi og sýnir þetta vel hversu mikilvægt það þótti að ferðamenn gætu leitað öruggs skjóls á þessari leið.
Vel var fylgst með byggingu þessa húss í Reykjavíkurblöðunum enda var þetta ein af fyrstu opinberu framkvæmdum sem Íslendingar réðust í eftir að þeir fengu sjálfstæðan fjárhag 1874.
Fimm árum eftir að steinhúsið á Kolviðarhóli reis, eða 1883, flutti þangað Jón Jónsson með fjölskyldu sína og var búið þar til 1954. Byggð á Kolviðarhóli byggðist fyrst og fremst á greiðasölu og var beinlínis hugsaður til að auka öryggi á leiðinni en þeir sem þar bjuggu fengust einnig við hefðbundinn búskap og má sjá um hann allmiklar minjar. Tún var ræktað á hólnum og sést enn vandaður túngarður í kring um það. Fleiri garðar voru hlaðnir í grenndinni sem minna á heyskap Kolviðarhólsbænda.
Um svipað leyti og nýja sæluhúsið var byggt á Kolviðarhóli 1878 var lagður vegur yfir Svínahraun,mun norðar þó en núverandi vegur, og upp Hellisskarð yfir heiðina á sama stað og gamla þjóðleiðin. Þessi vegur var þó ekki vagnfær sem dró mjög úr nytsemi hans. Nýr vegur var lagður yfir Hellisheiði 1894-1895 og var þá vegarstæðið flutt suður fyrir Reykjafell og vagnfær leið gerð um Hveradali sem síðan sameinaðist gömlu leiðinni austar á heiðinni. Frá þessari vegagerð er örnefnið Smiðjulaut sem kennt er við smiðju vegagerðarmanna. Vegurinn sem nú er farinn er mun sunnar í Svínahrauni en norðar á Hellisheiði en gamli vegurinn og má víða sjá minjar um þessa gömlu vegagerð á heiðinni.
Leiðin um Hellisheiði var fyrst og fremst farin af Ölusingum og þeim sem fóru yfir Sogið hjá Torfastöðum og síðan um Grafningsháls en úr Grafningi lá einnig fjölfarin leið um Dyrafjöll, Dyravegur, yfir Mosfellsheiði. Sá vegur liggur um nyrsta hluta afréttar Ölfusinga og er þessvegna getið hér. Fáfarnari leið var úr norðanverðum Grafningi um Ölkelduháls og Milli hrauns og hlíðar norðan við Orrustuhólshraun og saneinaðist hún Hellisheiðarvegi rétt austan við Hellisskarð. Þeir sem áttu leið í Þorlákshöfn eða Selvog frá innanverðum Faxaflóa fóru yfirleitt ekki Hellisheiði heldur Lágaskarðsveg eða Ólafsskarð, en Þrengslin sem eru á milli þessara leiða munu hafa verið fáfarin fyrrum.
Bæði Þrengslavegur og Lágaskarðsvegur klofnuðu frá Hellisheiðarvegi hjá Kolviðarhóli og lágu beint til suðurs með austurbrún Svínahrauns. Ólfasskarðsleið liggur hinsvegar mun vestar og sameinast ekki öðrum vegum fyrr en niðri í byggð, Hellisheiðarvegi hjá Fóelluvötnum, en Þrengslavegi sunnan við Þúfnavelli. Í Ólafsskarði munu vera rásir í móbergshelluna eins og á Hellisheiðarvegi og Dyravegi.
Þeir sem komu úr Borgarfirði eða enn lengra að vestan eða norðan og áttu erindi í Selvog, og þeir voru ekki fáir fyrr á öldum enda stórar verstöðvar þar suður með, fóru annaðhvort um Þingvöll eða Kjósarskarð og gátu þá valið að fara með bæjum um Grafning eða þræða austurbrún Mosfellsheiðar, vestur með Dyrfjöllum og koma á Hellisheiðarveg á Bolavöllum þaðan sem beinust leið var í Selvog um Lágaskarðsveg. Þó að þessi leið virðist auðveld og greiðfær eru sáralitlar heimildir um hana.
Aðrar leiðir sem skráðar eru á afrétti Ölfusinga voru fyrst og fremst notaðar af innasveitarmönnum og gangnamönnum. Þannig liggur leið, Skógarmannavegur, frá Þurá beint til norðurs yfir austurhluta Hellisheiðar og yfir Ölkelduháls til Nesja en þangað var farið til kolagerðar frá Hjalla. Frá Núpum liggur einnig gata upp á Hellisheiði og hefur hún einnig verið notuð af þeim sem fóru Hellisheiði en áttu erindi í vesturhluta Ölfushrepps.
Almenn sögn segir, að í Kolviðarhól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.” Kolviðarhóll er hár og breiður náttúrulegur melhóll og stóð þar lengi sæluhús en bú var reist þar 1883.
Almenningsvegur liggur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba …, síðan vestur yfir Hellirsheiði, hvör að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísirs.”
1840: “Hellirsheiði er … vel rudd … Á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum.” SSÁ, 205
“Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niðurí Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit. Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni.”
“Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.”
“Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum […]. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn […] en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður […].”
“Frá stóru vörðunni á Efra Skarði lá leiðin til austurs um greiðfært hraun. Þar má sjá götu, sem grjótið hefur verið týnt úr og beinan upphlaðinn veg, þann fyrsta sem lagður var á Hellisheiði. Sá vegur mun hafa verið lagður árið 1879 og kallaður Eiríksvegur. Kenndur við verkstjórann, Eirík Ásmundsson frá Grjótá. Bílaslóðin sunnan fyrir Reykjafell liggur yfir gömlu götuna hjá litlum gíghól . .. Vörðurnar standa sig vel, flestar, og eru 18 vörður frá gíghólnum og austur á Syðri-Þrívörðu. Þar kemur hraunbrún, sem liggur þvert á leiðina. Á brúninni norðan götunnar stendur gamalt sæluhús … Niður af hraunbrúninni liggur sniðgata og enn er helluhraun með sporuðum klöppum. Næsti áfangi er önnur hraunbrún. Sú er nefnd Eystri Þrívörður.
Þar var talin hálfnuð leið yfir Hellisheiði. Þá tekur við ósléttara hraun, sunnan við apalhraunið. Þar er greinileg gata og hefur hún gróið grasi. Þegar nálgast austurbrúnina beygir hún til suðurs, vestan við Hurðarásinn, sem gamli bílvegurinn lá yfir. Síðan gegnum skarð sunnan á ásnum .. . Síðan lá leiðineftir vatnsfarvegi niður á Kambabrúnina … Síðan lá leiðin um sniðgötu niður Kambabrúnina, skammt ofan við gamla þjóðveginn, sem bíllinn notaði. Greinileg gata liggur niður Kambabrekkuna, gróin grasi. Síðan lá leiðin um melinn, sunnan Hamarsins.” Útivist 6(1980), 82-86.
“Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, b. 1877-78] lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. / Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur .. .
Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjótá [!] tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum.
Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba. 1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur … Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagðr áþann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim .. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.” Magnús Grímsson: Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi, Landnám Ingólfs 2 (1985), 88-89. Vegurinn var færður suður fyrir Reykjafell á svipaðar slóðir og hann er enn í dag 1894-95.
Vörður eru hlaðnar allt frá Hellisskarði og að Syðri Þrívörðum, skammt austan við neyðarskýli Slysavarnarfélagsins við þjóðveg 1. Þær eru vel hlaðnar úr þunnu hraungrýti, toppmyndaðar, um 1,5 í botninn og um 1,5 m háar, með töluverðu af skófum og mosa. Þær eru með 60-140 m millibili, 90 m að meðaltali.
“Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m í þvermál að innan á sömu klöppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak.” segir í örnefnalýsingu. Kofinn er um 70 m norður af hinni vörðuðu Hellisheiðarleið, um 1,3 km vestan við neyðarskýli LHS við þjóðveg 1. Kofinn stendur framarlega á klapparbrún og er hann sjálfur á upphækkun á klöppinni. Kofinn sést allsstaðar af heiðinni. Í kringum hann sést hvar hleðslugrjót hefur verið rifið upp. Friðlýst 13.5.1971. “var byggður um 1830. Það gerði Þórður Erlendsson [1797-1872], þá bóndi á Völlum, síðar Tannastöðum. Biskupsvarða var stór og hlaðin í kross með 4 arma, þá var skjól í kverkunum. Hún var mjög gömul og hrunin í rúst. Hún stóð á klöpp hægra megin við veginn, þegar suður var farið (til Faxaflóa). Kofinn var byggður úr sama grjótinu, og að öllum líkindum á sömu klöppinni. Heimild fyrir þessu er Skúli Helgason, eftir Kolbeini Guðmundssyni bónda á Úlfljótsvatni, en hann hafði það eftir gömlum mönnum og langminnugum.” Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr).
“Á þeim stað sem hétu Syðri-Þrívörður var laust eftir 1820 byggður sæluhúskofi, orghlaðinn úr grjóti og þéttur með mosa. Kofi sá stendur enn óhaggaður eftir rúm 150 ár. Lítið skjól er þar nú því að þétting öll er fokin í burtu.” SB III, 282. Kofinn er ferhyrndur að innan, 2×2 m og 1,85 m undir þak, um 20 umför af 7-15 sm þykkum hraunhellum. Suðausturhorn þaksins er aðeins farið að síga inn en annars standa hleðslurnar mjög vel. Dyr eru á norðurhlið, austantil. Veggir eru um 0,8 m þykkir við dyraop, þar er þröskuldur, 2 umför af hraunhellum. Talsverður mosi og skófir eru á kofanum. Inni í kofanum er hart moldargólf, að mestu slétt. Ekkert friðlýsingarmerki er á staðnum. Um byggingarár kofans er flest á huldu annað en að hann mun byggður eftir 1824 er Þórður Erlendsson fór að búa á Völlum og fyrir 1844 er nýtt sæluhús var byggt á Kolviðarhóli og mun kofinn hafa verið reistur á því tímabili sem ekkert sæluhús var við lýði vestan við heiðina. Þórður flutti búferlum að Tannastöðum 1836 en ekki er víst hvort af því megi ráða að hann hafi hlaðið kofann fyrir þann tíma.”
1703: “Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur Sælhús (ei langt frá veginum) so kallað, hvort allt þessa tíma Ölves innbyggjarar hafa upp haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli.”
19.6.1793: “Skömmu áður en komið er að fjallinu, sést lítill kofi, hlaðinn úr hraungrjóti, en með torfþaki. Hann er ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallast sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda.”
“Í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan; munu nú flestar þessar draugasögur gleymdar. […] Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól.” “Það var lagt niður og nýtt sæluhús byggt á Kolviðarhóli 1844.” “Norður af Bolavöllum vestarlega mun enn sjást votta fyrir hústóft einni. Var þar húskofi nokkur eða sæluhús, hið eina skýli, er til var vestan Hellisheiðar þar efra, og hæð sú, er sæluhús þetta stóð á, hinn svonefndi Húsmúli, er virðist hafa hlotið nafn þetta vegna sæluhúss þessa. En það sýnir, að það hefur staðið þarna langan tíma áður […].” “Þar sem norðaustur horn Svínahrauns nær næst Húsmúlanum er tjörn í bilinu. Hún heitir Draugatjörn. Austan við tjörnina er lítil rúst á litlum hól. Þar stóð Sæluhúsið við Húsmúlann frá fornu fari fram til 1844, að það var flutt upp á Kolviðarhól, vegna draugagangs meðal annars.” “Austan við tjörnina sést enn rúst af sæluhúsi, mjög gömlu… Þar hefur ekki verið rúm fyrir marga, eftir tóftarbrotinu að dæma, varla meira en einn mann og hest. Stærðin er 2,15×1,5 m.
Ferðamenn urðu oft fyrir ásóknum í þessu húsi, svo að þeim varð ekki svefnsamt. Frásagnir um það eru prentaðar í þjóðsögum.” Sæluhústóftin er á hraunhæð við austurenda Draugatjarnar, um 30 m frá henni. Uppi á lágum helluhraunshól eða hæð, þar sem mjór rani gengur norður úr Svínahrauni austan Draugatjarnar. Skammt frá tjörninni og læk sem rennur úr henni. Innan í tóftinni er hrunið hraungrýti en hún er allvel gróin í hliðum. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans; Gráskinna hin meiri I, 239-243.
“Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell, norðan í því er Dauðidalur, í honum er fjárrétt.” segir í örnefnalýsingu. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal.
Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kring um hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við í dældinni og enn fjær eru mosaþembur. Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.
1703: “Ei alllangt frá Engidal eru almennar nautaréttir Ölvesinga og Kjalarnesþingsmanna, er árlega haldast þann þriðja dag oktobris mánaðar, ef ei er helgur, annnars næsta dag fyrir. Þessi fjallgarður brúkast almennilega fyrir nauta og hrossa afrétt. Skammt fyrir sunnan réttirnar við Engidalsá standa tveir klettar, sinn hvoru megin árinnar, og nefnist bilið milli þeirra Þjófahlaup.” “Nauta- og sauðaafréttur liggur vestan og norðan Hellirsheiði, sameiginlegur við Grafningsmenn. […] nautaréttir [eru haldnar] þriðjudaginn í 23. viku sumars í Márardal undir Hengli.”
Réttirnar lögðust niður laust fyrir 1860. Engin eiginleg rétt er í Marardal en hlaðið er fyrir uppgönguleiðir. Dalurinn sjálfur er þverhníptur og er því rétt frá náttúrunnar hendi. Af lýsingu Hálfdanar er helst að sjá að réttin hafi verið við Engidalsá, og þar með ekki í Marardal heldur fyrir sunnan hann, hugsanlega á milli Marardals og Engidals en þar eru víða klettar við ána.
“Eftir bardagann í Orustuhólsréttum áttu Ölfusingar og Mosfellssveitarmenn að hafa skilið félag sitt um fjallleitir, og fluttu þá Ölfusingar réttir sínar austur á heiðina, austur fyrir Hengladalaá. [Árið 1878 var fé rekið inn í Hengladali] Var riðið fram Smjörþýfi og fram með Hengladalaánni, og sýndi þá gamall maður, er í förinni var, okkur yngri rekstarmönnunum þessar réttir. Sást þá vel fyrir þeim, bæði almenning og dilkum, þótt djúp skörð væru hrunin í veggi. Sumir dilkanna voru allstórir, gerði ekkert, almenningsdyr sneru á Hengil. Sennilega hefir Ölfusingum þótt afundið að hafa lögréttir sínar uppi á fjalli, og voru því réttirnar færðar undir Ingólfsfjall að Hvammi þegar fyrir 1700.” Réttin fannst ekki og gæti verið farin í ána sem brýtur mikið af bökkunum. Smjörþýfi er um 1,5×0,5 km stór þúfnamói, mjög grösugur og greinilega gott beitiland. Suðaustan við tekur við lyngmói.
Af lýsingunni að dæma hefur réttin átt að vera norðan til á Smjörþýfi nálægt ánni og reiðgötunum sem liggja nálægt henni inn í Hengladali og eru mjög skýrar. Farvegur eftir leysingavatn er einnig undir brekkurótunum austanmegin norðantil á Smjörþýfi og gæti þar hafa verið réttarstæði sem síðan hefur horfið.
“Nokkrir hellar eru hingað og þangað í berginu umhverfis [Marar-] dalinn. Allir eru þeir nokkuð hátt uppi í hömrunum. Enginn þeirra er stór, en í flestum þeirra sjást einhver mannaverk: hleðslur, ártöl, fangamörk o.þ.h. Einn þessara hella er skammt frá götunni, sem liggur inn dalinn. Hann var notaður fyrir skýli handa réttamönnum. Fyrir framan hann hefir verið hlaðinn garður til skjóls. En líklega hefir hleðslan aldrei náð fast upp að berginu, enda hefir þess ekki þurft, því að þótt auðvelt sé fyrir menn að komast upp í hann, þá er hann svo hátt uppi, að nautin hafa ekki gert mönnum þar ónæði.” Hellir þessi er austanmegin í Marardal, um 30 m frá hinni merktu gönguleið, um 3 m upp í hlíðinni.
Grasi gróin brekka upp í skútann og er þar troðinn sneiðingur. Hleðslan er gróin en hellisgólfið er bert. Skútinn sjálfur er um 12 m langur og 3 m djúpur þar sem mest er en hleðslan er 6 m löng og er fyrir norðurhlutanum.
Hellir er og í vesturhlíð Marardals, fyrir miðjum dalnum, gegnt uppgangi úr honum og eru áletranir í honum en ekki fundust áletranir í öðrum hellum eða skútum í dalnum. Hellirinn er um 6 m uppi í berginu og er tiltölulega auðvelt að komast upp í hann. Hellisgólfið er silla, 1,5-2 breið og um 7 m löng. Áletranirnar eru á hellisveggnum ofan við silluna, sunnantil í hellinum en ekki norðan. Elsta ártalið sem greint verður með vissu er 1917 en steinninn þarna er mjúkur og veðrast fljótt.
Heimild:
-Fornleifaskráning á Hengilssvæðinu III – Fornleifar á afrétti Ölfushrepps, Orri Vésteinsson, Fornleifastofnun Íslands 1998.