Illugi Jökulsson tók eftirfarandi saman um Einar Benediktsson. Frásögnin birtist í Vísi árið 1980:
“Einar Benediktsson hefur alla tíð verið umdeildur, jafnt sem skáld og sem manneskja. Nú, 40 árum eftir dauða sinn, er honum enn í lófa lagið að vekja upp heitar deilur og óvægnar, rétt eins og meðan hann var í fullu fjöri. Aldrei verður honum borið á brýn að hafa verið meðalmenni, hversu sem mönnum þykir annars til um hann.
Einar Benediktsson fæddist á Elliðavatni 31. október 1864, af merku foreldri. Faðir hans var Benedikt Sveinsson, dómari í Landsyfirréttinum og skörungur í stjórnmálum, og móðir hans Katrín Einarsdóttir. Þau skildu er Einar var barn að aldri og bjó Einar lengst af hjá föður sínum. Hann varð síðan stúdent frá lærða skóla Reykjavíkur 1884 og sigldi til Kaupmannahafnar til náms í lögfræði. Námsferill hans varð slitróttur vegna veikinda og lauk hann ekki námi fyrr en árið 1892.
Vegna ýmissa áhugamála hans utan lögfræðinnar og svo talsverðrar hneigðar til að njóta lystisemda Hafnarlífsins náði hann aðeins 2. einkunn og kom honum það í koll síðar er hann fór að leita embættis. Telur Sigurður Nordal það hafa haft sín áhrif á örlög hans. Síðan segir Sigurður: „Eins og að líkum lætur, kom Einar til Reykjavíkur haustið 1894 með tvær hendur tómar. Faðir hans hafði gert vel að kosta hann til náms og var ekki aflögufær fram yfir það, enda Einar kominn á þann aldur, að honum var ætlandi að sjá sér farboða. En höfuðstaðurinn var líka fátækur og allt annað en vænlegur vettvangur embættislausum lögfræðingi. Var fram að þessu eins dæmi að nokkur lögfræðingur reyndi að draga fram lífið í Reykjavík án málaflutningsréttinda við yfirréttinn, eða nokkurrar fastar stöðu, eins og Einar færðist í fang. Hann sótti um ýmis sýslumannsembætti árangurslaust en fékk loks málflutningsréttindin 1898, eftir fjögurra ára dvöl í Reykjavík.
Vitað er, að Einar fór, undir eins og hann var kominn til Reykjavíkur, að fást við þau lögfræðistörf, sem honum var heimilt að stunda og munu hafa verið fábreytt og lítt févænleg, en auk þess kaup og sölu fasteigna. Annars fara meiri sögur af öðrum störfum hans en brauðstritinu. Samt er haft eftir honum, að árstekjur hans á Reykjavíkurárunum hafi komist upp í 25 þúsund krónur. Þetta var þá mikið fé, eins og ráða má af því, að 1902 seldi Einar stórhýsið í Glasgow fyrir einmitt þessa upphæð og árslaun ráðherra íslands, frá 1904, voru alls 12000 kr. En jafnvel þótt þessi sögusögn um tekjur Einars kunni að vera eitthvað orðum aukin, er áreiðanlegt, að síðari ár sín í Reykjavík hafði hann allgóð fjárráð og fór ekki dult með. Þegar hann kvæntist, 1899, stofnaði hann ríkmannlegt heimili eftir því sem þá gerðist hér á landi. Hann fór í kostnaðarsöm ferðalög, bæði utan lands og innan, ýmist einn eða með konu sína, og barst yfirleitt allmikið á. Það var því alls ekki til þess að bæta afkomu sína, sem hann sótti um Rangárvallasýslu 1904 og fékk veitingu fyrir henni. Enda lét hann þá svo um mælt, að embættislaunin væru sér ekki meira en hæfilegir vasapeningar”.
Nú er nauðsynlegt að fara býsna fljótt yfir sögu. Einar var umsvifamikill í Rangárvallasýslu en lét af sýslumannsembættinu þegar árið 1907, vegna þess að hann meiddist fæti og þoldi því ekki þau miklu ferðalög á hestum sem embættinu voru nauðsynleg. Hann fluttist því aftur til Reykjavíkur sem á þessum árum var ört vaxandi bær og var það mjög að skapi Einars sem hugði á stórar framkvæmdir. Sigurður Nordal segir: „Ekki er að efa, að hann hafi ætlað sér að bera þar ríflegri hlut frá borði en tiltök voru hér heima. En hitt er jafnvíst, að nú hugsaði hann um annað og meira: að færa Íslendingum heim í garð það stórfé, sem eitt gat dugað þjóðinni til viðreisnar. Aðstaða til að hrinda þessu áleiðis var allt of óhæg með búsetu á Íslandi. Einar fluttist þegar haustið 1907 til Edinborgar og átti síðan fjórtán ár lengstum heimili erlendis”.
Nú er þess að geta að Einar gat lítils stuðnings vænst af valdsmönnum á Íslandi. Hann hafði litla stjórnarhylli og hafði snemma vakiö tortryggni og fjandskap þegar fyrsti orðrómur gekk um fossakaup hans. Flýtti Alþingi sér þá að gera ráðstafanir til að takmarka leigu og sölu fallvatna. Þó hann hefði einatt mikið fé umleikis var fjárhagur hans ekki traustari en svo að áföll fyrirtækja hans snertu hann illa. Nordal segir: „Hann átti sér í rauninni ekki annan bakhjall en trúna á stórfellda framtíðarmöguleika Íslands, gáfur sinar og persónutöfra”.
Einar Benediktsson mæddist í mörgu. Hann hugði á stórframkvæmdir en lítið eða ekkert tókst honum. Hann stóð í blaðamennsku um tíma og kostaði ýmis blöð, hann drap niður fæti í pólitík og tók upp merki föður síns í baráttunni gegn Valtýskunni, og telja má hann einn aðalstofnanda Landvarnarflokksins. Hann barðist ötulega fyrir sjálfstæði en mun þó hvorki hafa verið skilnaðar- né lýðveldissinni og þótti nokkuð til um sinn kóng. Þá vildi hann beita sér fyrir því að Íslendingar tækju upp loftskeytatækni Marconis og fékk stuðning til þess erlendis frá. Að vísu varð Stóra norræna ritsímafélagið ofan á en Sigurður Nordal telur að öll þessi umsvif og trúnaður sá og rausn, sem hið auðuga Marconifélag sýndi honum, hafi átt sinn þátt í því að koma róti á hann, sannfæra hann um, hverju hann gæti orkað einn síns liðs, og ýta svo undir hann að leggja á tæpari vöð.
Efalítið er Einar Benediktsson einna kunnastur nú fyrir fossamálið en linnulaust frá 1906 til 1925 reyndi hann að vekja athygli Íslendinga á þeim möguleikum sem í vatnsorkunni fælust og sýndi þar stórhug svo undrum sætir. Hann vildi hefja orkuframleiðslu úr fallvötnunum og var árið 1914 stofnað hlutafélagið Titan til virkjunar Þjórsár. Það var gert í samvinnu við Norðmenn og var fyrirtæki þetta þvílíkrar stærðar að erfitt er að henda reiður á, jafnvel nú. Ýmissa orsaka vegna fóru öll þessi tröllauknu áform út um þúfur, m.a. vegna kreppu sem skall á í Noregi eftir fyrri heimsstyrjöldina. Voru það ekki fyrstu vonbrigði Einars, né hin síðustu. Loks stóð svo Einar um margra ára skeið í allslags fyrirtækjamakki við Breta, hann leitaði að gulli hér á landi og vildi leggja Grænland undir íslensk yfirráð. Alls staðar var sama sagan: Vonbrigði. Enda má leiða að því rök að hreint og klárt fjármálavit Einars hafi ekki verib nándar nærri ámóta og hugsjónir hans. Eins og gefur að skilja fjallar bók Sigurðar Nordals að miklu leyti um kvæði Einars, enda þau líklega óbrotgjarnasti minnisvarðinn um hann. Um þau eru ekki tök á að margræða hér. En gefum nú Sigurði Nordal seint og um síðir orðið:
„Einar Benediktsson kvæntist árið 1899, þá tæplega hálffertugur, en Valgerður kona hans réttra átján ára. Einar og Valgerður eignuðust sex börn og lifðu fimm þeirra föður sinn.
Frú Valgerður var glæsileg kona og sómdi sér vel við hlið manns síns. Þótt Einar væri umhyggjusamur heimilisfaðir, var staða hennar oft allerfið vegna tíðra búferlaflutninga og mikilla fjarvista húsbóndans. Annars ferðuðust þau hjónin líka talsvert saman, og á utanvistarárunum komu þau stundum með alla fjölskylduna heim til Íslands.
Um áramótin 1921-22, þegar telja má að Einar væri alkominn heim, settist hann að í Þrúðvangi við Laufásveg en það hús átti tengdamóðir hans. Þar stóð heimilið nokkur ár með miklum brag rausnar og híbýlaprýði. En smám saman tóku hagir Einars að þrengjast, og þegar tengdamóðir hans þurfti sjálf á húsi sínu að halda haustið 1927, urðu þau Valgerður í bili að flytjast í lítið leiguhúsnæði. Þau fóru bæði til Noregs undir árslokin, og varð Valgerður þar eftir, þegar Einar hvarf heim til Íslands. Voru þau þá skilin að samvistum, þótt lögskilnaður þeirra væri ekki gerður fyrr en síðar.
Frá 1928 til- 1930 var Einar áfram í Reykjavík og bjó við heldur órífleg kjör. En nú var komin til sögu sú kona, sem átti eftir að verða stoð hans og stytta til æviloka, frú Hlín Johnson. Hún hafði um fermingaraldur heyrt og séð Einar Benediktsson fyrir norðan, hann jafnan síðan verið henni hugfólgnari en aðrir menn og skáldskapur hans að sama skapi. En þau hittust ekki að máli fyrr en því nær 40 árum síðar. Þá hafði Hlín átt mikil örlög, verið gift og eignast átta börn, misst mann sinn, dvalist nokkur ár í Kanada, tekið sér ferð á hendur til Argentínu og unnið fyrir sér og börnum sínum af óbilandi kjarki og dugnaði. En upp úr 1930 voru þau uppkomin, og frá þeim tíma helgaði hún Einari líf sitt og starf.
Í árslok 1930 fóru þau Einar og Hlín utan, alla leið suður til Túnis, og komu úr því ferðalagi vorið 1932. Þá réb Einar því, að þau settust að á hinu forna stórbýli, Herdísarvik, sem ásamt Krýsuvík, var eignarjörð hans. Þar komu þau sér upp litlu og vistlegu húsi og höfðu nokkurn búskap. Þó að Einari væri á seinustu Reykjavíkurárum sínum stundum svo fátt skotsilfurs, að hann seldi smám saman þær bækur sínar, sem honum var ekki fast í hendi með, átti hann lengi nokkrar fasteignir, og kom það honum í góðar þarfir síðar. Árið 1935 gaf Einar Háskóla Íslands jörðina Herdísarvík, bækur sínar og húsgögn til minningar um föður sinn.
Herdísarvík var á þessum tíma mjög afskekkt, langt til næstu bæja og vegir þangað ógreiðfærir.
Fyrstu ár sín í Herdísarvík kom Einar stöku sinnum til Reykjavíkur, og um sjötugsafmæli sitt fór hann síðustu utanför sína, til Hafnar, og var þá enn hinn ernasti. En eftir þetta fór kröftum hans smáhnignandi, án þess að hann þjáðist né legðist rúmfastur. Mátti heita, að dauðinn, sem honum hafði staðið svo mikill beygur af á fyrri árum, sýndi skáldinu það tillæti að nálgast hægt og hljóðlega. Hann andaðist 12. janúar 1940, liðlega hálfáttræður.”
Heimild:
-Vísir 12. apríl 1980, bls. 4-5.