Festarfjall

Þegar ströndinni er fylgt má víða sjá hella, sem sjórinn hefur gert inn í bergið eða sem hluta hraunrása.
Viðarhellir er milli Þorlákshafnar og Selvogs. Takmörk nefndra sveita eru við Hraunsvíkhellinn. Hann er dæmigerður hellir í hömrum við sjó. Ægir brýtur sér leið inn undir bergið og þeytir síðan þakinu af skammt ofar, bæði með þunga sínum og þrýstingi. Þegar staðið er á bjarginu í ágjöf má bæði sjá og skynja afl hafsins því segja má að landið leiki á reiðiskjálfi.
Yst undir Hellisbergi við Hlíðarenda ofan Þorlákshafnar er Hellir, eða Hlíðarendahellir, ágætt fjárból. Þótt hellirinn sé nú langt uppi í landi er hann sjávarhellir frá lokum ísaldar. Hefur um 40 m. langur veggur verið hlaðinn upp með slútandi berginu. Við með suðurströndinni má sjá skúta í fjallsjöðrum ofan strandarinnar. Landið þarna hefur breyst mikið á umliðnum öldum. Eftir að síðustu ísöld lauk voru móbergshryggirnir og einstök fjöll áberandi norðaustur eftir og með Atlantshafshryggnum frá suðvestri. Síðan mynduðu dyngjurnar mikil hraunflæmi og fylltu að og út frá þeim. Loks bættu stærri og smærri sprungureinagos um betur. Nýjahraun, sem álverið í Straumsvík stendur á, rann t.a.m. árið 1151. Síðasta stóra gosið var á 13. öld, en á Reykjanesskaganum hefur gosið fram á 18. öld. Síðan hefur eldvirknin dvínað, en þar með er ekki sagt að henni sé lokið. Eldgos geta orðið hvenær sem er, en á líklega eftir að koma öllum jafn mikið á óvart þegar það verður.
StraumsvíkSjávarhellar í Herdísarvíkurbjargi og berginu milli Selatanga og Ísólfsskála eru allmargir, auk hella í Festisfjalli, ofan við Hraunsvík, í Staðarbergi og Hafnabergi. Í suma er hægt að komast með sæmilegu móti, en við aðra er erfitt um vik.
Grunur hefur verið um mikinn sjávarhelli utan við Straumsvík er náð gæti inn undir álverið og hugsanlega eitthvað up í hraunið. Vonir eru bundnar um samvinnu við kafara að kanna svæðið með ströndinni og huga að mögulegri innför. Að sögn kafara, sem hafa skoðað svæðið eru þar víða rásir inn undir bergið, en ekki er að heyra að þær hafi verið kannaðar með það fyrir augum að þar gætu verið verulegir hraunhellar.
Ef eldri ljósmyndum af álverinu í Straumsvík má sjá þrjú síló (rauð/hvít). Frásögn er af því að þegar eitt sílóið tók upp á því að halla var borað undir það. Þá kom í ljós tómarúm þar undir. Var brugðið á það ráð að dæla steypu niður um gatið daglangt. Þegar einn starfsmannanna gekk fram á sjávarkampinn sá hann hvar sjórinn var allur steypulitaður framanvert. Var verkið þá stöðvað. Sílóið var þó notað enn um hríð, en síðan rifið. Nú er þarna einungis tvö síló.
Ef þarna er stór sjávarhellir með öllu sem fylgt getur slíku jarðfræðifyrirbæri væri það einstakt í heiminum.
Sjávarhellir