Bjarnastaðir

Í Náttúrufræðingnum árið 1958 má lesa eftirfarandi eftir Finn Guðmundsson eftir að leðublaka hafði verið fönguð við Bjarnastaði í Selvogi árið áður:
“Laust fyrir kl. 6 síðdegis þriðjudaginn 8. þ. m. (okt. 1957) var Helgi Guðnason, Þorkelsgerði í Selvogi, að hyggja að fé sínu, og lá leið hans þá um túnin hjá Bjarnastöðum, en sá bær er nokkru austar í Selvogi en Þorkelsgerði. Gekk Helgi þá fram á kvikindi eitt allófrýnilegt, sem lá í grasinu fyrir fótum hans. Þar sem Helgi bar ekki kennsl á dýr þetta, hélt hann rakleitt heim að Bjarnastöðum og gerði Sigurlaugi bónda Jónssyni á Bjarnastöðum aðvart um meinvætt þenna. Brá Sigurlaugur skjótt ledurblaka-221við og hélt á vettvang og tókst honum að handsama dýrið. Varð honum þegar ljóst, að þetta var leðurblaka, og bar hann hana inn í bæ og setti í fötu með heyi og strengdi dúk yfir. Síðdegis næsta dag tilkynnti Sigurlaugur mér símleiðis um fund þenna, og á fimmtudaginn hélt ég suður í Selvog til að sækja dýrið. Það hafði í fyrstu verið blautt og alldasað, en hresstist brátt, og þegar ég kom að Bjarnastöðum síðdegis á fimmtu daginn og fór að athuga dýrið, flaug það upp úr fötunni og flaug stundarkorn fram og aftur um stofuna á Bjarnastöðum, áður en okkur tókst að ná því aftur.
Nánari athugun hefur leitt í ljós, að þetta er amerísk leðurblökutegund. Hið vísindalega heiti hennar er Lasiurus cinereus, en enska (ameríska) heiti hennar er Hoary Bat. Háralitur dýrsins er gulbrúnn, en hárin eru hvít eða hvítgrá í oddinn, og dýrið sýnist því vera hélugrátt. Af þessu er enska nafn tegundarinnar dregið, en hoary þýðir hélugrár eða hæruskotinn. Mætti því kalla tegund þessa hrímblöku á íslenzku. Hrímblakan er fremur stór leðurblökutegund eða á stærð við stærstu leðurblökur Evrópu. Lengd Selvogsblökunnar mældist 13.6 cm (þar af halinn 6.1 cm) og vængjahafið 38.5 cm. Hrímblakan er norræn tegund, sem í Ameríku ei algengust í Kanada og norðurríkjum Bandaríkjanna. Hún er fardýr, sem leitar suður á bóginn á veturna, jafnvel suður til Mexíkó. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem leðurblaka hefur náðst hér á landi. Um miðjan október 1943 var leðurblaka handsömuð á Hvoli í Mýrdal, og önnur náðist við höfnina í Reykjavík í ágúst 1944 (sbr. Náttúrufr., 1943, bls. 153, og 1944, bls. 143). Í bæði skiptin var um amerískar tegundir að ræða, og sú sem náðist í Mýrdalnum var sömu tegundar og Selvogsblakan. Líklegt hefur verið talið, að leðurblökur geti ekki borizt hingað nema með skipum (eða flugvélum?), og leðurblakan, sem náðist við höfnina í Reykjavík, hefur eflaust komið hingað með þeim hætti. Hins vegar er ekki með öllu hægt að fortaka, að jafn stór og flugþolin fardýr og hrímblakan geti hrakizt hingað undan veðrum eins og margir amerískir hrakningsfuglar, sem hér hafa komið fram. Næstu daga áður en Selvogsblakan fannst var veðurfar líka með þeim hætti, að nærri liggur að ætla, að slíkt hafi getað átt sér stað. – Finnur Guðmundsson.”

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 27. árg. 1957-1958, 3. tbl. bls. 143-144.

Bjarnastaðir

Bjarnastaðir í Selvogi.