Sængurkonuhellir

Farið var með fulltrúum Hellarannsóknarfélagsins. Í för voru fjórir áhugasamir Ítalir, samtals 14 manns. Byrjað var að skoða holuna í Brunntorfum. Hún er um sex metra djúp. Innundir henni er skúti. Í honum var talsvert af drasli, s.s. nokkrir plastpokar og krossviðsferðataska.

Sængurkonuhelir

Sængurkonuhellir.

Þaðan var haldið í Tvíbollahraun. Neðan undir hlíðinni, vestan Kristjánsdala, rakst FERLIR fyrir skömmu á holu í hrauninu. Stigi var látinn síga niður, en dýpið var um 7-8 metrar. Kom í ljós að þarna var um op á fallegri hraunrás að ræða. Lá hún upp á við spölkorn til suðurs, en neðri hraunrásin var á tveimur hæðum. Var skriðið eftir rásunum, en þær enduðu eftir nokkra tugi metra.
Þá var haldið í “Sængurkonuhelli” á Klifshæð í Herdísarvíkurhrauni. Þar er jarðfall. Vestan í því er skúti, sem vel gæti verið svonefndur Sængurkonuhellir, sem lýst er í gamalli sögu. Þar á kona á leið á milli bæja að hafa alið barn.

Sængurkonuhellir

Hraunstrá í Sængurkonuhelli.

Í einni örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík (GS I) segir m.a.: “Litlu vestar en Sýslusteinn lá alfaraleiðin gamla um Klifið, sem eiginlega var vestan landamarka. Það nefndist ýmsum nöfnum, svo sem Háaklif, Illaklif og Vondaklif. Nú hefur verið hlaðin varða í Illaklifi, nefnist Klifsvarða. Sunnan yngra hraunsins er hellisskúti, nefnist Sængurkonuhellir. Þar leitaði kona einu sinni skjóls og fæddi þar barn. Niður frá Geitafellsendanum eystri lá stígur milli Krýsuvíkurhrauns eða Krýsuvíkurbruna og Herdísarvíkurbruna, neðan brunans austur í Brunna. Þótti hann betri en að fara um Háaklif. Neðrileið var hún nefnd.”

Sængurkonuhellir

Herdísarvíkurhraun – Sængurkonuhellir í Klifinu við Herdísarvíkurgötuna gömlu.

Í annarri örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík (GS-II) segir einnig: “Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.”
Þegar FERLIR var þarna á ferð nokkur áður, leitaði á Klifshæðinni og fann fyrst nefndan skúta lá ryðbrunnið emelerað vaskafat í honum – tákn um mannvistir. Kanturinn á nýrra hrauni er skammt ofan við jarðfallið, sem hellirinn er í.
Sunnan í jarðfallinu eru tvö op. Fyrir eystra opinu er steinn, en þegar inn fyrir hann kemur má sjá göng undir hraunið. Eftir m 30 metra þrengist hellirinn, en innan þrengingarinnar greinist hann í þrennt. Þar fyrir innan eru falleg hraunkerti og hraunstrá. Hæg er að fara inn í þessar rásir um gat á milli skútans og austasta opsins, en þþá þarf að skíða yfir lítið jarðfall. Framan við jarðfallið eru mannvistarleifar; m.a. hleðslur á tveimur stöðum.
Hinn þjóðsagnakenndi Sængurkonuhellir, sem nefndur er í örnefnalýsingum er í Klifinu skammt sunnar, eins og áður sagði.

Mosaskarðshellir

Í Mosaskarðshelli.

Loks var haldið í Mosaskarð. Þar í skarðinu er op uppi á hraunhól. Um 4 metrar eru niður í hraunrás í hólnum. Rásin liggur nokkra metra upp á við, en þegar haldið var niður á við var komið að, því er virtist, sendinni holu í gólfinu. Þegar mokað var upp úr holunni með sléttri nálægri hraunhellu, var hægð að stinga sér ofan í hana – og þá opnaðist gat áfram – að því er virtist. Eftir að hafa skriðið niður í holuna og upp úr henni aftur að handan var komið inn í mannhæða hraunrás, rislaga með tiltölulega sléttum brúnleitum veggjum. Ekkert hrun var í rásinni og gólfið heilt. Það hallaði undan og rásin beygði aflíðandi uns komið var að þeim stað þar sem gólf og loft komu saman. Þetta er með eftirminnilegri hellum, sem farið hefur verið í, bæði fallegur og þurr.

Krúsvíkurhellir

Við op Krýsuvíkurhellis.

Á næstunni er ætlunin að fara með fulltrúum Hellarannsóknarfélagsins í Krýsuvíkurhelli, en í honum eru einnig hleðslur á nokkrum stöðum, auk þess sem alveg er eftir að skoða efri huta hans. Hann er skammt fyrir ofan Krýsuvíkurbergs austan Bergsenda.
Þá er ætlunin að fara í Leiðarenda í Tvíbollahrauni, auk þess sem stefnt er að ferð fljótlega í Hrútardyngjuhellana, s.s. Maístjörnuna, Hýðið, Húshelli, Þumal, Aðventuna, Langhelli, Neyðarútgöngudyrahelli, Steinbogahelli og fleiri hella á svæðinu.

Mosaskarðshellir

Í Mosaskarðshelli – fyrsta sinni.