Brennisteinsfjöll

“Jarðhitasvæðið er lítið um sig, í hraunjaðri austan undir hraunum þöktum móbergshálsi, austan undir Lönguhlíð og suðvestur frá Grindaskörðum.
Brenn-2221Þarna eru nokkur gufuaugu, en brennisteinn hafði safnast saman í hraungjótum, þar sem regn náði ekki að skola honum burtu. Gaf það staðnum nafn og fjöllunum (hálsinum) vestan hans. Fornar leirskellur eru utan í hálsinum og eins norðaustur frá jarðhitasvæðinu, sem bendir til nokkurs jarðhita í eina tíð. Afl svæðisins er nú haldið vera frekar lítið og ef til vill ekki eftir miklu að slægjast með jarðhitann þar heldur.
Uppi á hálsinum er einhver fegursta og stórfenglegasta gígaröð á landinu, og reyndar fleiri en ein. Vestan hennar, nærri norðurbrún Lönguhlíðar, er hæðin Kistufell með stórum og tilkomumiklum dyngjugíg, með storknaðri hrauntjörn. Hraun þekja þarna stór svæði og eru yfirleitt mosagróin, enda úrkoma mikil á fjöllunum og þokur eða skýjahulur tíðar. Þarna er því fjölbreytilegt og sérstætt eldfjallalandslag, óraskað, úfið og “villt”.”
Brennisteinsnamur-222Að þessu sinni var gengið upp í Fjöllin um Kerlingarskarð (sem ranglega hefur í skrifum verið sagt Grindarskarð), eftir endurlöngum Draugahlíðum, um námusvæðið og síðan Kistufellsgíg að Hvyrfli uns haldið var niður Þverdal undir Kerlingarhnúkum. Í leiðinni var tækifærið notað til að kíkja í nokkur göt í hraununum austan Kistufells.
“Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 400–500 m hæð yfir sjó. Í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll er skýrt afmörkuð gos- og sprungurein með stefnu NA-SV. Kjarninn í henni er á milli Heiðarinnar há og Bláfjalla að austan og Lönguhlíðar-stapans að vestan. Bláfjöll eru oft felld undir þetta sama eldstöðvakerfi sem sérstök gosrein með móbergshryggjum, dyngjum og fáeinum gígaröðum, mikilli gosframleiðslu, en furðulítið er þar um brot. Jarðhitasvæði er ekki sýnilegt í Bláfjallareininni.
Brennisteinsnamur-uppdratturÍ Brennisteinsfjalla-reininni eru sprungugos ráðandi, en dyngjur koma þar einnig fyrir og er Kistufell þeirra mest. Í fjallendinu er gos- og sprunguvirkni samþjöppuð á belti sem er einungis um 1200 metra breitt frá Eldborgum undir Geitahlíð uns kemur norður á móts við Bláfjöll að það víkkar og óljóst verður hvar mörk liggja, en þar er komið langt norðaustur fyrir jarðhitasvæðið sem sjónir beinast að hér. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.
Brennisteinsnám var stundað í fá ár eftir 1876 og fyrir 1883. Menjar þess eru námuskvompur í rúmlega 2000 ára gömlu hrauni og tveir tippar stærstir þar framan við. Jarðhitamerki er að finna miklu víðar en sýnt er á eldri kortum (Jón Jónsson (1978), Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson (2001)) [Ísor 2004. Brennisteinsfjöll. Þættir vegna rannsóknarborana. Kristján Sæmundsson, Unnið fyrir VSÓ Ráðgjöf. Greinargerð Ísor-04141. Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson 2001. Brennisteinsfjöll. Rannsóknir á jarðfræði svæðisins. Orkustofnun. OS-2001/048. Ragna Karlsdóttir, 1995. Brennisteinsfjöll. TEM-Viðnámsmælingar. OS-95044/JHD-06. September 1995. ISBN 9979-827-62-9].
kist-21

Á jarðhitakortinu er sýndur virki jarðhitinn og kaldar ummyndunarskellur, aðgreindar eftir því hvort um er að ræða mikla eða væga ummyndun. Mikil ummyndun einkennist af ljósum leirskellum, en væg fremur af rauðum leir, upplituðu bergi og minni háttar útfellingum. Væg ummyndun er fyrst og fremst bundin við jarðmyndanir frá ísöld, en nær þó einnig til hrauna í Brennisteinsfjöllum sjálfum. Yfirborðsmerki um jarðhita finnast á rein sem nær frá því á móts við Kerlingarskarð í norðaustri til suðvesturs á móts við Kistufell. Þessi rein er 4 km löng, um 1 km breið og öll í sprungubelti Brennisteinsfjalla. Virkur jarðhiti er á þrem blettum á litlu svæði: Í hinum fornu námum er gufuhver, við suðumark, með brennisteinútfellingu og gufur allt að 93°C heitar í námuskvompunum í kring. Í hraunbungu 200-300 m norðar eru gufur á dálitlu svæði og mestur hiti 60°C. Við hraunjaðar um 300 m norðaustan við námusvæðið er 22°C hiti í ljósri leirskellu, en sú sem meira ber á sunnar niðri í brekkunni upp af Hvamminum er köld. Nothæf gassýni hafa ekki náðst til gasgreininga en mjög líklegt að það mætti takast.

Brennisteinsfjoll-222

Eldvirkni á Reykjanesskaga hefur sýnt sig að vera lotubundin sé litið á síðustu 3000 ár. Hver lota gengur yfir á um það bil 400 ára tímabili með gosum í nokkrum af eldstöðvakerfum skagans. Á milli líða um 800 ár þegar ekki gýs, en þess í stað kemur jarðskjálftavirkni með höggun á sniðgengjum. Síðasta lota hófst fyrir landnám í Brennisteins/-Bláfjallafjallakerfinu og lauk þar árið 1000.

Brennisteinsfjoll-223

Eftir fylgdi Trölladyngjukerfið með gosvirkni á 12. öld og síðan Reykjanes- og Svartsengiskerfin með gosum á 13. öld. Líkt gekk til fyrir 2400-2000 árum. Vitað er að eldvirkni var á Reykjanesi, í Trölladyngju og Brennisteinsfjöllum fyrir rúmlega 3000 árum, en tímabilið þar á undan er miður þekkt. Goshlé á Reykjanesskaga hefur nú varað í rúmlega 750 ár.
Brennisteinsfjöll voru á náttúruverndaráætlun 2003-2008 (maí 2003). Þau þykja sérstök vegna óvenju fjölbreyttra jarðmyndana og þá einkum gosmenja. Bent er á að Brennisteinsfjöll og umhverfi séu meðal fárra slíkra svæða nærri höfuðborgarsvæðinu sem megi heita ósnert. Hins vegar er land þar niðurnítt af beit og uppblásið með flögum og vatnsgrafningum. Flest af því sem nefnt er sem sérstakt er utan við hugsanlegt framkvæmdasvæði svo sem Þríhnúkagígur, Kista (nefnd Kistufellsgígur) og Eldborg á Brennisteinsfjöllum suðvestur þaðan.”

Brennisteinsfjoll-224

Árni Óla fjallar um svæði í Lesbók Morgunblaðsins 1946: “Upp úr hrauninu í austurhlíð Brennisteinsfjalla, koma gufur sums staðar og litlir brennisteinsblettir eru utan í rönd þess. Á því haf a menn þóst vita að þarna væri brennisteinsnámur og hafa svo» gefið f jöllunum nafn af því.
Sumarið 1851 ferðaðist Jón Hjaltalín landlæknir nokkuð hjer um land til að rannsaka brennisteinsnámur, þar á meðal námurnar í Krýsuvík. Frjetti hann þá um þessar námur uppi í Brennisteinsfjöllum, og fór að spyrjast fyrir um það hvar þau væri, en svörin voru mjög sitt á hvað, sagði einn þetta annar hitt. Var það ekki fyr en að áliðnu sumri, að hann fann mann úr Selvogi, sem kvaðst þekkja fjöll þessi. Bauðst hann til að fylgja Jóni þangað, og lögðu þeir á stað í það ferðalag skömmu fyrir veturnætur. Fann Jón þarna fjórar námur og leist mjög vel á 3 þeirra. Þær eru í Krýsuvíkurlandi. Sjö árum seinna (1858) keypti Englendingur nokkur, J. W. Busby að nafni þessar námur og 

Brennisteinsfjoll-225

Krýsuvíkurnámurnar fyrir milligöngu dr. Jóns Hjaltalíns. Eftir kaupbrjefinu máttu Englendingar taka allan brennistein í Herdísarvíkur og Krýsuvíkur landareignum svo og allar málmtegundir, er þar kynni að finnast, og ýmis önnur rjettindi voru þeim áskilin. Seljendur voru þeir síra Sig. B Sivertsen á Útskálum og Sveinn Eiríksson í Krýsuvík og var söluverðið 1400 dalir.
Var nú stofnað námuhlutafjelag í Englandi og hafið brennisteinsnám. En fjelagið tapaði og gengu hlutabrjefin kaupum og sölum, og óvíst hvar þau eru nú niður komin. En í Brennisteinsfjöllum má enn sjá verksummerki eftir brennisteinsnámið.

Brennisteinsfjoll-226

Á dálítilli grasflöt við læk eru rústir húsanna, sem Englendingar reistu og skamt þar fyrir sunnan eru námurnar. Hefir ekki verið neinn hægðarleikur að vinna þær, því að þær eru undir hrauninu. Hafa Englendingar brotið þar stórar skvompur í hraunið, urðu að brjóta um tveggja mannhæða þykkt blágrýtishraunið til þess að komast að brennisteininum, því að hann hefir sest í glufur og hraunholur niður undir jörð. Hitinn í gufuholunum þarna er talinn vera 26—78 gráður. Hefir gufan soðið og etið hraunið í sundur allavega og umbreytt því, svo að þar hafa myndast krystallar og marglitir steinar, sem gaman er að eiga.
Leiðin frá Kaldárseli upp í Brennisteinsfjöll liggur um Kerlingarskarð, sem er rjett fyrir sunnan Grindaskarðaveginn. Eru þar á brúninni margir gígar og úr þeim hafa komið hraunin fyrir neðan Langahlíð. Einn af stærstu gígunum á þessum slóðum er Kistufell. Er af því víð og mikil útsýn. Gígurinn er mikill um sig og um 70 Brennisteinsfjoll-229metra á dýpt. Vestan við Kistufell er viðsjált hraun. Eru þar sums staðar hringlaga gígop, þverhnýpt niður og svo djúp, að jökull er í botni þeirra.”
Í ferðinni var m.a. komið við í Námuhvammi við tóftir húss námumanna. Skoðað var í stórt jarðfall austan undir Kistufelli. Hægt var að komast niður undir það að sunnanverðu, en um framhald var ekki að ræða. Jarðfallið virtist vera hluti af rás, sem liggur niður frá Kistufellsgígnum og sjá má á nokkrum stöðum þar á millum.
Kíkt var í rásina á nokkrum stöðum, en ávallt var um að ræða tiltölulega stutta kafla, sem hægt var að feta jörðuunnundir. Líklegt má telja að þarna kunni að leynast áhugaverðar rásir, ef vel er grunngert. Annars eru móbergstindarnir norðaustan Kistufells ekki síður áhugaverðir skoðunnar því í þeim má víða sjá mun þróaðra móberg en finna má á móbergshálsunum á hliðstæðum sprungureinum.
Ferðin tók 5 klst og 5 mín (17.7 km). 

Heimild:
-http://www.natturukortid.is/svaedi/reykjanes/brennisteinsfjoll/
-http://www.rammaaaetlun.is/media/lysingar-kosta/Brenni.pdf
-Lesbók Morgunblaðsins, Órni Óla – Á næstu grösum III. UM HRAUN OG HÁLSA, 1. sept. 1946, bls. 352.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur.