Hrútagjárdyngja

Gengið var um meginhrauntröð Hrútagjárdyngju, gígtappi dyngjunnar barinn augum og ályktað um jarðfræði myndunarinnar. Ætlunin var að kíkja inn í Steinbogahelli, líta í Húshelli og í Maístjörnuna, Aðventuna og auk þess renna eftir tveimur langrásum nokkur hundruð metra inn undir yfirborðið. Í lokin var svo dáðst að útsýninu að Fjallinu eina og að Sauðabrekkum áður en haldið var til baka um Stórhöfðastíg milli Sandfells og Hrútargjárdyngjubarms.

Fjallið eina

Hrútagjá er sigdalur sem liggur í norðvesturjaðri eldstöðvarinnar Hrútagjárdyngju í Móhálsadal sunnan við Fjallið eina. Gjáin sjálf líkist tröð með mosagrónum hraunbotni á milli klofinna hraunhryggja. Allt svæðið er í umdæmi Grindavíkur.
Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 4000- 5000 árum (leiðréttur aldur ~ 4500). Hraunin ná yfir 80 km2 svæði.
Ef hraungosunum er skipt upp í sprungugos og dyngjugos kemur fram athyglisverður munur á goshegðuninni. Nánast öll hin stærri dyngjugos urðu strax á síðjökultíma í kjölsogi jökulleysingarinnar og framleiðni þeirra var í hámarki fyrir meira en 11.000 árum. Síðan dvínaði hún og á síðustu 4000 árum hafa einungis orðið þrjú dyngjugos.
OpDyngjutímabilið hófst fyrir um 14000 árum spannaði því 10.000 ár. Engin stór sprungugos eru þekkt frá síðjökultíma. Hins vegar komu upp mikil hraun snemma á nútíma og þá náði framleiðni gossprungnanna hámarki. Á tímabili um miðbik nútímans, frá því fyrir 6000 árum og þar til fyrir 4000 árum, urðu engin stór sprungugos en síðan fór eldvirkni og hraunaframleiðsla vaxandi og náði nýju hámarki á sögulegum tíma. Svipað mynstur sést í tíðni súrra, plíniskra gjóskugosa. Á fyrstu árþúsundunum eftir að ísa leysti er vitað um fjögur slík gos. Um miðbik nútímans varð lengsta goshléið en síðan jókst gosvirknin og hefur hún verið mikil á sögulegum tíma.
Meginhrauntröð Hrútagjárdyngjunnar var fylgt að gígrótunum, fallegum hringlaga tappa í henni miðri. Þá var hrauntröðinni fylgt áfram til norðurs út úr “upprisu” hraunsins í kringum og út frá gígnum. Landið hefur risið þarna allnokkuð vegna þrýstings kvikuhólfsins undir niðri og sést það berlega á “upphluta” hennar á jöðrunum.
Þegar komið var út úr tröðinni blasti höfuðborgarsvæðið við – sólbaðað. Fjallið eina var í forgrunni – formlagað sem fyrr.
Hellasvæðið norðan Hrútagjárdyngju tekur við rétt handan við meginformið. Næst er Steinbogahellir. Hann ber nafn sitt af steinboga, sem enn stendur yfir jarðfallinu, sem opið er í. Niðri er hin myndarlegasta rás, en fremur stutt. Hún endar í hruni.
MaistjarnanÞá var litið á op Neyðarútgöngudyrahellis áður en stefnan var tekin á Maístjörnuna. Þegar komið var að opinu sást vel hversu mikinn varma hellar sem þessi geyma í sér fram eftir vetri. Úti var -9°C, en þegar inn var komið var hitinn milli + 10°C-15°C. Hitinn hafði brætt af sér snjóinn fyrir opinu svo inngangan var auðveld. “Augað” í Maístjörninni er alltaf jafn áhrifamikið. Um er að ræða tiltölulega þrönga rás, sléttbotna. Fyrir innan taka við rásir til beggja handa. Þegar farið er til hægri er um formfagra rás að ræða. Hún skiptist fljótlega í tvennt. Sé farið niður eftir vinstri rásinni skiptist hún í tvennt – og þrengist beggja vegna.
Hægri rásin liggur að þverrás, lægri. Ef henni er fylgt til hægri er komið upp þar sem farið er inn í “augað”. Ef haldið er áfram er komið inn í litskrúðugan hraunsal. Úr honum má vel leita leiða til annarra átta. Það var hins vegar ekki gert að þessu sinni.
Þegar haldið er til vinstri er komið er inn úr “auganu” taka við dropsteinar. Sæta þarf lagni til að komast framhjá þeim án þess að valda skemmdum. Ofan við er komið inn í rás. Hún liggur annars vegar upp á við og skiptist þar í tvennt. ÞverhellirSé haldið til hægri niður rás er komið niður í fyrrnefnda rás. Hún leiðir viðkomandi áfram niður einstaklega fallega formmyndun. Í henni er m.a. litskrúðugur flór. Þegar horft er til baka frá þessum stað er að sjá tvískipta rás. Þetta sjónarhorn getur ruglað margan nýliðann í rýminu. Hvaðan kom ég? Hvert á ég eiginlega að fara til að komast til baka? Augnabliks hræðsla getur gripið um sig – en það er óþarfi. Með því að fara til baka með rásvegginn á vinstri hönd er auðvelt að finna útgönguleiðina.
Formfegurðin þarna í rásum Maístjörnunnar er óvíða meiri. Litadýrðin er engu öðru lík. Í rauninni er um slíka gersemi að ræða að sem fyrr er ástæða til að takmarka aðgengi að hellinum. Því miður er reynslan sú að fólk kann yfirleitt ekki að umgangast gersemar sem þessar eins og ætlast er til.
Næst var leitað að helli, sem FERLIR fann fyrir nokkrum árum og var gefið númer í samræmi við hellaskráningarkerfi HRFÍ. Um er að ræða myndarlegt op. Þegar komið er inn tekur við nokkuð víð rás, en stutt. Þarna er galdurinn að fara til hægri um leið og inn er komið. Þar liggur um 400 metra löng rás til norðurs. Henni var fylgt nokkurn spöl. Að þessu sinni settu ljósgráir dropsteinar umluktir svarleitu klakaumleitan skemmtilegan svip á rásina. Gólfið er ljósbrúnt svo gráir veggirnir njóta sín vel í slíku umhverfi. Og ekki skemmdu hin fallegu grýlukerti fyrir stemmingunni.

Húshellir

Í Húshelli.

Kíkt var á opið á Híðinu, einum af fallegustu hellum svæðisins. Þrátt fyrir lengdina er hann fremur lágur og þarf að hafa góðar hnéhlífar við skoðun hans.
Húshellir var næstur. Einnig þar hafði undirliggjandi hitinn brætt snjóinn frá opinu svo inngangan var greið. Hlaðið hús úr grjóti er innan við innganginn. Rásir liggja til beggja hliða. Loftin eru heil og ekkert hrun er á gólfi. Bein eru í vinstri rásinni, bæði kindabein og stórgipabein, líklega af hreindýri.
Við skoðun á mannvirkinu var að sjá sem það hafi verið hlaðið af gefnu tilefni. Stórir steinar, a.m.k. þriggja mann tak, eru neðst. Það grjót hefur væntanlega verið sótt í munnann. Síðan hefur verið hlaðið ofan á með hraunhellum fengnum utan við hellinn.
Ljóst er að húsið hefur ekki verið hlaðið af refaskyttum eða hreindýraveiðimönnum. Líklegasta skýringin er sú að útilegumenn, eða einhverjir aðrir, sem hafa þurft að dvelja þarna um lengri tíma, hafi komið að verkinu. A.m.k. er um að ræða hina vandlegustu hleðslu er standa hefur átt til lengri tíma.
Tjaldað hefur verið yfir veggina og mosi verið settur í gólfið. Fróðlegt væri að aldursgreina beinin og jafnvel athuga nánar gólflagið í húsinu. Þarna er um að ræða eina af óleystum ráðgátum Reykjanesskagans – sem fáir sérfræðingar og fjárveitingahaldsmenn virðast hafa haft áhuga á fram að þessu.
Allt þetta svæði er í umdæmi Grindavíkur – jafnvel þótt sumir vildu staðsetja það annars staðar. Húshellir er algerlega óhreyfður. Loft eru heil og gólf slétt. Stærð hans er umtalsverð í rúmmetrum.
Að þessu búnu var haldið yfir á Stórhöfðastíg og honum fylgt upp með Sandfelli og milli Hrútfells og Hrútagjárdyngju. Stígurinn hefur verið merktur, en stikurnar á honum sunnanverðum hafa eitthvað verið aflagaðar. Þær eiga að vera svolítið vestar og koma inn á Undirhlíðaveginn skammt vestan núverandi staðsetningar. Þar er gatan augljós. Vonandi verður þetta lagað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-www.isor.is

Hrútagjárdyngja