Selvogsheiði

Gengið var um Selvogsheiði frá Svarthól, um selin í heiðinni, upp í Hellholt, í fallega hlaðið skjól með miklum mannvistarleifum í, á Vörðufell, í Ólafarsel og síðan niður á Strandarhæð, þar sem litið var í Strandarhelli, Bjargarhelli og Gap áður staðnæmst var við Árnavörðu.

Hásteinar

Hásteinar.

Fylgdarmaður í ferðinni var Guðmundur kokkur Óskarsson, uppalinn í Þorkelsgerði í Selvogi og því gamalreyndur á svæðinu. Segja má að hann hafi etið hundasúru af svo til hverri þúfu í heiðinni er hann ráfaði þar um í leit að fjallagrösum á sínum berskuárum.
Lagt var af stað frá Svarthól, ofan við eyðilegan sumarbústað undir Hásteinum. Á klöpp í Stóra-Hásteini er klappað LM, mörk Ness og Bjarnastaða.

Hásteinar

Hásteinar – letur.

Undir austanverðum Svarthól sést móta fyrir tóftum á tveimur stöðum. Merkjagirðingin liggur þarna áleiðis upp í heiðina. Henni var fylgt eftir áleiðis að vörðu í hæðinni fyrir ofan. Undir henni er Bjarnastaðaból, talsverðar tóftir og stekkur mót vestri. Selið er í raun inni á núverandi Neslandi, en óvíst er hvort þessi mörk hafi verið í gildi þarna fyrrum. Húsin fimm í selinu er vel merkjanleg sem og önnur mannvirki. Það stendur hátt í heiðinni og má sjá frá því niður að Þorkelsgerðisseli í suðvestri, lægra í heiðinni.

Þorkelsgerðisból

Þorkelsgerðisból.

FERLIR hafði áður verið bent á að Bjarnastaðasel (-ból) væri við Hásteina, þ.e. tóftirnar þar, en hér er greinilega um hið rétta sel að ræða. Nessel er suðaustan við Hnúkana.
Þorkelsgerðissel hefur einnig að geyma nokkrar tóftir og stekk utan í hraunhól skammt norðar. Eimuból er norðan við Vörðufell. U.þ.b. 10-15 mínútna gangur er á milli seljanna í heiðinni. Bæði er seltóft ofan við gróið jarðfall og niður í því.

Eimuból

Stekkur í Eimubóli.

Hellholtshellir

Hellholtshellir.

Í Eimuhelli í jarðfallinu er hlaðinn stekkur. Umhverfis jarðaflið er hlaðið gerði. Kví er og ofan við það. Í örnefnaskráningu fyrir Eimu segir m.a.: “Fyrir norðan [Vörðu]fellið er Eimuból alveg við mörkin. Þar eru hellar með húsveggjum.” Vindássel er skammt vestar, nokkur tóft og stekkur.
Haldið var upp eftir heiðinni, á Hellholt. Í því er Hellholtshellir, stór inngöngu en frekar stuttur. Botninn er flóraður að hluta.
Nokkir smáhellar er undir Hellholti, flestir með mannvistarleifum í. Líkast til hafa þeir verið notaðir sem fjárskjól í gegnum tíðina. Ofan við Hellholtið er Girðingarréttin (Selvogsréttin nýrri). Gamla réttin er á Vörðufelli, stór og dilkrík með löngum leiðigarði til norðurs. Á leiðinni niður að fellinu var komi við í Skjólinu, merkilegu fyrirbæri.

Skjólið

Skjólið – op, hleðslu fyrir framan.

Það er hellisskúti að sjá, en þegar að er komið eru miklar hleðslur, grónar, fyrir munnanum. Gangur liggur niður og þegar þangað er komið tekur við slétt hellisgólf, salur. Varla er arða á gólfi, utan eitt bein inn undir skilum lofts og veggjar. Þarna sést hin mikla hleðsla vel. Hægt er að fara inn fyrir hana hægra megin og inn í afhelli, sem þar er. Ekki er vitað hvaða tilgangi þetta mannvirki hefur átt að þjóna í heiðinni, nema ef vera skyldi forðabúr eða geymsla. Strandarsel er þarna skammt vestar oh fyrrnefnd sel sunnar. Fjárskjól er skammt austar. Ofan við opið er hlaðinn stekkur. Þarna gæti hugsanlega hafa átt að vera selstaða frá einhverjum bænum ef tekið er mið af mannvirkjunum næst Skjólinu.
Á Vörðufelli er, auk réttarinnar, Smalavörður og Vörðufellsvarðan. Smalavörður voru hlaðnar af smölum. Segir sagan að það hafi verið vís leið til að finna eitthvað týnt að hlaða vörðu þarna því þá kom hluturinn óðar í leitirnar. Undir Vörðufellsvörðunni er klappað krossmark á jarðfasta klöpp. Efsti hluti hans hefur brotnað af.

Strandarhaed-34

Hleðslur í Bjargarhelli.

Ólafarsel er skammt sunnan við Vörðufelli, neðan nýrra hrauns, Vörðufellshrauns, sem liggur sunnan fellsins. Það er ein tóft og stekkur skammt austar, undir hraunkletti. Segir sagan að þar hafi áður komið volgt vatn upp úr hraunkantinum. Leiðin upp heiðina, yfir að Hlíðarenda, Litlalandi o.fl. bæjum undir bergbrúnunum, liggur skammt austan við selið.

Strandarhellir

Strandahellir.

Strandarhellir er fornt fjárskjól í jarðfalli. Samkvæmt gömlum heimildum er hann sagður hafa rúmað 200 fjár. Hlaðið er umhverfis ofanvert jarðfallið líkt og í Eimubóli. Skammt norðvestan við það er hlaðið gerði umhverfis hraunhól.
Bjargarhellir er skammt sunnar, fallegur fjárhellir, með sína leyndardóma. Sagt er að í hellinn hafi Selvogsbúar ætlað að flýja ef Tyrkirnir kæmu aftur, en af því varð ekki. Sögnin er sú að við opið hafi átt að vera hraunhella, sem hægt var að láta yfir og loka. Það gengur ekki upp hvað varðar Bjargarhelli.
Skammt suðvestar er hins vegar op í grónum hraunhól. Þegar komið er niður er þar nokkuð rúmgott skjól. Hraunhella gæti auðveldlega lokað opinu. Skammt suðvestar eru Stóri-Skolli og Litli-Skolli, hraunskjól undir Hellholti.
Gapstekkur er skammt vestar. Inni í honum er Gapi eða Gaphellir, einnig fjárskjól. Nafnið er tilkomið vegna þess að þegar komið er að hellinum úr suðri gapir opið við viðkomandi. Gapi var einnig áningarstaður fyrir ferðamenn á leið um Fornugötu. Nokkur önnur mannvirki eru í hæðinni, en þau voru ekki skoðuð að þessu sinni.

Vörðufellsrétt

Vörðufellsrétt á Vörðufelli.

Staðnæmst var við Árnavörðu á Dalhólum er Kristófer Bjarnason og fleiri endurhlóðu fyrir ekki svo löngu síðan. Hún var lengi eitt af kennileitum hæðarinnar. Skammt norðan við hana liggur gamla þjóðleiðin, Fornugata, sem enn má sjá móta fyrir. sunnar er Dalurinn. Vestar er varða (vörður), nefnd Dalhólabyrgi. Skammt vestar er stór ferhyrnd varða, nefnd “Skálinn”. Umleikis hana eru hleðslur. Þórður Sveinsson telur að þarna hafi fyrrum verið skáli, afdrep, t.d. fyrir smala í heiðinni. Líklegra má þó telja að þarna hafi fyrrum verið gatnamót, annars vegar Selvogsgötu og hins vegar Fornugatna og Útvogsgötu (niður í Selvog).
Af Strandarhæð er ágætt ústýni upp að Svörtubjörgum og inn Strandardal þar sem Selvogsgatan liðast um hann áleiðis að Hvalskarði. Á Svörtubjörgum er Eiríksvarðan. Þótt hún sé ekki nema tæplega mannæða há sést hún vel þar sem hún trjónir efst á fjallinu.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.

Selvogsheiði

Selvogsheiði – uppdráttur.