Kolviðarhóll

Þorsteinn Bjarnason frá Háholti skrifar í Örnefnalýsingum um “Sögu Kolviðarhóls“:

“Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niður Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit.

Draugatjörn

Sæluhúsið við Draugatjörn.

Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni. Í ekkert hús var að venda nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan; munu nú flestar þessar draugasögur gleymdar. Heyrði ég í ungdæmi mínu haft eftir grobbnum karli, sem náttaði í kofa þessum, að hann sagðist hafa verið í áflogum við draug alla nóttina. „Hafði ég draugsa stundum undir, en hann slapp alltaf úr höndum mér, af því hvergi var eiginlega hægt að festa höndur á honum.“ Slíkar og þvílíkar sögur hafa skotið mönnum skelk í bringu, því draugatrú var á þessum tímum bráðlifandi. Forðuðust menn því kofann, og hefir óefað margur af því orðið úti. Í Þjóðólfi er þess getið, að svo megi telja, að á þessari leið hafi orðið úti maður annað hvort ár. Fóru menn nú að sjá, að þetta ástand var óþolandi.
Kolviðarhóll
Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól. Hvatamenn þess voru þeir séra Páll Matthíasson, prestur í Arnarbæli, Ölfusi, og Jón Jónsson, bóndi á Elliðavatni. Var að þessu mikil bót, fækkaði nú slysförum, því nú var hægara að finna kofann. Draugatrúin hvarf að mestu leyti; sagt var, að mörgum hafi verið illa við, að spýtur úr Svínahraunskofanum voru látnar í nýja kofann.
Nú liggur þetta sæluhúsmál niðri í 28 ár, en árið 1873 er það aftur vakið upp af þessum þrem mönnum; Guðmundi Thorgrímssen, verzlunarstjóra á Eyrarbakka, séra Jens Pálssyni, presti að Arnarbæli í Ölfusi, og Randrup lyfsala og konsúl í Reykjavík. Í örnefnaskrá frá því um 1700 í Þjóðskjalasafninu er Hellisskarð nefnt Nautaskarð, Bolavellir nefndir Hvannavellir, en Bolavellir strekki sig út frá Norðurvöllum. Þannig til orða tekið. Þ.B. þeirra er, að á Kolviðarhóli sé byggt svo veglegt hús, að í því geti búið gestgjafi, sem geti veitt móttöku vegfarendum og látið þeim í té rúm, mat og kaffi, ef með þarf. Ennfremur hey og hús handa hestum þeirra.
Kolviðarhóll
Hófu þeir nú fjársöfnun, en svo virðist sem undirtektir væru daufar, því ekki höfðu safnazt nema 10 rd. og 18 sk., þegar komið er langt fram á árið 1874. Þó ekki blási byrlega, gefast þeir ekki upp. Árið 1876 rita þeir enn um málið og skora nú fastlega á menn að gangast fyrir samskotum. Við árslok 1876 eru komnar í samskotasjóðinn 1378 krónur, 35 aurar.
Nú snúa þeir máli sínu til landshöfðingja og sækja um 1500 króna tillag úr landssjóði. Landshöfðingi svarar beiðni þeirra svo, að hann lofar 1000 króna framlagi úr landssjóði, þó með því skilyrði, að húsið væri byggt á næsta vori (þ.e. 1877). Því þora þeir ekki að lofa, því þeir álíta, að samskotaféð og þetta tillag landssjóðs verði of lítið, þar eð þeir höfðu einsett sér, að útveggir hússins yrðu byggðir úr steini. Skrifa þeir enn um þetta mál í Þjóðólfi og fara þungum orðum um undirtektir landshöfðingja í þessu máli.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – loftmynd.

Árið 1877 eru samskotin orðin 2600 krónur. Þá eru þeir Björn Guðmundsson múrari og Helgi Helgason trésmiður fengnir til þess að gjöra áætlun um, hvað húsið muni kosta, og um leið að ákveða stærð hússins í samráði við séra Jens. Áætlunin varð 3600 krónur. Nú koma þeir landshöfðingja inn í málið í staðinn fyrir Randrup. Eflaust hefir landshöfðingi lagt fram fé úr landssjóði, sem á vantaði, því nú er ákveðið að byggja húsið, og er það fullgjört árið 1878. Húsinu er lýst þannig: Tvö herbergi niðri og annað með ofni, ennfremur eldhús með suðuvél. Uppi tvö herbergi, annað til geymslu, en hitt fyrir ferðamenn. Er nú loksins húsið komið upp eftir 5 ára látlausa baráttu. 27. ágúst 1878 er húsið auglýst til leigulausrar ábúðar. Þá flutti sig þangað frá Hreiðurborg í Flóa Ebeneser gullsmiður, sonur Guðmundar bókbindara og bónda á Minna-Hofi á Rangárvöllum, Péturssonar bónda s.st. Einarssonar bónda í Litla-Klofa á Landi, síðar á Minna-Hofi, Bergsteinssonar.

Kolviðarhóll
Á Kolviðarhóli átti Ebeneser við erfiðleika að stríða, og er það skiljanlegt, þar sem ekki var á öðru að lifa en greiðasölu til ferðamanna, sem ekki höfðu gjaldeyri nema af skornum skammti. Sezelja, kona Ebenesers, sagði sér hefði hvergi liðið eins illa um ævina. Þar hefði hún liðið bæði hungur og kulda. Vorið 1879 flytur Ebeneser frá Kolviðarhóli suður á Eyrarbakka.
KolviðarhóllÁrið 1879 sést enginn skrifaður á Kolviðarhóli, en 1880 flytur á Hólinn Ólafur bókbindari Árnason frá Eyrarbakka. Á Kolviðarhóli er hann til vorsins 1883. Ferðamenn gera það að blaðamáli, hve ófullkominn sé viðurgjörningur hjá Ólafi, þar fáist ekkert nema kuldi. Hóf nú Jón Jónsson ritari fjársöfnun í Reykjavík til hjálpar gestgjafanum á Kolviðarhóli. Safnaði hann 64 krónum og keypti nú mat, olíu og kol fyrir peningana, en Ölfusmenn fluttu vöruna upp á Kolviðarhól. Um vorið 1883 flytur Ólafur burtu, en þá tekur Kolviðarhólinn Sigurbjörn trésmiður Guðleifsson. Sama vorið sezt líka að á Kolviðarhóli Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum.
Jón náði fljótt hylli ferðamanna, svo Sigurbirni var ekki viðvært; flúði hann burtu eftir 3ja mánaða dvöl á Kolviðarhóli við lítinn orðstír. Jón var af traustu bergi brotinn, og yfirvann hann erfiðleikana með dugnaði. Hann var fæddur á Minna-Mosfelli árið 1838; var Jón bróðir Arnórs föður prófessors Einars hæstaréttardómara; voru þeir bræður synir Jóns bónda á Minna-Mosfelli, fæddur 1810, Jónssonar bónda á Reykjanesi, Grímsnesi, fæddur 1771, Sigurðssonar bónda í Miðdalskoti, Laugardal, fæddur 1722, Sigurðssonar Skíðastöðum, Tungusveit, og Hofi í Skagafjarðardölum, fæddur 1670, Jónssonar Flatatungu, fæddur 1633, Sigurðssonar Flatatungu Jónssonar. Kona Jóns á Minna-Mosfelli, móðir Jóns á Kolviðarhóli, fædd 1804, var dóttir Jóns bónda á Neðra-Apavatni, dáinn 1839, Jónssonar og Ingveldar Jónsdóttur.
KolviðarhóllÞegar Sigurbjörn fór frá Kolviðarhóli, flutti Jón í nýja húsið, en lét þó bæinn standa fyrst og hýsti ferðamenn í honum. Jón fór nú að græða út tún og girti með grjótgarði. Mótak fann hann í gilskorningi við austurenda Húsmúlans. Slægjur keypti hann austur í Ölfusi; fluttu ferðamenn oft hey fyrir hann á hestum sínum út á Hól, naut hann þar vinsældar sinnar.
Eftir að þau hjón Jón og Kristín – var hún dóttir Daníels bónda á Hæðarenda í Grímsnesi – komu að Kolviðarhóli, heyrðust aldrei neinar kvartanir koma frá vegfarendum yfir því, að ekki fengist það, sem um var beðið. Þó kröfurnar væru ekki gjörðar háar af þeim vegfarendum, sem þá komu oftast að Kolviðarhóli, hefir þurft mikla fyrirhyggju til að sjá um, að undan engu væri að kvarta. Næturgreiði var mjög sanngjarn. Rúm kostuðu frá 25 aurum upp í 50 aura, kaffibolli brauðlaus 10 aura, með brauði 25 aura. Hey var dýrast, og var það að vonum, því dýr var flutningur á því austan úr Ölfusi. Jón og Kristín mörkuðu fyrstu sporin til þess, sem Kolviðarhóll varð síðar.
Kolviðarhóll
Árið 1895 fór Guðni, tengdasonur Jóns, að búa á Kolviðarhóli, hann átti Margréti Jónsdóttur. Guðni var fæddur á Arnarstöðum í Flóa 1863, sonur Þorbergs bónda þar, fæddur 1829, Helgasonar bónda á Lambastöðum hjá Hraungerði, fæddur 1795, Jónssonar bónda í Ölvisholti, Flóa, fæddur 1766, Einarssonar bónda í Götu, Selvogi, Jónssonar. Guðni og Margrét kona hans voru mjög vinsæl og hinir mætustu gestgjafar.

Guðni var dugnaðarmaður. Sótti hann um nýbýlarétt á Kolviðarhólnum til Ölfushrepps, sem honum var veittur. Innti hann af hendi allar þær skyldur, sem nýbýlaréttur áskilur. Stækkaði túnið og afgirti stórt land undir suðurhlíð Húsmúlans. Bætti húsakynni mikið. Eftir að Guðni tók við gistihúsinu, sótti hann um styrk af opinberu fé, til þess að afla heyja handa hestum ferðamanna. Mælti sýslunefnd Árnessýslu með því. Árið 1900 fékk Guðni 150 krónur úr jafnaðarsjóði. Síðar fékk hann 200 krónur úr amtsjóði, sem viðurkenningu fyrir jarðabætur. Árið 1906 selur hann jörðina Kolviðarhól Sigurði Daníelssyni, og flytur Sigurður þangað.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – bæjarhóllinn 2008.

Brátt áunnu þau hjón sér virðingu og traust ferðamanna. Voru nú húsakynni orðin allgóð. 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Ég læt það öðrum eftir, að skrifa um þær miklu endurbætur, sem Sigurður gjörði á Kolviðarhóli, í jarðrækt og húsabyggingum.
Svo enda ég þessar línur með því að segja, að Suðurlandsundirlendið ásamt Reykjavík eru í mikilli þakkarskuld við þá menn, sem börðust fyrir því, að svo veglegt hús var byggt á Kolviðarhóli, að menn gátu búið í því, og þá ekki síður í þakkarskuld við þá þrjá búendur á Kolviðarhóli, Jón, Guðna og Sigurð, ásamt konum þeirra, sem gjörðu garðinn frægan. Nú taka aðrir við. „Eftir er yðvar hluti“, sagði Skarphéðinn.”

Heimild:
-Örnefnastofnun, Árnessýsla Saga Kolviðarhóls, Ölfushreppur – Saga Kolviðarhóls eftir Þorstein Bjarnason frá Háholti.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1914.