Draugshellir
Farið var að mörkum Breiðabólstaðar og Litlalands, en þeir eru tveir af Hlíðarbæjunum svonefndu í Ölfusi. Ætlunin var m.a. að huga að Draugshelli, Bræðraborg, Ingjaldsborg, Litlalandsborg, Huldukletti og Breiðabólstaðarborg.
Í örnefnaskrá fyrir Litlaland í Ölfusi segir m.a. um Draugshelli:

Litlaland

Litlalandsborg.

“Rétt ofan við Vörðuás, við markagirðinguna milli Breiðabólsstaðar og Litlalands, er lítill hóll og í honum lítill hellir, sem heitir Draugshellir. Um hann er skráð saga í Þjóðsögu Jóns Árnasonar, útg. 1955, um pilt sem lézt þar fyrir 200 árum. Hann var jarðsettur að Hjallakirkju, en þoldi ekki í jörðu, gekk því aftur, settist að í hellinum og gerði ferðamönnum glettingar.”
Vel gekk að finna hólinn ofan við þjóðveginn. Vestan við hann er ílöng dæld í túnið. Í enda hennar má sjá hleðslur. Sagt er að hellisopinu hafi verið lokað til að koma í veg fyrir að fé færi sér þar að voða. Síðan hafi gróið yfir það. Beðið er eftir því að fá fjölvitran mann úr Þorlákshöfn á vettvang, en hann gæti mögulega munað hvar opið er að finna með nokkurri nákvæmni.

Ingjaldsborg

Ingjaldsborg.

Gengið var upp Ásinn. Í honum er stór gróin hvilft. Vestast í henni mótar fyrir tóft, líklega stekk. Þarna gætu því verið fleiri mannvirki ef vel er leitað. Annars er Ásinn nokkuð blásinn, en sjá má einstaka gróinn bala eða hlíðardrag.
“Ofan Ássins og vestur frá Ólafsvörðuðum eru á hlíðarbrúninni vörður tvær, sem ber við loft frá Breiðabólsstað. Þær heita Bræðraborg. Þær eru nú hálfhrundar.” Á grónu hæðardragi neðan við vörðurnar er hlaðinn rétt eða borg, Bræðraborg. Vestar og ofar á Ásnum er Ingjaldsborg.
“Um 3 – 4 hundruð metrum vestar [en Bræðraborg] á brúninni er mikil rústaþyrping, og vel gróið kringum þær. Þar eru rústir af nokkrum hringhlöðnum fjárborgum og einu 100-sauðahúsi. Steindór Egilsson byggði það 1912. Þetta heitir Ingjaldsborg.”

Breiðabólstaður

Bræðraborg.

Enn má sjá a.m.k. tvær heillegar borgir, en fjárhúsið er vestast, ílangt og stórt. Hleðslurnar við innganginn mót suðri hafa haldið sér nokkuð vel miðað við aldur.
Gengið var vestur og niður með Ásnum, að Hlíðarendafjalli. Undir hömrum ofan við Litlaland eru miklar tóftir. Svo er að sjá að í miðjum hól, sem þar er, geti verið fjárborg (hér nefnd Litlalandsborg). Sunnan hennar, mót innganginum, er hústóft. Borgin hefur verið hlaðinn, sennilega upp úr gömu bæjarstæði.
Skammt vestar, undir svonefndri Sölvhellu, er allstór klettur sem heitir Hulduklettur. Þar er sagt að huldufólk hafi búið – og býr eflaust enn. Kletturinn er dæmigerður huldufólkssteinn undir háum fallegum hamravegg.

Breiðabólstaborg

Breiðabólstaðaborg.

Austan við Hulduklett á Bæjarbrunnurinn að hafa verið.
“Á Litlalandslæk er brú fram undan bæjarstæðinu gamla og grjótborin braut yfir mýrina. Brúin heitir Steinbogi.”
Þá var haldið að Breiðabólstaðaborg skammt austan Hlíðardals, í Hraunsheiði. “Borgin er hár stórgrýtishóll, með rúst. Hann heitir Breiðabólsstaðarborg, oft nefndur Breiðaborg.” Rúst þessi hefur einhvern tímann verið hringlaga fjárborg, en er nú allgróin þótt enn megi vel sjá fyrir hleðslum.
Veður var frábært – sól og lygna. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra/fornleifaskra.htm
Örnefnaskrá – Orri Vésteinsson og Hildur Gestsdóttir

Breiðabólstaðaborg

Breiðabólstaðaborg.