Herdísarvík

Eftirfarandi fróðleikur um Herdísarvík í Selvogi birtist í Morgunblaðinu í janúar árið 2000.
Herdisarvik-22“Þéttbýlisbúar á Suð-Vesturhorni landsins þurfa ekki að leita ýkja langt til að komast í snertingu við stórbrotið landslag. Að sumarlagi leggja m.a. ýmsir leið sína suður í Reykjanesfólkvang, þar sem hið mikla land, er liggur undir Krýsuvík, laðar til gönguferða og skoðunar. Getur þá jafnframt legið beint við að halda síðan sem leið liggur austur með ströndinni, áleiðis í Selvog. Á þeirri leið er hið forna góðbýli Herdísarvík, sem nú hefur reyndar verið í eyði um áratuga skeið. Herdísarvík var vestasti bær í Selvogi, þ.e. Selvogshreppi hinum forna (sem nú hefur verið sameinaður stærra sveitarfélagi) og þar með vestasti bær í Árnessýslu við sjó fram. Langt er þó frá Herdísarvík að hinni gömlu meginbyggð í Selvogi, sem nú er að vísu farin í eyði að mestu leyti. Jörðin, sem er alllandmikil, er í eigu Háskóla Íslands. Þar er nú friðland samkvæmt ákvæðum náttúruverndarlaga og er gangandi mönnum heimil för um allt Herdísarvíkurland.
Herdisarvik-23Er skemmst frá því að segja, að þetta landsvæði er sérlega vel fallið til útiveru og lengri sem skemmri gönguferða á öllum árstíðum, enda snjólétt, þótt sums staðar geti reyndar verið seinfarið um hraunin, sem setja mjög svip sinn á landið. Umhverfið er afar svipmikið og tignarlegt: Hömrum girt fjallið í norðri gnæfir yfir öllu láglendi jarðarinnar og gefur oft skjól, þegar þannig viðrar, hrikaleg strandlengjan á hinn veg en í millum skiptast á hraun og skjólsælir bollar, víða viði vaxnir, og fagrar gróðurræmur, m.a. milli hrauns og fjallshlíðar. Í suðri er útsærinn, sem oft bylur óvægilega á ströndinni, þegar blæs af hafi, en óvíða gefur að líta stórbrotnara brim en á þessum slóðum. Frá þessari strandlengju, réttleiðis í suðurátt, er ekkert land að finna fyrr en sjálft Suðurheimskautslandið!

Herdisarvik-24

Svipur landsins á þessum slóðum tekur mjög breytingum eftir veðri og birtu. Þegar sólar nýtur er hlýlegt í hrauninu, litir fjallsins eru þá mildir og heiðbirta yfir hafi og strönd, en óvíða verður landið dimmleitara á votum og sólarlausum dögum. Þó er það vissulega fagurt alla daga því að veðrabrigðin draga aðeins fram hina ólíku liti og mögn þess. Gróðurfar er um sumt sérstætt í Herdísarvík. Árið 1978 fannst í rótum Herdísarvíkurfjalls stör, sem áður var ekki vitað að væri á Íslandi. Hlaut hún heitið “vorstör” á íslensku. Fannst hún á skjólgóðum stað innan um mjaðjurt, garðabrúðu, blákollu, jarðarberjalyng og stúfu.

Herisarvik-25

Vesturmörk Herdísarvíkur, sem jafnframt eru frá fornu fari sýslumörk Árnessýslu á þessum slóðum, liggja um svokallaðan Sýslustein, mikið og auðkennilegt bjarg skammt frá þjóðveginum, sem fer um land jarðarinnar. Ná mörkin allt frá Seljabótarnefi við sjó fram. Í Seljabótinni var fyrrum selstaða frá Herdísarvík (Herdísarvíkursel) og má enn sjá ummerki þeirra mannvirkja, er selinu heyrðu til. Frá Sýslusteini liggja mörkin til norðurs, yfir Lyngskjöld, sem er bunga í brún fjallsins, og allt norður að Kóngsfelli “sem er gömul, en ekki há, grámosavaxin eldborg, umhverfis aflangan, djúpan gíg, til hægri handar við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, góðan spöl fyrir austan Kerlingarskarð, nálægt veginum” eins og segir í fornri landamerkjalýsingu, en þar er að sjálfsögðu vísað til hinnar gömlu þjóðleiðar Selvogsmanna yfir Grindaskörð til Hafnarfjarðar, þar sem þeir áttu löngum verslun sína. Að austanverðu eru mörk jarðarinnar frá sjó og norður í Mosaskarð austanvert en þaðan í áðurnefnt Kóngsfell.
Uppi á fjallinu er því land Herdisarvik-26Herdísarvíkur að lögun eins og mjög langur þríhyrningur. Fjallsrunan milli Lyngskjaldar og Mosaskarðs (sem er gamall og vel mosagróinn hraunfoss, er fallið hefur fram af brúninni) heitir einu nafni Herdísarvíkurfjall. Er það skriðurunnið neðan til en hömrum girt hið efra.
Um Herdísarvíkurland lá frá fornu fari leið milli Selvogs og Krýsuvíkur, en um hana fóru Sunnlendingar m.a. úr veri og í, en þeir sóttu um alda skeið sjó frá verstöðvum á sunnanverðum Reykjanesskaga. Enn má finna í hraunum Herdísarvíkur gamlar og vel troðnar götur frá fyrri tíð og er forvitnilegt að fylgja þeim. Gamla leiðin í Selvog lá ætíð yfir útfall Hlíðarvatns en ófært var norðan megin við vatnið. Það var ekki fyrr en um eða eftir heimstyrjaldarárin síðari að bílvegur var lagður vestan megin Kleifarvatns og síðan til Herdísarvíkur og áfram, norðan við Hlíðarvatn og austur yfir Selvogsheiði.

Herdisarvik-27

Fram að þeim tíma var Herdísarvík með afskekktustu býlum á Suð-Vesturlandi – og þótt víðar væri leitað – og aðdrættir allir örðugir. Verslun áttu Herdísarvíkurbændur fyrrum til Hafnarfjarðar eins og aðir Selvogsbúar og héldu þá yfir fjalllendið norður um Grindaskörð – ef þeir fóru þá ekki með klyfjahesta sína vestur um til Krýsuvíkur og þaðan yfir Sveifluháls, eftir Ketilstíg, áleiðis til Hafnarfjarðar. Úr Herdísarvík var að jafnaði farin ein kaupstaðarferð á ári hverju, með hesta, en menn sendir gangandi í kaupstað þess á milli vegna brýnna erinda.
Í Herdísarvík var löngum búið góðu búi, á forna vísu, meðan leitast var við að nýta til þrautar öll gögn og gæði jarðarinnar.

 

Herdisarvik-28

Á þessum slóðum, sunnan undir fjallinu, er með afbrigðum snjólétt, enda var Herdísarvík talin með bestu útigangsjörðum fyrir sauðfé. Þar mátti því hafa allstórt fjárbú, þótt samfelldir bithagar séu ekki miklir, en féð þurfti að vakta vel m.a. sökum þess að ella var því hætt við að týnast í hraungjótum, sem krökkt er af í landareigninni. Tún var að vísu lítið, með þunnum jarðvegi, og fóðraði vart meir en tvær kýr, en það kom lítt að sök vegna þess að sauðfé bóndans gekk úti mest allt árið, en fjörubeit er auk þess góð í Herdísarvík. Reki var allnokkur og gjarna vel nýttur til húsasmíða og annarra þarfa. Silungsveiði var lengi í Herdísarvíkurtjörn en hefur nú lagst af. Var sú veiði talin umtalsverð búbót á sínum tíma.
Útræði var mikið frá Herdísarvík, enda fengsæl fiskimið steinsnar frá landi að kalla má, og sóttu herdisarvik-29þangað margir tugir manna víða að, einkum frá Suðurlandi en einnig úr nágrenninu. Lágu útróðrarmennirnir við í verbúðum, meðan á vertíð stóð, eins og venja var. Eru enn sjáanlegar miklar minjar um sjávarútveg og ýmis önnur umsvif í Herdísarvík fyrr á tíð. Innsti hluti víkurinnar sjálfrar, er liggur að kambi þeim, sem er milli tjarnarinnar og sjávar, nefnist Bót, en austast í henni var Vörin, þar sem útróðraskipin voru fyrrum dregin á land. Milli vertíða voru þau geymd þar nærri, í svokallaðri Skiparétt, þar sem hlaðnir grjótveggir héldu að þeim. Fyrir ofan Vörina stóðu margar sjóbúðir og má enn sjá glöggar tóttir sumra þeirra. Vitað er um nöfn margra búðanna, svo sem Landeyingabúð, Fljótshlíðingabúð, Símonarbúð, Bjarnabúð, Gíslabúð og Halldórsbúð, en það efni þarfnast þó nánari athugunar. Nær Herdísarvíkurbænum voru síðan m.a. Ólabúð og Hryggjabúð og að síðustu Krýsuvíkurbúð heim undir bænum, en frá höfuðbólinu Krýsuvík voru löngum gerð út tvö skip í Herdísarvík – en þar að auki var verstöðin að Selatöngum í landi Krýsuvíkur (rétt við vesturmörk þeirrar jarðar).

herdisarvik-29

Afla þeim, sem á land barst í Vörinni, var skipt á Skiptivellinum rétt ofan hennar. Enn má sjá mikla garða, er hlaðnir hafa verið í hrauninu austan og norð-austan Gerðistúnsins, þar sem fiskur var fyrrum þurrkaður eftir að hafa áður legið í “kös” sem kallað var. Má ætla að samanlagt séu garðarnir nokkrir kílómetrar að lengd. Í svonefndum Básum austan Vararinnar (og niður undan Gerðistúni) var einnig gömul lendingarvör, sem kallaðist Skökk. Róið var með fornu lagi frá Herdísarvík fram á þriðja tug þeirrar aldar, sem nýliðin er.
Ljóst er, að landið hið næsta Herdísarvíkurbæ hefur löngum legið undir ágangi sjávar, og fyrrum stóð mikill sjóvarnargarður, handhlaðinn úr stórgrýti, á kambinum milli Tjarnar og sjávar, en hann hrundi eftir að byggð var þar af lögð. Hefur sjór síðan valdið stórtjóni á túninu norðan Tjarnarinnar og virðist hafa komið fyrir lítið þótt vinnuvél ýtti upp nýjum garði fyrir fáum misserum; sá garður er nú einnig að hverfa. Að sumu leyti má rekja spjöllin til þess að landið sígur á þessum slóðum eins og víðar á Suð-Vesturlandi.

Herdisarvik-30

Gamli bærinn í Herdísarvík stóð við vesturenda Herdísarvíkurtjarnar. Var hann löngum vel húsaður, m.a. baðstofa stór og góð, alþiljuð, og vandað stofuhús – og valinn rekaviður úr fjörunni að sjálfsögðu notaður í allt tréverk. Hið næsta bænum voru síðan ýmis útihús, sum þeirra einnig vönduð timburhús. Bærinn stóð lágt og varð því stundum fyrir ágangi sjávar í aftakaveðrum af suðri með hásævi, þegar Tjörnina fyllti og sjór gekk einnig upp frá henni. Bærinn var rifinn að hluta til árið 1934, eftir að nýtt íbúðarhús hafði verið reist, en þó má enn greina ummerki hans, undir klöppinni Skyggni. Vatnshólmi nefnist lítill hólmi í Tjörninni fram undan gamla bæjarstæðinu. Þar var tekið allt vatn til daglegrar neyslu, en það bullar þar upp um tjarnarbotninn fast við hólmann.
Austan við Vörina, sem fyrr var nefnd, er svonefnt Gerðistún, með vönduðum steingarði, sem enn stendur að hluta til – en athyglisverðar Herdisarvik-34garðhleðslur má reyndar sjá víða í Herdísarvíkurlandi. Talið er, að þar í túninu hafi fyrrum verið um nokkurt skeið hjábýli frá Herdísarvík, svonefnt Herdísarvíkurgerði. Í Gerðistúni má sjá til margra fornra tótta, en lengst stóðu þar fjárhús tvö, er nefndust Langsum og Þversum, og eru ummerki þeirra enn glögg.
Árið 1976 friðaði þjóðminjavörður allar gamlar mannaminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarða, verbúðir, tættur af íveruhúsum og útihúsum, þar á meðal seljarústir í Seljabót. Væri vissulega mjög þarft og verðugt verk að kanna ítarlega, mynda, kortleggja og skrá allar mannaminjar í Herdísarvík, áður en um seinan verður, því að gróið land þar liggur undir skemmdum, eins og fyrr segir, ásamt mörgum og merkum fornminjum. Mættu forsvarsmenn Háskóla Íslands, sem er eigandi jarðarinnar, sannarlega huga að því máli, í samlögum með Þjóðminjasafni.

Einar Ben-21

Frá 1895 til 1927 bjó í Herdísarvík með fjölskyldu sinni Þórarinn Árnason, sonur Árna Gíslasonar stórbónda í Krýsuvík og fyrrum sýslumanns Skaftfellinga. Hafði Þórarinn gagnsamt bú og bjó við rausn að fornum hætti. Árið 1908 eignast Einar skáld Benediktsson Herdísarvík (ásamt Krýsuvík, sem hann átti þó með erlendum mönnum), en mun lítt hafa skipt sér af högum landseta sinna. Árið 1927 leigir hann jörðina Ólafi Þorvaldssyni, síðar kunnum fræðimanni og rithöfundi, sem þar bjó með sinni fjölskyldu fram til 1933 en leigumáli hans var ekki endurnýjaður eftir það. Hafði Ólafi búnast prýðisvel á jörðinni og hefði, að eigin sögn, feginn viljað vera þar lengur.
Í júlímánuði 1932 fluttist eigandi jarðarinnar, Einar Benediktsson, þá viðurkennt höfuðskáld þjóðarinnar með litríkan afhafna- og umsvifaferil að baki, til Herdísarvíkur ásamt sambýliskonu sinni, Hlín Herdisarvik-36Johnson. Hófst þá smíði nýs íbúðarhúss (járnvarins timburhúss) á jörðinni, norðarlega í túninu og allnokkurn spöl frá gamla bænum. Var húsið fullbúið snemma í septembermánuði það ár. Stendur það enn, nú uppgert, og hefur um allmörg ár verið notað sem sumarorlofshús háskólastarfsmanna. Meðan á byggingu hússins stóð höfðust Einar og Hlín við í gamla bænum ásamt fjölskyldu Ólafs, en fluttu síðan inn í húsið nýja jafnskjótt og það varð íbúðarhæft. Yfirsmiður hússins var Sigurður Halldórsson úr Reykjavík, en allt byggingarefni var flutt sjóleiðina frá Reykjavík að Herdísarvík á strandferðaskipinu Skaftfellingi, en síðan á opnum báti frá skipshlið í lendingarvör. Bjuggu þau Einar og Hlín síðan í húsi þessu þar til Einar andaðist 12. janúar 1940, þá farinn að heilsu og kröftum eins og kunnugt er, en Hlín síðan, mest ein en stundum með aðkeyptri hjálp, nokkuð á annan tug ára, þar til hún brá búi og byggð lagðist af í Herdísarvík.

Herdisarvik-38

Oft var þó sonur Hlínar, Jón Eldon (sem var hennar yngsta barn), þar með þeim Einari og síðan tímabundið með móður sinni. Mætti segja margar sögur af lífi þeirra þarna í einsemdinni, þótt ekki sé ráðrúm til þess hér, en staðfest er – og þarf engum að koma á óvart – að Hlín annaðist hinn aldna og þjóðfræga ástvin sinn mjög vel og af mikilli hlýju allt til hinstu stundar samvista þeirra og hlúði að honum með öllum tiltækum úrræðum. Eina utanför, til Kaupmannahafnar, fóru Einar og Hlín eftir að þau fluttu til Herdísarvíkur, og var það haustið 1934, en annars fór Einar lítið af þessu síðasta heimili sínu, enda var heilsu hans þegar farið að hnigna er hann flutti þangað og hrakaði henni síðan enn á næstu árum. Lítt orti Einar skáld eftir að til Herdísarvíkur var komið.

Herdisarvik-38

Í dagstofu hússins stóð bókasafn skáldsins, á annað þúsund bindi, einkum fáséð rit um fornklassísk efni, sum gömul og dýrmæt, mörg á latínu og grísku, þar á meðal eitt vögguprent, þýsk þýðing á Gesta Romanorum, prentað í Augsburg 1489, einhver elsta prentuð bók, sem til er á Íslandi. Þessu merka bókasafni, ásamt jörðinni sjálfri, ánafnaði Einar Háskóla Íslands með gjafabréfi árið 1935 og var safnið flutt í örugga geymslu í Háskólanum árið 1950.
Hlín Johnson hafði allnokkurt fjárbú í Herdísarvík, einkum þó eftir lát skáldjöfursins.
Svört ær í eigu hennar varð frægust íslenskra sauðkinda á síðari tímum. Hún gekk árum saman Herdisarvik-40sjálfala í Herdísarvíkurfjalli, uns boð kom frá yfirvöldum um að hún skyldi aflífuð eins og gert hafði verið við annað fé Hlínar og reyndar fjárstofninn allan í þeim landshluta, sökum sauðfjárveikivarna. Örðuglega gekk að handsama Surtlu og á árinu 1952 gerðu fjárskiptayfirvöld út marga leiðangra vopnaðra manna til að fella hana, og fé var einnig heitið til höfuðs henni. Surtla var kæn og fótfrá og varðist í fjallinu vikum saman áður en hún var loks lögð þar að velli. Mátti heita að öll þjóðin fylgdist af miklum áhuga með þessari baráttu, í dagblöðum og útvarpsfréttum, og átti ærin víst samúð flestra.”

Heimild:
-Morgunblaðið, laugardaginn 15. janúar, 2000. Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Ferðafélags Íslands.

Herdísarvík

Herdísarvík.