Refur

Ætlunin var að ganga frá Sýslusteini í Lyngskjöld og leita uppi greni, sem þar á að hafa verið.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Á þeim slóðum átti svonefnt þrætugreni að vera, en það var nefnt svo vegna þess að hvorki Selvogsmenn né Grindvíkingar töldu grenið vera í þeirra landi. Heyrir það til undantekninga að bændur afneiti landi því oftar en ekki hafa þeir deilt um yfirráð á slíkum svæðum. Bréfaskrifti fóru á millum hreppsnefndanna vegna þessa þar sem ítrekaðar voru skyldur hvorrar fyrir sig að vinna grenið. Ástæðan var fyrst og fremst sú að grenið var á ystu mörkum sveitarfélaganna og langt að fara fyrir báða aðila, þó heldur lengra fyrir Grindvíkinga. Líklegt mátti því telja að Lyngskjaldargrenið hafi verið það greni er olli framangreindum deilum fyrrum, nefnt “Þrætugreni”. Hafa ber í huga að akvegur þarna var fyrst gerður um miðjan fimmta áratug síðustu aldar. Að sögn kunnugra er grenið við landamerkjavörðu á “Skildi” og eiga hlaðin byrgi skyttu að vera nálægt greninu.

Lyngskjaldargreni-1

Ólafur Þorvaldsson, síðasti bóndinn í Herdísarvík, getur um Lyngskjaldargrenið í lýsingu sinni af Herdísarvík: “…Vestan Klifhæðar er geil af eldra hrauni með miklum lynggróðri, en vestan hennar samfelld brunabreiða, sem runnið hefur ofan af fjalli vestan Lyngskjaldar. Austarlega í þessari brunabreiðu, en ofan vegar, er stór, stakur hraungrýtissteinn, og er hér Sýslusteinn, auðþekktur sökum stærðar og einstæðingsskapar. Sýslusteinn er á mörkum milli Árnes- og Gullbringusýslu, og þá einnig merkjasteinn milii Herdísarvíkur og Krýsuvíkur. Úr Sýslusteini liggja sýslumerki yfir Lyngskjöld, sem er bunga í brún fjallsins, og hefur yngsta hraunið runnið ofan af fjallinu, austan hans og vestan. Gren er á Lyngskildi, austan marka, Lyngskjaldargren. Meiri gróður er í Lyngskildi en umhverfis hann, t. d. mikið um eini, og er oft á haustin gott þar til einiberja…”
Mosavaxið hraun liggur neðan, ofan og beggja vegna Lyngskjaldar. Hann er í eldra greiðfærara helluhrauni. Svæðið hallar snarlega upp á stall vestan Herdísarvíkurfjalls. Hallinn er lyng- og hrísvaxinn. Þegar upp á hann er komið tekur við fyrrnefnt tiltölulega slétt hellurhraun. Ofar eru rásir og í þeim nokkir litlir hellar. Stallurinn er kjörið grenjasvæði því alls staðar má sjá op á yfirborðsrásum.

Þrætugrenin

Hleðslur við Þrætugrenin.

Lyngskjaldargrenið (-grenin) er rétt fyrir ofan hallann, fremst á stallinum, vestast í honum. Lítil varða er ofan við brúnina og síðan má sjá hvert opið á greninu á fætur öðru. Þau eru öll merkt með tveimur steinum. A.m.k. tvö byrgi refaskyttu eru sitt hvoru megin við grenjasvæðið. Meginopið er í nokkurs konar “urð” skammt suðaustan við efra byrgið. Innan við það var skít að sjá, en hvergi var fiður eða önnur nýleg ummerki eftir ref í eða við grenin. Talsvert var af rjúpu í nágrenninu, sem bendir fremur til þess að refur hafist ekki við í greninu um þessar mundir. Hnit voru tekin. Af afstöðunni má ætla að grenið sé nokkurn veginn á sýslumörkunum fyrrnefndu, en þó heldur innan Selvogslands ef eitthvað er.

Þrætugrenin

Eitt þrætugrenjanna.

Refur hefur löngum verið veiddur á Reykjanesskaga. Í frétt í Morgunblaðinu 1987 segir m.a. um tófuveiðar á Reykjanesskaganum: “Tófu fjölgar ört í Gullbringusýslu að sögn refaskyttu sem fréttaritari Morgunblaðsins hefur rætt við. Refaskytturnar hafa fellt um 70 tófur í vor, og virðast tófurnar vera um allt. Einar Þórðarson refaskytta í Vatnsleysustrandarhreppi segir til dæmis að tófurnar séu við bæjardyrnar hjá sér á Vatnsleysu. Tófur hafa verið felldar við Innri-Njarðvík, úti á Reykjanesi og víðar. Þá hafa tófur sést víða, t.d. innan Varnarliðs-stöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.
Einar Þórðarson og Lárus Kristmundsson refaskyttur í Vatnsleysustrandarhreppi hafa fellt 22 tófur í vor, sem er mesti fjöldi að minnsta kosti um langt skeið. Á síðasta ári felldu þeir 16 tófur alls. í vor fundu þeir tvöfalt greni í Hvassahrauni, það er að þar voru tvær læður í greninu. Á Vatnsleysuströnd hafa dauð lömb fundist við tófugreni.
MelrakkiÍsólfur Guðmundsson, bóndi í Ísólfsskála, refaskytta í Grindavíkurlandi, hefur fellt 17 tófur í vor. Hann skaut 3 tófuyrðlinga í einu skoti við tófugreni á Vatnsheiði. Í landi Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs að hluta hafa verið felldar 10 tófur úr 2 grenjum í vor að sögn Sigurðar Erlendssonar
refaskyttu. Hermann Ólafsson og Sveinbjörn Guðmundsson refaskyttur í Hafnahreppi hafa fellt samtals 20 tófur í vor, þar af eru 3 tófur er voru felldar í Njarðvíkurlandi.
Samtals hafa því 6 tófur verið felldar í ár, sem er svipaður fjöldi og á síðastliðnu ári. Að sögn Páls Hersteinssonar veiðistjóra voru felldar samtals 38 tófur í Gullbringusýslu árið 1985 og 31 árið 1984. Samkvæmt upplýsingum frá veiðistjóra var veiðin frá árinu 1975 eftirfarandi: Árið 1975 voru felldar 8 tófur í sýslunni, en árið 1976 voru þær 5, árið 1977 var engin tófa veidd, en þær urðu samtals 7 árið 1978, 1979 var engin tófa felld, en árið 1980 voru þær 2, árin 1981 og 1982 voru engar tófur veiddar í sýslunni en árið eftir hófst fjölgun, þá voru veiddar 11 tófur, árið eftir 31.”

Þrætugrenin

Skjól refskyttu við Þrætugrenin.

Og svolítill fróðleikur um tófuna: Talið er að tófan hafi sest að á Íslandi í lok ísaldar, fyrir um það bil 10 þúsund árum, en talið er að hún hafi komið hingað á hafís.
Fullvaxinn refur getur orðið tæpur metir á lengd, skrokkurinn ekki nema 56-60 cm. Og þyngdin getur orðið allt að 6 kg. Læðurnar eru yfirleitt léttari.
Til eru nokkur litarafbrigði af Íslenska heimskautarefnum en aðallitirnir eru mórautt og hvítt. Dýr af mórauðakyninu eru dökkbrún allt árið en geta verið með hvítan blett eða rák á bringu. Á sumum mórauðu dýrunum getur feldurinn orðið upplitaður á vorin, svo að hann sýnist ljósbrúnn eða grábrúnn. Dýr af hvíta afbrigðiðu eru aftur á móti grábrún á baki og ljósbrún á kvið á sumrin, en þau eru alhvít á vetrum. Mórauða afbrigðið er algengast á Íslandi þegar á heildina er litið. Trýni refsins er alltaf svart og eyrun upprétt. Refir ganga úr hárunum tvisvar á ári. Þeir skipta yfir í sumarfeldinn á tímabilinu frá miðjum maí til miðjan júní. Vetrarfeldur fullorðinna dýra vex út aftur í byrjun vetrar og er að vaxa eitthvað fram yfir áramót.

Þrætugreni

Skjól refaskyttu við Þrætugrenin.

Húsakynni tófunnar er kallað greni. Greni tófunnar eru margvísleg. Greni hennar eru víðast í stór-grýtisurðum neðarlega í fjallshlíðum eða í hraunrásum. Vitað er með vissu að mörg greni hafa verið notuð áratugum saman, þótt ekki sé það á hverju ári.
Tófan gýtur að jafnaði um miðjan maí eftir c/ 52 daga meðgöngu. Afkvæmi tófunnar kallast yrðlingar.
Meðal gotstærð íslensku tófunnar er 5-6 yrðlingar. Þeir fæðast blindir en augun opnast eftir 15 daga. Yrðlingarnir eru alveg háðir móðurmjólkinni fyrstu þrjár vikurnar en þá byrja þeir að éta kjöt. Læðan venur þá síðan af spena við 6-10 vikna aldur.
Báðir foreldrar hjálpast að við uppeldið. 

Vembla

Fyrstu þrjár vikurnar fer læðan lítið frá greninu og steggurinn sér að mestu einn um aðdrætti. Refaparið notar afmarkað heimasvæði sem það fer um í ætisleit og reynir að verja gegn öðrum refum. Heimasvæði sem varið er fyrir öðrum dýrum sömu tegundar er nefnt óðal. Bæði kynin merkja óðalið með þvagi á áberandi stöðum.
Yrðlingarnir taka smám saman að fara í stuttar og síðar lengri ferðir frá greninu. Þegar þeir eru orðnir um það bil tólf vikna gamlir, sem er venjulega snemma í ágúst, eru þeir oft farnir að dreifa sér og sofa á daginn í holum og glufum sem ekki teljast eiginleg greni. Næstu fjórar vikurnar eykst sjálfstæði þeirra og síðast er vitað til að refur hafi fært yrðlingum fæðu í lok ágúst þegar yrðlingarnir voru tæplega 14 vikna gamlir. Í byrjun september virðast þeir vera farnir að finna alla sína fæðu sjálfir.

Þrætugreni

Hleðslur við Þrætugrenin.

 Um miðjan september taka fyrstu yrðlingarnir að yfirgefa óðal foreldranna. Steggir virðast fara fyrr en læður.
Fæðan fer eftir aðstæðum, ýmislegt sjórekið, hrognkelsi, kræklingur, fuglar, egg, hreindýrahræ, rjúpur, þangflugnapúpur, ber, hagamýs o.fl.
Fá dýr eiga sér eins margar nafngiftir og refurinn á Íslandi.
Önnur Íslensk heiti eru: Djangi, djanki, dýr, dratthali, fjallarefur, fjallrefur, gráfóta, heimskautarefur, holtaþór, lágfóta, melrakki, melkraki, rebbali, rebbi, refur, skaufhali, skolli, tófa, tæfa, vargur og vembla.
Refaveiðar hafa verið stundaðar á Íslandi frá upphafi landnáms og refaskinn notuð sem verslunarvara.. Um tíma var bændum gert skylt að stunda grenjaleit á jörðum sínum og afréttum á eigin kostnað, þótt veiðimönnum væri greitt fyrir veiðina.”
Til baka var gengið eftir torsóttri fjárgötu undir Lyngskildi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1943-1948. Herdísarvík í Árnessýslu, eftir Ólaf Þorvaldsson, bls. 134.
-Morgunblaðið 14.07.1987, bls. 26.
-Villt spendýr, bls. 74-85.

Þrætugreni

Hleðslur við Þrætugrenin.