Færslur

Gamli Þingvallavegur

Hjörtur Björnsson segir frá “Örnefnum á Mosfellsheiði” í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1937;

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði-kort 1908.

“Síðan hinn nýi vegur yfir Mosfellsheiði var lagður, fyrir Alþingishátíðina 1930, má svo heita, að ferðir um gamla veginn, sem lagður var nokkru fyrir síðustu aldamót, hafi lagzt niður. Vilja örnefni týnast og falla í gleymsku á þeim leiðum, sem nú eru sjaldfarnar eða þotið er um í bíl, þótt áður væru þær fjölfarnar, bæði af gangandi mönnum og ríðandi, og þá oft með langar og seinfærar lestir baggahesta, og síðar kerrur. — Þá var oft nægur tími fyrir ferðamanninn að virða fyrir sér það, sem fyrir augun bar, og þekkja nöfn á áningastöðum og kennileitum.
Vil jeg nú leitast við að telja upp örnefni meðfram gamla Mosfellsheiðarveginum, frá Almannagjá að Geithálsi, þar sem hann sameinast Hellisheiðarveginum. Þó má þar án efa einhverju við bæta, því að ekki geri jeg ráð fyrir, að jeg þekki þau örnefni öll, enda munu skiptar skoðanir um sum þeirra.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Þegar komið er upp úr Almannagjá og farið „suður” — en svo er alltaf að orði komizt um ofanverða Árnessýslu, þegar farið er yfir Mosfellsheiði, þó að vegurinn liggi til vesturs og jafnvel norðvesturs — þá liggur vegurinn litlu vestar yfir Breiðabala; lága, en breiða upphækkun í hrauninu. Vestan við Breiðabala er „afleggjari”; liggur hann til hægri handar beint upp hraunið í malargryfjurmiklar sunnan-í Stórhöfða, sem er á milli Brúsastaða og Kárastaða. Var „afleggjari” þessi lagður litlu fyrir síðustu aldamót, um líkt leyti og aðalvegurinn var gerður, til aðflutninga á ofaníburði. Dálítið neðan við túnið á Kárastöðum liggur vegurinn yfir Árfar. Er það allbreiður, en grunnur, farvegur, sem oftast er þur á sumrum. Nafnið kemur af því, að stundum í leysingum stíflast Öxará af krapi og íshröngli fyrir innan Brúsastaði og flæðir þá vestur hraunið, sunnan undir Stórhöfða, og hefur myndað sjer þar farveg greinilegan; sameinast hún svo lækjarseytlum, er koma úr giljunum fyrir ofan Kárastaði, og rennur svo niður hraunið út í Þingvallavatn.

Árfarið

Árfarið.

Þegar yfir Árfarið er komið, tekur við Kárastaðamýri vestur í Borgarskarð, sem oftast í seinni tíð er nefnt Kárastaðaskarð, því að þar sjest fyrst heim að Kárastöðum, þegar komið er austur af heiðinni. Í Borgarskarði var fyr fjárborg, og þar talið, að Mosfellsheiði byrji. Vestan til heitir skarðið Borgardalur, en Borgardalsbrekkur, lyngbrekkur miklar á hægri hönd, en til vinstri er Skálabrekkuás. Milli ássins og vegarins er lítil valllendisflöt og heitir Norðlingaflöt. Er þá komið í Bæjardal; hann er kenndur við bæinn að Skálabrekku, sem stendur sunnan undir honum, en sjest ekki af veginum. Bæjardalur takmarkast að suðvestan af Skálabrekkuás, en að norðvestan Lyngás. Liggur vegurinn eftir endilöngum dalnum, unz hann þrýtur, og er þá farið yfir Móakotsá. Það er lítil árspræna, sem oftast er þur í þurkasumrum; kennd er hún við eyðibýlið Móakot, sem stendur á árbakkanum niður undir Þingvallavatni. Var Móakot byggt um 50 ára skeið á síðustu öld. Vestan við Móakotsá er farið yfir hæð eina litla, Spýtuás, og taka þá bráðlega við lágar og lyngi grónar hæðir, er Þrísteinaholt heita. Liggur vegurinn milli þeirra og yfir Torfdalslæk, og því næst norðan undir Gíslahóli, sem venjulega er nefndur Gíslhóll. Austan undir Gíslahóli liggur rudd braut til vinstri af aðalveginum niður að Heiðarbæ og svo áfram suður Grafning.

Vilborgarkelda

Vilborgarkelda – kort.

Skömmu áður en komið er að steininum, er sýnir 40 km. vegalengd frá Reykjavík, er farið yfir litla valllendisflöt, er Harðivöllur heitir. Nokkru vestar er Ferðamannahorn, þar sem bugur verður á veginum á hæðarbrún ekki mikilli; er þá skammt að Þorgerðarflöt, sem er allstór flöt til vinstri handar. Gegnt Þorgerðarflöt eru mýradrög allmikil, er heita Vilborgarkelda. Sagt er, að keldan beri nafn af konu nokkurri, er fórst þar voveiflega, og þótti hún síðan vera þar á sveimi, er skyggja tók, og gera ferðamönnum glettingar. „Í Keldunni”, eins og oftast var komizt að orði, var mjög tíður áningastaður, og lágu langferðamenn þar oft með lestir sínar, enda er þar haglendi fyrst, svo teljandi sje, austan aðalheiðarinnar.

Þrívörður

Þrívörður – austasta varðan.

Örskammt vestan við Vilborgarkeldu og Þorgerðarflöt skiptast leiðir, og liggur nýi vegurinn, sem lagður var 1928—9, þar vestur heiðina, sunnan undir Litla-Sauðafelli og niður í Mosfellsdal. Þegar komið er fram hjá vegamótunum, er farið yfir Þórðargil, lítið gildrag, og Þórðargilsmela. Á þeim er varða, þrír steinar miklir, hver ofan á öðrum; er hún af sumum nefnd Berserkjavarða. Þaðan er nokkur spölur að Þrívörðum. Þar er land hæðótt og eru Þrívarðnalautir á milli þeirra, en vegurinn liggur yfir Þrívarðnahrygg vestur heiðina. Nokkuð sunnan við veginn á Þrívarðnahrygg sjer í tjarnir nokkrar, er Klofningatjarnir heita.
Mosfellsheiði
Frá Rauðkuhóli er æði spölur, unz vegurinn liggur norðan undir allstórum og mörgum klappahólum, er heita Borgarhólar. Telja jarðfræðingar Mosfellsheiði gamalt hraun, og að Borgarhólar sjeu uppvörp þess, og hafi síðan jökull gengið þar yfir og sorfið. Enda sjást víða jökulruðningar miklir og ísrákir á klöppum um heiðina. Frá Borgarhólum liggja götutroðningar, sæmilega glöggir, niður með Grímmannsfelli (Grímarsfelli) austanverðu, niður hjá Bringum og niður í Mosfellsdal.
Hallar nú upp á melkoll nokkurn, Háamel, sem stundum er líka nefndur Alda. Þar liggur vegurinn hæst, og er þaðan útsýni mikið og fagurt í björtu veðri. Til austurs sjest þar austurhluti Þingvallasveitar og fjöllin þar umhverfis og allt inn á Langjökul, en Skjaldbreið fyrir miðju, og sýnist þá engu minni en frá Þingvöllum, þó að miklu muni á fjarlægðinni. Til suðvesturs sjest um Suðurnes og meðfram Reykjanessfjallgarði endilöngum og á haf út, um sunnanverðan Faxaflóa.

Heuðarblómið

Heiðarblómið í Moldarbrekkum.

Sunnan undir Háamel var eitt sumar — eða tvö — fyrir rúmum 20 árum lítill veitingaskúr, er danskur maður átti og nefndi Heiðarhlóm. Sjást þess nú nálega engin merki, að þar hafi mannabústaður verið. Þar suðvestur af taka við sljettir melar, Borgarhólamelar, og hallar úr því nokkuð jafnt niður í byggð í Mosfellssveit. Heita þar Seljadalsbrúnir, löng leið og heldur tilbreytingalítil.
Er þá Grímmannsfeli allfjarri til hægri handar, en Efri-Seljadalur milli þess og heiðarinnar. Við suðurenda Efri-Seljadals eru hólar nokkrir, og heitir þar Þrengslin, en sunnan við þau tekur við Neðri-Seljadalur. Verður þar undirlendi meira og dalhvilftin öll grynnri. Þar sunnarlega er Silungatjörn og Silungatjarnarmýri. í Seljadölum er graslendi mikið og var þar tíður áningarstaður ferðamanna fyrrum, enda lá vegurinn um þá áður en akbrautin var lögð. Lítið sjest af veginum ofan í dalina fyr en komið er niður á móts við Silungatjörn.

Seljadalur

Seljadalur – brú.

Þegar alllangt kemur niður eftir Seljadalsbrúnum, verða fyrir tvö lautardrög til vmstri við veginn: Efri-Hrossadalur, og litlu neðar Neðri-Hrossadalur, og enn neðar sömu megin Helgutjörn — grunnur tjarnarpollur, sem venjulega þornar upp á sumrum. Þá er til hægri handar Eiríkshóll, einstakur klappahóll, flatur að ofan, að öðru leyti en því, að fuglaþúfa hreykir sjer á honum miðjum. Litlu neðar, en lengra frá veginum, er Vörðuhóladalur, daldrag, sem lítið ber á. Tekur nú vegurinn að verða krókóttur, en hefur verið bugðulítill ofan frá Háamel, og er nú bráðlega komið að Krókatjörn, sem er við veginn til hægri. Gengur að norðan út í hana langur tangi, er skiptir henni nærri í tvennt, og er hún því af sumum nefnd Gleraugnatjörn (það mun vera þýðing á örnefni, sem nokkrir danskir menn gáfu tjörninni fyrir 20—30 árum. M.Þ.).

Djúpidalur

Djúpidalur.

Mjög litlu neðar, hinu megin við veginn, er Djúpidalur, alldjúp kvos, er áður var klædd valllendisgróðri, en hefur í seinni tíð blásið upp og jetizt af vatni. Sumarið 1907 var þar búinn morgunverður Friðriki konungi VIII. og fylgdarliði hans, er hann reið til Þingvalla og Geysis. Móts við og fyrir neðan Djúpadal er vegurinn enn krókóttari en áður, og heita þar Krókar niður að Miðdalsmýri. Liggur vegurinn yfir hana þvera og Miðdalslæk, sem rennur eftir henni, en bærinn Miðdalur stendur í halla kippkorn norðar. Þegar kemur yfir Miðdalsmýri, er vegurinn yfir háls einn lágan, en allbreiðan, og stóðu norðar á honum fjárhús frá Miðdal. Litlu sunnar, til vinstri handar, er tjörn ein lítil, er Heiðartjörn heitir, og er þá örskammt ofan af hálsinum niður að Lynghólsmýri, og er Lynghóll norðvestan við hana. Var Lynghólsmýri einn af fyrstu blettunum, sem girtur var með gaddavír meðfram veginum, og þótti sumum ferðamönnum súrt í broti, að missa jafn góðan áningastað. Þegar komið er fram hjá mýrinni, er enn dálítil tjörn við veginn til vinstri, er Sólheimatjörn heitir, og spölkorn vestar Hofmannaflöt, allstórar valllendisflatir til hægri við veginn.

Geitháls

Geitháls 1907-1940.

Þaðan er svo mjög skammt að Geithálsi, þar sem vegurinn sameinast Suðurlandsbrautinni. Hefur þá verið fylgt veginum austan frá Almannagjá, sem er 35—40 km. leið, og skýrt frá örnefnum eftir því, sem föng voru á.” – Hjörtur Björnsson frá Skálabrekku.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1937, Örnefni á Mosfellsheiði – Hjörtur Björnsson, bls. 164-167.

Þingvallavegur

Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Mosfellsheiði

Í skýrslu Óbyggðanefndar fyrir Stór-Reykjavíkursvæðið má m.a lesa eftirfarandi um Mosfellsheiði:

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort.

“Í Landnámu er minnst á Mosfell. Jarðarinnar er einnig getið í Egils sögu. Þar stendur að Grímur Svertingsson, lögsögumaður 1002-03, hafi búið á Mosfelli fyrir neðan heiði. Kirkja hefur staðið að Mosfelli þegar um 1200 er Páll biskup Jónsson tók saman kirknaskrá sína.
Bæði Stærra- og Minna-Mosfell er að finna í fógetareikningunum 1547-1552 og hefur jörðin því verið í eigu Viðeyjarklausturs áður en konungur sló eign sinni á jarðir klaustursins. Einungis kúgilda og innanstokksmuna er getið í máldaga Mosfellskirkju í Gíslamáldögum frá um 1575.
Mosfell var meðal þeirra jarða sem samkvæmt konungsboði 3. október 1580 voru lagðar til fátækra presta.
MosfellskirkjaBrynjólfur Sveinsson, biskup í Skálholti, stóð fyrir vísitasíu á Mosfelli árið 1642. Í visitasíubókinni stendur eftirfarandi: Kyrckian ad Mosfelli i Mosfellssveit, ä suo mikid i landi sem bref og mäldagar fullnast, er heima jordin lógd til prests upphelldis med óllum gógnum og giædum, öskar Biskup landamerkia af sera Einari Olafssyni, epter eignar halldi edur hefdar vitnum. Sómuleidis er prestinum veitt jórdin Mögilsä, leygd fiörum ä gilldum hid sama öskar Biskup um hennar landamerki ad skiallega tekin sieu og hvorutveggiu send Innan Jafnleingdar til Skalhollts. Undir þetta rita Einar Ólafsson prestur, Hallur Árnason prestur, Gunnar Magnússon, Pétur Gissursson og Stefán Ólafsson prestur.
Í visitasíu Mosfells sem fram fór 23. ágúst 1646 var lagður fram vitnisburður Guðrúnar Þorsteinsdóttur, eiginkonu séra Þorsteins heitins Einarssonar sem var prestur á Mosfelli 1582–1625, um að enginn hefði sér vitanlega notað Mosfellsskóg nema með leyfi eiginmanns síns. Í sama vitnisburði sagði ennfremur að: … Mosfells landamerki væri Bláskrida sem rennur med hrijsbrunar túne, Somuleydes þess land Móar fyrir sunnan Ána sem kalladur er kyrkiu Móe og þar heffdi Asgrijmur heijtinn Gijsla Son Sinn stekk sem þá Bió i Hittukoti hvortt ad stendur i mosfellstune. Datum þess vittnisburdar Anno 1643 7. februarij á Vollum undir Svijnskardi. Undir skrifadir menn Nikulas Eyolfsson Hallgrijmur Þolleijfsson Jon Jorundsson Nikulas Hendriksson.

Helgusel

Helgusel (Mosfellssel) í Bringum.

Í sömu visitasíu var birtur vitnisburður Árna Magnússonar í Ytri–Njarðvík frá 23. október 1626. Þar kom m.a. fram að í þau þrjú ár sem hann var á Mosfelli hafi bóndinn haft selstöðu í skóginum heima á bringunum. Í sama vitnisburði kemur eftirfarandi fram: … i þeim skóge sem greijndu Mosfelle var þá i þann tijma Eignadur leijfdist ongvum sier ad nijta nema med þeirra leijffe sem á mosfelle voru. Undir visitasíuna skrifa Einar Ólafsson prestur á Mosfelli, Stefán Hallkelssson prestur í Seltjarnarnesþingum, Sigurður Árnason, Halldór Eiríksson, Jón Árnason og Bjarni Eiríksson.

Bringur

Bringur.

Í visitasíu Þórðar Þorlákssonar biskups þann 30. ágúst 1678 kemur eftirfarandi fram: Þann 30 Augusti visiterud kÿrkiann ad Mosfelle i Mosfellssveit heima stadurinn og jordinn Mögilsä er lógd prestinum ad Mosfelli til uppheldis nota, eirnenn eru stadnum eignadar tuær selstodur su ejna under Grymanzfellzfossi, en ønnur hejmar i Brÿngunum, veidj i kietilhiloz ofann efter leirvox a, ad sunnan bædj i Skrautä og Backafliotj, enn umm landa merki stadarins finnst vïsitatiubok sal. M Brinjolfs sub dato 1646. Undir þetta rita Þórður Þorláksson, Einar Ólafsson prestur, Einar Einarsson, Árni Álfsson, séra Hannes Björnsson, Bjarni Jónsson, Pétur Ámundason og Bjarni Sigurðsson.
Jón Vídalín visiteraði Mosfell 2. ágúst 1703. Þar kemur fram að presturinn hafi jörðina Mógilsá til uppihalds, að staðurinn hafi tvær selstöður og að kirkjan eigi ákveðin veiðiréttindi. Textinn er í samræmi við það sem stendur í vísitasíunni frá 1678. Síðan segir: Item ä Hun Möan fÿrer sunnann äna sem kalladur er Kÿrkiu möi. Undir þetta rita Þórður Konráðsson prestur, Pétur Ámundason, Pétur Daðason Gamm, Benedikt Einarsson, Einar Ísleifsson og Árni Gíslason.

Hrísbrúarsel

Hrísbrúarsel (Mosfellssel).

Þann 23. júní 1751, í tíð Ólafs Gíslasonar biskups í Skálholti, var Mosfell visiterað. Sú vísitasía er keimlík þeirri frá 1703 en þar segir: Enn Jórdenn Mögilsä er lögd prestinum til upphelldis. Stadnum eru eignadar 2 Selstodur. Su eina under Grimansfelles Fosse, enn ónnur heimar í bringunum. Kyrkiann ä Veide i Ketilshil og ofann efter Leirvogsä ad sunnann bæde i Skrautä og Backar Flióte. It: a hun möann fÿrer sunnan Äna, sem kalladur er Kÿrkiumöe. Undir þetta rita Ólafur Gíslason, Guðmundur Jónsson, Sigurður Ólafsson, S. Sigurðsson, Gísli Einarsson og Oddur Jónsson. Finnur Jónsson Skálholtsbiskup visiteraði Mosfell þann 12. júní 1758. Vísitasían sem samin var í kjölfarið er nánast samhljóða vísitasíunni árið 1751 og því vísast til hennar.

Minna-Mosfellssel

Minna-Mosfellssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þann 26. júní 1800 var Mosfellskirkja visiteruð af Geir Vídalín. Í greinargerðinni sem samin var í kjölfar eftirlitsferðarinnar segir: Anno 1800 þann 26ta Junii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin Kirkiuna ad Mosfelli i Mosfellssveit; – hun á heimaland allt og eru þessi Landamerki ad utannverdu, eftir Visitatiu Magr. Brynjólfs Sveinssonar 1646; ad Bláskrida, sem rennur med Hrísbrúar túni ad austanverdu, skylie Löndinn.
Í vísitasíubókinni er líka texti sem er keimlíkur upplýsingum sem er að finna í eldri vísitasíum Mosfells: Hún á 2 Selstödur, adra undir Grímansfells fossi, (nu kölludum Helgusels fossi) hina nordur í Bríngunum, þar sem nú eru kalladar Blásteinns Bríngur; Veidi í Kétilshil, og ofann eftir Leyrvogsá ad sunnannverdu, bædi í Skrauta og Barkarflióti; item á hun Móann fyrir sunnann Ána, þar sem kalladur er Kirkiu mói. – Jördinn Mógillsá er lögd Prestinum til upphelldis. Undir skrifa; Geir Vídalín, A. Jónsson, Þórarinn Kolbeinsson og Auðunn Bjarnason.

Hvannavellir

Hvannavellir.

Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1704 virðast bændur í allstórum hluta Kjalarneshrepps hafa rekið geldneyti og hross á Mosfellsheiði. Er þar einkum talað um Hvannavelli, og virðist ekki hafa verið greitt fyrir. Slíkur geldneytarekstur er nefndur við Álfsnes og Varmadal. Norðurgröf, Vellir, Kollafjörður, Mógilsá, Esjuberg, Vallá vestri og Hof (þar með talin afbýlin Jörvi, Krókur og Lykkja) höfðu geldneyta- og hrossarekstur á Mosfellsheiði. Um Vallá vestri segir: Hesta og nautagánga um sumur hefur frá þessari jörðu so vel sem öðrum í þessari sveit brúkuð verið frí og átölulaust um lánga æfi á Mosfellsheiði, þar sem heita Hvannavellir.
Og í lýsingu Hofs stendur: Geldnauta og hesta upprekstur hefur frá þessari jörðu um lánga tíma brúkaður verið til sumarbeitar upp á Mosfellsheiði þángað sem heita Hvannavellir, og það frí og átölulaust. Nú um stundir síðan menn urðu hjer so fátækir, að þeir áttu ekki slíkan peníng, hafa þeir þetta ekki megnað að brúka.

Draugatjörn

Draugatjörn – rétt.

Móar og Saltvík höfðu geldneyta- og geldfjárupprekstur á Mosfellsheiði. Vallá eystri hafði hrossagöngu: Hestagánga um sumur þykist eigandinn af eldri mönnum heyrt hafa frá þessari jörð hafi brúkuð verið frí og átölulaust á Mosfellsheiði, þar sem heitir Hvannavellir.
Jarðabók Árna og Páls minnist ekki á „afrétt“ varðandi Sjávarhóla, Öfugskeldu og Skrauthóla en ætla má að sama hafi gilt um þær og aðrar jarðir innan til í Kjalarneshreppi. Raunar voru þessar jarðir í einkaeign eða eign Kjalarnesþinga en Hof, sem hafði þennan rétt samkvæmt Jarðabókinni, var líka í einkaeign. Stóðhrossa- og geldneytaganga á Mosfellsheiði er ekki nefnd við jarðir yst á Kjalarnesi.
Í greinargerð Þjóðskjalasafns Íslands er vakin athygli á því að samkvæmt Jarðabók Árna og Páls átti konungur eða hafði átt allar jarðir í Kjalarneshreppi innanverðum, þ.e. Þerney, Álfsnes, Fitjakot, Varmadal, Stardal, Hrafnhóla, Þverárkot, Gröf (Norðurgröf), Velli, Kollafjörð, Mógilsá, Esjuberg, Móa, Saltvík og Skrauthóla. Veki þetta upp vangaveltur um rétt bænda á framantöldum jörðum á Kjalarnesi til gjaldfrjáls upprekstrar, hvort hann hafi byggst á réttindum, sem Viðeyjarklaustur hafi náð. Í því sambandi væri rétt að líta til rekstrarréttinda Eystri- og Vestri-Vallár, en Vallárnar voru meðal þeirra jarða sem konungur seldi Henrik Bjelke 30. apríl 1675.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort 1909.

Hvannavellir munu nú kallast Bolavellir samkvæmt frásögn Kolbeins Guðmundssonar: Ég sé á landabréfum, að búið er að færa örnefni og sýslumörkin talsvert austur á bóginn fyrir vestan Hengilinn, t.d. heita nú Vatnaöldur, þar sem til skamms tíma hét Bolöldur. En Bolalda er komin austur undir Húsmúla. Ekki veit ég, hvort þetta á rætur sínar að rekja til ósamkomulagsins í fjallleitunum eða það er af því, að fáir virðast vita, hvar Bolavellir voru kallaðir til forna, en þeir eru fyrir austan Lyklafell norður af Bolöldum, sem nú eru nefndar Vatnaöldur. En þar, sem nú eru kallaðir Bolavellir, hétu til forna Hvannavellir. (Sjá lýsingu Ölfushrepps eftir Hálfdan á Reykjum 1702).

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort 1964.

Í lýsingu Skúla Magnússonar á Gullbringu- og Kjósarsýslum frá 1782-1785 segir: “Mosfellsheiði og Kjósarheiði nefnist öll víðáttan frá byggð í Kjós og Mosfellssveit upp að Henglinum, sem áður er nefndur. Þar er mjög gott og grösugt afréttarland á sumrum og er notað úr öllum sýslunum, Gullbringusýslu, Kjósarsýslu og Árnesssýslu. Þar hefir og verið haldinn nautamarkaður 1. október árlega á svæði, sem til þess er afgirt við gjá eina”.
Áður hafði Skúli Magnússon sagt í sama riti: Skilyrði eru og góð til að hafa í seli á heiðinni [Mosfellsheiði] uppi undir afréttarlandinu.
Af Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem og lýsingu Skúla Magnússonar virðist því mega ráða að Kjalnesingar hafi stundað stóð- og geldneytarekstur á Mosfellsheiði. Er það stutt af öðrum gögnum sem hér verða nefnd á eftir. Einnig má ráða af Jarðabókinni og lýsingu Skúla að Mosfellsheiði og heiðalöndin milli Kjósar-, Gullbringu- og Árnessýslna hafi verið notuð sem „afréttur“ fyrir sauðfé líka.
Árið 1740 lögfesti Markús Snæbjörnsson, prestur á Þingvöllum, Þingvallastað. Í þeirri lögfestu eru teknar með jarðir Þingvallakirkju í Þingvallasveit þannig að segja má að sveitarmörkum sé lýst að mestu leyti. Hluta marka Mosfellsheiðarlands er að finna í lögfestunni: … úr Riúpnagili i Steininn á litla Saudafelli, frá Steini þeim i Sysluvördur á eystri Moldbreckum, og so þvert yfir i Klofnínga, enn úr þeim i Þingvallavatn …

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort; fornar leiðir – Jón Svanþórsson.

Þann 9. júní 1801 á manntalsþingi á Esjubergi lagði séra Auðunn Jónsson fram lögfestu fyrir landi Mosfellskirkju frá 22. maí 1770 sem að hans sögn var grundvölluð á máldagabók Brynjólfs biskups Sveinssonar, undirskrifuð af sálugum séra Böðvari Högnasyni og upplesin af sálugum sýslumanninum Guðmundi Runólfssyni á þremur þingstöðum í Kjósarsýslu árið 1770. Lögfestan var lesin upp á ný en ekkert kemur hins vegar fram um innihald hennar.
Í jarðamatinu 1804 er að finna eftirfarandi upplýsingar um Mosfell: Med denne Jord bruges tillige et Kirken paa Mosfell tilhörende Stykke Land oppe paa Fiældet; men da dette er forbunden med saa megen besværlighed, formedest at det er saa langt bortliggende, formodes samme Stk. Land at blive i Tiden solgt særskildt og taxeres derfor a parte saaledes.

Helgusel

Helgusel (Helgasel) – uppdráttur ÓSÁ.

Auk þess segir í lýsingu gæða heiðarlandsins: Medens dette bruges med nærverende No 6 [Mosfell], kan det ikke taxeres saa höyt som her er skeet, men kunde da kun udgiöre en 6 a 7 hndr.Lagt var mat á Mosfellsbrauð árið 1839. Hluti skýrslunnar sem samin var af því tilefni fer hér á eftir: Ecki heldur gjet eg eiginlega til nefnt Hlunnindi, edur Itok, utann Kyrkju Landsins Stærd til Fialls, og þvj fylgiandi Slægna Utrymi, Hagabeit og Selstodu, sem gétur verid med stórum Erfidismunum til Nota á Sumrum; – Ecki heldur eru Máldagar infærdir, eins og ecki afskriftir af Documentum, sem bevísa adkomst til hlunnenda, eda Itaka, utann jeg finn i Visitatiu Hra. Biskups G. Vidalins sáluga, af 26ta Junii 1800, Ad Kyrkjann eigi … og 2r Selstödur, adra hiá Helgaselsfossi, þar sem jeg hefi látid byggia Sel – og Fiárhús, og adra í Blasteinsbringum.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er Hitta sögð hjáleiga Mosfells (Stóra-Mosfell). Um Hittu segir síðan neðanmáls: 1802 segir, að yrkt sé land uppá fjalli frá Stóra Mosfelli, sem mjög er örðugt tilsóknar, en fyrir því það þykir bezt, að selt væri og yrkt sér, er það metið sér í lagi til 12 h. 36 al.

Fellsendi

Fellsendi.

Í jarðamatinu 1849 segir m.a. um Mosfell: Eingjar litlar heimavið, en talsverðt beitiland. Heiðarland gott og mikið til slægna og selstöðu, en lángt fráliggjandi og mjög örðugt til allrar notkunar. Þvínær ónytt á flestum vetrum.
Útmæling á nýbýlinu Fjallsenda/Fellsenda fór fram 8. júlí 1850. Við hana mættu auk úttektarmanna: Þingvallaprestur, fulltrúi Mosfellsprests, ábúendur Fremraháls og Stíflisdals og útmælingarbeiðandinn. Mosfellsprestur lagði fram skýrslu um merki milli Mosfells- og Þingvallakirknalanda en hún er ekki innfærð, en hana má finna í uppskrift í skjölum, sem lögð voru fram í Landsyfirrétti árið 1860.

Mosfellssel

Mosfellssel við Leirvogsvatn.

Fylgir einnig vitnisburður mannsins, sem var umboðsmaður Mosfellsprests við áreiðina. Hljóða skýrsla og vitnisburðurinn svo: Með því bóndinn Arni Björnsson á nýbýlinu Fjallsenda hefur gefið mjer í skyn, að næstkomandi mánudag eða þann 8. þ.m. væri áformuð skoðun á landamerkjum og úthlutun lands til tjeðrar nýlendu hans af Sýslumanni með þartil kvaddri nefnd manna, og þareð jeg, sem Beneficiarius á Mosfelli, sem á land að hjer að vestan verðu, hlýt samkvæmt skyldu minni, að eiga þar að nokkruleyti hlut að máli, leyfi jeg mjer hjermeð, til nauðsynlegrar aðgæslu fyrir tjeða nefnd, að geta um og taka fram þau landamerki, sem mjer með samhljóða vitnisburðum gamalla og áreiðanlegra manna hafa verið sögð, og eru þau þessi: Sjónhenda úr Rjúpnagilsdrögum eða upptökum í aflangan stóran stein einstakan austantil á litla Sauðafelli, og aftur sjónhenda úr tjeðum steini, sem sumir kalla markastein (Sýslustein) í austari Moldbrekkur svonefndar, og en<n> sjónhenda úr Moldbrekkum suðaustanvert við Borgarhóla.

Mosfellssel

Mosfellssel við Leirvogsvatn – uppdráttur ÓSÁ.

Á þessum landamerkjum hefi jeg aldrei heyrt neinn vafa leika, hversvegna jeg vona bæði að nefndin taki þessi merki til greina með sannsýni samkvæmt skyldu sinni, sem og hitt, að enginn leyfi sjer að hagga þeim eða raska, eins og ég líka vil reyna til að láta þá kirkju eða prestakall, sem mjer er trúað fyrir halda rjetti sínum óskertum. Býst jeg því við að halda áfram bæði að tileinka Mosfellskirkju fjalllendi alt, að vestanverðu við tjeð merki, sem og að nota það eptir mætti, þörfum og kríngumstæðum. Mosfelli þann 5. dag júlím. 1850. Stefán Þorvaldsson prestur til Mosfells. Framan og ofan skrifuð landamerki milli Þíngvalla og Mosfells kirkna landa á Mosfellsheiði eru einmitt gjörsamlega samkvæmt því, sem jeg heyrði optlega föður minn sáluga. Jón bónda Eyólfsson á Laxnesi og föðurbróður minn Þorstein sál. þar og fleiri greinda og kunnuga menn glögglega tala um. Hraðastöðum þann 6ta Júlí 1850. vitnar Ólafur Jónsson bóndi á Hraðastöðum.

Mosfellsheiði

Nautapollur.

Útmæling nýbýlisins Fjallsenda fór fram 8. júlí 1850: Þarnæst var nýbýlinu Fjallsenda útvísad til yrkíngar hagbeitar og sérhverrar annarar notkunar land þad er liggur innan fylgjandi takmarka: Frá mörkum jardarinnar Fremraháls í Kjós á hæstu nordurbrún stóra Saudafells, í landsudur eptir brúninni beina stefnu í Grjóta, og eptir þessari á til sudurs uppad efri Gljúfrunum, þadan sömu stefnu yfir midja Startjörn í midja Grjótártjörn vestanhallt vid Þrítjarnir í hatt hollt fyrir austan Stórasund og hedan í Sæluhúsid á Eystri moldbrekkum. Hedan til utnordurs í stein austanhallt hæst á Litla Saudafelli, þadan í Rjupnagil á Eyrunum og eptir því uppad austasta klofníngi þess og hedan loksins til landnordurs yfir vestasta Tjarnhól í ádur téda brún nordan og hæst á Stóra-Saudafelli.

Mosfellsheiði

Sæluhúsið í Moldarbrekkum.

Þann 22. maí 1852 var gefið út byggingarbréf fyrir nýbýlinu Fjallsenda. Því var þinglýst 3. júní 1852.
Mosfellsbrauð var metið á nýjan leik árið 1855 en í lýsingu segir m.a.: Skírsla um tekjur og útgjöld Mosfells prestakalls í Gullbríngu og Kjósarsýslu profastsdæmi eptir 5 ára meðaltali 1849-1853. Jörðin er að vísu mikil jörð að öllu samanlögðu og á mikið víðlendi til fjalls og það allgott land til sumarbeitar og slægna, en bæði er erfitt að nota sér það vegna fjarlægðar og líka þvínær ómögulegt að verja það fÿrir ágángi afréttar fénaðar og stóðhrossa, – en heimaland jarðarinnar er mjög lítid og ligg<u>r ónotalega vegna þéttbýlis. Tun jarðarinnar eru stór mjög og harðlend og vóru komin í ena mestu órækt, en eru nú held<u>r að lagast, og munu þau nú í meðalari fóðra 7-8 kýr, og jörðin þessutan hérumbil 80 ær og máské viðlíka af sauðum, en vetrarbeit er lítil og fÿrir hross svo að kalla engin, verður því að koma þeim burtu til hagagaungu. …

Mosfellsheiði

Sæluhúsið í Moldarbrekkum 1896 – Daniel Bruun.

Í lýsingu sinni á Mosfells- og Gufunessóknum frá 1855 minnist Stefán Þorvaldsson stuttlega á Mosfellsheiði með eftirfarandi orðum: Suðaustur með Litla-Sauðafelli liggur allmikill stararflói, grasgefinn, en mjög votlendur, er liggur að landamærum millum Mosfells- og Þingvallakirkna landa á Mosfellsheiði.
Árið 1856 hugðist presturinn á Mosfelli leyfa býli í Mosfellskirkjulandi, svokölluðum Gullbringum. Um þetta atvik er fjallað í kafla 5.21. um jörðina Bringur.

Í bréfi sem presturinn á Mosfelli sendi biskupi þann 12. júní 1858 kemur fram að hann hafi ekkert á móti því að Jón Bjarnason bóndi á Varmá sæki um að fá að reisa nýbýli í landnorðurhorni heiðarlands Mosfellskirkju við Sauðafell. Hann hugðist þó áskilja sér rétt til þess að vera við áreið og útmælingu landsins til að gæta hagsmuna kirkjunnar.
Mosfellsheiði

Stiftsyfirvöld sendu Mosfellspresti bréf þann 22. júní 1858. Þar kemur fram að stiftsyfirvöld töldu sig ekki geta fyrirskipað útvísun lands handa Jóni Bjarnasyni. Síðan segir: … skulu Stiptsyfirvöldin þó hér með láta yðar velæruverðugheitum í ljósi, að frá þeirra hálfu er ekkert á móti því, að þér semjið við Jón Bjarnason öldungis prívat um bæarbyggingu í Mosfellskirkjulandi, á líkan hátt og skeð er um bæarbygginguna í Gullbringum, þó svo að merki kringum land það, er þér leyfið honum til byggingar, sé nákvæmlegra og greinilegra tiltekin … Um 1860 hófust deilur um hvort jörðin Fellsendi í Þingvallasveit teldist nýbýlisland eða Þingvallaeign. Málið fór fyrir dóm og var dæmt í því fyrir Landsyfirrétti árið 1860. Ýmis vitni voru kölluð fyrir í þessu máli.

Mosfellsheiði

Vörður við sæluhúsið í Moldarbrekkum.

Í júlí 1858 lagði t.d. verjandi Árna Björnssonar, sem byggt hafði Fjallsenda/Fellsenda og gerði kröfu til landsins (Árni var þá orðinn bóndi í Brautarholti á Kjalarnesi), fram eftirfarandi vitnisburði nokkurra Kjalnesinga og Kjósverja: ad No 3 -a.
“Jeg undirskrifaður – sem allan minn aldur hefi dvalið í Kjalarneshreppi – gef þann vitnisburð: að frá því jeg fyrst man til mín, hjer um bil á árunum 1802-1803 til þess á árunum 1835-1836 var afrjettar landið á Mosfellsheiði, kríngum litla Sauðafell og í svo kölluðum Hálsum brúkað árlega öldungis átölulaust og óhindrað af öllum bæði frá uppeldis föður mínum, Brinjólfi sál. Einarssyni lögrjettumanni á Bakka og öðrum bændum í Kjalarneshreppi, samt sjálfum mjer, eptir að jeg varð búsráðandi – til uppreksturs fyrir stóð, hross fjallagrasatekju og fl. … Stad<d>ur að Brautarholti þann 18da Júní 1858 M. Sigurðsson (fyrv. hreppst. í Kjalarnes hreppi).”
“Jeg undirskrifaður sem einnig hef dvalið allan minn aldur í Kjalarneshreppi (nú á 61ta aldurs ári) ber vitni um brúkun afrjettarins eða almenningsins á Mosfellsheiði og í Hálsum öldungis samkvæmt þeim, er Magnús Sigurðsson, fyrrverandi hreppstjóri Kjalnesinga hefur þegar útgefið af dató í dag, og hjer að framan er ritaður … Hofi þann 18. Júní 1858 Jón Runólfsson.
Framlagt fyrir aukarjetti að Þíngvöllum 27. Júlí 1858. Th. Gudmundsen.” ad No 3 – b.

Mosfellsheiði
Vjer undirskrifaðir gjörum svolátandi grein fyrir og vitnisburð um hvað vjer þekkjum til og heyrt höfum um landrjettindi, einkum hvað afrjett snertir, á hinni svokölluðu Mosfellsheiði. Frá því vjer fyrst munum til höfðu Kjósarmenn og Kjalnesingar nauta upp rekstur á Mosfellsheiði. …Þá var þetta land af áðurgreindum sveitum einnig brúkað bæði til trippa uppreksturs og svo fóru menn þangað til grasatekju. Álitu þá Kjósarmenn og Kjalnesingar, að land þetta væri almenningur og afrjettur, sem þessum sveitum væri heimilt að brúka til áður greindra notkana, án þess nokkurs manns leyfi þyrfti til … Þetta vottum vjer eptir áskorun og erum fúsir til að staðfesta þetta vottorð vort með eiði, ef þess verður krafist. Árni Stefánsson á Meðalfelli 68 ára Þorsteinn Torfason á Þorláksstöðum aldur 68.

MosfellsheiðiGuðmundur Eyolfsson á Sandi 78 ára Jón Jónsson á Grjóteyri 63 ára Framlagt fyrir aukarjetti að Þíngvöllum 27. Júlí 1858. Th. Gudmundsen.Nokkru síðar eða þann 10. september 1858 voru fjögur vitni leidd fyrir aukarétt Kjósar- og Gullbringusýslu þar sem þau voru spurð um landamerki Þingvalla- og Mosfellskirkna.
8. Hvað vitið þjer um brúkun Kjalnesinga á Mosfellsheiði; hvaða skepnur hafa þeir rekið þangað; hvert hafa þeir rekið; í hvers leyfi hafa þeir rekið? Einnig lagði umboðsmaður stefnda (Árna Björnssonar) fram gagnspurningar:
1 Hefir vitnið ekki heyrt þess getið, eða veit það ekkert um að Kjósarmenn og Kjalnesingar hafi talið sér nauta og stóðhrossa afrétt í því landi, sem Fellsendi nú er, eða jafnvel brúkað það sem þvílíkt?
2 Spurning: Veit vitnið til að þeirri brúkun hafi verið mótmælt? Vitnin annað hvort töldu Mosfellskirkjuland og Þingvallaland liggja saman á umræddum mörkum eða voru því ókunnugir.
Á manntalsþingi sem haldið var að Lágafelli þann 30. maí 1864 var þinglesið forboð frá sr. J. K. Benediktssyni, er samið var 27. maí sama ár, gegn óleyfilegri hrossagöngu á Mosfellsland. Sama forboð var þinglesið á manntalsþingi á Hofi þann 1. júní 1864.

Mosfellsheiði
Árið 1867 var Mosfellsbrauð metið og í lýsingu kom m.a. þetta fram: Skýrsla um tekjur og útgjöld Mosfellsprestakalls í Gullbringu og Kjósarprófastsdæmi eptir 5 ára medaltali, frá fardögum 1862 til fardaga 1867. Jördin er til fjalls vídlend og kostagód til sumarbeitar og slægna, en mjög ördug af-nota sökum vegalengdar.
Í byrjun 8. áratugar 19. aldar reis upp ágreiningur milli Þorkels Bjarnasonar prests á Mosfelli, vegna Mosfellskirkju, og Ófeigs Vigfússonar á Nesjum í Grafningi um landamerki á Mosfellsheiðinni. Orsök deilunnar var sú að sumarið 1868 hafði Ófeigur yrkt svæði á Mosfellsheiði sem nefndist Sauðafellsflói. Þetta var Þorkell ósáttur við því að hann taldi þetta landsvæði tilheyra Mosfellskirkjulandi og eftir að deiluaðilar höfðu árangurslaust reynt að ná sáttum í málinu kærði séra Þorkell Ófeig vegna Mosfellskirkju.

Mosfellsheiði
Krafa Þorkels var sú að Mosfellskirkjulandi væri dæmdur Sauðafellsflóinn og landið þar um kring, austur að beinni línu sem dregin væri úr Rjúpnagili í Sýslustein austast á Litla-Sauðafelli og þaðan í Eystri-Moldbrekkur við sæluhúsið á Mosfellsheiði. Þorkell studdi þessa kröfu með lýsingum vitna, lögfestu Þingvallakirkjulands frá 1740, sýslulýsingu Skúla Magnússonar, sóknarlýsingu frá 1855, dómi Landsyfirréttar í máli Þingvallakirkju og Árna Björnssonar árið 1859, þeirri staðreynd að Mosfellsmenn höfðu lengi yrkt Sauðafellsflóann án nokkurra mótmæla og staðsetningu sæluhússins á Mosfellsheiði en það var byggt fyrir gjafafé Mosfellssveitunga.
Ófeigur Vigfússon hélt því hins vegar fram að Mosfellskirkju ætti aðeins að dæmast land austur að þeirri línu á uppdrætti [Halldórs Guðmundssonar og Sigurðar málara], er að öðru leyti var samþykktur af báðum málsaðilum, sem dregin væri beint úr Borgarhólum (yfir Syðri- eða Vestari-Moldbrekkur) og í Rjúpnagil. Hann rökstuddi kröfuna með því að vísa í uppdrátt Íslands frá 1848 eftir Björn Gunnlaugsson, skjöl þar sem fjallað var um línuna frá Borgarhóli í Rjúpnagil, sýslulýsingu Árnessýslu frá 1848, vitnisburð vitna, og að enginn hefði kært Nesjabændur þó að þeir hefðu af og til í tuttugu og átta ár slegið í Sauðafellsflóa.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – Eiturhóll.

Kveðinn var upp dómur í málinu 22. nóvember 1873 sem féll Þorkatli og Mosfellskirkju í vil. Í honum kemur eftirfarandi fram: … vill hinn stefndi [Ófeigur í Nesjum] eiga land úr Rjúpnagili og beint í Borgarhóla, en sækjandi [Mosfellsprestur] aptur úr Rjúpnagili í Sýslustein („Merkjastein“) á Sauðafelli, beint í Moldbrekkur eystri og þaðan sjónhendíng í Borgarhóla.
Sem sönnun fyrir að þetta sé rétt hefur sækjandi komið fram með ýms skjöl og skilríki, svo sem þíngsvitni úr Gullbríngusýslu, eptir hverju 4 vitni hafa vitnað þessu samkvæmt … þar næst 3 skýrslur prófasts séra Stefáns Þorvaldssonar á Stafholti, sem áður var prestur að Mosfelli, frá 1850, 1855 og 1869; lögfestu fyrir Mosfellslandi frá 1740; útskript af lýsingu Skúla landfógeta yfir Gullbríngu sýslur. – Hinar þarnefndu „Þrívörður“ eru nú ei lengur til, því þær segir sækjandi að brúkaðar hafi verið í veggi sæluhússins á Moldbrekkum, þegar það var byggt 1841; (óeiðfesta) vitnisburði, sem nefndir eru undir No 10, 11, og 12 í sóknarskjalinu frá 28. Ágúst 1873.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – Sýsluþúfa.

Öll hin nefndu skjöl og skilríki eru í öllu verulegu samhljóða framburði hinna getnu vitna. Þess er enn vert að geta, að hið umgetna sæluhús á Moldbrekkum var 1841 reist og byggt bæði af Mosfellssveitarmönnum og Árnesíngum eins og hins að sækjandi og og fyrirrennarar hans – Mosfellsprestar – hafa stöðugt yrkt eða léð slægjur í Sauðafellsflóa, einnig átölulaust af öllum. …Eptir öllu því sem nú hefur verið tilfært fær rétturinn eigi betur séð, en að prestinum að Mosfelli eða Mosfellskirkju beri að tildæma hið umþrætta landstykki þannig, að landamerki Mosfells að austan sé úr Rjúpnagili í Sýslustein, þaðan í Moldbrekkur við sæluhús og svo beint í Borgarhóla. …
Mosfellsheiði
Því dæmist rétt að vera. Landamerki Mosfellskirkjulands á Mosfellsheiði skulu vera: úr Rjúpnagili í Sýslustein, þaðan beint í Moldbrekkur við sæluhús og þaðan eptir beinni línu í Borgarhóla. Að öðru leyti á hinn stefndi að vera frí af ákæru sækjandans.
Rekstur þessa máls hófst árið 1870. Í aukarétti Árnessýslu 12. júní 1870 var lagt fram skjal frá Stefáni Þorvaldssyni, fyrrum presti á Mosfelli, dagsett 18. maí 1869, sem vitnað er til í dómnum að framan, svohljóðandi: No 7. „Í þau 12 ár, sem jeg hélt Mosfell í Mosfellssveit og bjó þar , -ə: frá 1843-1855. – notaði jeg atölulaust fjalllendi Mosfells, eptir þessum ummerkjum: Leirvogsá ræður merkjum að norðanverðu, neðan frá Skegg<j>astaða hólum og allt uppí Leirvogsvatn, þá ræður lítill lækur, sem rennur vestan til við „Sauðafellstúngu“ og fellur í sama Leirvogsvatn. Þá er tekin sjónhenda úr svonefndu „Rjúpnagili“ í stóran stein, á austan- eða norðanverðu litla Sauðafelli, – úr þeim steini sjónhenda í „Moldbrekkur“, – verður þá allur Sauðafellsflóinn innan Mosfellslands takmarka, enda notaði jeg hann, ásamt Sauðafellstúngunni átölulaust að meira og minna leyti um áðursagt tímabil, bæði til selveru, beitar og slægna.

Markúsarsel

Markúsarsel.

Austurbóginn var sjónhenda tekin úr Fellshala, nefl. Grímansfellshala og austur heiði, beint austur að fyrr nefndum „Moldbrekkum“. Í mæli var það eptir sögnum gamalla manna, að Mosfell ætti selstöðu í Grímansfelli, og ætti „Fellshalann“ allan suður undir „Seljadal“. – En þessar selstöður notaði jeg allar á víxl, 1, Í Helguseli norðan undir Grímansfelli, – þar sem seinna var sett nýbýlið „Gullbrínga“. – 2, Leirtjarnarsel, fyrir norðan Leirtjörn, – sem líka var af sumum kallað „Markúsarsel“ – 3ju selstöðu hafði jeg og seinast nokkur ár vestan undir illa klifi ofanvert við Leirvogsvatn.
Mosfellsheiði

Áreið á landið fór fram samhliða réttarhaldinu 12. júlí 1870: Því næst mæta fyrir rjettinum þeir hinir áðurnefndu menn úr Árnesssýslu og segja það sitt álit um landamerki milli Árness- og Kjósarsýslu: Úr Rjúpnagili eða gljúfrum þess í landsuður beina stefnu á Borgarhólinn hinn hæsta, sunnarlega á Mosfellsheiði. – Hinir tilkjörnu menn úr Gullbringu- og Kjósarsýslu segja aptur á móti takmörkin þannig: Úr áðurnefndu Rjúpnagili beina stefnu í stóran stein á Litla-Sauðafelli austanverðu, sem hvílir á steinum við báða enda en loptar undir allan í miðju, þaðan beint í Moldbrekkur við Sæluhús á Mosfellsheiði og loksins þaðan í áðurnefndan hæsta Borgarhól. Þessar álits- og skoðunargjörðir segjast allir skoðunarmenn vera reiðubúnir að staðfesta með eiði ef krafist verður, að þær sje gjörðar eptir bestu samvizku og vitund.

Mosfellsheiði

Borgarhólar – kort.

Eptir að leitast hafði verið við að koma á sáttum milli málsparta án þess það lukkaðist, komu þeir sjer saman um, að skjóta málinu á frest uns upplýsingar fengjust viðvíkjandi ummerkjum Árness- og Kjósarsýslu, það er að segja afskriptir af sýslulýsingum og sóknalýsingum sem allar eru hjá deild hins íslenzka bókmenntafjelags í Kaupmannahöfn.
Var þannig málinu frestað. Upplesið staðfest. Rjetturinn hafinn. Þ. Jónasson. Th. Gudmundsen. Páll Melsted. Þ. Guðmundsson. Haldór Jonsson. G. Gíslason. O. Ólafsson. Clausen. Preben Hoskiær. Halldór Melsted.
Aukaréttur Gullbringu- og Kjósarsýslu var haldinn 10. október 1871 í Reykjavík. Var þangað stefnt ýmsum vitnum, sem búsett voru í Mosfellssveit, Seltjarnarneshreppi og Reykjavík. Af þeim mættu Jón Jónsson í Lambhaga, Erlendur Þorsteinsson frá Hlaðgerðarkoti, Ólafur Ólafsson frá Hrólfsskála og Ásta Guðmundsdóttir í Reykjavík, fyrrum húsfreyja í Stardal.

Mosfellsheiði

Litla-Sauðafell – kort.

Vitnisburður eins [Kláusar] var svohljóðandi: Jeg undirskrifadur sem nú er Nálægt 67 ára gamall og hefi Búið hier i Mosfellssveit á 34da ár enn Borinn og barnfæddur í [í, tvítekið] Biskupstungumm í Árnessíslu hefi aldrei heirt annars gietið enn að Sísslumörk milli Árnes- og Kjosarsísslu væru á svokölldum Moldbrekkum Sem Sæluhúsid stendur á á Mosfellsheidi og vil ieg ennfremur gieta þess ad þegar firnemt sæluhús var bigt var jeg feingi enn til ad Flitja vid til uppgierdar þess af Jóni Sál. Stephensen á Korpúlfsstödum sem þá var Hreppstjóri hjer í Mosfellssveit og Sem í Sameiníngu med Kristjáni sál. á Skógarkoti í Þingvallasveit sá umm Biggíngu Hússins og eptir samkomulægie millumm Beggia firnemdra Hreppstjóra eptir ad þejr höfdu leitad þar um álíts Sveita og síslslubúa sinna lietu biggia þettad firnemda Sæluhús á Sísslu mörkumm þar sem Svokalladar Síssluvördur stódu á Svonemdumm Moldbrekkumm og vóru þessar Síssluvördur hafdar til ad biggia úr Sæluhúsið enfremur hef ieg heirt bædi fir og Sjdar ad svokalladar Þrívördur stædu á Næstu hæd firir utann svo nemda VilborgarKjeldu austast á Mosfellsheidi og [hef, yfirstrikað] hef jeg aldrei þekt og þekkje ekkie adrar Þrívördur enn þessar á Mosfellsheidi. Þennann vittnisburd minn gief ieg eptir bestu Þekkíngu og Samvisku hvurn jeg stadfesti med minni Eiginhandar undirskrift Blikastödum 20 November 1871. Kláus Bjarnason. Vidstaddir vottar Olafur Olafsson (á Ejdi) Jón Arnason.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – landamerkjavarða.

Lagðir voru fram ýmsir vitnisburðir um sýslumörk af hálfu verjanda: Ýmsir þeirra vörðuðu fyrst og fremst sýslumörk og eru færðir í þann kafla, þ.e. vitnisburðir Ingimundar Gíslasonar, Narfa Þorsteinssonar, Árna Björnssonar og Guðmundar Jakobssonar.
Björn Bjarnarson gaf eftirfarandi vitnisburð: Eg sem þetta ber: er á sextugs aldri og var á Þyngvöllum í 17 Ár og Heiðarbæ í 14 gef – að: skoðaðri Teiknun og lesnum Vitnisburðum – það sem eg veit nærst sanni. Götuna frá vegamótum, og að syðri þrívörðum lagði Ófeigur Jónsson á Heiðarbæ hana fór eg hana með honum fyrir 42 Árum, sýndi hann mér þá syðri þrívörður, sem hafa síðan staðið – framaní Kláfusi – norðan við götuna á avölum klapparhol sem hann kallaði Helluhól, sem nærst mitt á milli Sæluhúss og syðri Moldbrekkna sem hann sagði sýslumerki- sömuleiðis Þórsteinn Einarsson í Stíflisdal – á þessum moldbrekkum hefir allan þennan 42 Ára tíma staðið Varða og mun ekki langt frá línu þeirri sem dregin er milli Borgarhóla og Rjúpnagils.
Mosfellsheiði
Sýsluvörður á Moldbrekkum eistri, hefi eg aldrey séð, og egi fyrr heirt að Sæluhusið hafi verið biggt úr þeim, heldur á þessum stað: vegna einkennilegrar brúnar góðs grundvallar og vatnslindar sem opt rennur þar undan. Að sunnan vissi eg aldrey slegið austar, en um línu þá sem stefnir á Vífilfell. í Mosfells sókn var eg í 11 ár í fjögra Presta tíð sr. Magnusar Grímssonar sr. Jóhann Knúts – uppalins á Mosfelli sr. Þórðar Árnasonar þessir allir töluðu, um yrkingu Sauðafells flóa – að austan [hér er merkt við með x og neðan máls stendur: það er að skilja héðan]- en eingann klögunar anda fann eg í þeim, en séra Þorkeli fanst ser óþolanlega misboðið með slíkri yrkingu bar hann sem hinir þetta undir mig – sem einhvern þann grann kunnugasta sem kostur væri á en er eg ekk<i> gat rétt dansað eptir hans kröftugu pipu gat hann ekki brúkað mig. séra Þórður sál. sagðist „aungvan staf géta fundið fyrir: að Mosfell ætti land ofar en Bringurnar“ Rjúpnagil þikir mér ógreinilega teiknað og vantar neðri hluta þess ofan í Bugðu, svo efast eg um að stefnan úr Rjúpnagili þaðan sem hún er tekin úr því géti feingist bein um steininn í Húsið. Línan úr því í Borgarhóla er of laung móti þeirri í Steininum sem bendir á Vífilfell því holarnir eru of hallir við. Nesjum 3. September 1873 – Björn Bjarnarson.

Mosfellsheiði

Borgarhólar.

Við skoðun á Fellsendalandi, fól sr Steffan Ólafi heitnum Jónssyni að frammfylgja Skjali því sem frammburður hans og föður hans eru skráðir á, um um stefnuna úr Sæluhusi suðaustan við Borgarhóla, en standandi á: sauðafelli sagði hann – að mér og fleirri mönnum áheirandi: að sú stefna „hefði eingann stað“ og hann „gæfi sig með öllu frá henni“ Sami B.B.
Sækjandi málsins, Þórður Guðmundsson, sýslumaður, sem verið hafði sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu, sagði í sóknarskjali, 28. ágúst 1873: að í dómi hins konunglega Landsyfirréttar í málinu milli Þingvalla kirkju og Árna bónda Björnssonar á Fellsenda um eignarréttinn að Fellsenda landi, sem dæmt var þar 1859, stendur um þá framlögðu skýrslu Séra Stefans Þorvaldssonar af 5. Júli 1850 „að skýrsla þessi sé af engum reyngd, að hún sýni það að Landamerki Mosfells og Þingvalla kirkna liggi saman á hinu umrædda svæði“ nefnilega: um línu þá, sem dregin er úr Rjúpnagili yfir steininn austast á Sauðafelli í Moldbrekkur, hvar sæluhúsið stendur.
Í framhaldssókn, 3. október 1873, sagði sækjandinn, að bræðurnir Jón Jónsson í Lambhaga og Ólafur Jónsson á Hraðastöðum, fæddir í Laxnesi, hefðu sagt sér við skoðunargerð á sæluhúsinu á Mosfellsheiði árið 1841 að þar við við sæluhúsið næðu Mosfells og Þingvalla kirkna lönd saman, og það sama sagði Hreppstjóri J. B. Stephensen, og að sæluhúsið væri byggt í sýslumorkunum milli Kjósar- og Gullbringusýslu annars vegar, en Árness sýslu hins vegar.

Mosfellsheiði

Steyptur stöpull í Borgarhólum.

Á aðalfundi sýslunefndarinnar í Kjósarsýslu sem haldinn var í Hafnarfirði 28. mars 1912 var lögð fram beiðni prestsins í Mosfellsprestakalli um kaup á ábýlisjörð hans Mosfelli í Mosfellssveit. Hreppsnefndin falaðist einnig eftir kaupum á jörðinni sem hún taldi heppilega til almenningsafnota fyrir hreppinn t.d. sem upprekstrarland. Sýslunefndin taldi óheimilt að selja jörðina án sérstakra laga því hún væri eins og hreppsnefndin hafði tekið fram heppileg til almenningsafnota.
Samkvæmt gerðabók Mosfellshrepps 1908-1925 kom Mosfellsheiðarmál iðulega til umræðu á hrepps- og hreppsnefndarfundum líkt og rakið verður hér á eftir: Á hreppsfundi 10. júní 1911 var samþykkt að ganga að tilboði Mosfellsprests um að hreppsnefndin mætti óátalið láta smala heiðarland Mosfellskirkju þetta ár, en prestur tók jafnframt fram að hann leyfði ekki þar með upprekstur í landið. Á sama fundi var samþykkt áskorun á hreppsnefnd um að leitast við af ítrasta megni að hreppurinn nyti réttar síns viðvíkjandi „afréttarlöndum“ sem hreppurinn kynni að eiga en aðrir nú vildu eigna sér.
Á hreppsnefndarfundi 8. desember s.á. var samþykkt að reyna að fá Bringnaland keypt handa hreppnum sem upprekstrarland og helst allt heiðarlandið sem tilheyrði Mosfelli.
Fimmtánda júní 1912 kom fram á almennum hreppsfundi að spurst hefði verið fyrir um leigu á heiðarlandi Mosfells til upprekstrar. Var það fáanlegt til eins árs með skilyrðum og 75 kr. leigu. Felldi fundurinn tillöguna. Hins vegar leyfði prestur almennar smalamennskur á heiðarlandinu (væntanlega rúningssmalamennskur).

Mosfellsheiði

Landamerkjavarða í Moldarbrekkum.

Kaup á heiðarlandi Mosfells kom til umræðu á hreppsnefndarfundi 4. ágúst 1918 og á fundi 27. desember s.á. var ákveðið að leggja fyrir lögfræðing öll gögn, sem fyrir hendi væru um eignarheimild hreppsins á upprekstrarlandi og landamerki þess lands, og fá álit hans um hvað hægt væri að gera í því efni. Kaup á heiðarlandi Mosfells voru síðan til umræðu á hreppsnefndarfundi 22. júní 1919 og hreppsfundi 20. október 1922.
Í fasteignamatinu 1916-1918 er Mosfelli lýst ásamt Hittu. Þar kemur m.a. fram: Land ekki mikið heima, nægt gripum að sumri, nokkur vetrarbeit. … Kostir: Selland, afrétt og allmiklar slægjur í kirkjulandi á Mosfellsheiði. Í sama fasteignamati er talað um Mosfellskirkjuheiðarland (að frátöldum Bringum) sem sé norðurhluti Mosfellsheiðar. Landið er sagt vera sem „afrétt“ þó ekki sé goldið fyrir og að Mosfellshreppur láti smala það til rétta.
Þann 11. maí 1922 sendi hreppstjórinn í Mosfellshreppi fyrirspurn til Stjórnarráðsins varðandi land sem hin aflagða kirkja á Mosfelli ætti á norðanverðri Mosfellsheiði. Í bréfinu kom fram að tvær jarðir væru á þessu landi; býlið Mosfellsbringur og Mosfellsheiðarland sem stundum væri nýtt til slægna. Samkvæmt jarðabókinni frá 1861 væru þær innifaldar í mati Mosfells en í fasteignabókinni 1921 voru þær metnar hvor í sínu lagi og nú vildi hreppstjórinn vita hver ætti að hafa umsjón með þessum kirkjujörðum þannig að hann gæti áttað sig á því hver ætti að annast merkjagerð þar.

Bringur

(Mosfells-) Bringur 1968.

Fyrirspurnin var send biskupi og sendi hann dóms- og kirkjumálaráðuneytinu svarbréf 30. maí 1922. Þar lýsti biskup þeirri skoðun sinni að þar sem jarðirnar hefðu verið í mati Mosfellsprestseturs, eins og það var metið presti til tekna tveimur árum áður, þá væru þær í umsjón hans og þar með einnig merkjagerðin. Í bréfinu kom líka fram að biskupinn hefði aldrei heyrt [Mosfells]-bringur nefndar kirkjujörð fyrr en nú í bréfi hreppstjórans og ráðuneytisins. Í þeim matsgerðum sem hann hefði undir höndum væru Mosfellsbringur nefndar afbýli frá heimajörðinni. Því hefði það verið metið sem hluti prestsetursins. Að sögn biskupsins var það fasteignabókin nýja sem varð fyrst til þess að gera þetta kot að sjálfstæðri jörð. Hreppstjórinn hafi síðan gert úr því kirkjujörð.
Eftir að ráðuneytinu hafði borist þetta bréf sendi það, þann 10. júlí 1922, hreppstjóranum úrskurð sinn. Hann var á þá leið að kirkjuheiðarlandið á Mosfellsheiði og [Mosfells]-bringur skyldu vera í umsjá sóknarprestsins að Mosfelli sem bæri þar með að annast gerð jarðarmerkja.
Mosfell
Á seinni hluta 3. áratugarins fór hreppsnefnd Mosfellshrepps þess á leit við 2. þingmann Gullbringu- og Kjósarsýslu að hann flytti frumvarp um sölu Mosfellsheiðarlands á Alþingi. Að baki lá brýn nauðsyn hreppsins að fá meira „afréttarland“ til eignar og umráða. Þingmaðurinn samdi frumvarp og leitaði umsagnar Hálfdanar Helgasonar prests og ábúanda Mosfells á því. Hann taldi sig verða fyrir talsverðum tekjumissi yrði það að lögum því að hann hefði, eins og fyrri ábúendur Mosfells, leigt bæði innnan- og utansveitarmönnum nokkuð af heiðarlandinu til slægna og átti hann von á því að þær tekjur myndu aukast í framtíðinni. En þar sem að 2. grein frumvarpsins mælti fyrir um að andvirði sölunnar yrði varið til að rækta upp heimajörðina þá taldi hann sér tekjumissinn bættan og lagði blessun sína yfir frumvarpið.

Mosfellsheiði

Varða á Mosfellsheiði.

Frumvarpið fór næst fyrir allsherjarnefnd sem var mótfallin sölunni því að jörðin væri bæði landlítil til beitar og útheysslægnalaus heima fyrir og því hætt við að salan myndi rýra ábúðarhæfi jarðarinnar. Þrátt fyrir aukna ræktun heimajarðarinnar sem myndi með tíð og tíma auka heyaflann þá myndi jörðina skorta beitiland vegna landleysis. Um afarlangt skeið hefði heyja verið aflað í umræddu landi og að auki væri það aðalbeitiland jarðarinnar. Í heiðarlandinu væri sauðfé Mosfellsbóndans haldið árið um kring og þaðan hefði aðalútheyskap jarðarinnar verið aflað. Er stórbú var á Mosfelli var mikilla heyja aflað þaðan og séu slægnanot enn mikil þó aðrir en ábúandinn færi þau sér til nytja.

Sýslusteinn

Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.

Einnig benti nefndin á að Víðirinn, sem væri aðalgraslendið heima fyrir, hefði verið plægður og væri nú flag eitt. Búið væri að selja hluta af honum og frekari sala fyrirhuguð og því væri graslendi jarðarinnar heima orðið afar lítið. Í heiðarlandinu fengi sauðfénaður sveitarmanna að ganga óáreittur og því lítil ástæða fyrir hreppsnefndina að eignast landið enda hefði henni til skamms tíma ekki þótt það nauðsynlegt og talið sveitina vel komast af án þess. Svo fór þó að lokum að frumvarpið var samþykkt og var það afgreitt frá efri deild Alþingis þann 19. maí 1927.
Þann 31. maí 1927 samþykkti Kristján konungur X. lög um sölu á nokkrum hluta úr kirkjueigninni Mosfellsheiðarlandi. Undanskilið sölunni var svonefnt Jónssel en kaupverðinu skyldi varið til ræktunar heimajarðar prestsetursins Mosfells.

Mosfellsheiði

Á Mosfellsheiði 1836.

Í kjölfar þess að yfirvöld fengu heimild til að selja Mosfellshreppi hluta Mosfellsheiðarlands, nánar tiltekið 30. júlí 1927, skrifaði oddviti hreppsins Stjórnarráðinu bréf þar sem hann hvatti það til þess að nýta sér söluheimildina. Stuttu síðar létu yfirvöld meta landsvæðið og töldu matsmenn það að allmiklu leyti gróðurlítið heiðarland en að nokkru leyti mýrar og valllendisbrekkur. Einnig leituðu þau umsagnar prestsins á Mosfelli um söluna. Í bréfi dagsettu 18. janúar 1928 samþykkti Mosfellsprestur hana með því skilyrði að andvirðið yrði nýtt til að bæta heimajörðina.447 Einnig kom fram í bréfinu að prestur teldi að hjáleigan Mosfellsbringur væri undanþegin sölunni.
Ekkert varð af sölunni að þessu sinni en þann 29. desember 1932 báðu yfirvöld Mosfellsprest á ný um að veita ýmsar upplýsingar vegna hugsanlegrar sölu landsvæðisins. Presturinn sendi svarbréf þann 7. febrúar 1933 þar sem fram kom að hann væri sem fyrr samþykkur sölu landsins, með skilyrðum þó. Í fyrsta lagi vildi hann fá ákveðin hitaveitu- og leiguréttindi. Hann vildi líka fá staðfestingu þess að landið yrði notað sem upprekstrarland. Einnig krafðist hann þess að undanskilið sölunni yrðu Jónssel, Mosfellsbringur og veiðirétturinn í Leirvogsvatni og hluta Leirvogsár.

Mosfellsheiði

Gluggvarða.

Í bréfinu kom einnig fram að presturinn hefði reynt að afla sér gagna um landamerki heiðarlandsins. Þau fara hér á eftir: Landamerkin að norðaustan, austan og sunnan eru þessi, að því er Björn Bjarnarson, hreppsstjóri Mosfellshrepps hefir skýrt mér frá: Stefna úr gljúfrinu í Rjúpnagili í sýslustein austanhalt á há – Sauðafelli. Þaðan úr sýslusteini í sæluhústóftina á Vestri – Moldbrekkum og þaðan úr sæluhústóftinni beina stefnu í vörðu á Stóra – Hnúk á Grímmannsfelli. Ræður sú stefna alt að ánni niður að Hraðastaðamörkum. Að norðan ræður svo Leirvogsá mörkum en að vestan Skeggjastaðir, Jónssel og grasbýlið Mosfellsbringur.
Samkvæmt Mosfellspresti var ágreiningur um landamerki milli Skeggjastaða og heiðarlandsins í svonefndum Neðri-Sogum. Bóndinn í Laxnesi, Einar Björnsson, sem eitt sinn bjó á Skeggjastöðum, hafði sagt prestinum að hann teldi landamerkin að sunnan þessi: Úr skógarvörðu á Skógarbringum í Klofningsstein á Langahrygg í Ríp norðan Leirvogár.

Jónssel

Jónssel.

Í bréfi sem oddviti hreppsnefndar Mosfellshrepps sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytinu þann 1. mars 1954 grennslaðist hann fyrir um afstöðu ráðuneytisins til stofnunar nýbýlis í Mosfellsheiðarlandi. Ráðuneytið sendi hreppsnefnd Mosfellshrepps svarbréf 6. júlí 1954. Þar kom fram að það vilji leyfa, þrátt fyrir ákvæði samnings frá 24. maí 1933 um að heiðarlandið yrði aðeins notað sem beitiland, að þar yrði reist nýbýli í svokölluðum Neðri Sogum. Sú krafa var gerð af hálfu ráðuneytisins að land nýbýlisins yrði aðeins nýtt til ræktunar og því eigi látið fylgja annað land en slíkt nema ef nauðsyn kræfi. Í bréfinu kemur einnig fram að ráðuneytið fallist á lítilsháttar landskipti við jörðina Seljabrekku til hagræðis við setningu landamerkja milli nýbýlisins og Seljabrekku. Þar stendur einnig að ókeypis upprekstur frá Mosfelli og Svanastöðum, sem fjallað sé um í samningnum frá 24. maí 1933, nái, þegar nýbýlið hefur verið stofnað, ekki lengur til lands þess sem býlinu verði úthlutað.

Stardalur

Stardalur.

Hitaveita Reykjavíkur keypti öll jarðhitaréttindi í Mosfellsheiðarlandi Mosfellshrepps með kaupsamningi 12. nóvember 1955. Vísað er þannig til landsins í samningnum: Allt land heiðarinnar, sem hreppurinn hefir öðlast eignarrétt og umráðarétt á.
E.J. Stardal kemur inn á heiti Mosfellsheiðar í grein frá árinu 1985 og segir: Heiti þessa mikla heiðarfláka, Mosfellsheiði, virðist dálítið langsótt, því þetta svæði skiptist milli tveggja sýslna og fjögurra hreppa, en Mosfellið, sem það er kennt við sem heild, er lítið fell á mörkum Kjalarnesshrepps og Mosfellssveitar, alllangt vestan við ystu heiðarsporðana. En sú er orsök þessarar nafngiftar að kirkjujörðin Mosfellsstaður átti á sínum tíma miklar lendur upp af Mosfellsdal sem náðu yfir mikinn hluta heiðarinnar austur að sýslumörkum Kjósarsýslu og Árnessýslu og að hreppamörkum Kjalarness-, Þingvalla- og Grafningshrepps um leið. Um þennan hluta heiðarinnar lágu hinar fornu ferðamannaleiðir milli Faxaflóabyggða að vestanverðu og uppsveita Árnessýslu að austanverðu og þannig hefur nafngiftin orðið til.
Um heyskap á Mosfellsheiði nálægt Sauðafellslæk ræðir E.J. Stardal stuttlega í sömu grein: Heiðin er grösug á þessu svæði, einkum við jaðarinn og víða stórir mýrarflákar með holtum á milli. Sóttu menn heyskap þangað úr Mosfellssveit fyrr meir, jafnvel alla leið úr Reykjavík, þótt langur engjavegur væri.

Mosfellsheiði

Litla-Sauðafell og nágrenni – loftmynd.

Árið 1991 var birt auglýsing um staðfestingu félagsmálaráðuneytisins á samkomulagi um mörk á Mosfellsheiði milli Ölfushrepps og Grafningshrepps annars vegar og Mosfellsbæjar og Miðdals I í Mosfellsbæ hins vegar á grundvelli landamerkjabréfs frá 23. janúar 1991. Mörkum er lýst þannig:
1. gr. Mörk milli Grafningshrepps og Ölfushrepps annars vegar og Mosfellsbæjar og jarðarinnar Miðdals I hins vegar eru bein lína frá Sæluhústótt á Moldbrekkum í steyptan stöpul á Borgarhólum, þaðan bein lína í Sýsluþúfu, þaðan bein lína í Sýslustein austan Lyklafells, og þaðan bein lína í steyptan stöpul hæst á Vífilsfelli.
Undirritaðir aðilar eru sammála um það að ofangreind merki séu rétt túlkun merkja í eldri landamerkjabréfum um þessi mörk.
2. gr. Sveitarfélagamörk Grafningshrepps og Ölfushrepps annar vegar og Mosfellsbæjar hins vegar eru þau sömu og greind eru í 1. gr.

Mosfellsheiði

Borgarhólar – loftmynd.

Fylgdi uppdráttur af mörkunum sem fylgiskjal I, en í fylgiskjali II, sem var yfirlýsing samningsaðila, 23. janúar 1991, segir að mörkin teldust ekki endanlega staðfest fyrr en Kópavogskaupstaður, Reykjavíkurborg og Seltjarnarneskaupstaður hefðu samþykkt þau eða eins og þar segir: Undirritaðir aðilar … sem undirritað hafa í dag landsmerkjabréf um mörk á Mosfellsheiði frá Sæluhússtótt á Moldbrekkum í norðri í Vífilsfell í suðri lýsa því hér með yfir að mörk í téðu landamerkjabréfi frá Sýslusteini austan Lyklafells í Vífilsfell teljast ekki endanlega staðfest fyrr en þeir aðilar aðrir en Mosfellsbær sem telja sig eiga lögsögu og/eða eiganarrétt að þeim mörkum þ.e. Kópavogskaupstaður, Reykjavíkurborg og Seltjarnarneskaupstaður hafa fallist á mörk þessi fyrir sitt leyti.
Mosfellsbær telur þau mörk sem um getur í landamerkjabréfinu í heild vera mörk lögsagnarumdæmis bæjarfélagsins, en er kunnugt um að ofangreind sveitarfélög eru ekki sammála þeirri afstöðu, hvað varðar mörk frá Sýslusteini au<s>tan Lyklafells í Vífilsfell.

Mosfellssveit

Mosfellssveit og Mosfellsheiði – mörk (rauð heil lína) 2022.

Bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi og borgarstjórinn í Reykjavík féllust á merkin með yfirlýsingu 30. janúar s.á. en mótmæltu lögsögu og/eða eignarrétti Mosfellsbæjar á landi vestan við mörkin. Bæjarstjórinn í Kópavogi féllst einnig á merkin með yfirlýsingu 6. mars s.á. en mótmælti kröfum um lögsögu og/eða eignarrétt Mosfellsbæjar og Reykjavíkurborgar svo og lögsögu Seltjarnarneskaupstaðar á landinu vestan við mörkin.”

Heimild:
-https://obyggdanefnd.is/wp-content/uploads/04_2004-2_urskurdur.pdf
-Kort úr Árbók FÍ 2019 um Mosfellsheiði.

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði.

Mosfellsbær

Í Sunnudagsblaðinu árið 1957 er sagt frá “Hrakningum á Mosfellsheiði fyrir einni öld“:

“Fyrir réttum hundrað árum, eða 6. marz 1957, lögðu fjórtán menn upp á Mosfellsheiði frá Þingvöllum og Vatnskoti og ætluðu þeir til sjóróðra hér syðra. Þegar þeir höfðu skammt farið skall á stórhríð, og urðu sex af mönnum þessum úti, en hinir komust við illan leik til bæja, aðframkomnir af þreytu, kulda og vosbúð.

Mosfellsheiði

Leirvogsvatn og nágrenni.

Frá atburði þessum er skýrt í Þjóðólfi 18. apríl 1857, og er þar birt skýrsla séra Magnúsar Grímssonar á Mosfelli um hrakninga mannanna. Fer hér á eftir skýrsla séra Magnúsar Grímssonar um þennan atburð, on hún ber yfirskriftina: “Skýrsla um hrakning og harðar farir hinna 14 sjóróðrarmanna er lögðu vestur á Mosfellsheiði 6. f.m.” — í skýrslu þessari eru að vísu ekki nafngreindir nema 13 menn.
Laugardaginn 6. marzmán. lögðu upp frá Þingvöllum og Vatnskoti, suður á leið á Mosfellsheiði, þessir menn: Egill Jónsson, bóndi á Hiálmsstöðum, Ísak bóndi á Útey. Þiðrik Þórðarson, vinnumaður á Útey, Guðmundur Pálsson bóndi á Hjálmsstöðum, Bjarni Bjarnason, vinnumaður úr Austurey, Gísli Jónsson, vinnumaður á Snorrastöðum, Jón Sigurðsson á Ketilvöllum — allir úr Miðdalssókn; úr Úthlíðarsókn: Einar Þórðarson, vinnumaður á Austurhlíð, Kristján Snorrason, vinnumaður á Anarholti, Sveinn Þorsteinsson, vinnumaður á Strillu; úr Haukadalssókn: Pétur Einarsson Jónsen og Guðmundur Jónsson vinnumenn á Múla; úr Torfastaðasókn Þorsteinn Guðmundsson, bóndason frá Kervatnsstöðum.

Mosfellsheiði

Leirvogsvatn og nágrenni.

Lögðu allir þessir 14 menn saman á heiðina og fóru frá Kárastöðum í Þingvallasveit um dagmál, í logni og sokkabandsdjúpri lausamjöll. Héldu þeir síðan áfram og voru vissir um að vera óvilltir út að Þrívörðum. Úr því kom í Vilborgarkeldu, fengu þeir langan skafrenning vel ratljósan, en skall á með þreifandi bil á norðan, eða útnorðan, við Þrívörður. Ætluðu þeir þá að hitta sæluhúsið, en gátu ekki. Vissu þeir nú ekki hvar þeir voru, en héldu þó áfram nokkuð, Oft ætluðu sig komna suður undir Gullbringur. En af því þeir voru þá orðnir villtir og þreyttir, staðnæmdust þeir þar á flatri fönn, skjóllausri, og héldu þá vera um nón. Með ófærðinni tafði það ferð þeirra á heiðinni, að sumir fóru svo fljótt að gefast upp; Guðmundur Pálsson á Hjálmsstöðum gafst fyrst upp, þegar fyrir utan Moldbrekku, af máttleysi og fótakulda. Var þá enginn svo fær að geta borið bagga hins að neinum mun, nema Sveinn, sem bar hann mikið af leið. Hinir voru þá og að smá gefast upp: urðu við það biðir á og dvalir, sem mest olli því, að þeir týndu áttunum og villtust.

Þrívörður

Þrívörður – a.m.k. ein þeirra.

Þegar um kyrrt var sezt, stóðu þeir fyrst lengi, og væntu að lygna myndi veðrið og batna, en þegar það varð ekki, fóru flestir til og grófu sig niður í fönnna, og skýldu að sér með farangrinum. Um dagsetursbil um kvöldið héldu þeir að Þorsteinn frá Kvervatnsstöðum mundi hafa dáið í fönninni af kulda og þreytu. Flestir munu hafa sofnað; aldrei þó Guðmundur, og Pétur varla neitt. Að áliðinni nóttu var farið að reka þá á fætur, sem í fönninni lágu, og gekk Pétur bezt fram í því að grafa þá upp sem mest voru fenntir og dýpst lágu, og ekki voru sjálfbjarga. Kól hann þá og skemmdist á höndum, og allir þeir, sem að þessu voru með honum. Þegar allir voru komnir upp úr fönninni, nema Þorsteinn, gátu þeir staðið með veikan mátt sumir, og fóru þá að detta niður og urðu ekki reistir upp. Voru þeir frískari þá lengi að stumra yfir hinum, sem ekki gátu bjargað sér, þangað til loks að 9 tóku sig til að fara af stað og leita byggða, en vera ekki lengur yfir hinum 5, er þeir sáu þá ekkert lífsmark með. Þeir, sem hér urðu eftir við farangurinn, voru þeir: Þorsteinn, Egill, Ísak, Jón og Þiðrik.

Illaklif

Illaklif – hellisskjól.

Eftir að þeir höfðu lengi gengið eitthvað áfram í villunni, dó Guðmundur frá Múla í höndunum á þeim. Varð þá enn staða og töf, er þeir Pétur voru að stumra yfir honum og reyna að koma honum með sér áleiðis. Þá tóku sig 5 frá og komust við veikan mátt ofan að Gullbringum til Jóhannesar Jónssonar Lúnd. Var þá enginn þeirra svo fær, að geta staðið upp hjálparlaust, þegar þeir duttu. Jóhannes tók þeim, sem föng voru á. Þegar hann frétti hvað um var, hljóp hann þegar, er hann hafði hjálpað þessum 5 úr fötunum, móti þeim 3, sem eftir voru: Pétri, Einari og Gísla á Snorrastöðum. Gekk. hann þá í braut þessara 5 inn á Geldingatjarnarhæðir, og tafðist honum að finna mennina bæði sökum kafalds, og þess, að þeir voru komnir í aðra átt en hann vænti, eftir brautinni. Loks kom hann auga á þá niður með Geldingatjarnarlæk. Stefndu þeir þá suður beint um austurhalann á Grímsmannsfelli. — Voru þeir þá mjög af sér komnir, er Jóhannes kom til þeirra, og varð hann að ganga undir Pétri heim til sín.

Illaklif

Illaklif – varða.

Af þeim 8, sem til Jóhannesar komust var Pétur lakast á sig kominn, hann var rænulaus þegar í bæinn kom, og þekkti þá ekki lagsmenn sína. Hjálpaði Jóhannes nú þessum úr fötunum, og setti þá niður í vatn og snjó að þörfum, og veitti þeim allan beina, sem hann gat. Að því búnu fór hann þegar ofan til bæja að fá menn og hesta, sem þurfti.
Um eða undir hálfbirtu á sunnudagsmorguninn lögðu mennirnir af stað þaðan sem þeir lágu um nóttina. Kl. nálega 6 komust þeir 5 til Jóhannesar, en kl. hér um bil 10 hinir 3, sem hann sótti, að því er hann segir sjálfur, en um hádegið kom hann ofan að Mosfelli.

Gamli Þingvallavegur

Sæluhúsið norðan við Þrívörður.

Allan þennan tíma, sem mennirnir voru á heiðinni, frá Þrívörðum, var hörku kafalsbilur með brunafrosti og ofsalegum vindi. Á laugardaginn sá lengi fram eftir öðru hverju til sólar, og til dags sást á sunnudagsmorguninn, þegar dagur var nokkuð hátt á loft kominn, en batnaði það, að ratljóst varð á heiðinni fram úr dagmálum. Síðan batnaði veðrið alltaf, og gjörði gott veður, nærri kafaldslaust og lygnt, fram úr hádeginu.
Undir miðmunda á sunnudag voru 8 manns neðan úr Mosfellsdalnum komnir með Jóhannesi upp í Gullbringur með 7 hesta, og þurr klæði til að sækja mennina, er þar voru. Voru þá þegar fluttir þaðan 6. Sveinn og Gísli voru langminnst kaldir; Sveinn varla neitt, Gísli helzt á kinn og eyra. Bjarni og Guðmundur þóttu ekki flutningsfærir og voru kyrrir um nóttina á Gullbringu. Á mánudaginn voru þeir fluttir til byggða.”

Gluggavarða

Gluggvarðan á gömlu leiðinni um Mosfellsheiðina.

Séra Magnús Grímsson skýrir því næst frá því í niðurlagi skýrslu sinnar að 3 Mosfellsdalsmenn hafi þegar á sunnudaginn verið sendir með duglega hesta frá Gullbringum til að finna hina látnu og farangurinn, að þeir hafi brátt “fundið lík Guðmundar frá Múla skammt frá Smalaskála hinum eystri”, þar næst hafi þeir fundið Ísak nokkru norðar „með mjög litlu lífsmarki; fluttu þeir hann strax að Stardal, því þangað var skemmst, en hann dó á leiðinni og varð ekki lífgaður”; því næst sneru þeir 3 byggðarmanna aftur upp á heiðina og fundu þá „farangurinn og hina fjóra mennina sunnan til við Leiruvogsvatn í Lómatjarnarlæk. Höfðu þeir lagzt rétt í lækinn”. Jón frá Ketilsvöllum var þá enn með lífsmarki, og „fluttu þeir hann að Stardal, en hann dó á leiðinni og var ekki lífgaður.”
— Séra M.G. skýrir loks frá hversu allar tilraunir hafi verið við hafðar eítir réttum lækna reglum til að meðhöndla líkin og reyna að kveikja aftur líf með með þeim — og frá greftrun þeirra.”

Heimild:
-Sunnudagsblaðið, 9. tbl. 03.03.1957, Hrakningar á Mosfellsheiði fyrir einni öld, bls. 129-130.

Bringur

Bringur – tóftir bæjarins.

Öxarárfoss

Í Eimreiðinni árið 1922 er grein eftir Dr. Louis Westerna Sambon um Þingvallaför hans:

Dr. Louis Westenra Sambon fæddist á Ítalíu (1871?), af frönskum, ítölskum, enskum og dönskum ættum. Faðir hans var franskur í föðurætt, en ítalskur í móðurætt. Móðir hans var ensk, skyld skáldinu Charles Dickens og komin af hinum fræga danska siglingamanni, Vitus Bering. Faðir hans, er barðist sem fríliði í her Qaribaldi, var frægur fornfræðingur, einkum myntfræðingur.
Louis lést 30. águst 1931 (63 ára).

“Þriðjudag 28. júní. — Klukkan rúmlega níu, leggur löng bifreiðalest af stað úr Reykjavík til Þingvalla með konungsfólkið og um hundrað gesti. Meðal gestanna eru yfirvöldin á staðnum, prófessorar háskólans og allmargir blaðamenn.

Louis Westenra Sambon

Þingvallavegurinn er vel kunnur. Hann liggur til suðausturs um ófrjótt og grýtt ölduland, yfir Elliðaárnar, fræga laxelfi, rétt ofan við ósana, stígur svo smámsaman í tvö hundruð og tuttugu feta hæð yfir sjávarmál, liggur um vesturbakka Rauðavatns og þaðan nálega samhliða Hólmsá upp að Geithálsi. Hólmsá rennur í Elliðaárnar og líður í bragðfögrum bugðum fram með Rauðhólum, þyrpingu rauðra og svartra smágíga, er minna á forngrísk skapker, steind rauðum og svörtum myndum. Þessa stundina speglar Hólmsá algrátt loftið og er sem gjörð úr skygðu stáli um hraunhólana. Allt er svæðið skolbrúnt eða hnotbrúnt yfirlits, með óreglulegum flekkjum hér og þar af rauðbrúnu gjallkenndu hrauni og grænleitum engjum, drifnum ótali frostalinna þúfna. Í þúfunum eru hvítar, mórauðar og svartar kindur í ró að kroppa hýjunginn. Kringum hina strjálu bæi eru skýrt afmarkaðar, fagurgrænar flatir. Það eru túnin, sem gefa af sér töðuna, vetrarfóðrið handa kúnum. Alt hitt er grjót, hrúgald af hraunhellum og -molum á víð og dreif, af hvers konar stærð og lögun. Átakanlega ófrjótt, grátt og eyðilegt, og þó er þessi grjótauðn svipmikil og full af fegurð. Klettarnir eru ýmist flekkóttir af skófum eða í mosareifi. Á milli steinanna og í hraungjótunum vaxa burknar og blómjurtir. Stór svæði eru þakin lágvöxnu, silfruðu birki- og víðikjarri svo þjettu sem þófi væri, eða purpurábreiðu af sauðamerg (Loiseleuria poocumbens). Túnið þakið sóleyjum glóir sem gullþynna. Stórir skúfar af rjómalitum rósum — hinum elskulegu holtasóleyjum (Dryas octopetala), skína í svartri umgerð veðurbitinna kletta: Á víð og dreif um ömurlegustu auðnir glitra smaragðlifar mosalegar þúfur af lambagrasi, settar rúbínrauðum stjörnum. Þessar blómperlur eru gleðin síunga. Á vinstri hönd er Esjan, verndarvættur Reykjavíkur, mikið fjall krýnt björtum skýjabólstrum; hlíðarnar eru með fönnum, sóldílum og skýjaskuggum. Framundan rísa þrír tindar úr mistrinu. Það eru Móskarðshnúkar og Skálafell og líta út sem vofur í snjóhempunum.

Louis Westerba Sambon

Louis Westenra Sambon á Íslandi.

Við Geitháls skiftist vegurinn í tvær álmur. Vér förum þar til vinstri, í norð-austlæga stefnu, og komum nú brátt inn á milli margra smávatna og tjarna. Við Krókatjörn komum vér auga á bifreiðalestina okkar löngu, fulla af prúðbúnum körlum og konum, háværum og glaðværum. Vér förum fram hjá tveimur biluðum bifreiðum og tökum strandaðan farþega: Það var vitamálastjórinn.
Vér erum nú á heljarvíðu hringsviði. Veggir og sæti eru fjöll, áhorfendur ský, leikvöllurinn hraunbreiða, skylmingamennirnir hundraðhentir risar, og munda sumir logasverð, en sumir í ísbrynjum. Blýgrátt og drungalegt loftið dregur mjög úr litunum á landinu. Mest ber á dökkgráum og dumbungslitum. En hvað þetta litskrúðsleysi er þó áhrifamikið þrátt fyrir allt! Með höfuðskeljastaðinn Skálafell frammi fyrir oss og regnskýin yfir höfðum vorum, minnumst vér »Krossfestingarinnar« eftir Vandyke og »Syndaflóðsins« eftir Poussin, tveggja meistaraverka þar sem grálitunum hefir verið beitt af mikilli snild. Í bröttum hlíðum og gljúfrum fjallanna liggja fannir og breðar, ömurlega ataðir eldfjallaösku.

Konungsvegur

Vér erum nú að fara upp Mosfellsheiði, sem er víðáttumikil auðn, yfirlits eins og grjótnáma og öll úr gjallmylsnu og hraungrjóti í kynlegustu myndum. Klettarnir eru flekkóttir af krabbalegum skófum, hvítum, svörtum, bronsgrænum, dúfulitum, og alstaðar eru, eins og njarðarvettir á kóralrifi, mjúkir grænir koddar af lambagrasi, þar sem urmull af purpurarauðum blómum glóir eins og hin stjörnumynduðu dýr á kóralgrein. Sauðfé er einkennilega sólgið í þessa jurt. Meira að segja fór svo, að þegar nokkrar kindur voru fluttar til einnar af Farne-eyjunum, þá varð það til þess að fálkapungurinn (Silene maritima), náskyld tegund, varð nálega upprætt þar, og höfðu þó hinar grænu og ljósrauðu breiður hans lengi verið einkennileg prýði á eynni.
Hér um bil miðja vega á heiðinni nemum vér staðar við tvö stór tjöld, er þar höfðu verið reist, og förum úr vögnunum til að fá oss hressingu. Ég tek í höndina á franska ræðismanninum, borgarstjóranum í Reykjavík, rektor háskólans, landlækninum, og er nafngreindur fyrir öðrum gestum. Konungurinn gengur um og býður kvenfólkinu Dourneville súkkulað. Hann heilsar mér á frönsku og gefur mér það seinasta af sælgætinu. Ég sting því í vasa minn hjá kæru bréfi, rituðu í flýti, og getur verið að bréfritarinn fái að flytja hin konunglegu sætindi úr purpurapappírnum og silfurþynnunni að rauðum vörum og perlutönnum.

Þingvallavegur

Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Vér erum nú að fara upp Mosfellsheiði, sem er víðáttumikil auðn, yfirlits eins og grjótnáma og öll úr gjallmylsnu og hraungrjóti í kynlegustu myndum. Klettarnir eru flekkóttir af krabbalegum skófum, hvítum, svörtum, bronsgrænum, dúfulitum, og alstaðar eru, eins og njarðarvettir á kóralrifi, mjúkir grænir koddar af lambagrasi, þar sem urmull af purpurarauðum blómum glóir eins og hin stjörnumynduðu dýr á kóralgrein. Sauðfé er einkennilega sólgið í þessa jurt. Meira að segja fór svo, að þegar nokkrar kindur voru fluttar til einnar af Farne-eyjunum, þá varð það til þess að fálkapungurinn (Silene maritima), náskyld tegund, varð nálega upprætt þar, og höfðu þó hinar grænu og ljósrauðu breiður hans lengi verið einkennileg prýði á eynni.
Hér um bil miðja vega á heiðinni nemum vér staðar við tvö stór tjöld, er þar höfðu verið reist, og förum úr vögnunum til að fá oss hressingu. Ég tek í höndina á franska ræðismanninum, borgarstjóranum í Reykjavík, rektor háskólans, landlækninum, og er nafngreindur fyrir öðrum gestum. Konungurinn gengur um og býður kvenfólkinu Dourneville súkkulað. Hann heilsar mér á frönsku og gefur mér það seinasta af sælgætinu. Ég sting því í vasa minn hjá kæru bréfi, rituðu í flýti, og getur verið að bréfritarinn fái að flytja hin konunglegu sætindi úr purpurapappírnum og silfurþynnunni að rauðum vörum og perlutönnum.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – ræsi.

Vér hverfum aftur til vagnanna og ökum áfram yfir eyðilega og tilbreytingarlausa heiðina. Ömurleikinn alt umhverfis er ógurlegur; þögnin er sem farg; ekkert hreyfist í hrauninu; ekkert bærist í loftinu, ekkert heyrist nema vagnahljóðið og skraf og hlátur samferðamannanna; og þó ber sjónarsviðið von um æðistryltan orraleik: haf í uppnámi storknað í stein, and í flogateygjum fyrir einhverju ógnarafli. Væri ekki víðáttan; gæti þessi grjótauðn vel verið mynd af þeirri stundu opunarinnar þegar óskapnaðurinn var að taka á sig lögun heimsins okkar, höggvin í basalt af voldugum hamri Einars Jónssonar.
Meðfram veginum á hægri hönd hafa stórar steinvörður verið reistar, til að vísa ferðamönnum veg, þegar landið er undir snjó. Aflangur steinn skagar út úr vörðunni ofanverðri og bendir á veginn. Mér er sagt að hrafnar, sem nú eru farnir til að boða komu konungsins, sitji altaf á þessum fingravörðum, og fari hin prestlega fjaðrahempa þeirra vel við svartar vörðurnar. Þarna sitja þeir, blaka vængjum, krunka, gala og bomsa. Heimildarmaður minn segir: »Þeir virðast altaf vera rétt komnir að því að vitna í ritninguna«. Honum skjátlast: Þessir »ljótu, leiðu, myrku, mögru, mösknu-fuglar eða djöflar« hafa altaf hugann á holdlegum efnum og eru að harma fornar hryðjualdir vígamanna og ræningja, þegar nóg var af manna- og nautaslátri. Það er því ekki furða þó viðkvæði þeirra sé: »Aldrei, aldrei meir!«

Þingvallavegur

Brú á gamla Þingvallaveginum.

Vér erum nú komnir á heiðina þar sem hún er hæst (1222 fet yfir sjávarmál) og veginum fer að halla ofan í móti. Útsýnið fram undan er ljómandi, því að nú er að birta yfir. Umhverfis eru öldumynduð bláfjöll, með smágerðum snjóhniplingum. Hæsti tindur í sólfáðri fjallaröðinni á hægri hlið vora, eru hinar snæviþöktu Súlur, 3571 fet yfir sjávarflöt. Sum fjöllin til vinstri handar, ljósgul að lit, eru stórir líparítpýramídar.
Vér förum fram hjá dálitlu steinskýli (sæluhúsi), þar sem ferðamenn, þegar snögglega brestur á, geta leitað sér hælis og fundið ekki aðeins skýli, heldur og eldsneyti, vatn og fæði að því er mér er sagt. Margur kaldur, þreyttur, fannbarinn ferðalangur hefir átt þessum sæluhúsum lífið að launa. Þó hefir það borið við, að menn hafa fundist helfrosnir innan veggja þeirra, er þeir náðu þangað of seint og voru orðnir of dasaðir og sljóvir til að færa sér hressingu og eldsneyti í nyt; aðrir, er voru að ná sér, og þó enn með óráði, þóttust heyra marra í snjónum undan hestum, er væru að skjögra að kofanum, og hottið í aðframkomnum mönnum, hásum af kulda og þreytu. Sumir hafa séð menn, sem ekki voru þarna. Magnaðar draugasögur eru til um það, að í grenjandi blindösku byljum, sem hverjum manni er ólíft úti í, komi stundum náfölar vofur ríðandi að sæluhúsi, til að nema þaðan hvern þann, er þar kynni að hafa leitað skjóls, en gleymt guði sínum:

Hann sendir orð sitt til jarðar,
boö hans hleypur með hraða.
Hann gefur snjó eins og ull,
stráir út hrími sem ösku.
Hann sendir hagl sitt sem brauðmola;
hver fær sfaðist frost hans?
Sálm. 47., 15.—17. v.

Konungsvegur

Sæluhúsið við Þingvallaveginn á Mosfellsheiði.

Þegar lengra kemur, förum vér fram hjá smátjörnum nokkurum, og komum nú sem snöggvast auga á blett af Þingvallavatni, eins og í hillingu, mjóa rák af skínandi safírbláma. Þungbrýndu ólundarskýin, sem sátu á fjallatindunum, hafa hjaðnað burt, aðeins fáeinir dúnmjúkir skýjahnoðrar svífa um silkifölblátt loftið, niður við sjóndeildarhringinn, og gætu vel sýnst svanir á flugi. Bláminn er dýpri uppi í hvolfinu, en vatnsbláminn er sterkari og gagnsærri, skærari en himinbláminn. Það er dásamlegur blámi, sem ekki verður með orðum lýst.
Bifreiðarnar okkar þeysa nú eftir veginum, hver rétt á eftir annari, sem færi þar eimlest með fullhraða, og þyrla upp gulum rykmökkum. Vér förum fram hjá hóp söðlaðra hesta, er standa við veginn. Á tveimur eru kvensöðlar með purpurarauðu silkiflossæti og söðulboga. Vér förum fram úr mörgum fótgöngumönnum og hjólamönnum, sem allir eru á leinni til Þingvalla. Vatnið kemur aftur í augsýn, hinn laðandi bláflötur þess ljómar í sólskininu eins og biflaust, seiðandi afarauga. Lækur með sama fágæta blámanum, Torfdalslækurinn, rennur sína leið á vinstri hönd við oss. Hver minsta gára er fagurbláma safíra. En hve fjöllin handan við vatnið skýr og sýnast nærri, séð gegnum undurskært loftið! Hver gróf og geiri sést, svo skýrt sem í sjónauka væri. Mógulur vegurinn liggur í bugðum, eins og snákur á snarferð.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – brú.

Vér brunum yfir rauðmálaða trjábrú. Stúlknahópur hrópar »húrra« fyrir oss, um leið og vér förum fram hjá. Tuttugu og tveir vagnar þeysa á undan oss og stórir rykmekkir þyrlast upp hægra megin við oss. Vér förum yfir aðra brú, yfir Móakotsá, sem rennur úr Drykkjartjörn. Fjöldi hrossa er á beit í þúfunum til hægri handar, og stara þau á oss stórum augum. Vér þjótum áfram og yfir þriðju brúna, móts við Kárastaðabæinn. Túnið þar líkist austrænum gullofnum dúk, ljósgrænt grasið ofið sóleyjagulli. Það líður aftur fyrir oss, eins og töfraábreiða. Hraðskriður vagnanna, indælt landslagið, dýrðlegt sólskinið, fjörgar oss, vér skröfum kátir við samferðamennina og vagnarnir bruna hraðar og hraðar, geysast áfram í rykstormi.
Alt í einu breytir vegurinn um stefnu, vagnarnir taka snögga sveiflu, vér hverfum inn í gapandi ginið á gjá og vitum naumast af fyrr en vér erum komnir miðja vegu ofan í kok á ferlíkinu. En augað greinir margt í einu bragði. Vér sjáum hina miklu stuðlabergsveggi, skuggann á milli, snarbrattann, sólfagra sléttuna niður undan, fagnandi mannfjöldann í þyrpingu við innganginn, nýreistan boga með þrílitum fánum og bláum skildi og skarlatsrautt klæði, strengt þversum, og á það letrað stórum stöfum, ekki »Lasciate ogni speranza« hans Dante, heldur hjartanleg heillakveðja til konungs og drotningar.

Þingvallavegur

Þingvallavegur – brú yfir Öxará.

Vér ökum ofan eftir, yfir járnbrú, sem Öxará þrumar undir á leið sinni til vatnsins, komum ofan á opna völlu og nemum loks staðar framundan palli, er fánar blakta yfir og reistur hefir verið dagsins vegna. Gjá sú hin mikla, er vér fórum um, er Almannagjá og heitir svo fyrir þá sök, að í lok júnímánaðar ár hvert, streymdu þúsundir ríðandi manna úr öllum héruðum Íslands niður einstigið undir hamrinum bratta, ofan á völluna, til að vera á hálfsmánaðar þingi, kaupstefnu og íþróttamóti, sem haldið var á Þingvöllum.
Almannagjá er eitt af Íslands mörgu furðuverkum. Hún myndast annarsvegar af þverhníptum hamravegg, full 100 fet á hæð, og endar þar hraunsléttan, er vér fórum yfir, og hins vegar af klettagarði, tuttugu álnir frá, og talsvert lægri, er hallast aftur eins og framhlið hans togaði í hann um leið og hún bugast niður á hraunsléttuna, fimm rasta breiða. Austurjaðar þessarar hraunsléttu endar í samsvarandi gjá — Hrafnagjá, sem að vísu er minni, en engu að síður prýðileg.

Almannagjá

Almannagjá 1862 – málað af Bayard Taylor, 1862.

Almannagjá er nokkrar rastir á lengd og liggur frá norðaustri til suðvesturs. Má rekja hana frá Ármannsfelli niður fyrir Þingvelli, meðfram vesturströnd Þingvallavatns. Botninn er sem í virkisgröf og stráður stórum stuðlabjörgum, er fallið hafa úr veggjunum beggja megin; annars er hann grasivaxinn, nema á svo sem sex hundruð álna svæði, sem Öxará freyðir um á leið sinni til vatnsins.
Hið sokkna hraunsvæði, er takmarkast af gjánum tveimur, — Almannagjá og Hrafnagjá — nær frá eldfjallinu Skjaldbreið að Hengli, og hallast frá norðaustri til suðvesturs, lækkar undir vatnið og myndar botn þess. Fyrir mörgum öldum, lá þessi langa hraunbreiða jafnhátt hásléttunni umhverfis, en einhver voðaveila, sem líklega hefir komið af því, að vatnsrensli neðanjarðar gróf undan, varð til þess, að hún rifnaði um jaðrana og sökk þangað sem hún er nú, skekin sundur í hreinasta tíglagólf, úr óreglulegum brotum, með rifum og glufum á milli.

Þingvallavatn

Þingvallavatn.

Og hér er Þingvallavatn, bláast vatna, og horfir skygðum kristalsfletinum til himins, eins og það segði: »Ertu alveg eins blár?« En himininn er ekki eins blár, né heldur hafið með andstæðugulum dílum sargassoþangsins, og ekki gulldröfnóttur blámasteinninn, né heldur kornblómið á akrinum. Og þó kannast ég við þennan skínandi heiðbláma. Ég hefi séð hann í Bláa hellinum á Capri, á fjaðraskrauti ísfugla, páfagauka og blárra paradísarfugla, á vængjum stóru bláfiðrildanna í Brasilíuskógum, í brosandi augum drengsins míns.
Líttu á þetta undursamlega vatn í brúnni hraunskálinni, með ýmislega grænum rákum á grynningum og rifjum meðfram ströndinni; eru dröfnurnar á páfuglsfjöðrum eins fagurbláar? Líttu á það, þegar sólin skín sem glaðast og það logar eins og blátt bál, hefir nokkur safír nokkurn tíma ljómað svo?
Þvílíkur töfrablámi! Hvað hann gleður og heillar! Frá mér numinn af aðdáun, hreifur af litadýrðinni, finst mér ég verði, eins og Glákus forðum, að sökkva mér í þennan bráðna hlákristall.

Þingvallavatn

Þingvallavatn.

Þingvallavatn er í lögun sem hálfmáni, 16 rasta langt og 5-8 rasta breitt. Dýptin er frá grynningum að 60 föðmum. Upp úr því nálega miðju, rísa tveir eyhnúkar, með eldgígum, svartir og ófrjóir. Það eru Sandey og Nesjaey. Þar verpir svartbakur. Ýmsir höfðar ganga út í vatnið frá norður-, austur-, suður- og vesturströnd þess, eins og spælabrot í brotnu hjóli. Norðan að vatninu liggur endinn á hraunbreiðunni milli gjánna, í mosareifi, og Öxarársandur, að vestan sprungin brún hásléttunnar, að austan og sunnan brött fjöll: Arnarfell, Miðfell, Búrfell, Hengill — nú í tígulegum purpuraskikkjum. Úr mynni á suðausturenda vatnsins rennur Sogið sem slanga, er sýgur vatn þess, eins og nafnið bendir til. Ekkert segl sést á hinu friðsæla vatni, ekkert gárar flöt þess, nema fiskar sem vaka.
Vatnið er fult af silungi, bleikju og urriða, og er það einmitt fiskur á konungsborð. Fiskurinn af urriðanum er rósrauður, en af bleikjunni með lítið eitt rauðgulum blæ, hvortveggja bráðfeitur og óviðjafnanlega bragðgóður. Annar meðlimur uggaþjóðarinnar er þarna líka: hið herskáa hornsíli (Qasterosteus), ofurlítill velsporaður vígabarði vatnspyttanna, er gerir hreiður með handstúkulagi, af engu minni list en vefarafuglinn, og gætir eggja og unga ræktarlausra og ómóðurlegra maka sinna, með trú og dygð fram í rauðan dauðann. Hreiður hornsílisins er gert úr smágervum jurtatægjum, tengdum saman með sterkum silkiþræði, er myndast í nýrunum og kemur frá blöðrunni, þegar hornsílið er fullþroska og hinn hugrakki litli riddari kemur til burtreiðar í ljómandi purpuralitum brúðkaupsklæðum.

Nikulásargjá

Nikurlásagjá.

Þarna eru ýmsar tegundir af vatnabobbum af Limnaea-, Pisidiutn- og Lepidurus- kyni og lirfur og púpur margra vatnaskordýra. Gnótt er af reki og er það einkum smákrabbadýr (Daphnia, Diaptomus, Cvelops), hjóldýr (Rotifera) og fáeinar tegundir af kísilþörungum (Melosirae, Asterionella o.s.frv.), Af augljósum vatnaplöntum skal eg að eins nefna Rivularia cylindrica, blágrænan þörung með löngum svipu-líkum þráðum og tvær stórar grænþörungategundir, Chara og Nitella sem vaxa á fimtíu til níutíu feta dýpi. Fjöldi fugla: sefandir, lómar, sendlingar, maríuerlur, tjaldar, andir, gæsir, máfar, trönur, hegrar og svanir, lifa á því, eða á ströndum þess, eða fljúga yfir ljómandi safírbláan flötinn, og með þeim svífur andi fegurðarinnar, því að hvar getur indælli sjón?

Flosagjá

Flosagjá.

Þingvallasléttan með vatninu, ánni og hamraveggnum minnir mig á svæðið kringum Avernus vatnið, þar sem Virgill setti hlið undirheima, og reyndar eru hér Elysium-vellir og Tartarusklettar hlið við hlið eins og á Phlegra-sléttunni í Campania Felix. Mikla undra kviðu mætti yrkja út af Þingvallavatni. Þúsundir manna í hátíðabúningi — konurnar prúðbúnar eins og blóm — hafa safnast í hópum á víð og dreif, sumir standa og sumir sitja, í grasgrónum brekkunum niður af austurvegg Almannngjár. Álengdar eru þessar brekkur með mannþyrpingunum til að sjá eins og persneskar flosábreiður, sem af ásettu ráði eru með óreglulegum myndum og litum til að bægja á braut illu augnaráði og heilla til sín hamingjuna.
Þegar vér komum inn á sléttuna, leikur hornaflokkur þjóðsönginn, karlaflokkur syngur og mannfjöldinn lýstur upp fagnaðarópi og klappar hrifinn höndum. Hinir miklu stuðlabergsveggir endurkveða og magna þessi fjölbreyttu hljóð og margfalt bergmál hljómar frá gjá til gjár, frá fjalli til fjalls, yfir sléttuna og vatnið og aftur til baka, safnast í volduga velkomanda kveðju til konungs og drottningar.

Flosagjá

Tært vatnið í Flosagjá.

Vér stöndum nú á helgum stað, á stað sem er vígður sögu og sögnum. Gjáin mikla, hraunsléttan, hin streymandi á, heiðblátt vatnið eru minjar frægrar fortíðar og yfir þeim skín sem forðum hin dýrðlega sól. En hvað það er ósamræmilegt að sjá rétt hjá Lögbergi gistihús, sem með goðgá kallast »Valhöll«, og niður undan Öxarárfossi timburhús með rauðu þaki fyrir konunginn, nauðalíkt leikfangi sniðnu eftir örkinni hans Nóa. Hvað það á undarlega illa við að sjá bifreiðaröðina löngu öðru megin vegarins og þessar mörgu stikur af baðmullardúk skornar niður í smáfána og veifur, sem blakta í blænum og rjúfa samræmi náttúrunnar með prjáli ósamstæðra lita.

Konungskoman

Fólk í tjöldum á Þingvöllum 1907 – danskir sjóliðar.

Rúmlega sextíu tjöld hafa verið reist út um vellina og fólkið þyrpist um þau eins og býflugnasveimur. Stúlkurnar, á sullbaldíruðum bolum, glitra í sólskininu eins og frjórykaður rósatordýfill, en tveir konungsþjónar skoppa um í skarlatsrauðum maríuhænu einkennisbúningi og gefa hinu kvika sjónarspili bjartari blæ. Um leið og ég geng yfir veginn kemur bifreið, sem seinkað hefir, þjótandi ofan á vellina og á eftir henni ríðandi menn, lausir hestar og hestar undir klyfjum, alt Skundar ofan gjána og glamrar margvíslega í, eins og trjásöngva þreytti þar sinn glamurkliðandi kveldsöng.
Vér etum dögurð á gistihúsinu. Þar hefir rétthyrndu vegtjaldi verið aukið við hinn venjulega borðsal til að koma gestafjöldanum fyrir, og liggja tjalddyrnar fram í salinn og ekki minsta smuga til loftræsingar. Hinn ljúffengi rósrauði Þingvallasilungur með «mayonnaise«-sós og agurka-salati, er indæll, jafnvel þó honum sé ekki skolað niður með sólskinsvökva frá Burgund, Rínlöndum eða Campagne, en hitinn inni í tjaldinu er afaróþægilegur. Vér hlustum á Matthías Þórðarson, hinn lærða vörð Þjóðmenjasafnsins í Reykjavík. Hann býður konung og drottningu velkomin og talar um forna frægð Þingvalla á dögum lýðveldisins. Vér hlustum á hann með athygli þrátt fyrir það, þó hitinn stigi í líkbrennslutjaldi voru og líkurnar fyrir því, að «Valhöll« verði að sannri valhöll fyrir hetjur þær, er nú sitja að veislu innan veggja hennar. Flestir félagar mínir eiga eflaust þennan heiður skilinn, en ég held nú samt, að frestur væri ekki illa þeginn, þar sem við eigum eftir að sjá Geysi. »Til þess að okkur líði vel«, segir sessunautur minn til hægri hliðar, »þyrftum við að fara úr holdinu og sitja í beinunum einum«. »Það væri ekki til neins«, svaraði ég, »við yrðum undir eins að bruðningi«.
Það er gott að koma út og fylla lungun hreinu lofti himinsins. Þarna andspænis oss, er vér horfum í norðvestur, fellur hinn svali, ólgandi, freyðandi straumur Öxarár ofan í gjána eins og mjöður í mundað horn. Hærra, fimm röstum norðar, rísa demantstindar Súlnanna á ameþýst grunni. Nær, til hægri handar, stendur Ármannsfell, nálega snjólaust og purpuragrátt. Að lögun hefir því verið líkt við dalaðan hjálm.
Lengra burtu og austar liggur stór snæþakin eldfjallshvelfing. Það er Skjaldbreið. Það er trú manna að þessi fjöll séu jötunhlífar á dreif; hjálmur og skjöldur Ármanns, írsks risa, sem sagt er að hvíli undir Ármannsfelli og sé þar haugur hans.

Konungsvegur

Konungur og föruneyti á Þingvöllum.

Margt fólk er að klifra upp á austurbarm Almannagjár til að sjá fossinn nær. Ég fer á eftir þeim og klifra upp klettabrekkuna, sem er að nokkru vaxin grasi, birkikjarri, mosa og steinbrjótum, uns ég næ upp á austurbarminn. Hér hitti ég suma af »Gullfoss«-vinum mínum og með þeim fer eg ofan í gjána. Fossinn er ljómandi! Á rás sinni yfir móinn kemur Öxará allt í einu á brún hengiflugsins, og eins og jagúar stekkur á tapírahjörð, hendist hún á svipstundu, dunandi og freyðandi á dökkgrá stuðlabjörg, er liggja í þyrpingu í og í kringum djúpan hyl við rætur bergsins. Á slíkum stað mætti búast við að mæta dýrunum ógurlegu, er vörnuðu Dante vegarins í myrkviðinum forðum, jagúarnum, ljóninu og úlfynjunni mögru. Og þarna eru þau reyndar! steypast öll saman ofan í einu bræði-froðu-kófi: snjóhvíti hlébarðinn að norðan, sandlita ljónið og vefrarvaður blágrárra úlfa, sem vel má vera að einhverntíma hafi verið flokkur guðlausra manna. Líttu á þau þegar þau koma á brúnina; þau virðast nema staðar sem snöggvast og geysast svo fram í tryltum vígamóð. Hlustaðu á! Þau urra, ýlfra, hvæsa, frísa, öskra og drynja ógurlega. Má ekki, þar sem æðandi flóðið skellur í stórgrýtisurðina fyrir neðan, sjá voðastökkið, heljarhramminn, sem lýstur banahögg, leiftrið í logandi augunum, skína í hvítar vígtennurnar, glampa á mislitan hrygg og froðuhvítan kvið? Hve það er undarlegt, þetta samband forms- og litarfegurðar og æðistrylts eðlis, tignar og grimdar, mjúkleiks og þokka og óbifandi eyðingarfýsnar.

Þingvellir

Öxarárfoss.

En Öxará verður naumast með orðum lýst, þar sem hún hendist í gagnsæjum kristallsdyngjum ofan í gjána. Og lítið nú á hana þar sem hún rennur ofan gjána milli hinna háu hamraveggja. Hún freyðir, niðar og dunar yfir stórgrýtisbjörgin og milli þeirra. Feldurinn hennar fagurhvíti er allur með svörtum flekkjum. Þar sem hún finnur hlið í lægri hamravegginn tekur hún enn eitt stökk með háum dyn, nálgast svo vatnið, teygir úr sér endilangri á flötum söndunum og mókir suðandi og malandi eins og kátur og fullur köttur.

Þingvellir

Þingvallafundurinn 1907.

Á stórum votum steini rétt neðan við fossinn sé ég frú Björnsson, er starir inn í leiftrandi augu gnýjandans. Hún minnir á konur, er verða frægar fyrir það að temja villidýr og standa óskelfdar hjá strókum af ljónum, tígrum og jagúörum, en regnbogalitur úði skýst til og sleikir hendur hennar og andlit góðlátlega eins og lébarðahvolpur.

Ég klifrast upp fyrir fossinn og gefur mér þar góða fuglsýn af dalnum milli gjánna og vatninu í fangi hans. Það minnir mig á japönsku skjaldbökuna, sem segir af í þjóðsögum og var með ljómandi páfuglsstéli, því að hinn þurri hluti sokknu hraunsléttunnar, allur skoraður sundur í plötur eða skildi af ýmsri stærð og lögun, bendir á að þetta sé skjöldur af risavaxinni skjaldböku, en vatnið sýnir grænt og gullið og blátt stélið, breitt út sem prúðlegast. Hraunbreiðan fyrir fótum mér er grágrænflekkótt. Náttúran hefir klætt hið rifna og molnaða yfirborð mosaþembu, lyngi og birkikjarri. Á miðri þessari hraunsléttu glitrar fagurgrænt túnið í Skógarkoti, eins og landbrot í eyðimörku. Annað tún lengra norður heitir Hrauntún.
Við endann á vatninu, nálægt Öxarármynni, stendur hin litla timburkirkja Þingvalla, með kirkjugarðinn, prestsetrið og túnið umhverfis. Vegurinn heim að kirkjunni er nú svartur af mannfjölda; eflaust er konungurinn þar að skoða gamla predikunarstólinn og altaristöfluna, eða hinn fræga lögkvarða Íslands, sem er einsteinungur skoraður djúpt á austurhlið.
Ég fer ofan á sléttuna til þess að komast aftur í konungsfylgdina og skoða hið tröllslega tíglaverk, sem myndaði gólfið á hinum forna þingstað. Hér má fylgja gjám og glufum langa leið undir skærum vatnsfletinum. Alt hið sokkna svæði er því líkast sem það væri jötunheima steingrind, er hallaðist hálfsokkin í jökulvatnið, sem streymir frá Langjökli, seitlar undir Skjaldbreiðarhraun, fyllir vatnsskálina og rennur svo um Sog og Ölfusá út í Atlantshaf.
ÞingvellirÞegar vér komum á Geysisveginn, mætum vér konunginum, er kemur frá kirkjunni, og nemum staðar til að skoða staðinn, þar sem dómar fóru fram í fornöld. Það er hraunrimi, þrjúhundruð álnir á lengd og tuttugu til sextíu á breidd, og nálega umluktur sem tangi af tveimur djúpum gjám, Flosagjá að vestan og Nikulásargjá að austan, er renna saman við norðurendann með tónkvíslar móti. Gjárnar eru frá átján til fjörutíu fet á breidd og fimmtíu fet á dýpt ofan að djúpu vatni, sem í þeim er. Nikulásargjá var svo nefnd 1742, er Nikulás nokkur sýslumaður, er flæktur var mjög í málaferli, drekkti sér í gjánni; hin dregur nafn sitt af Flosa, söguhetju, er stökk skyndilega yfir gjána og komst þann veg undan. Milli þessara tveggja gjáa er grasi gróinn hjalli, þar sem sakamenn voru reyndir, og yrðu þeir sannir að sök, voru þeir teknir þar samstundis af lífi. Á þessum Tarpejukletti voru lagaverðirnir öruggir fyrir afskiftum annara. Leiðin þangað var af náttúrunnar hendi svo mjó, að auðvelt var að verja. Efst á þessum kletti situr nú hinn sérstaki konungsmálari, hávaxinn, fríður og góðlegur Dani og dregur mynd af útsjóninni yfir vatnið, aðdáanlega vel og fimlega.

Þingvellir

Þingvallabærinn 1900.

Af brúnni yfir Nikulásargjá horfum vér ofan í gjána. Vatnið er svo furðulega tært, að smæstu hlutir sjást skýrt á miklu dýpi. Fjöldi silfurpeninga, er menn hafa leikið sér að að kasta í vatnið, liggja þar á mosa- eða þang-koddum, og sýnast stærri, bjartari og nær gegnum kristallstært vatnið. Þetta stækkunarmagn vatnsins hefir lengi verið kunnugt, Seneca segir í sínum Quaestiones náturales, þar sem hann er að skýra það hvernig regnboginn kemur fram: »Hver hlutur sýnist miklu stærri þegar menn sjá hann í gegnum vatn«, og Macrobius segir oss, að rómverskir veitingamenn á hans dögum voru vanir að setja við veitingahúsdyrnar hjá sér egg, grænmeti og ávexti í glerkerum fullum af vatni, svo að matvæli þeirra virtust stærri og girnilegri en þau voru í raun og veru. En vatnið í þessum gjám er merkilegt, ekki svo mjög íyrir það hve algerlega tært það er og hve mikið það stækkar, sem fyrir hitt hve geysifagrir og breytilegir litir þess eru. Horfið beint ofan í vatnið, og þér munuð sjá það fagurlega grænt með blæbrigðum frá malakít og smaragð yfir í dökkasta brons, þó að það þegar dýpra kemur, sé nálega bleksvart. Horfið nú á það á ská, og það verður himinblátt, heiðblátt, rússablátt eða sterkblátt, en yfir bæði græna og bláa litnum leika glampar af purpura, fjólubláu og gulli eins og slást í kristallsstrendingum, skelplötu og sápubólum. Þessir löngu vatnsálar í djúpri og þröngri hamragjánni eru því tilsýndar sem regnbogaslöngur, er teygja úr sínum ljómandi, bragandi “Ugðum”, eða eins og bláir og grænir purpuraroðnir hátsar á Páfuglum á Ceylon eða í Birma.

Þingvellir

Konungsfylgdin fer frá Þingvöllum 1907.

Þetta skæra vatn, logandi eins og eldur, kalt sem ísinn, líður svo mjúklega milli stuðlabergsveggjanna, að ætla mætti að það stæði kyrt, ef ekki væru þaraþræðirnir, sem teygjast í áttina sem það rennur í. Frá neðanjarðaræðum streymir þessi töfrakristall fullur af dásamlegri fegurð, skrýddur vökvasilki og gimsteinagliti. Hann hrífur hvert hjarta með alsigrandi töfrum ljóss og ljóma, hverfur um djúpar, ósýnilegar æðar og rennur að lokum út í bláa vatnið mikla. Að vatnið í gjánum stendur í sambandi við stöðuvatnið, sanna silungarnir, er stundum koma upp í þær hópum saman.
Ég lít upp í gjáveggina og sé að þeir eru tjaldaðir grænum mosabreiðum, lögðum fögrum burknum. Hátt uppi, rétt á gjábarminum, eru margar plöntur rétt komnar að því að falla, svo ákafar virðast þær að gægjast ofan í gjána, og með þeim gægist hinn gullni guð ljóssins sjálfur. Það er líka kunnugt, að vagninn hans svífur kringum þennan stað mánuðum saman, bæði dag og nótt. Hver veit nema þessi djúpu vötn séu bústaður dáfagurra dísa? Eru engar hafmeyjar á Þingvöllum?
Jú, víst, hvað ætti hún Hallgerður lævísa að hafa verið annað, hún sem seiddi hann Gunnar í glötunina! Sá tigni maður sá hana fyrst við búðardyrnar hennar hjá vatninu. Hún var nýstigin úr lauginni og kembdi hár sitt langt og hrynjandi eins og sönnum hafmeyjum er títt.
Ég get ekki slitið mig burt. Vatnsdísin heillar mig, hinn frábæri yndisleiki kristallsvatnsins færir mér unað, sem engin önnur skynjan má veita. Eins og hinn skygngi starir á skyggða kúlu úr bergkristalli eða beryl, reyni eg líka að rjúfa blæjuna er skilur hið »verulega líf« umhverfis oss frá andlega lífinu, sem er enn þá verulegra fyrir þá sem trúa. »Hof Demeter í Patras«, segir Pausanias, »á óskeikandi véfrétt í sinni helgu lind«. Svo munu og hin bláu berylvötn á Þingvöllum gædd sannleikskrafti og megna að vekja vitranir, ef horft er í þau af hreinu hjarta.” – G. F. þýddi.

Heimild:
-Eimreiðin, 5.-6. hefti 01.12.1922, Þingvallaför, Dr. Luis Westenra Sambon, bls. 344 og 349-362 – https://timarit.is/page/4819435?iabr=on#page/n0/mode/2up/search/%C3%BEingvallaf%C3%B6r

Þingvellir

Þingvallavegur

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1973 er grein um “Örnefni á Mosfellsheiði” eftir Hjört Björnsson:

Örnefni á Mosfellsheiði
“Síðan hinn nýi vegur yfir Mosfellsheiði var lagður, fyrir Alþingishátíðina 1930, má svo heita, að ferðir um gamla veginn, sem lagður var nokkru fyrir síðustu aldamót, hafi lagzt niður. Vilja örnefni týnast og falla í gleymsku á þeim leiðum, sem nú eru sjaldfarnar eða þotið er um í bíl, þótt áður væru þær fjölfarnar, bæði af gangandi mönnum og ríðandi, og þá oft með langar og seinfærar lestir baggahesta, og síðar kerrur. — Þá var oft nægur tími fyrir ferðamanninn að virða fyrir sér það, sem fyrir augun bar, og þekkja nöfn á áningastöðum og kennileitum.
Vil jeg nú leitast við að telja upp örnefni meðfram gamla Mosfellsheiðarveginum, frá Almannagjá að Geithálsi, þar sem hann sameinast Hellisheiðarveginum. Þó má þar án efa einhverju við bæta, því að ekki geri jeg ráð fyrir, að jeg þekki þau örnefni öll, enda munu skiptar skoðanir um sum þeirra.

Skálabrekka

Fjárborg ofan Skálabrekku vestan Kárastaða.

Þegar komið er upp úr Almannagjá og farið „suður” — en svo er alltaf að orði komizt um ofanverða Árnessýslu, þegar farið er yfir Mosfellsheiði, þó að vegurinn liggi til vesturs og jafnvel norðvesturs — þá liggur vegurinn litlu vestar yfir Breiðabala; lága, breiða upphækkun í hrauninu. Vestan við Breiðabala er „afleggjari”; liggur hann til hægri handar beint upp hraunið í malargryfjur miklar sunnan í Stórhöfða, sem er á milli Brúsastaða og Kárastaða. Var „afleggjari” þessi lagður litlu fyrir síðustu aldamót, um líkt leyti og aðalvegurinn var gerður, til aðflutninga á ofaníburði.

Árfarið

Árfarið – gamli árfarvegur Öxarár.

Dálítið neðan við túnið á Kárastöðum liggur vegurinn yfir Árfar. Er það allbreiður, en grunnur, farvegur, sem oftast er þurr á sumrum. Nafnið kemur af því, að stundum í leysingum stíflast Öxará af krapi og íshröngli fyrir innan Brúsastaði og flæðir þá vestur hraunið, sunnan undir Stórhöfða, og hefur myndað sjer þar farveg greinilegan; sameinast hún svo lækjarseytlum, er koma úr giljunum fyrir ofan Kárastaði, og rennur svo niður hraunið út í Þingvallavatn. Þegar yfir Árfarið er komið, tekur við Kárastaðamýri vestur í Borgarskarð, sem oftast í seinni tíð er nefnt Kárastaðaskarð, því að þar sjest fyrst heim að Kárastöðum, þegar komið er austur af heiðinni. Í Borgarskarði var fyrr fjárborg, og þar talið, að Mosfellsheiði byrji. Vestan til heitir skarðið Borgardalur, en Borgardalsbrekkur lyngbrekkur miklar á hægri hönd, en til vinstri er Skálabrekkuás. Milli ássins og vegarins er lítil valllendisflöt og heitir Norðlingaflöt. Er þá komið í Bæjardal; hann er kenndur við bæinn að Skálabrekku, sem stendur sunnan undir honum, en sjest ekki af veginum.

Mosfellsheiði - kort

Norðaustanverð Mosfellsheiði – herforingjakort frá 1908.

Bæjardalur takmarkast að suðvestan af Skálabrekkuás, en að norðvestan Lyngás. Liggur vegurinn eftir endilöngum dalnum, unz hann þrýtur, og er þá farið yfir Móakotsá. Það er lítil árspræna, sem oftast er þur í þurkasumrum; kennd er hún við eyðibýlið Móakot, sem stendur á árbakkanum niður-undir Þingvallavatni. Var Móakot byggt um 50 ára skeið á síðustu öld. Vestan við Móakotsá er farið yfir hæð eina litla, Spýtuás, og taka þá bráðlega við lágar og lyngi grónar hæðir, er Þrísteinaholt heita. Liggur vegurinn milli þeirra og yfir Torfdalslæk, og þvínæst norðan undir Gíslahóli, sem venjulega er nefndur Gíslhóll. Austan undir Gíslahóli liggur rudd braut til vinstri af aðalveginum niður að Heiðarbæ og svo áfram suður Grafning.

Mosfellsheiði - kort

Mið-Mosfellsheiði – herforingjakort frá 1908.

Skömmu áður en komið er að steininum, er sýnir 40 km. vegalengd frá Reykjavík, er farið yfir litla valllendisflöt, er Harðivöllur heitir. Nokkru vestar er Ferðamannahorn, þar sem bugur verður á veginum á hæðarbrún ekki mikilli; er þá skammt að Þorgerðarflöt, sem er allstór flöt til vinstri handar. Gegnt Þorgerðarflöt eru mýradrög allmikil, er heita Vilborgarkelda. Sagt er, að keldan beri nafn af konu nokkurri, er fórst þar voveiflega, og þótti hún síðan vera þar á sveimi, er skyggja tók, og gera ferðamönnum glettingar. „Í Keldunni”, eins og oftast var komizt að orði, var mjög tíður áningastaður, og lágu langferðaraenn þar oft með lestir sínar, enda er þar haglendi fyrst, svo teljandi sje, austan aðalheiðarinnar.
Örskammt vestan við Vilborgarkeldu og Þorgerðarflöt skiptast leiðir, og liggur nýi vegurinn, sem lagður var 1928—9, þar vestur heiðina, sunnan-undir Litla-Sauðafelli og niður í Mosfellsdal. Þegar komið er fram hjá vegamótunum, er farið yfir Þórðargil, lítið gildrag, og Þórðargilsmela. Á þeim er varða, þrír steinar miklir, hver ofan á öðrum; er hún af sumum nefnd Berserkjavarða. Þaðan er nokkur spölur að Þrívörðum. Þar er land hæðótt og eru Þrívarðnalautir á milli þeirra, en vegurinn liggur yfir Þrívarðnahrygg vestur heiðina. Nokkuð sunnan við veginn á Þrívarðnahrygg sjer í tjarnir nokkrar, er Klofningatjarnir heita.

Mosfellsheiði

Suðvestanverð Mosfellsheiði – herforingjakort frá 1908.

Vestan-í Þrívarðnahrygg eru Moldbrekkur, og hallar þar niður í Lágheiði, breiða dæld, sem er þar í heiðinni. Upp frá Lágheiði er alllöng brekka, Sæluhúsbrekka, og nær hún vestur undir Sæluhús, sem stendur þar fáa metra norðan við veginn. Var það byggt um líkt leyti og vegurinn; og kom mörgum að góðum notum, bæði mönnum og skepnum, þótt ófullkomið væri. Standa ná aðeins veggir eftir, en þak og innviðir rifnir burt. Nokkru vestar er klappahóll til hægri við veginn, er heitir Rauðkuhóll. Fótbrotnaði þar hryssa, er Rauðka hjet, hjá ferðamönnum úr Þingvallasveit. Meðal þeirra var Jónas hreppstjóri Halldórsson í Hrauntúni. Hafði hann broddstaf mikinn í hendi og keyrði í enni hryssunnar, og var hún þegar dauð.

Borgarhólar

Í Borgarhólum.

Frá Rauðkuhóli er æði spölur, unz vegurinn liggur norðanundir allstórum og mörgum klappahólum, er heita Borgarhólar. Telja jarðfræðingar Mosfellsheiði gamalt hraun, og að Borgarhólar sjeu uppvörp þess, og hafi síðan jökull gengið þar yfir og sorfið. Enda sjást víða jökulruðningar miklir og ísrákir á klöppum um heiðina. Frá Borgarhólum liggja götutroðningar, sæmilega glöggir, niður með Grímmannsfelli (Grímarsfelli) austanverðu, niður hjá Bringum og niður í Mosfellsdal.
Hallar nú upp á melkoll nokkurn, Háamel, sem stundum er líka nefndur Alda. Þar liggur vegurinn hæst, og er þaðan útsýni mikið og fagurt í björtu veðri. Til austurs sjest þar austurhluti Þingvallasveitar og fjöllin þar umhverfis og allt inn á Langjökul, en Skjaldbreið fyrir miðju, og sýnist þá engu minni en frá Þingvöllum, þó að miklu muni á fjarlægðinni. Til suðvesturs sjest um Suðurnes og meðfram Reykjanessfjallgarði endilöngum og á haf út, um sunnanverðan Faxaflóa.

Heiðarblóm

Sunnan undir Háamel var eitt sumar — eða tvö — fyrir rúmum 20 árum lítill veitingaskúr, er danskur maður átti og nefndi Heiðarhlóm. Sjást þess nú nálega engin merki, að þar hafi mannabústaður verið. Þar suðvestur af taka við sljettir melar, Borgarhólamelar, og hallar úr því nokkuð jafnt niður í byggð í Mosfellssveit. Heita þar Seljadalsbrúnir, löng leið og heldur tilbreytingalítil.
Er þá Grímmannsfell allfjarri til hægri handar, en Efri-Seljadalur milli þess og heiðarinnar. Við suðurenda Efri-Seljadals eru hólar nokkrir, og heitir þar Þrengslin, en sunnan-við þau tekur við Neðri-Seljadalur. Verður þar undirlendi meira og dalhvilftin öll grynnri. Þar sunnarlega er Silungatjörn og Silungatjarnarmýri. Í Seljadölum er graslendi mikið og var þar tíður áningarstaður ferðamanna fyrrum, enda lá vegurinn um þá áður en akbrautin var lögð. Lítið sjest af veginum ofan í dalina fyr en komið er niður á móts við Silungatjörn. Þegar alllangt kemur niður eftir Seljadalsbrúnum, verða fyrir tvö lautardrög til vmstri við veginn: Efri-Hrossadalur, og litlu neðar Neðri-Hrossadalur, og enn neðar sömu megin Helgutjörn — grunnur tjarnarpollur, sem venjulega þornar upp á sumrum. Þá er til hægri handar Eiríkshóll, einstakur klappahóll, flatur að ofan, að öðru leyti en því, að fuglaþúfa hreykir sjer á honum miðjum.

Konungsvegur

Brú á Konungsveginum á Mosfellsheiði.

Litlu neðar, en lengra frá veginum, er Vörðuhóladalur, daldrag, sem lítið ber á. Tekur nú vegurinn að verða krókóttur, en hefur verið bugðulítill ofan frá Háamel, og er nú bráðlega komið að Krókatjörn, sem er við veginn til hægri. Gengur að norðan út í hana langur tangi, er skiptir henni nærri í tvennt, og er hún því af sumum nefnd Gleraugnatjörn (Það mun vera þýðing á örnefni, sem nokkrir danskir menn gáfu tjörninni fyrir 20—30 árum). Mjög litlu neðar, hinu megin við veginn, er Djúpidalur, alldjúp kvos, er áður var klædd valllendisgróðri, en hefur í seinni tíð blásið upp og jetizt af vatni. Sumarið 1907 var þar búinn morgunverður Friðriki konungi VIII. og fylgdarliði hans, er hann reið til Þingvalla og Geysis. Móts við og fyrir neðan Djúpadal er vegurinn enn krókóttari en áður, og heita þar Krókar niður að Miðdalsmýri. Liggur vegurinn yfir hana þvera og Miðdalslæk, sem rennur eftir henni, en bærinn Miðdalur stendur í halla kippkorn norðar. Þegar kemur yfir Miðdalsmýri, er vegurinn yfir háls einn lágan, en allbreiðan, og stóðu norðar á honum fjárhús frá Miðdal. Litlu sunnar, til vinstri handar, er tjörn ein lítil, er Heiðartjörn heitir, og er þá örskammt ofan af hálsinum niður Að Lynghólsmýri, og er Lynghóll norðvestan við hana. Var Lynghólsmýri einn af fyrstu blettunum, sem girtur var með gaddavír meðfram veginum, og þótti sumum ferðamönnum súrt í broti, að missa jafngóðan áningastað.

Heiðartjörn

Heiðartjörn – syðst er tjörnin Björg; áhugavert brotasvæði.

Þegar komið er fram hjá mýrinni, er enn dálítil tjörn við veginn til vinstri, er Sólheimatjörn heitir, og spölkorn vestar Hofmannaflöt, allstórar valllendisflatir til hægri við veginn. Þaðan er svo mjög skammt að Geithálsi, þar sem vegurinn sameinast Suðurlandsbrautinni. Hefur þá verið fylgt veginum austan frá Almannagjá, sem er 35—40 km. leið, og skýrt frá örnefnum eftir því.
Hjörtur Björnsson frá Skálabrekku.” – M.Þ.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1973, Örnefni á Mosfellsheiði, bls. 164-167.

Gamli Þingvallavegur

Berserkjavarðan við Gamla Þingvallaveginn.

Bringnavegur

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1930 má m.a. sjá eftirfarandi um “Tvær leiðir á Mosfellsheiði” (Grh., 15. okt. B.B.):
Bringnavegur-225“Á ofanverðri 16. öld, lágu tveir vegir yfir Mosfellsheiði, hinn nyrðri nyrst um hana, úr Þingvallasveit um Vilborgarkeldu, Þrívörðuás, Moldbrekkur, Illaklif, sunnan Geldingatjarnar, niður með Köldukvísl, Langholt, Mosfollsdal, um Tjaldanes, um syðri Leirvogstungubakka, Hestaþingshól, og suður Mosfellssveit neðanverða (gamla veginn frá Korpúlfsstöðum).
Syðri Mosfellsheiðarvegurinn (Skálholtsmannaleið) lá: yfir Ölvesá (fyrrum hjet vatnið Ölvesvatn (nú Þingvallavatn), og áin úr því Ölvesá, til sjávar; aðeins þrengslin milli (Þingvalla-), Ölvesvatns og Úlfljótsvatns hjet Sog. Nú er áin nefnd Sog, til þess er Hvítá kemur í hana, síðan Ölvesá) á Álftavatnsvaði, upp eftir Grafningi, yfir Hengilhálsinn, um Sporhellu og Dyraveg, yfir Brekku og nyrðri Bolavelli, vestur heiðina hjá Sýsluþúfu, fyrir norðan Lykla-(Litla)-fell. sunnan Selvatn, um Sólheima. Hofmannaflöt, Hestabrekku, Almannadal, hjá Rauðavatni; þar skiftust leiðir eftir því, hvort fara skyldi til Hafnarfjarðar og Álftaness (þá farið hjá Vatnsenda, Vífilsstöðum) eða til Seltjarnarness og eyjanna. Það var ekki fyr en ca. öld síðar, að nyrðri vegurinn var lagður um Seljadal. Syðri vegurinn var tíðfarinn fram á 18. öld.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 26. október 1930, bls. 334.

Gluggavarða

Hér er sagt frá “Feigðarför Laugdæla og Tungnamanna á Mosfellsheiði 1857”:
Byggt er á grein séra Magnúsar Helgasonar í Huld og fleiri heimildum. Loftur Guðmundsson skráði.
“Þeir lögðu upp frá Þingvöllum, 14 talsins, laugardaginn þriðja í Góu 1857. Þeir voru úr Laugardal og Biskupstungum og ætluðu til sjóróðra við Faxaflóa svo sem tíðkaðist. Á leiðinni til Þingvalla blotnuðu þeir, áttu þar slæma nótt og voru blautir þegar þeir lögðu af stað í hnésnjó. Á Mosfellsheiði rauk upp með aftakabyl og þegar þeir náðu yfir heiðina, höfðu sex orðið úti, en þeir sem eftir lifðu voru skaðskemmdir af kali.

Formáli

Mosganga

Gönguleiðin um Mosfellsheiði.

Upp úr góubyrjun fór að sjást til óvenjumikilla mannaferða austan heiða. Þá héldu menn í verið. Útróðramenn úr öllum sveitum á Suðurlandsundirlendinu, jafnvel austan úr Austur-Skaftafellssýslu, lögðu þá leið sína til verstöðvanna á Reykjanesskaganum, út í Þorlákshöfn, niður á Eyrarbakka eða Stokkseyri.
Flestir fóru þeir fótgangandi og báru færur sínar á bakinu, oft allt að sex fjórðungum — smjör, kæfu og hangikjöt til skrínukosts á vertíðinni, sjóklæði og annan fatnað — og seig sú byrði í, þegar þung var færð eða stormur stóð í fang, kannski dag eftir dag, enda var margur óharðnaður unglingurinn lúinn að kvöldi, þegar kom á áfangastað.
Venjulega fóru vermenn allmargir saman: sammæltust af nágrannabæjum og síðan bættust fleiri í hópinn á leiðinni. Var það gert vegna félagsskaparins, en þó fyrst og fremst til öryggis, því oft voru kröggur í vetrarferðum, eins og sagði í máltækinu, og um þetta leyti vetrar var allra veðra von, en dagur enn skammur. Áttu og margir vermenn yfir mörg og viðsjál vatnsföll að fara, eða eyðisanda og mýraflæmi þar sem fátt var um kennileiti, og því villugjarnt í dimmviðri og eftir að myrkva tók. Það var því föst venja þeirra að skipta þannig dagleiðum, að þeir nytu dagsbirtunnar í viðureigninni við vatnsföllin og aðrar torfærur, eða þar sem villugjarnast var. Af þessum ástæðum var og yfirleitt alltaf um sömu, fastákveðnu gististaðina að ræða við dagleiðaskil, kannski ekki nema einn eða tvo bæi, en þar sem þéttbýlla var, skiptu vermenn sér niður á heimilin sem jafnast, að minnsta kosti þegar þeir fóru margir saman. En færi var gott og stillt veður, náðu þeir oftast á náttstað snemma á vöku, en í þungri færð og slæmu veðri, hríð, slyddu eða jafnvel slagviðri, gat það dregizt fram undir lágnættið og urðu þeir þá að vekja heimilisfólk upp. Yfirleitt var þeim jafnvel tekið þrátt fyrir það. Konur drifu sig á fætur, tóku upp eld í hlóðum, báru gestum mat, drógu af þeim vosklæðin og létu þeim loks eftir rekkjur sínar — og þegar þeir voru sofnaðir, náðum fegnir, undu þær plögg þeirra, þurrkuðu á felhellum og hlóðsteinum og vöktu yfir, því hafa varð stöðuga gát á eldunum svo þau brynnu ekki en yrðu þó þurr að morgni. Sjálfsagt þótti líka að bæta skó þeirra og staga í sokka ef með þurfti; höfðu vinnukonur og heimasætur því í rauninni lítil not fyrir bólið sitt þær næturnar — og þær nætur urðu margar út góuna. Þannig hafði það verið öldum saman á þessum bæjum sem lágu við dagleiðaskil vermanna og annarra í vetrarferðum, og var þó sízt talíð til annmarka, enda mun það aldrei hafa heyrzt að nokkurt það býli legðist í eyði fyrir gestanauð. Þvert á móti þótti til þess koma að vera þar húsráðandi, eða jafnvel aðeins hjú, og metnaðarsök að taka sem bezt á móti gestunum, hvenær sólarhringsins, sem þá bar að garði og hvernig sem þeir voru á sig komnir, og yfirleitt kom ekki til mála að taka eða þiggja greiðslu fyrir beinann, amstrið og næturvökurnar. Það var jafnvel ekki örgrannt um að vinnukonum og heimasætum þætti það nokkur upphefð að mega ganga úr rúmi fyrir næturgestum og eiga vökunótt yfir plöggum þeirra. Það síðarnefnda mátti líka að minnsta kosti kallast mikilvægt trúnaðarstarf, því að hæglega gat svo farið, að viðkomandi ætti limi sína og jafnvel líf undir því daginn eftir, að trúlega væri vakað yfir plöggum hans um nóttina og að þeim dyttað eftir þörfum, því að klæðnaður og allur útbúnaður manna í vetrarferðum var með afbrigöum óhentugur.
Þótt þjóðin hefði búið öldum saman í þessu landi, kunni hún ekki heldur að gera sér klæðnað eftir veðurfari og öðrum aðstæðum, þótt efni í hann væri fyrir hendi. Kunni ekki að súta skinn svo það yrði voðfellt og sæmilega vatnshelt, komst því aldrei upp á lag með að gera sér hlíðfarstakka úr sauðagærunum eða sómasamlegan skófatnað úr leðrinu. Vaðmálsflíkurnar voru að vísu skjólgóðar í þurrakulda, en söfnuðu í sig vætu og urðu þá þungar og stirðar; hlupu svo í klakastokk ef skyndilega frysti og geröi mönnum óhægt um gang og hreyfingu alla. Sama var að segja um fótabúnaðinn, skinnsokkana og skóna, sem var yfirleitt heilsuspillandi í öllum veðrum, en stórhættulegur í frosthörkum. Þá var höfuðbúnaður manna í slíkum feröum yfirleitt með þeim endemum, að þá kól á eyrum og í andliti, hvað lítið sem út af bar — prjónahetturnar, sem tíðkuðust norðanlands og vestan hlífðu þó eyrunum, og jafnvel andlitinu að mestu leyti. Kom því að litlu haldi þótt ullarnærfötin væru afbragðsflíkur, hlý og mjúk; og þelsokkarnir góð og hentug plögg í sjálfu sér, þar eð utanyfirfatnaðurinn var svo óhentugur og fótabúnaðurinn lélegur að öðru leyti.
Þótt nærtækast sé að skýra þetta með úrræðaleysi og vanafestu, hafa orsakirnar ef til vill legið dýpra. Allt fram á þennan dag hefur það verið rík hneigð með þjóðinni, „að láta sig hafa það” — láta sig hafa óþægindin og annmarkana, jafnvel þótt jaðra við lítilmennsku að leitast við að ráða bót á þeim. Menn létu sig því hafa það að kala á andliti og fótum á leið milli bæja og verða úti á heiðum og fjallvegum fyrir óhentugan útbúnað. Og svo gerði forlagatrúin, sem alltaf hefur verið okkur í blóð borin, líka sitt til. Mönnum lagðist alltaf eitthvað til, ef ekki voru uppi dagarnir, og hvorki varð feigðum forðað né ófeigum í Hel komið. Hverju skipti því útbúnaðurinn — eða þótt menn kynnu hvorki að grafa sig í fönn né gera sér snjóskjól, sem oft heföi þó getað borgið limum þeirra og lífi í baráttunni við hríðarnar og frosthörkuna? Það eitt barg því, að ekki skyldu oftar verða slys og mannskaðar í þessum vetrarferðum en raun ber vitni, hve menn voru orðnir þrautþjálfaðir í þeirri hörðu íþrótt, aö láta sig hafa það — og hafa það af. Fyrir miskunnarlaust tillitsleysi við sjálfa sig fyrir þrotlaust strit myrkranna á milli við vosbúð og skort, öldum saman, fyrir hetjudýrkun í sögu, sögn og kveðskap hafði þjóðin öðlazt þá ódrepandi seiglu og þrákelkni, líkamlega og andlega, að nálgaðist hið ofurmannlega, og afrekin, þegar á reyndi urðu eftir því. Og þegar ósigurinn varð ekki umflúinn, buðu menn hamremi höfuðskepnanna á sjó og landi byrginn, af óskiljanlegri þrautseigju og kjarki unz yfir lauk. Fátt lýsir betur því hve almenningi fannst sjálfsagt að láta sig hafa það og hversdagslegt að hafa það af á hverju sem gekk, að þess var yfirleitt ekki að neinu getið, þegar menn komu lífs heim úr hrakningum og svaðilförum, og þrekraunir þeirra þá sjaldan skráðar, en ef þeir hinsvegar urðu undir í átökunum við náttúruöflin, þótti hálft í hvoru minnkunn að viðurkenna að þeir hefðu ekki haft það af — að hríðin, frostharkan, veðurofsinn og veglaus auðnin hefði orðið þeim ofurefli, og það eins þótt hinsta barátta þeirra og vörn, vanbúinna, hraktra og örþreyttra, væri ofurmannleg hetjudáð. Því var gripið til draumana og fyrirboðanna, í því skyni að sanna það, að ferðalokin hefðu verið fyrirfram ákveðin af því almáttka dularvaldi, sem enginn mátti við og engum var vansæmd að lúta í lægra haldi fyrir, forlögunum. Þetta býr atburðamynd flestra frásagna af válegum atburðum, slysum og mannsköðum á sjó og landi, svo sterka umgerð, að þær glata yfirleitt mjög svip sínum án hennar.

Ill nótt hjá Þingvallapresti
Mosganga-1Laugardaginn þriðja í góu, veturinn 1857, gat að líta hóp vermanna, er sátu á vestri barmi Almannagjár og fengu sér árbita af nesti sínu. Þeir voru fjórtán talsins, úr Biskupstungunum og Laugadalnum, og á öllum aldri, tveir yngstu aöeins seytján ára, Guðmundur frá Múla í Biskupstungum og Þorsteinn frá Kervatnsstöðum. Aðrir í hópnum voru þeir Kristján frá Arnarholti, Sveinn frá Stritlu, Einar frá Hrauntúni, Bjarni frá Böðmóðsstöðum, Gísli úr Austurey, Gísli nokkur Jónsson, Ísak og Diðrik úr Útey, Jón frá Ketilvöllum, Guðmundur og Egill frá Hjálmsstöðum — og loks Pétur Einarsson, þá vinnumaður í Múla í Biskupstungum, tæplega hálfþrítugur að aldri.
betta var þriðji dagur ferðalagsins fyrir þá Pétur og aöra úr Biskupstungunum, því að þeir höfðu lagt af stað á fimmtudag, sex saman, gist á bæjum í Laugadalnum um nóttina, þar sem hinir átta bættust í hópinn, og haldið af stað í býtið á  föstudagsmorguninn, hreppt slydduhríð svo myrka að þeir villtust nokkuð; þegar rofaði til, sáu þeir bæinn að Gjábakka í Þingvallasveit, komu þar við og þágu kaffi; voru þeir því fegnir, því að þeir voru mjög blautir orðnir og föt þeirra tekin að þyngjast af slyddunni, en snjónum kyngdi niður og tók víða meir en í miðja kálfa. Þegar þeir lögðu af stað frá Gjábakka, leit út fyrir að enn mundi skella yfir dimmt él; virtist þeim því óráð að halda út á vatnið, yfir að Heiðabæ og Skálabrekku, en gengu með landi. Lengdist þá leið þeirra að óþörfu, því að aldrei skall yfir élið; þó var það lakara að fyrir bragðið áttu flestir þeirra heldur illa nótt að prestsetrinu á Þingvöllum, kytrað fjórum og fjórum saman í rekkju í köldu kamersi, blautum og lúnum eftir slydduna og ófærðina um daginn og ekki höfð nein hugsun á að þurrka plögg þeirra, svo þeir urðu að fara í allt hráblautt og kalt að morgni. Höfðu þeir því verið því fegnir, er prestur bauð þeim að doka við eftir kaffi, en svo löng varð biðin að þeir sársáu eftir að hafa ekki hafnað boðinu, enda var þá hrollurinn úr þeim að mestu, þegar kaffið loksins kom. Þeir fáu úr hópnum, sem gistu að Skógarkoti, höfðu hinsvegar átt góða nótt og fengið plögg sín og vosklæði þurrkuð, og vafalítið mundu þeir allir hafa getað sagt þá sögu, ef þeir hefðu haldið yfir vatnið og gist að Heiðarbæ og Skálabrekku. Þótt Þingvallaklerkur væri vel að sér í grísku og hebresku, sýndi það sig oftar en í þetta skipti að hann kunni kotbændum síður að taka á móti gestum, veita þeim beina og skilja þarfir þeirra. Þó varð það enn afdrifaríkara fyrir þá félaga, að fyrir bragðið urðu þeir mun síðbúnari á heiðina; þangað var drjúgur spölur frá Skógarkoti og Þingvöllum og seingenginn í ófærð, en snjór tók nú víöast hvar á hné, og auk þess hafði biðin eftir kaffinu orðið til að tefja för þeirra — bæirnir Heiðabær og Skálabrekka lágu hinsvegar uppi í sjálfri heiðinni. Það var annars einkennilegt hve margt hafði orðið til að tefja för þeirra. Hún hafði verið ráðin nokkrum dögum fyrr, en dregizt sökum þess hve einn þeirra félaga úr Biskupstungunum, Kristján frá Arnarholti, var síðbúinn.

Illa dreymdi mig í nótt piltar
Mosganga-3Þeir snæða árbít sinn af beztu lyst; það er bezta veður, bjart og milt og gangan í ófærðinni hefur tekið hrollinn og ónotakenndina úr þeim, sem á Þingvöllum gistu. Þeir gera að gamni sínu og eru léttir í máli, en þó’er eins og einhver illur grunur eða beygur, sem virðist hjákátlegur í blíðunni og enginn vill því færa í mál, búi undir glensi þeirra. Og þegar nokkur þögn verður á, mælir Kristján frá Arnarholti upp úr eins manns hljóði og helzt við sálfan sig: „llla dreymdi mig í nótt, piltar.”
Þeim félögum hinum verður litið á hann; þeir hafa fleiri haft þunga drauma um nóttina, þótt þeir hafi ekki viljað á það minnast, og nú krefja þeir Kristján sagna eins og þeim sé í mun að fá það staðfest, að beygur þeirra sé ef til vill ekki með öllu út í bláinn þrátt fyrir veðurblíðuna.
„Það dreymdi mig,” svarar Kristján seinlega og hnýtir að mal sínum, „að tveir griðungar gráir kæmu á móti okkur á heiðinni og stönguðu til bana sex af förunautum mínum, en blóðguðu þann sjöunda.” Þetta verður til þess að menn hætta öllu glensi, og hafa fleiri orð á draum sínum á meðan þeir eru að ganga frá nestinu og halda aftur af stað. Veður er nú jafnvel enn mildara en fyrr, en ófærðin söm, og sækist þeim því heldur seint gangan, enda bera þeir flestir allþungar byrðar, og þótt ekki setji að þeim í blíðunni, sem urðu að fara í allt blautt um morguninn, gera flíkurnar þá þyngri og stirðari í spori.
Pétur Einarsson veður knálega mjöllina, og ekki virðist hann muna mikið um poka sinn, þótt hann sé sízt léttari en hinna, enda orðlagður fyrir fjör, krafta og harðfylgi. En þótt hann hafi líka það orð á sér, að vera kátur og skemmtilegur ferðafélagi, mælir hann nú fátt og er þungur á brún. Ekkert mark er að draumum, segir hið fornkveðna, en þó getur hann ekki varizt því, að draumsögn Kristjáns rifjar upp fyrir honum hans eigin drauma, þunga drauma, sem hann hefur haft í haust og vetur. Hann minnist næturinnar, sem hann átti í rekkju Geirs Zoéga, kaupmanns og útgerðarmanns í Reykjavík, en hjá honum reri hann á haustvertíð. Hafði farð vel á með þeim; Geir gamli var ekki allra, en trölltryggur þeim, sem hann batt vináttu við og kunni manna bezt að meta heilsteypta skapgerð, karlmennsku og áræði, og spillti þá ekki að viðkomandi gæti goldið orðknapp og hreinskilnisleg, og á stundum dálítið meinleg tilsvör hans í sömu mynt. Sýnir það nokuð álit hans á Pétri, að hann bað hann sofa í rekkju sinni, þegar hann var sjálfur í burtu um haustið, en svo var þessa umræddu nótt. Víst var um það, að sízt gat það verið hugur þess, sem rekkjuna átti, sem varnaði Pétri svefns lengi nætur og olli honum þeirri annarlegu vanlíðan, að hann var hvað eftir annað kominn á fremst hlunn með að fara á fætur, og hefði gert það ef honum hefði ekki þótt minnkun að. Og hvernig mátti skýra það, að hann heyrði braka og bresta í húsviðnum öðru hverju, en blæjalogn var úti? Það var ekki fyrr en undir morgun, að hann festi blund og þó ekki nema í svip. Þóttist hann þá ganga suður Kirkjugarðsstíginn og var frosin gatan, tína nokkra gullpeninga upp af leið sinni og heyrði hann sjálfan sig mæla í því hann vaknaði: „Þar hef ég þá fjórtán.” Fjórtán — og nú voru þeir félagar fjórtán saman í för.
Seinna um veturinn haföi hann þótzt vera staddur úti á hlaði að Mosfelli í Mosfellssveit í draumi sínum, horfa austur á heiðina og sjá koma þar menn með sleða sex í drætti, en er hann spurði hvaða menn þeir færu þar með, var honum svarað því til, að það væru samferðamenn hans. Kannski stóð þessi draumur hans þó í einhverju sambandi við atburði, sem ættu eftir að gerast aö Mosfelli, en kæmu honum annars ekki við; það hafði frétzt, að kirkjuklukkur hringdu þar líkhringingu af sjálfu sér á gamlárskvöld og nýársmorgun, og töldu margir að það mundi boða andlát prestsins þar, séra Magnúsar Grímssonar… Pétri varð litið til Guðmundar, seytján ára piltsins, sem gekk næst honum; hann hafði verið lagsmaður Péturs í Múla um veturinn, og var kært með þeim. Eina nóttina hafði Pétur dreymt, aö hann sæi kirkjuklukku hanga yfir höfði Guðmundar, þar sem hann hvíldi hjá honum; var öxi í stað kólfs í klukkunni og sló eitt högg og hrökk Pétur þá upp, en ískyggilegur hafði honum þótt draumurinn og leið hann ekki úr minni. Ekki heldur sá draumur, sem hann dreymdi nokkru síðar, og sem hann gat ekki varizt að gerði honum nokkurn geig nú, er hann átti heiðina framundan. Hann hafði einmitt þótzt vera staddur suður á Mosfellsheiði, búinn til bardaga og allvel liðaður, en vopnlaus sjálfur og kunni því illa, einkum þegar hann sá lið sitt taka að falla. Gekk þá að honum maður mikill vexti og rétti honum eitthvað að vopni, sem honum leizt þó ekki sigurstranglegt og þóttist hann mæla, í því hann vaknaði: „Ég kann að geta bjargazt við það, en ekki líkar mér það.” En hví var hann að rekja drauma þá í huga sér nú? Ekkert mark var að draumum, og gilti einu hvort það voru draumar hans sjálfs eða Kristjáns frá Arnarholti. Hafði ekki Egill á Hjálmstöðum, sem nú var í för með þeim, hætt við að reka fé sitt sjálfur suður yfir Mosfellsheiði þá um haustið, vegna þess aö hann dreymdi áður draum nokkurn, er hann réði þannig, að hann yrði úti á heiðinni, ef hann færi? Fengu rekstrarmenn þó bezta veður og varð ekkert sögulegt við för þeirra yfir heiðina. Pétur færði poka sinn yfir á hina öxlina meö snörpu handtaki, rétt eins og hann vildi um leið varpa af sér fargi þess geigs, sem ásókn draumanna hafði vakið með honum. Um leið varð honum litið til Egils bónda og í sömu andrá var, sem einhver mælti í eyra honum að ekki rættust allir draumar þann dag er maður hygði. Og það varð með geigþungann eins og pokann; hann gat dregið úr byrðinni í bili með því að skipta á öxl, því að betur var ódreymt en illa dreymt. Og hver og einn hlaut að taka því, sem að höndum bar, eins og hann var maður til. Bjóða örlögum sínum, ef ill væru, byrginn í lengstu lög og láta ekki bugast fyrr en yfir lyki. Og hvað gat svo sem valdið þeim, fjórtán fullfrískum karlmönnum, alvarlegum farartálma í slíku blíðskaparveöri. Þeim átti að endast dagsbirta yfir heiðina, enda þótt færðin væri þung og þeir hefðu orðið helzt til síðbúnir að heiman frá Þingvallaklerki um morguninn. Að vísu gat skjótt skipt veðri um þetta leyti…
Um leið var sem helkaldur gustur færi um heiðina Pétur Einarsson kippti pokanum hærra á öxl sér og svipaðist um. Þeir voru komnir utarlega í Vilborgarkeldu, veður var enn milt sem fyrr og bjart yfir allt um kring, nema hvað lítinn skýhnoðra dró upp yfir Esjunni; í svo skjótri svipan að furðu gegndi og varð að myrkri kólgu. Um leið var sem helkaldur gustur færi um heiðina og urðu nú snögg umskipti úr blíðu og birtu í norðansterkviðri með grimmdarfrosti og svo myrkri hríð, að ekki sá út úr augunum. Þeir félagar námu staðar til aö setja á sig stefnu og vindátt og ráða ráðum sínum. Vildu sumir snúa við og freista að ná á bæi í Þingvallasveitinni, en öðrum leizt ekki á það óráð — bæði vegna þess hve þar var vandhitt á bæi sökum strjábýlis, og voðalegt að villast út á vatnið, þar sem víða voru afætur við landið vegna kaldavermsla, eða út í hraunið, þar sem menn urðu að hafa fyllstu gætni í snjó þótt albjart væri veður, að þeir gengu ekki í þröngar gjár eða djúpar sprungur, sem hemað hafði yfir. Sýndist þeim því flestum meiri von, að þeir gætu náð að sæluhússkofa, sem þeir vissu á heiðinni, en færu þeir samt framhjá honum hallaði brátt undan fæti, ofan í Mosfellsdalinn og næðu þar á einhvern bæinn, enda mátti gera ráð fyrir að veðurofsinn væri þar öllu minni. Lögðu þeir því enn af stað, í þá stefnu er þeir hugðu á sæluhúskofanum, og gekk Egill frá Hjálmstöðum fyrir.
Færðin gerðist nú enn þyngri og tók snjórinn víða meir en hné. Frostharkan jókst og veðurhæðin að sama skapi og ekki sá spönn frá sér fyrir hríðarsortanum, sem umlykti þá á alla vegu. Nú hlupu klæði þeirra, sem báru þau blaut frá því í slyddunni daginn áður, óðara í einn klakastokk og heftu hverja hreyfingu sem fjötur væru. Eins og áður er á minnzt, var höfuðbúnaður manna í vetrarferöum með afbrigðum óhentugur; varð jafnvel ekki haminn í roki, eins og sýndi sig líka nú, því að veðrið reif höfuðfötin af sumum þeirra félaga, og að sjálfsögu ekkert viðlit að elta þau, og stóðu þeir berhöfðaðir eftir í frostinu og hríðinni. Þarf ekki að hafa mikla reynslu af vetrarferðum til þess að geta gert sér í hugarlund hvílíkt harðræði það hefur verið.
Ekki leið heldur á löngu, áður en margir þeirra félaga tóku að mæðast og lýjast, og bersýnilegt að þeir mundu gefast upp þá og þegar, en mundu þó endast eitthvað lengur ef þeir mættu losna við byrði sína. En — að fleygja frá sér mat og fatnaði, og vita hvort tveggja þá glatað fyrir fullt og allt, slíkt kom ekki til mála, og buðust því þeir, sem voru ekki eins lúnir orðnir, að taka á sig poka þeirra til viðbótar sinni eigin byrði, þótt það lægi í augum uppi að slíkt væri hin mesta fásinna eins og á stóð, þar sem það hlaut aðeins aö leiða til þess að alla þryti fyrr en ella. Svo hafði aldabarátta við skort og fátækt rist mark sitt á hugarfar manna, og gert þeim dýrmætt það matar- og fatakyns, sem þeir höfðu, að þeir gátu ekki fyrir nokkurn mun fengið sig til að sleppa því úr hendi, jafnvel ekki þótt líf þeirra lægi við, og það yrði aldrei að neinum notum.

Pétur í Múla og Einar í Hrauntúni taka forystuna
Sagt er að þeir, sem gefin er karlmennska og kjarkur umfram það, sem almennt gerist, hafi jafnan hægt um sig meðan allt gengur eins og í sögu, og sætti sig þá við forystu annarra og forræði, en fari sínu fram þegar á reynir og taki þá forystuna, beinlínis eða óbeinlínis eftir atvikum. Þannig virðist það hafa verið með Pétur Einarsson í þetta skiptið; hans er fyrst getið að afskiptum, þegar sumir félaga hans eru að þrotum komnir, en aðrir vilja létta þeim, og þyngja sér gönguna, með því að taka á sig poka þeirra. Svarar Pétur því þá til, og heldur ómjúklega, að það skuli hann aldrei gera, enda megi einu gilda þótt pokarnir liggi eftir. Og nú er eins og hann, og sá maður annar, sem hraustastur var í hópnum og kjarkmestur, veljist ósjálfrátt til forystunnar, en það var Einar frá Hrauntúni, jafnaldri Péturs. Þeir verða á einu máli um það, að Egill bóndi frá Hjálmstöðum muni ekki hafa haldið réttri stefnu, en sótt um of í veðrið og því farið of norðarlega, en það marka þeir af því, að enn hafa þeir ekki orðið varir við klif nokkurt, sem annars átti að verða á vegi þeirra, og hlutu þeir að vera komnir famhjá því, þar eð nú var farið að halla undan fæti. Taka þeir því forystuna, en breyta stefnunni og halda undan veðrinu í þá átt, sem þeir telja að sé á Mosfellsdalinn. Ganga þeir svo um hríð: Þótt nú sé undan veðrinu að fara, er þess skammt að bíða að fimm af þeim félögum gerist svo kröftum þrotnir, að ekki reynist viðlit að koma þeim lengra, og er nú rætt um hvað til bragðs skuli taka. Vilja sumir halda áfram ferðinni og freista að ná til byggða, en láta hvern liggja þar, sem hann þraut og bjarga þannig sínu eigin lífi, enda sé hver sjálfum sér næstur. Enn verður Pétur Einarsson að taka af skarið og sveigja þá hina til hlýðni við vilja sinn sem honum voru minni að skaphöfn og þreki — kveðst hann aldrei láta það henda sig, að yfirgefa félaga sína í nauðum, heldur skuli eitt yfir hann og þá ganga, og sáu þá allir að annað mundi engum þeirra sæmandi og urðu kyrrir hjá þeim hinum, sem þrotnir voru.
Hríðin hafði skollið yfir skömmu fyrir hádegið, og nú, er þeir tóku þann kostinn að láta fyrirberast á hjarninu og eitt yfir alla ganga, lifði enn löng stund af degi og sást þá bezt hve afdrifarík þeim hafði orðið biðin eftir kaffinu á Þingvöllum; ef ekki hefði verið fyrir hana, mundu þeir hafa átt skamman spöl ófarinn að sæluhússkofanum, er hríðin skall á þá, en hefðu þeir samt farið framhjá honum, mundu þeir nú vera komnir langleiðina niður í Mosfellsdalinn og ekki hafa tekið þennan örþrifakost, er þeir vissu sig í grennd við bæi, enda líklegt að veður væri vægara niðri í dalnum. Og hefðu þeir ekki óttazt daginn áður él það, sem aldrei varð neitt úr, haldið yfir vatnið og fengið næturgistingu á bæjunum uppi í heiðinni, mundu þeir hafa átt skammt til bæjanna niðri í dalnum, þegar hríðin skall á. Þannig virtist öllum atvikum að því stefnt, sem nú var orðið, eða öllu heldur því, sem beið þeirra og draumar höfðu boðað þeim sumum og getur hver skýrt það að vild, en gera má ráð fyrir að þunglega hafi nóttin lagzt í Pétur Einarsson, er hann minntist nú enn sinna drauma, og gripið hafi hann sá grunur, að ekki mundu þeir rætast nema á einn veg. En slík var karlmennska hans og þrek, að hann lét það ekki á sig fá og tók æðrulaust, því sem að höndum bar; má og vera að það hafi aukið honum kjark fremur en hitt, að enginn drauma hans virtist boða feigð hans sjálfs, en sárt mun hann hafa tekið til félaga sinna, er hann þóttist vita suma þeirra feiga, þótt ekki gæti hann verið viss um á hverjum þeirra draumar hans myndu rætast þannig, nema þá helzt Guðmundi, rekkjunauti sínum og vini. Eflaust hefur það verið þetta sem olli, að hann gerðist heldur önugur í orði og svarkaldur, því að alltítt er það um skapmikla og tilfinninganæma, en æðrulausa menn, að þeir leyni þannig viðkvæmni sinni.

Sá fyrsti hnígur á hjarnið
mosganga-4Brátt tók mjög að þynnast fylking þeirra, er uppi stóðu. Þeir, sem harðast voru komnir sökum þreytu og kulda, höfðu samstundis fleygt sér niður, en sumir þó reynt að gera sér gróf í hjarnið meö stöfum sínum, svo fyrr skefldi yfir þá. Þegar komið var fast að dagsetri, rak Þorsteinn ungi frá Kervatnsstöðum upp hljóð þrisvar sinnum og hneig síðan niður á hjarnið. Lét Kristján frá Arnarholti, er þá stóð enn uppi, svo um mælt, að hörmulegt væri að heyra, en Pétur svaraði því til, að sæmst væri honum að þegja, fyrst hann fengi ekki að gert. Má af því kaldranasvari ráða, að sárt hafi þau hljóð látið í eyrum hans, og þungt hafi honum fallið það að fá sjálfur ekki neitt að gert.
Hvorki lægði veðurhæðina né dró úr frosthörkunni, færðist heldur í aukana ef nokkuð var. Loks stóðu þeir einir uppi, jafnaldrarnir, Pétur og Einar. Hétu þeir þá hvor öðrum því, að uppi skyldu þeir báðir standa meðan þeim entist þrek og ræna…
Fullyrða má að fáir hafi nokkru sinni átt svo erfiða og vonlitla varðstöðu eða svo ógnþrungna vökunótt, sem þeir. Að fáir hafi nokkru sinni háð jafn harða hólmgöngu, ekki einungis við umhverfið, aðstæðurnar og rás atburðanna, heldur og sjálfa sig — og haft sigur.
Ekkert okkar er þess umkomið, að setja sig fyllilega í annarra spor, jafnvel ekki þótt troðin séu á tiltölulega tálmalausri alfaraleið, svo einstaklingsbundin eru viðbrögð manna og tilfinningar, þótt ekki sé nema um alvanalegustu hluti að ræða, sem þeir vita engum örlögum valda; við höfum meira að segja ekki hugmynd um hvernig við munum sjálf bregðast við þeim hlutum, eða gerum okkur alranga hugmynd um það, þangað til á reynir. Þeim mun ógerlegra er okkur því að setja okkur í annarra spor, sem þau liggja fjær ruddri alfaraleið, um vegleysur og torfærur, erfiði og örðugleika eða einstigi þjáninga og þrenginga, þar sem hvert fótmál getur ráðið óafturkallanlegum úrslitum, og þó jafnvel enn ógerlegra að spá nokkru um það, hvernig við mundum sjálf bera okkur á þeirri göngu.

Hólmganga við Feigð og Hel
Það reyndist þeim mest mein hve á þá sótti svefn, enda lúnir af erfiðri göngu og illa fyrirkallaðir eftir hvíldarlitla nótt. Urðu þeir þó að hafa sig alla við, að veðrið hrekti þá ekki hvorn frá öðrum eða skellti þeim flötum, og máttu því aldrei slaka á vökuvitund sinni, hvernig sem óvættur feigðarinnar gól þeim svefngaldur sinn í náttmyrkrinu við sefandi gnauð hríðarinnar og einhljóma síbyljustef norðanroksins. Það gerði og enn máttkari þann grimma galdur, að þeir gátu ekki vitað nema félagar þeirra lægju flestir dauðir eða í andarslitrunum undir því kalda brekáni, sem hríðin og stormurinn höfðu að þeim ofið, og væru það návein þeirra, annarleg og ámátleg, sem öðru hverju heyrðust úr skaflinum. Enn voru þeir Pétur og Einar sjálfir ókalnir, en klæði þeirra öll ein klakabrynja og klakahúð lagðist á andlit þeim, og urðu þeir að brjóta hana frá vitum sér og augum með gödduðum vettlingunum.
Eflaust hefur „heilbrigð skynsemi” hvíslað í eyra þeim: spurt þá hvort þeir sæu ekki hversu heimskulegt það væri að þrauka þarna yfir félögum sínum dauðum eða sama og dauðum, og væri því öll þeirra barátta til einskis háð; spurt þá hvers vegna þeir gæfust því ekki upp, eða freistuðu að bjarga sjálfum sér á flótta, þar sem ekki væri örvænt um að þeir næðu til byggða, svo fremi, sem þeir drægju það ekki stundinni lengur; að þetta heit þeirra væri fásinna ein…
Þá var skammt til morguns, þegar þeim Pétri og Einari barst fyrsta raunverulega lífsmarkið frá félögum sínum í skaflinum. Einhver kallaði og bað fyrir guðs skuld að rofinn yrði snjórinn ofan af sér, því sér lægi við köfnun…
Stóðu 12 uppi þegar gránaði af degi Við þetta kall var sem álagafjötur brysti af þeim, tvímenningum. Þeir fengu ekki einungis tækifæri til athafna, heldur voru þeir nú ekki einir lengur. Og þó var ef til vill mest um það vert, að þessi vökurödd færði þeim sanninn um það, að ekki hefðu þeir til einskis þraukað af þessa ógnþrungnu nótt.
Pétur þreifaði í skaflinn; þar lá Þorsteinn ungi örendur og hafði hnigið ofan á höfuð þeim Bjarna og Ísaki, sem báðir voru á lífi. Hafði Pétur nú snör handtök og kippti ofan af þeim líkinu, en Einar kom honum til aðstoðar og reyndi að losa þá Bjarna og Ísak úr hjarngrófinni; hafði líkamshitinn þýtt frá þeim snjóinn fyrst í stað, en föt þeirra síðan frosið föst niður og máttu þeir sig nú hvergi hræra og eins var um þá aðra, sem nú vöknuðu til ráðs og rænu og beiddust hjálpar er þeir heyrðu að enn stóðu einhverjir uppi. Tókst þeim Einari og Pétri að losa þá hvern af öðrum, sem var þó erfiði mikið, þar eð eingöngu varð að beita til þess höndunum, en þeir hinir veittu þeim þó lið jafnótt og þeir höfðu sjálfir verið losaðir og studdir á fætur; þó kól þá nú báða, Einar og Pétur, mjög á höndum og fótum við þetta björgunarstarf. Þorsteinn frá Kervatnsstöðum var látinn, eins og fyrr segir, og annan félaga sinna, Jón frá Ketilvöllum, fundu þeir látinn í hjarngróf sinni.
Þegar gránaði af degi gegnum hríðarsortann, stóðu upp þeir tólf, sem enn voru á lífi; þótt hvorki hefði veðrinu slotað né dregið úr hríðinni eða frosthörkunni, var hin langa hörmunganótt þeirra þó liðin og dagurinn framundan jók lífsvon og þrótt, jafnvel þeim, sem hún hafði harðast leikið.
En það var eins og sú óvættur feigðarinnar, sem fyrst hafði gengið í slóð þeirra eins og hljóður skuggi allt frá því er för þeirra að heiman hófst, og síðan til návígis við þá hvern og eínn eftir að hríðin skall á, tæki það sem ögrandi storkun við sig, er þessar ásókn hennar. Voru meira að segja svo blindaðir af oftrú sinni á sigurmátt lífsins að ekki þurfti annars við en þær sæju bjarma af nýjum degi, til þess að þær tækju aftur uþpgjöf sína fyrir ofurefli hennar í myrkrum næturinnar. Og nú var sem hún afréði það í bræði sinni að láta til skarar skríða og brjóta þennan heimskulega mótþróa þeirra á bak aftur í eitt skipti fyrir öll. Á einu vetfangi var sem stormurinn trylltist, frostið tæki á allri sinni grimmd og hríðin færðist í aukana að sama skapi. Hin volduga vættur feigðarinnar krafði lífið og daginn um herfang það, er hún hafði helmerkt sér, sviþti þeim, sem minnimáttar voru og kröftum þrotnir, hvað eftir annað niður á hjarnið, jafnótt og hinum, sem meira máttu sín enn í átökunum við hana, tókst að reisa þá upp aftur; þreif þá jafnvel úr höndum þeirra og linnti ekki þessari æðisgengnu sókn sinni fyrr en þrír lágu enn dauðir í val, þeir Ísak, Diðrik og Egill — fimm alls.
Í þessari hólmgöngulotu gengu allir hart fram er máttu og sáust ekki fyrir — að einum þó undanskildum — og mundi fáa hafa grunað, sízt sjálfa þá, að þeir ættu enn þá hörku og þrek í sér, eftir það sem á undan var gengið. Það var eins og þeir fyndu það á sér, aö þetta væru úrslitaátökin og þeim, sem stæðust þau, væri undankomu von. Enginn gekk þó harðara fram en Pétur, enda mun hann gerst hafa skilið um hvað var barizt, hvort sem hann gerði sér grein fyrir því eða ekki hvaðan honum kom sá skilningur á meðan átökin stóðu yfir. En þegar hann sá þá þrjá falla til viðbótar hinum tveim, og þeirra á meðal Egil bónda á Hjálmstöðum, mun hann varla hafa verið í vafa um það, og ekki heldur um hitt, að enn mundu þeir félagar og óvættur feigðarinnar ekki skilin að skiptum að fullu. Bað um að klakagríman fyrir andlitinu yrði rofin með broddstaf Það var ekki fyrr en hinni æðisgengnu hólmgöngulotu lauk, að Pétur mundi til sjálfs sín. Var þá klakagríman fyrir andliti hans svo þykk orðin og samfelld, að allt var ein ísskán, höfuðfat, hár skegg og trefill, hvergi op fyrir augun né vitum, nema gat lítið við annað munnvikið, og fékk hann hvorki brotið þá skán eða rofið, þótt hann beitti gegn henni gödduðum vettlingunum. Lagðist hann þá aftur á bak á hjarnið og bað Kristján frá Arnarholti að beita nú broddstaf sínum, en hann mun að líkum hafa verið tregur til, því að bæði voru honum kaldar hendur og stirðar og engu mátti skeika.
Það gerði Pétur sér að sjálfsögðu líka ljóst; engu að síður lá hann grafkyrr á meðan Kristján beitti broddinum þar að skáninni, sem hann hugði minnst meiðsli að verða þótt örlítið geigaði, en fór sér þó hægt. Þegar honum hafði loks tekizt að rjúfa grímuna yfir enninu, þótti Pétri meir en nóg um varúð hans og seinlæti; greip báðum höndum að brotskörunum, fletti skáninni af andliti sér með einu hörðu taki og skeytti þá engu þótt skegg fylgdi og hár og spratt á fætur. Þótt Kristján hafi eflaust verið því fegnastur að þurfa ekki að beita hvössum stafbroddinum frekar að andliti hans, eins og allar aðstæður voru, er ekki ólíklegt að honum hafi allt að því blöskrað harka Péturs í þetta skiptið. Vera má að honum hafi þá orðið litið til Sveins í Stritlu, þess eina í hópnum, sem sparað hafði sjálfan sig; staðið hjá og ekki hafzt að, er félagar hans voru sem harðast sóttir og vissi hann Svein þó hraustmenni. Slík framkoma á neyðarstund er vöskum mönnum og ósérhlífnum jafnan öllu fremur óskiljanleg en fyrirlitleg, vekur með þeim óhugnanlega undrun fyrst og fremst, því þeir geta ekki trúað ódrengskap á neinn og sízt þá, er þeim eru áður kunnir að öllu sæmilegu, og því verður þeim slíkt enn lengur í minni. Heigulsskap og manndómsleysi geta þeir reiðzt þegar svipað stendur á, og fyrirgefið um leið og raunin er yfirstaðin, en hinu geta þeir hvorki gleymt né fyrirgefið.

Sá sjötti fellur í valinn
Þeim kom nú saman um að leita til byggða, skildu eftir byrðar sínar og broddstafi og héldu af stað. Ofsa þann, sem hljóp í veðrið í morgunsárið, hafði nú nokkuð lægt aftur; hríðin var söm og um nóttina og veðurhæðin svipuð, en frost öllu harðara. Þótt undan veðri væri að sækja, var það mikil þrekraun að spyrna stöðugt við, svo sterkviðrið hrifi þá ekki með sér, hrekti þá eftir hjarninu og skellti þeim flötum, en þá hefði verið óvíst um það, hvort þeim entist vilji og kraftur til að standa upp aftur, einkum þeim, sem þrekaðastir voru. Auk þess reið þeim lífið á að halda hópinn og veita hver öðrum eftir megni.
Ekki höfðu þeir langan spöl gengið, er Guðmundur frá Múla, seytján ára unglingurinn, sem þegar hafði sýnt að hann væri ósvikið mannsefni, þótt hann væri enn óharðnaður, kallaði til Péturs og bað hann leiða sig, því nú þryti sig mátt. Var Pétur fús til þess, enda ekki ósennilegt að hann hefði haft grun um, að nú yrði hann að berjast um líf þessa rekkjunautar síns og vinar, á svipaðan hátt og hann hafði áður barizt um líf þeirra fimm, er fallnir voru — og mundi eins fara. Þótt óvættur feigðarinnar hefði nú aftur hægra um sig, var hún enn á slóð þeirra og beið færis að heimta herfang sitt að fullu. Sex höfðu þeir verið, sem griðungurinn grái lagði að velli í draumi Kristjáns frá Arnarholti; sex höfðu þeir verið sleðarnir, sem hann hafði sjálfur séð í draumi dregna ofan af heiðinni, og verið svarað því til, að á þeim lægju ferðafélagar hans. Hann fann að Guðmund þraut stöðugt mátt; lagðist að síðustu svo þungt á arm honum, að hann varð að kalla í Einar og biðja hann að ljá sér lið til að halda honum uppi. Þess mundi vart langt að bíða úr þessu, að axarkólfurinn slægi sitt dumba, dimma slag.
En fleiri gerðust nú þreki þrotnir en Guðmundur, og það þótt eldri væru og harðnaðri.
Gísli Jónsson var og að lotum kominn. Náði hann taki á þeim Einari og Pétri, og urðu þeir nú að draga hann, en höfðu Guðmund á milli sín og gengu báðir undir honum. Sóttist þeim seint ferðin, sem ekki var að undra og misstu þrátt sjónir á þeim út í hríðina, sem á undan fóru. Barg þeim það eitt, að nú var snjórinn heldur harðari orðinn og því bezta færi, en fljótt mundu þeir, Einar og Pétur, hafa gerzt uppgefnir þótt hraustir væru, hefðu þeir orðið að kafa fannirnar eins og áður, með þær byrðar, sem nú voru á þá lagðar.
Þannig gengu þeir langa hríð; báru Guðmund á milli sín frekar en leiddu. Áfram héldu þeir, og óvættur feigðarinnar gekk í slóð þeirra eins og hljóður skuggi og beið færis. Það sagði Pétur síðar, að þá fannst honum sem hann vildi helzt deyja, þegar hann hafði náð til bæja að segja tíðindin og má nokkuð af því ráða hve hart var nú að honum gengið, en einnig hver hann var — að honum kom aldrei til hugar að semja frið við óvættina miklu og máttku, fyrr en honum hefði tekizt að standa við heitstrengingu sína, þá er hann vann vætti lífsins; Guðmundur var nú orðinn örmagna og rænulaus, en þó var sem honum þætti allt öruggt, á meðan hann mátti njóta þreks og lífsmáttar rekkjunautar síns og vinar. Þess eru mörg og óvefengjanleg dæmi, þótt við fáum ekki skilið það til hlítar, að svo hefur maður veitt vini sínum í baráttunni við dauðann að ekki verður skilgreint á annan hátt en að um beina lífsorkumiðlun hafi verið að ræða, annað hvort fyrir bæn eða aðra þá einbeitingu, sem jaðraði við hið ofurmannlega. Hver veit nema slíkt hafi átt sér þarna stað. Vafalaust vissi Pétur vin sinn feigan, svo næm sem ósjálfráð vitund hans var, eins og draumar hans sanna, á það, sem dylst handan við takmörk hversdagslegrar skynjunar. Og víst er um það, að einbeittari og viljasterkari mann getur varla en Pétur hefur verið, og ekki hvað sízt er því var að skiþta, að duga nauðstöddum. Hörð var sú líkamlega raun, sem hann lagði á sig, er hann barðist við hina hljóðu óvætt feigðarinnar um líf félaga síns og vinar, en kannski hefur þó sú andlega raun verið enn harðari. Til þess benda að minnsta kosti andlátsorð Guðmundar, að hann hafi fundið hvar lágu tengsl, sem bundið höfðu hann lífinu síðustu stundirnar, og því hafi gripið hann ótti, er hann fann að þau dugðu ekki lengur til. „Ætlarðu að yfirgefa mig, Pétur?”
„Nei, aldrei,” svaraði Pétur.
Þá tók Guðmundur fyrsta andvarpið, og svo voru harðar dauðateygjur hans, að hann hratt þeim báðum frá sér, Einari og Pétri. Axarkólfurinn hafði slegið sitt dumba, dimma slag…
Og óvættur feigðarinnar hafði heimt herfang sitt að fullu — nú voru þeir fallnir allir sex. Um leið slotaði hríðinni jafnskyndilega og hún hafði skollið á, storminn lægði og birti yfir.

Vökuvitundin úr öllum tengslum
Enn gengu þeir Pétur og Einar og leið enn alllangur tími unz þeir voru komnir heim til bæja, en svo var þá af þeim dregið, að ekki gátu þeir hjálparlaust komizt upp lág baðstofuþrepin. Og ekki rak Pétur minni til þess síðar, að hann hafi svarað öllu, er hann var spurður og voru svör hans þó skýr og skilmerkileg. Kaffi var honum boðið. „Því ætli ég vilji ekki kaffi,” svaraði hann, tók við bollanum, drakk það standandi og eins stóð hann á meðan Jóhannes bóndi dró af honum klæðin; mundi þó ekkert til þess eða annars, sem gerðist fyrst eftir að hann kom inn í baðstofuna. Svo örmagna var vökuvitund hans orðin, að hún féll gérsamlega úr öllum tengslum í svip, um leið og henni var það ekki lengur bráð nauðsyn að skynja umhverfi og aðstæður og móta ákvarðanir og viðbrögð samkvæmt því. Slíkt ástand getur skapazt eingöngu fyrir ofbeitingu viljans, hvort sem hún er ráðin eða fyrir utankomandi þvingun, t.d. frá dávaldi, eöa þá fyrir langvarandi ofraun sem öryggisráðstöfun gegn bilun, sem haft gæti hinar alvarlegustu, langvarandi afleiðingar. Það er vitað, að menn, sem annaðhvort eru gæddir óvenjulegum viljastyrk eða hafa þjálfað vilja sinn að meira eða minna leyti af ráðnum hug, eða þá ósjálfrátt fyrir knýjandi aðstæður, en hvað sem veldur því, leysir það alltaf úr læðingi dulda orku, sem gerir viðkomandi kleift að afreka það, sem honum væri með öllu ógerlegt annars og oft og tíðum hlýtur að teljast ofurmannlegt, eða að þola þá raun, sem hann fengi ekki annars afborið og vera þó heill eftir. Oftast er sá hæfileiki, auk þess sem hann byggist á óvenjulegum viljastyrk, samfara einhverjum þeim hæfileikum öðrum, sem kallast meira eða minna dulrænir, meðal annars þeim að vita fyrir óorðna atburði fyrir hugboð eða drauma. En eins og sjá má af undanfarinni frásögn var Pétur ekki aðeins viljasterkur maður með afbrigðum, heldur og draumspakur, og er þar með ef til vill ekki einungis fengin skýring á því ástandi, sem hann komst í þarna inni í baðstofunni að Bringum, heldur og á allt að því ofurmannlegu þreki hans og harðfylgi.

„Bágara eiga þeir sem á eftir eru”
Þeir fimm, sem á undan fóru, náðu miðmorguns að bæ, sem heitir að Bringum, aðframkomnir og svo rænulitlir, að þeir minntust ekki á félaga sína fyrr en einhver heimamanna hafði orð á því hve hart þeir væru leiknir; þá áttaði einn þeirra sig það, að hann mælti: „Bágt eigum við, en bágara eiga þeir, sem á eftir eru.” Þegar Jóhannes bóndi heyrði það, þóttist hann vita að þeir hefðu fleiri verið og bjóst tafarlaust til að leita þeirra. Enda slotaði hríðinni í þeim svifum. Fann hann þá Pétur, Einar og Gísla skömmu síðar, eins og áður er getið. Heimilið í Bringum var fátækt af veraldargæðum, húsakynni þröng og léleg — svo sagði mér Jón heitinn bóndi að Laxnesi í Kjós, sonur Jóhannesar bónda að Bringum, að í baðstofunni hefði verið þiljað eitt eða tvö stafgólf með palli, að hann minnti, en moldargólf og ber veggjahleðslan að öðru leyti. Engu að síður var hinum hröktu og nauðstöddu mönnum tekið þar af frábærri alúð og veitt öll sú hjúkrun, sem kostur var á, enda munu þau hjón bæði hafa verið mikil að mannkostum; gekk það og í arf til barna þeirra, ekki hvað sízt raungæði og gestrisni, til dæmis var heimilið að Laxnesi annálað fyrir hvortveggja.
Ekki var þó unnt að veita öllum hinum hröktu mönnum nauðsynlega hjúkrun og – aðhlynningu til langframa í slíkum húsakynnum og voru þeir því fluttir á hestum  á næstu bæi. Þess er getið, að þá var Sveinn í Stritlu ekki lúnari en það, að hann gekk á skíðum alllanga bæjarleið, og mun þá sumum félögum hafa fundizt, að helzt til lengi hefði hann sparað krafta sína, er hann stóð hjá og veitti þeim ekki lið í feigðarsvipnum mikla uppi á heiðinni.
Daginn eftir leituðu byggðamenn líkanna, kváðu þeir þau hafa legið við lækjarsprænu nokkra, en líkið af Jóni á Ketilsvöllum í vatni úr læknum. Voru líkin dregin á sleðum ofan heiðina að Mosfelli, og rættist þar enn einn draumur Péturs. Og enn dreymdi hann draum, sem sannarlega kom fram.
Líkkisturnar voru smíðaðar í Reykjavík og fluttar upp að Mosfelli, og vildi Pétur leggja til líkklæðin utan um vin sinn og rekkjunaut, Guðmund, og gerði nauðsynlegar ráðstafanir til þess. Þá var það nokkru síðar að hann dreymdi að Guðmundur kæmi til sín, og þóttist hann spyrja hvernig honum liði. Lét hann lítt af því og kvartaði um kulda. Komst þá Pétur að raun um það nokkru síðar, að fyrir vangá höfðu líkklæðin orðið eftir í Reykjavík þegar kisturnar voru fluttar upp eftir.
Allir munu þeir, sem komust lífs af úr þessari þrekraun, hafa borið hennar nokkur merki æ síðan, að Sveini undanskildum, en þó kann hann að hafa komizt að raun um, að seinna grær heilt um sumt en kalsárin.
Betur sluppu þó þeir, sem hvíldu í fönninni um nóttina, en þeir jafnaldrarnir, Einar og Pétur, — en þeim tveim áttu allir þeir, er af komust, tvímælalaust líf sitt að launa, því án þeirra aðstoðar hefði þeim verið ógerlegt að losa sig úr skaflinum, enda spurning að þeir hefðu vaknað af sjálfsdáðum, og er einsýnt hvernig þá hefði farið.

Sár Péturs gréru seint
Að Sveini undanskildum munu þeir félagar allir hafa legið lengur eða skemur. Einar lá lengi og löngum með óráði, þungt haldinn, enda mikið kalinn, en náði sér þó að lokum og greri heill sára sinna.
Um leið og fréttin af hrakningum þeirra félaga barst til Reykjavíkur, brá Geir kaupmaður Zoéga skjótt við, sótti Pétur upp eftir, tók hann heim til sín og lét veita honum alla þá hjúkrun og læknishjálp sem unnt var. Sýnir það enn, hversu mikils Geir mat Pétur. Lá Pétur þá í sama herbergi og sömu rekkju og hann hafði hvílt í haustið áður, þegar annarleg ásókn varnaði honum svefns lengi nætur, og hann dreymdi undir morguninn fyrsta draum sinn fyrir hrakningunum á heiðinni. Lá Pétur lengi, enda var hann þeirra félaga langmest kalinn, einkum á fótum. Greru sár hans seint og örkuml hafði hann alla ævi.
Því var viðbrugðið, að aldrei heyrðist Pétur kveinka sér, hversu þungt sem hann var haldinn, og aldrei missti hann ráð eða rænu. Komst hann loks á fætur, en ekki greru öll sár háns að fullu það sumar, og var hann til lækninga hjá Skúla lækni Thorarensen að Móeiðarhvoli lengi hinn næsta vetur. Var Skúla lækni minnisstæð harka hans og taldi með eindæmum. Sagði hann þá sögu til marks um það, að eitt sinn vildi hann reyna hve lengi hann þoldi. Sat Pétur þá í sæti niðri í herbergi hans, en Skúli tálgaði og skóf bein í fæti hans, vitanlega ódeyft með öllu. Pétur hafði orð á því, að öruggara mundi að hann léti menn halda sér, og væri ekki víst hve lengi hann fengi varizt því að hreyfa fótinn. Sinnti Skúli læknir því engu, eða lézt ekki heyra það, en hélt áfram að tálga og skafa beinið. Svo fór að lokum að Pétur kipptist við; Varð Skúla þá það eitt að orði: „Á, svei því,” en Pétur gekk upp stigann og settist við vinnu sína uppi á loftinu. Þótti Skúla lækni með  ólíkindum hve lengi hann mátti tálga og skafa beinið, áður en hann fékk Pétur til að kveinka sér.
Sumum kann að þykja sem hlutur Péturs sé miklaður um of umfram Einars, jafnaldra hans, sem sýndi þó að hann var honum jafnoki að þreki, karlmennsku og drengskap.
Satt er það að vísu, að ekki kemur hann eins við frásögn þessa og Pétur, og er þar fyrst og fremst skorti á heimildum um að kenna. Einar hefur verið hið mesta karlmenni, þrekmenni, skapfastur og æðrulaus. En jafnan fer svo þegar í raun rekur, að einn tekur forystuna og þá yfirleitt sá, sem til hennar er hæfastur, því að hina bilar. Og hæfileikar til forystu á  hættustund eða í þrekraunum, eru ekki öllum gefnir, jafnvel þótt þeir hefðu annars til þess þrek og karlmennsku, og séu færir um að vinna frábær afrek undir forystu annarra. Það er þarna, sem skilur á milli þeirra, Einars og Péturs. Hann hefði getað spurt að lokinni raun eins og garpurinn í brennunni að Bergþórshvoli: „Hvar fórstu, sem ég fór ekki eftir?” Hann fylgdi Pétri eftir að öllu, — en hann fór aldrei fyrir. Engu að síður hefði það verið mikils virði að hafa ljósari heimildir um Einar — hann hefur eflaust verið einn af þessum hlédrægu, yfirlætislausu og hljóða mönnum, sem hvergi vekja á sér athygli, fyrr en verulega reynir á, duga þá manna bezt, en aldrei verða nein hámæli um. Og þó þeir vinni þau yfirleitt ekki án forystu, er víst um það, að jafnvel mikilhæfustu og dugmestu  forystumenn njóta sín því aðeins til fulls að þeir hafi þá að bakhjarli. Einmitt þetta gerir hlut Einars mikinn í sambandi við  atburði þá sem nú hefur verið lýst, og þá mynd af honum, sem þar er brugðið upp,  athyglisverða og minnisstæða, þótt hún sé  dregin fáum dráttum — eða kannski helzt fyrir það.
Því er við að bæta, að Pétur ílentist ekki hér lengi eftir þetta; hann var einn þeirra fjölmörgu Sunnlendinga, sem hugðust segja skilið við harðindin og fluttu til Kanada. Þar gerðist Pétur landnámsmaður og hefur ugglaust haft þörf fyrir sitt mikla þrek þótt minni sögum fari af því.
Heimildir: Ritgerð séra Magnúsar Helgasonar í „Huld”, II. hefti o.fl.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1981, bls. 6-9.
-Lesbók Morgunblaðsins 9. janúar 1982, bls. 6-7.

Illaklif

Í Nýjum vikutíðindum árið 1969 er sagt frá “Munnskaðanum mikla á Mosfellsheiði” í marsmánuði árið 1957:
“Einhver hin átakanlegasta og slysalegasta ferð í verið. sem um getur, var farin fyrir rúmum hundrað árum, í öndverðum marzmánuði 1857, er fjórtán útróðramenn úr Biskupstungum og Laugardal í Árnessýlu börðust við dauðann á Mosfellsheiði í blindbyl og frosti.
laufdaelingastigur-221Segir nú ekki af ferðum þeirra félaga fyrr en kemur utarlega í svonefnda Vilborgarkeldu. Sjá þeir þá draga upp ský yfir Esjunni. Litlu síðar fór að hvessa, og að vörmu spori var skollin á þá grimmasta norðanhríð. Jafnframt herti frostið óðfluga, svo að hálfblaut föt þeirra manna, er gist höfðu á Þingvöllum, stokkgödduðu, og torvelduðu þeim mjög að komast áfram. Réðust þeir nú um, hvað til bragðs skyldi taka. Vildu sumir snúa aftur og leita bæja. Aðrir töldu það óráð, og þótti lítil von til að finna bæi í Þingvallasveit, þar sem þeir eru strjálir, en dauðinn vís ef þeir villtust út á vatnið eða í hraunið. Þótti þeim meiri von að takast mætti að finna sæluhús kofa þann, sem var á svo nefndum Moldbrekkum, austan til á miðri Mosfellsheiði. Gætu þeir látið þar fyrir berast, meðan verst væri veðrið. Ef það brygðist, myndu þeir að öllum líkindum finna Mosfellsdalinn. Mundi hríðin þar vægari og meiri von, að þeir hittu þar einhvern bæinn. Var þetta ráð tekið og halda þeir nú áfram vestur heiðina. Hríðin var svo svört, að ekkert sá frá sér, og sterkviðrið og frostharkan að sama skapi. Fuku höfuðfötin af sumum, og var engin kostur að elta þau. Gekk ferðin afar seint, bæði vegna ófærðar, veðurs og eigi sízt þess, hve klæðin frusu að þeim og gerðu þeim stirt um ganginn. Þegar á leið daginn, tóku þeir mjög að þreytast og sumir að gefast upp. Hinir, er færari voru, reyndu að hjálpa þeim eftir megni. Egill frá Hjálmstöðum hafði gengið fyrir um hríð. Þótti félögum hans sem hann mundi hafa haldið of mikið í veðrið og stefna of norðanlega. Ekki fundu þeir sæluhússkofann, enda sá vart út úr augum fyrir hríðinni. Þar á heiðinni er klif nokkurt, er verða átti á leið þeirra. Það urðu þeir eigi varir við. Kom þeim nú saman um, að snúa meira undan veðrinu, svo sem þeir hugðu stefnu vera á Mosfellsdalinn. illaklif-223Þótti þeim sem helzta lífsvonin væri sú, úr því sem komið var, að reyna að ná til bæjar í Gullbringum, en þangað var enn löng leið fyrir höndum. Gengu þeir nú enn um hríð, unz fimm voru svo þrotnir, að enginn var þess kostur, að þeir mættu lengra komast. Flestir hinna voru og mjög þjakaðir orðnir. Vildu sumir halda áfram og láta þá hvern þar eftir, er hann mátti eigi lengra komast.
Þó varð það úr, að þeir ákváðu að láta allir fyrir berast um nóttina, þar sem þeir voru komnir. Var þó ekki álitlegt til þess að hugsa, því að þarna var ekkert afdrep, allt slétt af jökli og veðrið svo ofsalegt, að ekki var stætt. Þeir, sem mest voru af sér gengnir, fleygðu sér þegar niður á hjarnið, en hinir stóðu uppi yfir þeim. Sumir reyndu að pjakka með stöfum sínum holu niður í harðfennið, til að reyna að fá eitthvert skýli, lögðust svo þar niður og létu skefla yfir sig. Þá félaga tók nú suma mjög að kala. Klakahúð var komin yfir andlit þeirra og öll föt voru stokkfreðin. Á Agli bónda á Hjálmstöðum var allt andlitið orðið hvítt af kali. —
Leið svo fram um dagsetur. Stóðu þá enn nokkrir uppi. Þá heyrðu þeir yngsta manninn í hópnum, Þorstein frá Kervatnsstöðum, reka upp hljóð þrisvar, og hneig hann niður við hið síðasta.
„Hörmulegt er að heyra,” mælti Kristján.
„Ef þú getur ekki að gert,” mælti Pétur, „þá er bezt að þegja.”
illaklif-224Gerði nú myrkt af nótt, svo að enginn sá annan. Þar kom, að enginn stóð uppi, nema Einar og Pétur. Sömdu þeir það þá með sér, að þeir skyldu aldrei niður leggjast, meðan þeir mættu uppi standa. Áttu þeir nóg að vinna að verjast sterkviðrinu, að eigi hrekti þá burt frá hinum. Þeir voru þá báðir ókalnir enn. Ekkert sást fyrir náttmyrkri og snjódrífu. Öðru hvoru heyrðust hljóð frá félögum þeirra, er lágu þar umhverfis í skaflinum, huldir í snjónum. Þá er langt var liðið á nótt, heyrði Pétur að kallað var í snjónum fyrir fótum honum og beðið í guðs nafni að rífa snjóinn, því að sér lægi við köfnun. Pétur þreifaði fyrir sér og fann þar Þorstein frá Kervatnsstöðum örendan. Hafði hann hnigið ofan á höfuðin á þeim Bjarna og Ísak. Voru þeir báðir á lífi, en máttu sig hvergi hræra, vegna líksins, sem lá yfir þeim, og svo voru þeir frosnir niður við hjarnið. Pétur snaraði burt líkinu, og tóku þeir Einar svo báðir að losa þá Bjarna og Ísak. Vöknuðu nú fleiri í skaflinum, er niður höfðu lagzt, en fæstir máttu upp standa, svo voru þeir frosnir. Hafði snjórinn þiðnað lítið undir þeim, er þeir lögðust niður, en frosið síðan við klæði þeirra. Þegar þeir heyrðu, að einhverjir voru uppi standandi, kölluðu þeir á þá og báðu þá hjálpar. Þeir Pétur tóku þá hvern af öðrum og svo hjálpaði hver, sem á fætur komst eftir megni. Guðmundur frá Hjálmsstöðum hafði lítt eða ekkert sofið. Hafði hann á sér þá hreyfingu, sem hann mátti, til að halda á sér hita. Heyrði hann nú angistaróp í snjónum hið næsta sér, og fór að huga frekar að því. Var það mágur hans, Egill Jónsson frá Hjálmstöðum. Var hann fastur í fönninni, berhöfðaður og berhentur á annarri hendinni. Eftir mikla erfiðismuni tókst Guðmundi að ná honum á fætur, batt tveimur vasaklútum um höfuð honum, en reyndi að koma hendinni í buxnavasann. Var hún þá stálgödduð og ósveigjanleg og kvaðst hann ekkert finna til hennar. Enn heyrði Guðmundur hrópað nálægt sér. Var það Þiðrik Þórðarson frá Útey. Var hann einnig fastur í Mosfellsheidi-221fönninni og búinn að fá brjóstkrampa, sem hann átti vanda til. Að lokum tókst Guðmundi að ná honum á fætur. Héldu þeir, sem eitthvað gátu, áfram að losa hina úr skaflinum, en það var torsótt mjög. Urðu þeir að beita höndum einum, því að eigi var þorandi að neyta stafbroddanna, þar sem bæði var niðamyrkur og handastjórn tekin að fatast, er flestir voru kalnir og varla hægt að ráða sér fyrir ofviðrinu. Sveinn frá Stirtlu hafði pikkað laust í hjarnið og lagzt þar niður aflangur. Var lengi strítt við að losa hann, og tókst að lokum. Var hann lítt kalinn eða ekki. Örðugast var að losa þá, er lagzt höfðu endilangir, en hægar þá, er lagzt höfðu krepptir. Í þessari svipan kól þá báða, Pétur og Einar, mjög á höndum og fótum.
Að lyktum voru allir komnir á fætur, nema Þorsteinn. Gátu sumir þó naumast staðið, og voru að detta niður öðru hvoru, en hinir hressari reistu þá upp aftur og reyndu að styðja þá. Undir dögun slotaði veðrinu lítið eitt. Töluðu þeir félagar þá saman, og mælti enginn æðruorð.
Þegar hálfbjart var orðið af degi gerði þann feiknasvip, og herti svo frostið, að langt bar af því, er verið hafði. Skullu þeir þá niður hver af öðrum, en nokkrir þeir, sem færastir voru, leituðust við að reisa þá á fætur aftur. Til marks um frosthörkuna er það, að á Pétri var orðin svo þykk  klakaskán yfir öll andlitinu, að hann gat eigi brotið hana frá. Var hvergi gat á, nema fyrir öðru munnvikinu, og frosið allt saman hár og skegg og klæði. Bað hann þá Kristján að brjóta klakann og lagðist niður á bakið. Kristján pikkaði með staf sínum rauf fyrir enninu. Þreif Pétur þar í og reif frá allt saman. Svo var veðrið nú mikið og frostið, að þeim félögum fannst sem stæðu þeir alveg berir og hröktust þeir undan veðrinu í hvössustu hryðjunum. Gekk á þessu um hríð, unz Jón frá Ketilvöllum, Þiðrik, Ísak og Egill hnigu niður í höndum félaga sinna. Var naumast hægt að merkja, hvort þeir væru með lífsmarki eða þegar örendir.
mosfellsheidi-222Harðasta hrynan hafði staðið um það bil klukkustund. Hefði hún staðið aðra klukkustund í viðbót, má fullvíst telja, að enginn hefði komizt lífs af. Veðrið dró niður um það leyti, sem albjart var orðið. Var þó enn rok og hörkubylur. Sáu þeir þó á milli hryðjanna höggva fyrir toppnum á Grímmannsfelli. Voru þeir rétt fyrir neðan Leirvogsvatn, heldur nær Stardal en Bringunum, og höfðu lítið sem ekkert farið afvega.
Þeim, sem eftir stóðu, níu samtals, kom nú saman um að halda af stað og leita byggða. Skildu þeir eftir poka sína alla og stafi. Er þeir höfðu skamma stund gengið, kallaði Guðmundur frá Múla til Péturs og bað hann að leiða sig. Gerði Pétur svo. Brátt fann hann, að sér mundi verða það of þungt einum. Kallaði hann þá til Einars og bað hann að leiða Guðmund með sér. Einar var fús til þess. Í sama bili þraut Gísla Jónsson. Reyndu þeir Pétur að hjálpa honum áfram, en varð nú seinfarið, er þeir urðu að draga tvo aðra máttfara með sér, enda misstu þeir í þessum svifum sjónar á félögum sínum öðrum.
Frá þeim er það að segja, að þeir héldu saman allir fimm og komust um miðjan morgun ofan að bænum Gullbringu, til Jóhannesar Lund, er þar bjó. Voru þeir þá svo aðfram komnir, að enginn þeirra var fær um að standa upp hjálparlaust, þegar þeir settust eða duttu.
Jóhannes bóndi og fólk hans tók þeim hið bezta, og fengu þeir þegar þá aðhlynningu og hjúkrun, sem framast voru föng á. Svo voru þeir rænulausir, að þeir gátu ekki um þá félaga sína, sem á eftir voru, fyrr en eftir drjúga stund, er einhver heimamanna var að aumka þá, hve bágt þeir ættu. Rankaði þá einn þeirra við og sagði: „Bágt eigum við, en bágara eiga þeir, sem eru á eftir.”
Þegar húsbóndinn heyrði þetta, bjóst hann þegar að leita þeirra, er á eftir væru, og var það jafnsnemma og upp stytti hríðinni.
Bringnavegur-221Í Gullbringum bjó fátækt fólk. Voru þar lítilfjörleg húsakynni og knappt um bjargræði og eldivið. Hinir hröktu menn fengu þegar kaffi og nýmjólk, voru færðir úr vosklæðum og að þeim hlynnt eftir fremsta megni. Síðan fóru þeir niður í vatnsílát með hendur og fætur, og voru í vatninu fram eftir degi.
Nú er að segja frá þeim Pétri og Einari, er þeir voru viðskila orðnir við alla félaga sína, nema þá tvo, er þeir leiddu. Höfðu þeir Guðmund á milli sín, en Gísli hélt sér í þá. Héldu þeir svo fram ferðinni langa hríð. Lítt skiptust þeir orðum við félagar, nema einu sinni segir Guðmundur: „Ætlarðu að yfirgefa mig, Pétur?”
„Nei, aldrei!” svaraði í því kipptist Guðmundur við svo hart að hann ýtti þeim frá sér. Það voru dauðateygjurnar, er hann tók fyrsta andvarpið. Báru þeir hann þó enn góða stund á milli sín, unz þeir skildu, að það kom fyrir ekki.
Þá var stytt upp hríðinni, og var það eins snögglega og hún hafði skollið á. Létu þeir nú lík Guðmundar eftir, og er þeir höfðu skamma stund farið, sýndust þeim koma þrír menn á móti sér. Það var Jóhannes bóndi í Gullbringum einn saman, er kominn var að leita þeirra. Stefndu þeir þá fyrir austan endann á Grímmannsfelli, er Jóhannes kom að þeim. Komust þeir nú allir heim með honum, en svo voru þeir máttfarnir, að Jóhannes varð að lyfta undir þá, til þess að þeir kæmust upp baðstofutröppurnar. Var Pétur verst farinn. Þegar þeir voru komnir inn á baðstofugólfið var spurt, hvort þeir vildu kaffi.
thingvallavegur-221Pétur svaraði: „Því ætli ég vilji ekki kaffi.”
Hann stóð á gólfinu, meðan hann drakk úr bollanum og meðan bóndi náði af honum fötunum. Hann talaði allt af ráði, en stutt og reiðilega, en sjálfur vissi hann ekki af sér, frá því að hann kom inn, til þess er stund leið frá.
Það var litlu fyrir hádegi, er þeir þremenningarnir komu til bæja. Voru nú sóttir menn og hestar til að flytja mennina á bæi, þar sem hægt var að hjúkra þeim. Voru sex þeirra fluttir þaðan. Bjarni og Guðmundur þóttu eigi flutningsfærir, og voru kyrrir um nóttina í Gullbringum.
Daginn eftir voru þeir fluttir niður í byggð. Allir voru þeir meira og minna kalnir, en urðu allir græddir að lokum, þótt sumir yrðu aldrei örkumlalausir. Einar lá lengi með óráði, en varð þó heill að lokum. Pétur var mest kalinn og lá mjög lengi í sárum og varð aldrei jafngóður.
Samhliða þessum flutning um voru þrír menn með duglega hesta sendir svo skjótt sem verða mátti til að leita hinna látnu og farangursins. Fundu þeir brátt lík Guðmundar frá Múla skammt frá Smalaskála nokkrum.
Því næst fundu þeir Ísak allmiklu norðar. Var hann enn með lífsmarki, þá er að var komið. Fluttu þeir hann strax að Stardal, því að þangað var skemmst, en hann dó á leiðinni. Byggðamenn sneru síðan aftur upp á heiðina og fundu brátt farangurinn og hina mennina fjóra sunnan til við Leirvogsvatn, hjá svonefndum Lómatjarnarlæk. Höfðu þeir lagzt rétt við lækinn og sumir þeirra legið í vatni úr læknum. Jón frá Ketilvöllum var þá enn með lífsmarki. Fluttu þeir hann að Stardal, en hann dó einnig á leiðinni.
Líkin voru öll lögð í snjó og vakað yfir þeim, en ekki leyndist líf með neinu þeirra. Voru líkin flutt til greftrunar að Mosfelli, en kistur gerðar að þeim í Rvík. Pétur kvaðst leggja til líkklæði utan um vin sinn og félaga, Guðmund frá Múla, og það gerði hann. —
Nokkru síðar dreymdi hann að Guðmundur komi til sín. Þóttist hann spyrja, hvernig honum liði — og fá þetta svar:
„Ekki vel. Mér er svo kalt.”
Frétti Pétur síðar, að líkklæðin höfðu orðið eftir í Reykjavík í ógáti, og þótti þá draumurinn benda til þess.”

Heimild:
-Ný vikutíðindi, 10. árg., 39. tbl, 1969, bls. 4, 5, 6 og 7.

Gamli Þingvallavegur

Tómas Einarsson skrifaði grein í Morgunblaðið árið 1990 um “Leiðir á Mosfellsheiði”:
“Gamli Þingvallavegurinn og sá nýi koma saman við Vilborgarkeldu austast á Mosfellsheiðinni. Líklegt er að þessi leið milli Þingvalla og Reykjavíkur hafi verið fjölfarin frá fornu fari. Hún er greiðfær, laus við torfærur ogvíða gátu menn „skellt á skeið”.
thingvallavegur-222Á árunum 1890-96 voru gerðar miklar  vegabætur á leiðinni og hún gerð vagnfær frá Suðurlandsvegi við Geitháls að Þingvöllum. En þegar von var á Friðriki 8. konungi til landsins  árið 1907 var vegurinn endurbættur mjög, því farið var með konunginn austur að Gullfossi og Geysi um Þingvöll.
Frá vegamótunum liggur leiðin fyrst upp allbratta brekku og skömmu síðar er komið að lítilli dalkvos, sem liggur sunnan við veginn.
Þetta er Djúpidalur. Þar er skjólgott og mun dalurinn hafa verið grösugur áður fyrr, en það hefur breyst á síðari árum. Árið 1907 komst dalurinn á spjöld sögunnar, því á austurleið áði konungsfylgdin þar og snæddi hádegisverð. Var slegið upp miklu veitingatjaldi innst í dalnum og krásir bornar á borð ásamt viðeigandi vínföngum. Þar var veitt ríflega, svo ríflega, að mörgum landanum ofbauð bruðlið, kannske mest þeim sem ekki fengu aðgang. Þegar komið er lengra upp á brekkubrúnirnar austan við Djúpadal víkkar útsýnið að mun.
Grímarsfell (af sumum nefnt Grimmannsfell) blasir við í norðri, Mosfellsheiðin er framundan og þar ber Borgarhóla hæst, en í suðaustri rís Hengill upp frá sléttlendinu, hömrum girtur hið efra. Þar sést hæsti tindurinn, Skeggi (805 m y.s.). Að vestan við veginn er lítið stöðuvatn sem nefnist Krókatjörn. Vegna lögunar sinnar hefur hún stundum verið nefnd Gleraugnatjörn. Sunnan undir Grímarsfelli liggur alldjúp dalkvos, sem nær þaðan og langleiðina að Hafravatni. Þetta er Seljadalur og liggur vegurinn eftir suðurbrúnum hans. Vestasti hluti hans nefnist Þormóðsdalur. Dalurinn er hlýlegur, grasi vaxinn, enda var haft þar í seli áður fyrr, eins og nafnið gefur til kynna. Það sel var frá Nesi við Seltjörn og sjást rúsir þess enn. Við svonefndan Kambhól í miðjum dal eru tóttir af rétt, sem notuð var á vorin, þegar fé var smalað til rúnings. Seljadalsá rennur eftir dalnum og í Hafravatn. Fremst í honum er Silungatjörn. Vestan við tjörnina er lítil hæð, sem heitir Búrfell. Um 1910 fannst þar gull. Næstu árin var unnið að frekari rannsóknum á svæðinu, grafin tilraunagöng, sýni tekin og send utan til rannsóknar og fyrirtæki stofnuð til frekari framkvæmda. En þetta rann allt út í sandinn þegar heimsstyrjöldin hófst. Eftir stríðið vaknaði áhuginn ekki aftur og gullið bíður því enn í Búrfelli, kyrrt á sínum stað.
thingvallavegur-223Frá Djúpadal er gatan nokkuð á fótinn allt að Háamel, sem er á móts við Borgarhóla vestanverða. Þar liggur leiðin hæst, um 340 m y.s. Áður en ráðist var í vegarbæturnar, sem fyrr eru nefndar, lá reiðgatan eftir Seljadalnum endilöngum, utan í austurhlíðum Grímarsfells, um Leirdal og upp á Háamel, þar sem göturnar komu saman. Frá Leirdal hallar vötnum til norðurs. Þar eru efstu drög Köldukvíslar, ársprænunnar, sem rennur um Mosfellsdalinn fram hjá Gljúfrasteini, húsi Halldórs Laxness.
Borgarhólar eru skammt austan við Háamel. Þeir eru nokkrir talsins (sá hæsti þeirra 410 m y.s.), auðveldir uppgöngu og því sjálfsagt að leggja smá lykkju á leiðina og ganga þangað. Af þeim er mikið útsýni; til Esju og um Kjöl til Botnssúlna, fjallaklasinn sem umlykur Þingvallasveit að norðan og austan blasir við og þar fyrir sunnan taka við Sköflungur, Dyrafjöll, Hengill, Húsmúli, Vífilsfell og síðan fjöllin vestan þess allt til hafs.
Þegar vísindamenn fóru að brjóta heilann um myndun Mosfellsheiðar og nágrennis, ályktuðu þeir að hraunið, sem hana þekur hafi komið frá Borgarhólum. En við nánari athugun á síðari árum hefur thingvellir-224komið í ljós, að svo er ekki. Borgarhólar eru eldri. Hallast menn að því að upptök hraunsins séu vestur af svonefndum Eiturhól, sem er austur á heiðinni. Hóllinn fékk þetta nafn vegna þess að þar var oft eitrað fyrir refi. Um hann liggja mörk Árnes- og Kjósarsýslna.
Frá Háamel hallar austur af. Fátt er um kennileiti nærri veginum, en ýmislegt er samt að skoða. T.d. handaverk gömlu vegargerðar-mannanna sem eru víða sýnileg í vegarbrúnum, ræsahleðslum og vörðum. Austarlega á heiðinni, á sýslumörkum, er tótt af sæluhúsi, sem eitt sinn hafði hlutverki að gegna, en er nú fallið og aðeins minjar um liðna sögu. Örnefni, eins og Sæluhússbrekka og Þrívörður, sem er að finna á þessum slóðum hafa einnig sögur að segja, sem aldrei verða skráðar.
Eftir umbæturnar á veginum um síðustu aldamót óx umferð yfir heiðina að miklum mun. Hestvagnar voru þá komnir til sögunnar, nokkru síðar reiðhjól og síðast bílarnir, en fyrsta bílnum var ekið austur á Þingvöll yfir Mosfellsheiði sumarið 1913. Til marks um hve umferðin hefur þá verið mikil, má geta þess, að um 1920 byggði danskur maður lítinn veitingaskála sunnan við Háamel, sem hann nefndi Heiðarblómið. Ekki er vitað hvernig þetta fyrirtæki gekk meðan það var og hét, en þegar bifreiðaumferð lagðist niður eftir þessum vegi um það bil áratug síðar var starfseminni sjálfhætt.
Þegar farið var að undirbúa Alþingishátíðina á Þingvöllum sem haldin var 1930, töldu menn hyggilegra að leggja nýjan veg norðar, þ.e. frá Mosfellsdal til Þingvalla. Unnið var að þessum framkvæmdum á árunum fyrir hátíðina og þá lagður vegurinn sem allir þekkja.
thingvallavegir-235Gamla veginum var ekki haldið við og varð hann því fljótlega ófær bílum. Síðan eru liðin rúmlega 60 ár og komast nú ekki aðrir bílar þessa leið en öflugar torfærubifreiðar. Þetta sýnir og sannar að flest mannanna verk eru forgengileg. Flestum ber saman um það, er hafa farið gömlu Þingvallaleiðina, að hún sé miklu skemmtilegri en hin nýrri. Hún liggur hærra, er styttri og af henni er meira víðsýni. Það er því ekki út í hött að koma með þá tillögu hér, að gera þessari fornu, áður fjölförnu leið svo til góða, að hún verði sumarfær öllum farartækjum. Með þeim afkastamiklu tækjum, sem nú eru notuð við vegargerð, ætti það ekki að kosta stórar fjárhæðir. Vestan við vegamótin þar sem gamli og nýi Þingvallavegurinn mætast er blautlend lægð. Um hana fellur Vilborgarkelda, sem löngum þótt ill yfirferðar, áður en nýi vegurinn var lagður yfir hana. Engar heimildir eru til um ástæður þessarar nafngiftar, en nafnið er gamalt, því það kemur fyrir í sögu Harðar og hólmverja. Annað örnefni, kennt við konu, er nærri vegamótunum skammt austan við Vilborgarkeldu. Það er Þorgerðarflöt. Kona með þessu nafni mun hafa látist þar með voveiflegum hætti einhvern tímann á fyrri tíð. Hafa menn talið sig verða þar vara við slæðing, þótt engum hafi orðið það að meini enn. Á Þorgerðarflöt var oft áningarstaður ferðamanna, því þangað þótti hæfileg dagleið frá Reykjavík með hestalest.”

Heimild:
-Morgunblaðið 16. maí 1990, bls. 18-19.

Gamli Þingvallavegur

Eftirfarandi lýsing á örnefnum á Mosfellsheiði eftir Hjört Björnsson má lesa í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1937-1939:
Mosfellsheidi-552“Síðan hinn nýi vegur yfir Mosfellsheiði var lagður, fyrir Alþingishátíðina 1930, má svo heita, að ferðir um gamla veginn, sem lagður var nokkru fyrir síðustu aldamót, hafi lagzt niður. Vilja örnefni týnast og falla í gleymsku á þeim leiðum, sem nú eru sjaldfarnar eða þotið er um í bíl, þótt áður væru þær fjölfarnar, bæði af gangandi mönnum og ríðandi, og þá oft með langar og seinfærar lestir baggahesta, og síðar kerrur. — Þá var oft nægur tími fyrir ferðamanninn að virða fyrir sér það, sem fyrir augun bar, og þekkja nöfn á áningastöðum og kennileitum. Vil jeg nú leitast við að telja upp örnefni meðfram gamla Mosfellsheiðarveginum, frá Almannagjá að Geithálsi, þar sem hann sameinast Hellisheiðarveginum.
Þegar komið er upp úr Almannagjá og farið „suður” — en svo er alltaf að orði komizt um ofanverða Árnessýslu, þegar farið er yfir Mosfellsheiði, Mosfellsheidi-553þó að vegurinn liggi til vesturs og jafnvel norðvesturs — þá liggur vegurinn litlu vestar yfir Breiðabala; lága, en breiða upphækkun í hrauninu. Vestan við Breiðabala er „afleggjari”; liggur hann til hægri handar beint upp hraunið í malargryfjur miklar sunnan í Stórhöfða, sem er á milli Brúsastaða og Kárastaða. Var „afleggjari” þessi lagður litlu fyrir síðustu aldamót, um líkt leyti og aðalvegurinn var gerður, til aðflutninga á ofaníburði. Dálítið neðan við túnið á Kárastöðum liggur vegurinn yfir Árfar. Er það allbreiður, en grunnur, farvegur, sem oftast er þur á sumrum. Nafnið kemur af því, að stundum í leysingum stíflast öxará af krapi og íshröngli fyrir innan Brúsastaði og flæðir þá vestur hraunið, sunnan undir Stórhöfða, og hefur myndað sjer þar farveg greinilegan; sameinast hún svo lækjarseytlum, er koma úr giljunum fyrir ofan Kárastaði, og rennur svo niður hraunið út í Mosfellsheidi-554Þingvallavatn.
Þegar yfir Árfarið er komið, tekur við Kárastaðamýri vestur í Borgarskarð, sem oftast í seinni tíð er nefnt Kárastaðaskarð, því að þar sjest fyrst heim að Kárastöðum, þegar komið er austur af heiðinni. Í Borgarskarði var fyr fjárborg, og þar talið, að Mosfellsheiði byrji. Vestan til heitir skarðið Borgardalur, en Borgardalsbrekkur lyngbrekkur miklar á hægri hönd, en til vinstri er Skálabrekkuás. Milli ássins og vegarins er lítil valllendisflöt og heitir Norðlingaflöt. Er þá komið í Bæjardal; hann er kenndur við bæinn að Skálabrekku, sem stendur sunnan undir honum, en sjest ekki af veginum. Bæjardalur takmarkast að suðvestan af Skálabrekkuás, en að norðvestan Lyngás. Liggur vegurinn eftir endilöngum dalnum, unz hann þrýtur, og er þá farið yfir Móakotsá. Það er lítil árspræna, sem oftast er þur í þurkasumrum; kennd er hún við eyðibýlið Móakot, sem stendur á árbakkanum niður-undir Þingvallavatni.

Mosfellsheidi-555

Var Móakot byggt um 50 ára skeið á síðustu öld. Vestan við Móakotsá er farið yfir hæð eina litla, Spýtuás, og taka þá bráðlega við lágar og lyngi grónar hæðir, er Þrísteinaholt heita. Liggur vegurinn milli þeirra og yfir Torfdalslæk, og því næst norðanundir Gíslahóli, sem venjulega er nefndur Gíslhóll. Austan undir Gíslahóli liggur rudd braut til vinstri af aðalveginum niður að Heiðarbæ og svo áfram suður Grafning. Skömmu áður en komið er að steininum, er sýnir 40 km. vegalengd frá Reykjavík, er farið yfir litla valllendisflöt, er Harðivöllur heitir. Nokkru vestar er Ferðamannahorn, þar sem bugur verður á veginum á hæðarbrún ekki mikilli; er þá skammt að Þorgerðarflöt, sem er allstór flöt til vinstri handar. Gegnt Þorgerðarflöt eru mýradrög allmikil, er heita Vilborgarkelda. Sagt er, að keldan beri nafn af konu nokkurri, er fórst þar voveiflega, og þótti hún síðan vera þar á sveimi, er skyggja tók, og gera ferðamönnum glettingar. „í Keldunni”, eins og oftast var komizt að orði, var mjög tíður áningastaður, og lágu langferðaraenn þar oft með lestir sínar, enda er þar haglendi fyrst, svo teljandi sje, austan aðalheiðarinnar. Örskammt vestan við Vilborgarkeldu og Þorgerðarflöt skiptast leiðir, og liggur nýi vegurinn, sem lagður var 1928—9, þar vestur heiðina, sunnan undir Litla-Sauðafelli og niður í Mosfellsdal.
Þegar komið er fram hjá vegamótunum, er farið yfir Mosfellsheidi-556Þórðargil, lítið gildrag, og Þórðargilsmela. Á þeim er varða, þrír steinar miklir, hver ofan á öðrum; er hún af sumum nefnd Berserkjavarða. Þaðan er nokkur spölur að Þrívörðum. Þar er land hæðótt og eru Þrívarðnalautir á milli þeirra, en vegurinn liggur yfir Þrívarðnahrygg vestur heiðina. Nokkuð sunnan við veginn á Þrívarðnahrygg sjer í tjarnir nokkrar, er Klofningatjarnir heita. Vestan í Þrívarðnahrygg eru Moldbrekkur, og hallar þar niður í Lágheiði, breiða dæld, sem er þar í heiðinni. Upp frá Lágheiði er alllöng brekka, Sæluhúsbrekka, og nær hún vestur undir Sæluhús, sem stendur þar fáa metra norðan við veginn. Var það byggt um líkt leyti og vegurinn; og kom mörgum að góðum notum, bæði mönnum og skepnum, þótt ófullkomið væri. Standa nú að eins veggir eftir, en þak og innviðir rifnir burt.
Nokkru vestar er klappahóll til hægri við veginn, er heitir Rauðkuhóll. Mosfellsheidi-557Fótbrotnaði þar hryssa, er Rauðka hjet, hjá ferðamönnum úr Þingvallasveit. Meðal þeirra var Jónas hreppstjóri Halldórsson í Hrauntúni. Hafði hann broddstaf mikinn í hendi og keyrði í enni hryssunnar, og var hún þegar dauð. Frá Rauðkuhóli er æði spölur, unz vegurinn liggur norðan undir allstórum og mörgum klappahólum, er heita Borgarhólar. Telja jarðfræðingar Mosfellsheiði gamalt hraun, og að Borgarhólar sjeu uppvörp þess, og hafi síðan jökull gengið þar yfir og sorfið. Enda sjást víða jökulruðningar miklir og ísrákir á klöppum um heiðina. Frá Borgarhólum liggja götutroðningar, sæmilega glöggir, niður með Grímmannsfelli (Grímarsfelli) austanverðu, niður hjá Bringum og niður í Mosfellsdal.
Hallar nú upp á melkoll nokkurn, Háamel, sem stundum er líka nefndur Alda. Þar liggur vegurinn hæst, og er þaðan útsýni mikið og fagurt í björtu Mosfellsheidi-558veðri. Til austurs sjest þar austurhluti Þingvallasveitar og fjöllin þar umhverfis og allt inn á Langjökul, en Skjaldbreið fyrir miðju, og sýnist þá engu minni en frá Þingvöllum, þó að miklu muni á fjarlægðinni. Til suðvesturs sjest um Suðurnes og meðfram Reykjanessfjallgarði endilöngum og á haf út, um sunnanverðan Faxaflóa. Sunnan undir Háamel var eitt sumar — eða tvö — fyrir rúmum 20 árum lítill veitingaskúr, er danskur maður átti og nefndi Heiðarhlóm. Sjást þess nú nálega engin merki, að þar hafi mannabústaður verið. Þar suðvestur af taka við sljettir melar, Borgarhólamelar, og hallar úr því nokkuð jafnt niður í byggð í Mosfellssveit. Heita þar Seljadalsbrúnir, löng leið og heldur tilbreytingalítil. Er þá Grímmannsfeli allfjarri til hægri handar, en Efri-Seljadalur milli þess og heiðarinnar.
Við suðurenda Efri-Seljadals eru hólar Mosfellsheidi-559nokkrir, og heitir þar Þrengslin, en sunnan við þau tekur við Neðri-Seljadalur. Verður þar undirlendi meira og dalhvilftin öll grynnri. Þar sunnarlega er Silungatjörn og Silungatjarnarmýri. í Seljadölum er graslendi mikið og var þar tíður áningarstaður ferðamanna fyrrum, enda lá vegurinn um þá áður en akbrautin var lögð. Lítið sjest af veginum ofan í dalina fyr en komið er niður á móts við Silungatjörn. Þegar all-langt kemur niður eftir Seljadalsbrúnum, verða fyrir tvö lautardrög til vinstri við veginn: Efri-Hrossadalur, og litlu neðar Neðri-Hrossadalur, og enn neðar sömu megin Helgutjörn — grunnur tjarnarpollur, sem venjulega þornar upp á sumrum. Þá er til hægri handar Eiríkshóll, einstakur klappahóll, flatur að ofan, að öðru leyti en því, að fuglaþúfa hreykir sjer á honum miðjum. Litlu neðar, en lengra frá veginum, er Vörðuhóladalur, daldrag, sem lítið ber á. Tekur nú vegurinn að verða krókóttur, en hefur verið bugðulítill ofan frá Háamel, og er nú bráðlega komið að Krókatjörn, sem er við veginn til hægri. 

Mosfellsheidi-560

Gengur að norðan út í hana langur tangi, er skiptir henni nærri í tvennt, og er hún því af sumum nefnd Gleraugnatjörn. Mjög litlu neðar, hinu megin við veginn, er Djúpidalur, alldjúp kvos, er áður var klædd valllendisgróðri, en hefur í seinni tíð blásið upp og jetizt af vatni. Sumarið 1907 var þar búinn morgunverður Friðriki konungi VIII. og fylgdarliði hans, er hann reið til Þingvalla og Geysis. Móts við og fyrir neðan Djúpadal er vegurinn enn krókóttari en áður, og heita þar Krókar niður að Miðdalsmýri. Liggur vegurinn yfir hana þvera og Miðdalslæk, sem rennur eftir henni, en bærinn Miðdalur stendur í halla kippkorn norðar. Þegar kemur yfir Miðdalsmýri, er vegurinn yfir háls einn lágan, en allbreiðan, og stóðu norðar á honum fjárhús frá Miðdal. Litlu sunnar, til vinstri handar, er tjörn ein lítil, er Heiðartjörn heitir, og er þá örskammt ofan af hálsinum niður að Lynghólsmýri, og er Lynghóll norðvestan við hana. Var Lynghólsmýri einn af fyrstu blettunum, sem girtur var með gaddavír meðfram veginum, og þótti sumum ferðamönnum súrt í broti, að missa jafngóðan áningastað. Þegar komið er fram hjá mýrinni, er enn dálítil tjörn við veginn til vinstri, er Sólheimatjörn heitir, og spölkorn vestar Hofmannaflöt, allstórar valllendisflatir til hægri við veginn. Þaðan er svo mjög skammt að Geithálsi, þar sem vegurinn sameinast Suðurlandsbrautinni. Hefur þá verið fylgt veginum austan frá Almannagjá, sem er 35—40 km. leið, og skýrt frá örnefnum.” Hjörtur Björnsson frá Skálabrekku.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Örnefni á Mosfellsheiði, Hjörtur Björnsson, 46. árg. 1937-1939, bls. 164-165.

Þingvallavegur

Yfirgefinn bíll á gamla Þingvallaveginum.