Gamli Þingvallavegur

Tómas Einarsson skrifaði grein í Morgunblaðið árið 1990 um “Leiðir á Mosfellsheiði”:
“Gamli Þingvallavegurinn og sá nýi koma saman við Vilborgarkeldu austast á Mosfellsheiðinni. Líklegt er að þessi leið milli Þingvalla og Reykjavíkur hafi verið fjölfarin frá fornu fari. Hún er greiðfær, laus við torfærur ogvíða gátu menn „skellt á skeið”.
thingvallavegur-222Á árunum 1890-96 voru gerðar miklar  vegabætur á leiðinni og hún gerð vagnfær frá Suðurlandsvegi við Geitháls að Þingvöllum. En þegar von var á Friðriki 8. konungi til landsins  árið 1907 var vegurinn endurbættur mjög, því farið var með konunginn austur að Gullfossi og Geysi um Þingvöll.
Frá vegamótunum liggur leiðin fyrst upp allbratta brekku og skömmu síðar er komið að lítilli dalkvos, sem liggur sunnan við veginn.
Þetta er Djúpidalur. Þar er skjólgott og mun dalurinn hafa verið grösugur áður fyrr, en það hefur breyst á síðari árum. Árið 1907 komst dalurinn á spjöld sögunnar, því á austurleið áði konungsfylgdin þar og snæddi hádegisverð. Var slegið upp miklu veitingatjaldi innst í dalnum og krásir bornar á borð ásamt viðeigandi vínföngum. Þar var veitt ríflega, svo ríflega, að mörgum landanum ofbauð bruðlið, kannske mest þeim sem ekki fengu aðgang. Þegar komið er lengra upp á brekkubrúnirnar austan við Djúpadal víkkar útsýnið að mun.
Grímarsfell (af sumum nefnt Grimmannsfell) blasir við í norðri, Mosfellsheiðin er framundan og þar ber Borgarhóla hæst, en í suðaustri rís Hengill upp frá sléttlendinu, hömrum girtur hið efra. Þar sést hæsti tindurinn, Skeggi (805 m y.s.). Að vestan við veginn er lítið stöðuvatn sem nefnist Krókatjörn. Vegna lögunar sinnar hefur hún stundum verið nefnd Gleraugnatjörn. Sunnan undir Grímarsfelli liggur alldjúp dalkvos, sem nær þaðan og langleiðina að Hafravatni. Þetta er Seljadalur og liggur vegurinn eftir suðurbrúnum hans. Vestasti hluti hans nefnist Þormóðsdalur. Dalurinn er hlýlegur, grasi vaxinn, enda var haft þar í seli áður fyrr, eins og nafnið gefur til kynna. Það sel var frá Nesi við Seltjörn og sjást rúsir þess enn. Við svonefndan Kambhól í miðjum dal eru tóttir af rétt, sem notuð var á vorin, þegar fé var smalað til rúnings. Seljadalsá rennur eftir dalnum og í Hafravatn. Fremst í honum er Silungatjörn. Vestan við tjörnina er lítil hæð, sem heitir Búrfell. Um 1910 fannst þar gull. Næstu árin var unnið að frekari rannsóknum á svæðinu, grafin tilraunagöng, sýni tekin og send utan til rannsóknar og fyrirtæki stofnuð til frekari framkvæmda. En þetta rann allt út í sandinn þegar heimsstyrjöldin hófst. Eftir stríðið vaknaði áhuginn ekki aftur og gullið bíður því enn í Búrfelli, kyrrt á sínum stað.
thingvallavegur-223Frá Djúpadal er gatan nokkuð á fótinn allt að Háamel, sem er á móts við Borgarhóla vestanverða. Þar liggur leiðin hæst, um 340 m y.s. Áður en ráðist var í vegarbæturnar, sem fyrr eru nefndar, lá reiðgatan eftir Seljadalnum endilöngum, utan í austurhlíðum Grímarsfells, um Leirdal og upp á Háamel, þar sem göturnar komu saman. Frá Leirdal hallar vötnum til norðurs. Þar eru efstu drög Köldukvíslar, ársprænunnar, sem rennur um Mosfellsdalinn fram hjá Gljúfrasteini, húsi Halldórs Laxness.
Borgarhólar eru skammt austan við Háamel. Þeir eru nokkrir talsins (sá hæsti þeirra 410 m y.s.), auðveldir uppgöngu og því sjálfsagt að leggja smá lykkju á leiðina og ganga þangað. Af þeim er mikið útsýni; til Esju og um Kjöl til Botnssúlna, fjallaklasinn sem umlykur Þingvallasveit að norðan og austan blasir við og þar fyrir sunnan taka við Sköflungur, Dyrafjöll, Hengill, Húsmúli, Vífilsfell og síðan fjöllin vestan þess allt til hafs.
thingvellir-224Þegar vísindamenn fóru að brjóta heilann um myndun Mosfellsheiðar og nágrennis, ályktuðu þeir að hraunið, sem hana þekur hafi komið frá Borgarhólum. En við nánari athugun á síðari árum hefur komið í ljós, að svo er ekki. Borgarhólar eru eldri. Hallast menn að því að upptök hraunsins séu vestur af svonefndum Eiturhól, sem er austur á heiðinni. Hóllinn fékk þetta nafn vegna þess að þar var oft eitrað fyrir refi. Um hann liggja mörk Árnes- og Kjósarsýslna.
Frá Háamel hallar austur af. Fátt er um kennileiti nærri veginum, en ýmislegt er samt að skoða. T.d. handaverk gömlu vegargerðar-mannanna sem eru víða sýnileg í vegarbrúnum, ræsahleðslum og vörðum. Austarlega á heiðinni, á sýslumörkum, er tótt af sæluhúsi, sem eitt sinn hafði hlutverki að gegna, en er nú fallið og aðeins minjar um liðna sögu. Örnefni, eins og Sæluhússbrekka og Þrívörður, sem er að finna á þessum slóðum hafa einnig sögur að segja, sem aldrei verða skráðar.
Eftir umbæturnar á veginum um síðustu aldamót óx umferð yfir heiðina að miklum mun. Hestvagnar voru þá komnir til sögunnar, nokkru síðar reiðhjól og síðast bílarnir, en fyrsta bílnum var ekið austur á Þingvöll yfir Mosfellsheiði sumarið 1913. Til marks um hve umferðin hefur þá verið mikil, má geta þess, að um 1920 byggði danskur maður lítinn veitingaskála sunnan við Háamel, sem hann nefndi Heiðarblómið. Ekki er vitað hvernig þetta fyrirtæki gekk meðan það var og hét, en þegar bifreiðaumferð lagðist niður eftir þessum vegi um það bil áratug síðar var starfseminni sjálfhætt.
Þegar farið var að undirbúa Alþingishátíðina á Þingvöllum sem haldin var 1930, töldu menn hyggilegra að leggja nýjan veg norðar, þ.e. frá Mosfellsdal til Þingvalla. Unnið var að þessum framkvæmdum á árunum fyrir hátíðina og þá lagður vegurinn sem allir þekkja.
thingvallavegir-235Gamla veginum var ekki haldið við og varð hann því fljótlega ófær bílum. Síðan eru liðin rúmlega 60 ár og komast nú ekki aðrir bílar þessa leið en öflugar torfærubifreiðar. Þetta sýnir og sannar að flest mannanna verk eru forgengileg. Flestum ber saman um það, er hafa farið gömlu Þingvallaleiðina, að hún sé miklu skemmtilegri en hin nýrri. Hún liggur hærra, er styttri og af henni er meira víðsýni. Það er því ekki út í hött að koma með þá tillögu hér, að gera þessari fornu, áður fjölförnu leið svo til góða, að hún verði sumarfær öllum farartækjum. Með þeim afkastamiklu tækjum, sem nú eru notuð við vegargerð, ætti það ekki að kosta stórar fjárhæðir. Vestan við vegamótin þar sem gamli og nýi Þingvallavegurinn mætast er blautlend lægð. Um hana fellur Vilborgarkelda, sem löngum þótt ill yfirferðar, áður en nýi vegurinn var lagður yfir hana. Engar heimildir eru til um ástæður þessarar nafngiftar, en nafnið er gamalt, því það kemur fyrir í sögu Harðar og hólmverja. Annað örnefni, kennt við konu, er nærri vegamótunum skammt austan við Vilborgarkeldu. Það er Þorgerðarflöt. Kona með þessu nafni mun hafa látist þar með voveiflegum hætti einhvern tímann á fyrri tíð. Hafa menn talið sig verða þar vara við slæðing, þótt engum hafi orðið það að meini enn. Á Þorgerðarflöt var oft áningarstaður ferðamanna, því þangað þótti hæfileg dagleið frá Reykjavík með hestalest.”

Heimild:
-Morgunblaðið 16. maí 1990, bls. 18-19.

Mosfellsheiði

Gluggvarða við Illaklifsleið.