Hafnarfjörður

“Nýr konungsvegur til Hafnarfjarðar” 

Hafnarfjörður 1903

Hafnarfjörður 1903.

“Hraunið ofan Hafnarfjarðar hefur löngum verið farartálmi, hvort heldur er fyrir mannfólk eða skepnur. Allt fram undir lok 19. aldar voru engar greiðar samgönguleiðir út frá hinum sívaxandi byggðarkjarna við Fjörðinn og þeir sem áttu erindi til eða frá Hafnarfirði, urðu að notast við troðna hraunstíga hvort heldur var út á Suðurnes um svokallaða Alfararleið, austur í sveitir um Selvogsgötu eða um illfæra hraunstíga norður ú bænum til innesja og Reykjavíkur.
Margar lýsingar eru til um þennan erfiða ferðamáta, ekki síst frá erlendum ferðamönnum sem sóttu Ísland heim fyrr á öldum. Skoski presturinn Ebenezer Hendersen sem kom ríðandi til Hafnarfjarðar frá Reykjavík sumarið 1814 segir í ferðalýsingu sinni að hann kenni mjög í brjósti um hestana sem þurfa að stika þessa ósléttu slóð yfir hraunið og ferðalangar þurfa að gæta varkárni til að hrufla sig ekki á fótleggjunum. Stígarnir dugðu vart til að komast um með klyfjaða hesta og vagnleiðir voru hvergi til staðar, enda þekktu landsmenn ekki til slíkst flutningsmáta fyrr en um aldamótin 199.

“Hafnarfjarðarvegabótasjóður”

Sjónarhóll

Sjónarhóll við Reykjavíkurveg.

Einn helsti framfarasinni í litla þorpinu við Hafnarfjörð á síðari hluta 19. aldar var Crristen Zimsen. Hann fluttist í Fjörðinn árið 1866 og gerðist verslunarstjóri við Knudtzonverslun og veitti henni forstöðu í tvo áratugi samhliða því sem hann stýrði verslunum í  bæði Reykjavík og Keflavík. Síðar rak hann sína eigin verslun þar til fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur árið 1892. Zimsen giftist Önnu Jurgensen kjör- og systudóttur Jes Th. Kristiansen, sem einnig var kaupmaður í Hafnarfirði á þessum tíma. Zimsen og Anna bjuggu lengstum sinn búskap í Hafnarfirði í húsi Bjarna Sívertsen. Þau eignuðust 10 börn. Þeirra á meðal var Knútur Zimsen síðar borgarstjóri Reykjavíkur.
Skömmu eftir að Zimsen kom í fjörðinn fór hann að huga að bættum samgöngum á landi, ekki síst við höfuðstaðinn í Reykjavík. Í árslok 1871 beitti hann sér fyrir stofnun sérstakst vegabótasjóðs til að gera úrbætur á þáverandi vegaslóða og fékk hann ýmsa aðila bæði í Hafnarfirði og nágrannabyggðum í lið með sér. Sjóðurinn var nefndur “Hafnarfjarðar vegabótasjóður” og tilgangur hans að safna gjöfum og samskotum til að “gjöra almenningsveg yfir Garðahraun frá Hafnarfirði inn að Hraunsholti” eins og sagði í stofnskrá sjóðsins. 

Mesti farartálminn í Hafnarfjarðarhrauni

Hafnarfjörður 1900

Hafnarfjörður 1900.

Undirtektir voru almennar og góðar og töluvert fé safnaðist í sjóðinn eða hátt í 900 ríkisdalir á hálfu öðru ári. Framkvæmdir hófust þegar sumarið 1872 og miðaði vel. Vegaslóðinn var upphækkaður og gerður 5-6 álnir á breidd. Lögð var áhersla á að hafa veginn sem beinastan og tókst þannig að gera hann þriðjungi styttri en hinn fyrri krókastíg.
Mikil umferð og sívaxandi var milli þessara stærstu byggðarkjarna á suðvesturhorninu jafnt um sumar sem vetur. Nokkuð greiðfært var lengstan hluta leiðarinnar en stígurinn í gegnum hraunið ofan Hafnarfjarðar var jafnan mikill farartálmi.
“Í hrauni þessu eru mjög fáar hellur, en víðast hvar eru klettadrungr hrúguð saman, og innan um þessi klungr eru djúpar lautir. Stígurinn hefir um aldr og æfi undist fram meðal kletta þessara. Hann er örmjór, svo að ferðamenn optlega hafa komist í hin mestu vandræði, þá er þeir mættu lest í stíginum eða lestir mættust. Um vetur fyltust allar lautir í hrauninu djúpum snjó, og varð þá hraunið alófært”, segir í frétt í blaðinu Víkverja sumarið 1873 þar sem fjallað var um vegaframkvæmdirnar.

Koungur stráði silfurmynt á nýja veginn

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Strangata 27.

Alt kapp var lagt á að ljúka að mestu vegagerðinni áður en hátíðarhöld vegna 1000 ára afmælis byggðar í landinu færu fram sumarið 1874. Þá síðsumars kom Kristján IX konungur Danmerkur og Íslands færandi hendi með nýja stjórnarskrá og gerði sér m.a. dagsferð suður í Hafnarfjörð og var nokkurs konar óformleg vígsla hins nýja vegar.
Ólafur Þorvaldsson lýsir í bók sinni “Áður en fífan fýkur” þeim merka degi er kóngur reið með föruneyti inn í Hafnarfjarðarhraun, en afi Ólafs, Ólafur Þorvaldsson í Ólafsbæ var verkstjóri vegagerðarmanna.
“Dag þann, sem kóngurinn kom til hafnarfjarðar, voru vegagerðarmenn að vinnu sinni. Þegar þeir sáu til ferða konungs og fylgdarliðs hans, röðuðu verkemennirnir sér upp báðum megin vegar og heilsuðu og fögnuðu konungi. Konungur stöðvaði hest sinn milli raða verkamanna, tók nokkrum sinnum handfylli af silfurmynt úr vösum sínum og stráði á veginn, þar sem hann var sléttur. Þegar konungur hélt ferð sinni áfram, varð nokkur handargangur við að ná í eitthvað af aurunum, sem meira var til minningar heldur en til nota.”

Enn frekari vegabætur
Nýi  vegurinn í gegnum Hafnarfjarðarhraun var mikil samgöngubót. Áfram var unnið næstu ár að frekari vegabótum og var verkið fullklárað árið 1878. Rúmum áratug síðar var enn á ný farið að huga að vegabótum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Var þá ráðist í að lagfæra enn frekar erfiðustu kafla leiðarinnar auk þess að breikka veginn og gera hann vagnfæran.”

Heimild:
-Samfylkingin í Hafnarfirði, jólablað 2013 – Lúðvík Geirsson tók saman, bls. 4-5.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefnakort (ÓSÁ).