Kristjánsdalir

Viktor og Jóhanna (FERLIRsfélagar) voru nýlega á ferð um Brennisteinsfjöll. Þau komu m.a. við í námunum vestan Draugahlíða.

Tóftin

Tóft undir Skörðum.

Á leið þeirra niður Kerlingarskarð gengu þau óhefðbundna leið niður með rótum Tvíbolla (Miðbolla) og Stórabolla. Ofarlega, undir Tvíbollum, eru leifar af húsi námumannanna (hleðsluhús). Neðar taka við gróningar í rótum. Skammt neðan við mesta brettann má vel greina tóft á hægri hönd, fast upp við hlíðina. Hún er ferköntuð (2×3.50 m að innanmáli). Hleðslur sjást vel, einkum að þeirri hlið er snýr að hlíðinni. Hæð á hleðslum eru um 60-80 cm. Þær standa grónar.
Þegar tóftin var skoðuð komu í ljós a.m.k. þrjú umför í tvíhlaðinni hleðslu. Það bendir til þess að þarna sé um að ræða neðri hluta (hlaðinn) af timburhúsi. Grjót hefur fallið inn og út úr veggjum, en hvergi er að sjá timbur. Bendir það til þess að húsið getið verið a.m.k. frá fyrri hluta síðustu aldar eða eldra. Ekki er að sjá dyr á vegghleðslunni. Hurð hefur því einungis verið á timburveggnum (hugsanlega þó á austanverðum suðurveggnum).

Selvogsgata

Selvogsgata neðan Kerlingarskarðs.

Tilgangur hússins gæti verið einhver eftirfarandi: Athvarf fyrir rjúpnaveiðimenn í Lönguhlíðum og Brennisteinsfjöllum. Á fyrri hluta síðustu aldar gerðu athvæðamiklir veiðimenn út á rjúpuna á þessu svæði, enda leitaði sú litla gjarnan niður í hlíðarnar eftir að snjóa tók efra. Sagnir eru til af mikilli veiði. Þá héldu veiðimennirnir til í húsum undir hlíðunum, sem gott hefur verið að leita í, einkum þegar veður tóku skyndilega að versna þarna efra. Slíkar tóftir má t.s. sjá í Kristjánsdölum þarna skammt norðar með hlíðunum. Önnur tóftin þar (sú nyrðri) er svo til eins og þessi.
Þá gæti þarna hafa verið skjól eða sæluhús fyrir ferðamenn um Selvogsgötuna eða geymsla og/eða athvarf fyrir “aðflutningsmenn” aðdrátta og afurða til og frá námumönnum í Brennisteinsfjöllum. Fyrstnefnda tilgátan er væntanlega sú er helst kemur til greina.
Frábært veður.

Varða

Varða við Selvogsgötu.