Hafnarfjörður

Eftirfarandi um Hafnarfjörð er úr “Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983“, eftir Ásgeir Guðmundsson.

Hamarinn

Hamarinn.

“Allir eru velkomnir til Hafnarfjarðar, í landnám Ásbjarnar Özurarsonar, frænda Ingólfs Arnarssonar, fyrsta norræna landnámsmannsins hér á landi. Í dag nær lögsagnarumdæmi Hafnarfjaðar yfir þéttbýlið við fjörðinn og 25 km suður fyrir það að háhita- og hverasvæðinu í Krísuvík og vestur fyrir Straumsvík. Saga bæjarins er samofin sögu verslunar á Íslandi. Á 15. öld kepptu Englendingar og Þjóðverjar um ítök í fiskveiðum og verslun í bænum og um tíma var bærinn kallaður þýskur „Hansabær“.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón við Hafnarfjörð.

Hér settist Bjarni Síverstsen, sem við köllum faðir bæjarins, að og hóf útgerð og verslun um síðustu aldamót. Í dag er sjávarútvegur, iðnaður og verslun auk vaxandi ferðaþjónustu helstu atvinnuvegir Hafnfirðinga.
Hafnarfjarðar er meðal annars getið við upphaf Íslandsbyggðar. Hingað kom t.d. Hrafna-Flóki á leið sinni að vestan á leið sinni aftur til Noregs: Þá rak bát með fóstbróður hans, Herjólfi, frá skipi hans og rak inn í Herjólfshöfn þar sem nú er Hvaleyrarlónið. Þar fundu þeir dauðan hval og gott skipalægi. Síðari saga segir frá Kólumbusi þeim er sagður er hafa fundið Ameríku. Talið er að hann hafi komið við í Hafnarfirði árið 1492 á einni ferða sinna yfir Atlantshafið.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1772.

Í landi Hafnfjarðar eru margar náttúruperlur, hér má sjá margbreytileika íslenskrar náttúru, hraunið, hitann, vötnin og tjarnirnar auk margs konar fugla- og plöntulíf og sumt fágætt.
Við sem búum í Hafnarfirði erum stolt af bænum okkar hvort heldur vísað er til hans sem menningarbæjarins, íþrótta- og útivistarbæjarins eða Vina-, Álfa-, Brandara- eða Víkingabæjarins. Íbúar bæjarins eru á 18 þúsund. Ljóst er að Hafnarfjörður býður gestum sínum upp á að njóta margvíslegrar dægrardvalar og fjölbreyttrar þjónustu. Í nágrenni bæjarins eru fjölbreytt útivistarsvæði með gönguleiðum, hellum, seljum, fjárborgum, fjöllum, hlíðum og dölum – sem sagt; eitthvað fyrir alla”.

Heimildir:
Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, Ásgeir Guðmundsson. – Hafnarfirði : Skuggsjá, 1983-1984.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður nútímans.