Mosfell

Í “Skráning fornleifa í Mosfellsbæ” árið 2006 er m.a. fjallað um jarðirnar Mosfell og Minna-Mosfell: “Saga Mosfells er fyrst getið í Landnámu og oftlega í Egilssögu en einnig í fleiri fornritum svo sem Gunnlaugssögu.
Mosfell-222Um 1200 er Mosfells getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar (Dipl. Isl. XII, bls. 9).
Elsta heimild um Minna-Mosfell eru Fógetareikningar frá árunum 1547-1552. Þá er jörðin komin í eigu konungs og er í reikningunum nefnd
„Mijndemosse-feldt“ (sbr. Dipl. Isl. XII).
Um miðja 15. öld er Mosfell komið í eigu Skarðverja. Greinir frá því í skiptabréfi, eftir Björn ríka Þorleifsson, frá 1467, að Mosfell komi í hlut ekkju hans, Ólafar Loftsdóttur, að Skarði á Skarðsströnd (Dipl. Isl. V, bls. 503). Ekki var Mosfell lengi í eigu Ólafar, því í kaupbréfi frá 1470 segir, að Ólöf Loftsdóttir fái Sigurði Jónssyni Mosfell í skiptum fyrir Hraungerði í Flóa (Dipl. Isl. V, bls. 503).
Á 16. öld kemst Mosfell undir Skálholt er Ögmundur biskup Pálsson kaupir jörðina.
Mosfell-223Við siðaskiptin er Mosfell, ásamt fleiri kirkjujörðum, tekið undir konung. Til vitnisburðar um það eru Fógetareikningar 1547-1552 (sbr. Dipl. Isl. XII).
Árið 1703 er Minna-Mosfell enn konungsjörð. Ábúandi er einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 323-324).
Árið 1704 er Mosfell „Beneficium og kirkjustaður“. Ábúandi er staðarhaldarinn, séra Þórður Konráðsson (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 324).
Jörðin er komin í bændaeigu árið 1847 og er einn leiguliði ábúandi. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er Mosfells getið sem kirkjujarðar. Ábúandinn er prestur. Mosfell er enn í ábúð (1980) og er kallað Mosfell I í Jarðaskrá Landnáms ríkisins. Eigandi er ríkissjóður (J. Johnsen). Egilssaga getur um kirkju á Mosfelli og er það staðfest í áðurnefndri kirknaskrá Páls biskups. Svo virðist sem kirkja hafi verið lögð niður á Mosfelli einhvern tíma fyrir miðja 14. öld. Næsta kirkja á Mosfelli er reist á fyrri hluta 16. aldar og er kirkja að Mosfelli til ársins 1888, en er þá flutt að Lágafelli. Kirkjan, sem nú stendur að Mosfelli var vígð árið 1965 (sjá nánar um kirkju að Mosfelli nr. 2).
Silfur Egils Magnús Grímsson skrifar talsvert um líklega felustaði. Segir hann á einum stað: „En þegar skammt er komið suðr fyrir Köldukvísl á Víðinn, á að geta 100 faðma, verða þar fyrir jarðholur miklar, einar þrjár eða fjórar. Eru þær víðar um sig og djúpar, með leireðju í botninum. Eru þær jafnan fullar af vatni, og sést lítill munr á því, þó þerrar gángi“. Ætlar Magnús, að þar séu komnar jarðholur þær er nefndar eru í Egilssögu. Þrælapyttur er á barði nálægt Kýrgili „… býsna stór og furðu djúpr, með forarleðju í botninum. …er mælt að þar hafi seinna fundist í þrælarnir, sem Egill drap, eðr bein þeirra.

Mosfell-225

En ekki hefir söguritarinn vitað af því að segja. … Neðan undir hólbrekkunni á Mosfelli, sem fyr er getið, er dý eitt fullt af grjóti, eigi stórt um sig, en furðulega djúpt. Þar halda sumir að fé Egils sé niðri í“. Ekki telur Magnús þetta vera líklegan stað. Telur hann líklegast að Egill hafi fólgið silfur sitt
í einhverjum pyttinum á Víðinum, fyrir sunnan ána Köldukvísl. Þó segir hann þetta ekki verða sagt með vissu. „Sagan segir og, að þángað [í jarðholunum] sé opt sénn haugeldr, og styðr það þessa ætlun, jafnvel þó eg ímynda mér slíka elda af öðrum rótum runna en fé, og því harðla marklitla í þessu efni. En slíkar sjónir sýna opt trú manna, og hygg eg, að menn hafi snemma orðið á sömu ætlan um þetta og eg er, af því líkurnar hafa þótt svo sterkar til hennar.

Mosfell-226

Einn manna hefi eg talað við, sem enn er lifandi, sem þykist hafa séð slíka elda, nálægt því svæði sem hér um ræðir, fyrir hérumbil 15 eðr 16 árum“. Endar Magnús vangaveltur sínar um hvar silfur Egils sé að finna með því að ítreka að pyttirnir, nálægt hinum forna vegi yfir Víðinn, séu líklegastir (Magnús Grímsson, bls. 266-270).
Eina sögu kveðst Magnús hafa heyrt um að silfur Egils hafi fundist: Einn góðan veðurdag var bóndinn í Þverárkoti á leið til kirkju að Mosfelli. Þegar hann kom að Kýrgili veik hann sér lítillega upp með því „að gegna nauðsynjum sínum“. Þarna átti bóndi að hafa fundið peninga en leyndi fundi sínum vel. Er sagt að hann hafi orðið ríkur á fáum árum. Silfrinu átti bóndi að hafa skipt hjá Jóni Ólafssyni ríka í Síðumúla (Magnús Grímsson, bls. 271). Í athgr. 5 í sömu heimild stendur að árið 1722 hafi fundist enskir peningar nálægt Mosfelli. Höfðu þeir skolast fram í vatnagangi.

Mosfell-227

Frásögnin um peningana er í ritgerð eftir Jón Ólafsson frá Grunnavík um íslenskar sögur. Segir Magnús, að sér þyki líklegast „að Grunnavíkr-Jón hafi eitthvað orðið áskynja um peningafund Þverárkotsbóndans, og haldið að gilið mundi hafa spýtt fram fénu.“ Ekki telur Magnús miklar líkur á, að saga þessi sé sönn. Bóndi hefði eins getað efnast í Þverárkoti án þess að hafa fundið peningana (Magnús Grímsson, bls. 276).
Aðrar upplýsingar: Seljabrekka var kölluð Jónssel upphaflega. Nafninu var breytt í Seljabrekku á árunum 1932-1938. Jónssel er nýbýli, frá 1922-1932, úr landi Mosfells. Eigandi 1979 var ríkissjóður. Leiguliði Guðmundur Þorláksson (Fasteignabækur, Jarðaskrár).”
Í framangreindu samhengi vekja tvær tóftir á bökkum Kýrgils sérstaka athygli. Ekki er óraunhæft að ætla að í gólfi annarrar þeirra hafi nefndur Egill grafið silfursjóðinn umrædda: “Um 680 m NA Minna-Mosfells og um 1,2 km norðan Lundar. Við ofanvert Kýrgil á nyrðri bakka þess. Um 200 m eftir að Kýrgil beygir til vesturs er grasi gróin brekka eða laut á norðurbrún gilsins. Þarna er gilið fremur grunnt. Sunnan gilsins sér á mela, að hluta til mosagróna (Ágúst Ó. Georgsson). Tóft þessi liggur í því sem næst N-S og er hún um 5 m á lengd og 4 á breidd að utan máli. Er hún gróin og fremur gamalleg að sjá. Suðurhluti tóftarinnar er skýrastur. Þar eru veggirnir um 40 cm háir. Norðausturhornið er næstum af, í sömu hæð og graslendið umhverfis. Samt má greina útlínur nokkurn veginn. Inngangur hefur verið í suðurgafli tóftarinnar. Ekki er gott að segja til um hlutverk rústar þessarar. Þetta gæti e.t.v. hafa verið lítil rétt eða kró fyrir lömb. – Rústin er án efa frá fráfærutímabilinu. Umhverfið er mjög grasi gróið, gott til beitar og skjólsælt. Tóftin er of lítil til að vera stekkur eða kvíar. Stendur hún á sléttum bala á norðurbrún Kýrgils. 

Mosfell-228

Fast að baki er brekka. Stekkjarúst er um 50 m austar, á brún gilsins. Er sennilegt að tóft þessi hafi verið notuð sem lambabyrgi eða kró. Guðmundur Skarphéðinsson, bóndi á Minna-Mosfelli vísaði á rúst þessa 23/7 1980 (Ágúst Ó. Georgsson).”
Um hina tóftina segir: “Á norðurbarmi Kýrgils um 150 m austar en það beygir til vesturs. Um 550 m NA Minna-Mosfells. Grasi gróin, slétt að mestu, flöt eða kvos á norðurbrún Kýrgils. Svæði þetta er skjólsælt og grasmikið. Neðan og sunnan þess taka við melar, meira og minna gróðurlausir (Ágúst Ó. Georgsson). Tóftin, sem sennilega hefur verið stekkur er ca. 3 x 5 m að utanmáli. Veggirnir eru um 70 cm háir alls staðar, nema suðurveggurinn, sem bara undirstöðusteinar eru eftir af.

Mosfell-229

Snýr stekkurinn í S-N, eða því sem næst. Er hann alveg á blábrún gilsins, sem hallar bratt í suður. Þessi brún gilsins (norðurbrún) er öll grasi vaxin en klettar eru að sunnanverðu. Inngangur í stekkinn er á eystri langhlið, eilítið norðan við hana miðja. Er tóft þessi gerð úr torfi og grjóti. Frá suðausturhorni stekksins og meðfram gilbrúninni er um 5 m langur hlaðinn grjótgarður. Að norðaustanverðu eru leifar annars grjótgarðs, sem hefur náð frá barði, þar ofan við, og að innganginum. Hin náttúrulegu skilyrði eru þarna ákjósanleg: Barðið, gilið og hinir tveir grjótgarðar hafa stýrt fénu rétta leið, þ.e. inn í stekkinn (Ágúst Ó. Georgsson). Guðmundur Skarphéðinsson segir að faðir sinn hafi skoðað þennan stað árið 1937 og voru þar þá rústir einar. Töldu þeir feðgar að um stekk hafi verið að ræða.”
Ofan tóftanna, efst á norðaustanverðu Mosfelli er Gatklettur sá er jafnan er nefndur þegar selstaðan fyrrum frá Minna-Mosfelli ber á góma. Þarna á millum, yfir ásinn, liggur forn gata, bæði norður og norðvestur fyrir Mosfell og áleiðis að Svínaskarði.

Heimild:
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Agnes Stefánsdóttir, Rúna K. Tetzschner, Guðmundur Ólafsson, Ágúst Ó. Georgsson, Kristinn Magnússon og Bjarni F. Einarsson. Skýrslur Þjóðminjasafns Íslands 2006.

Heimildaskrá:
-Ágúst Ó. Georgsson. Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980-1982. Skráningarbók 1604-65.
-Dipl. Isl.: Diplomatarium Islandicum. Íslenskt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf, gjörninga, dóma og máldaga og aðrar skrár, er snerta Ísland og íslenzka menn. Kaupmannahöfn og Reykjavík 1857 og áfr.
-Egils saga Skalla-Grímssonar. Sigurður Nordal gaf út. Hið íslenska fornritafélag. Reykjavík 1933.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III. Gefin út af hinu íslenzka fræðafélagi í Kaupmannahöfn. Kaupmannahöfn 1923-1924.
-Jarðaskrár 1958-1979. Landnám ríkisins hefur tekið saman eftir forðagæsluskýrslum og skýrslum hreppstjóra um jarðir í ábúð og eyði. Óprentuð. Skráin er einungis til hjá Landnámi ríkisins.
-J. Johnsen. Jarðatal á Íslandi, með brauðalýsingum, fólkstölu í hreppum og prestaköllum, ágripi úr búnaðartöflum 1835-1845, og skýrslum um sölu þjóðjarða í landinu. Kaupmannahöfn 1847.
-Landamerkjabók í afsals- og veðmálsbók fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu 1890.
-Magnús Grímsson. „Athugasemdir við Egilssögu Skallagrímssonar“. Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta að fornu.

Munnlegar heimildir:
-Guðmundur Skarphéðinsson bóndi á Minna-Mosfelli.

Kýrgil

Kýrgil – neðsti hluti.