Færslur

Heiðarblóm

Haldið var inn Seljadalinn og áfram upp á gamla Þingvallaveginn og síðan línuveginn á Þingvallaveg.

Seljadalur

Brú á hinum gamla Seljadalsvegi í Seljadal.

Farið var inn á slóðina skammt neðan við grjótnám Reykjavíkurborgar innan við Þormóðsdal. Síðan var haldið upp með Seljadalsá að norðanverðu. Sást þá gamla leiðin þar sem hún kemur að sunnan og yfir ána. Komið var að grindarhliði á girðingunni um höfuðborgarsvæðið vestan við Kambhól. Hlið er bæði fyrir bíla og fyrir hesta. Framundan eru hólar þvert yfir dalinn og liggur slóðin á milli hólana og síðan í gegnum gamla hlaðna rétt sunnan undir Kambhól, Kambsrétt. Slóðinn er flóraður á þessum kafla. Þessi gata var lögð á seinni hluta 19. aldar og var um tíma aðalvegurinn til Þingvalla eða þangað til gamli Þingvallavegurinn (sjá á eftir) var lagður í tilefni að Alþingishátíðinni 1907.

Seljadalur

Seljadalur – brúin.

Dalbotninn er sléttur og algróinn. Leiðin liggur nú upp til vinstri um holt þar sem þurrast er. Næst er komið þar sem slóð kemur á slóðina frá vinstri. Sú slóð liggur út dalinn horðan við Hulduhól að girðingunni umhverfis malarnámið, sem fyrr getur. Varða er á Hulduhól sem er norðan við Kambhól og gæti bent til þess að leið hafi verið þar ef menn voru á leið um Þormóðsdal (þurrari en hin leiðin). Framundan er vik í dalbotninum norður í holtinn og sést hlaðin jarðvegsbrú þvert og beint yfir vikið. Hefur verið mikið mannvirki á þeim tíma. Við förum yfir læk og er trébrú á honum.

Seljadalur

Seljadalsvegur.

Nú er komið að raflínu sem liggur upp Seljadalinn og liggur slóðin sem er hér línuvegur norður fyrir vikið og er farið yfir aðra trébrú. Slóðinn sameinast svo gamla veginum á ný austan við vikið.
Sunnan í dalnum er hamraveggur á kafla. Neðan við hann er nokkuð slétt svæði, grasgeiri og er ekki útilokað að þar kunni að leynast tóftir á tungunni. Leiðin liggur svo upp með gili sem heitir Hrafnagil upp í Efri-Seljadal, þaðan á vatnaskil þar sem fer að halla í Leirdal og efstu drög Köldukvíslar, sem rennur niður Mosfellsdalinn.

Mosfellsheiði

Gamli Þingvallavegurinn.

Leirdalur er nokkuð vel gróinn og liggja gamlar götur um hann. Nú er orðið stutt upp á heiðina og hér sést hrunin varða. Farnir höfðu verið 6,5 km frá upphafsstað. Hrundar vörður eru hér með um 100m millibili. Slóð liggur hér til suðurs upp á gamla Þingvallaveginn sem kemur úr suð-vestri með Seljadalsbrúnum. Gatan liggur áfram upp á Háamel á gatnamót gamla Þingvallavegarins.
Nú var farið að svipast eftir stæði veitingahússins sem reist var hér.

Gamli Þingvallavegur

Tóftir Heiðarblómsins.

Farið var suð-vestur veginn að slóðamótunum sem áður var getið og litast þar um. Haldið var spölkorn til baka í norð-austur upp Háamel, stundum nefndur Aldan. Þegar komið var að talsverðu úrrennsli í veginum sást í hleðslu skammt norðan við veginn, vestur undir lágri grasivaxinni brekku. Hleðslan mun hafa verið grunnur að veitingahúsi. Giskað var á að grunnflöturinn gæti verið 3-3.5×4-4,5m. Grösugt er í kring um hleðsluna og virðast vera götur framan við hússtæðið. Ekki var vatn í læknum sem hefur rofið veginn en en vatn hefur líklega verið í honum áður. Hefur kannski breyst við að svörðurinn hefur rofnað og vatnið gengur niður? Veitingahúsið hefur staðið nokkurn veginn miðja vegu milli gömlu leiðarinnar upp úr Seljadal og Leirdal, áleiðis til Þingvalla og gamla Þingvallavegarins (sunnar). Veitingahús þetta var reist árið 1920 og nefnt Heiðarblóm.

Þingvallavgegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Skammt austar kemur gamla leiðin inn á gamla veginn. Við mótin er fallega hlaðinn varða er líkst mest bergþurs. Hefur þurft menn (eða konur) ramma að afli til að koma miðjusteininum fyrir. Tilgangur þessara leiðarmerkja var að vísa vegfarendum veginn í slæmu skyggni eða vondum veðrum, ólíkt því sem ekki ósvipuðum mannvirkjum er ætlað á Njarðvíkurheiði vestra, þar sem þeim er beinlínis ætlað að villa um fyrir fólki.
Hér áður fyrr höfðu mannvirki ákveðin tilgang. Vörður voru leiðarmerki. Hlaðin skýli voru skjól fyrir veðrum. Kennileiti í landslagi voru eyktarmörk eða viðmið. Tveir steinar, hvor upp á öðrum, merktu greni. Þannig hafði allt sinn tilgang. Engin ástæða er til annars fyrir afkomendurna en að hafa þetta í heiðri. Varða á hól, án tilgangs, er eins og álfur út úr hól – góðir Íslendingar.
Veður var frábært – sól og hiti. Ferðin tók 2 klst og 22 mín.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Seljadalur

Ætlunin var að skoða Kambsrétt undir Kambhól, ganga austur Seljadal og reyna að finna og skoða Nesselið, sem þar á að vera í þverdal í norðanverðum dalnum. Á gömlu korti er selið staðsett ofarlega í þverdalnum.

Kambsrétt

Kambsrétt.

Guðjón Jensson, margfróður Mosfellingur, hafði haft spurnir af ferðinni á vefsíðunni og sendi væntanlegum þátttakendum eftirfarandi upplýsingar um Kambsréttina:
“Þessi dalur hefur verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér enda ýmislegt að skoða þó ýmsu hafi verið raskað. Þarna í Dalnum var sel frá Viðeyjarklaustri og eg hef verið mikið að velta fyrir mér gegnum tíðina hvar það hafi verið. Klaustrið var rænt skömmu fyrir miðja 16. öld. Síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, endurreisti klaustrið og lagði lykkju á leið sína á flóttanum þaðan er hann frétti að kóngsmenn hyggðust ná honum. Ögmundur kom við í Viðeyjarseli, sjálfsagt til að líta eftir hvort allt væri ekki í besta standi. Hann var handsamaður nokkru síðar af Hjalla í Ölfusi sem kunnugt er. Viðey nánast hverfur úr sögunni næstu tvær aldirnar. Ég hef leyft mér að draga eftirfarandi ályktun:
Undir Viðeyjarklaustur voru 132 jarðir sem kóngsmenn sölsuðu undir sig við siðskipti. Allar þessar jarðir voru leigðar út og var mikið kapp á að fá sem hæsta leigu út úr bændum, leiguafgjöld auk þess sem lagt var á karlana ýmsar óbærilegar kvaðir í þágu Bessastaðamanna. Nú varð ekki lengur jafn mikil þörf hjá leiguliðanum og kotungaanum í Viðey að koma lítilfjörlegum búsmala sínum frá sér og allar götur upp í Seljadal. Þar haslaði hins vegar bóndinn í Nesi, sbr. Nessel og í Örnefnalýsingu Þormóðsdals er sagt að þar í Dalnum hafi verið selför frá Gufunesi.

Nessel

Nessel.

Eftir að starfsemin í Viðey leggst af, er þörfin á hinum miklu umsvifum klaustursins um vestanverða Mosfellsheiðina engin. Kóngsmenn hafa látið afskiptalaust þó bændur, leiguliðarnir byggðu sér fjárrétt úr grjótinu og einhver þægindi þarna í Dalnum, enda hefði það aftur betri möguleika að standa í skilum með afgjald jarðanna.
Mér finnst liggja fremur ljóst fyrir, að Viðeyjarsel hafi fyrrum verið þar sem nú eru rústirnar af Kambsréttinni. Þar er t.d. mjög stutt í rennandi vatn en seljabúskapur byggðist á greiðum aðgangi að góðu vatni til að tryggja gæði afurðanna.

Nessel

Dýjamosi við Nessel.

Í skriðunni skammt innan við Kambsréttina og undir Seljadalsbrúninni tjáði Jón á Reykjum mér fyrir löngu að þar væri tóugreni að finna. Aldrei hefi ég verið svo lánsamur að rekast á afkomanda frumbyggjans knáa á Íslandi, refinn í Dalnum en oft rekist á spor hans á vetrum á Heiðinni. Hins vegar hef eg talið mig hafa fundið stundum stæka lykt hingað og þangað um Dalinn enda merkir refurinn sér óðal sitt vel og vandlega.
Fyrir innan Kambsrétt á móts við Nessel eru fornar brýr yfir mýrina. Sögn er um að hún hafi verið gerð í tilefni konungskomunnar 1874 en að öllum líkindum er hún mun eldri enda lág hin forna þjóðleið eftir Seljadalnum endilangum frá
fornu fari, frá Reykjavík og austur á Þingvöll. Svo er auðvitað ekki langt úr leið að skoða stuðlabergið í grjótnámunni sem vonandi fær nú að standa en miklu stærra og fegurra stuðlabergstál var brotið niður hérna um árið. Það þarf að láta verktakann ganga vel frá þessu námi þegar starfsemin hættir”.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.

Sesselja Guðmundsdóttir hafði gengið í Nessel og skoðað það. Hún sendi þá eftirfarandi lýsingu: “Nesselið er eitt flottasta ef ekki flottasta selstæði sem ég hef séð. Var spöl fyrir innan það litla sem ég fann í gær, þ.e. nær Grímarsfellinu, inn í dalbotni sem snýr í suður, lokaður af af hálsum á þrjá kanta, kaldavermsl í bæjarhlaðinu, góður bæjarhóll og líklega stór hringlaga stekkur aðeins austan við, ekki þó fullvíst er svo vallgróinn. Stekkurinn óvenjustór, minnir frekar á fjárborg. Mannvirkin þarna að mestu úr torfi enda varla grjót að fá.”
Gengið var frá vegi norðan Silungatjarnar og eftir slóða áleiðis að Kambhól. Hóllinn er kambslaga og sést mjög vel. Handan hans er Seljadalur. Norðan við hólinn er Huldurhóll og sést hann einnig mjög vel. Á honum er varða. Hólar þessir eru greinilega úr stuðlabergi, en slík náma (sú sem Guðjón minntist á) er í hlíðinni ofan við Hulduhól. Gengið var upp í námuna og stuðlabergsmyndanirnar skoðaðar í návígi. Stuðlarnir voru ýmist láréttir eða lóðréttir í berginu.
Ástæða þess að stuðlar eru hornréttir á kólnunarflöt er sú að jafnhitafletirnir færast inn í efnið samsíða kólnunarfletinum, þannig að lagið sem brestur (til dæmis 500°C kólnunarflöturinn) er samsíða kólnunarfletinum, en sexhyrndu sprungurnar sem myndast eru hornréttar á hann.

Nessel-230

Nessel – grunnuppdráttur ÓSÁ.

Þá var gengið á Hulduhól og síðan niður með honum. Þá blasti Kambsréttin við. Hún hefur verið nokkuð stór og fallega hlaðin. Réttin var lögrétt Mosfellinga, en lagðist af upp úr 1850. Þá var réttin flutt í Árnakróka austan við Selvatn. Þar var hún til aldarmóta 1900 eða þangað til hún var flutt að Hafravatni. Þar er hlaðinn rétt austan við vatnið, fast við þjóðveginn.
Vegslóði gengur í gegnum miðja Kambsréttina. Hlaðinn er vegkantur með slóðanum og sennilega hefur grjótið verið tekið úr réttinni. Í raun er réttin sunnan undir Hulduhól, en Kambhóllinn blasir við skammt frá í suðvestri. Seljadalsáin rennur ljúf til vesturs sunnan hans. Ofan vegar eru tveir stórir dilkar, en neðan vegar er meginhluti réttarinnar. Vel sýnilegt er almenningur og dilkur, en neðan þeirra mótar fyrir gerði. Vestan almenningsins er lítill heillegur dilkur og vestan hans mótar fyrir gerði sem og hólfi sunnan þess. Líklegt er að þarna hafi verið mannvirki áður en réttin var hlaðin og ályktun Guðjóns um sel á þessum stað gæti hugsanlega staðist miðað við jarlægu minjarnar, sem þarna eru við réttina, einkum sunnan hennar og vestan. Teknir voru GPS-punktar og réttin rissuð upp.
Kíkt var á urðina ofan við réttina, en líklegt er að skolli hafi ekki komið þangað um nokkurt skeið.

Nærsel

Nærsel – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var gengið inn með norðanverðum Seljadal. Dalurinn er sléttur og grasvænn. Hamraveggur lokar honum að sunnanverðu og Hrafnagil að austanverðu. Upp úr dalnum að norðanverðu gengur grösugur dalur. Framarlega í honum var komið að steinsteyptri stíflu í vænlegum læk. Svo virðist sem einhverjir hafi verið að reyna að stífla lækinn með það fyrir augum að fá þaðan gott vatn, en gefist upp við framkvæmdina. Í “stjórnhúsi” eru pípur og kranar.
Gengið var upp dalinn til norðnorðausturs, þvert á lækinn. Reyndar kemur lítill lækur ofan úr dalnum og sameinast þeim, sem fyrr var nefndur. Efst í grónum dal undir grónum grasbrekkum er Nessel, rétt merkt á hið gamla kort, sem haft var meðferðis. Selið er í skóli fyrir flestum áttum, enda hreyfðist ekki strá við það. Tóftin er þrjú rými, mjög greinileg. Lækur rennur sunnan við hana, en handan lækisins virðist vera eldri tóft. Hún gæti einnig hafa verið stekkurinn frá selinu, sbr. lýsingu Sesselju. Selið er á mjög fallegum stað og vel þess virði að ganga inn Seljadalinn og upp í selið. Þetta er u.þ.b. klukkustunda gangur frá Silungatjörn. Teknir voru GPS-punktar og selið rissað upp.

Nessel-231

Nessel – tilgáta ÓSÁ.

Gengið var upp fyrir selið og austur með brúnum Grímmannsfells (Grímarsfells), svo til alveg inn að Hrafnagili. Þaðan er útsýni stórbrotið yfir umhverfið í fjærsuðri. Sjá mátti þar allan fjallahringinn frá Stapafelli (Súlum) að Skeggja.
Í flagi neðan við selið mátti sjá flaghnoðra er gaf honum lit. Ofar var þvílíkt fagurgrænn litur á mosanum undan kaldavermslauppsprettunum að hjarta sérhvers framsóknarmanns myndi fyllast svo móðurlegri samkennd með landinu (að einum undanskyldum að vísu) að hugleiðingar um aðra mögulega nýtingu myndu gleymast með öllu.
Gengið var til baka niður að Nesseli og síðan til baka slóðann norðan við Seljadalsána. Þótt hún sé jafnan ekki mjög vatnsmikil er hún breið á köflum.
Stórkostlegt veður – sól, stilla og hiti. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Kambsrétt

Kambsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Nærsel

Að minnsta kosti – og einungis – eitt sel, Nessel, er (var) þekkt í Seljadal. En af hverju er þá um fleirtöluorð á dalnum að ræða? Ætti ekki dalurinn þá að heita Seldalur eða Seljardalur, sbr. Selfjall, Selvatn, Selbrekkur eða Seltjörn (Selvatn)!!?? (Margar spurningar hljóta að vakna).

Nærsel

Nærsel.

Nessel er sagt norðan í Seljadal. Það er ofarlega í fallega grónum þverdal, við værukæra lækjarsitru, austarlega í honum norðanverðum, undir suðurbúnum Grímarsfells. Selið er bæði myndarlegt og dæmigert fyrir sel á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs). Hins vegar virðist það ekki nægilega umkomumikið og ætlast væri af seli af slíkum “stofni”, þ.e. frá stórbýli á þeirra tíma mælikvarða. Auðvitað má ekki véfengja ábendingar fróðra manna um selstöðuna, en í örnefnaskrám segir einungis (og ótilgreint) að Nes hafi haft í seli í Seljadal. En Seljadalurinn er langur, og auk þess er hans jafnan getið í FLEIRTÖLU, eins og hér verður nánar lýst á eftir.
En hvaða sjálfsagða vísbendingu ætti bæði langur og gróinn dalur, í landnámi Ingólfs – með heila á rennandi um sig miðja og ótal læki allt um kring – að gefa? Hvar voru sérfræðingarnir – og hvar er áhuginn??
Hafa ber í huga að áhugi sérfræðinganna liggur jafnan, og eðlilega, í verkefnum er geta gefið eitthvert “lífsviðurværi” af sér. Annað, og allt umfram, er áhugafólksins. Afrakstur þess er þó jafnan vanmetinn – ekki síst af sérfræðingunum. En nóg um það í bili.

Nærsel

Nærsel.

Eftir nákvæma skoðun loftmynda af svæðinu vöknuðu grunsemdir um að dalurinn geymdi fleiri sel, bæði í honum suðaustanverðum (á eftir að gaumgæfa betur) sem og miðsvæðis í honum – og er þá Kambsréttin undanskilin. FERLIR hafði áður skoðað Nesselið fyrrnefnda, Kambsréttina og fleiri minjar í ofanverðum SELJADAL. En eitthvað stemmdi ekki alveg við heildarmynd þess tíma, sem um hefur verið fjallað, hvort sem um var að ræða staðsetningu eða stærð. Nesselið er óneitanlega á fallegum, en vandfundnum, stað og æði myndrænt, en samt…
Á leiðinni upp í Seljadal var rætt við húsmóðurina í Þormóðsdal. Þar er nú járnkætt timburhús, greinilega með nýrri viðbætum. Hún sagði eldra húsið hafa verið byggt um 1932. Nafnið Þormóðsdalur næði einungis yfir bæinn og jörðina, en dalurinn allt frá ofanverðu Illagili sunnan í Grímarsfelli, um hið hrikalega Hrafnagil, sléttlendi milli ása, um Kambshól og niður að Hafravatni norðan og vestan Búrfells hafi ávallt allur verið nefndur Seljadalur, enda áin, sem rennur um dalinn, einatt nefnd Seljadalsá (fleirtala+eintala) – alla leiðina.

Nærsel

Nærsel.

Ávallt hafi verið talið að á Þormóðsdalur hafi verið forn jörð og að þar hafi búið einn landnámsmanna. Þormóðsleiði er einn vottur um það [en það er eitt af verkefnum FERLIRs á næstunni að staðsetja það]. Enn vöknuðu spurningar: Hvers vegna er dalurinn í heild nefndur í eintölu þrátt fyrir að um fleiri dali virðist um að ræða? Var hér um að ræða eina af þessum dæmigerðu nafnabreglum er verða jafnan og óhjákvæmilega í gegnum langa tíð (og umbreytingar)?

Húsmóðirin sagði að tóftir hafi áður verið bæði austan við húsið og ofan við það. Hinar síðarnefndu sjást enn. Þegar grafið var fyrir viðbyggingunni austan við húsið fyrir nokkrum árum hafi verið komið niður á ýmislegt fornfálegt. Ekki er ólíklegt að ætla að þar hafi verið um að ræða leifar enn eldri bæjar. Ekki er hins vegar með vissu vitað hvar bær Þormóðs hafi verið, en hann gæti hafa verið þarna eða skammt austar, handan gilsins, sem þar er. Tóftir sjást þar enn, en ekki væri vitað til þess að þær hafi verið rannsakaðar sérstaklega, ekki frekar en hugsanlegt bæjarstæði við núverandi íbúðarhús.

Nærsel

Nærsel – loftmynd.

Aðspurð um mögulegar tóftir upp með Seljadalsánni, norðan Silungatjarnar, sagðist húsmóðirin oft hafa gengið upp með ánni, en aldrei orðið vör við slíkar tóftir á þeim stað, sem tilnefndur var. Einu tóftirnar, sem hún kannaðist við, væru hleðslur undir Kambhól og rústir ofarlega í Seljadal [Nessel].
Áður en lagt var af stað höfðu grunsemdirnar verið bornar undir Bjarka Bjarnason, þann er líklega veit manna mest um fyrrum mannanna verk í Mosfellsdal og nágrenni. Hann kannaðist ekki við rústirnar, en taldi þó að þarna einhvers staðar hafði áður verið eitthvert ónefnt kot. Vitað er um rústir Búrfellskots sunnan undir Búrfelli. Auk þess mótar fyrir rústum (mögulegu kotbýli) á sléttu, skurðgröfnu (framræstu) túni allnokkru vestan við meintar rústir (svona mitt á milli Þormóðsdals og þeirra).
Og þá var bara að leggja í lokaáfangann að hinum meintu rústum.

Nærsel

Nærsel.

Á litlum grónum “bleðli” norðan Seljadalsár (austan við austasta sumarbústaðinn norðan Silungatjarnar, en sunnan Seljadalsár) mótaði fyrir tóftum. Settir höfðu verið girðingastaurar á “bleðilinn” og hestum greinilega verið beitt á hann um tíma – sem og í tóftirnar báðar. Girðingarstrengir höfðu þó verið fjarlægðir, sem og bikkjurnar. Hið jákvæða var samt sem áður það að bletturinn var nú mun grænni en umhverfið og tóftirnar því greinilegri (og auðveldari til myndatöku). Eflaust hafa þær löngum átt auðvelt með að dyljast þarna á barðinu án nýlegs ágangs.
Tóftirnar voru tvær; sú eystri er stök. Dyraop snýr til suðurs, líkt og í vestari tóftinni, sem virtist þrískipt. Stærsta rýmið var nyrst, en síðan tvö minni framan við það, til beggja ganghanda. Tóftirnar eru mjög grónar og því að líkindum gamlar. Álitlegur lækur vestan við þær hafa ákvarðar staðsetningu þeirra á sínum tíma. Ofan við tóftirnar vottar fyrir hleðslu í læknum og í honum skammt vestan við þær virðist hafa verið lagaður (eða jafnvel hlaðinn) brunnur eða aðgengilegt vatnsstæði.
Neðan við tóftirnar mótar fyrir stekk, ofan við barð er hallar niður að Seljadalsánni. Ekki var að sjá aðrar mannvistaleifar, sem telja má með öruggri vissu, í næsta nágrenni við tóftirnar og ekki var að sjá að þarna hefðu verið gerðir garðar eða önnur mannvirki er bent gætu til varanlegri búsetu.

Nærsel

Nærsel.

Nú var úr svolitlum vanda að velja. Ekki getið um selstöðu frá Þormóðsdal í Jarðabókinni 1703. Í henni segir að Úlfarsfell hafi haft “selstöðu góða“, en ekki hvar. Í heimildum er þó getið um Nærsel í Seljadal, en ekki er vitað hvar það hefur verið. Viðey á að hafa haft selstöðu á þessum slóðum og samnýtt selstöðu með Bessastöðum. Það er ekki ólíklegt því í Jarðabókinni 1703 er sagt frá því að Þormóðsdalur hafi haft “dagslættir í Viðey”. Þarna gæti hafa verið um hlunnindaskipti að ræða. Fyrir liggur þó vísbending um Nærsel. Stórt skilti (loftmynd) frá Skógræktinni er rétt innan við beygjuna inn í Þormóðsdal (frá Hafravatnsvegi) og á því eru örnefni, m.a. Nærsel og það sýnt beint framan við bæinn þeim megin árinnar, en Árnes Búrfellsmegin við. Þetta passar ekki miðað við örnefnalýsingu Tryggva frá Miðdal. en hann segir um Þormóðsdal (mörk Miðdals og Þormóðsdals eru um ána): ” Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. .. Árneslækur…. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. … Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sérst þar vel fyrir tóftum. Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir….”

Nærsel

Nærsel – uppdráttur ÓSÁ.

Framangreind lýsing getur alveg passað við tóftirnar sem lýst hefur verið. Svo má velta fyrir sér frá hvaða jörð Nærsel var? Og hvaða sel er þá ”fjærsel”? E.t.v. Nessel?
Þekkt er víða um land að kot hafi vaxið upp úr seljum. En einungis örfá dæmi eru um það í landnámi Ingólfs, s.s. í Seljadal ofan við Fossárdal í Hvalfirði og Straumssel ofan við Hraunin. En tóftir þessar virðust ekki hafa hýst kot. Þær voru og keimlíkar öðrum selsrústum á Reykjanesskaganum til þess; þrískiptar (vistarverur, búr og eldhús), auk stekks. Þá kemur afstaða og staðsetning tóftanna heim og saman við sambærileg mannvirki víða á svæðinu.
Af varfærnislegum ástæðum er niðurstaðan sú að hugsanlega hafi þarna verið um kot að ræða – EN það hafi þá vaxið upp úr fyrrum selstöðu. Hvaðan sú selstaða hefur verið er erfitt um að segja á þessari stundu, en eitt er víst – að Seljadalurinn rís nú loksins undir nafni.
Hafa ber í huga að vangaveltur FERLIRs eru og verða einungis dregnar út frá sýnilegum minjum, sem og útliti þeirra, eins og þær birtast augum sjáandans á vettvangi nútímans – dagsins í dag. Örnefnalýsingar geta hugsanlega staðfest þær, eða jafnvel kveðið á um eitthvað allt annað – fyrrum. Hafa ber þó í huga að áætluð heiti eða staðsetningar örnefna eða rústa geta (og hafa) hnikast til í gegnum tíðina (eins og dæmin sanna) og þannig smám saman orðið aðrar en þær voru.
Rétt er þó jafnan að byggja á fyrirliggjandi bestu og áreiðanlegustu upplýsingum á hverjum tíma, treysta hæfileikum skrásetjarans og vona að þar hafi allt verið eins og best verður á kosið – þá og þegar.
Frábært veður – rigning umhverfis, en himininn opnaði sig með bjartviðri yfir rústasvæðinu. Blómstur

Vindássel

Enn og aftur var reynt að fá botn í það hvers vegna Seljadalur ofan við Fossárdal í Kjós væri jafnan nefndur í fleirtölu. Þrátt fyrir þetta – að einungis væri vitað (árið 2009) um eina selstöðu í dalnum – virtist áskornunin freistandi, þ.e. frá Reynivöllum.

Svínaskarðsvegur

FERLIR leitaði til hinna fróðustu manna í sveitinni, en þeir kváðu vafasamt að önnur selstaða en sú sem var fyrrum frá Reynivöllum, og kotbýlið Seljadalur hafi vaxið upp úr, kynni að að finnast í dalnum. Búið væri að margleita dalinn, en án árangurs.
Í einni örnefnaslýsingunni fyrir Vindás segir m.a.: “Selstígur lá yfir Ása, austan við Eystri-Hvammamýri, upp Múla og Múlahorn vestan við Sandfell, og þar á Þjóðveginn. Í framhaldi af Selstíg lá gata norður yfir Hryggi, að Seljadal. Eins og nafnið bendir til mun Selstígur í fyrstu einkum hafa verið notaður til selfara, því Sogn átti sel við Sandfellstjörn sunnanverða, en Vindás átti sel í Seljadal, skammt vestur af Skálafelli. Einnig var hey flutt niður Selstíg, þegar heyjað var uppi á Vindásflóum, en það mun hafa verið stundað nokkuð einkum þegar tvíbýli var á Vindási. Allmikil umferð var um Selstíg meðan búið var á Seljadal. Einnig fóru hann margir sem leið áttu yfir Reynivallaháls.”

VindásselHér koma a.m.k. tvær vísbendingar um staðsetninguna á Vindásseli. Annars vegar að gata hafi legið norður yfir Hryggi og að Vindás hafi átt selstöðu í Seljadal, skammt vestur af Skálafelli. FERLIR hafði áður rakið Selstíginn frá Vindási og Sogni upp Múlann, áleiðis í Sognsel. Einn angi hans lá inn með vestanverðu Sandfellinu og til austurs norðan þess.
Þá var bara ekki um annað að ræða en að ganga enn og aftur upp að Sandfelli og síðan norður Hryggina að austanverðu frá fellinu. Þar eru í dag bara aflangar melhæðir og því var úr vöndu að ráða. En með stóiskri ró (og gangi fram og til baka um meðhæðirnar) mátti sjá hvar Svínaskarðsvegurinn svonefndi lá til norðausturs af Sandfellsveginum norðaustan við Sandfellið. Til hliðar við hann mátti greina enn eldri götur.
Þegar getið er um “Þjóðleiðir” í örnefnlýsingunni er sennilega átt við þessar leiðir. Af þeim tveimur hefur Svínaskarðs-vegurinn, þrátt fyrir fyrri lýsingar, verið þeir
ra veigaminni sem almenn þjóðleið. Það átti líka eftir að koma í ljós í bakaleiðinni.

Seljadalur

Reynivallasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í örnefnalýsingu segir: “Svínaskarðsvegur sem var mjög fjölfarinn á sumrin bæði af Kjósverjum, og þó einkum þeim sem ferðuðust á hestum milli Reykjavíkur og  norður- og vesturlandsins, lá yfir Laxá á Norðlingavaði, upp Klifsnes, Vindáshlíð, Sandfellsmela norðan  við Sandfell, sunnan við Hryggi, vestan við Dauðsmannsbrekku og síðan áfram yfir að Hvalfirði. Þessi vegur meðan hann lá um Vindásland, var alltaf í daglegu tali nefndur Þjóðvegur.” Þessi lýsing átti eftir að öðlast nýja merkingu í lok ferðarinnar, enda mjög líklegt að Svínaskarðsvegur ofan úr Svínadal að norðanverðu hafi alls ekki legið eins og hann hefur verið sýndur á landakortum, heldur mun suðaustar.
Leiðin hefur raunar verið tvískipt; annars vegar upp í miðjar hlíðar Skálafells og hins vegar svo til beint undir rótum þess áleiðis í Vindássel. Fyrrnefnda leiðin greinist í hlíðinni; annars vegar til suðurs og hins vegar til norðurs inn með austanverðum Seljadal. Sú gata liggur beint heim að gamla Seljadalsbænum.

SvínaskarðsvegurTil varnar þeim er ekki hafa getað staðsett Vindásselið má segja að það er alls ekki auðfundið. Svínaskarðsleiðirnar tvær efst í Seljadalnum liggja bæði ofan og neðan við það. Hins vegar má segja að staðsetningin er dæmigerð fyrir selstöður á Reykjanesskaganum (sjá meira HÉR); í skjóli fyrir austanáttinni, við læk og þrískiptar tóftir. Tóftirnar eru heillegar, veggir standa grónir, hleðlslur í veggjum má sjá og op. Hið óvænta var hversu stór rýmin eru og hversu heilleg þau eru. Þarna er því að öllum líkindum um að ræða sel frá þeim tíma er selstöður voru almennt að leggjast af á þessu landssvæði (um 1870). Þessu til staðfestingar er rétt að nefna eftirfarandi. Í Jarðabókinni 1703 er getið sels frá Vindási í Seljadal: “Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi, en brúkast þó ekki, heldur í selstöðu þeirri, er beneficio tilheyrir á Seljadal.” Það virðist því ljóst um hvaða tóftir ræðir á framngreindum stað í sunnanverðum dalnum, enda kemur varla annað til greina.

RéttÍ Jarðabókinni segir ennfremur: “Bústaður sóknarprestsins í Kjós, gefinn af kóngl. máð af sál. Friðrik 3ja háloflegrar minningar í staðinn þess fordjarfða beneficii Reynivalla, sem af skriðum og snjóflóði næsta því eyðilagt var.” Eins og annars staðar er skráð hafði skriða fallið á Reynivallabæinn og jafnað við jörðu.
Seljadalurinn er grösugur dalur og sér enn móta fyrir rústum þessa bæjar, er þar stóð í miðri austurhlíðinni. Þar bjó síðast Gísli Einarsson ásamt fjölskyldu sinni 1897-1921. Landið er gott fyrir sauðfjárbeit. Austan Seljadals er Hornafell en norðvestan við bæjarrústirnar eru Hjaltadalur. Í honum rennur Hjaltadalsáin fyrrenfnda. Í ánni er Folaldafoss. Fossinn er áberandi þegar gengið er má Seljadalsá framhjá ármótunum. Eftir Seljadal rennur svo Seljadalsáin, sem breytir um nafn eftir að Hjaltadalsá hefur sameinast henni og heitir þaðan í frá Fossá og dalurinn Fossárdalur, sem fyrr sagði. Í örnefnaskrá fyrir Reynivelli segir að ”í Seljadal var kotið Seljadalur, sem fyrrum var kallað Reynivallasel. Sá bær stóð í óbyggð 1880-1897. Þá fór þangað Gísli Einarsson frá Hækingsdal og bjó þar. Gísla bjó í Seljadal á árunum 1897 til 1921.
TóftTóftirnar í Sejadal eru sérstaklega áhugaverðar. Bæði vegna þess að grjót í vegghleðslur hefur ýmist verið tekið úr bæjarlæknum eða verið fluttar að annars staðar frá, t.d. með sleða á snjó. Ein tóftin, sem þarna er skammt sunnan við kotið sjálft hefur sennilega verið gamla selið. Efniviðurinn úr því hefur verið nýttur í sauðakofa og gerði. Ef glöggt er skoðað má sjá að eldri hleðslur á bæjarstæðinu hafa verið nýttar til nýrri byggingar. Hlaðin rétt neðan við bæinn er í raun dæmigerð fyrir staðsetningu stekkjar. Hún er því að öllum líkindum hlaðin upp úr stekk, sem þar var fyrir.
Í bakaleiðinni var gatan frá Seljadal fetuð til suðurs. Þegr hún kom yfir Seljadalinn ofanverðan var auðvelt að fylgja henni um melbrúnir og mela á ská til suðausturs niður hlíðarnar ofan við Vindássel. Þar neðst kom gatan inn á hinn gamla Kjósaskarðsveg.
GatnakerfiðÞessi meginleið kom ekki niður með Sandfellinu norðaustanverðu eins og ætla mætti. Hún lá á ská til suðausturs (annars eru áttir þarna á miklu reiki sbr. örnefnalýsingar) niður hlíðina austan fellsins, niður á gömlu Kjósarskarðsleiðina norðan Laxár. Tekja má líklegt að gamli Svínaskarðsvegurinn hafði legið þar inn á hana og síðan áleiðis upp hálsinn mun suðaustar en áður hefur verið talið.
Í meiri fróðleik um Reynivelli segir m.a.: “Kirkjustaður og prestssetur hefur verið á Reynivöllum frá því elstu heimildir herma. Þar var einnig lengst af miðstöð byggðarinnar. Um langan aldur var þar þingstaður sveitarinnar og þinghús, þar var rekinn fyrsti barnaskólinn í Kjósinni, hann var stofnaður kringum 1880 og starfaði í sérstöku húsnæði, sem byggt var fyrir skólastarfið. Þá var prestur á Reynivöllum sr. Þorkell Bjarnason, sem áður er getið. Hann var afkastamikill á ýmsum sviðum menningarlífsins, ritaði m.a. Íslandssögu, sem lengi vel var eina Íslandssagan, sem kennd var í skólum landsins. Þá skrifaði hann einnig stórmerka bók um sögu siðbótarinnar hér á landi auk fjölda ritgerða um ýmis efni. Áður hefur verið getið um frumkvæði hans í laxeldi.

Eftirmaður hans var sr. Halldór Jónsson, sem prestur var á Reynivöllum í hálfa öld, frá 1900 til 1950. Sr. Halldór var sömuleiðis merkur prestur á sinni tíð, framfarasinnaður í búskaparháttum og tónskáld ágætt. Oddviti sveitarinnar var hann um árabil. Hann hefur ritað endurminningar sínar, sem eru merk heimild um líf og starf Kjósverja í þá hálfu öld, sem hann var sálnahirðir þeirra.” (Þetta er bara, með fullri virðingu, sett inn í textann til að koma að fleiri myndum).
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
SeljadalurVindássel
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Vindás.
-Jarðabókin 1703.

Miðdalur

Ákveðið var að fylgja mjög gamalli götu upp frá Geithálsi framhjá Sólheimakoti, undir Hríshöfða, framhjá Djúpadal og Myrkurtjörn áleiðis inn í Seljadal.
Gatan sést mjög vel á köflum, en á nokkrum Gatanstöðum hefur trjám verið plantað í hana, einkum utan við Sauðhúsahvamm og undir Hríshöfða. Nefnd gata kemur inn á aðra er liggur áleiðis upp í Seljadal um sunnanvert Búrfell, framhjá Búrfellskoti, og norðan Leirtjarnar
. Götunar mætast norðvestan Silungartjarnar.
Til baka var gengið með Selvatni niður að Sólheimakoti.
Tryggvi Einarsson í Miðdal skráði örnefni í Miðdalslandi. Þar segir m.a. um svæðið, sem gatan liggur um: “Örnefni í Miðdalslandi sunnan gamla-Þingvallavegar. Frá mörkum Geitháls í austanverða Sólheimatjörn og úr suðurenda Sólheimatjarnar rennur Augnlækur um Markholt í Dugguós. Austan við Augnlæk er Sólheimamýri. Upp að norðurenda Sólheimatjarnar er Háabrekka, ofan við Háubrekku eru Brekkubrúnir, sunnan við Brekkubrúnir er fallegur hvammur er Sauðhúsahvammur heitir. Ofan við Sauðhúsahvamm eru sauðhús er afi minn byggði. Móts við Sauðhúsahvamm er kriki er Fífukrókur heitir.
BeitarhúsSkammt suður af Fífukrók er Sólheimakot, hjáleiga frá Miðdal, sést þar vel fyrir veggjum. Ofan við Sólheimakot er Sólheimamelur, sunnan við Sólheimamel er mýri er Dugguósmýri heitir. Ofan við Sólheimabrúnir. Frá Selvatni að Dugguósmýri rennur Dugguós í alldjúpu gljúfri er Dugguósgljúfur heitir. Norður af Selvatnsenda er mýrarfláki er Sauðhúsamýri heitir. Úr norð-vestur horni Sauðhúsamýrar liggur lægðardrag niður að Sauðhúsahvammi er Gíslalág heitir, úr Sauðhúsamýri rennur lækur í vestanvert Selvatn er Sauðhúsamýrarlækur heitir. Norður af Sauðhúsamýri er allstór heiði sem Heytjarnarheiði heitir. Í norð-austur horni Heytjarnarheiðar er Heytjörn, lítil tjörn, í henni vex hávaxinn gróður sem kallaður var Rauðólfur. Gras þetta er mjóvaxið og var oft slegið, þótti það hafa lækningarmátt við búfjárkvillum.
MannvirkiAustan við Heytjörn er smá klettaborg með grasþúfu sem Heytjarnarþúfa heitir. Frá miðju Selvatni austan Sauðhúsamýrar er Langimelur, skammt austur af suðurenda Langamels rennur Hrútslækur í Selvatn. Hrútslækur á upptök austan við Löngubrekkuhorn, þarna er allstór mýri er Hrútslækjarmýri heitir. Austan við Hrútslæk skagar grýtt holt út í Selvatnið sem Bleikjunef heitir. Nokkru austar við Selvatn skagar annað holt út í vatnið, það heitir Urriðanef. Milli Bleikjunefs og Urriðanefs er vík er Litla-Selsvík heitir. Norður af Litlu-Selsvík er Litla-Sel, sést aðeins móta fyrir rústum þar. Ofan við Litla-Sel er Litlaselshæð. Austur af Selvatnsenda er Víkursel, talið vera frá Vík á Seltjarnarnesi, sést þar fyrir selstóftum. Norður af Víkurseli eru Selbrúnir.

Selásvarða

Austan við Víkurselsbrúnir er allstór ás, er Selás heitir [á honum er varða; Selásvarða]. Norð-vestur undir Selás er Seldalur. Austan við Selsás er tjörn er Helgutjörn heitir. Sunnan undir Selás er valllendislágar er Urðarlágar heita, þar eru upptök Urðarlágarlækjar sem rennur í austurenda Selvatns. Nokkru norðar rennur Sellækur í Selvatn. Úr eystri Selvatnsenda í Lyklafellskoll eru landamörk milli Miðdals og Elliðakots.
Austan við áðurnefndan Hrútslæk er Hrútslækjarmýri. Norður af upptökum Hrútslækjar er Langabrekka. Milli Löngubrekku og Langamels er Langamýri. Norður af Löngumýri er Borgarholt, þar var hjáleiga frá Miðdal. Austan við Borgarholt er mýrarkriki er Borgarholtsmýri heitir. Suð-vestan við Borgarholt er mýrarsund er Borgarholtskelda heitir. Á Borgarholti er jarðfastur bergdrangur sem Borgarholt dregur nafn sitt af og heitir Borgin.
MyrkurtjörnNorðan við Borgarholt er stór hæð sem Hríshöfði heitir. Vestan í Hríshöfða er Hríshöfðabrekka. Vestur af norð-vestur horni Hríshöfða er hringlaga holt sem Holtið-Eina heitir, þar er nú nýbýlið Dalland. Milli Einholts og Borgarholts er Borgarholtsmýri. Undir norð-vestur horni Hríshöfða er uppsprettulind sem Kaldakvísl heitir, er Kaldakvísl raunveruleg upptök Bæjarlækjar. [Á Hríshöfða eru tóftir; fjárhús og manngert eyktarmark eða dys. Umhverfis mannvirkið fremst á höfðanum er bátslaga hleðsla. úsfreyjan á Dal taldi að fjárhúsin hafi verið frá Miðdal. Þau eru tvískipt með heykumli í austurenda. Þeim svipar mjög til fjárhúsanna (beitarhúsann) ofan við Sauðhúsahvamm við Sólheimakot, bæði að stærð og gerð. Húsin virðast hafa verið í notkun á svipuðum tíma og gætu hafa verið byggð af sömu mönnum.]
LeiðinNorðan við Holtið-Eina og Hríshöfða er mýri sem Hríshöfðavik heitir. Austan við Hríshöfðavik undir smáhæð er Gamli-Stekkur, sést þar vel fyrir Stekkjartóftum. Austur af Gamla-Stekk er lágur ás, norður að gamla-Þingvallavegi er Rjúpnaás heitir. Austur af Rjúpnaás er Efri-Djúpidalur, sá konunglegi dalur; árið 1907 sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonungs á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan. Spölkorn suður af Djúpadal er Hríshöfðadalur.”
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Miðdal, Tryggvi Einarsson í Miðdal skráði.
-Húsfreyjan á Dallandi.
-Jón Svanþórsson.

Selvatnh

Reynivallasel

Lagt var af stað frá hlaðinni rétt í Kálfadal við svonefndan Sjávarfoss.  Um 250 metra ofar er önnur hlaðin rétt, allmiklu eldri. Ætlunin var að finna og skoða selstöðurnar frá Reynivöllum, Vindási og Fossá. Kotbýlið Seljadalur óx upp úr Reynivallaseli. Selsins er getið í Jarðabókinni 1703: “Selstöðu í Seljadal.” Einnig er í Jarðabókinni getið sels frá Vindási í Seljadal: “Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi, en brúkast þó ekki, heldur í selstöðu þeirri, er beneficio tilheyrir á Seljadal.” 

Rétt í Kálfadal

Líklega er (þ.e. að hingað til hefur verið talið) um sömu selstöðu að ræða og þá frá Reynivöllum því í Jarðabókinni segir ennfremur: “Bústaður sóknarprestsins í Kjós, gefinn af kóngl. máð af sál. Friðrik 3ja háloflegrar minningar í staðinn þess fordjarfða beneficii Reynivalla, sem af skriðum og snjóflóði næsta því eyðilagt var.” Eins og annars staðar er skráð hafði skriða fallið á Reynivallabæinn og jafnað við jörðu.
Um selstöðu Fossár segir í Jarðabókinni: “Selstöðu á jörðin í heimalandi.” Vel mátti álykta að Fossárselið væri í Fossárdal og þá væntanlega nálægt Fossá.
Þegar lagt er af stað frá fyrrgreindum stað er þar kort af svæðinu. Skógræktin hefur Fossá til ræktunnar. Hún hefur væntanlega viljað leiðbeina áhugasömu útivistarfólki um svæðið. En það fólk, sem ætlar að ganga þaðan upp að gamla Seljadalsbænum, verður að gæta þess að fara ekki eftir kortinu. Á því er bærinn sýndur vestan Seljadalsár, er að sjálfsögðu nokkru austan árinnar, sunnan Hjaltadalsár. Bærinn (tóftirnar) er rétt staðsettur á gömlu landakortum.

FossárselÞegar komið var upp fyrir Fossárbæinn (vestan árinnar) liggur slóði upp með ánni. Slóðinn hefur verið lagður yfir gamla götu. Hún birtist þegar slóðinn beygir lengra upp í hlíðina. Þegar götunni er fylgt liggur hún svo til í beina línu að mótum Seljadalsáar og Hjaltadalsáar. Skammt norðan við ármótin er vað. Varða er við það austan árinnar. Skammt norðar, á austurbakkanum, er fallegur lækur. Trjám hefur verið plantað í hlíðina og eru þau nú orðin allhá – heilmikill skógur. Seltóftir eru skammt ofan við bakkann, við lækinn. Trjám hefur verið plantað í þær allar nema hvað ein stendur út úr og sést sæmilega. Þarna er líklega um að ræða seltóftir Fossár, enda í bæjarins landi og auk þess ofarlega að mörkunum.
Stekkur í FossárseliGötunni var fylgt áfram upp með ánni. Skammt ofar er beygja á ánni. Þar liggur gatan yfir á grynningum og stefnir síðan svo til beint upp að Seljadalsbænum, skáhalt upp hlíðina.
Seljadalur er vel gróinn, en þýfður mjög. Við suðurenda hans blasir Skálafell við og Sandfell vestar. Hryggur er að vestanverðu með dalnum og Hornfell að austanverðu. Hornið skagar út úr efstu brún þess.
Nokkrar tóftir eru í bæjarstæðinu. Efst er ílangt hús með dyrum mót vestri. Fast  neðan við það er fjárhús. Norðan við það er stærstu tóftirna; Seljadalur. Norðar er tóft; gætu einnig hafa veri sauðakofi.
Ekki er ólíklegt að sunnan vi bæinn hafi gamla selið frá Reynivöllum staðið og hús með gerði sunnar; sennilega fjárhús og hlaða, hafi verið byggt upp úr því. Tóftin er óvenjumjó af fjárhúsi að vera. Bæjarstæðið er á ágætum stað og vel st

aðsett m.t.t. til aðstæðna og staðhátta. Hlaðinn heur verið garður að austanverðu, væntanlega kálgarður og afhýsi milli hans og bæjartóftanna. Sunnar er tóft, væntanlega útihús. Gata liggur vestan þess.
Skammt norðvestar er hlaðin tvíhólfa rétt. Líklega hefur hún áður verið stekkur því kró er í horni annars hólfsins, en síðan hinu hólfinu verið bætt við, enda miklu mun heillegra en hitt.
Tóft í SeljadalÞar sem áð var á tóftum Seljadals var ekki úr vegi að rifja eitthvað upp um leiðir, örnefni og sögu svæðisins. Norðan Esju og sunnan Hvalfjarðar er Kjósin, umlukt fjöllum, hálsum, heiðum og hafi. Nafnið sjálft er talið merkja lítinn dal (kvos) og geta flestir verið á eitt sáttir um það, að sveitin ber nafn, sem henni hæfir.
Í sóknar- og sveitarlýsingum frá fyrri tímum virðist nafnið Kjós aðeins eiga við um dalinn milli Esju og Reynivallaháls.
Í Landnámu segir, að Valþjófur, sonur Örlygs hins gamla Hrappssonar landnámsmanns á Esjubergi, hafi byggt bæ að Meðalfelli. Er hann því landnámsmaður Kjósarinnar, hann „nam Kjós alla” segir orðrétt. Í Landnámu er að vísu getið annarra landnámsmanna á svæðinu. Hvamm-Þórir nam land „á milli Laxár og Forsár og bjó í Hvammi”.
Rétt í SeljadalReynivallaháls dregur nafn sitt af kirkjustaðnum, sem nánar segir frá síðar. Hann liggur í landsuður frá Hálsnesi í sveig inn að Fossárdal og Seljadal, um það bil tíu kílómetra leið. Austan við er svo Þrándarstaðafjall. Austan við er svo Þrándarstaðafjall, nyrst, þá Hornafell og Kjölurinn. Seljadalur er sunnanverður dalurinn milli Hornafells og sunnanverðan Reynivallaháls. Nyrðri hlutinn nefnist Fossárdalur. Sandfell er syðst á hálsinum og norðvestan við það er Sandfellstjörn.
Yfir Hálsinn liggja fjórar fornar alfaraleiðir, sem nú verður getið nánar. Vestast er Kirkjustígur, beint upp af kirkjunni, þar fyrir innan er Gíslagata á landamærum Reynivalla og Vindáss, og loks þjóðleiðirnar fornu, Sandfellsvegur og Svínaskarðsvegur sem koma saman austan til í hlíðum Sandfells. Allar liggja þessar leiðir að lokum niður að Fossá norðanvert í Hálsinum.

SvínaskarðsleiðAustan Gíslagötu eru Dauðsmannsbrekkur, sem svo heita vegna þess að þjóðsagan greinir frá stigamennsku Magnúsar bónda á Fossá, sem sat þar fyrir ferðamönnum á 18. öld. Við gatanmót Sandfellsvegar og Gíslagötu er dys, sem sögð er vera yfir ferðamanni er dó þarna é leið sinni. Svínaskarðsleið liggur norður af sunnan við svonefnda Hryggi norðan Sandfells, síðan beygir leiðin til norðurs með fram Dauðsmannsbrekkunum, sem eru þá á hægri hönd. Loks mætti nefna eina leið enn upp á Hálsinn að sunnanverðu, milli Gíslagötu og Svínaskarðsvegar, suðvestan til í Sandfelli, skammt austan Vindáss. Þetta er allbrött leið, sem liggur upp á Hálsinn vestan við Sandfell inn á Gíslagötu. Selstígur, en svo heitir þessi leið, lá upp að Vindásseli í Seljadal framanverðum.
SeljadalurSeljadalurinn er grösugur dalur og sér enn móta fyrir rústum þessa bæjar, er þar stóð í miðri austurhlíðinni. Þar bjó síðast Gísli Einarsson ásamt fjölskyldu sinni 1897-1921. Landið er gott fyrir sauðfjárbeit. Austan Seljadals er Hornafell en norðvestan við bæjarrústirnar eru Hjaltadalur, í honum rennur Hjaltadalsáin fyrrenfnda. Í ánni er Folaldafoss. Fossinn er áberandi þegar gengið er má Seljadalsá framhjá ármótunum.
SeljadalurEftir Seljadal rennur svo Seljadalsáin, sem breytir um nafn eftir að Hjaltadalsá hefur sameinast henni og heitir þaðan í frá Fossá og dalurinn Fossárdalur, sem fyrr sagði. Í örnefnaskrá fyrir Reynivelli segir að ”í Seljadal var kotið Seljadalur, sem fyrrum var kallað Reynivallasel. Sá bær stóð í óbyggð 1880-1897. Þá fór þangað Gísli Einarsson frá Hækingsdal og bjó þar til 1921.”
Kirkjustaður og prestssetur hefur verið á Reynivöllum frá því elstu heimildir herma. Þar var einnig lengst af miðstöð byggðarinnar. Um
langan aldur var þar þingstaður sveitarinnar og þinghús, þar var rekinn fyrsti barnaskólinn í Kjósinni, hann var stofnaður kringum 1880 og starfaði í sérstöku húsnæði, sem byggt var fyrir skólastarfið. Þá var prestur á Reynivöllum sr. Þorkell Bjarnason, sem áður er getið. Hann var afkastamikill á ýmsum sviðum menningarlífsins, ritaði m.a. Íslandssögu, sem lengi vel var eina Íslandssagan, sem kennd var í skólum landsins. Þá skrifaði hann einnig stórmerka bók um sögu siðbótarinnar hér á landi auk fjölda ritgerða um ýmis efni. Áður hefur verið getið um frumkvæði hans í laxeldi.

Eftirmaður hans var sr. Halldór Jónsson, sem prestur var á Reynivöllum í hálfa öld, frá 1900 til 1950. Sr. Halldór var sömuleiðis merkur prestur á sinni tíð, framfarasinnaður í búskaparháttum og tónskáld ágætt. Oddviti sveitarinnar var hann um árabil. Hann hefur ritað endurminningar sínar, sem eru merk heimild um líf og starf Kjósverja í þá hálfu öld, sem hann var sálnahirðir þeirra.
GöturKirkja sú, er nú stendur á Reynivöllum, er ein elsta timburkirkja landsins. Hún var reist árið 1859 í tíð sr. Gísla Jóhannessonar og skammt frá hafði bærinn staðið frá ómunatíð, uns hann var færður á svipaðar slóðir og hann er nú, þó lítið eitt neðar, eftir skriðuföll mikil, sem gengu ítrekað yfir staðinn á 17. öld.
Leyfi til þess að flytja kirkjuna í Kirkjubrekkuna, þar sem hún er nú, fékkst þegar núverandi kirkja var reist. Er kirkjan í hefðbundnum stíl síns tíma en þó dálítið breytt frá upphaflegri mynd, hún hefur verið lengd ofurlítið, forkirkju bætt vestan við, og einnig hefur sú breyting verið gerð á henni að innanverðu, að prédikunarstóllinn, sem áður var fyrir ofan altari, var færður á suðurvegg. Þetta var gert skömmu fyrir 1930 og um svipað leyti voru pílárar í skilrúmi milli kórs og skips fjarlægðir og er þar nú aðeins lágur veggur eins og víða í kirkjum frá seinni hluta 19. aldar, sem svipaðar Selstígurinnbreytingar hafa verið gerðar á. Auk þess hafa bekkir verið endurnýjaðir í kirkjunni. Altaristafla eftir Brynjólf Þórðarson prýðir kirkjuna auk ýmissa annarra merkra gripa. Á Þjóðminjasafninu eru nokkrir góðir gripir úr Reynivallakirkju, m.a. tvær gamlar altaristöflur, kaleikur og patína frá 14. öld, ljósasax og fleiri gripir.
Í Lýsing Reynivallasóknar 1840, eftir séra Sigurð Sigurðsson, segir: „Selstöður hafa verið: Á Seljadal frá Reynivöllum og Vindási.”

Hafa ber í huga að hér er, þrátt fyrir allmikla fyrirhöfn, einungis um frumvinnu að ræða er ætlað er að miða að því að hnitsetja gamlar götur og leiðir á Reynivallahálsi og undirliggjandi bæja beggja vegna.
Næst verður haldið upp framangreindan Selsstíg um Múla og reynt að fylgja honum “norður yfir Hryggi”.
Gangan tók 2 klst og 22 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Reynivelli – Guðmundur B. Kristmundsson.
-www.kjos.is
-Í Kjósinni – eftir Gunnar Kristjánsson.
-Jarðabók ÁM og PV 1703.
-Lýsing Reynivallasóknar 1840 – séra Sigurður Sigurðsson.

Fossárrétt

Portfolio Items