Færslur

Hrísbrú

Undanfarin ár hefur farið fram fornleifauppgröftur á Hrísbrú undir Mosfelli í Mosfellsdal (landnámi Ingólfs). Rannsóknin hefur m.a. verið styrkt af tímabundnum “Kristnitökusjóði”. Sjóðurinn hefur gefið fornleifafræðingum hér á landi örskots tækifæri til að “öskubuskast”, þ.e. dafna um stund upp úr undirmálsmennskunni.

Kýrgil

Kýrgil – neðsti hluti.

Ef ætlun hinna (greindu) stjórnmálamanna hefði verið að nota sjóðinn til að byggja upp öfluga fræðigrein er væri í stakk búin til að takast á við og ljósumumvarpa hið óþekkta í stað þess að leita staðfestingar á því sem þegar hafði verið skráð á skinn væri staða hennar í dag allt önnur en var fyrir aðeins nokkrum árum.
Fjármagn má nota til ýmissa nota. Því er hægt að sóa, nýta án meðvitaðrar arðsemi, eða fá þá til baka, bæði með vöxtum og verðtryggingu. Með því að fjárfesta meðvitað og markvisst í “íslenskri” fornleifafræði má auðveldlega uppskera dýrmætar upplýsingar er varpað gætu ljósi á annars óskýrða fortíð þjóðarinnar (og það í eiginlegri merkingu). Framtíðin byggist jú á fortíðinni – uppruna, reynslu og þekkingu. Það er því ekki verra fyrir fámenna þjóð að þekkja grundvöll sinn þegar takast þarf á við stór og mikilvæg verkefni framtíðarinnar. Þá verður og heldur aldrei horft framhjá þeirri staðreynd að menningararfurinn er og verður sá hornsteinn sem samfélagið byggir tilvist sína á hverju sinni. Grundvöllur Alþingis Íslendinga (hátindar mikilfengleikans) byggir t.a.m. á þeirri hugmyndafræði.

Tjaldanes

Tjaldanes – dys Egils Skallagrímssonar.

Þegar kristni var leidd í lög “undan feldi” á Íslandi um árið 1000 e. Kr., bjó Grímur á Mosfelli. Um það vitnar Egilssaga. Nú væri hægt að skrifa lærða grein um tilurð og meðferð handritsins, en að því slepptu var nefndur Grímur í framhaldi af því skírður til þeirrar trúar og kirkja byggð á jörðinni. Fólk sagði að Þórdís, kona hans, hefði þá flutt bein Egils Skallagrímssonar úr dys hans í Tjaldarnesi í kirkjuna þegar hún var byggð að Hrísbrú. Ef einhverjar spurningar vakna hér um hver þessi Egill hafi verið verður sá hinn sami bara að lesa Egilssögu.
Skriða hljóp á kirkjuna, segir sagan, og ný var byggð að Mosfelli. Bein Egils voru þá tekin úr gröfinni undir kirkjugólfinu og þau flutt í utanverðan kirkjugarðinn. Sagt var að beinin og gröfin í gömlu kirkjunni hafi verið stærri en að meðaltali þótti. Taldi eldra fólk almennt að þar hefðu verið um bein Egils Skallagrímssonar að ræða. Sögunni fylgja þau munnmæli að maður sá er flutti beinin á milli kirkjunnar gömlu og grafreitsins hafi viljað merkja hvort þar gætu verið um leifar Egils að ræða. Hafi hann barið duglega í hauskúpuna en hún vart látið á sjá. Hafi það verið til staðfestingar á sannleiksgildinu. Hafa ber í huga að munnmæli mann fram af manni hafa oftar en ekki leidd til árangurs – þegar betur hefur verið að gáð.

Árið 2001 gaf fornleifarannsókn á Hrísbrú til kynna ýmislegan árangur. Hann staðfesti m.a staðsetningu kirkju á staðnum sem og kirkjugarð líkt og Egilssaga greinir frá. Kirkjubyggingin hefur verið gerð úr torfi og grjóti. Landnámsöskulagið staðfestir og tímatalið. Telja má nokkuð öruggt að hún sé frá þeim tíma er sagan greinir frá. Egill mun hafa látist háaldraður á ofanverðri 10. öld.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur á Kirkjuhól.

Í fréttum Mbl. 2004 er grein frá því að þúsund ára gömul kirkja hafi verið grafin upp í Mosfellsdal. “Í gær varið unnið að því að grafa upp beinagrind sem legið hefur í moldinni í um þúsund ár. Kirkja sem getið er um í Egilssögu hefur verið grafin upp að bænum Hrísbrú í Mosfellsdal. Kirkjan var byggð um árið 1000, strax eftir að Íslendingar tóku kristni, með merkilegum byggingarstíl og þykir einstaklega vel varðveitt. Þar hafa einnig fundist um 20 beinagrindur.
Magnús Guðmundsson sagnfræðingur segir að talið sé að þarna sé komin kirkja sem Grímur Svertingsson byggði í kringum árið 1000 þegar kristni var tekin upp á Íslandi. Kirkjan sé ein af 6-7 kirkjum sem byggðar voru á Íslandi strax við kristnitökuna. Hún hafi verið sóknarkirkja, aðallega fyrir Mosfellsdalinn og norðanvert Kjalarnes.
Kirkjan er um fjórir metrar að lengd og þrír metrar að breidd. Dagfinn Skre, prófessor í fornleifafræði við Óslóarháskóla, segir að uppgröfturinn að Hrísbrú gefi nýjar pplýsingar um kirkjubyggingar á Norðurlöndum frá þessum tíma. Ellefu kirkjur frá sama tíma hafi verið grafnar upp í Noregi, en engin þeirra sé byggð með sömu aðferð og kirkjan að Hrísbrú.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur.

“Margar mismunandi byggingaraðferðir voru notaðar. Í fyrsta lagi eru tréstöplar í hornunum, sem voru grafnir niður og báru uppi þakið. Síðan er biti eftir endilöngu gólfinu, með rauf sem veggþiljur voru settar í. Svona gólfbiti með þiljum hefur aldrei áður fundist í norrænum kirkjum. Það er áhugavert og mikilvægt,” segir Skre. Steinhleðsla er innan við tréþiljurnar, sem hefur borið uppi bekk meðfram veggnum fyrir kirkjugesti. Skre segir að kórinn hafi verið skör hærra en steingólf kirkjunnar og gólf hans hafi líklega verið klætt viði. Að utan var kirkjan klædd torfi.
“Það er merkilegt að sjá hvernig þiljur voru settar í grunntré. Þetta er mjög sjaldgæft,” segir Jesse Byock. Viðarbitarnir eru enn heilir og segir Byock að nú verði þeir þurrkaðir. Viðurinn hafi varðveist jafn vel og raun ber vitni þar sem súrefni hafi ekki komist að honum. Inntur eftir því hvort unir hafi fundist inni í kirkjunni segir Byock að lítið sé um það, en smábitar úr kopar og járni hafi þó komið í ljós.
Uppgröfturinn að Hrísnesi mun síðan halda áfram, en undir kirkjunni virðast vera leifar af landnámsbæ. Byock segir að útlit sé fyrir að eldur hafi komist í kirkjuna, viðurinn sé sums staðar
sviðinn, en engar heimildir séu þó til um bruna þar.
Krabbamein og berklar þjökuðu fólkið Þá hafa um 20 beinagrindur fundist til hliðar við kirkjuna. Sumar þeirra eru mjög vel varðveittar en aðrar ekki. “Fólk var ekki við góða heilsu á þessum tíma,” segir Byock og bætir við að fólkið hafi náð 40-45 ára aldri og verið hrjáð af ýmsum kvillum.
“Þetta fólk bjó við erfiðar aðstæður, var greinilega vannært og sumir mjög smávaxnir. Það kemur heim og saman við hluta af heimildum sem við höfum um Ísland á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og hvernig lífið var hér,” segir Magnús. Hann segir að beinagrindurnar séu af smávaxnara fólki en þær beinagrindur sem grafnar hafa verið upp á Íslandi frá svipuðum tíma. Augljóst sé að sumir hafi lifað mikinn skort.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Hann segir að ein beinagrindin sé af karlmanni á þrítugsaldri sem hafi greinlega látist úr krabbameini í heila. “Þeir hafa fundið meinvörp í höfuðkúpunni sem benda til þess að hann hefur dáið kvalarfullum og óþægilegum dauðdaga. Þeir eru með fleiri heimildir, telja sig jafnvel hafa fundið vísbendingar um berkla, þetta er í kringum árið 1000, og gæti bent til þess að þetta væru fyrstu vísbendingar um berkla hér á landi,” segir Magnús. Hann segir að Egill Skallagrímsson, sem dvaldi í Mosfellsdalnum síðustu æviár sín, hafi t.d. verið með höfuðriðu, orðinn fótkaldur og getulaus og lifað frekar slæmu lífi.
“Þó hafði hann það að mörgu leyti ágætt í horninu hérna hjá Þórdísi bróðurdóttur sinni og Grími Svertingssyni. Þau bjuggu hérna, það er talið að Egill hafi búið hérna á Mosfelli frá 974-990, um það leyti deyr hann og hann er grafinn hérna niðri í Tjaldanesi [sunnan við Hrísbrú]. Þórdís tók upp beinin og færði til kirkju sem Grímur þessi Svertingsson lét reisa hér á Mosfelli árið 1000, þegar Egilssaga segir að hann hafi tekið kristni,” segir Magnús. Hann segir að sumir telji að býlið að Hrísbrú hafi áður heitið Mosfell, en einhverjar nafnatilfærslur hafi átt sér þarna stað.

Hrísbrú

Hrísbrú.

Samkvæmt Egilssögu var kirkjan lögð niður í kringum árið 1150 og gæti það einnig vel verið raunin varðandi kirkjuna að Hrísbrú að sögn Byock.
Egla greinir frá því að bein Egils hafi þá verið tekin upp og færð að Mosfelli, en það var skylda samkvæmt kristnirétti Grágásar að færa grafir og kirkjugarða sömuleiðis ef kirkjur voru fluttar til. Magnús segir ómögulegt að segja til um hvort bein Egils séu meðal þeirra beina sem fundist hafa í uppgreftrinum. “Það vitum við ekki. Þeir hafa að vísu fundið einhver stór og mikil bein sem voru í kassa alveg við hliðina á kirkjunni, en það verður víst seint sem við getum útkljáð það. Öll erum við jú komin af Agli og vitum ekki hvort við getum útvegað þeim einhver lífssýni og séð hvort hann sé eitthvað skyldur okkur þessi maður. Egla reyndar segir að bein Egils hafi endað í utanverðum kirkjugarði að Mosfelli,” segir Magnús.

Ekkert bólar á silfri Egils. “Nei ekki enn þá,” segir Byock hlæjandi, þegar hann er inntur eftir því hvort ekkert hafi fundist af silfrinu hans Egils og bætir við að það sé lítil von til þess. Magnús segir að þó silfrið hafi ekki beint komist í leitinar telji margir Mosfellingar að heita vatnið sem hafi fundist í dalnum sé í raun silfur Egils. “Í það minnsta hafi þetta heita vatn verið gulls ígildi og sjálfsagt meira virði en einn lítill silfursjóður ættaður af Englandi,” segir Magnús.
Skre telur fulla ástæðu til að endurreisa kirkjuna að Hrísbrú og gera fólki þannig kleift að bregða sér þannig aftur í aldir. “Þetta er eitt af fáum tilfellum þar sem við höfum mikið af upplýsingum um hvers konar bygging þetta var og hvernig hún var byggð þannig að það er vel hægt að gera góða eftirlíkingu,” segir hann og bætir við að hann vonist eftir því að yfirvöld muni hrinda slíkri
endurbyggingu í framkvæmd. Slíkt segir hann að yrði gott framlag til lífsins í Mosfellsdal við upphaf Íslandsbyggðar.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Í Mosfellspóstinum frá þessum tíma segir frá því að “Stór gröf hefur fundist í kirkjustæðinu við Hrísbrú í Mosfellsdal en gröfin var undir gólfi kórsins í kirkjunni og í henni hafa fundist leifar af timbri. Jesse Byock, sem stýrir uppgreftrinum við Hrísbrú, segir ljóst að timburleifarnar séu úr líkkistu en miðað við stærð grafsögu. Í öðru lagi benda allar lýsingar Egilssögu til þess að Egill hafi verið mun hærri en flestir samtímamenn sínir og er hann meðal annars sagður „vel í vexti og hverjum manni hærri“. Jesse er þó ekki tilbúinn að fullyrða að þarna hafi Egill legið og bendir á að ekki sé hægt að segja að allt sem standi í Egilssögu sé rétt.
Við athugun kom í ljós að líkkistan hafi verið meira en tveggja metra löng. Ýmislegt bendir til þess að þetta hafi verið gröf Egils Skallagrímssonar, þó að vitaskuld sé ekki hægt að fullyrða það. Fyrir það fyrsta er talið að gröfin sé frá því í kringum árið 1000 og ef rétt reynist fer sú tímasetning ágætlega saman við frásögn Egils en uppgröftur á svæðinu hefur staðið yfir undanfarin ár og hafa fundist um 20 beinagrindur á svæðinu, þar á meðal stór og mikil bein sem gætu verið bein Egils, þótt það sé ekki víst. Þess má þó geta að í Eglu er sagt frá því að undir altarisstaðnum í kirkjunni hafi fundist mannabein, sem „voru miklu meiri en annarra manna bein“ og segir sagan að menn hafi þóst vita að þar væru bein Egils.
Byock segir að að öðru leyti gangi rannsóknir og uppgröftur vel og í sumar hafi strúktúr og er hugsanlegt að um gröf Egils Skallagrímssonar sé að ræða. Gröfin var undir gólfi kórsins í kirkjunni og í henni hafa fundist leifar af timbri.
Hrísbrú
Jesse segir ljóst að timburleifarnar séu úr líkkistu sem þar hafi legið og miðað við stærð grafarinnar sé líkkistan sú stærsta sem fundist hafi á svæðinu. Ýmislegt bendir til þess að þetta hafi verið gröf Egils, þó að vitaskuld sé ekki hægt að fullyrða það. Fyrir það fyrsta er talið að gröfin sé frá því í kringum árið 1000 og ef rétt reynist fer sú tímasetning ágætlega saman við frásögn Egilssögu. Þar er talað um að Egill hafi verið færður úr haugi við Tjaldanes og að kirkjunni, sem var að öllum líkindum byggð skömmu eftir að Íslendingar tóku kristni. Í öðru lagi benda allar lýsingar Egilssögu til þess að Egill hafi verið mun hærri en flestir samtímamenn sínir og er hann meðal annars sagður „vel í vexti og hverjum manni hærri“. Miðað við stærð grafarinnar er talið að líkkistan hafi verið meira en tveggja metra löng.

Byock er þó ekki tilbúinn að fullyrða að þarna hafi Egill legið. „Maður getur aldrei sagt,“ segir hann og bendir á að ekki sé hægt að segja að allt sem stendur í Egilssögu sé rétt. Þegar grafarstæðið fannst kom í ljós að grafin hafði verið hola í moldina sem lá yfir gröfinni. Byock segist ekki vita af hverju holan hafi verið grafin en líklegt sé að einhver hafi viljað komast að líkkistunni. Holan var hins vegar það lítil að ekki hefði verið hægt að ná kistunni upp um hana.

Í Egilssögu er sagt frá því að Egill Skallagrímsson hafi eytt síðustu æviárum sínum í Mosfellsdal en talið er að hann hafi látist um árið 990. Hann var fyrst um sinn heygður í Tjaldanesi en Þórdís, bróðurdóttir hans, lét síðar flytja hann að kirkjunni í Mosfelli, sem Grímur Svertingsson, maður hennar, lét reisa. Engin bein fundust í grafarstæðinu, sem fannst fyrir helgi. Þá hafi verið unnið að því að grafa upp veggstæði sem fannst norðanmegin við kirkjuna. Hugmyndir eru uppi um að gera líkan að kirkjunni í fullri stærð og segir Byock að arkitektar og fleiri muni koma að þeirri vinnu. „Það er samt bara hugmynd,“ segir hann.
Þegar Byock er síðan að lokum spurður þeirrar spurningar sem Íslendingar allir vilja vita svarið við, nefnilega hvar silfur Egils sé niðurkomið, svarar hann hlæjandi: „Ég er með það í vasanum!“ Hann viðurkennir þó fljótt að silfrið sé enn ófundið og að sennilega sé lítil von til að það finnist.

Staðarnafna úr dalnum er víða getið í heimildum frá landnámsöld og í Íslendingasögunum, m.a. í Eglu, Gunnlaugssögu og Hallfreðarsögu vandræðaskálds. Að sögn Mosfellsbæjar er það nær einsdæmi í norrænum fræðum að dæmi úr Íslendingasögunum séu jafn vel staðfestanleg með fornleifaminjum og komið hefur í ljós við uppgröftinn í Mosfellsdal. Við uppgröft stafkirkju að Hrísbrú hafi til að mynda verið sannreyndar upplýsingar sem koma fram í 89. kafla Egilssögu þar sem sagt er frá kirkjunni að Hrísbrú og örlögum hennar.

Ein athyglisverðasta niðurstaða um frumbyggjana í Dalnum er hve gömul bein hafa fundist í fornum kirkjugarði við Hrísbrú. Kolefnisgreining (C-14) bendir til þess að þar séu grafnir einstaklingar sem fæddir eru einhvern tíma um eða eftir aldamótin 900. Örlög þessa einstaklinga hafa einnig verið söguleg, því bein þeirra bera ummerki bardaga og þar er líklega komin fyrsta áþreifanlega vísbending hérlendis um einstakling sem hogginn hefur verið í herðar niður.
Fornleifaverkefnið Mosfell, er alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem nýtir sér verkfæri fræðigreina eins og sagnfræði, fornleifafræði, mannfræði, norrænufræða og umhverfisvísinda til að skapa heildstæða mynd af aðlögun landnámsmanna að náttúru og umhverfisbreytingum. Rannsóknin beinist að Mosfellsdalnum sem vistkerfi allt frá tímum víkinga. Mosfellsbær hefur styrkt verkefnið samkvæmt samningi til 3ja ára og er eitt ár eftir af þeim samningi.

Innansveitarkronika Halldórs Kiljan fjallar um kirkjuna á Mosfelli eins og fyrr greinir. Um það urðu mikil átök á sínum tíma, hvort rífa skyldi kirkjuna eða ekki og byggja aðra á Lágafelli. Mosfellskirkja var rifin. Inn í sagnfræðilegan stíl fyrri hluta bókarinnar kemur þessi skemmtilega frásögn af því, þegar Ólafur bóndi Magnússon á Hrísbrú kemur að Mosfelli og stendur á hlaðinu með orf sitt reitt um öxl og veit ljásoddurinn beint upp … Nokkru utar á hlaðinu og nær sáluhliði stendur Bogi sonur hans sem gerst hafði skjaldsveinn föður síns í þessari för og hafði hrífu í hendi.“ Þeir eru að mótmæla sameiningu kirkna og niðurrifi Mosfellskirkju:
“Ég er búinn að fara til klénsmiðs, mælti þá Ólafur á Hrísbrú, en þessir ræflar eru svo úrættaðir að þeir kunna ekki leingur að smíða sverð.
Og hverjir ætla sosum að fara að berjast með sverðum núna Ólafur minn, spyr séra Jóhann.
Ólafur svarar: Til er ég og til er Bogi.
Ja það er nú það Ólafur minn, segir séra Jóhann. Mér dettur í hug hvort ég ætti ekki að vekja hana Gunnu þó í fyrra lagi sé og biðja hana að snerpa á könnunni.
Þá segir Ólafur: Heldur þú og þið anskotar að Egill Skallagrímsson frændi minn hafi farið að drekka kaffi þegar hann var í vígahug?
Því er nú ver og miður að ég á ekki öl einsog Egill var vanur að drekka, segir séra Jóhann. En gott kaffi er gott ef það er gott.“
Halldór Laxness sagði mér að séra Jóhann hefði skírt sig, þegar hann var prestur í Reykjavík. “Hann var síðasti prestur á Mosfelli áður en kirkjan var rifin. Yfirvöld létu rífa kirkjuna samkvæmt lögum um sameiningu kirkna frá 1882; þau lög voru reist á konungskipun frá 1774. Það tók því meira en hundrað ár að fá þessu boði framfylgt; guð tók stinnt í á móti í Mosfellssveit. Séra Jóhann þjónaði aldrei Lágafellskirkju, en fluttist til Reykjavíkur og varð dómkirkjuprestur og gekk í svörtum frakka og gallossíum og var með stórt nef. Hann hafði dimman og hlýjan málróm og talaði ósjálfrátt í einföldum spakmælum. Það var hann sem sagði meðal annars þessi minnisverðu orð: Góð blöð eru góð ef þau eru góð. Svona spakmæli eru þægileg og meiða engan,“ segir skáldið.
Í sögunni segir, að séra Jóhann hafi látið aftur annað augað fyrir guðssástar sakir, þegar hann gaukaði klukkunni að Ólafi á Hrísbrú, eftir að kirkjan hafði verið rifin.
“Ég hef heyrt, að kannski hafi það ekki verið að séra Jóhanni forspurðum sem klukkan hvarf,“ segir Halldór Laxness og bætir við að – “þeir höfðu gott álit á honum hér í sveitinni, enda var það líkt honum að gefa klukkuna höfuðóvininum til að dangla í, þegar honum leiddist.“ Skáldið bætir því við, að séra Jóhann hafi verið honum mjög hugleikinn.  Mér þótti feikna gaman að sjá hann á götu í Reykjavík og heyra hann skiptast á orðum við fólk. Hann kemur fyrir í Heimsljósi sem fangelsispresturinn og einnig kemur hann mikið við sögu í Brekkukotsannál. Hann er mjög ólíkur séra Jóni Prímusi, svo ég gat ekki komið honum að í Kristnihaldinu.“
Ólafur á Hrísbrú og Bjartur í Sumarhúsum eru ólíkar manngerðir, þó það sé nokkur svipur með þeim sem bændum. Viss skyldleiki er með svona bændakalla-harðhausum, eins og skáldið komst að orði. “En Bjartur er útpenslaðri en Ólafur, þ.e.a.s. meira málaður út í hörgul. Ólafur á Hrísbrú er bara teiknaður með fáum strikum; ekki útfyllt mynd; ekki rakin slóð hans frá æsku eins og Bjarts. Bjartur var fullur af rímum og skáldskap og hafði marga góða kosti umfram Ólaf. Þegar deilurnar stóðu sem hæst, lét Ólafur mikið að sér kveða hér í sveitinni og vildi fara í stríð út af kirkjunni. Þá sagði hann: Til er ég og til er Bogi.“ Þetta er nú orðtak hér í Mosfellssveit, jafnvel stundum notað hér í húsinu. Þessi orð mætti festa upp yfir dyrum Mosfellskirkju. Mosdælir hafa séð, að þau voru fyndin. Bogi, sonur Ólafs, var manna ólíklegastur til hermennsku þeirra manna sem Mosdælir þekktu.“
Í Innansveitarkroniku segir skáldið á einum stað um Íslendinga: “Því hefur verið haldið fram að Íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um tittlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls… þó er enn ein röksemd sem Íslendíngar eru fúsir að hlíta, þegar alt um þrýtur, en það er fyndni; má vera aulafyndni. Við hlægilega lygisögu mýkist þjóðfélagið og fer að ljóma upp; jarðvegur sálarinnar verður jákvæður.“ Í samtalinu bætir skáldið við: “Þessi íslenzka fyndni er mjög sérkennileg og lætur stundum átök milli manna linast.“

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Allt er þetta aðdragandi sjálfrar sögunnar um Mosfellskirkju. Síðari hlutinn fjallar um það, hvernig munaðarlaus drengur, Stefán Þorláksson úr Reykjavík, sonur Ösku-Láka sem kallaður var, lenti í Mosfellsdal og leiddi af því að kirkja var endurreist á Mosfelli í okkar tíð. Þó vissi enginn til þess “að Stefán Þorláksson hefði nokkru sinni farið með gott orð í lifanda lífi; prestur nokkur hefur sagt við undirritaðan, að Stefán þessi muni hafa verið álíka trúlaus og Konstantín mikli, sem þó sannanlega bjargaði kristindóminum. Að minsta kosti mundi enn sem komið er teljast ofílagt að reikna hann með trúarhetjum í Mosfellssveit. Samt varð hann styrkari stoð sönnum kristindómi í sveit þessari, mælt í krónum og aurum, en flestir helgir menn vorir urðu hvort heldur með þöglum bænahöldum eða háværum sálmasaung eða laungum prédikunum.“ Hann var kallaður Stefi og muna hann enn margir. Einkunnarorð hans í sögunni eru: kaupa, kaupa sama hvað kostar – en að sögn skáldsins eru þessi orð upphaflega komin frá Oddi í Glæsi. “En ég hef krítað þau hjá Stefa af skáldsöguteknískum ástæðum.“

Innansveitarkronika er helgisaga eða jarteinabók að því leyti sem jarteinir eru þau undur sem guð notar til að sanna almætti sitt undir votta í einhverju sérstöku máli á einhverjum tilteknum stað. Ólíklegasta fólkið verður verkfæri til að sanna almætti guðs; Stefán, fátækur drengur með nafnmiðann sinn saumaðan inn í úlpuna sína; Guðrún Jónsdóttir, kölluð Gunna stóra, ösku- og mógrafakerling; og Ólafur á Hrísbrú, þessi rustakarl sem var sannanlega enginn dýrlingur. “Ekkert af þessu fólki virðist hafa haft nokkra trúarlega glætu. Það bara sannaði almætti guðs í Mosfellssveit.“

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Kaflinn um Stefa, þegar hann kemur fyrst lítill drengur að Hrísbrú, er skáldskapur sem festist í minni. Orðaskipti hans og Ólafs bónda, sem annars ekki vék hlýlega að gestum, óttaleysi drengsins við raunveruleikann, stórfljót og fjallgarða, en barnslegur ótti hans við ímyndanir sínar svo sem ræningja og hrynjandi fjöll, allt verður þetta ógleymanlegt. Hann vildi gera ál að hákarli með því að ala hann nógu vel á hornsílum, sem sagt; vildi einlægt gera mikið úr litlu. Mosfellskirkja hin nýja fæddist af framsýni í fébrögðum Stefáns Þorlákssonar. Klukkan í hana er komin þangað aftur fyrir tilstuðlan Ólafs bónda á Hrísbrú og kaleikurinn úr rusli eftir gamla konu sem dó á hreppnum á níræðisaldri 1936. “Einginn hafði vitað til að þetta munaðarlausa gamalmenni geymdi dýrgripa frammí dauðann; þaðanafsíður hvernig þessi kaleikur var kominn í hennar vörslur.“
Hver var þessi kona?
Hún hét Guðrún Jónsdóttir eins og í sögunni og “var í raun og veru kapítalisti, því hún var aldrei vistráðin en talin lausakona“. Í samtali okkar segir skáldið ennfremur: “Það er rétt, Guðrún Jónsdóttir var kapítalisti. Hún var ekki verkamaður. Hún lifði til að skemmta sér; hún tók ekki kaup; skemmtun hennar var að taka upp mó: hún var frjáls. Þessi kona veitti öðrum mönnum af auðlegð sinni ævilangt. Þegar hún var orðin gömul og farlama fór hún auðvitað á hreppinn.“ Skáldið heldur nafni hennar í sögunni eins og nafni á öðrum persónum, sem koma við kroniku Mosfellssveitar – en auðvitað með þeim fyrirvara sem stendur aftan á titilsíðu: Skírskotanir til nafngreindra manna rita skjala staða tíma og atburða þjóna ekki sagnfræðilegu hlutverki í texta þessum.“ Halldór Laxness segir í samtalinu: “Krakki hér í sveitinni, hlustaði ég eftir öllu sem sagt var, og ég á mér ótæmandi endurminningasjóð um fólk sem ég samneytti á bernskuárum mínum. Það var ólíkt fólki sem ég kynntist síðar. Ég kom hingað á fjórða ári úr Reykjavík og þetta fólk var minn félagsskapur, þangað til ég fór að vera á vetrum í Reykjavík 12 ára við ýmiss konar nám. Guðrún Jónsdóttir var oft hjá okkur í Laxnesi, stundum misserum saman. Ég man enn eftir ýmsum orðatiltækjum hennar, og kem þeim að í sögunni. Hún sagði til að mynda þetta: Ég kann bezt við mig í einhverju benvítis síli.“ Ég hef spurt orðabókamenn og þeir kannast ekki við þetta orðatiltæki. Það hefur ekki komizt á prent, svo ég viti, og ég hef engan heyrt nota það annan. En mér dettur ekki í hug að Guðrún Jónsdóttir hafi fundið það upp. Ég held að síli sé draslvinna eða vinnubjástur.“

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur (Jesse Byock).

Guðrún Jónsdóttir kom til Þórðar Jónssonar og Kristínar Vigfúsdóttur að Æsustöðum 1926 og hafði þá verið í Laxnesi. Hún átti kindur og hryssu, þegar hún var í fyrra skipti á Æsustöðum. Hún heyjaði þá Gunnubarð, sem svo var kallað, en nú er innan túns. Hún sló sjálf og batt. Hún hafði sérstakt skap og gott að vera í návist hennar. Hún var fædd í Hamrahlíð 26. desember 1854 og lézt á Æsustöðum 24. marz 1936. Hún var greftruð á Mosfelli. Hamrahlíð er ekki lengur í byggð, en er nú undir Blikastöðum. Andlit Guðrúnar og höfuðlag allt var af mynd að dæma stórskorið eins og landið.
Í upphafi ellefta kapítula sögunnar segir svo: “29unda júní sama vor og Mosfellskirkja var rifin mátti lesa eftirfarandi grein undir fyrirsögninni “Saga af dýru brauði“ í vikublaðinu Öldinni, og má gánga þar að henni ef einhver nennir að fara á bókasöfn og lesa gamlar blaðagreinar.“ Saga þessi fjallar um villu Gunnu stóru á Mosfellsheiði, þegar hún vitjaði pottbrauðs. Ungur piltur úr sveitinni tekur hana tali og spyr um villuna, rétt eins og blaðamaður eigi samtal við sérkennilega konu – en þó verðum við að hafa á þann fyrirvara, að hvorki frásögnin í Öldinni né lýsing Gunnu stóru í samtalinu eiga rætur í raunveruleikanum, og ekki heldur samtalið sjálft. Villur Guðrúnar í Innansveitarkroniku eru uppspuni. En svipaða sögu heyrði skáldið sunnan af Suðurnesjum. Þar var stúlka að villast hátt upp í viku í hrauninu á Reykjanesskaga. Hún hafði verið að vitja pottbrauðs í hveraholu. Gunnar Eyjólfsson leikari sagði skáldinu þessa sögu. Stúlkan sem villtist var að hann minnir amma leikarans eða ömmusystir. Þetta dæmi sýnir vel að skáld leita víða fanga. “Flest verður fróðum að kvæði,“ segir máltækið. Allt verður að söguefni, þótt ekki sé það sagnfræði í venjulegum skilningi.
“Ég var að hlusta á útvarpið um daginn,“ segir skáldið. Þar kom fram maður, sem spurður var frétta úr byggðarlagi sínu. Hann byrjaði frásögnina svona: “Vorið hefur verið gott fyrir sauðfé.“ Þessi maður kom mér í gott skap.“

Hrísbrú

Hrísbrú – kirkjan; fornleifauppgröftur.

Í Innansveitarkroniku miðast allt líf og öll tilvera við sauðfé. Þegar feðgarnir á Hrísbrú taka menn tali á hlaðinu og spyrja frétta, beinist talið alltaf að sauðfé, “því alt líf í landinu var einsog þann dag í dag miðað við sauðfé. Til dæmis þegar talað var um veður þá var það eitt sjónarmið ráðandi hversu það mætti henta sauðfé. Gott veður var það veður sem var gott fyrir sauðfé. Gott ár var það þegar óx gras handa sauðfé. Fallegt landslag á Íslandi þykir þar sem góð er beit handa sauðfé. Afkoma og sjónarmið manna í lífinu voru ákvörðuð af þessari skepnu. Hrísbrúíngar höfðu fréttir af sauðfé hvaðanæva af landinu og sögðu sögur af afkomu sauðfjár í Mosfellssveit. Þeir mundu nákvæmlega hvernig viðrað hafði fyrir sauðfé ár framaf ári þrjátíu ár aftur í tímann. Þessir menn fóru aldrei í utanyfir sig, en ullartreyur þeirra og peysur héldu vatni og vindi einsog reifið á íslenskri sauðkind.“

“Nú er sveitasagnfræðin komin í blöðin,“ segir Halldór Laxness enn í samtali okkar. “Bændur romsa upp einhverjum lifandi feiknum um harðærið í sveitunum með tilheyrandi útmálun á því hvernig veðrið var í fyrra og hitteðfyrra. Þetta eru oft einu greinarnar sem ég les í blöðunum. Steini á Valdastöðum var eftirlætisblaðamaður minn. Ég las einlægt fréttirnar hans í Morgunblaðinu tvisvar, stundum í þriðja sinn upphátt fyrir heimilisfólkið. Þrátt fyrir mörg mótdræg tíðindi í sveitum var hann eini fréttaritarinn í blöðunum sem sló ævinlega huggunarríka nótu. Þegar hann var búinn að lýsa þessum feiknarlegum óþurrkum sem gengið höfðu allt sumarið bætti hann alltaf við að það væri von manna að nú færi að breytast til batnaðar upp úr höfuðdeginum.“

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Fornleifarannsóknir í Mosfellsdal fylla upp í sjúkrasögu landsins. Rannsóknir á beinum sýna bæði krabbamein og berkla. Við bæinn Hrísbrústóð stafkirkja til forna og við hlið hennar heiðið brunakuml. Við bæinn Hrísbrú í Mosfellsdal fer fram mikill fornleifauppgröftur, en þar hafa fundist mannvistarleifar allt frá upphafi byggðar hér. Vísbendingar í Egilssögu urðu til þess að Jesse Byock, fornleifafræðingur og norrænufræðingur við Kaliforníuháskóla, fann þar eina af elstu kirkjum landsins, frá þjóðveldisöld. „Hérna var höfðingjasetur og kirkjan hefur sjálfsagt verið mikilfengleg, en hóllinn sem hún stóð á hefur lækkað mikið frá því á söguöld,“ segir hann.
Rétt við stafkirkjustæðið forna er smáhæð þar sem er að finna eina brunakumlið sem fundist hefur hér á landi. Þannig eru vísbendingar um byggð bæði í heiðni og kristni þarna á sama stað og jafnvel talið að nálægð greftrunarstaðanna gæti bent til að heiðni og kristni hafi þarna verið stunduð samhliða um einhvern tíma. Jesse Byock segir að ekki hafi áður fundist kirkja þar sem viðurinn hefur verið í jafngóðu ástandi og í stafkirkjunni við Hrísbrú.

Mosfell

Mosfellskirkja 1883.

„Kirkjan var yfirgefin og skilin eftir og hægt að sjá hvernig viðarhlutar hennar eru á sínum stað,“ segir hann og telur einna merkast að sjá svokallað grunntré kirkjunnar. Hann segir fundinn kenna okkur mikið um hvernig kirkjubyggingum var háttað fyrr á öldum, en byggingarlagið er í stíl við fornar stafkirkjur sem fundist hafa í Noregi.
Jesse segir sérstakt við þennan fornleifauppgröft hversu afmarkað tímabil sé verið að fást við. „Kirkjan var byggð og svo yfirgefin, en látin standa þegar sú nýja var tekin í notkun, þannig að tímabilið markast af 150 til 200 árum, frá upphafi tíundu aldar fram á elleftu öld.“ Hann segir tímamælingar á staðnum standast við rannsóknir á öskulögum sem sýni að kirkjan var byggð eftir árið 926.
Rannsóknir á beinum sem grafin hafa verið upp við kirkjustæðið hafa leitt í ljós sjúkdóma á borð við krabbamein og berkla.

„Hér fáum við miklar og góðar upplýsingar sem fylla í sjúkdómasögu þjóðarinnar,“ segir Jesse, en þarna kunna að vera fyrstu dæmin um berkla hér á landi. Hann segir rannsóknir á beinunum jafnframt leiða í ljós margvíslegar upplýsingar um mataræði og lifnaðarhætti fólks. Aðspurður taldi Jesse ekki miklar líkur á að meðal beinagrindanna sem grafnar hafa verið upp við Hrísbrú væru bein Egils Skallagrímssonar, en bein hans er sögð hafa verið grafin upp og flutt annað.
Björn Þráinn Þórðarson, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Mosfellsbæjar, segir að bæjarfélagið hafi mikinn áhuga á að nýta sér þessar merku fornminjar sem fundist hafa þarna í Mosfellsdal
með einhverjum hætti. Nefnir hann möguleika á að stofna fræðasetur þar sem fólki gæfist kostur á að kynna sér minjarnar og sögu landsins. Hann segir þessar hugmyndir tengjast áætlunum um menningarhús til minningar um Halldór Laxness. Björn telur stofnun minjaseturs mögulega í kringum fornleifauppgröft í Mosfellsdal, forn skipalægi í Leiruvogi og minningarsetur um ritun, ritstörf og menningu í dalnum allt frá tímum Egils Skallagrímssonar til daga nóbelsskáldsins frá Laxnesi.

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur.

Guðmundur Magnússon lýsti sjónarmiðum sínum um fornleifarannsóknirnar á Hrísbrú. “Ekki er víst að allir taki undir með fornleifafræðingunum sem grafið hafa upp leifar þúsund ára gamallar kirkju í Mosfellsdal og halda því fram að hún sé “einstaklega vel varðveitt”. Sannleikurinn er sá að það þarf bæði ímyndunarafl og þekkingu á fornri byggingararfleifð, sem ekki öllum er gefin, til að sjá fyrir sér kirkju þar sem nú er grjót og fátæklegar timburleifar. Það hjálpar þó að greinilega má sjá útlínur kirkjunnar í grunninum og þannig átta sig á flatarmáli hennar. Stoðholur veita ennfremur vísbendingar um byggingartækni.
En við Íslendingar erum líklega orðnir nægjusamir þegar fornleifafræði á í hlut. Við vitum að varðveisluskilyrði minja eru ekki góð hér á landi vegna veðurfars og jarðvegs. Við erum fyrir löngu hættir að bíða eftir því að upp úr jörðinni komi gersemar sem við getum flaggað í viðhafnarskápum í Þjóðminjasafninu. Líklega er hið eina sem þjóðin biður um og vonast eftir – þótt ekki fari það alltaf hátt eða sé opinberlega viðurkennt – að í moldinni sem fornleifafræðingarnir róta í með teskeiðum sínum leynist nýjar sannanir fyrir því að kappar og kvenskörungar fornbókmenntanna hafi verið af holdi og blóði; verið raunverulegar persónur. Óhætt er að segja að fæstir fornleifafræðingar hafi nú orðið sterka trú á víðtækri leiðsögn fornritanna við rannsóknir á leifum frá fyrri öldum. Aftur á móti eru þeir nógu þjóðhollir – eða bara skynsamir – til að nefna persónur fornsagnanna til sögu þegar þeir rekja rannsóknir sínar fyrir almenningi og fjölmiðlum. Þannig hafa skáldið Egill Skallagrímsson og Grímur Svertingsson komist í sviðsljósið nú þegar fundist hafa leifar kirkju frá frumkristni við merkilegar rannsóknir að Hrísbrú í Mosfellsdal. Þeir kappar eru ekki nefndir til sögu vegna þess að eitthvað nýtt sé um þá að segja á grundvelli fornleifanna heldur er hér á ferðinni meinlaus og oft bráðskemmtileg undirgrein almannatengsla, iðju sem margir þekkja frá stjórnmálaflokkum og stórfyrirtækjum.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Fyrir fræðimenn eru upplýsingar um byggingarform fornra mannvirkja, sjúkdóma, mataræði og hæð fólks, sem bein hafa fundist af, eða vísbendingar um lifnaðarhætti sem lesnar verða úr jarðvegi og dýraleifum, nægileg réttlæting og hvati rannsókna. Þeim verður iðulega heitt í hamsi og komast í uppnám út af leifum og gripum sem almenningur getur ekki lesið glóru í eða tengt frásögnum á fornum bókum. Fræðimönnum finnast nafnlausar minjar ekkert síður merkilegar en hinar sem hefðin og þjóðtrúin setur nafnspjöld á. Þetta gap á milli fræðimanna og almennings er eðlilegt og óhjákvæmilegt og þekkist í einni eða annarri mynd í öllum vísindum. Fornleifafræðingar, sem unnið hafa við rannsóknir á Íslandi, eiga hrós skilið fyrir að hafa mörgum öðrum fræðimönnum okkar fremur lagt sig í framkróka um að miðla rannsóknum sínum, hugmyndum og kenningum til almennings. Það hafa þeir einkum gert á vettvangi fornleifauppgrafta með leiðsögn, fyrirlestrum og upplýsingaskiltum. Þeir hafa líka notað netið til að koma efni til almennings svo að til fyrirmyndar er.
Við Íslendingar getum verið harla glaðir þótt okkur takist ekki nema að litlu leyti að tengja fornleifar og fornbókmenntir okkar. Við þurfum í rauninni hvorki að leita né finna hetjur og kappa sagnanna í moldinni og getum einbeitt okkur að hversdagslegri minjum sem ekki eru síður mikilvægar til skilnings á sögu genginna kynslóða. Sannleikurinn er nefnilega sá að þótt gaman væri að finna höfuðkúpu Egils Skallagrímssonar í kirkjugarðinum að Mosfelli eða Hrísbrú eru margfalt meiri verðmæti falin í “Höfuðlausn” hans í Egils sögu. Við þurfum ekki að fara yfir bæjarlækinn til að sækja vatnið.”

Samkvæmt Egilssögu ætlaði öldungurinn sagnaþulni að dreifa silfursjóð sínum (sem hann mun hafa fengið að launum frá Aðalsteini konungi fyrir yrkingar sínar) yfir þingheim á Alþingi að Þingvöllum sumarið 990, en ákvað þess í stað, eftir fortölur, að fela hann nálægt Mosfelli. “Egill tók sótt eftir um haustið, þá er hann leiddi til bana”.

Heimild m.a.:
-http://66.249.93.104/search?-http://66.249.93.104/search?
-www.gljufrasteinn.is/
-Mbl. 5. apríl 2004.
-Árni Helgason – Mbl.
-Mosfellingur.
-Egilssaga – höfundur ókunnur.

Mosfell

Mosfellskirkja.

Mosfellsbær

Í Morgunblaðinu 1983 er fjallað um “Kirkjuklukku frá 13. öld…”. Þar mun vera um að ræða gamla kirkjuklukkan, sem var í Hrísbrúarkirkju, áður en hún var rifin og ný kirkja reist að Mosfelli:

Ævaforn kirkjuklukka frá Mosfelli [Hrísbrú]
Hrísbrú
Í gær kom einnig til Kjarvalsstaða ævaforn kirkjuklukka frá Mosfellskirkju [Hrísbrúarkirkju] í Mosfellssveit. Ekki er nákvæmlega vitað um aldur hennar að sögn Björns Th., hún mun ekki vera frá frumkristni á Íslandi, en þó líklega frá því á 13. öld eða í byrjun þeirrar 14. Sést aldur hennar á lagi hennar, hún er útflá í laginu. Björn kvað uppruna óvissan, líklegast væri að hún væri þýsk, en gæti þó allt eins verið ensk eða frönsk. Klukkuna taldi dr. Róbert Abraham Ottósson, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, hljómfegurstu klukku á landinu.
Klukka þessi kemur mjög við í Innansveitarkroniku Halldórs Laxness.
Er kirkja var lögð niður á Mosfelli og flutt að Lágafelli, vildu bændur á Hrísbrú ekki una því að kirkjuklukkan forna færðist þangað. Var hún því geymd á Hrísbrú uns aftur reis kirkja á Mosfelli, og þar er klukkan nú. — Ekki munu Hrísbrúingar þó vilja una við þá útgáfu, er Innansveitarkronika gefur um geymslustað klukkunnar á Hrísbrú, en ekki er ætlunin að blandast inn í þær deilur hér.
Björn Th. kvað þetta alls ekki elstu klukku á landinu. Sú elsta er geymd á Þjóðminjasafninu, og mun einnig verða á sýningunni nú. Það er klukka frá Hálsi í Fnjóskadal, frá því á 12. öld. „Sú klukka hefur hringt við eyrum Guðmundar biskups góða, er hann var að alast upp á Hálsi,” sagði Björn Th.

Í Vísi 1962 birtist grein um Hrísbrúarklukkuna; “Klukkan kallar“:

Lágafellskirkja

Lágafellskirkja 1901.

Kátt tók að klingja og fast
klukkan, sem áður brast.
Alskærum ómi sló
út yfir vatn og skóg.
Mín klukka, klukkan þín
kallar oss heim til sín.– H.K.L.

Það geymast margar kynjasagnir í kristnum löndum. Um dularmátt kirkjuklukkna, hvernig þær orka ævilangt á mannlegar tilfinningar og mannleg örlög aftur á þær, líkt og klukkurnar séu gæddar lífi og sál.
Það kunna allir Íslendingar söguna af því, er Líkaböng Hóladómkirkju átti að hafa tekið að hringja sér sjálf, er lík Jóns Arasonar og sona hans voru flutt heim að Hólum. Tjéðlend frásögn hermir, að það hörmulega slys hafi hent, að fegursta stúlka þorpsins hafi fallið í mótin, þar sem verið var að bræða málminn í þorpsklukkurnar, og líkami hennar bráðnað þar. Sagan segir að fegurð hennar hafi orðið ódauðleg í hljómi klukknanna, sá hljómur sé ekki af þessum heimi.

Hrísbrúarkirkja

Mosfellskirkja – Við Mosfellskirkju sumarið 1883, enskur ferðamaður í hársnyrtingu, til vinstri er íslenskur fylgdarmaður ferðafólksins sem fékk að gista í kirkjunni. Myndin er önnur tveggja ljósmynda sem til er af þessari kirkju sem komst á hvers manns varir fimm árum síðar eins og greint er frá í Innansveitarkroniku. Kirkjan var byggð úr timbri og var eina timburkirkjan sem staðið hefur á Mosfelli.
Mosfellskirkja árið 1883. Ljósmyndari: Walter H. Trevelyan. © Brennholt.

Í einum fegursta dal Íslands, við dyr höfuðborgarinnar, er nú verið að móta í málm og stein lokaatriði ævintýralegrar og ótrúlegrar sögu, sem hófst árið 1888. Klukknahljómur er upphafs- og lokastef þessarar ljóðrænu, rómantísku frásagnar, og jafnvel á atómöld eru menn veikari fyrir rómantík en menn vilja vera láta.
Hið umrædda ár, 1888, var tekin af kirkja, sem staðið hafði í dalnum um aldaraðir. En allmargir dalbúanna máttu ekki til þess hugsa að klukknahljómurinn hyrfi úr dalnum. Þeir hófu harðar mótmælaaðgerðar gegn kirkjuyfirvöldunum og náðu á sitt vald klukkuur gömlu kirkjunni, sem jöfnuð var við jörðu. Segir sagan að þeir myndu aldrei hafa látið hana af hendi og verið þess albúnir að verja hana með afli.
Hrísbrú
Svo mikið er víst, að kirkjuklukkan er enn í dag varðveitt Í dalnum, á næsta bæ við hinn forna kirkjustað, sem tákn löngunarfullrar þrár þessa byggðarlags, hvers byggðarlags og hvers hjarta, eftir „alskærum” helgum hljóm, þrátt fyrir allt og allt.
Á bænum með kirkjuklukkunni ólst upp drengur, sem síðar varð forvígismaður sveitarinnar. Hann lézt fyrir fáum árum, ókvæntur og barnlaus stóreignamaður og hafði þá stofnað eignum sínum sjóð, sem verja skal til að endurreisa kirkju dalbúa á hinum forna kirkjustað. Nú er þessi einstæða kirkjubygging hafin. Og fyrsti gripurinn, sem kirkjan hefur eignazt, er gamla klukkan, hið eina sýnilega tákn gömlu kirkjunnar, sem aldrei tókst að ræna frá dalbúum. Til orða hefur komið að taka upp þá venju með nýju kirkjunni, að hringja klukkum hennar út yfir dalinn á sama tíma hvert einasta kvöld. Og það er trú ýmisa, að fengi gamla klukkan ekki að hljóma með, myndi hún hringja sér sjálf.
“Mín klukka, klukkan þín kallar oss heim til sín”.

Mosfellskirkja

Mosfellskirkja.

Kirkja stóð á Mosfelli í Mosfellsdal frá ómunatíð, þar til síðsumars árið 1888. Þá voru Mosfells- og Gufunesssóknir lagðar niður og sameinaðar Lágafellssókn og ný kirkja reist miðsvæðis, það er að segja á Lágafelli. Lágafellskirkja var vígð á fyrsta góudag 1889. Þar hafði ekki verið kirkja áður, en óljósar sagnir eru um bænahús þar á 17. öld.
Það mætti mikilli andúð í Mosfellssókn, er kirkjan þar var lögð niður. Dalbúar og Inn-Kjalnesingar vildu ekki missa Mosfellskirkju, en sóknarpresturinn, séra Jóhann Þorkelsson, síðar dómkirkjuprestur í Reykjavík, kirkjuyfirvöldin í Reykjavík og meirihluti sóknarmanna voru fylgjandi þeirri breytingu, sem gerð var, enda hnigu óneitanlega að því ýmis rök. En tilfinningar dalbúa voru andstæðar þeim rökum, og gekk svo langt, að ýmsir íbúar Mosfellsdals og Inn-Kjalnesingar höfðu fullan hug á að una henni ekki og fóru þess á leit við séra Þorkel Bjarnason á Reynivöllum, að hann gerðist kjörprestur þeirra. Af bréfum, sem fóru á milli, er ljóst, að séra Þorkell tók vel í þessa málaleitan, en til þessa kom þó ekki, og mun þessi „uppreisn” hafa verið þögguð niður af biskupi og kirkjuyfirvöldum.

Hrísbrú

Hrísbrú – kirkjan eftir fornleifauppgröft.

Harðasta andstaðan gegn því að taka af kirkju á Mosfelli var á bæjunum í kring. Andstæðingar þeirrar nýskipunar náðu í sínar vörzlur klukku úr Mosfellskirkju, þegar hún var rifin, og munu hafa verið albúnir þess að verja gerðir sínar með afli, ef á hefði verið leitað.
Elínborg Andrésdóttir, býr nú á Hrísbrú, og þar tók ljósmyndari Vísis myndina af henni með hina sögufrægu og sigursælu kirkjuklukku á dögunum.
Þótt Mosfellingar töpuðu fyrstu orustunni í stríðinu fyrir kirkju sinni, hafa aldrei þagnað að fullu þær raddir, sem gerðu tilkall til þess að Mosfellskirkja yrði endurreist.
Fyrir þremur árum andaðist hreppstjóri Mosfellssveitar, Stefán Þorláksson í Reykjahlíð, og kom í ljós, er erfðaskrá hans var opnuð, að þessu kirkjumáli var borgið. Stefán hafði alizt upp á Hrísbrú með gömlu kirkjuklukkunni og undir áhrifamætti þeirra minninga, sem við hana og Mosfellskirkju voru bundnar. Hversu máttug þau áhrif hafa verið, má bezt marka af því, að Stefán, sem var 6-kvæntur og barnlaus stóreignamaður, stofnaði með erfðaskrá sinni sjóð af þorra eigna sinna og skyldi verja honum til að endurreisa kirkju á Mosfelli Þar með var hið mikla tilfinninga- og metnaðarmál dalbúanna komið í höfn.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur;

Stefán lét eftir sig svo miklar eignir, að talið er að þær hrökkvi eigi aðeins fyrir byggingarkostnaði, heldur og fyrir viðhaldi og reksturskostnaði kirkjuhússins í framtíðinni. Meðal eigna þeirra, er Stefán arfleiddi kirkjusjóðinn að, er gróðrarstöð, þar sem einvörðungu eru ræktuð blóm og kirkjubyggingarsjóður rekur í samvinnu við garðyrkjumann, og má því með sanni segja, að blómin leggi sitt af mörkum til kirkjubyggingarinnar.

Mosfell

Mosfell – gamli bærinn og kirkjan.

Á sl. ári var efnt til verðlaunasamkeppni um teikningu að nýju kirkjunni og þrenn verðlaun veitt að tillögu dómnefndar, sem fjallaði um teikningarnar. Ekki var þó byggt eftir neinni verðlaunateikningunni, heldur eftir teikningu, sem Ragnar Emilsson gerði. Framkvæmdir við kirkjubygginguna hófust strax og klaki fór úr jörðu í vor. Nú hefur verið steyptur grunnur undir kirkjuna og verið er að slá upp fyrir kirkjuskipinu og kórnum. Nokkur hluti kirkjunnar er byggður inn í gamla kirkjugarðinn. Þar kom upp töluvert mikið af mannabeinum. Þeim var öllum safnað saman í stóra kistu, sem grafin var undir kórgólfi nýju kirkjunnar.
Stjórn dánargjafar Stefáns Þorlákssonar skipa sóknarpresturinn, sýslumaður og biskup landsins. Þá starfar og sérstök kirkjubyggingarnefnd, sóknarpresturinn, séra Bjarni Sigurðsson, formaður, og sést af því, hve mikið hvílir á hans herðum við þetta endurreisnarstarf.
Með honum eru í byggingarnefndinni Jónas Magnússon, safnaðarfulltrúi í Stardal, Ólafur Þórðarson, sóknarnefndarformaður Varmalandi, Ólafía Andrésdóttir, húsfreyja, Laugabóli, og Ólafur Ólafsson, læknir, Reykjalundi.
Mikil og almenn ánægja og áhugi ríkir fyrir þessari kirkjusmíði í Mosfellssveit, eins og allur aðdragandi þessa byggingarmáls hefur tilefni til, og mun vart ofmælt, að fáar nútímakirkjur á Íslandi eigi jafn sögulegan aðdraganda.
Hin nýja kirkja á Mosfelli á að rúma 110 manns í sæti. Hún stendur á brekkubrún og sér þaðan yfir dalinn. Grunnflötur forkirkjunnar myndar þríhyrning, forhliðin er þríhyrnd og allir fletir byggingarinnar þríhyrndir. Turninn verður 23 metra hár og víkur frá venju að því leyti, að hann rís upp af austurenda kirkjunnar, það er að segja upp af kórnum. Í samræmi við aðrar línur kirkjunnar, er turninn þrístrendur og opinn að nokkrum hluta.” – E.Bj.

Í Morgunblaðinu 2004 er sagt frá “Kirkju að Hrísbrú nefnda í Eglu“:

Kirkjan að Hrísbrú er nefnd í Eglu, sbr. 89. kafla:
“Grímur að Mosfelli var skírður, þá er kristni var í lög leidd á Íslandi; hann lét þar kirkju gera. En það er sögn manna, að Þórdís hafi látið flytja Egil til kirkju, og er það til jartegna, að síðan er kirkja var gerð að Mosfelli, en ofan tekin að Hrísbrú sú kirkja, er Grímur hafði gera látið, þá var þar grafinn kirkjugarður. En undir altarisstaðnum, þá fundust mannabein; þau voru miklu meiri en annarra manna bein. Þykjast menn það vita af sögn gamalla manna, að mundu verið hafa bein Egils. Þar var þá Skafti prestur Þórarinsson, vitur maður; hann tók upp hausinn Egils og setti á kirkjugarðinn; var hausinn undarlega mikill, en hitt þótti þó meir frá líkindum, hve þungur var; hausinn var allur báróttur utan svo sem hörpuskel. Þá vildi Skafti forvitnast um þykkleik haussins; tók hann þá handöxi vel mikla og reiddi annarri hendi sem harðast og laust hamrinum á hausinn og vildi brjóta, en þar sem á kom, hvítnaði hann, en ekki dalaði né sprakk, og má af slíku marka, að haus sá mundi ekki auðskaddur fyrir höggum smámennis, meðan svörður og hold fylgdi. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarði að Mosfelli.”

Í Mosfellingi 2005 er fjallað um “Fornleifauppgröft að Hrísbrú“:
Margir hafa velt vöngum um afdrif beina Egils

Hrísbrú

Stefán Þorláksson (1895-1959) hreppstjóri í Reykjadal í Mosfellssveit. Stefán var sonur Þorláks nokkurs, sem kallaður var Ösku-Láki og konu úr Eyjafirði, sem Sólrún hét. Hann ólst upp á Hrísbrú í Mosfellsdal.

“Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert. Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar.
Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu Mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“

Í Skírni 1999 má lesa um “Kotunga í andófi“:
“Kannski birtast náin tengsl heilinda og andófs hvergi skýrar en í Innansveitarkroniku (1970). Hún er skopleg, hálf-heimildabundin lýsing á þrákelknislegu andófi bænda á Hrísbrú í Mosfellssveit gegn flutningi kirkju þeirra. Kergja Knúts gamla og Hrísbrúinga kallast á, en er ekki öll þar sem hún er séð. Erfiði var óþekkt Hrísbrúingum, þeir unnu öll sín verk áreynslulaust svo þeir sáust varla hreyfast, kunnu hvorki að flýta sér né vera of seinir og um sláttutíma var dengingarhljóðið í undarlegum samhljómi við næturkyrrðina, vakti góðar undirtektir fugla og er sú músík sem menn muna tíræðir. Hún minnir á eilífðarhljóminn í „Fugli ágarðstaurnum”. Þessir hæglátu menn brugðust ókvæða við þegar átti að taka niður Mosfellskirkju en kyndugt andóf þeirra var til einskis. Og þó ekki. Lengst inni í bænum var enn ein af þessum dularfullu og ójarðnesku konum sem víða bregður fyrir í sögum Laxness, Finnbjörg (nafnið á Boggu, ráðskonu Kjartans á Skáldstöðum), sem hafði hönd í bagga með öllum aðgerðum feðganna og andi hennar svífur yfir endurreisn kirkjunnar. Yfir rúmi hennar tifaði klukka með eilífðarhljómi.
Innansveitarkronika er einföld á ytra borði og virðist sundurlaus í byggingu. Hún rétt tæpir á söguþræði og bregður upp svipmyndum sem sögumaður í líki forvitins fróðleiksgrúskara tínir
saman. Um leið er sagan í andstöðu við hefðbundið form skáldsögunnar og leggur á borðið þá huglægni sem í frásagnaraðferðinni liggur. Sögumanni hefur tekist sá galdur að tengja fróðleiksatriði sem virðast lítilsverð. Samt er það svo að „heimildirnar” sem virðast svo brotakenndar fá mál með sérstæðum hætti. Þegar upp er staðið blasir við margræð heildarmynd sem ekki er hægt að túlka á einn veg. Þess í stað eru margar raddir, mörg merkingarsvið í einni hljómkviðu. Innansveitarkronika er meðal annars, á sama hátt og „Fugl á garðstaurnum“, kýnískur útúrsnúningur á hugmyndafræði, stjórnkerfi, kennivaldi og auðhyggju. Í bakgrunni heyrist eilífðartónninn í túnslætti Hrísbrúarfeðga, klukku Finnbjargar og kvaki fugla.

Egill Skalla-Grímsson

Höfuðkúpa Egils Skalla-Grímssonar?

Haus Egils Skallagrímssonar breiðir tíma sögunnar yfir alla Íslandssöguna, bein hins heiðna skálds sem flutt voru í utanverðan kirkjugarðinn á Mosfelli herða kergjuna í Hrísbrúingum. Og í sögulok er sagan kölluð jarteinabók sem þýðir að hún er röð kraftaverka sem lyfta merkingunni yfir hið hversdagslega, gefur þannig til kynna að fleira búi undir. Sagan hefur innri byggingu áþekka Biblíunni, hnig og ris, ferli frá þjáningu til upprisu. Fuglinn sem Hrísbrúingar ólu hjá sér í tuttugu ár, erkikapítalistinn Stefán Þorláksson, var eins konar lausnari, því við lát hans reis ný kirkja á Mosfelli, hún var því rifin og endurreist. Klukkan og kaleikurinn eru trúarleg eilífðartákn. Þegar kirkjan er rifin er klukkunni sökkt til heljar, í forarpyttinn á Hrísbrúarhlaði, en hún rís upp aftur gljáfægð til að hringja Finnbjörgu til grafar og er loks sett upp í nýju kirkjunni. Kaleikurinn, graal sögunnar, er geymdur á rúmbotnum heilagra kerlinga, og hann birtist í þann mund sem lesandinn fer að undrast um hann og endar eins og klukkan, í nýju kirkjunni. Þannig er sagan full af trúarlegum vísunum og myndmáli en fáu slegið föstu um þann guðdóm sem yfir sögusviðinu svífur. Í lokin, þegar kirkjan er byggð og vígð, vefast þræðirnir saman eins og af hálfkæringi, hauskúpa Egils, Hrísbrúingar og sauðfé, kvakandi fuglar, gömlu kerlingarnar, kaleikurinn og klukkan, Íslandsklukkan með hljóm síðan úr fornöld. Og jarteinabókinni lýkur með því að spurning gömlu konunnar er endurtekin: „Getur nokkur nokkurntíma verið nokkrum trúr nema sjálfum sér“ – (Innansveitarkronika: 181-82).

Á vefsíðu Héraðskjalasafns Mosfellsbæjar má lesa eftirfarandi um Ólaf Magnússon á Hrísbrú:
Merkisbóndinn á Hrísbrú

Ólafur Magnússon

Ólafur magnússon á Hrísbrú (1831-1915).

Ólafur Magnússon bóndi á Hrísbrú var einarður andstæðingur þess að Mosfellskirkja yrði rifin og kirkjuklukkan komst í vörslu hans eftir niðurrif kirkjunnar. Hún var geymd á Hrísbrú í meira en mannsaldur eða allt þar til ný kirkja var vígð á Mosfelli árið 1965.
Ólafur og Finnbjörg Finnsdóttir kona hans eru mikilvægar persónur í Innansveitarkroniku.
Ljósmyndin af Ólafi er tekin í Austurstræti í Reykjavík snemma á 20. öld en engin ljósmynd hefur varðveist af Finnbjörgu.
Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli lýsir Hrísbrúarhjónunum þannig í endurminningum sínum: „Hvergi í Mosfellsdal hafði ég meira gaman af að koma en að Hrísbrú. Hjónin þar hétu Ólafur og Finnbjörg, kona roskin. Fyrst í stað voru þau nokkuð gróf og forneskjuleg, en glöð og gestrisin, þegar marka mátti. Það var ánægjulegt að bíða þar, meðan Finnbjörg hitaði ketilinn, og hlusta á Ólaf gamla. Var þá jafnan tilfyndnast það sem húsmóðirin lagði til málanna. Ekki var orðræðan hefluð né blíð, heldur oft stóryrt og krydduð velvöldum fornyrðum, stundum klúr.”
Ólafur barðist hatramlega gegn niðurrifi kirkjunnar að Mosfelli en varð að lúta í lægra haldi fyrir yfirvöldum árið 1888. Hann tók gömlu klukkuna úr kirkjunni til varðveislu og var hún geymd á Hrísbrú í meira en mannsaldur eða þangað til henni var komið fyrir í Mosfellskirkju sem vígð var árið 1965.
Ólafur og Finnbjörg voru hluti af aðalsögupersónum í bók Halldórs Laxness, Innansveitarkróniku.
Myndin af Ólafi er líklega tekin í kaupstaðaferð í Reykjavík kringum aldamótin 1900. Ekki er vitað til að mynd hafi varðveist af Finnbjörgu.”

Á vefsíðu Mosfellsbæjar má lesa eftirfarandi um kroniku Laxness:
Innansveitarkronika – Einstök meðal verka Halldórs

Hrísbrú

Hrísbrúarklukka í Mosfellskirkju.

“Innansveitarkronika er sérkennileg blanda af sagnfræði og skáldskap og einstök meðal verka skáldsins. Efniviðurinn er sóttur í Mosfellssveit og byggir m.a. á deilu sem varð vegna kirkjumála í Mosfellssveit á ofanverðri 19. öld. Þá náði sveitin niður að Elliðaám og kirkjur voru í Gufunesi og á Mosfelli. Kirkjuyfirvöld ákváðu hins vegar að leggja þær niður og byggja nýja kirkju miðsvæðis í sveitinni, að Lágafelli. Ekki voru allir hrifnir af þessum ákvörðunum, einkum var mikil andstaða í Mosfellsdal gegn niðurrifi Mosfellskirkju sem var alls ekki gömul bygging, byggð 1852. Ákvörðun yfirvalda varð ekki hnekkt, Mosfellskirkja var rifin árið 1888 og sama árið reis Lágafellskirkja af grunni. Hins vegar skiluðu einstakir gripir kirkjunnar sér ekki, menn söknuðu bæði kaleiks og kirkjuklukku sem var ævaforn. Kaleikurinn fannst seinna í fórum vinnustúlkunnar Guðrúnar Jónsdóttur en klukkan var geymd að Hrísbrú í tæp 80 ár. Að Hrísbrú ólst upp Stefán Þorláksson (1895-1959). Hann þekkti söguna um klukkuna og kirkjuna frá blautu barnsbeini og honum var endurreisn Mosfellskirkju mjög hugleikin þótt ekki þætti hann neinn sérstakur trúmaður. Sem fulltíða maður bjó Stefán Þorláksson lengstum í Mosfellsdal, bæði í Reykjahlíð og Reykjadal, hann komst vel í álnir og auðgaðist m.a. á sölu á heitu vatni. Samkvæmt erfðaskrá Stefáns skyldu eigur hans renna til endurreisnar Mosfellskirkju. Hún var vígð árið 1965 eins og greint er frá í síðasta kafla Innansveitarkroniku:
„4ða apríl 1965 þegar Mosfellskirkja hin nýa var vígð, gjöf Stefáns Þorlákssonar, ein fegurst kirkja og best búin sem nú stendur á Íslandi, þá bárust henni ýmsar veglegar gjafir. Flestar komu gjafir þessar frá ættmennahópum í sókninni, niðjum þeirra manna er fyrir eina tíð höfðu séð kirkju sinni er þeir trúðu á jafnað við jörð hér á hólnum.”
Fremst í Innansveitarkroniku getur höfundur þess sérstaklega að “Skírskotanir til nafngreindra manna rita skjala staða tíma og atburða þjóna ekki sagnfræðilegu hlutverki í texta þessum”. Þetta er vert að hafa í huga við lestur bókarinnar, Halldór færir til atburði og persónur í tíma og rúmi og aðlagar því verki sem hann er að skapa, og var þetta reyndar alþekkt aðferð úr verkum hans.
Eitt besta dæmið um slíkt í Innansveitarkroniku er 11. kafli bókarinnar sem heitir Sagan af brauðinu dýra. Þar segir frá vinnukonu prestsins á Mosfelli, Guðrúnu Jónsdóttur, sem hélt yfir Dalinn til að baka hverabrauð en villtist upp á Mosfellsheiði og fannst loks eftir nokkur dægur. Brauðið, sem henni hafði verið trúað fyrir, hafði hún ekki snert. Þessi kafli er nokkurs konar dæmisaga um að vera trúr yfir litlu en hér sækir Halldór hins vegar efniviðinn alls ekki í Mosfellsdal heldur á Suðurnes og var það allt önnur kona en Guðrún sem lenti í þeim hremmingum sem lýst er í bókinni.
Þrátt fyrir skáldsögulegt yfirbragð dregur Innansveitarkronika upp trúverðuga mynd af samfélaginu í Mosfellssveit á ofanverðri 19. öld. Þannig háttar til með fleiri skáldögur Halldórs Laxness, þær eru oft traustar heimildir um þá tíma sem þær gerast á.”

Guðrún Jónsdóttir

Hrísbrú

Guðrún Jónsdóttir frá Hamrahlíð (1854-1936). Ljósmyndari óþekktur. Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar úr safni Guðmundar Magnússonar.

Guðrún Jónsdóttir er þekkt persóna úr Innansveitarkroniku. Hún var fædd árið 1854 á bænum Hamrahlíð, sem var kotbýli í grennd við Blikastaði, og stundaði alla tíð vinnumennsku á ýmsum bæjum í Mosfellssveit.
Guðrún andaðist á Æsustöðum í Mosfellsdal árið 1936 og hvílir í Mosfellskirkjugarði.
Gripir úr eigu hennar eru varðveittir á bókasafni Varmárskóla.

Í Innansveitakroniku Laxness segir í 20. kapítula:
Af haugbroti
“Þegar Finnbjörg var látin sendi Ólafur karl Andrés son sinn á fund sóknarprests Lágafellskirkju, þeirrar kirkju niðrí sveit sem var laungu orðin sóknarkirkja mosdæla að lögum. Kvaðst Ólafur vera orðinn of sjóndaufur til að grilla Lágafellspresta svo hann næði til þeirra að berja þá. Það var ennfremur í erindum Andrésar að tjá presti að faðir sinn væri í því ráðinn að grafa konu sína í mosfellskirkjugarði og réði lágafellsprestur því hvort hann hunskaðist þángað á tilteknum degi og kasta rekunum; að öðrum kosti mundi hann, Ólafur á Hrísbrú, gera það sjálfur. Er þar skemst frá að segja að ekki var tekið óljúflega í þetta mál af þartilbærum yfirvöldum.
Nú er lík húsfreyu hefur verið lagt í kistu og borið til skemmu og bærinn tómur og alt á enda kljáð, sagði Stefán Þorláksson, og líður að útfarardegi, þá kallar Ólafur bóndi á sonu sína og fósturson og leggur fyrir þá þraut.
Þess var áður getið hér á blöðunum að svöð hafi verið eigi allsmá fyrir framan hlaðstétt á Hrísbrú og hefði einginn mælt þeirra dýpt og ekki heldur verið augljós mörkin milli þeirra og fjóshaugs mikils ásamt með hlandfor sem þar vall og hafði ollið leingi. Hafði forin ekki verið tæmd til fullnustu svo menn ræki minni til. Nú bregður svo við að Ólafur bóndi sendir lið sitt í for þessa með verkfæri þau sem þurfti og lætur hefja austur og gröft; segir að eigi skal láta staðar numið fyren þeir komi niður á dýrgrip sem fólginn sé djúpt í hauginum.
Nú fara þeir til og brjóta hauginn og er gagnslaust að lýsa slíku verki hér svo lángt sem um er liðið og einginn maður veit leingur hvað hlandfor er á Íslandi. Mundi ekki svipað gilda um óþrifaleg verk einsog fyr var ritað um erfið verk? Áður fyr voru eingin verk kölluð sóðaleg nema þau sem unnin voru án vandvirkni af kæríngarlausum verkamanni og lýstu handbragði skussa og ómennis.
Hvort sem ausið var eða grafið leingur eða skemur í Hrísbrúarsvöð, þá er ekki að orðleingja það, nema seinast koma menn það lángt niður í þessari voðalegu torfæru að rekuna tekur niðri og saung í málmi þar sem hún snart við. Menn hafa hendur á gripnum og losa um hann og bera burt úr forinni og uppá dyrakamp. Nú velta þeir grip þessum fyrir sér uns þeim kemur saman um að kveðja til Ólaf bónda og spyrja hann ráða. Hann þreifar á gripnum innvirðulega um stund uns hann kennir að þetta er kirkjuklukka. Hann segir að þessa klukku skal þvo vandlega og síðan fægja. Þvínæst fór hann inní bastofu og fann kólfinn úr klukkunni á kistubotni húsfreyar sinnar.

Hrísbrú

Hrísbrúarklukka í Mosfellskirkju.

Stefán Þorláksson hefur sagt frá þeim morni er hann fór með Ólafi fóstra sínum í undanrás að Mosfelli að búa í haginn áður en líkfylgdin kæmi. Þetta var um sumarsólstöður. Gamli Rauður var sóttur í hagann og stendur á hlaðinu ærið vambmikill. Það var lagður á hann hnakkur fyrir utan opna skemmuna en þar hafði öllu drasli verið rýmt burt svo rúmt væri um kistuna. Synir Ólafs leiddu föður sinn útúr bænum en hann bar sjálfur klukkuna í fángi sér, og var klukkan fljót að fá aftur þá spansgrænu sem fylgir sönnum kristindómi.
Synir Ólafs héldu í ístaðið hjá föður sínum og hjálpuðu honum á bak þeim rauða. Síðan létu þeir klukkuna í fáng honum þannig að hann gat samt haldið sér í faxið á hestinum. Fóstursyni fólksins var síðan sagt að teyma undir gamla manni sem leið lá heim að Mosfelli og láta staðar numið þar á hólnum fyrir utan sáluhliðið í mosfellskirkjugarði. Sveitin var ekki meirensvo risin úr rekkju og vorfuglinn heiðló hljóp samsíða þeim yfir Skriðuna og blés í veika flautu en kólfurinn í klukkunni var laus og gall við með skjöllu málmhljóði þegar Rauður hnaut við steinvölu í götunni. Ólafur bóndi gerði sín ekki vart heima á Mosfellsbænum en lét fósturson sinn leiða sig að sáluhliðinu og bar enn klukkuna í fánginu. Hann sagði að binda skyldi Rauð við garðstaur svo hann færi ekki í túnið, því síðan hér hættu að vera mínir prestar beiti ég aldrei á Mosfellstún, sagði hann.

Hrísbrú

Hrísbrúarklukkan í Mosfellskirkju – upphengjan.

Þeir njörvuðu klukkuna með snærum við dyradróttina í sáluhliðinu. En með því ramböld vantaði sem bjalla verður að hafa svo hún leiki laus þegar tekið er í klukkustreinginn, og hríngíngin fái lángan tón af sveiflu, þá varð Ólafur á endanum að gera kólfinn lausan og dángla utaní klukkuna með honum. En þó hríngíng væri hljómlítil og ögn bundin var þetta þó klukknahljóð og hljómur Mosfellskirkju. Þegar líkfylgdin nálgaðist tók hann til að hríngja. Hann linti ekki hríngíngu meðan kistan var borin um sáluhliðið. Hann hríngdi meðan fólkið var að tínast inní garðinn. Hann hríngdi meðan kistunni var sökt í jörðina og meðan presturinn var að kasta rekunum og fólkið að tínast burt frá gröfinni en rétti annars hugar þá höndina sem laus var þeim sem kvöddu hann og samhrygðust honum, uns fóstursonur hans sem sat á þúfu sagði honum að nú væri seinasti maður farinn og alt búið. Þannig hríngdi Ólafur kallinn á Hrísbrú alla sveitina inn í kirkjugarðinn á Mosfelli og útúr honum aftur.
Viku seinna fór Ólafur aftur sömu leið, að því sinni í fjórum skautum, að finna konu sína. Bogi sonur hans bar nú klukkuna á sjálfum sér fyrir kistu föður síns, festi hana í dyradróttina á sáluhliðinu einsog faðir hans hafði gert í vikunni á undan og hríngdi einsog faðir hans hafði hríngt uns lokið var, leysti síðan klukkuna af dyradróttinni og bar hana heim aftur að Hrísbrú.”

Á vefsíðu Lágafellskirkju, sbr. Mosfellskirkju er getið um “Teikningu af Mosfellskirkju“:
Teikning af Mosfellskirkju – erindi 15, mars 2015:

“Vegfarendur um Mosfellsdal veita athygli sérkennilegri byggingu sem vakir yfir byggðinni í dalnum á hinum forna kirkjustað, Mosfelli. Þetta óvenjulega guðshús, sem senn verður hálfrar aldar gamalt, er með athyglisverðari dæmum í þróunarsögu kirkjubygginga hér á landi. Sagan af því hvernig að kirkjuhúsið fékk á sig þessa mynd er ekki síður forvitnileg en aðdragandinn að byggingunni sjálfri. Svo vel vill til að fundargerðarbók byggingarnefndar hefur varðveist, samviskusamlega skráð af Jónasi Magnússyni í Stardal. Fundargerðirnar eru mikilvæg heimild um tilurð teikningarinnar af Mosfellskirkju, en flestum lýkur þeim með eftirfarandi orðum: „Fleira ekki tekið fyrir – fundi slitið. Síðan sest að kaffidrykkju í boði prestshjónanna á Mosfelli.“

Mosfell

Mosfellskirkja.

Alkunn er sagan af því hvernig það kom til að Mosfellskirkja var eldurreist fyrir 50 árum síðan. Kirkjurnar að Mosfelli og Gufunesi voru aflagðar og rifnar árið 1888 þegar sóknirnar voru sameinaðar. Ný, sameiginleg kirkja reis ári síðar á Lágafelli, misvæðis í byggðinni. Gamla Mosfellskirkjan, sú sem rifin var, var timburkirkja, smíðuð 1853 af Bjarna Jónssyni snikkara. Hann smíðaði tvær kirkjur í Grímsnesi sem enn standa, Mosfellskirkju og Búrfellskirkju. Sameining sóknanna og niðurrif kirkjunnar á Mosfelli var andstæð vilja margra bænda í Mosfellsdal. Þessi saga er rauður þráður í seinni hluta Innansveitarkróníku Halldórs Laxness, en í þeirri bók er kirkjan að Mosfelli ein aðalpersóna verksins. Munaðarlaus drengur, Stefán Þorláksson að nafni, ólst upp á Hrísbrú þar sem klukka hinnar horfnu kirkju var geymd. Hann eignaðist jörðina Reykjahlíð árið 1933 og seldi hana Reykavíkurbæ 1947 ásamt heitavatnsréttindum. Á þessum og fleiri viðskiptum efnaðist hann vel og byggði sér íbúðarhúsið Reykjadal í Mosfellsdal, ásamt gróðurhúsum. Hann var hreppstjóri um skeið, framtakssamur og vinsæll í sinni sveit. Stefán, sem var ókvæntur og barnlaus, lést í júlí 1959. Í erfðaskrá gaf hann meirihluta eigna sinna til kirkjubyggingar að Mosfelli í Mosfellsdal.”

Sjá einnig HÉR.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 57. tbl. 10.03.1983, Kirkjuklukka frá 13. öld…, bls. 24-25.
-Vísir, 112. tbl. 17.09.1962, Klukkan kallar, bls. 9 og 10.
-Morgunblaðið, 210. tbl. 05.08.2004, Kirkja að Hrísbrú nefnd í Eglu, bls. 6.
-Mosfellingur, 10. tbl. 19.08.2005, Fornleifauppgröftur að Hrísbrú, bls. 12-13.
-Skírnir 01.09.1999, Kotungar í andófi, bls. 278-281.
-Héraðskjalasafn Mosfellsbæjar – http://www.hermos.is/forsida/frettir/frett/2017/09/25/Olafur-Magnusson-1831-1915-fra-Hrisbru/
-Bókasafn Mosfellsbæjar – http://www.bokmos.is/laxnessvefur/kronikan/
-Innansveitakrinika – http://innansveitarkronika.is/kafli/20
-Egilssaga – 20. kafli.
-https://www.lagafellskirkja.is/kerfi/wp-content/uploads/2015/04/Mosfellskirkja.pdf

Mosfellskirkja

Mosfellskirkja.

Mosfell

Í Mosfellingi árið 2006 er fjallað um “Kirkjuna á Hrísbrú”. Ekki er úr vegi, að því tilefni, að fjalla svolítið um einn þekktasta íbúann þar sem og spurninguni hvað varð um silfursjóð hans á gamals aldri.

Kirkjan á Hrísbrú

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

“Undanfarin ár hefur staðið yfir fornleifauppgröftur að Hrísbrú í Mosfellsdal. Rannsóknin hefur leitt margt merkilegt í ljós m.a. um kirkju á Hrísbrú. Hrísbrú er ein af fimm jörðum í Mosfellsbæ þar sem heimildir eru fyrir að kirkja hafi staðið. Á tveimur jörðum stendur kirkja enn þann dag í dag, á Lágafelli og á Mosfelli. Hinar jarðirnar eru Suður-Reykir og Varmá.
Í Egilssögu segir að kirkja sem reist var á Hrísbrú er kristni var lögtekin hafi verið flutt að Mosfelli.
Í gegnum tíðina hafa verið nokkrar vangaveltur um hvar fyrsti bærinn á Mosfelli stóð. Kristian Kålund segir í verki sínu Bidrag til en historisktopografi sk Beskrivelse af Island, sem gefin var út 1877 að hann álíti að bærinn hafi upphaflega staðið á Hrísbrú ásamt kirkjunni. Síðan hafi bærinn verið fluttur að Mosfelli og kirkja á eftir. Sigurður Vigfússon ræðir þetta mál einnig í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1884-1885, en kemst að annarri niðurstöðu en Kålund. Álítur hann, frásögn Egilssögu um kirkju á Hrísbrú, sem seinna var flutt að Mosfelli, rétta.
Um bæjarflutning og þar með nafnbreytingu var ekki að ræða. Í útgáfu sinni að Egils sögu (Rvk. 1933) telur Sigurður Nordal líklegast, að kirkjan hafi fyrst verið byggð fjarri bænum að Mosfelli, en seinna verið flutt að bænum og hjáleigan Hrísbrú byggð á gamla kirkjustaðnum.
Menn hafa leitt að því líkur að kirkja hafi staðið á Hrísbrú í um 150 ár. Hún var reist er kristni var lögtekin, þ.e. í kringum árið 1000.
Hrísbrú
Kirkja var hins vegar risin á Mosfelli í tíð Skapta prests Þórarinssonar sem uppi var um miðja 12. öld og því hafa menn ályktað sem svo að þá hafi verið búið að flytja kirkjuna frá Hrísbrú. Talsvert hefur verið skrifað um staðsetningu hinnar fornu Hrísbrúarkirkju. Um þetta segir Magnús Grímsson í Safni til sögu Íslands og íslenzkra bók mennta að fornu og nýju, sem gefin var út í Kaupmannahöfn og Reykjavík árið 1886: „Það er varla von, að nein viss merki sjáist nú Hrísbrúarkirkju, eptir hérumbil 700 ára tíma. En þó eru þar nokkur vegsummerki enn, sem styðja söguna. Skammt útnorðr frá bænum á Hrísbrú, norðan til við götu þá, er vestr liggur um túnið, er hólvera ein, hvorki há né mikil um sig. Það er nú kallaðr Kirkjuhóll. Stendur nú fjárhús við götuna, landsunnan megin í hóljaðri þessum. Þegar menn athuga hól þenna lítr svo út, sem umhverfis hann að vestan, norðan og austan, sé þúfnakerfi nokkuð, frábrugðið öðrum þúfum þar í nánd. Þetta þúfnakerfi á að vera leifar kirkjugarðsins (því kirkjan á að hafa staðið á hólnum) og er það alllíkt fornum garðarústum. Innan í miðju þúfnakerfi þessu á kirkjan sjálf að hafa staðið, og þar er varla efunarmál, að þar hafi til forna eitthvert hús verið. Eigi er hægt að ætla neitt á um stærð rústar þessarar …
Tveir steinar sáust uppi á hólnum, sokknir í jörð að mestu; voru þeir teknir upp haustið 1857, og líta út fyrir að hafa verið undirstöðusteinar, óvandaðir og óhöggnir, en ekki alllitlir; má vera að þeir hafi verið í kirkjunni. Við upptekníng steina þessara sýndist svo, sem moldin í hólnum væri lausari og mýkri,(?) en í túninu fyrir utan hólinn. Það mun því efalaust, að kirkja Gríms Svertíngssonar hafi hér staðið. Annarsstaðar getr hún varla hafa verið á Hrísbrú, enda bendir og nafnið, Kirkjuhóll, á að svo hafi verið. Hefir þar og verið kirkjustæði allfagrt, en ekki mjög hátt.“
Á árunum upp úr 1980 fór fram fornleifaskráning í Mosfellsbæ á vegum Þjóðminjasafns Íslands. Þar er sagt frá einni sporöskjulaga rúst og tveimur ferhyrningslaga tóftum á Kirkjuhóli. Allar eru tóftirnar þó ógreinilegar. Um það segir skrásetjari: „Almennt má segja um Kirkjuhól, að hann er mjög rústalegur að sjá. Mjög erfitt er samt að koma öllu heim og saman. Er hólkollurinn allþýfður og eflaust má sjá það út úr þessu, sem menn langar helst til.“
Nú er sem sagt fengin niðurstaða í málinu. Þær fornleifarannsóknir sem stundaðar hafa verið á Hrísbrú undir stjórn Jesse Byock á undanförnum árum hafa leitt í ljós að kirkja var reist á Hrísbrú í frumkristni og að hún stóð á Kirkjuhóli.” – Kristinn Magnússon, fornleifafræðingur.

Í Mosfellingi árið 2005 er fjallað um fornleifauppgröftinn að Hrísbrú:
Hrísbrú
“Margir hafa velt vöngum um afdrif beina Egils.
Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert. Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar. Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu Mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“

Eins og flestir vita hefur staðið yfir á Hrísbrú í Mosfellsdal stórmerkur fornleifauppgröftur undanfarin sumur. Uppgreftrinum hefur verið stjórnað af fornleifafræðingnum Jesse Byock. Jesse er prófessor í norrænum fræðum við Kaliforníuháskóla og kom til íslands í fyrsta skipti fyrir um það bil 30 árum. Þess má geta að á síðasta ári veitti Alþingi honum íslenskan ríkisborgararétt.
Mosfellingur náði tali af Jesse á Brúarlandi þar sem fornleifafræðingarnir hafa haft aðsetur undanfarin sumur.

Hvenær hófst þú störf við uppgröftin á Hrísbrú?
Hrísbrú
„Árið 1995 gerði ég forkönnun að Mosfelli og á fleiri stöðum í Dalnum. Það var svo árið 2001 sem starfið hófst að fullum krafti á Hrísbrú með aðkomu og stuðningi Mosfellsbæjar að verkefninu”.
Ert þú ánægður með þann árangur sem hefur náðst fram að þessu?
„Það er óhætt að segja að hann sé framar björtustu vonum. Síðastliðiðið sumar fannst kirkja sem að öllu líkindum er reist skömmu eftir Kristnitöku árið 1000. Um er að ræða stafkirkju, einstaka að því leyti að varðveist hafa betur en áður hefur sést stólpar og grunntré hússins, ásamt hleðslum. Þessi fundur er verulegur hvalreki fyrir byggingarsögu íslands, enda kemur í ljós að frágangur og vinnubrögð við byggingu benda til séríslenskra úrlausna við bygginguna sem ekki þekkjast á Norðurlöndum frá sama tímabili. Það er því Ijóst að fundur stafkirkjunnar er stórmerkur. Þá er ljóst að kirkjan hefur verið staðsett á stað sem fyrir kristnitöku hefur verið notaður við greftranir eða brennu látinna, því þar hefur fundist eina brunagröfin sem fundist hefur á Íslandi. Niðurstöður rannsókna sýna með óyggjandi hætti að maður hefur verið brendur á Hulduhól, skipslöguðum hóli sem liggur skammt frá kirkjugarðinum. Það er ekki ólíklegt að einn af fyrstu höfðingjum Mosfellsbæjar hafi verið brendur þarna.
Í garðinum kringum kirkjuna hefur fundist fjöldi beinagrinda. Frá því uppgröftur hófst höfum við fundið 22 beinagrindur sem m.a. hafa gefið okkur margvíslegar vísbendingar um lifnaðarhætti fólksins, það er t.d. um: næringu, sjúkdóma, ofbeldi og hvar fólkið er fætt, enda beinist rannsóknin ekki síst að lífsskilyrðum og siðum fyrir og eftir Kristnitöku.
Með því að beita hátæknilegum mælingum á ísótópum, sem er ný greiningartækni í fornleifafræði, er hægt að mæla í beinum og tönnum hlutfall næringar á fyrstu æviárum einstaklinga. Niðurstaða hefur leitt í ljós að sjávarnitjar voru greinilega mikil uppistaða í fæðu á þessum tíma í kringum 1000. Við höfum einnig getað rakið sjúkdóma eins og berkla og krabbamein frá þessum tíma og við höfum séð merki mikils ofbeldis. Þar vegur þyngst fundur okkar í fyrrasumar af hauskúpu sem bar greinileg einkenni þess að hafa orðið fyrir þungu höggi eggvopns. Enn fremur hefur verið rannsakað hvort einstaklingar eru fæddir hérlendis eða erlendis. Niðurstaðan er sú að að svo virðist sem að allir þeir sem bera bein sín í kirkjugarðinum á Hrísbrú hafi verið fæddir hérlendis.
Með samvinnu fjölda vísindamanna úr margvíslegum fræðigreinum, svo sem almennri líffræði, frjókornafræði, réttarlæknisfræði, sagnfræði, fornleifafræði, jarð- og landafræði hefur verið leitað eftir upplýsingum svo hægt sé að draga heildarmynd af búsetuskilyrðum frá þessum tíma, en það er meginmarkmið rannsóknarinnar.
Rannsóknir síðastliðinna fimm ára eru líka farnar að skila verulegum árangri, sem styrkir þekkingu manna á smáatriðum og heildarmynd af lífi á íslandi á landnámsöld. í sumum tilfellum er um að ræða þekkingu sem ekki hefur komið fram áður.“

Eigum við eftir að finna silfur Egils?
Hrísbrú„Það er eðlilegt að spurningar sem tengjast Agli Skallagrímssyni og Egilssögu komi upp. Vísindamenn vilja gjarnan víkja sér undan óyggjandi svörum um slíkt, en samsvörun fundar á kirkju og kirkjugarði við stóra kafla í Egilssögu eru sláandi, því er ekki að neita. Nú í sumar var farið undir kirkjugólfið og þar finnst gröf, en kistan hafði verið fjarlægð, enda finnast leifar hennar. Sá sem í gröfinni hefur legið hefur greinilega verið stór og mikill eins og fram kemur í öllum lýsingum, enda gröfin sú stærsta af þeim sem við höfum fundið á Hrísbrú.“

Fundur skálans hefur vafalaust verið skemmtilegur endir á vinnu sumarsins?
„Það var ánægjulegt að finna þetta og án vafa er þessi viðbótarfundur til að styrkja þá skoðun mína að hér sé um einn merkasta fornleifafund seinni tíma að ræða, þegar horft er til þessa tímabils, ekki bara eftir íslenskum mælikvarða heldur einnig þegar horft er til heiminum. Það dæmi ég alla vega af viðbrögðum kollega minna víða úr heiminum. Þetta gerðist þannig að við vorum að fara að ganga frá eftir vinnu sumarsins þegar þessi bygging kom í Ijós. Ljóst er að hún hefur varðveist svo vel vegna skriðunnar sem féll á hana. Það hefur verið ótrúlegt að finna þetta allt og sjá á einum stað og ég tel það einstakt.“

Koma fleiri en fornleifafræðingar að þessum rannsóknum?
„Að þessum rannsóknum hefur hópur vísindamanna komið frá fjölda landa og má til gamans geta þess að nú eru þegar fjórir af þeim að gera doktorsritgerð vegna þessa verkefnis við Háskólann í Kaliforníu. Þessi hópur hefur verið afar samstilltur og frábært að vinna með. Af þessu leiðir að um er að ræða margþættar rannsóknir svo hægt sé að ná þeim árangri að varpa ljósi á líf og lifnaðarhætti á landnámsöld, á mörkum kristni og heiðni og rannsóknin skipar sér þar með í hóp með stærri fornleifauppgröftum.”

Í Ólafíu, riti Fornleifafræðingafélags Íslands árið 2007, er fjallað um “Valdamiðstöðina í Mosfellssdal – Rannsóknir á fornleifum frá tímum víkinga að Hrísbrú að Mosfelli”:

Niðurstöður:

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Landslag frá heiðni til kristni Fornleifarannsóknir í Mosfellsdal hafa leitt í ljós verulegar sannanir á því að umtalsverð byggð hefur verið þar frá landnámsöld fram yfir kristnitöku, og áfram allt fram á 12. öld. Með rannsóknarniðurstöðunum er að myndast vel skrásett mynd af flókinni sambúð og samskiptum heiðinna manna og kristinna á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Á Hrísbrú hafa fornleifafræði og fornar ritheimildir hjálpast að við að sýna fram á mikilvægi staðbundinna minja, sem og rannsóknir á áþreifanlegum minjum í nánum tengslum við ritaðar miðaldaheimildir.
Mikilvægur þáttur í rannsóknunum á Hrísbrú hefur falist í því að skoða og skilja hvernig greftrunarsiðir og trúarbrögð hafa blandast við kristnitöku.

Uppi hafa verið margar tilgátur í víkingaaldarfræðum um hætti, menningarleg gildi og trúarhegðun Norðurlandabúa á þeim tíma þegar skipt var frá heiðnum sið til kristni. Margt bendir til þess að breyting hafi átt sér stað frá heiðni til kristni á sérstökum helgistöðum en lítið er um skýrar fornleifafræðilegar sannanir þessu til staðfestingar. Niðurstöður okkar á Mosfelli gætu skipt máli í tengslum við þessa alþjóðlegu umræðu.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Nálægð heiðinnar líkbrennslu á Hulduhól við kristna kirkju og kirkjugarð á Kirkjuhól sýnir einstaklega heillega mynd af trúarlegum greftrunarstað og veitir okkur tækifæri til að skoða hvernig eitt ákveðið samfélag á víkingaöld kristnaðist. Sú staðreynd að kirkjan á Kirkjuhóli hafi verið byggð svo nálægt hinni heiðnu hæð á Hulduhóli segir okkur margt um félagslega og menningarlega hætti á þessum tíma og það er afar sjaldgæft í dag að finna minjastað með tveimur jafnvel varðveittum grafhaugum. Rannsóknarniðurstöðurnar benda til þess að heiðið og kristið samfélag hafi búið hlið við hlið á tímum kristnitökunnar.
Fornleifarnar á Mosfelli/Hrísbrú eru sérstaklega mikilvægar í sambandi við túlkun á Íslandssögunni vegna þess að fyrir rannsóknina höfðu aðeins verið til ritaðar heimildir um fólkið sem þar bjó.
Grímur Svertingsson er gott dæmi um þetta. Hann bjó þar við kristnitöku og var lögsögumaður á árunum strax eftir hana. Grímur var giftur Þórdísi, dóttur voldugs höfðingja frá Borg í Borgarfirði, og var einn af áhrifamestu mönnum á Íslandi á þeim tíma. Margir sagnfræðingar hafa lengi haldið því fram, og byggt það á rituðum heimildum, að margir voldugir höfðingjar á Íslandi, og þar á meðal Grímur, hafi tekið kristni til þess að halda völdum. Vegna þessa hafi margir höfðingjar reist kirkjur á jörðum sínum um árið 1000 til þess að fá vígða jörð á landareign sinni. En eru einhverjar sannanir fyrir þessu?
HrísbrúNiðurstöður fornleifarannsókna á Hrísbrú benda til þess að á landnámsöld hafi staðurinn verið bústaður höfðingja og staðsetning hans áhrifamikil í samfélagi og menningu íbúa Mosfellsdals.
Egils saga segir frá því að Grímur Svertingsson hafi reist sér eigin kirkju og kirkjugarð að Hrísbrú í kjölfar kristnitökunnar. Áþreifanlegar fornleifar sem fundist hafa í rannsóknunum styðja þetta. Með byggingu kirkjunnar eftir kristnitöku staðfestu Mosfellingar, sú fjölskylda sem mestu réði á þeim tíma í dalnum, eignarhald sitt á landinu, sjálfsmynd sína og stöðu. Steinar og grafir að Hrísbrú sýna fram á miðpunkt í menningarlegu og raunverulegu landslagi á meðan áþreifanlegar minjar úr gröfunum veita okkur upplýsingar um heilsu og lifnaðarhætti, auk þess að staðfesta ofbeldi í samfélagi íbúanna á Mosfelli/Hrísbrú. Þessar áþreifanlegu minjar eru vitnisburður um tilraun voldugrar höfðingjaættar til þess að koma sér vel fyrir í breyttu trúarlegu og félagslegu umhverfi fyrstu tvö hundruð ár landnáms á Íslandi. Rannsóknir okkar benda til þess að landsvæðið hafi verið notað í trúarlegum tilgangi og til greftrunar bæði fyrir og eftir kristnitöku; bæði heiðnir og kristnir hafi viljað hafa forfeður sína nálægt sér.”

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1884 skrifar Sigurður Vigfússon um “Rannsókn í Borgarfirði 1884”. Þar fjallar hann m.a. um Mosfell:

Hrísbrú“Þriðjudaginn, 2. sept., fór eg af stað úr Reykjavík, síðara hluta dags, og upp að Mosfelli, var þar um nóttina. Hér kemr stax til Egils s. Skallagrímssonar, og síðan til landnáms pórðar Skeggja. Þetta þurfti eg að athuga betr. Grímr Svertingsson bjó að Mosfelli víst mestallan siðara hluta 10. aldar, og fram yfir 1000. Hann var ættstór maðr og göfugr og lögsögumaðr um hríð ; hann átti Þórdísi Þórólfsdóttur Skallagrímssonar; þegar Egill seldi af höndum bú að borg, fór hann suðr til Mosfells til pórdisar bróðurdóttur sinnar og var þar i elli sinni og andaðist þar, og hér fal Egill fé og koma hér fram í sögunni ýmsar staðlegar lýsingar.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Síra Magnús heitinn Grímsson, sem var prestr á Mosfelli, hefir skrifað ritgerð um þetta efni, „Athugasemdir við Egils sögu” í Safni til sögu Íslands, Kaupmh. 1861, II. bl. 251—76. Ritgerð þessi er mikið fróðleg og skemmtilega skrifuð, og vel lýst mörgu landslagi á Mosfelli og þar í kring; þarf eg því ekki svo mjög að tala um það. Síra Magnús heldr, að bœrinn Mosfell hafi í fyrstu staðið þar sem Hrísbrú nú er, sem er lítilfjörlegt kot, skamt fyrir utan túnið á Mosfelli, og að Grímr Svertingsson hafi búið þar; hann ímyndar sér, að bœrinn hafi verið fluttr — líklega einhvern tíma fyrir miðja 12. öld — frá Hrísbrú og þangað sem hann nú stendr, og hafi þá nafnið flutzt á þenna nýja bœ, enn nafnið Hrísbrú verið gefið þeim stað, þar sem hið forna Mosfell stóð; meðal annars um þetta bls. 255 og 260—261. Allar þessar getgátur byggir höfundurinn einkannlega á því, sem stendr í Egils s. Reykjavíkr útg. um flutning á kirkju þeirri, er Grímr Svertingsson lét byggja að Mosfelli, eða sem stóð þar sem síðar hét á Hrísbrú, og flutt var síðar heim að bœnum. Eg get nú ekki vel fallizt á alt þetta.
Mosfell hefir snemma bygzt, sem eðlilegt er, því að uppi í Mosfellsdalnum hefir verið mjög byggilegt. Landn. segir, bls. 53 : „Fiðr enn auðgi Halldórsson, Högnasonar, fór úr Stafangri til Íslands; hann átti Þórvöru dóttur Þorbjarnar frá Mosfelli Hraðasonar; hann nam land” o.s.frv. Það má ætla, að bœrinn Mosfell hafi verið bygðr ekki miklu eftir 1000, þar sem landnámsmaðr átti dóttur Þorbjarnar, sem þar er fyrst getið, enn ekki sést það, hvort hann hefir fyrst bygt þar, svo að Mosfell getr verið enn eldra. Grímr Svertingsson að Mosfelli er oft nefndr, fyrst í Íslendingabók, og oft í Landnámu og Egils s. og ávalt er hann kallaðr „Grímr at Mosfelli”, þegar nefnt er, hvar hann hafi búið; Landn. mundi vissulega geta um það, hefði Mosfellsbœrinn fyrst staðið úti á Hrísbrú og það í hálfa þriðju öld, og síðan verið fluttr þangað, sem hann nú er.

Mosfell

Mosfell – Kýrgil fjær.

Öllum handritum ber saman um, að við þenna kirkjuflutning á Mosfelli hafi verið staddr Skafti prestr Þórarinsson, og öllum ber þeim líka saman um, að kirkjan, sem var ofan tekin, hafi verið sú kirkja, er Grímr Svertingsson lét byggja; þar af er þá ljóst, að kirkja Gríms hefir þá enn staðið, og hefir hún þá orðið um 150 ára gömul. Það má finna mörg dæmi þess, hvað hús stóðu ákaflega lengi bæði í fornöld og á miðöldunum. Þetta er og eðlilegt, þvíað annaðhvort bygðu menn af rekaviði, sem endist svo lengi, eins og kunnugt er, eða menn gátu valið viðinn í Noregi, þ.e. sóttu hann þangað ; þá voru ekki mjög sparaðir skógarnir ; menn bygðu og sterkt, þegar menn vildu vanda eitthvert hús. Það sýna þær leifar, sem bæði eg og aðrir hafa séð, og eins má sýna viðargœðin.

Kýrgil

Tóft ofan við Kýrgil.

Eg hefi verið nokkuð langorðr um þetta efni, því að mér þótti þess þurfa sögunnar vegna, og mætti þó fleira tilfœra; enn eg skal vera því stuttorðari um, hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og lofa einum sem öðrum að hafa sínar ímyndanir, getgátur og munnmælasögur. Þær geta verið mikið góðar, þar sem þær eiga heima, enn eg er þeirrar meiningar, að ekki verði á þeim bygt, þegar um rannsókn er að rœða. Höfundar Egils s. vita sjálfir einu sinni ekki, hvar Egill muni hafa fólgið féð, og vóru þeir þó nær því enn vér; enn þess er ekki von, því að Egill sagði það engum manni.
Sá, sem ritað hefir það handrit, sem liggr til grundvallar fyrir Kh.útg.=Rv.útg., getr til á þremr stöðum bls. 228. Eg skal geta þess hér, að hvorki Hrappseyjarútg. né handr. geta neitt um það, þegar Egill ætlaði að sá silfrinu að lögbergi; þau sleppa alveg þeim kafla ; eg verð að taka hér þenna stað einungis til þess að sýna, hvað öllu er hér rétt lýst, og sem sýnir hvað ritari sðgunnar hefir verið kunnugr, bls. 227—8: „Þat var eitt kveld, er menn bjuggust til rekkna at Mosfelli, at Egill kallaði til sín þræla tvá, er Grímr átti. Hann bað þá taka sér hest. „Vil ek fara til laugar, ok skulu þér fara með mér”, segir hann. Ok er Egill var búinn, gekk hann út ok hafði með sér silfrkistur sínar. Hann steig á hest.
Fóru þeir síðan ofan eptir túninu, ok fyrir brekku þá, er þar verðr,er menn sá síðast. En um morguninn, er menn risu upp, þá sjá þeir, at Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan garð, ok leiddi eptir sér hestinn. Fara þeir þá til hans og fluttu hann heim. En hvártki komu aptr síðan þrælarnir né kisturnar, ok eru þar margar getur at, hvar Egill hafi fólgið fé sitt.”

Skv. framansögðu hafa margir ætlað, með allskyns margflóknum ályktunum að Egill hafi falið silfur sitt í nágrenninu og drepið þrælana tvo, en fáir virðast hins vegar gera ráð fyrir þeim möguleika, sem eðlilegri má telja; að þrælarnir (yngri og betur á sig komnir) hafi áttað sig á aðstæðum, stolið silfrinu, hrakið gamla manninn frá með svo niðurlægjandi hætti að hann hafi ekki viljað viðurkenna mistök sín, og þeir síðan látið sig hverfa með allt heila klabbið, bæði fjársjóðinn og farskjótana. A.m.k. virðist enginn hafa haft rænu á að leita, hvorki farskjótana þriggja og þrælanna í framhaldinu. Nýlega teknar grafir eða önnur ummerki í og með Mosfelli hefðu án efa vakið alveg sérstaka athygli á þeim tíma – ekki síst í ljósi þessa merka atburðar; (ályktun ritstjóra FERLIRs). Hvers vegna fór ekki fram rannsókn í framhaldinu, eða a.m.k. athugun, á atburðinum. Gallinn við frásagnar”sérfræðinga” seinni tíma er að þeir voru svo meðvirkir sagnaskýringunum fyrrum að þeir sáu ekki til sólar. Meðaumkunin var öll Egils. Hér virðist vera um eitt merkilegasta óleysta sakamál Íslandssögunnar að ræða.

Hrísbrú

Ólafur Magnússon, bóndi á Hrísbrú.

Merkisbóndinn Ólafur Magnússon og Finnbjörg, eiginkona hans, bjuggu á Hrísbrú. Ólafur barðist hatramlega gegn niðurrifi kirkjunnar að Mosfelli, eins og fyrr er getið, en varð að lúta í lægra haldi fyrir yfirvöldum árið 1888. Hann tók gömlu klukkuna úr kirkjunni til varðveislu og var hún geymd á Hrísbrú í meira en mannsaldur eða þangað til henni var komið fyrir í Mosfellskirkju sem vígð var árið 1965.
Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli lýsir Hrísbrúarhjónunum þannig í endurminningum sínum: „Hvergi í Mosfellsdal hafði ég meira gaman af að koma en að Hrísbrú. Hjónin þar hétu Ólafur og Finnbjörg, kona roskin. Fyrst í stað voru þau nokkuð gróf og forneskjuleg, en glöð og gestrisin, þegar marka mátti. Það var ánægjulegt að bíða þar, meðan Finnbjörg hitaði ketilinn, og hlusta á Ólaf gamla. Var þá jafnan tilfyndnast það sem húsmóðirin lagði til málanna. Ekki var orðræðan hefluð né blíð, heldur oft stóryrt og krydduð velvöldum fornyrðum, stundum klúr.”
Ólafur og Finnbjörg voru hluti af aðalsögupersónum í bók Halldórs Laxness, Innansveitarkróniku.
Myndin af Ólafi er líklega tekin í kaupstaðaferð í Reykjavík kringum aldamótin 1900. Ekki er vitað til að mynd hafi varðveist af Finnbjörgu.

Heimild:
-Mosfellingur, Kirkjan á Hrísbrú, 12. tbl. 08.09.2006, Kristinn Magnússon, bls. 10.
-Mosfellingur, 10. tbl. 19.08.2005, Fornleifauppgröfturinn að Hrísbrú, bls. 12-13.
-Ólafía; rit Fornleifafræðingafélags Íslands, 2. árg. 01.05.2007, Valdamiðstöð í Mosfellssdal – Rannsóknir á fornleifum frá tímum víkinga að Hrísbrú að Mosfelli, bls. 84-105.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1884, Rannsókn í Borgarfirði 1884, Sigurður Vigfússon, Mosfell, bls. 62-74.
-http://www.hermos.is/forsida/frettir/frett/2017/09/25/Olafur-Magnusson-1831-1915-fra-Hrisbru/

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.