Minna-Mosfellssel

Hér verður lýst leifum tveggja selja: Litla-Mosfellssels og Hrísbrúarsels, en þau eru bæði norðan Mosfells, sunnan Leirvogsáar.

Litla-Mosfellssel
Litla-Mosfellssel-501„Stóra- og Litla-Sveinamýri eru neðarlega við Leirvogsá. Þar er allmikið flæmi öðru nafni nefnt Selflatir. Selás er við Sveinamýrar“ (Ari Gíslason). Gróðurlítill ás á syðri bakka Leirvogsár, sem liggur ca. í A-V. Norðurhluti hans er allgrýttur og vaxinn mosa. Svæðið milli ássins og fjallsins er þýft mýrlendi (Ágúst Ó. Georgsson).
(I) Rústin stendur á lágum hól, sem sker sig nokkuð úr umhverfinu. Hóllinn er talsvert þýfður og grasi vaxinn. Norðan hans rennur Leirvogsá um 30-40 m í þá átt. Hóllinn er á mörkum graslendis og grýtts mosavaxins svæðis. Tóftin er um 2,5 x 4,5 m að innanmáli. Veggjaþykkt er 1-1,5 m. Hæð veggja er víðast um 0,4 m, nema NV-veggur, sem er um 0,7 m. Við NV-gafl á suðurlangvegg eru dyr en tóftin skiptist í tvo hluta.
Litla-Mosfellssel-503Magnús Grímsson, prestur á Mosfelli (d. 1865), segir að á þessum ás hafi staðið selrúst. Skrásetjari gekk um allan ásinn og víðar þarna í nágrenninu. Var þetta eina rústin, sem fannst á eða við ásinn. Kemur lýsing Magnúsar, hvað staðsetningu varðar, vel heim og saman. Hús þetta hefur byggt verið úr torfi og grjóti (Ágúst Ó. Georgsson). Einar Björnsson, Litla-Landi og Guðmundur Þorláksson, Seljabrekku, vissu um þessar rústir. Telja þeir, að um selrústir sé að ræða. Eru þær beint niður undan s.k. Gatkletti, sem er austan í Mosfelli og sést greinilega frá veginum sem liggur norðan við Leirvogsá. Ekki hafa þeir heyrt sagnir um, hvaða sel þetta hafi átt að vera.

Litla-Mosfellssel

Litla-Mosfellssel – uppdráttur ÓSÁ.

„Stóra- og Litla-Sveinamýri eru neðarlega við Leirvogsá. Þar er allmikið flæmi öðru nafni nefnt Selflatir. Selás er við Sveinamýrar“ (Ari Gíslason). Gróðurlítill ás á syðri bakka Leirvogsár, sem liggur ca í A-V. Norðurhluti hans er allgrýttur og mosavaxinn. Svæðið milli ássins og fjallsins er þýft mýrlendi (Ágúst Ó. Georgsson).
(II) Um 100 m SA við [123716-240-16] er annar hóll og á honum eru tvær rústir. Önnur rústin er án efa af kvíum. Er hún grafin niður í hólinn en veggir eru úr grjóti. Innanmál eru um 2 x 5 m. Fast við er hústóft og er hún staðsett þannig að bakgafl (suðurgafl) hefur þjónað sem aðrekstrarveggur. Innanmál eru um 2 x 3 m. Veggjaþykkt er ca 1 m og veggjahæð um 0,5 m og hæð ca. 0,7 m (dýpt).

Hrisbruarsel-501

Má láta sér detta í hug að húsið, sem fjær er, hafi verið íveruhús eða svefnskáli (Ágúst Ó. Georgsson). Rúst I [123716-240-16] og II virðast álíka gamlar að sjá. Þó svo langt sé á milli þeirra (um 100 m) má vel ætla að þær eigi saman. Um 100 m norðan við þessar rústir rennur Leirvogsá. Ekki skal fullyrt frá hvaða bæ sel þetta var notað, en líklega hefur það verið Mosfell (Ágúst Ó. Georgsson). Einar Björnsson, Litla-Landi og Guðmundur Þorláksson, Seljabrekku, vissu um þessar rústir. Telja þeir, að um selrústir sé að ræða. Eru þær beint niður undan s.k. Gatkletti, sem er austan í Mosfelli og sést greinilega frá veginum, sem liggur norðan við Leirvogsá. Ekki hafa þeir heyrt sagnir um, hvaða sel þetta hafi átt að vera.

Hrísbrúarsel
SvinaskardsvegurÍ heimild frá árinu 1704 segir: „Selstöðu á jörðin í heimalandi. Landþröng er ef ei er brúkuð selstaða“ (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 325-326). Í Örnefnalýsingu Hrísbrúar er getið um sel: „Að norðanverðu meðfram frá merkjum heita fyrst Selflatir. Þær munu hafa tilheyrt selinu í gamla daga. Þetta eru fallegar flatir, af sumum nefndar Blómsturvelli“ (Ari Gíslason).
Lítil kvos, öll grasi vaxin og áberandi græn. Sker sig þannig vel frá umhverfinu. Hvammur þessi er um 30 m breiður. Hér er um eina rúst að ræða sem telja má nokkurn veginn örugga. Stærð hennar að innan er um 2 x 4 m. Dyr hafa verið á miðjum vestur langvegg. Tóft þessi er að hluta grafin inn í brekkuna, sem er á bakvið (austanvið). Veggir eru útflattir og breiðir. Hæðin er ca. 0,5 m en þykktin ca 1-2 m. Við hlið þessarar rústar að norðan mótar fyrir einhverju, sem verið gæti önnur tóft. Sé hér um tóft að ræða, hefur hún verið um 2 x 2-3 m að innanmáli. Þessi „tóft“ er samsíða fyrst töldu rústinni og hefur haft dyr móti vestri. Sunnan við fyrstnefnda rúst mótar ógreinilega fyrir einhverju, sem verið gæti tóft. Sé svo hefur hún verið að innanmáli um 2 x 2-3 m. Inngangur hefur að líkindum verið á móti vestri. Um 8 m vestan við síðasttöldu rúst er eitthvað. Hér gæti verið um einhver mannaverk að ræða. Þarna virðist hafa verið grafið ofan í brekku, sem hallar lítið eitt til norðurs. Stærð þessa er um 3,5 x 5 m, dýptin um 0,5 m, opin til norðurs, en fyrir framan opið er nokkurn veginn slétt flöt. Allar þessar rústir eru fornlegar að sjá. E.t.v. gætu þetta verið selsrústir frá Hrísbrú (sbr. skrá um menningarminjar bls. 65). Niðurgrafna tóftin hefur þá verið kvíar en hinar selið (Ágúst Ó. Georgsson).
Munnmæli: Guðmundur Þorláksson, bóndi Seljabrekku, sagði 25.7.1980:
Hrisbruarsel-502Við sunnanverða Leirvogsá, á móts við bæinn Gröf er holt eða hæð. Kveðst Guðmundur hafa séð einhverjar rústir þar. Líklega er um seljarústir að ræða en gæti þó verið stekkur. Skoðaði hann þetta ekkert nánar, heldur sá rústirnar úr fjarlægð. Á herforingjaráðskortinu danska er svæði þarna rétt hjá kallað Sveinamýri. Sagt er að svæðið sem rústirnar eru á kallist Selflatir. Ágúst Ó. Georgsson merkti Selflatir inn á ljósrit af 1:50000 korti, skv. tilsögn Guðmundar Skarphéðinssonar, bónda á Hrísbrú. Ber þeim Guðmundum saman um hvar Selflatir hafi verið. Rústin er sem sagt norðan við Mosfell (fjallið), nálægt ánni (Leirvogsá) og á móts við bæinn Gröf í Kjalarneshreppi.”
Leifar einnar selstöðu enn eru norðan Mosfells, líklega einnig forn selstaða frá Hrísbrú (sjá síðar).

Heimildir:
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006.
-Agnes Stefánsdóttir, Rúna K. Tetzschner, Guðmundur Ólafsson, Ágúst Ó. Georgsson, Kristinn Magnússon og Bjarni F. Einarsson. Reykjavík 2006 – Þjóðminjasafn Íslands.

Heimildaskrá:
-Ari Gíslason. Minna-Mosfell. Örnefnastofnun Íslands. ópr.
-Ari Gíslason. Hrísbrú. Örnefnastofnun Íslands. ópr.
-Ágúst Ó. Georgsson. Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980-1982. Skráningarbók 1604.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III. Gefin út af hinu íslenzka fræðafélagi í Kaupmannahöfn. Kaupmannahöfn 1923-1924.

Munnlegar heimildir:
-Einar Björnsson, bóndi Litla-Landi.
-Guðmundur Þorláksson, bóndi Seljabrekku.

Egilssaga

Safn til Sögu Íslands og ísl. bókmennta (athugas. við Egils Sögu) , bls. 272.