Selrústirnar selsins frá Hrísbrú er norðan undir austanverðu Mosfelli, á milli Mosfells og Leirvogsár. Í örnefnaskrá Minna-Mosfells segir m.a.: ” Neðar við Leirvogsá [ norðan Mosfells] heita mýrarnar Stóra-Sveinamýri og Litla-Sveinamýri. Það er allmikið flæmi öðru nafni nefnt Selflatir.”
Í örnefnaskrá fyrir Mosfell segir auk þess: ”Merkin móti Minna-Mosfelli eru varða austast á Selás”, sem þá hlýtur að vera norður undir Leirvogsá … . “Meðfram ánni heita Sveinamýrar…. . Ketilhylur [í Leirvogsá]. Þar vestur við er mói nefndur Sel og Ketilvellir er smáhóldrag, sem selið stendur í.” Þetta með Ketilhylinn er líklega eitthvað málum blandið því í riti E.J. Stardals (sérprentun F.Í. 1985) segir m.a.: ”Örskammt neðan við Ketilhyl liggur annað gljúfur niður að Tröllagljúfrum sem heita Rauðhólsgil.”. Þetta passar nú ekki alveg landfræðilega séð nema að tveir Ketilhyljir séu í Leirvogsá með stuttu millibili? Ósennilegt er það þó! Á veiðikorti yfir Leirvogsá 1989 er Ketilhylur skammt fyrir neðan Tröllafoss, neðst í gljúfrunum.
Selsrústirnar eru ógreinilegar, orðnar nær jarðlægar, en þó má vel áætla þær. Stekkurinn, ílangur, er ofar í hlíðinni.
Samkvæmt Jarðabókina, með tilliti til framangreindrar staðsetningar, er einna líklegast að þetta sé selstaða frá Hrísbrú þó hún sé núna í Mosfellslandi eða fast á mörkum. Í jarðabókinni segir um Hrísbrú: ”Selstöðu á jörðin í heimalandi.” Mosfell á selstöðu “undir Grímarsfelli” og þá er mjög líklega átt við Helgusel. Svo hefur einnig verið um Jónssel við Jónsselslæk og Mosfellssel undir Illaklifi suðaustan við Leirvogsvatn. Einnig eru selstóftir við Geldingatjörn, sem enn eru ókannaðar, sbr. hér á eftir.
Helgusel er í Helguhvammi austan við Köldukvísl skammtofan við Hrafnaklett. Sjá má hinn fallega Helgufoss í suður af selinu (sjá aðra
FERLIRslýsingu). Í fyrstu virðist þar ekki raunveruleg selstaða því svo landþröngt er þarna. Hringlaga fjárborg er vestan við selið, líklega frá svipuðum tíma og selrústirnar. Eitthvað er þetta þó sem passar ekki inn í heildarmyndina af fjárborgum á svæðinu yfirhöfuð, en það skýrsit væntanlega við nánari skoðun. Spurning er og hver átti selstöðuna austan Leirvogsvatns því sagt er að hún hafi verið frá Mosfelli. Ef svo er, þá spurning á hvaða tíma hvor þessarra selstaða var?
Nafn Hrísbrúar er á vegskilti í Mosfellsdal, á vinstri hönd þegar ekið er austur Þingvallaveg. Sumir myndu vilja velta vöngum yfir hvar nefnd Hrísbrú hafi staðið. Eftirfarandi frásögn í bæjarblaðinu Mosfellingi ætti að geta varpað svolitlu ljósi á það: “Margir hafa velt vöngum um afdrif beina Egils. Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert. Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar. Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu Mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“
Um það hvort framangreinst sel geti verið allt að því frá tímum Egils Skallagrímssonar, eða jafnvel eldra, skal ekkert um sagt hér, en þó er ljóst að allt of fá sel hér á landi hafa verið rannsökuð m.t.t. aldursgreininga. Telja má víst að selstöður hafa verið hér á landi allt frá því að fyrstu menn með bústofn er settust hér að.
Markúsarsel er nefnt í örnefnaskrá Seljabrekku. Rústirnar standa NA við Leirtjörn, skammt ofan við tjörnina. Slóði liggur frá norðanverðum Þingvallavegi, skammt austan gatnamótanna að Selholti og Selvangi (Hrafnhólum) að sumarbústað sunnan við tjörnina. Merkileg og stór varða er á Skyggni skammt þarna norðan við. Varðan er í landi Skeggjastaða því í merkjalýsingu Mosfellsheiðar í landamerkjabréfi Stóra Mosfells frá árinu 1890 segir m.a. um landamerkin: “Þaðan í Sýlingarstein austan til á Skógarbringum og er hann hornmark milli Laxness og Skeggjastaða.” Sýklingarsteinninn er skammt ofan við Selholt, nokkru vestan Leirtjarnar.
Skammt sunnar (30-50 m) mótar fyrir stekk eða einhverju slíku. Hann er þó helst til langt í burtu frá tóftunum miðað við hefðina.
Vestan við selið hefur grasi vaxið kargaþýfi verið ræst fram og raskað. Ekki er ólíklegt að stekkurinn hafi verið þar því jafnan er vel gróið í kringum mannvirki sem það, auk þess sem stutt hefur þá verið í vatn.
Langa tóftin í Markúsarseli (10 m) er líklega nýrri tíma fjárhús (langhöluhús, fyrstu fjárhús sem byggð voru á landinu) svipað því sem er við og ofan skógræktina við Rauðavatn, en á því er eins og heytóft aftan við en hins vegar ekki við þessa.
Ekki er fyllilega ljóst hvaðan Markúsarsel við Leirtjörn gæti verið. Ekki er útilokað að upplýsingar um það kunni að leynast einhvers staðar í fornleifaskrá fyrir sveitina.
Í athugasemdum Guðmundar Þorlákssonar bónda í Stardal við handrit Ara Gíslasonar, sem borið var undir hann 23/ 8 1968, kemur m.a. fram að “graslendið sunnan Langahryggjar og upp af Leirtjörn heiti Markúsarsel og eru þar gamlar húsatættur. Sagnir eru um, að þar hafi verið búið á fyrra hluta síðustu aldar.” Fróðlegt væri að fá nánari fregnir af þeirri búsetu, ekki síst fyrir ástæðu hennar. Heillegt og reglulegt Markúsarselið gæti hafa mótast af þeirri búsetu, enda ekki keimlíkt öðrum seljum á þessu svæði, sem telja má forn. Líklegt þykir þó að selin í Mosfellsheiði, ólíkt því sem gerðist á Reykjanesskaganum, hafi sum hver byggst upp sem kot eftir að selstöður lögðust af á þessu svæði er líða tók á 19. öldina. Sum seljanna gætu hafa verið í notkun í ákveðin tíma, en síðan annað hvort verið lögð af, endurbyggð eða færð annað. Þannig gæti t.d. Helgusel og Mosfellssel hafa verið frá Mosfelli, en á sitt hvoru tímaskeiði. Af ummerkjum í Mosfellsseli undir Illaklifi að dæma virðist það nokkuð “nýlegt” af seli að vera. Þó stangast það á við aðrar kenningar um að selstöður hafi í fyrstu verið sem næst landamörkum (m.a. til að nýta beitarlandið sem best og tryggja vitund annarra um mörkin), en færst nær bæjum þegar fólki tók að fækka og ræktun heimavið hafði verið orðin notadrjúgri.
Ábúandinn í Seljabrekku benti FERLIRsfélögum á Markúsarsel þegar svæðið var gaumgæft, auk Jónssels og óþekkts sels við Geldingatjörn.Heimild m.a.:
-Óbyggðanefnd.
-Mosfellingur – 10. tbl. 4. árg. föstudagur 19. ágúst 2005.
-Örnefnaskrá fyrir Minna-Mosfell.
-Örnefnaskrá fyrir Mosfell.