Reykjanes

Í grein í Faxa árið 2008 skrifar Leó M. Jónsson um “Ökuferð um Hafnahrepp” og getur þar um skilgreininguna á “Hinu raunverulega Reykjanesi“, sem er að öllu leyti rétt, bæði skv. örnefnalýsingum og kortum fyrri tíðar:

Hið raunverulega Reykjanes

Leó M. Jónsson

Leó M. Jónsson.

Þegar haldið er lengra suður eftir veginum er komið á hæð þar sem vegurinn sveigir til austurs. Beint af augum er gamalt eldfjall, Sýrfell, en á milli þess og Reykjanessvita, sem stendur á hinu 50 m háa Vatnsfelli, í suðvestri, en fellið heitir eftir stórri tjörn sem er við það. Vitinn er 28 m a hæð og því 78 m yfir sjávarmáli. Mannvirkin norðvestan við Rauðhóla er Sjóefnavinnslan (oft ranglega nefnd Saltverksmiðjan). Einnig blasir við nýreist Reykjanesvirkjun. Hér blasir hið raunverulega Reykjanes við augum sem Reykjanesskaginn er kenndur við. Sérkennilegi hnjúkurinn með u-laga skarði í, sem sést héðan vestan vitans, nefnist Valahnjúkur. Lengst til hægri sést strýtan á móbergsdrangi sem nefnist Karl en hann stendur í sjónum skammt suður af vestasta tanga Reykjanessins sem nefnist Önglabrjótsnef og teygir sig út í sjóinn í átt til Eldeyjar. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling, sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leiða til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.”

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.2008, Ökuferð um Hafnahrepp, Leó M. Jónsson, bls. 9.

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1908.