Í tveimur örnefnalýsingum fyrir Hraun í Grindavík má m.a. sjá örnefnið “Geldingadalir“. Fyrri lýsingin er höfð eftir heimildarmönnunum Gísla Hafliðasyni, bónda á Hrauni, og Guðmundi Guðmundssyni, bóndi á Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði:
“Norður frá Langahrygg og Borgarfjalli er hækkandi allmikið fjall, hið stærsta að flatarmáli á þessum slóðum. Á því og í sambandi við það er þegar komið nokkuð af nöfnum, og verður nú tekið meira af því. Sunnan undir Meradölum, sem fyrr var getið og norðan Langahryggs, er Stórihrútur. Sunnan hans er Langihryggur hæstur, og þar austur af, á norðurenda Einihlíða, er Litlihrútur.
Lægð þar norðar heitir Einihlíðarsandur. Langihryggur nær að Stóra-Leirdal, en Einihlíðar ná að Litla-Leirdal Litlihrútur er grjótmóaþúfa. Einihlíðarnar eru talsvert grónar. Eins og fyrr segir, er vinkillinn vestur af Borgarfjalli nefndur Nátthagakriki. Þar upp af í fjallinu er grasflöt, sem heitir Selskál. Sunnan undir henni á sléttunni er nokkuð stór melhóll, sem heitir Einbúi og fyrr er getið. Þar upp af er Mátthagaskarð. Á austanverðu Fagradalsfjalli er hóll, sem heitir Stórhóll, rétt vestur af Nátthagaskarði. Norður af honum er laut og svo djúpir dalir með grasflöt, nefndir Geldingadalir. Þar er þúst á flöt, og er sagt, að þar sé Ísólfur á Skála grafinn. Vildi hann vera grafinn, þar sem geldingarnir hans hefðu það bezt. Norður af þeim er hnúkur, hæsta hæðin á fjallinu, og heitir þar Langhóll. Vestasti hluti fjallsins er nefndur Kast. Þar norður með hlíðinni, allhátt, eru grasgeirar nefndir Fremstidalur, Miðdalur og Innstidalur. Þetta eru ekki raunverulegir dalir, heldur brekkur og kvosir.”
Framangreind dys Ísólfs var hraunhóll í miðjum vestasta dalnum, en hún er nú horfin undir hraun.
Síðari lýsingin er skráð af Lofti Jónssyni í Grindavík:
“Austan undir Borgarfjalli og á milli þess og Langahryggs er Nátthagi. Þetta er nokkuð breitt skarð á milli fjallanna og við suðurenda þess er Drykkjarsteinsdalur. Austan undir Fagradalsfjalli og norðan við Nátthagaskarð og í austur frá Stórhól er smáás og heitir Nátthagaskarð. Þar norður af eru Geldingadalir. Smádalkvosir grónar nokkuð. Þar er sagt að Ísólfur, fyrsti ábúandi á Ísólfsskála, sé grafinn og hafi hann viljað láta grafa sig þar sem geldingarnir hans höfðu það best.
Norðaustur frá Langhól er lítið fell fast við Fagradalsfjall sem heitir Kálffell. Norð-norðaustur af Langahrygg er Stóri-Hrútur og síðan þar norður af Meradalir. Þetta eru gróðurlitlar leirflatir. Þar norður af eru Meradalshlíðar og vestur frá þeim er Kistufell í austur frá Langhól. Norður af Meradalshlíðum er Litli-Hrútur og þar norður af er Litli-Keilir.
Þaðan í norðaustur er Keilir, alþekkt fjall. Austan undir Kistufelli er smáhryggur sem nefndur er Rjúpnahryggur. Þarna eru víðast hraun á milli fjallanna og örnefnalaust.”
Rétt er að geta þess, að gefnu tilefni, þótt örnefnið “Geldingadalir” hafi verið skráð er þar um að ræða þrjár samliggjandi dalkvosir í Fagradalsfjalli, milli Langhóls og Langahryggs. Eldgos það, sem flestir virðast hafa áhuga á um þessar mundir, er einungis ofan við eina kvosina og því er ekki úr hæfi að nefna hana Geldingadal. Réttnefni á nýja hrauninu, til heiðurs dys Ísólfs af Skála, sem nú er endanlega horfin undir það, væri því “Geldingadalshraun” eða “Geldingahraun”.
Sjá ýmsar MYNDIR af eldgosinu í Geldingadal.
HÉR má sjá eitt streymið af mörgum af eldgosinu….