Færslur

Sigurður Gíslason

Eftirfarandi er upprifjun, að gefnu tilefni, úr fyrrum FERLIRsferð frá Hrauni í Grindavík og nágrenni:

Hraun

Hraun – Gamli brunnur.

FERLIR gekk um sunnanverð Suðurnes s.l. laugardag. Tekið var hús á fjölfróðum merkismanni, Sigurði Gíslasyni, bónda á Hrauni austan Grindavíkur. Leiddi hann hópinn og sýndi honum m.a. fallega tilhöggvin stein, sem gæti verið forn skírnarfontur úr gömlu bænahúsi eða kirkju, sem hafði staðið þar skammt frá og getið er um í gömlum heimildum.

Hraun

Hraun – fontur.

Fonturinn er hinn merkilegasti gripur. Hann kom upp þegar verið var að grafa utan í fjárhús fyrir nokkrum misserum, en aftan þeirra átti bænahúsið að hafa staðið fyrrum. Fyrir stuttu var fonturinn síðan sóttur í gröftinn og komið á tryggari stað. Sigurður sýndi hópnum auk þess fallega hlaðinn brunn, Gamlabrunn, á söndunum ofan Hrólfsvíkur, en þangað sóttu íbúar Þórkötlustaða vatn á 19. og á framanverðri 20. öld. Brunnurinn hefur fallið í gleymsku og virðast fáir vita af tilvist hans nú orðið. Skammt austar er Kapellulág, en þar undir sandinum er kapella frá því á 15. öld, ein af gersemum svæðisins. Þá benti Sigurður á forna dys á hól vestan Hrauns, en í hana hafði Kristján Eldjárn áhuga að grafa, en entist ekki aldur til.

Hraun

Refagildra við Hraun. Sigurður Gíslason ásamt Sesselju Guðmundsdóttur.

Loks var skoðuð gömlu hlaðin krossrefagildra, líklega sú eina á landinu, svo vitað sé.
Sigurður sýndi hleðslur ofan Húsfells, sem og opin á “Tyrkjahellinum” á Efri-Hjalla.

Geldingadalur

Í Geldingadal – Dys Ísólfs.

Þá var gengið að Drykkjarsteini í Drykkjarsteinsdal, en hann stendur við gamla Sandakraveginn (Krýsuvíkurleiðina) þar sem hann liggur á bak við Slögu að Méltunnuklifi og áfram austur úr til Krýsuvíkur.

Krýsuvíkurleið

Krýsuvíkurleið.

Gatan (leiðin) er mjög greinileg. Hún var gerð ofan í vagnveginn, sem lagður var millum Ísólfsskála og Krýsuvíkur 1923 um  hinn forna Ögmundarstíg.
Þaðan var gengið um Nátthaga, upp skarðið og yfir að Stórahrút og að ofanverðum Merardölum. Þar var beygt yfir í Geldingadal og litið á dys Ísólfs gamla á Skála, en sagan segir að hann hafi látið dysja sig í dalnum þar sem sauðir hans undur hags sínum svo vel.

Borgarhraun

Borgarhraun – stekkur.

Gengið var auðveldlega upp úr dalnum að vestanverðu og þá komið niður í Selskál norðan Borgarfjalls, en í skálinni er talið að Ísólfsskálasel hafi verið. Engar tættur er þó þar, enda landeyðing þarna mikil í seinni tíð. Skammt vestar er stekkur í hraunkanti Borgarhrauns. Líklegt er að selstaðan hafi þar verið og þá heimasel.

Neðan Einbúa var komið að gömlu leiðinni norður að Stóra-Skógfelli, en við hana er gamalt hlaðið aðhald. Við það er hlaðið lítið skjól. Skammt vestan þess má sjá gamalt fallega staðsett refabyrgi og enn vestar, undir hraunhrygg, er forn stekkur. Þar við gæti hafa verið heimaselstaða til einhvers tíma.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Sunnar er hlaðna Ísólfsskálaréttin (Borgarhraunsréttin) og Borgin forna (Viðeyjarborg) í Borgarhrauni, en hún gæti jafnvel verið frá þeim tíma er Viðeyjarklaustur nýtti staðinn því til handa.
Eins og sjá má er Reykjanesskaginn fjölbreytileg útivistarparadís – og það við hver fótmál. Stutt er í alla áhugaverða og fallegu staðina, hvort sem þeir tengjast merkilegum náttúrufyrirbrigðum, minjum eða sögu.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Geldingadalur

Í tveimur örnefnalýsingum fyrir Hraun í Grindavík má m.a. sjá örnefnið “Geldingadalir“. Fyrri lýsingin er höfð eftir heimildarmönnunum Gísla Hafliðasyni, bónda á Hrauni, og Guðmundi Guðmundssyni, bóndi á Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði:

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli. Merardalir nær.

“Norður frá Langahrygg og Borgarfjalli er hækkandi allmikið fjall, hið stærsta að flatarmáli á þessum slóðum. Á því og í sambandi við það er þegar komið nokkuð af nöfnum, og verður nú tekið meira af því. Sunnan undir Meradölum, sem fyrr var getið og norðan Langahryggs, er Stórihrútur. Sunnan hans er Langihryggur hæstur, og þar austur af, á norðurenda Einihlíða, er Litlihrútur.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni.

Lægð þar norðar heitir Einihlíðarsandur. Langihryggur nær að Stóra-Leirdal, en Einihlíðar ná að Litla-Leirdal Litlihrútur er grjótmóaþúfa. Einihlíðarnar eru talsvert grónar. Eins og fyrr segir, er vinkillinn vestur af Borgarfjalli nefndur Nátthagakriki. Þar upp af í fjallinu er grasflöt, sem heitir Selskál. Sunnan undir henni á sléttunni er nokkuð stór melhóll, sem heitir Einbúi og fyrr er getið. Þar upp af er Mátthagaskarð. Á austanverðu Fagradalsfjalli er hóll, sem heitir Stórhóll, rétt vestur af Nátthagaskarði. Norður af honum er laut og svo djúpir dalir með grasflöt, nefndir Geldingadalir. Þar er þúst á flöt, og er sagt, að þar sé Ísólfur á Skála grafinn. Vildi hann vera grafinn, þar sem geldingarnir hans hefðu það bezt. Norður af þeim er hnúkur, hæsta hæðin á fjallinu, og heitir þar Langhóll. Vestasti hluti fjallsins er nefndur Kast. Þar norður með hlíðinni, allhátt, eru grasgeirar nefndir Fremstidalur, Miðdalur og Innstidalur. Þetta eru ekki raunverulegir dalir, heldur brekkur og kvosir.”
Framangreind dys Ísólfs var hraunhóll í miðjum vestasta dalnum, en hún er nú horfin undir hraun.

Síðari lýsingin er skráð af Lofti Jónssyni í Grindavík:

Fagradalsfjall

Merardalafjall og Merardalir. Stóri-Hrútur t.h.

“Austan undir Borgarfjalli og á milli þess og Langahryggs er Nátthagi. Þetta er nokkuð breitt skarð á milli fjallanna og við suðurenda þess er Drykkjarsteinsdalur. Austan undir Fagradalsfjalli og norðan við Nátthagaskarð og í austur frá Stórhól er smáás og heitir Nátthagaskarð. Þar norður af eru Geldingadalir. Smádalkvosir grónar nokkuð. Þar er sagt að Ísólfur, fyrsti ábúandi á Ísólfsskála, sé grafinn og hafi hann viljað láta grafa sig þar sem geldingarnir hans höfðu það best.

Geldingadalur

Geldingadalur fyrir gosið 2021.

Norðaustur frá Langhól er lítið fell fast við Fagradalsfjall sem heitir Kálffell. Norð-norðaustur af Langahrygg er Stóri-Hrútur og síðan þar norður af Meradalir. Þetta eru gróðurlitlar leirflatir. Þar norður af eru Meradalshlíðar og vestur frá þeim er Kistufell í austur frá Langhól. Norður af Meradalshlíðum er Litli-Hrútur og þar norður af er Litli-Keilir.
Þaðan í norðaustur er Keilir, alþekkt fjall. Austan undir Kistufelli er smáhryggur sem nefndur er Rjúpnahryggur. Þarna eru víðast hraun á milli fjallanna og örnefnalaust.”

Rétt er að geta þess, að gefnu tilefni, þótt örnefnið “Geldingadalir” hafi verið skráð er þar um að ræða þrjár samliggjandi dalkvosir í Fagradalsfjalli, milli Langhóls og Langahryggs. Eldgos það, sem flestir virðast hafa áhuga á um þessar mundir, er einungis ofan við eina kvosina og því er ekki úr hæfi að nefna hana Geldingadal. Réttnefni á nýja hrauninu, til heiðurs dys Ísólfs af Skála, sem nú er endanlega horfin undir það, væri því “Geldingadalshraun” eða “Geldingahraun”.

Sjá ýmsar MYNDIR af eldgosinu í Geldingadal.

HÉR má sjá eitt streymið af mörgum af eldgosinu….

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall. Nauthólar nær.

Geldingadalur

Fjallað er um örnefnið “Meradali” á Vísindavefnum:

Hraun

Hraun – Festarfjall (t.v.) og Lyngfell (t.h.).

“Í landi Hrauns austan við Grindavík, í fjalllendinu austan við hina heimsfrægu Geldingadali, er djúp dalkvos sem ber heitið Meradalir. Þegar þetta er ritað er hraun tekið að renna þangað eftir að nýjar gossprungur mynduðust norðaustan við Geldingadali. Hvorugir dalanna eru raunar miklir dalir eins og heitið gæti bent til en tekið fram í örnefnalýsingu Hrauns að hugtakið sé hér einnig notað um brekkur og kvosir.

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Meradölum hefur verið lýst sem „gróðurlitlum leirflötum“ og sennilegt að þar hafi jarðvegsrof verið umtalsvert. Svæðið var notað til beitar, einkum að sumarlagi en sel frá mörgum jörðum í Grindavík voru austan við dalina, á svonefndum Selsvöllum auk þess sem örnefnið Selskál skammt vestan við gosstöðvarnar bendir til selstöðu. Þótt ótrúlegt megi virðast var einnig eldiviðartekja í nágrenninu sem er í upphafi 18. aldar sögð reitingur af lyngi, hrísi og slíku lítilvægu.

Geldingadalur

Geldingadalur fyrir gosið 2021.

Meradalir er djúp dalkvos í landi Hrauns. Bæði merar og geldingar, þá líkast til sauðir, hafa gengið á þessu svæði frá örófi alda.  Örnefnið Meradalir eitt og sér er auðskilið og kemur kannski engum á óvart að bæði merar og geldingar, þá líkast til sauðir, hafi gengið á þessu svæði frá örófi alda. Fleiri búsmalanöfn af þessu tagi fyrirfinnast raunar í landi Hrauns, til dæmis Tryppalágar, Hrútadalur, Nauthóll og Kúalágar. Á hinn bóginn ber að hafa í huga að hér hafa sennilega ekki verið mjög stórir fjárhópar á fyrri öldum (þótt fjölgað hafi á 19.-20. öld) og tæplega nein stóð í Meradölum.

Hraunssel

Hraunssel Sandfell og Höfði fjær.

Almennt séð eru landgæði rýr á þessum slóðum, enda hefur sjávarútvegur lengst af verið aðalatvinnuvegur í Gullbringusýslu en ekki landbúnaður og byggðin grundvallast á honum – ekki síst í Grindavík. Búfjárfjöldi er lítill svo langt sem tölur ná og til að mynda taldi bústofn Hrauns ekki nema tvo hesta og eina meri þegar jarðabók var rituð í upphafi 18. aldar – en auk þess þrjá sauði, fjórar kýr, ellefu ær, nokkrar gimbrar og lömb. Allt sauðfé gekk úti um 1840 og þá voru hvorki til fjárhús, beitarhús né fjárborgir í sókninni. Hesthús hafa áreiðanlega verið sjaldgæf líka og líklega hafa merar sem og önnur hross gengið úti árið um kring.

Nauthóll

Nauthóll í Fagradal.

Meradölum hefur verið lýst sem „gróðurlitlum leirflötum“. Þeir sjást hér vel á loftmynd sem tekin var 5. apríl 2021 þegar hraun tók að renna niður í dalina. Meradalirnir breiða úr sér þar sem hrauntungan endar vinstra megin fyrir miðri mynd. Hægra megin á myndinni sést hraunið í Geldingdölum.

Selsvellir

Selstóftir á Selsvöllum.

Til marks um beitargæði eða öllu heldur skort á þeim er tekið fram í sóknarlýsingu að á Suðurlandi finnist eigi jafngraslítil og gróðurlaus sveit. Sömuleiðis er fullyrt að á Hrauni sé ekki höfð nokkur skepna heima á sumrum vegna beitarskorts heldur allir hestar daglega fluttir langt í burtu, „…á bak við Fiskidalsfell, þó brúka eigi strax að morgni“, en fellið er heldur vestar en dalirnir sem hér eru til umræðu. Kannski geyma Meradalir vísbendingu um slíkar nytjar, og eru þá kannski helst vitnisburður um skort á landgæðum og að augu manna hafi beinst að hverjum einasta bletti sem gat fóðrað skepnu eða tvær.”

Rétt er að geta þess að örnefnið “Merardalir” eru jafnan notað í fleirtölu vegna þess að dalirnir eru tveir; Meradalur og Syðri-Meradalur (Fremri-Meradalur). Slíkt og hið sama gilti og um Geldingadalina.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81496

Fgaradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni skv. herforngjaráðskorti 1906.

Geldingadalir

Í Fréttablaðinu þann 30. ágúst 2021 segja Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson sögu gossins í Geldingadölum á Fagradalsdfjalli í stuttu máli og lýsa aðstæðum eftir goslokin undir yfirskriftinni “Sjóðheit djásn beint úr ofninum“:

Geldingadalir
“Það eru ekki margir staðir á jörðinni þar sem náttúrudjásn bókstaflega poppa upp úr jörðinni. Ísland er einn þeirra, enda eitt virkasta eldfjallasvæði jarðar. Það sannaðist þann 19. mars 2021 þegar gos hófst í hlíðum Fagradalsfjalls í Geldingadölum. Það stóð í hálft ár en fram að því hafði ekki gosið á Reykjanesi í næstum 800 ár. Barst kvika til yfirborðs eftir allt að 17 kílómetra kvikugangi og út í gegnum tvo samhliða gíga. Síðan opnuðust ný gosop norðan þeirra sem lokuðust aftur þegar mánuður var liðinn af gosinu. Eftir það barst kvika aðallega úr einum og sama gígnum, og var hraunstreymið lengst af í kringum 5-13 rúmmetrar á sekúndu. Upp úr miðjum ágúst fór síðan að draga úr gosinu og eftir 18. september hefur ekkert hraunstreymi mælst frá gígnum. Þremur mánuðum síðar var goslokum síðan formlega lýst yfir.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

Gosið í Geldingadölum telst ekki á meðal stærstu eldgosa, enda ekki aflmikið, en var engu að síður afar tilkomumikið og auðvelt að fylgjast með því í návígi.
Gígurinn er sérlega mikið fyrir augað, en þar bregður fyrir alls konar litum, meðal annars rauðri gígskál. Á 40 metra háum gígbörmunum eru gular brennisteinsútfellingar síðan mest áberandi sem má rekja til heitra gosgufa sem stafa frá allt að 70 metra þykku hrauninu næst gígnum. Í dag þekur hraunþekjan tæplega 5 ferkílómetra, meðal annars alla Geldingadali, en hrauntungur teygja sig einnig ofan í Meradali og Nátthaga.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Þótt gosinu sé nú formlega lokið eru eldstöðvarnar og umhverfi þeirra mikið fyrir augað, ekki síst gígurinn sem þegar telst á meðal helstu djásna í krúnu Reykjanesskaga. Því er óhætt að mæla með göngu að þessu stórkostlega náttúrufyrirbæri. Forðast ber að ganga inn á sjálft hraunið eða upp að gígnum, enda ágætt útsýni að honum frá Stóra-Hrúti eða Fagradalsfjalli. Undanfarið hafa jarðhræringar aftur gert vart við sig á svæðinu, sem gætu verið undanfari goss. Því er skynsamlegt að bíða með heimsóknir í Geldingadali uns óróanum linnir og hætta á gosi minnkar. Þessi stöðugi órói svæðisins dregur þó síst úr aðdráttarafli þess og vonandi verður það gert að friðlandi í náinni framtíð.”

Höfundum ber sérstaklega að þakka að nefna ekki ónefnuna, sem Grindvíkingar höfðu ákveðið á hraunið af lítilli yfirvegun.

Heimild:
-Fréttablaðið 30. ágúst 2021, Sjóðheit djásn beint úr ofninum, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson.

Geldingadalir

Geldingadalir – gígur.

Geldingadalir

Í frétt RÚV þann 19. mars 2021 segir frá eldgosinu í Geldingadölum í Fagradalsfjalli:
“Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli um klukkan korter í níu föstudagskvöldið 19. mars 2021. Í fyrri hluta apríl hafa fleiri gossprungur opnast. Engin hætta steðjar að byggð vegna gossins. Fjöldi fólks hefur lagt leið sína að gosinu.”

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – staðsetning eldgoss í Geldingadölum.

Framangreint gos í Geldingadölum kom svolítið á óvart hvað staðsetninguna varðar, en nokkrum mánuðum fyrr höfðu mælst verulegir jarðskjálftar norðan og norðvestan við Grindavík (Þorbjörn). Fargradalsfjall er hins vegar norðaustan og austan við Grindavík (Þorbjörn).

Í Wikipedia er fjallað um eldgosið í Fagradalsfjalli 2021 frá upphafi til loka:

Geldingadalur

Gígur í Geldingadal eftir gosið 2021.

“Eldgos hófst við Fagradalsfjall þann 19. mars 2021 kl. 20:45 í kjölfar jarðskjálftahrinu sem stóð í meira en 3 vikur. Öflugasti skjálftinn var 5.8 stig. Gosið kom úr kvikugangi sem náði frá Keili að Fagradalsfjalli. Kvikan fann sér fyrst leið til yfirborðs í Geldingadölum við austanvert Fagradalsfjall nærri Stóra-Hrúti. Eldgosið hefur einnig verið kallað Geldingadalagos eða Geldingadalsgos (þó í raun sé örnefnið Geldingadalir). Eldgosið er flokkað sem dyngjugos en slík gos eru fátíð. Kvikan er frumstæð kemur úr 17-20 kílómetra dýpi. Tegund hraunsins er helluhraun og apalhraun. Fleiri gígar opnuðust á upphafsvikum gossins en þegar á leið einangraðist virknin við einn gíg. Hundruð þúsunda hafa skoðað gosið. Eldgosið jók virkni sína eftir því sem á leið sem er óvanalegt.Fagradalsfjall

Gígurinn nyrst í Fagradalsfjalli.

Nær 800 ár voru síðan gaus síðast á Reykjanesskaga þegar Reykjaneseldar geysuðu. Og 6000 ár eru síðan gaus í Fagradalsfjalli. Þá rann Beinavörðuhraun.

Frá 18. september hætti hraunflæði frá gígnum. Gosið stóð í um hálft ár og er 4. lengsta gosið á 20. og 21. öld.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Sprunga var metin í byrjun um 200 metrar á lengd þegar þyrla Landhelgisgæslunnar náði fyrstu myndum en síðar 500 metrar. Þann 20. mars mat svo Páll Einarsson sprunguna sem 200 metrar en ofmat var á stærð hennar. Syðri endi tungunnar var nokkra km frá Suðurstrandarvegi. Hrauntungur runnu í suðsuðvestur og vestur í Geldingadali. Geldingadalir eru lokaðir og hraunstreymið varð að fylla dalinn til að komast áleiðis.

Reykjanesskagi

Geldingadalur; eldgos 2021.

Upphafi gossins er líkt við Fimmvörðuhálsgosið. Krýsuvíkurvegi og Fagradalsvegi var lokað. Degi fyrir gosið var búið að loka Suðurstrandarvegi vegna skemmda sem urðu á veginum í kjölfar jarðskjálftahrinunnar. Mengunarviðvörun var send til Árnessýslu þar sem vindáttin liggur í austur frá gosstaðnum, í átt að Hveragerði.

Nokkurn fjölda fólks dreif að og voru sumir vanbúnir, í slæmu skyggni og þurftu björgunarsveitir að bjarga týndu og hröktu fólki. Sumir fóru fullnálægt gígnum en tilmæli voru um. 21. mars var brekka upp að gígnum lokuð. En Almannavarnir og löggæsla bentu á að hrunið gæti úr gígnum og nýjar sprungur gætu opnast. Varað var við að hættulegt gas gæti safnast saman í lægðum í stilltu veðri.

Fólk gekk frá Svartsengi þar sem Suðurstrandarvegur var lokaður vegna viðgerða sökum skjálftanna. En ákveðið var að stika leið frá Suðurstrandarvegi þar sem það var öruggara og styttri.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – jarðýtur voru mættar til að stýra hraunflæðinu.

21. mars: Hraunið var metið 0,15 ferkílómetrar (Magnús Tumi Guðmundsson).
22. mars: Almannavarnir lokuðu svæðinu við eldgosið vegna gasmengunar.
24. mars: Tveir aðalgígar gjósa og eru samvaxnir. Hraunið fyllir nánast dalinn. Ferðamenn flykkjast á staðinn.
26. mars: Allt að tíu milljónir króna framlag var ákveðið af ríkinu til að bæta aðgengi fyrir þá sem vilja skoða gosstöðvarnar.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – glóandi hraun.

27. mars: Lokað var eftir hádegi vegna versnandi veðurs. Fylgst var með ferðamönnum með tilliti til sóttkvíarbrota.
28. mars: Hraunið þekur Geldingadalina. Vegagerðin býr til bílastæði þar sem gönguleiðin við Suðurstrandarveg byrjar.
31. mars: Flúormengun mælist í regnvatni við eldstöðvarnar. Ákveðið var að hafa opið frá 6-18 og rýma kl. 22 á svæðinu um páskana. Þekja hraunsins er um 0,3 ferkílómetrar.
2. apríl: Vart varð við fyrstu gjósku gossins eða ljósleitan vikur. Nornahár fannst einnig.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – margir skemmtu sér vel við hraunjaðarinn.

5. apríl: Nýjar sprungur opnuðust, 100-200 metrar að lengd, hálfum kílómetra norðaustan við gígana sem fyrir voru. Hraunelfur tók að renna niður í Meradali. Yfir 500 manns voru á gosstöðvunum og var svæðið rýmt. Virkni gíganna í Geldingadölum minnkaði og var talið að nýju sprungurnar væru hluti af sama kvikuinnskoti.
7. apríl: Ný sprunga, um 150 metra löng, opnast á milli hinna tveggja og rennur hraun í Geldingadali.
8. apríl: Flatarmál hrauns er 0,62 ferkílómetrar samkvæmt Jarðvísindastofnun og hefur hraunflæði aukist með nýjum gígum.
10. apríl: Fjórða sprungan opnaðist milli tveggja nýjustu. Svæði var afmarkað sem hættusvæði á gosstöðvunum þar sem líklegast er að sprungur opnist.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

13. apríl: Enn fleiri sprungur eða gígar opnast og rennur hraunið í suðurátt frá þeim.
16. apríl: Hraun tekur að renna austur úr Geldingadölum. Um fjórðungur landsmanna hefur gert sér ferð að gosinu, um 90 þúsund manns.
19. apríl: Nyrsti gígurinn sem var öflugur rétt eftir páska er kulnaður. Hraunið þekur alls tæpa 0,9 ferkílómetra.
27. apríl: Flatarmál hrauns er 1,13 ferkílómetrar. Virkni mest í syðsta gígnum þar sem strókarnir ná allt að 50 metrum. Virkni í elstu samliggjandi gígunum nær engin.
4. maí: Virknin í þessum eina gíg gengur með hléum og er kröftug inn á milli. Hraun hefur þeyst meira en 200 metra í loft. Rignt hefur gjósku og eru hættur á hraunbombum. Hættusvæði var endurskilgreint.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

10. maí: Lokað var fyrir aðgengi að gosstöðvunum vegna gróðurelda og óhagstæðrar vindáttar. Hæstu strókar hafa náð um 460 metra sem er hærra en Empire State-byggingin.
11 maí: Hraunrennsli er tvöfalt öflugra en það hefur alla jafnan verið. Flatarmál er 1,8 ferkílómetrar (á við Elliðavatn) og hefur hraun fyllt Syðri-Meradal ( þó kallaður Nafnlausi dalurinn af sumum) suðaustur af gígnum.
14. maí: Hafist var handa að reisa varnargarða norður af Nátthaga til að hindra flæði hrauns niður dal í átt að Suðurstrandarvegi.
22. maí: Hraunið fór yfir eystri varnargarðanna og tók að flæða niður að Nátthaga.
1. júní: Hrauntungur ógna útsýnishólnum sem er nálægt gígnum og vestari varnargarðinum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – hraunmyndun.

4. júní: Hraunrennsli lokar fyrir Gónhól og vestari varnargarðar rofna. Stærð hraunsins er nær 3 ferkílómetrar.
10. júní: Virkni gossins hefur breyst. Í stað reglulegra gosstróka fossar stöðugt úr gígnum.
13. júní: Hrauntaumur rennur frá Geldingadölum og niður í Nátthaga og rýfur þar með gönguleið A.
18. júní: Hraun fyllir Nátthaga og nálgast haft suðvestan við hann. Hraunið nálgast Suðurstrandarveg. Ákveðið er að byggja ekki varnargarða til að vernda veginn. Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

26. júní: Varnargarður er byggður við suðvesturenda Nátthaga. Bandarískur ferðamaður týndist við gosstöðvarnar og sást síðast norður af Stóra Hrúti. Hann fannst meira en sólarhring seinna og hafði slasast og týnst. Gönguleið C meðfram Langahrygg er orðin aðalleiðin til að sjá gíginn.
7. júlí: Í byrjun júlí minnkaði virkni í gígnum og tók hann löng hlé. 7. júlí hafði verið hlé í nær 2 sólarhringa en loks sást í glóð í gígnum þó kvika ylli ekki upp úr honum.
23. júlí: Gosið hefur runnið í Meradali síðustu 3 vikur. Hraunflæði hefur minnkað og telur Magnús Tumi jarðeðlisfræðingur að gosið sé að fjara út á næstu vikum eða 2 mánuðum. Hraunið þekur 4 ferkílómetra.
16. ágúst: Nýr gígur opnast við hliðina á aðalgígnum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

5. september: Rýkur úr gígnum en sést ekki í kviku. Gosið er í næstlengsta hléi frá upphafi.
11. september: Gosið heldur áfram en gosrás gígsins hafði verið stífluð. Hraun flæðir utan í gígnum eða í göngum.
15. september: Hraun tekur að flæða niður í Nátthaga úr mismunandi áttum úr hrauntjörn í Geldingadölum þar sem er yfirflæði. Svæðið á gönguleið A var rýmt og lokað tímabundið. Eldgosið er 6 mánaða og er gígurinn orðinn 334 metra hár.
14. október: Ekki hefur gosið í rúman mánuð eða frá 18. september. Rýkur þó úr gígnum. Flatarmál hrauns er tæpir 5 ferkílómetrar.
1. nóvember: Gosinu í Geldingadölum er formlega lokið. Leitarþyrst hellaáhugafólk þarf þó að bíða enn um stund til að geta metið og skoðað aðstæður í hrauninu.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

Á Vísindavef HÍ var spurt: Hversu stórt var gosið í Geldingadölum?
“Gos í Geldingadölum hófst 19. mars 2021 og tveimur mánuðum síðar, 17. maí, birtist á Vísindavefnum svar við spurningunni Er líklegt að gosið í Geldingadölum standi lengi? Í svarinu voru færð að því rök, byggt á gefnum forsendum, að ólíklegt væri að gosið yrði langvinnt eða hraunið rúmmálsmikið. Öll eru þessi hugtök – langt og stutt, lítið og stórt – afstæð og merkingarlítil án tiltekins viðmiðs. Því fylgir hér til samanburðar þríein tafla yfir lengd, rúmmál og afl 14 gosa þar sem þessir þættir eru þekktir eða áætlaðir. Töflunni er sem sagt raðað upp á þrjá vegu eftir vaxandi gildi hvers hinna þriggja þátta.
Samkvæmt töflunni hlýtur gosið í Geldingadölum að teljast nokkuð langt meðal samfelldra gosa á 20. og 21. öld – aðeins Heklugosið 1947-48, Surtseyjargosið 1963-67 og Kröflueldar 1975-84 vöruðu lengur; Heklugosið 1980-81 mætti virðast lengra, en var í rauninni tvö stutt gos (3 og 7 dagar) með 7 mánaða hléi á milli og Kröflueldar voru röð smærri gosa með hléum á milli.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – megingígurinn.

Gosið í Geldingadölum telst nokkuð langt meðal samfelldra gosa á 20. og 21. öld. Það er hins vegar neðarlega á lista yfir rúmmál gosefna og næstaftast á lista þar sem miðað er við meðalafl 14 þekktra gosa.

Geldingadalur

Geldingadalur; gígur eftir eldgosið 2021.

Hvað varðar rúmmál gosefna eru Geldingadalir neðarlega á lista, aðeins hraun flæðigosanna úr Öskju 1961, Heklu 1981 og Fimmvörðuhálsi 2010 eru minni. Og hvað meðalafl (m3/sek) gossins snertir voru Geldingadalir raunar næstaftastir á merinni – aðeins afl 7–daga flæðigoss Heklu 1981 var minna. Lágar tölur fyrir afl Kröfluelda og Heklu 1980-81 stafa af því að tímalengdin er talin frá upphafi eldsumbrotanna til enda.
Öflugustu gosin á listanum eru annars vegar flæðigosin miklu, Skaftáreldar 1783-84 og Holuhraun 2014-15, og hins vegar sprengigos, hrein (Hekla 1980) eða með „stuttum flæðigoshala“ (Hekla 1991 og 2000) – sprengihluti Heklu 1947 var gríðarlega öflugur en honum fylgdi langvarandi hraunflæði.
Samkvæmt þessu reyndist höfundur svarsins á Vísindavefnum 17. maí 2021 ekki sannspár um væntanlega lengd gossins í Geldingadölum, en um hin atriðin tvö – hvort gosið marki upphaf nýrra Reykjaneselda, og hvort gossprungurnar muni teygja sig langar leiðir – mun framtíðin ein eiga svör.”

Hér má sjá MYNDIR af eldgosinu í Geldingadölum.

Heimildir:
-https://www.ruv.is/frett/2021/03/18/eldgosid-i-geldingadolum-i-beinni-utsendingu
-https://is.wikipedia.org/wiki/Eldgosi%C3%B0_vi%C3%B0_Fagradalsfjall_2021
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=82586

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – fjölmargir lögðu leið sína að gosstöðvunum á meðan var.

Fagradalsfjall

Í 12. lið fundargerðar Bæjarráðs Grindavíkur þann 5. maí 2021 má lesa eftirfarandi um örnefnanefnu í Fagradalsfjalli:

“Nafn á nýju hrauni og gígum við Fagradalsfjall – 2103090.
Lögð fram umsögn Örnefndanefndar á heiti á nýju hrauni og gígum í mótun við Fagradalsfjall. Með vísan til laga nr. 22/2015 leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að nýtt hraun austan Fagradalsfjalls verði nefnt Fagradalshraun.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – Fagridalur efst til vinstri.

Skv. framangreindu virðast hlutaðeigendur ekki vera meðvitaðir um staðhætti í og við Fagradalsfjall. Fjallið er nefnt eftir Fagradal norðan þess. Dalurinn er óháður gosstöðvunum í Geldingadölum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – örnefni (ÓSÁ).

Í Fagradal eru m.a. Nauthólar og Dalssel, fyrrum selstaða frá Þórkötlustöðum. Hún hvílir þar við uppþornaðan lækjarfarveg er áður myndaði Aurana neðar í dalnum.
Gígar hraunsins, er málið snýst um, urðu til á sprungu uppi í hlíðum Geldingadala – í miðju Fagradalsfjalli. Sunnar er Hrútadalur millum Einihlíða og Langahryggs og norðaustar eru Merardalir millum Merardalahnúka og Stóra-Hrúts. Afurð gíganna rann fyrst niður í Geldingadali, annars gróðurlitlar kvosir og kaffærði meinta dys Ísólfs á Skála, áður en hún tók upp á því að venda niður í Merardali.
Nefnt hraun hefur, a.m.k ekki hingað til, runnið niður í Fagradal. Til þess þyrfi það að fylla Gildingadalina upp fyrir neðanverðan Langhól eða Merardalina út fyrir Merardalahnúkana og síðan renna upp á við sunnan Þráinsskjaldar áður en það gæti náð rennsli milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells og Fagradals-Hagafells.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Í örnefnalýsingu fyrir Hraun segir m.a. um Fagradalsdalsfjall og nágrenni:

Fagradasfjall

Fagradalsfjall – herforingjaráðskort.

“Borgarfjall er eiginlega fremsti hluti Fagradalsfjalls en Fagradalsfjall er eitt stærsta fjall á Reykjanesskaga. Á milli Borgarfjalls og Mókletta er Borgarhraun. Vinkillaga flatlendi framan við Fagradalsfjall heitir Nátthagakriki. Einbúi er þar nokkuð stór stakur hóll. Selskál er grasbrekka framan í Fagradalsfjalli. Trippalágar er graslendi á milli Borgarhrauns og Beinavörðuhrauns og nær fram að Móklettum. Vestan við Trippalágar við hraunjaðarinn á Beinavörðuhrauni er Bleikshóll. Kast er fell sem gengur út úr Fagradalsfjalli að suðvestan. Görn heitir skarðið á milli og nær hún alla leið inn í Innstadal. Stóragil er uppi á fjallinu fyrir ofan Innstadal. Norður af Kasti eru allháir grasgeirar í fjallshlíðinni og heita Fremstidalur, Miðdalur og Innstidalur. Þetta eru ekki raunverulegir dalir heldur brekkur og kvosir.

Kastið

Kastið.

Hraunið vestur af Kasti heitir Beinavörðuhraun og nær fram að Hrafnshlíð, Fiskidalsfjalli og Vatnsheiði. Norður á móts við áður getinna er hraunið mikið sléttara með stórum mosaþembum og heitir þar Dalahraun. Í Dalahrauni eru tveir hólar með nokkru millibili og heita Innri-Sandhóll og Sandhóll sem er hærri og sunnar.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Gömul gata inn með Fagradalsfjalli að vestan og allt til Voga heitir Sandakravegur. Norðan við hraunið eru Nauthólaflatir og ná þær upp að Fagradalsfjalli. Dalssel heitir innst með fjallinu fyrir norðan Nauthólaflatir. Austast á Nauthólaflötum er hóll sem heitir Nauthóll. Vestan flatanna er uppblásið land, nú aurmelar, kallað Aurar en hét áður fyrr Fagridalur og er svo nefnt á korti. Nyrsti hluti Fagradalsfjalls heitir Fagradalsvatnsfell og er í landi Þórkötlustaða. Þar norður af er Fagradalshagafell, lítt áberandi að norðanverðu. Vatnskatlar uppi á Fagradalshagafelli eru landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Eitthvað af nefndum örnefnum vestan Fagradalsfjalls að innanverðu gætu verið í landi Þórkötlustaða.

Uppi á Fagradalsfjalli er hæsti hnúkur á norðausturhorninu og heitir Langhóll. Að suðaustan er annar hnúkur og heitir sá Stórhóll.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Austan undir Borgarfjalli og á milli þess og Langahryggs er Nátthagi. Þetta er nokkuð breitt skarð á milli fjallanna og við suðurenda þess er Drykkjarsteinsdalur. Austan undir Fagradalsfjalli og norðan við Nátthagaskarð og í austur frá Stórhól er smáás og heitir Nátthagaskarð. Þar norður af eru Geldingadalir. Smádalkvosir grónar nokkuð. Þar er sagt að Ísólfur, fyrsti ábúandi á Ísólfsskála, sé grafinn og hafi hann viljað láta grafa sig þar sem geldingarnir hans höfðu það best.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.

Norðaustur frá Langhól er lítið fell fast við Fagradalsfjall sem heitir Kálffell. Norð-norðaustur af Langahrygg er Stóri-Hrútur og síðan þar norður af Meradalir. Þetta eru gróðurlitlar leirflatir.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Þar norður af eru Meradalshlíðar og vestur frá þeim er Kistufell í austur frá Langhól. Norður af Meradalshlíðum er Litli-Hrútur og þar norður af er Litli-Keilir.

Þaðan í norðaustur er Keilir, alþekkt fjall. Austan undir Kistufelli er smáhryggur sem nefndur er Rjúpnahryggur. Þarna eru víðast hraun á milli fjallanna og örnefnalaust.

Suðaustan og framan í Langahrygg eru Lyngbrekkur og þar framan við er Stóri-Leirdalur. Austan við Langahrygg eru Einihlíðar. Þetta eru ávalar, gróðurlitlar bungur en hafa sjálfsagt verið vel grónar þegar þær hlutu nafn. Litli-Leirdalur er framan við Einihlíðar að vestan og hlíðin þar austur af, þar sem gamli Krýsuvíkurvegurinn liggur upp, heitir Brattháls (Skyggnir). Litli-Hrútur heitir nyrsti hluti Einihlíða. Þverbrekkur heita grasigrónar brekkur nyrst í Litla-Leirdal.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Skarðið á milli Langahryggs og Einihlíða heitir Hrútadalur og við hann eru Hrútadalsbörð. Austan í Einihlíðum eru allmiklar grasigrónar kvosir og heita Bratthálskrókur sú fremri og Einihlíðarkrókur sú innri. Sandurinn þar norður af inn með Einihlíðum heitir Einihlíðasandur.

Geldingardalur

Geldingadalur – dys Ísólfs.

Örnefnanefnd og fulltrúar Grindavíkurbæjar virðast, skv. ofangreindu, fara villu vegar er þeir ákveða að nefna hið nýja hraun í Geldingadölum “Fagradalshraun“. Til álita kæmu hins vegar með réttu örnefnin “Fagrahraun”, “Fagradalsfjallshraun” eða “Geldingadalahraun”. En örnefnið “Fagradalshraun” til framtíðar litið er eins og út úr kú, a.m.k. að teknu tilliti til framangreindra örnefna. Fulltrúum Grindavíkurbæjar er þó fyrirgefið því flestir þeirra virðast vera aðkomnir, en ekki er vitað undan hvaða hól fulltrúar Örnefnanefndar hafa skriðið. Ef örnefnið verður að veruleika mun það verða sem myllusteinn um háls nefndarinnar um ókomna tíð…

Sjá meira um Fagradal HÉR.

Fagradalsfjall

Fagridalur – Nauthólar og Dalssel.