Geldingadalir

Í frétt RÚV þann 19. mars 2021 segir frá eldgosinu í Geldingadölum í Fagradalsfjalli:
“Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli um klukkan korter í níu föstudagskvöldið 19. mars 2021. Í fyrri hluta apríl hafa fleiri gossprungur opnast. Engin hætta steðjar að byggð vegna gossins. Fjöldi fólks hefur lagt leið sína að gosinu.”

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – staðsetning eldgoss í Geldingadölum.

Framangreint gos í Geldingadölum kom svolítið á óvart hvað staðsetninguna varðar, en nokkrum mánuðum fyrr höfðu mælst verulegir jarðskjálftar norðan og norðvestan við Grindavík (Þorbjörn). Fargradalsfjall er hins vegar norðaustan og austan við Grindavík (Þorbjörn).

Í Wikipedia er fjallað um eldgosið í Fagradalsfjalli 2021 frá upphafi til loka:

Geldingadalur

Gígur í Geldingadal eftir gosið 2021.

“Eldgos hófst við Fagradalsfjall þann 19. mars 2021 kl. 20:45 í kjölfar jarðskjálftahrinu sem stóð í meira en 3 vikur. Öflugasti skjálftinn var 5.8 stig. Gosið kom úr kvikugangi sem náði frá Keili að Fagradalsfjalli. Kvikan fann sér fyrst leið til yfirborðs í Geldingadölum við austanvert Fagradalsfjall nærri Stóra-Hrúti. Eldgosið hefur einnig verið kallað Geldingadalagos eða Geldingadalsgos (þó í raun sé örnefnið Geldingadalir). Eldgosið er flokkað sem dyngjugos en slík gos eru fátíð. Kvikan er frumstæð kemur úr 17-20 kílómetra dýpi. Tegund hraunsins er helluhraun og apalhraun. Fleiri gígar opnuðust á upphafsvikum gossins en þegar á leið einangraðist virknin við einn gíg. Hundruð þúsunda hafa skoðað gosið. Eldgosið jók virkni sína eftir því sem á leið sem er óvanalegt.Fagradalsfjall

Gígurinn nyrst í Fagradalsfjalli.

Nær 800 ár voru síðan gaus síðast á Reykjanesskaga þegar Reykjaneseldar geysuðu. Og 6000 ár eru síðan gaus í Fagradalsfjalli. Þá rann Beinavörðuhraun.

Frá 18. september hætti hraunflæði frá gígnum. Gosið stóð í um hálft ár og er 4. lengsta gosið á 20. og 21. öld.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Sprunga var metin í byrjun um 200 metrar á lengd þegar þyrla Landhelgisgæslunnar náði fyrstu myndum en síðar 500 metrar. Þann 20. mars mat svo Páll Einarsson sprunguna sem 200 metrar en ofmat var á stærð hennar. Syðri endi tungunnar var nokkra km frá Suðurstrandarvegi. Hrauntungur runnu í suðsuðvestur og vestur í Geldingadali. Geldingadalir eru lokaðir og hraunstreymið varð að fylla dalinn til að komast áleiðis.

Reykjanesskagi

Geldingadalur; eldgos 2021.

Upphafi gossins er líkt við Fimmvörðuhálsgosið. Krýsuvíkurvegi og Fagradalsvegi var lokað. Degi fyrir gosið var búið að loka Suðurstrandarvegi vegna skemmda sem urðu á veginum í kjölfar jarðskjálftahrinunnar. Mengunarviðvörun var send til Árnessýslu þar sem vindáttin liggur í austur frá gosstaðnum, í átt að Hveragerði.

Nokkurn fjölda fólks dreif að og voru sumir vanbúnir, í slæmu skyggni og þurftu björgunarsveitir að bjarga týndu og hröktu fólki. Sumir fóru fullnálægt gígnum en tilmæli voru um. 21. mars var brekka upp að gígnum lokuð. En Almannavarnir og löggæsla bentu á að hrunið gæti úr gígnum og nýjar sprungur gætu opnast. Varað var við að hættulegt gas gæti safnast saman í lægðum í stilltu veðri.

Fólk gekk frá Svartsengi þar sem Suðurstrandarvegur var lokaður vegna viðgerða sökum skjálftanna. En ákveðið var að stika leið frá Suðurstrandarvegi þar sem það var öruggara og styttri.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – jarðýtur voru mættar til að stýra hraunflæðinu.

21. mars: Hraunið var metið 0,15 ferkílómetrar (Magnús Tumi Guðmundsson).
22. mars: Almannavarnir lokuðu svæðinu við eldgosið vegna gasmengunar.
24. mars: Tveir aðalgígar gjósa og eru samvaxnir. Hraunið fyllir nánast dalinn. Ferðamenn flykkjast á staðinn.
26. mars: Allt að tíu milljónir króna framlag var ákveðið af ríkinu til að bæta aðgengi fyrir þá sem vilja skoða gosstöðvarnar.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – glóandi hraun.

27. mars: Lokað var eftir hádegi vegna versnandi veðurs. Fylgst var með ferðamönnum með tilliti til sóttkvíarbrota.
28. mars: Hraunið þekur Geldingadalina. Vegagerðin býr til bílastæði þar sem gönguleiðin við Suðurstrandarveg byrjar.
31. mars: Flúormengun mælist í regnvatni við eldstöðvarnar. Ákveðið var að hafa opið frá 6-18 og rýma kl. 22 á svæðinu um páskana. Þekja hraunsins er um 0,3 ferkílómetrar.
2. apríl: Vart varð við fyrstu gjósku gossins eða ljósleitan vikur. Nornahár fannst einnig.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – margir skemmtu sér vel við hraunjaðarinn.

5. apríl: Nýjar sprungur opnuðust, 100-200 metrar að lengd, hálfum kílómetra norðaustan við gígana sem fyrir voru. Hraunelfur tók að renna niður í Meradali. Yfir 500 manns voru á gosstöðvunum og var svæðið rýmt. Virkni gíganna í Geldingadölum minnkaði og var talið að nýju sprungurnar væru hluti af sama kvikuinnskoti.
7. apríl: Ný sprunga, um 150 metra löng, opnast á milli hinna tveggja og rennur hraun í Geldingadali.
8. apríl: Flatarmál hrauns er 0,62 ferkílómetrar samkvæmt Jarðvísindastofnun og hefur hraunflæði aukist með nýjum gígum.
10. apríl: Fjórða sprungan opnaðist milli tveggja nýjustu. Svæði var afmarkað sem hættusvæði á gosstöðvunum þar sem líklegast er að sprungur opnist.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

13. apríl: Enn fleiri sprungur eða gígar opnast og rennur hraunið í suðurátt frá þeim.
16. apríl: Hraun tekur að renna austur úr Geldingadölum. Um fjórðungur landsmanna hefur gert sér ferð að gosinu, um 90 þúsund manns.
19. apríl: Nyrsti gígurinn sem var öflugur rétt eftir páska er kulnaður. Hraunið þekur alls tæpa 0,9 ferkílómetra.
27. apríl: Flatarmál hrauns er 1,13 ferkílómetrar. Virkni mest í syðsta gígnum þar sem strókarnir ná allt að 50 metrum. Virkni í elstu samliggjandi gígunum nær engin.
4. maí: Virknin í þessum eina gíg gengur með hléum og er kröftug inn á milli. Hraun hefur þeyst meira en 200 metra í loft. Rignt hefur gjósku og eru hættur á hraunbombum. Hættusvæði var endurskilgreint.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

10. maí: Lokað var fyrir aðgengi að gosstöðvunum vegna gróðurelda og óhagstæðrar vindáttar. Hæstu strókar hafa náð um 460 metra sem er hærra en Empire State-byggingin.
11 maí: Hraunrennsli er tvöfalt öflugra en það hefur alla jafnan verið. Flatarmál er 1,8 ferkílómetrar (á við Elliðavatn) og hefur hraun fyllt Syðri-Meradal ( þó kallaður Nafnlausi dalurinn af sumum) suðaustur af gígnum.
14. maí: Hafist var handa að reisa varnargarða norður af Nátthaga til að hindra flæði hrauns niður dal í átt að Suðurstrandarvegi.
22. maí: Hraunið fór yfir eystri varnargarðanna og tók að flæða niður að Nátthaga.
1. júní: Hrauntungur ógna útsýnishólnum sem er nálægt gígnum og vestari varnargarðinum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – hraunmyndun.

4. júní: Hraunrennsli lokar fyrir Gónhól og vestari varnargarðar rofna. Stærð hraunsins er nær 3 ferkílómetrar.
10. júní: Virkni gossins hefur breyst. Í stað reglulegra gosstróka fossar stöðugt úr gígnum.
13. júní: Hrauntaumur rennur frá Geldingadölum og niður í Nátthaga og rýfur þar með gönguleið A.
18. júní: Hraun fyllir Nátthaga og nálgast haft suðvestan við hann. Hraunið nálgast Suðurstrandarveg. Ákveðið er að byggja ekki varnargarða til að vernda veginn. Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

26. júní: Varnargarður er byggður við suðvesturenda Nátthaga. Bandarískur ferðamaður týndist við gosstöðvarnar og sást síðast norður af Stóra Hrúti. Hann fannst meira en sólarhring seinna og hafði slasast og týnst. Gönguleið C meðfram Langahrygg er orðin aðalleiðin til að sjá gíginn.
7. júlí: Í byrjun júlí minnkaði virkni í gígnum og tók hann löng hlé. 7. júlí hafði verið hlé í nær 2 sólarhringa en loks sást í glóð í gígnum þó kvika ylli ekki upp úr honum.
23. júlí: Gosið hefur runnið í Meradali síðustu 3 vikur. Hraunflæði hefur minnkað og telur Magnús Tumi jarðeðlisfræðingur að gosið sé að fjara út á næstu vikum eða 2 mánuðum. Hraunið þekur 4 ferkílómetra.
16. ágúst: Nýr gígur opnast við hliðina á aðalgígnum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

5. september: Rýkur úr gígnum en sést ekki í kviku. Gosið er í næstlengsta hléi frá upphafi.
11. september: Gosið heldur áfram en gosrás gígsins hafði verið stífluð. Hraun flæðir utan í gígnum eða í göngum.
15. september: Hraun tekur að flæða niður í Nátthaga úr mismunandi áttum úr hrauntjörn í Geldingadölum þar sem er yfirflæði. Svæðið á gönguleið A var rýmt og lokað tímabundið. Eldgosið er 6 mánaða og er gígurinn orðinn 334 metra hár.
14. október: Ekki hefur gosið í rúman mánuð eða frá 18. september. Rýkur þó úr gígnum. Flatarmál hrauns er tæpir 5 ferkílómetrar.
1. nóvember: Gosinu í Geldingadölum er formlega lokið. Leitarþyrst hellaáhugafólk þarf þó að bíða enn um stund til að geta metið og skoðað aðstæður í hrauninu.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

Á Vísindavef HÍ var spurt: Hversu stórt var gosið í Geldingadölum?
“Gos í Geldingadölum hófst 19. mars 2021 og tveimur mánuðum síðar, 17. maí, birtist á Vísindavefnum svar við spurningunni Er líklegt að gosið í Geldingadölum standi lengi? Í svarinu voru færð að því rök, byggt á gefnum forsendum, að ólíklegt væri að gosið yrði langvinnt eða hraunið rúmmálsmikið. Öll eru þessi hugtök – langt og stutt, lítið og stórt – afstæð og merkingarlítil án tiltekins viðmiðs. Því fylgir hér til samanburðar þríein tafla yfir lengd, rúmmál og afl 14 gosa þar sem þessir þættir eru þekktir eða áætlaðir. Töflunni er sem sagt raðað upp á þrjá vegu eftir vaxandi gildi hvers hinna þriggja þátta.
Samkvæmt töflunni hlýtur gosið í Geldingadölum að teljast nokkuð langt meðal samfelldra gosa á 20. og 21. öld – aðeins Heklugosið 1947-48, Surtseyjargosið 1963-67 og Kröflueldar 1975-84 vöruðu lengur; Heklugosið 1980-81 mætti virðast lengra, en var í rauninni tvö stutt gos (3 og 7 dagar) með 7 mánaða hléi á milli og Kröflueldar voru röð smærri gosa með hléum á milli.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – megingígurinn.

Gosið í Geldingadölum telst nokkuð langt meðal samfelldra gosa á 20. og 21. öld. Það er hins vegar neðarlega á lista yfir rúmmál gosefna og næstaftast á lista þar sem miðað er við meðalafl 14 þekktra gosa.

Geldingadalur

Geldingadalur; gígur eftir eldgosið 2021.

Hvað varðar rúmmál gosefna eru Geldingadalir neðarlega á lista, aðeins hraun flæðigosanna úr Öskju 1961, Heklu 1981 og Fimmvörðuhálsi 2010 eru minni. Og hvað meðalafl (m3/sek) gossins snertir voru Geldingadalir raunar næstaftastir á merinni – aðeins afl 7–daga flæðigoss Heklu 1981 var minna. Lágar tölur fyrir afl Kröfluelda og Heklu 1980-81 stafa af því að tímalengdin er talin frá upphafi eldsumbrotanna til enda.
Öflugustu gosin á listanum eru annars vegar flæðigosin miklu, Skaftáreldar 1783-84 og Holuhraun 2014-15, og hins vegar sprengigos, hrein (Hekla 1980) eða með „stuttum flæðigoshala“ (Hekla 1991 og 2000) – sprengihluti Heklu 1947 var gríðarlega öflugur en honum fylgdi langvarandi hraunflæði.
Samkvæmt þessu reyndist höfundur svarsins á Vísindavefnum 17. maí 2021 ekki sannspár um væntanlega lengd gossins í Geldingadölum, en um hin atriðin tvö – hvort gosið marki upphaf nýrra Reykjaneselda, og hvort gossprungurnar muni teygja sig langar leiðir – mun framtíðin ein eiga svör.”

Hér má sjá MYNDIR af eldgosinu í Geldingadölum.

Heimildir:
-https://www.ruv.is/frett/2021/03/18/eldgosid-i-geldingadolum-i-beinni-utsendingu
-https://is.wikipedia.org/wiki/Eldgosi%C3%B0_vi%C3%B0_Fagradalsfjall_2021
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=82586

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – fjölmargir lögðu leið sína að gosstöðvunum á meðan var.