Færslur

Hraunssel
Haldið var inn (austur Drykkjarsteinsdal frá Hatti utan í vestanverðri Slögu ofan Ísólfsskála, beygt um Brattháls norður með austanverðum Lyngbrekkum og áfram inn með austanverðum Einihlíðum uns staðnæmst var við sunnanvert Sandfell. Þaðan var gengið til austurs sunnan við fellið og síðan til norðurs með því austanverðu.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Hattur.

Ætlunin var m.a. að skoða hvort enn mætti greina spor hinnar fornu leiðar Grindvíkinga áleiðis inn á Selsvelli. Spurning var hvort líklegra var að leiðin hafi legið norður með vestanverðu Sandfelli eða því austanverðu. Báðar leiðirnar gætu hafa verið farnar, allt eftir því hvort leiðin lá í Hraunssel eða á Selsvelli. Austari leiðin var líklegri á fyrrnefnda staðinn. Þaðan liggur leiðin yfir slétt Skolahraun (helluhraun) að Þrengslum undir vestanverðum Núpshlíðarhálsi (Vesturhálsi). Sunnar er Leggjabrjótshraun (apalhraun), erfiðara yfirferðar. Þó lá þar yfir ruddur, varðaður, vegur allnokkru sunnar. Sá vegur var endurgerður, lagfærður og breikkaður, með svonefndum “Hlínarvegi” skömmu eftir 1930 er hann var gerður akfær til Krýsuvíkur með það að markmiði að flytja útvegsbændum í Grindvík nýslegna töðu, að sjálfsögðu gegn gjaldi. Vegagerðin frá Ísólfsskála (Drykkjarsteinsdal) til Krýsuvíkur kostaði þá um 500 krónur og tók það fjóra menn ásamt kúsk lungann úr sumrinu að framkvæma verkið. Hlín Johnsen, þá sérstakur verndari og umönnunarstýra þjóðskáldsins Einars Benediktssonar, greiddi fram vinnulaun að verki loknu, en Einar átti þá bæði Krýsuvík og Herdísarvík. Einar sjálfur, þótt stór væri, var þá lítill fyrir mann að sjá, enda ofsóttur jafnt í rökkri og myrkri, bæði af Þistilfjarðar Sólborgu og öðrum sektarkenndum.
Gengið var yfir Skolahraun. Slétt helluhraunið er að öllum líkindum úr Þránsskildi, en ofan á því er mjó apalræma til suðurs, líklega úr gosinu 1151.

Hraunssel

Hraunssel.

Slóðar liggja yfir slétt hraunið og hefur mosinn farið illa af utanvegaakstri. Komið var að norðanverðu Hraunsseli. Augljóst er að þarna hafa verið tvær selstöður. Í selinu eru bæði tóftir nýrri og eldri selja. Nýrri selin eru undir Núpshlíðarhálsinum, en þau eldri bæði norðan við nýrri selin undir hlíðinni og einnig vestar, nálægt grónum hraunkanti. Þær eru nær jarðlægar. Vestan þeirra tófta er tvískiptur hlaðinn stekkur. Norðan hans er hlaðinn ferköntuð tóft undir hraunbakka, hugsanlega kví. Grösug skál er í hlíðinni ofan við selið. Þar má m.a. sjá leifar hverasvæðis, sem ekki er langt um liðið síðan kulnaði.

Nyrðra nýrra selið er eins stök tóft og síðan önnur með tveimur rýmum. Hitt er heilstæð tóft með þremur samliggjandi rýmum. Elsta tóftin (vestar) virðist hafa verið með tveimur rýmum og því þriðja fasttengdu. Þerrivatn er í grunnum gilskorningi sunnan við selið, en búast má við að þarna neðarlega á grasvöllunum hafi fyrrum verið brunnur, þótt ekki móti fyrir honum nú.
Þetta eru sennilega rústir hins síðasta umbúna sels á Reykjanesskaganum, er talið er að hafi lagst af um 1914, með efasemdum þó, því sel voru almennt að leggjast niður á þessu landssvæði á seinni hluta 19. aldar. Þeim hafði þá verið viðhaldið, með tilfærslum, hléum og margfaldlegri endurgerð, allt frá landnámi no

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

rrænna manna hér á landi (871 +/- 2). Selstöður virtust hafa verið mikilvægur þáttur í búsetusögu svæðisins um langan tíma. FERLIR hefur þegar skoðað rúmlega 255 selstöður í landnámi Ingólfs, sem enn eru sýnilegar minjar um, og eru þó allnokkur enn óskoðuð, s.s. norðan Esjufjalla að Botnsá. Þótt margt sé líkt með rústunum er einnig nokkuð ólíkt með þeim. Það verður allt betur rakið með umfjöllun síðar.
Í landamerkjabréfi fyrir Hraun segir m.a. að merkin hafi verið “frá Vatnskötlum fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan til austurs á Selsvallarfjall upp af Sogaselsdal.” Í fyrsta lagi heita Vatnskatlarnir nú á landakortum Fagradals-Vatnsfell og Hraun lýsir merkjum í Selsvallarfjall.Â
Samkvæmt heimild úr Jarðabók ÁM 1703 á Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd selstöðu í Sogaseli er það sagt í Stóru Vatnsleysulandi. Selið hins vegar, sem lá undir Hraun (Hraunssel), er fyrir sunnan Þrengslin og þannig innan merkja Hrauns samkvæmt þessari skilgreiningu. Þá má að lokum benda á að fyrir norðan þessa línu og almennt á Selsvöllunum var almenningsselstaða frá Grindavík og ennfremur frá Vatnsleysuströnd”. Hafa ber þó í huga að landamerki Þórkötlustaða stangast verulega á við landamerkjalýsingu Hrauns þar sem m.a. Dalsselið vestan Langhóls er innan landamerkja þeirra. Ef rétt er þá er Dalsselið í landi Þórkötlustaða, en Vogabændur og Grindvíkingar hafa jafnan deilt um tilveru þess inna þeirra marka – hvors um sig.
Í örnefnaskrá fyrir Ísólfsskála segir m.a. um merkin: “Allmiklu skakkar hér um landlýsingu þeirra nágrannanna [Hrauns]. En merkjabókin segir merki Ísólfsskála þannig: Úr fjöru við Festargnípu vestan við svonefndan Skálasand til norðurs að merktum kletti við götuna á Móklettum, svo til austurs í miðja suðuröxl á Borgarfjalli.
Samkvæmt þessu ætti Hraunssel að hafa verið í landi Ísólfsskála og gert út þaðan. Þeir nágrannar gætu þó hafa komið sér saman um selstöðu undir hálsinum og verið þar með sitthvort selið. Það myndi a.m.k. skýra seltóftirnar. Ef svo er þá eru fundið selið frá Ísólfsskála, sem og selið frá Þórkötlustöðum, þ.e. Dalsselið.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Járngerðarstaðir og Staður hafa síðan haft selstöður á Baðsvöllum og síðar á Selsvöllum.
Ritari, sem reyndar er hlutdrægur, hefur reyndar talið langlíklegast að Dalselið hafi verið frá Þórkötlustaðabæjunum fyrrum.
Í örnefnalýsingum þaðan, segir að “úr Stóra-Skógfelli [á að vera Litla-Skógfelli til samræmis við aðrar lýsingar] liggur markalínan í gjána í Kálffelli en það er lágt fell eða bunga sem er framarlega í Kálffellsheiði . Frá Kálffelli liggja landamerkin í vatnskatla í Fagradals-Hagafelli og þaðan í Innstuhæð á Vatnsheiði eins og áður segir. Samkv. þessu er Sandhóll, sem er vestur af Kasti, og Fagridalur, sem er kvos inn í Fagradalsfjall austan við Aura, í landi Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell,sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða. Aurar heita melar innan við og austan Dalahraun og þar norður af eru grasflatir sem heita Nauthólaflatir. Þar var heyjað af bændum á Þórkötlustöðum.”

Í Jarðabókinni 1703 er dómkirkjan í Skálholti eigandi bæði Krýsuvíkur og Hrauns, auk Ísólfsskála, Þórkötlustaða, Hóps og Járngerðarstaða. Ekki er sagt frá selstöðu frá Krýsuvík, en þó má telja öruggt að hún hafi verið þá til staðar. Ekki er heldur sagt frá selstöðu frá Hrauni eða Þórkötlustöðum, en ein hjáleigan, Buðlunga,

Núpshlíðarháls

Núpshlíðarháls.

“brúkar selstöðu og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsuvík, en Krýsuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustðalandi. Er selstaðan að sönnun góð, en mikilega lángt og erfitt að sækja”. Hóp þarf að kaupa út selstöðu, en Járngerðarstaðir “brúkar selstöðu enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar oflitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein af vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lseti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn aleina”. Þarna gæti verið komið tilefni til þess að ætla að Selsvallaselstaðan, sem Járngerðarstaðabændur nýttu síðar, hafi fengist framseld frá Stað. Í Jarðabókinni 1703 segir að selstaða Staðar “sé góð til haga, en lángt og erfitt til að sækja, hefur þó hjeðan frá staðnum brúkuð verið lxxx ár á Selsvöllum”.
Eftir að hafa skoðað minjar seljanna (því þau eru fleiri en eitt frá mismunandi tímum), var gengið norðvestur eftir áberandi götu yfir Skolahraunið með stefnu milli Hraunssels-Vatnsfellanna. Mikil umferð hefur verið þarna. Gatan liggur yfir hið mjóa apalhaft. Hún gefur vísbendinu uma ð nokkur umferð hafi verið inn að Hraunsseli neðan úr Vogum eða Vatnsleysuströnd svo ekki er með öllu hægt að útiloka að selstaðan hafi um tíma verið sótt þaðan.
VatnsstæðiÞegar komið var yfir í Meradalahlíðar var ákveðið að halda áfram til vesturs austan Kisturfells (335 m.y.s.). Kistufell og Keilir, með Litla-Keili og Litlahrút á millum býður upp á skemmtilegt sjónarhorn inn á efstu brún Þráinsskjaldar, hinnar miklu og tilkomuríku dyngjudrottningu Reykjanesskagans. Þaðan er hægt að ganga að einum fallegasta gíg Skagans, nyrst í Fagradalsfjalli (Langhól). Gígurinn, sem er um 70 metra hár, er þverskorinn, þ.e. það sést inn í hann úr norðri og því auðvelt á áætla hvernig gígopið hafi litið út áður en roföflin tóku yfirhöndina.

Hér er í rauninni um að ræða einn tilkomumesta og fallegasta, en um leið úrleiðarlegasta gíg Reykjanesskagans. Vonandi fær Hitaveita Suðurnesja aldrei áhuga á honum – því þá er voðinn vís.
Þegar staðið er þarna má í rauninni sjá nokkra “keilira”, því auk Keilis er Sandfell í suðaustri, Stórihrútur í suðri og Litlihrútur í norðvestri öll með sömu lögun. Keilir nýtur hins vegar þeirrar sérstöðu sinnar að standa stakur og því meira áberandi fyrir þá, sem ekki hafa nennu til að stíga svolítið afsíðis frá malbikinu.
Gengið var til suðurs niður í Meradali. Hér er um einstaklega stórt, sléttbotna og myndarlegt landssvæði að ræða, skjólgott með “safaríkum” blettum. Ef einhvers staðar ætti að planta skógi á Reykjanesskagann – þá væri það þarna, undir hlíðum Meradals. Og þá skemmir litadýrðin ekki fyrir; fjólublátt Fagradalsfjalli, bláleitt Kistufelli, brúnleitar Meradalahlíðarnar og svarleitur Stórihrútur.
Haldið var að upphafsstað með því að ganga til austurs upp úr Meradal milli Stórahrúts og Hraunssels-Vatnssfells syðra um Einihlíðasand. Ljóst er að vorblómin hafa vaknað seint þetta árið. Blóðbergið og lambagrasið eru þó að koma til, en vetrarblómið virðist hafa ákveðið að kúra frameftir. Smá vætuíbleyta og hlýindi í par daga myndu nægja til að vekja það snemmendis.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Jarðabókin 1703.
-Örnefnalýsinar og landamerkjaskrár Grindavíkurbæjanna.

Dalssel

Dalssel.

 

Geldingadalir

Í frétt RÚV þann 19. mars 2021 segir frá eldgosinu í Geldingadölum í Fagradalsfjalli:
“Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli um klukkan korter í níu föstudagskvöldið 19. mars 2021. Í fyrri hluta apríl hafa fleiri gossprungur opnast. Engin hætta steðjar að byggð vegna gossins. Fjöldi fólks hefur lagt leið sína að gosinu.”

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – staðsetning eldgoss í Geldingadölum.

Framangreint gos í Geldingadölum kom svolítið á óvart hvað staðsetninguna varðar, en nokkrum mánuðum fyrr höfðu mælst verulegir jarðskjálftar norðan og norðvestan við Grindavík (Þorbjörn). Fargradalsfjall er hins vegar norðaustan og austan við Grindavík (Þorbjörn).

Í Wikipedia er fjallað um eldgosið í Fagradalsfjalli 2021 frá upphafi til loka:

Geldingadalur

Gígur í Geldingadal eftir gosið 2021.

“Eldgos hófst við Fagradalsfjall þann 19. mars 2021 kl. 20:45 í kjölfar jarðskjálftahrinu sem stóð í meira en 3 vikur. Öflugasti skjálftinn var 5.8 stig. Gosið kom úr kvikugangi sem náði frá Keili að Fagradalsfjalli. Kvikan fann sér fyrst leið til yfirborðs í Geldingadölum við austanvert Fagradalsfjall nærri Stóra-Hrúti. Eldgosið hefur einnig verið kallað Geldingadalagos eða Geldingadalsgos (þó í raun sé örnefnið Geldingadalir). Eldgosið er flokkað sem dyngjugos en slík gos eru fátíð. Kvikan er frumstæð kemur úr 17-20 kílómetra dýpi. Tegund hraunsins er helluhraun og apalhraun. Fleiri gígar opnuðust á upphafsvikum gossins en þegar á leið einangraðist virknin við einn gíg. Hundruð þúsunda hafa skoðað gosið. Eldgosið jók virkni sína eftir því sem á leið sem er óvanalegt.Fagradalsfjall

Gígurinn nyrst í Fagradalsfjalli.

Nær 800 ár voru síðan gaus síðast á Reykjanesskaga þegar Reykjaneseldar geysuðu. Og 6000 ár eru síðan gaus í Fagradalsfjalli. Þá rann Beinavörðuhraun.

Frá 18. september hætti hraunflæði frá gígnum. Gosið stóð í um hálft ár og er 4. lengsta gosið á 20. og 21. öld.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Sprunga var metin í byrjun um 200 metrar á lengd þegar þyrla Landhelgisgæslunnar náði fyrstu myndum en síðar 500 metrar. Þann 20. mars mat svo Páll Einarsson sprunguna sem 200 metrar en ofmat var á stærð hennar. Syðri endi tungunnar var nokkra km frá Suðurstrandarvegi. Hrauntungur runnu í suðsuðvestur og vestur í Geldingadali. Geldingadalir eru lokaðir og hraunstreymið varð að fylla dalinn til að komast áleiðis.

Reykjanesskagi

Geldingadalur; eldgos 2021.

Upphafi gossins er líkt við Fimmvörðuhálsgosið. Krýsuvíkurvegi og Fagradalsvegi var lokað. Degi fyrir gosið var búið að loka Suðurstrandarvegi vegna skemmda sem urðu á veginum í kjölfar jarðskjálftahrinunnar. Mengunarviðvörun var send til Árnessýslu þar sem vindáttin liggur í austur frá gosstaðnum, í átt að Hveragerði.

Nokkurn fjölda fólks dreif að og voru sumir vanbúnir, í slæmu skyggni og þurftu björgunarsveitir að bjarga týndu og hröktu fólki. Sumir fóru fullnálægt gígnum en tilmæli voru um. 21. mars var brekka upp að gígnum lokuð. En Almannavarnir og löggæsla bentu á að hrunið gæti úr gígnum og nýjar sprungur gætu opnast. Varað var við að hættulegt gas gæti safnast saman í lægðum í stilltu veðri.

Fólk gekk frá Svartsengi þar sem Suðurstrandarvegur var lokaður vegna viðgerða sökum skjálftanna. En ákveðið var að stika leið frá Suðurstrandarvegi þar sem það var öruggara og styttri.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – jarðýtur voru mættar til að stýra hraunflæðinu.

21. mars: Hraunið var metið 0,15 ferkílómetrar (Magnús Tumi Guðmundsson).
22. mars: Almannavarnir lokuðu svæðinu við eldgosið vegna gasmengunar.
24. mars: Tveir aðalgígar gjósa og eru samvaxnir. Hraunið fyllir nánast dalinn. Ferðamenn flykkjast á staðinn.
26. mars: Allt að tíu milljónir króna framlag var ákveðið af ríkinu til að bæta aðgengi fyrir þá sem vilja skoða gosstöðvarnar.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – glóandi hraun.

27. mars: Lokað var eftir hádegi vegna versnandi veðurs. Fylgst var með ferðamönnum með tilliti til sóttkvíarbrota.
28. mars: Hraunið þekur Geldingadalina. Vegagerðin býr til bílastæði þar sem gönguleiðin við Suðurstrandarveg byrjar.
31. mars: Flúormengun mælist í regnvatni við eldstöðvarnar. Ákveðið var að hafa opið frá 6-18 og rýma kl. 22 á svæðinu um páskana. Þekja hraunsins er um 0,3 ferkílómetrar.
2. apríl: Vart varð við fyrstu gjósku gossins eða ljósleitan vikur. Nornahár fannst einnig.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – margir skemmtu sér vel við hraunjaðarinn.

5. apríl: Nýjar sprungur opnuðust, 100-200 metrar að lengd, hálfum kílómetra norðaustan við gígana sem fyrir voru. Hraunelfur tók að renna niður í Meradali. Yfir 500 manns voru á gosstöðvunum og var svæðið rýmt. Virkni gíganna í Geldingadölum minnkaði og var talið að nýju sprungurnar væru hluti af sama kvikuinnskoti.
7. apríl: Ný sprunga, um 150 metra löng, opnast á milli hinna tveggja og rennur hraun í Geldingadali.
8. apríl: Flatarmál hrauns er 0,62 ferkílómetrar samkvæmt Jarðvísindastofnun og hefur hraunflæði aukist með nýjum gígum.
10. apríl: Fjórða sprungan opnaðist milli tveggja nýjustu. Svæði var afmarkað sem hættusvæði á gosstöðvunum þar sem líklegast er að sprungur opnist.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

13. apríl: Enn fleiri sprungur eða gígar opnast og rennur hraunið í suðurátt frá þeim.
16. apríl: Hraun tekur að renna austur úr Geldingadölum. Um fjórðungur landsmanna hefur gert sér ferð að gosinu, um 90 þúsund manns.
19. apríl: Nyrsti gígurinn sem var öflugur rétt eftir páska er kulnaður. Hraunið þekur alls tæpa 0,9 ferkílómetra.
27. apríl: Flatarmál hrauns er 1,13 ferkílómetrar. Virkni mest í syðsta gígnum þar sem strókarnir ná allt að 50 metrum. Virkni í elstu samliggjandi gígunum nær engin.
4. maí: Virknin í þessum eina gíg gengur með hléum og er kröftug inn á milli. Hraun hefur þeyst meira en 200 metra í loft. Rignt hefur gjósku og eru hættur á hraunbombum. Hættusvæði var endurskilgreint.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

10. maí: Lokað var fyrir aðgengi að gosstöðvunum vegna gróðurelda og óhagstæðrar vindáttar. Hæstu strókar hafa náð um 460 metra sem er hærra en Empire State-byggingin.
11 maí: Hraunrennsli er tvöfalt öflugra en það hefur alla jafnan verið. Flatarmál er 1,8 ferkílómetrar (á við Elliðavatn) og hefur hraun fyllt Syðri-Meradal ( þó kallaður Nafnlausi dalurinn af sumum) suðaustur af gígnum.
14. maí: Hafist var handa að reisa varnargarða norður af Nátthaga til að hindra flæði hrauns niður dal í átt að Suðurstrandarvegi.
22. maí: Hraunið fór yfir eystri varnargarðanna og tók að flæða niður að Nátthaga.
1. júní: Hrauntungur ógna útsýnishólnum sem er nálægt gígnum og vestari varnargarðinum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – hraunmyndun.

4. júní: Hraunrennsli lokar fyrir Gónhól og vestari varnargarðar rofna. Stærð hraunsins er nær 3 ferkílómetrar.
10. júní: Virkni gossins hefur breyst. Í stað reglulegra gosstróka fossar stöðugt úr gígnum.
13. júní: Hrauntaumur rennur frá Geldingadölum og niður í Nátthaga og rýfur þar með gönguleið A.
18. júní: Hraun fyllir Nátthaga og nálgast haft suðvestan við hann. Hraunið nálgast Suðurstrandarveg. Ákveðið er að byggja ekki varnargarða til að vernda veginn. Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

26. júní: Varnargarður er byggður við suðvesturenda Nátthaga. Bandarískur ferðamaður týndist við gosstöðvarnar og sást síðast norður af Stóra Hrúti. Hann fannst meira en sólarhring seinna og hafði slasast og týnst. Gönguleið C meðfram Langahrygg er orðin aðalleiðin til að sjá gíginn.
7. júlí: Í byrjun júlí minnkaði virkni í gígnum og tók hann löng hlé. 7. júlí hafði verið hlé í nær 2 sólarhringa en loks sást í glóð í gígnum þó kvika ylli ekki upp úr honum.
23. júlí: Gosið hefur runnið í Meradali síðustu 3 vikur. Hraunflæði hefur minnkað og telur Magnús Tumi jarðeðlisfræðingur að gosið sé að fjara út á næstu vikum eða 2 mánuðum. Hraunið þekur 4 ferkílómetra.
16. ágúst: Nýr gígur opnast við hliðina á aðalgígnum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

5. september: Rýkur úr gígnum en sést ekki í kviku. Gosið er í næstlengsta hléi frá upphafi.
11. september: Gosið heldur áfram en gosrás gígsins hafði verið stífluð. Hraun flæðir utan í gígnum eða í göngum.
15. september: Hraun tekur að flæða niður í Nátthaga úr mismunandi áttum úr hrauntjörn í Geldingadölum þar sem er yfirflæði. Svæðið á gönguleið A var rýmt og lokað tímabundið. Eldgosið er 6 mánaða og er gígurinn orðinn 334 metra hár.
14. október: Ekki hefur gosið í rúman mánuð eða frá 18. september. Rýkur þó úr gígnum. Flatarmál hrauns er tæpir 5 ferkílómetrar.
1. nóvember: Gosinu í Geldingadölum er formlega lokið. Leitarþyrst hellaáhugafólk þarf þó að bíða enn um stund til að geta metið og skoðað aðstæður í hrauninu.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

Á Vísindavef HÍ var spurt: Hversu stórt var gosið í Geldingadölum?
“Gos í Geldingadölum hófst 19. mars 2021 og tveimur mánuðum síðar, 17. maí, birtist á Vísindavefnum svar við spurningunni Er líklegt að gosið í Geldingadölum standi lengi? Í svarinu voru færð að því rök, byggt á gefnum forsendum, að ólíklegt væri að gosið yrði langvinnt eða hraunið rúmmálsmikið. Öll eru þessi hugtök – langt og stutt, lítið og stórt – afstæð og merkingarlítil án tiltekins viðmiðs. Því fylgir hér til samanburðar þríein tafla yfir lengd, rúmmál og afl 14 gosa þar sem þessir þættir eru þekktir eða áætlaðir. Töflunni er sem sagt raðað upp á þrjá vegu eftir vaxandi gildi hvers hinna þriggja þátta.
Samkvæmt töflunni hlýtur gosið í Geldingadölum að teljast nokkuð langt meðal samfelldra gosa á 20. og 21. öld – aðeins Heklugosið 1947-48, Surtseyjargosið 1963-67 og Kröflueldar 1975-84 vöruðu lengur; Heklugosið 1980-81 mætti virðast lengra, en var í rauninni tvö stutt gos (3 og 7 dagar) með 7 mánaða hléi á milli og Kröflueldar voru röð smærri gosa með hléum á milli.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – megingígurinn.

Gosið í Geldingadölum telst nokkuð langt meðal samfelldra gosa á 20. og 21. öld. Það er hins vegar neðarlega á lista yfir rúmmál gosefna og næstaftast á lista þar sem miðað er við meðalafl 14 þekktra gosa.

Geldingadalur

Geldingadalur; gígur eftir eldgosið 2021.

Hvað varðar rúmmál gosefna eru Geldingadalir neðarlega á lista, aðeins hraun flæðigosanna úr Öskju 1961, Heklu 1981 og Fimmvörðuhálsi 2010 eru minni. Og hvað meðalafl (m3/sek) gossins snertir voru Geldingadalir raunar næstaftastir á merinni – aðeins afl 7–daga flæðigoss Heklu 1981 var minna. Lágar tölur fyrir afl Kröfluelda og Heklu 1980-81 stafa af því að tímalengdin er talin frá upphafi eldsumbrotanna til enda.
Öflugustu gosin á listanum eru annars vegar flæðigosin miklu, Skaftáreldar 1783-84 og Holuhraun 2014-15, og hins vegar sprengigos, hrein (Hekla 1980) eða með „stuttum flæðigoshala“ (Hekla 1991 og 2000) – sprengihluti Heklu 1947 var gríðarlega öflugur en honum fylgdi langvarandi hraunflæði.
Samkvæmt þessu reyndist höfundur svarsins á Vísindavefnum 17. maí 2021 ekki sannspár um væntanlega lengd gossins í Geldingadölum, en um hin atriðin tvö – hvort gosið marki upphaf nýrra Reykjaneselda, og hvort gossprungurnar muni teygja sig langar leiðir – mun framtíðin ein eiga svör.”

Hér má sjá MYNDIR af eldgosinu í Geldingadölum.

Heimildir:
-https://www.ruv.is/frett/2021/03/18/eldgosid-i-geldingadolum-i-beinni-utsendingu
-https://is.wikipedia.org/wiki/Eldgosi%C3%B0_vi%C3%B0_Fagradalsfjall_2021
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=82586

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – fjölmargir lögðu leið sína að gosstöðvunum á meðan var.

Fagradalsfjall

Í 12. lið fundargerðar Bæjarráðs Grindavíkur þann 5. maí 2021 má lesa eftirfarandi um örnefnanefnu í Fagradalsfjalli:

“Nafn á nýju hrauni og gígum við Fagradalsfjall – 2103090.
Lögð fram umsögn Örnefndanefndar á heiti á nýju hrauni og gígum í mótun við Fagradalsfjall. Með vísan til laga nr. 22/2015 leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að nýtt hraun austan Fagradalsfjalls verði nefnt Fagradalshraun.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – Fagridalur efst til vinstri.

Skv. framangreindu virðast hlutaðeigendur ekki vera meðvitaðir um staðhætti í og við Fagradalsfjall. Fjallið er nefnt eftir Fagradal norðan þess. Dalurinn er óháður gosstöðvunum í Geldingadölum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – örnefni (ÓSÁ).

Í Fagradal eru m.a. Nauthólar og Dalssel, fyrrum selstaða frá Þórkötlustöðum. Hún hvílir þar við uppþornaðan lækjarfarveg er áður myndaði Aurana neðar í dalnum.
Gígar hraunsins, er málið snýst um, urðu til á sprungu uppi í hlíðum Geldingadala – í miðju Fagradalsfjalli. Sunnar er Hrútadalur millum Einihlíða og Langahryggs og norðaustar eru Merardalir millum Merardalahnúka og Stóra-Hrúts. Afurð gíganna rann fyrst niður í Geldingadali, annars gróðurlitlar kvosir og kaffærði meinta dys Ísólfs á Skála, áður en hún tók upp á því að venda niður í Merardali.
Nefnt hraun hefur, a.m.k ekki hingað til, runnið niður í Fagradal. Til þess þyrfi það að fylla Gildingadalina upp fyrir neðanverðan Langhól eða Merardalina út fyrir Merardalahnúkana og síðan renna upp á við sunnan Þráinsskjaldar áður en það gæti náð rennsli milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells og Fagradals-Hagafells.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Í örnefnalýsingu fyrir Hraun segir m.a. um Fagradalsdalsfjall og nágrenni:

Fagradasfjall

Fagradalsfjall – herforingjaráðskort.

“Borgarfjall er eiginlega fremsti hluti Fagradalsfjalls en Fagradalsfjall er eitt stærsta fjall á Reykjanesskaga. Á milli Borgarfjalls og Mókletta er Borgarhraun. Vinkillaga flatlendi framan við Fagradalsfjall heitir Nátthagakriki. Einbúi er þar nokkuð stór stakur hóll. Selskál er grasbrekka framan í Fagradalsfjalli. Trippalágar er graslendi á milli Borgarhrauns og Beinavörðuhrauns og nær fram að Móklettum. Vestan við Trippalágar við hraunjaðarinn á Beinavörðuhrauni er Bleikshóll. Kast er fell sem gengur út úr Fagradalsfjalli að suðvestan. Görn heitir skarðið á milli og nær hún alla leið inn í Innstadal. Stóragil er uppi á fjallinu fyrir ofan Innstadal. Norður af Kasti eru allháir grasgeirar í fjallshlíðinni og heita Fremstidalur, Miðdalur og Innstidalur. Þetta eru ekki raunverulegir dalir heldur brekkur og kvosir.

Kastið

Kastið.

Hraunið vestur af Kasti heitir Beinavörðuhraun og nær fram að Hrafnshlíð, Fiskidalsfjalli og Vatnsheiði. Norður á móts við áður getinna er hraunið mikið sléttara með stórum mosaþembum og heitir þar Dalahraun. Í Dalahrauni eru tveir hólar með nokkru millibili og heita Innri-Sandhóll og Sandhóll sem er hærri og sunnar.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Gömul gata inn með Fagradalsfjalli að vestan og allt til Voga heitir Sandakravegur. Norðan við hraunið eru Nauthólaflatir og ná þær upp að Fagradalsfjalli. Dalssel heitir innst með fjallinu fyrir norðan Nauthólaflatir. Austast á Nauthólaflötum er hóll sem heitir Nauthóll. Vestan flatanna er uppblásið land, nú aurmelar, kallað Aurar en hét áður fyrr Fagridalur og er svo nefnt á korti. Nyrsti hluti Fagradalsfjalls heitir Fagradalsvatnsfell og er í landi Þórkötlustaða. Þar norður af er Fagradalshagafell, lítt áberandi að norðanverðu. Vatnskatlar uppi á Fagradalshagafelli eru landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Eitthvað af nefndum örnefnum vestan Fagradalsfjalls að innanverðu gætu verið í landi Þórkötlustaða.

Uppi á Fagradalsfjalli er hæsti hnúkur á norðausturhorninu og heitir Langhóll. Að suðaustan er annar hnúkur og heitir sá Stórhóll.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Austan undir Borgarfjalli og á milli þess og Langahryggs er Nátthagi. Þetta er nokkuð breitt skarð á milli fjallanna og við suðurenda þess er Drykkjarsteinsdalur. Austan undir Fagradalsfjalli og norðan við Nátthagaskarð og í austur frá Stórhól er smáás og heitir Nátthagaskarð. Þar norður af eru Geldingadalir. Smádalkvosir grónar nokkuð. Þar er sagt að Ísólfur, fyrsti ábúandi á Ísólfsskála, sé grafinn og hafi hann viljað láta grafa sig þar sem geldingarnir hans höfðu það best.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.

Norðaustur frá Langhól er lítið fell fast við Fagradalsfjall sem heitir Kálffell. Norð-norðaustur af Langahrygg er Stóri-Hrútur og síðan þar norður af Meradalir. Þetta eru gróðurlitlar leirflatir.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Þar norður af eru Meradalshlíðar og vestur frá þeim er Kistufell í austur frá Langhól. Norður af Meradalshlíðum er Litli-Hrútur og þar norður af er Litli-Keilir.

Þaðan í norðaustur er Keilir, alþekkt fjall. Austan undir Kistufelli er smáhryggur sem nefndur er Rjúpnahryggur. Þarna eru víðast hraun á milli fjallanna og örnefnalaust.

Suðaustan og framan í Langahrygg eru Lyngbrekkur og þar framan við er Stóri-Leirdalur. Austan við Langahrygg eru Einihlíðar. Þetta eru ávalar, gróðurlitlar bungur en hafa sjálfsagt verið vel grónar þegar þær hlutu nafn. Litli-Leirdalur er framan við Einihlíðar að vestan og hlíðin þar austur af, þar sem gamli Krýsuvíkurvegurinn liggur upp, heitir Brattháls (Skyggnir). Litli-Hrútur heitir nyrsti hluti Einihlíða. Þverbrekkur heita grasigrónar brekkur nyrst í Litla-Leirdal.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Skarðið á milli Langahryggs og Einihlíða heitir Hrútadalur og við hann eru Hrútadalsbörð. Austan í Einihlíðum eru allmiklar grasigrónar kvosir og heita Bratthálskrókur sú fremri og Einihlíðarkrókur sú innri. Sandurinn þar norður af inn með Einihlíðum heitir Einihlíðasandur.

Geldingardalur

Geldingadalur – dys Ísólfs.

Örnefnanefnd og fulltrúar Grindavíkurbæjar virðast, skv. ofangreindu, fara villu vegar er þeir ákveða að nefna hið nýja hraun í Geldingadölum “Fagradalshraun“. Til álita kæmu hins vegar með réttu örnefnin “Fagrahraun”, “Fagradalsfjallshraun” eða “Geldingadalahraun”. En örnefnið “Fagradalshraun” til framtíðar litið er eins og út úr kú, a.m.k. að teknu tilliti til framangreindra örnefna. Fulltrúum Grindavíkurbæjar er þó fyrirgefið því flestir þeirra virðast vera aðkomnir, en ekki er vitað undan hvaða hól fulltrúar Örnefnanefndar hafa skriðið. Ef örnefnið verður að veruleika mun það verða sem myllusteinn um háls nefndarinnar um ókomna tíð…

Sjá meira um Fagradal HÉR.

Fagradalsfjall

Fagridalur – Nauthólar og Dalssel.