Ætlunin var m.a. að skoða hvort enn mætti greina spor hinnar fornu leiðar Grindvíkinga áleiðis inn á Selsvelli. Spurning var hvort líklegra var að leiðin hafi legið norður með vestanverðu Sandfelli eða því austanverðu. Báðar leiðirnar gætu hafa verið farnar, allt eftir því hvort leiðin lá í Hraunssel eða á Selsvelli. Austari leiðin var líklegri á fyrrnefnda staðinn. Þaðan liggur leiðin yfir slétt Skolahraun (helluhraun) að Þrengslum undir vestanverðum Núpshlíðarhálsi (Vesturhálsi). Sunnar er Leggjabrjótshraun (apalhraun), erfiðara yfirferðar. Þó lá þar yfir ruddur, varðaður, vegur allnokkru sunnar. Sá vegur var endurgerður, lagfærður og breikkaður, með svonefndum “Hlínarvegi” skömmu eftir 1930 er hann var gerður akfær til Krýsuvíkur með það að markmiði að flytja útvegsbændum í Grindvík nýslegna töðu, að sjálfsögðu gegn gjaldi. Vegagerðin frá Ísólfsskála (Drykkjarsteinsdal) til Krýsuvíkur kostaði þá um 500 krónur og tók það fjóra menn ásamt kúsk lungann úr sumrinu að framkvæma verkið. Hlín Johnsen, þá sérstakur verndari og umönnunarstýra þjóðskáldsins Einars Benediktssonar, greiddi fram vinnulaun að verki loknu, en Einar átti þá bæði Krýsuvík og Herdísarvík. Einar sjálfur, þótt stór væri, var þá lítill fyrir mann að sjá, enda ofsóttur jafnt í rökkri og myrkri, bæði af Þistilfjarðar Sólborgu og öðrum sektarkenndum.
Gengið var yfir Skolahraun. Slétt helluhraunið er að öllum líkindum úr Þránsskildi, en ofan á því er mjó apalræma til suðurs, líklega úr gosinu 1151.
Slóðar liggja yfir slétt hraunið og hefur mosinn farið illa af utanvegaakstri. Komið var að norðanverðu Hraunsseli. Augljóst er að þarna hafa verið tvær selstöður. Í selinu eru bæði tóftir nýrri og eldri selja. Nýrri selin eru undir Núpshlíðarhálsinum, en þau eldri bæði norðan við nýrri selin undir hlíðinni og einnig vestar, nálægt grónum hraunkanti. Þær eru nær jarðlægar. Vestan þeirra tófta er tvískiptur hlaðinn stekkur. Norðan hans er hlaðinn ferköntuð tóft undir hraunbakka, hugsanlega kví. Grösug skál er í hlíðinni ofan við selið. Þar má m.a. sjá leifar hverasvæðis, sem ekki er langt um liðið síðan kulnaði.
Þetta eru sennilega rústir hins síðasta umbúna sels á Reykjanesskaganum, er talið er að hafi lagst af um 1914, með efasemdum þó, því sel voru almennt að leggjast niður á þessu landssvæði á seinni hluta 19. aldar. Þeim hafði þá verið viðhaldið, með tilfærslum, hléum og margfaldlegri endurgerð, allt frá landnámi no
rrænna manna hér á landi (871 +/- 2). Selstöður virtust hafa verið mikilvægur þáttur í búsetusögu svæðisins um langan tíma. FERLIR hefur þegar skoðað rúmlega 255 selstöður í landnámi Ingólfs, sem enn eru sýnilegar minjar um, og eru þó allnokkur enn óskoðuð, s.s. norðan Esjufjalla að Botnsá. Þótt margt sé líkt með rústunum er einnig nokkuð ólíkt með þeim. Það verður allt betur rakið með umfjöllun síðar.
Í landamerkjabréfi fyrir Hraun segir m.a. að merkin hafi verið “frá Vatnskötlum fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan til austurs á Selsvallarfjall upp af Sogaselsdal.” Í fyrsta lagi heita Vatnskatlarnir nú á landakortum Fagradals-Vatnsfell og Hraun lýsir merkjum í Selsvallarfjall.Â
Samkvæmt heimild úr Jarðabók ÁM 1703 á Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd selstöðu í Sogaseli er það sagt í Stóru Vatnsleysulandi. Selið hins vegar, sem lá undir Hraun (Hraunssel), er fyrir sunnan Þrengslin og þannig innan merkja Hrauns samkvæmt þessari skilgreiningu. Þá má að lokum benda á að fyrir norðan þessa línu og almennt á Selsvöllunum var almenningsselstaða frá Grindavík og ennfremur frá Vatnsleysuströnd”. Hafa ber þó í huga að landamerki Þórkötlustaða stangast verulega á við landamerkjalýsingu Hrauns þar sem m.a. Dalsselið vestan Langhóls er innan landamerkja þeirra. Ef rétt er þá er Dalsselið í landi Þórkötlustaða, en Vogabændur og Grindvíkingar hafa jafnan deilt um tilveru þess inna þeirra marka – hvors um sig.
Í örnefnaskrá fyrir Ísólfsskála segir m.a. um merkin: “Allmiklu skakkar hér um landlýsingu þeirra nágrannanna [Hrauns]. En merkjabókin segir merki Ísólfsskála þannig: Úr fjöru við Festargnípu vestan við svonefndan Skálasand til norðurs að merktum kletti við götuna á Móklettum, svo til austurs í miðja suðuröxl á Borgarfjalli.
Samkvæmt þessu ætti Hraunssel að hafa verið í landi Ísólfsskála og gert út þaðan. Þeir nágrannar gætu þó hafa komið sér saman um selstöðu undir hálsinum og verið þar með sitthvort selið. Það myndi a.m.k. skýra seltóftirnar. Ef svo er þá eru fundið selið frá Ísólfsskála, sem og selið frá Þórkötlustöðum, þ.e. Dalsselið.
Járngerðarstaðir og Staður hafa síðan haft selstöður á Baðsvöllum og síðar á Selsvöllum.
Ritari, sem reyndar er hlutdrægur, hefur reyndar talið langlíklegast að Dalselið hafi verið frá Þórkötlustaðabæjunum fyrrum.
Í örnefnalýsingum þaðan, segir að “úr Stóra-Skógfelli [á að vera Litla-Skógfelli til samræmis við aðrar lýsingar] liggur markalínan í gjána í Kálffelli en það er lágt fell eða bunga sem er framarlega í Kálffellsheiði . Frá Kálffelli liggja landamerkin í vatnskatla í Fagradals-Hagafelli og þaðan í Innstuhæð á Vatnsheiði eins og áður segir. Samkv. þessu er Sandhóll, sem er vestur af Kasti, og Fagridalur, sem er kvos inn í Fagradalsfjall austan við Aura, í landi Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell,sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða. Aurar heita melar innan við og austan Dalahraun og þar norður af eru grasflatir sem heita Nauthólaflatir. Þar var heyjað af bændum á Þórkötlustöðum.”
“brúkar selstöðu og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar sem heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sje ljeð frá Krýsuvík, en Krýsuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þorkötlustðalandi. Er selstaðan að sönnun góð, en mikilega lángt og erfitt að sækja”. Hóp þarf að kaupa út selstöðu, en Járngerðarstaðir “brúkar selstöðu enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar oflitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein af vatnsleysi, þá þerrar eru, og fyrir þessa lseti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarsstaðar. Þessa brúkar bóndinn aleina”. Þarna gæti verið komið tilefni til þess að ætla að Selsvallaselstaðan, sem Járngerðarstaðabændur nýttu síðar, hafi fengist framseld frá Stað. Í Jarðabókinni 1703 segir að selstaða Staðar “sé góð til haga, en lángt og erfitt til að sækja, hefur þó hjeðan frá staðnum brúkuð verið lxxx ár á Selsvöllum”.
Eftir að hafa skoðað minjar seljanna (því þau eru fleiri en eitt frá mismunandi tímum), var gengið norðvestur eftir áberandi götu yfir Skolahraunið með stefnu milli Hraunssels-Vatnsfellanna. Mikil umferð hefur verið þarna. Gatan liggur yfir hið mjóa apalhaft. Hún gefur vísbendinu uma ð nokkur umferð hafi verið inn að Hraunsseli neðan úr Vogum eða Vatnsleysuströnd svo ekki er með öllu hægt að útiloka að selstaðan hafi um tíma verið sótt þaðan.
Þegar komið var yfir í Meradalahlíðar var ákveðið að halda áfram til vesturs austan Kisturfells (335 m.y.s.). Kistufell og Keilir, með Litla-Keili og Litlahrút á millum býður upp á skemmtilegt sjónarhorn inn á efstu brún Þráinsskjaldar, hinnar miklu og tilkomuríku dyngjudrottningu Reykjanesskagans. Þaðan er hægt að ganga að einum fallegasta gíg Skagans, nyrst í Fagradalsfjalli (Langhól). Gígurinn, sem er um 70 metra hár, er þverskorinn, þ.e. það sést inn í hann úr norðri og því auðvelt á áætla hvernig gígopið hafi litið út áður en roföflin tóku yfirhöndina.
Þegar staðið er þarna má í rauninni sjá nokkra “keilira”, því auk Keilis er Sandfell í suðaustri, Stórihrútur í suðri og Litlihrútur í norðvestri öll með sömu lögun. Keilir nýtur hins vegar þeirrar sérstöðu sinnar að standa stakur og því meira áberandi fyrir þá, sem ekki hafa nennu til að stíga svolítið afsíðis frá malbikinu.
Gengið var til suðurs niður í Meradali. Hér er um einstaklega stórt, sléttbotna og myndarlegt landssvæði að ræða, skjólgott með “safaríkum” blettum. Ef einhvers staðar ætti að planta skógi á Reykjanesskagann – þá væri það þarna, undir hlíðum Meradals. Og þá skemmir litadýrðin ekki fyrir; fjólublátt Fagradalsfjalli, bláleitt Kistufelli, brúnleitar Meradalahlíðarnar og svarleitur Stórihrútur.
Haldið var að upphafsstað með því að ganga til austurs upp úr Meradal milli Stórahrúts og Hraunssels-Vatnssfells syðra um Einihlíðasand. Ljóst er að vorblómin hafa vaknað seint þetta árið. Blóðbergið og lambagrasið eru þó að koma til, en vetrarblómið virðist hafa ákveðið að kúra frameftir. Smá vætuíbleyta og hlýindi í par daga myndu nægja til að vekja það snemmendis.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-Jarðabókin 1703.
-Örnefnalýsinar og landamerkjaskrár Grindavíkurbæjanna.