Dalssel

Á Vísindavefnum er spurt: “Hvað er vitað um örnefnin Fagridalur og Fagradalsfjall á Reykjanesskaga?”
Birna Lárusdóttir, fornleifafræðingur og sérfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, svaraði eftirfarandi:

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – herforingjakort frá 1910. Fagridalur efst t.v.

“Fagradalsörnefni hafa verið mikið í umræðunni undanfarið í kjölfar eldgoss í Geldingadölum, en lítið hefur þó farið fyrir sjálfum Fagradal sem er norðan undir Fagradalsfjalli. Honum hefur verið lýst sem uppblásnu landi eða aurmelum, en svæðið hefur í seinni tíð einfaldlega verið kallað Aurar af heimamönnum ef marka má örnefnalýsingar, þótt Fagradalsnafnið lifi góðu lífi á ýmsum kortum.

Fagradalsfjall

Fagridalur – Nauthólar og Dalssel.

Örnefnið Fagridalur á sér langa sögu. Þess er getið í gömlu skjali sem var skrifað upp eftir afgömlum og rotnum blöðum úr bréfabók Gísla Jónssonar sem líklegast er frá því um 1500 — en nafnið gæti hæglega verið eldra. Í skjalinu er fjallað um landamerki milli Voga og Grindavíkur og talið að Vogar eigi land neðan frá að Kálfsfelli og upp að Vatnskötlum fyrir innan Fagradal. Markalínan milli hreppanna tveggja hefur annars löngum verið umdeild og Fagridalur komið þar við sögu. Í upphafi 18. aldar var til að mynda uppi ágreiningur um selstöðu í dalnum og vildu hvorir tveggja, Stóru-Vogamenn og Járngerðarstaðamenn, eigna sér hana fyrir búpening sinn. Það gæti bent til að þar hafi enn verið einhverjar gróðurtorfur og þótt vænlegt til sumarbeitar, en mörg örnefni með forliðnum Fagri-/Fagra- vísa einmitt til grænku og góðra nytja — ekki síst ef samanburðurinn er kolsvört hraun eða örfoka svæði. Tóftir selsins sem rifist var um, Dalssels, eru enn sýnilegar. Í heimildum frá árinu 1840 er dalurinn sagður stórgrýttur af skriðum og graslítill, þó er tekið fram að hann hafi fyrrum verið fagur.

Dalssel

Dalssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þótt Fagridalur sé ekki í alfaraleið, og formlega séð hafi nafnið verið fallið úr notkun staðkunnugra um miðja 20. öld, hefur hann sett ótvírætt mark á önnur örnefni í kring. Fagradalsfjall er kennt við dalinn og sömuleiðis hefur nafni hans verið skeytt framan við nöfn tveggja fella sem eru kölluð Fagradals-Vatnsfell og Fagradals-Hagafell — til aðgreiningar frá öðrum samnefndum fellum sem eru austar og kennd við Hraunssel. Þetta eitt og sér bendir til að Fagridalur hafi verið vel þekktur og miðlægur í vitund þeirra sem þekktu til landslags á svæðinu, kannski ekki síst vegna landamerkjadeilna, selstöðunnar og götu sem tengdi byggðir á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaga og lá um dalinn.
Nýlega hefur enn eitt örnefni bæst í afsprengjahóp Fagradals, Fagradalshraun, sem dregur þó nafn sitt ekki beint af dalnum (enda rennur það ekki um hann) heldur fremur af Fagradalsfjalli og eldstöðvarkerfinu, Fagradalsfjallskerfinu.”

Fagridalur

Í Fagridal.

Þess má geta í Örnefnalýsingu Lofts Jónssonar fyrir Hraun er þess getið að selið í Fagradal [Dalssel] sé í landi Þórkötlustaða, en ekki Járngerðarstaða, sbr:
“Austast á Nauthólaflötum er hóll sem heitir Nauthóll. Vestan flatanna er uppblásið land, nú aurmelar, kallað Aurar en hét áður fyrr Fagridalur og er svo nefnt á korti. Nyrsti hluti Fagradalsfjalls heitir Fagradalsvatnsfell og er í landi Þórkötlustaða. Þar norður af er Fagradalshagafell, lítt áberandi að norðanverðu. Vatnskatlar uppi á Fagradalshagafelli eru landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Eitthvað af nefndum örnefnum vestan Fagradalsfjalls að innanverðu gætu verið í landi Þórkötlustaða.”
Við þetta má bæta að Aurar og Fagridalur eru sitthvað. Fagridalur var gróinn og er það enn að hluta, líkt og nafnið bendir til, en Aurarnir eru norðvestan dalsins, suðaustan við Kálffell (sem er þó annað er sýnt er á kortinu. Það Kálffell er efst í Vogaheiðinni og hýsir m.a. Oddshelli og fjárskjólin honum tengdum). Aurar eru afurð lækjar er rann niður um norðanverðan Fagradal og myndaði þá neðan dalsins. Dalsselið frá Þórkötlustöðum var á bakka lækjarins, sem nú hefur þornað upp.

Sjá meira um Fagradal og “Fagradalshraun” HÉR.

Heimildir:
Diplomatarium Islandicum/Íslenzkt fornbréfasafn, 7. bindi, Reykjavík 1902-1907.
„Fagradalshraun og Fagrahraun urðu fyrir valinu.“
Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Sögufélag 2007.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 3. bindi. Kaupmannahöfn 1923-24.
Sesselja G. Guðmundsdóttir. Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla Keflavíkurvegarins). 2. útg. aukin og endurskoðuð. Lionsklúbburinn Keilir 2007.
Örnefnalýsing Hrauns í Grindavíkurhreppi e. Ara Gíslason. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Örnefnalýsing Hrauns í Grindavíkurhreppi e. Loft Jónsson. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81912

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – Fagridalur efst til vinstri.