Hellyerstímabilið í Hafnarfirði 1924-1929 – I

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður kemur víða við sögu togaraútgerðar á Íslandi.

Togarinn Coot.

Togarinn Coot. Fyrsti togari Íslendinga, Coot, var gerður út frá Hafnarfirði á árunum 1905-1908. Skipið var 98 fet á lengd, búið 225 hestafla gufuvél og var búið til botnvörpuveiða.

Fyrsti íslenski togarinn, Coot, var gerður þaðan út og Pike Ward gerði út togarann sinn, Utopiu, frá Hafnarfirði. Seinna má segja að Hafnarfjörður verði snemma aðalmiðstöð fyrir erlenda togaraútgerð á Íslandi. Ber þar fyrst að nefna Booklessbræður frá Aberdeen. Þeir keyptu fiskaðgerðarstöð í Hafnarfirði árið 1910 og höfðu þaðan meiri og minni útgerð og annan atvinnurekstur til ársins 1922. Um tíma áttu þeir fjóra togara sem stunduðu veiðar frá Hafnarfirði. Þá keyptu þeir fisk af togurum, bæði breskum og hollenskum. Einnig hafði fyrirtækið A.D. Birrel & Co. keypt fiskverkunarstöð í Hafnarfirði og lögðu togarar upp hjá því á árunum 1910-14. Fleiri erlendir togarar bæði norskir og þýskir lögðu upp afla sinn í Hafnarfirði um þetta leyti.

Hafnarfjörður

Verksmiðjuhús Bookless.

Hafnfirðingar höfðu mikla atvinnu af þessari starfsemi en skjótt skipast veður í lofti. Á árunum 1922 og 1923 var mikið atvinnuleysi í Hafnarfirði. Booklessbræður höfðu orðið gjaldþrota 1922 og ný lög, sem samþykkt voru sama ár á Alþingi, komu í veg fyrir að aðrir erlendir útgerðarmenn gætu hlaupið í skarðið. Í lögunum var lagt bann við því að útlend skip lönduðu afla sínum á Íslandi og seldu hann íslenskum ríkisborgurum til verkunar.
Þessi lög voru sett til að hindra síldveiðar Norðmanna fyrir Norðurlandi en þau giltu einnig um þorskveiðar. Þetta kom sér einkum illa fyrir Hafnfirðinga.

Hafnarfjörður

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar beitti sér nú fyrir því að undanþága fengist frá þessum lögum til þess að annað erlent fyrirtæki gæti keypt þá aðstöðu sem Booklessbræður höfðu áður. Hér var á ferðinni útgerðarfyrirtækið Hellyer Bros. Ltd. í Hull. Í samráði við stjórnvöld var sú leið farin að Geir Zóega var fenginn til að taka togara Hellyersbræðra á leigu og taldist það ekki brjóta í bága við ákvæði laganna. Hellyersbræður hófu útgerð sex togara frá Hafnarfirði á vetrarvertíð 1924.
HafnarfjörðurÁri síðar fékk fyrirtækið sérstaka lagaheimild til að reka útgerð sína í Hafnarfirði sem sjálfstætt fyrirtæki um átta ára skeið. Fyrstu vertíðina voru enskir skipstjórar á togurum Hellyers en síðan voru fiskiskipstjórarnir íslenskir. Á togurunum voru enskir flaggskipstjórar sem voru leppar því íslensku fiskiskipstjórarnir höfðu ekki ensk skipstjórnarréttindi. Einnig voru enskir stýrimenn á togurunum sem leppar. Þessir menn stunduðu ekki vinnu um borð en voru þarna aðeins til að fullnægja formsatriðum. Meðal þeirra togara sem Hellyersbræður gerðu út frá Hafnarfirði var stærsti og fullkomnasti togarinn í eigu Englendinga á þessum tíma, Imperialist, og var Tryggvi Ófeigsson skipstjóri á honum.

Hafnarfjörður

Tryggvi Ófeigsson (1896-1987). Tryggvi Ófeigsson var skipstjóri og síðar útgerðarmaður í Hafnarfirði og Reykjavík, tók við Imperialist nýsmíðuðum í Hull í mars árið 1925. Tryggvi var svo með Imperíalist til ársins 1929. Það ár hættu Hellyersbræður allri útgerð og fiskvinnslu á Íslandi. Tryggvi gekk svo inn í útgerðarfélagið h/f Júpíter í Hafnarfirði sem stofnað var 26 júlí 1929, með Lofti Baldvinssyni og Þórarni Olgeirssyni, sem árið 1925 höfðu látið smíða skip fyrir sig í Beverley, það skip var Júpíter GK 161. Tryggvi varð svo skipstjóri á honum til 1929.

Tryggvi stofnaði síðan eigin útgerð eftir að Hellyersbræður fóru héðan. Tryggvi ber Hellyersbræðrum vel söguna í ævisögu sinni og segir að þeir hafi verið bjargvættir Hafnarfjarðar. Hellyerbræður hættu útgerð sinni frá Hafnarfirði í nóvember 1929. Síðustu árin hafði orðið taprekstur á fyrirtækinu. Einnig átti það í vinnudeilum hér heima og ágreiningur kom upp við Hafnarfjarðarbæ um útsvarsgreiðslur.

Í Lesbók Morgunblaðsins  1995 fjallar Snorri Jónsson um „Atvinnusögu Hafnarfjarðar 1924-1926, Hellyerstímabilið„. Byggir hann á endurminningum Gísla Sigurgeirssonar. Um er að ræða fyrsta kafla af fjórum.

„Hellyersbræður voru enskir útgerðarmenn sem gerðu út frá Hull en ráku á tímabili umfangsmikla togaraútgerð og saltfiskverkun frá Hafnarfirði. Algengt var að þetta tímabil, 1924-1929, væri kennt við þá bræður í Hafnarfirði. Frásögn Gísla Sigurgeirssonar kemur þó miklu víðar við og gefur á gamansaman hátt hugmynd um aldaranda og daglegt líf í Firðinum á þessum tíma. – Fyrsti hluti af fjórum.

„Veturinn 1922-23 var mikið atvinnuleysi í Hafnarfirði eins og reyndar átt hafði sér stað áður, en að þessu sinni keyrði ástandið um þverbak, engin hreyfing á neinu — ekkert að gera. Hið stóra og umfangsmikla útgerðarfirma, Bookless Bros Ltd. frá Aberdeen, hafði orðið gjaldþrota 1922. Svo alvarlegt þótti ástandið að haldinn var um málið almennur borgarafundur á haustmánuði 1923. Óttuðust menn að fjöldi fólks yrði að flytja búferlum úr bænum og fasteignir yrðu óseljanlegar. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru boðaðir á fundinn og mættu þeir báðir, Klemenz Jónsson og Sigurður Eggerz. Skorað var á þá að gefa undanþágu frá því ákvæði fiskveiðilaganna sem bannaði útlendingum að leggja afla sinn hér á land, en ráðherrarnir töldu að hægt yrði að komast hjá banninu ef Íslendingar tækju á leigu erlend fiskiskip.

Snorri Jónsson

Snorri Jónsson (1928-2016).

Í framhaldi af þessum borgarafundi samþykkti bæjarstjórnin 6. nóv. að skora áríkisstjórnina að leyfa útlendingum að leggja afla sinn til verkunar hér á land. Veitti ríkisstjórnin þetta leyfi og urðu málalyktir þær að stórfírma frá borginni Hull á Englandi, Hellyer Bros. Ltd., kom hingað með sex botnvörpunga á vertíðina i byrjun árs 1924.
Bræðurnir sem áttu firmað og voru fosvarsmenn þess hétu Owen og Orlando Hellyer. En vegna ákvæðis fiskveiðilaganna tók Geir Helgason Zoéga togarana á leigu að nafninu til og var umboðsmaður firmans og gerði samninga fyrir þess hönd. Samdist nú svo um við Geir að við Jón Einarsson og Sigurgeir Gíslason, faðir minn, yrðum verktakar hjá Hellyer og tækjum að okkur afgreiðslu togaranna, en það var að sjálfsögðu mikið verk og við erfiðar aðstæður að eiga.

Fjörkippur í atvinnu og viðskiptum

Hafnarfjörður

Togarinn Ceresio.

Þegar togararnir komu til Hafnarfjarðar voru þeir allir með fullar lestir af kolum og öðrum varningi til útgerðarinnar. Þetta varmikið magn og meiri birgðir vöru en áður höfðu verið fluttar hingað til hafnar. Verður það nú hlutskipti okkar að annast alla þessa vinnu, uppskipun og útskipun, fyrir ákveðið verð hvert tonn inn og út. Satt best að segja var þessi samningur við Geir H. Zoéga gerður í alltof miklu fljótræði af okkar hálfu, enda var hann sá versti sem við gerðum við nokkurn verksala á allri okkar starfsævi. Svo vondur var hann, að þegar vetrar- og vorvertíðinni lauk var útkoman sú að við þrír, verktakarnir, ég, Jón og pabbi, máttum heita kauplausir allan tímann.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1910.

Þrátt fyrir það, að ákveðið væri að Hellyer fengi aðstöðu hér í Firðinum, óttuðumst við að vinnan lenti í höndum reykvískra verktaka og því var hugsun okkar sú að tryggja það að svo yrði ekki. Við vildum sitja að þessari vinnu, bænum og búendum hér til heilla og hagsbóta. Sú hugsun réði mestu þegar við vorum að gera samninginn við Geir. Reynsla okkar var sú að Reykvíkingar væru ásæknir í að ná sem flestu til sín. Óttinn við þetta var aðalástæða þess að Geir gat pínt okkur niður úr öllu valdi.
Af þessari reynslu drógum við lærdóm sem kom okkur að góðu haldi við næstu samningsgerð.

Hafnarfjörður

Athafnasvæði Hellyersbræðra.

Togaraútgerð og fiskverkun Hellyersbræðra, sem rekin var hér í Hafnarfirði í nokkur ár, olli því að atvinnulífið tók mikinn fjörkipp og viðskiptalífið glæddist. Togarar þeirra þóttu myndarleg skip og fyrsta flokks að öllum búnaði á þeirrar tíðar mælikvarða. Þeir togarar sem komu hingað fyrsta árið voru: Ceresio, Lord Fischer, Earl Haig, General Birdwood, Viskont Allanby og Kings Grey. Skipstjórar og vélamenn voru enskir, en hásetar voru að mestu leyti íslenskir og margir úr Hafnarfirði.
Fljótlega voru ráðnir íslenskir fiskiskipstjórar á togarana, því hinir ensku flaggskipstjórar þekktu lítt til miðanna og voru m.a. af þeim sökum litlir fiskimenn. Hin raunverulega skipshöfn var því íslensk. Frá þessu var þó ein undantekning.
Á togaranum Ceresio var íslenskur skipstjóri frá Hull, Jón Oddsson að nafni. Hann var mikill aflamaður og viðurkenndur fyrir dugnað, enda var enginn fiskiskipstjóri með honum.

Hellyer kaupir Svendborg

Hafnarfjörður

Ágúst Flygenring (1865-1932).

Þegar kom fram í júní þetta ár, 1924, tókust samningar milli Landsbanka Íslands og Owens Hellyers um að Hellyer Bros. keypti útgerðarstöðina Svendborg. Þessi stöð hafði gengið kaupum og sölum. Sveinn Sigfússon kaupmaður frá Norðfirði reisti hana árið 1903. Var þá stöðin nefnd í höfuðið á honum uppá dönsku, eins og þá þótti fínt, og nefnd Svendborg.

Stöðina reisti Sveinn við Fiskaklett, skömmu síðar komst stöðin í eigu Ágústs Flygenrings sem hafði þar timburverslun, en seldi hana eftir stuttan tíma norskum manni, H.W. Friis, sem stundaði hér línubátaútgerð. Friis varð nokkrum árum seinna gjaldþrota og keypti þá Einar Þorgilsson stöðina, árið 1909, og seldi hana Bookless Bros. Í Aberdeen árið eftir með góðum hagnaði. Þegar Svendborg kemst í eigu þeirra Booklessbræðra, Harrys og Douglas — fyrirrennara Hellyers, — hefst áhrifamikið tímabil í atvinnusögu Hafnarfjarðar. Þeir urðu vinnuveitendur í mjög stórum stíl og verkafólk starfaði hjá þeim, á tímabilum jafnvel svo hundruðum skipti.
Sjálfir áttu þeir fjóra togara sem hér lögðu upp afla sinn fyrstu árin, en þeir versluðu mikið með fisk, keyptu ógrynni af fiski af íslendingum, einkum á Faxaflóasvæðinu milli Suðumesja og Akraness, og af erlendum togurum, aðallega breskum. Fiskverðið greiddu þeir í peningum, fyrstir manna hér um slóðir. Fyrir það, ekki síst, áttu þeir almennum vinsældum að fagna, en því miður lauk starfsemi þeirra að 12 árum liðnum þegar fyrirtækið varð gjaldþrota árið 1922.

Hafnarfjörður

Sendborg – síðar Brookles.

Með kaupum Hellyers á Svendborg hefst fiskverkun þar á ný og fjöldi fólks, sem áður varð að láta sér nægja að lepja dauðann úr krákuskel, fékk vinnu og gat nú litið til framtíðar með vongleði í huga.

Erfiðar aðstæður
Eins og áður segir voru togarar Hellyers með allar sínar lestir fullar af varningi til útgerðarinnar, einkum þó kolum. Heldur var nú brasksamt að losa kolin úr togurunum og verst og erfiðast var að ná þeim inná bryggjuna þegar lágsjávað var. Enginn krani var á bryggjunni og engar bómur voru á skipunum. Utbúnaðurinn var þannig að strengdur var vír úr frammastrinu í reykháfinn. Á þennan vír voru settar jafnmargar hjólblakkir og lúgurnar voru sem hala átti uppúr, en þær voru venjulega þrjár. Togspilið var notað til að vinda upp kolin og var einn maður við hverja lúgu.

Hafnarfjörður

1940-1950, portrett af ónafngreindri konu. Svo virðist sem konan hafi verið að bera kol en hún er með sótuga peysu og svuntu.

Kolunum var öllum mokað í poka í lestinni og tveir til þrír pokar voru halaðir í einu upp um lúguna. Þegar pokalengjan var komin í bryggjuhæð toguðu bryggjumennirnir í hana og vingsuðu henni inn á bryggjuna og upp á jámbrautarvagna. Var vögnunum svo ekið upp í kolabinginn sem stundum var allt að fjórir metrar á hæð. Stundum gat það komið fyrir að togaramir blésu út eða urðu damplausir, eins og það var kallað, og þá fór nú að vandast málið. Eina úrræðið var að hala allt upp með handafli, en það var bæði seinlegt og hinn mesti þrældómur.
Hver togari flutti þétta 200 til 250 tonn af kolum í þessari fyrstu ferð sinni hingað í Hafnarfíörð. Kolin til Hellyersbræðra voru geymd á Árnalóðinni, sem svo var kölluð. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar hafði þar seinna kol handa sínum skipum. Ámalóð er vestan við skrifstofur Bæjarútgerðarinnar þar sem þær voru, áður en þær voru fluttar í nýja frystihúsið. Kolin vom flutt upp á lóðina í járnbrautarvögnum og var oft erfitt að komast þangað eftir misjöfnum sporunum.

Hafnarfjörður

Járnbrautir voru algengar á fiskreitum Hafnarfjarðar.

Járnbrautarteinarnir lágu í sandi meðfram Vesturgötunni og yfir hana. Var því oft sandur fyrir hjólunum og þungt að aka vögnunum á handaflinu einu með tvö tonn innanborðs af kolum.
Tíðin var einmuna góð á þessari vertíð. Togararnir komu oftast inn síðari hluta dags og hófst þá vinnan milli kl. 4—6 síðdegis og lauk ekki fyrr en undir morgun næsta dags. Þær vom margar blíðviðrisnæturnar og dagarnir, einkum er líða tók á vertíðina og sólaruppkoman heillaði menn. Þá var freistandi að líta uppúr stritinu og horfa mót dagsins rísandi sól.
Og það leyfðu menn sér stundum.

Eftirminnileg kynni
HafnarfjörðurMenn urðu örþreyttir og slæptir eftir erfiðar og langar vinnuvökur, en þó jafnframt glaðir í sinni yfír tekjunum sem þeir höfðu aflað til að sjá sér og sínum farborða í harðri lífsbaráttu. Svo héldu menn heim í morgunbirtunni, fegnir hvíld og svefni, en þó reiðubúnir að hefja störf á nýjan leik hvenær sem kallið kæmi.
Vinnan og umsvifín fóru vaxandi þegar á vertíðina leið. Við tókum einnig að okkur afgreiðslu skipa sem komu með vörur til annarra útgerðarfyrirtækja og vinnuaflið lét ekki á sér standa. Það var oft drepið á dyr hjá okkur Jóni Einarssyni og leitað eftir vinnu. Iðnaðarmenn í bænum höfðu t.d. ekkert að gera um þessar mundir og munu þeir flestir hafa komist í snertingu við bryggjuvinnuna, allt frá úrsmiðnum til stórskipasmiðanna. Kynnin við suma þessa menn urðu mér eftirminnileg.
HafnarfjörðurÞað var eitt sinn að stórt og mikið saltskip var væntanlegt. Fréttin um það hafði borist út og til okkar kom fjöldi manna að biðja um vinnu. Einn þeírra var stór og föngulegur maður og leist okkur Jóni að sá mundi liðtækur vera og segjum honum að koma niður að skipi morguninn eftir. Við þekktum flesta verkamennina og okkur var ekki sama um hvernig niðurröðun þeirra var við verkin. Skipulögðum við það allt fyrirfram. Við ætluðum þessum stóra og dugnaðarlega manni að taka á móti saltlengjunum og koma þeim fyrir á jámbrautarvögnunum. Um morguninn tilnefndi ég fólkið að stórlestinni, var fljótur að lesa upp nöfnin og fer nú hver maður á sinn stað. Svo kalla ég nokkrum sinnum í þann stóra og segi honum að vera á bryggjunni en hann skeytir því engu og er hinn rólegasti. Verð ég nú leiður á þessu sérlega heyrnarleysi mannsins, vind mér að honum og spyr hvort hann hafi ekki heyrt til mín. Segir hann þá og brosir um leið: „Ég heiti ekki Sigfús Vormsson, ég heiti Kjartan Ólafsson!“
HafnarfjörðurEinhvern veginn hafði ég bitið það í mig að maðurinn héti Sigfús Vormsson, en Sigfús sá var trésmiður og átti hér heima um tíma og giftist Kristínu Þorsteinsdóttur frá Kletti.
Þessi urðu fyrstu kynni okkar Kjartans Ólafssonar sem síðar varð bæjarfulltrúi í Hafnarfirði o.fl. og höfum við oft brosað að þessu síðan. Var Kjartan ævinlega velkominn til okkar meðan hann stundaði verkamannavinnu, enda var maðurinn afburða duglegur og svo var viðkynningin að ekki varð á betra kosið.

Sörli og Gullfoss
Vornæturnar um þessar mundir voru yndislegar. Laugardaginn fyrir páska unnum við framundir morgun í blíðviðri, og þegar við hættum fannst mönnum ekki nauðsynlegt að flýta sér heim. Við fórum með verkfærin upp í skúr sem áfastur var við gripahús, sem við Jón áttum, en er nú húsið Vörðustígur 9. Þar inni áttum við gráan hest, stóran og sterkan, sem við nefndum Sörla. Var nú leikur í körlum, þótt lúnir væm eftir langa törn og dettur nú einhverjum í hug að prófa hvursu marga menn muni þurfa til að halda sterkum hesti kyrrum. Var Sörli leiddur fram, lögð á hann aktygi og kaðlar festir í þau. Tóku nú fjórir þeir sterkustu í kaðlana og er nú slegið í Sörla. Kippist hann við og rykkir í, en þegar hann finnur mótstöðuna lítur hann við og sér hvað um er að vera. Reyndi hann þá ekki meira og varð ekki úr að aka hvernig sem að var farið. Mun Sörla hafa þótt óþarfi að láta svona á sjálfa páskanóttina! Höfðu menn á orði að sá grái væri gáfaður og hefði heldur betur skotið þeim ref fyrir rass!

Hafnarfjörður

Vörðustígur.

Og það var eins og menn yrðu góðglaðir þarna í næturkyrrðinni og fóru að segja sögur. Meðal „sagnamann þessa vornótt við Vörðustíginn var Guðmundur Gíslason — oft nefndur hinn sterki — og átti heima á Hverfisgötu 6. Þótti mönnum gaman að kraftasögum Guðmundar — enda var hann stundum óspar á þær — og nú sagði hann eftirfarandi sögu:
Á mínum fyrri árum stundaði ég oft í vinnu í Reykjavík. Varð mér ævinlega vel til með vinnu því að ég þótti ekki síður liðtækur en best gerist og gengur. Einu sinni — það var á fyrstu árum Eimskipafélagsins — var ég settur í að losa vörur úr Gullfossi. Vill þá svo til að maður nokkur, eitthvað slompaður, dettur út af hafnarbakkanum og fellur í sjóinn milli skips og bryggju.

Hafnarfjörður

Gullfoss 1919.

Urðu menn nú logandi hræddir og hrópuðu hver í kapp við annan að maður hefði dottið í sjóinn og myndi kremjast milli skips og bryggju ef skipinu yrði ekki haldið frá. Þarna á bakkanum var fjöldi manna saman kominn, á að giska 50—60 manns. Hlupu nú allir sem vettlingi gátu valdið til að ýta Gullfossi frá bakkanum svo að manninn sakaði ekki ef honum skyti upp. Var nú maður látinn síga niður milli skips og bakka og hafði sá með sér kaðal til að binda utanum hrakfallabálkinn. Þetta tókst, og var nú sá slompaði dreginn upp, við mikinn fögnuð viðstaddra, dasaður og heldur illa til reika. En í fagnaðarlátunum gleymdist að huga að hinum sem sigið hafði niður með kaðalinn, — og áður en við væri litið voru allir hlaupnir í burtu frá skipinu — allir — nema ég.

Hafnarfjörður

Gullfoss 1930.

Ég mundi eftir björgunarmanninum og hélt skipinu alveg kyrru; — og þótt ég kallaði og bæði um aðstoð ansaði enginn, — allir voru á bak og burt. — Þama hélt ég Gullfossi grafkyrrum þangað til manntötrið hafði klöngrast upp á bakkann. En það verð ég að segja að þungur fannst mér Gullfoss þegar ég var orðinn einn. Ég held ég hafi aldrei tekið meira á um mína daga.
Þegar Guðmundur hafði lokið sögu sinni sagði Ingimundur Ögmundsson sem var maður orðvar og hæggerður:
„Ég er nú bara farinn heim, ég hlusta nú ekki á meira af þessu tæi!“

Unnið nætur og daga
HafnarfjörðurAð öllum vel sögðum sögum þótti jafnan góð skemmtan og skipti þá ekki máli hvort þær studdust við raunverulega atburði eða ekki. En þess vil ég geta að Guðmundur Gíslason var afburðasterkur maður og feikna duglegur; verður dugnaður hans seint of lofaður.
Vinnan jókst. Á daginn unnum við í kolaog saltskipum, en á kvöldin og nóttinni afgreiddum við togarana. Það þótti gott að fá að sofa í tvær til fjórar stundir á sólarhring. Það tók því varla að hátta ofaní rúm. Kjartan Ólafsson sagðist eina vikuna hafa þurrkað sér með hörðum striga um andlit og lagt sig svo á hálmdýnu í heitu eldhúsinu. þetta gerði hann til að lengja svefntímann og svipað gerðu fleiri.
HafnarfjörðurSigurður Guðnason, seinna formaður Vkm. Dagsbrúnar og alþingismaður, var tengdasonur Guðmundar Gíslasonar frá Tjörn í Biskupstungum, föður Gísla bifreiðarstjóra sem hjá okkur vann oft og mikið. Fyrir kunningsskap við Guðmund tókum við Sigurð í vinnu. Hann átti heima í Reykjavík, en þá var lítið um atvinnu þar. Sigurður var skemmtilegur félagi, kappsfullur og afburður að dugnaði.
Einhvern veginn vildi svo til að þeir unnu mikið saman Kjartan Ólafsson og Sigurður. Þegar salti var skipað um borð í togarana var því ekið fram á bryggjuna í járnbrautarvögnum eða bílum. Kjartan og Sigurður höfðu þann starfa að taka pokana af vögnunum og kasta þeim upp í saltrennu ef hátt var í sjóinn eða hvolfa úr þeim í rennuna ef lágsjávað var. Rann þá saltið oní lestamar. Veittist þeim létt að fleygja pokunum og var oft gaman að sjá handatiltektir þeirra. Við neðri enda rennunnar var Hallgrímur Jónsson; hann sá um að saltið færi ekki til spillis. Ef hátt var í sjó tók hann við pokunum fullum, ásamt aðstoðarmanni, og losaði úr þeim oní lúgurnar. Þeir Kjartan og Sigurður köstuðu stundum nokkuð hastarlega svo þeir Hallgrímur höfðu ekki undan og kenndi í því nokkurrar stríðni. Varð Hallgrímur þá ergilegur og kvartaði sáran. Þetta endaði þó jafnan í friði og spekt og að lokum höfðu allir gaman að og hlógu.“

Framhald

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 7. tbl. 18.02.1995, Snorri Jónsson, Atvinnusaga Hafnarfjarðar 1924-1926, Hellyerstímabilið, bls. 1-2. Úr endurminningum Gísla Sigurgeirssonar. Snorri Jónsson tók saman.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – forsíða Lesbókar Mogunblaðsins 18.02.1995.