Kaldársel

Voru Steinhús gamalt sel? Eða bara hús úr steini?
Á gömlum kortum er örnefnið Steinhús sunnan Kaldár, skammt sunnan Kaldársels. Samkvæmt landamerkjalýsingum Garðabæjar, gömul mörk, er Steinhús (Steinhes) sögð vestan Kaldársels og sunnan Efstahöfða (Fremstahöfða). Af þessu að dæma getur staðsetning Steinhúsa skipt máli. Og ekki bara það heldur er örnefnið sjálft einkar áhugavert.
En til þess að geta skoðað staðinn þurfti að finna hann.

Steinhes

Steinhes. Helgafell fjær.

Steinhúsa er ekki getið í seinni tíma gögnum. Vitnað er til þess í örnefnalýsingu að þar hafi verið sel, væntanlega Kaldársel. Það nafn virðist yngra. Örnefnið vakti forvitni FERLIRs, ekki einungis vegna misvísandi upplýsinga um það heldur og vegna nafnsins.
Þegar gengið var um svæðið voru rifjaðar upp gamlar heimildir um viðfangsefnið.
Í Landnámu er tveggja jarða getið innan þess svæðis sem Garðabær nær til. Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, er sagður hafa búið á Skúlastöðum, en nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt. Eru munnmæli um að Skúlastaðir hafi verið þar sem Skúlastaðahraun er, sem er norðan við Lönguhlíðarhorn, innan Almenningsskóga Álftaneshrepps. Hin jörðin er Vífilsstaðir, eða Vífilstóftir, sem þó telst ekki til hinna eiginlegu landnámsjarða, en hún var byggð af Vífli, húskarli Ingólfs Arnarssonar. Vífilsstaðir munu fljótlega eftir landnám hafa komist í eigu kirkjunnar, fyrst Viðeyjarklausturs, en árið 1558 eignaðist Garðakirkja jörðina. Talið er að kirkja hafi verið að Görðum á Álftanesi allt frá því að kristni var lögtekin á Íslandi árið 1000. Hvar Garðar voru er hvergi getið. Þjóðsagnaskýring hefur varðveist þess efnis að Garður hafi fyrrum verið þar sem Garðaflatir eru nú, ofan Búrfellsgjár.

Garðakirkja

Garðakirkja 1956.

Garðakirkju er fyrst getið í heimildum um 1200 í kirknamáldaga Páls biskups Jónssonar. Á þjóðveldis- og Sturlungaöld eru litlar heimildir um íbúa Álftaness og þar í kring. Eftir að hreppskipan komst á, á þjóðveldisöld, tilheyrðu núverandi landsvæði Garðabæjar Álftaneshreppi og einnig bæði höfuðbólin Garðar og Bessastaðir. Afréttarland Álftaneshrepps hafði ýmist nöfnin Garðaland, Garðakirkjuland eða Garðastaðarland. Hreppamörk Álftaneshrepps vestan og suðvestan féllu saman við landamerki Hvassahrauns og Lónakots og Straumstorfunnar, í suðri land að mörkum Grindavíkurhrepps um vestanverð Brennisteinsfjöll austur að sýslumörkum Gullbringu- og Kjósarsýslu og Árnessýslu, en að norðan við landamerki jarðanna Arnarness og Vífilsstaða. Álftaneshreppi var skipt upp árið 1878, í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Var Álftaneshreppur þá lagður niður samhliða. Með úrskurði landshöfðingja dags. 17. sept. 1878 var áðurnefnd tvískipting ákveðin. Eftir skiptinguna 1878 tilheyrði byggðin suður fyrir Hafnarfjörð Garðahreppi. Sú skipting hélst þar til Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi árið 1908. Eftir það og fram til ársins 1959 náði lögsaga Garðahrepps beggja vegna við Hafnarfjörð, en þá var mörkum sveitarfélaganna breytt. Garðahreppur fékk kaupstaðarréttindi og sérstakt lögsagnarumdæmi með lögum nr. 83/1975, en skv. þeim skyldi umdæmið ná yfir allan fyrrum Garðahrepp.

Steinhes

Steinhes.

Samkvæmt framangreindu voru fyrrum mörk Garðarhrepps í Arnarbæli og úr Arnarbæli (Arnarstapa) lá línan í Hnífhól, þaðan í Húsfell. Úr Húsfelli lá línan í Þríhnúka, og þaðan í suðurenda Bláfjalla (Bláfjallahorn). Úr Bláfjallahorni í Kistufelli, þaðan í syðra horni á Fagradalsbrún, þaðan í Vatnsskarði(Melrakkaskarð), í Fjallið eina og svo í Markhelluhól. Úr Markhelluhól fór línan í Búðarvatnsstæði, þaðan í Steinhús, og þaðan í miðjan Ketshelli. Úr Ketshelli lá línan svo og endaði aftur í Arnarbæli (Arnarstapa).
Ef byggt er á merkjalýsingu Garðakirkjulands samkvæmt landamerkjabréfi nr. 154, sem Þórarinn Böðvarsson prófastur í Görðum undirritaði 7. júní 1890, er Garðakirkjulandinu m.a. lýst svo: „…beina línu í suður landsuður í Arnarbæli, þaðan austur í landsuður upp í Hnífhól, þaðan til austurs landsuðurs í mitt Húsfell, úr miðju Húsfelli beint til suðurs í efri Strandartorfu, þaðan beint í (suður) í Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Markrakagil í Undirhlíðum, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar og Ás lönd í Steinhús, sem er við neðri Kaldárbotna….“.
Svæðið að norðanverðu, milli Arnarbælis, Kethellis og Steinhúss, er einnig getið í lýsingu í eiginhandarbréfi séra Árna Helgasonar í Görðum til sýslumanns, dags. í Görðum 13. janúar 1848, sem inniheldur svofellda lýsingu á Garðakirkjulandi: “Á sydri hraunbrúnina hjá Nordurhellrum og so sudur eptir Smillubúdar hraunsjadri og I midjan Kjötshellir og so hraunid allt fram ad Steinhusinu, og so beint ur steinhusinu og upp sydri Kaldárbotna; þadan, og allt Helgafell, I Markraka, úr Markraka og í Daudadali úr Daudadölum og í Strandartorfu, úr Strandartorfu rettsýnis í Húsfell, so úr Husfelli og I Hnífhól úr Hnífhól og heim í Arnarbæli“.

Kaldársel

Hálkarað fjárhús skammt frá Kaldárseli.

Landinu er lýst í merkjalýsingu sem var þinglýst á manntalsþingi í Görðum á Álftanesi 22. júní 1849: „Fyrst milli Garðakirkju fjalllands, úr Steinhúsi suður í Markagil (Marakka) eða Undirhlíðum, þaðan í Hæðstaholt á Dauðadölum á annan veg úr Dauðadölum norður í Húsfell, af Húsfelli upp í þríhnjúka, þaðan á suðurenda Bláfells á milli afrétta Álftanes- og Seltjarnarneshrepps. Á milli Gullbringu- og Árnessýslu af Bláfjöllum vestur á Kistufell. Á milli Álftaneshrepps og almennings og Krýsuvíkur landa af Kistufelli niður í syðra horn á Fagradalsbrún, þaðan í Marakkagil, svo í þúfu á Fjallinu Eina. Þaðan í Helguflöt norðan á Búðarhólum. Á milli jarðanna Heimalands og afréttar af Búðarhólum eptir Búðarhólagjá, þaðan aptur í Steinshús“. Mun Búðarvatnsstæði vera þar sem Helguflöt norðan á Búðarhólum er, sbr. kort af Almenningsskógi Álftaneshrepps, dags. 20. apríl 2004.
Afréttarland Álftaneshrepps var áður ýmist nefnt Garðaland, Garðakirkjuland eða Garðastaðarland. Sama land heyrði eftir skiptingu Álftaneshrepps árið 1878 undir Garðahrepp, sbr. einnig síðar lög nr. 83/1975 um kaupstaðarréttindi til handa Garðahreppi. Garðakirkjulandi er lýst í eiginhandarbréfi séra Árna Helgasonar í Görðum til sýslumanns, dags. í Görðum 13. janúar 1848, sem virðist vera svar prests við fyrirspurn sýslumanns um skóglendi í landi Garðakirkju: “Þetta Land hefir þessi ummerki. „Á sydri hraunbrúnina hjá Nordurhellrum og so sudur eptir smillubúdar hraunsjadri og I midjan Kjötshellir og so hraunid allt fram ad Steinhusinu, og so beint ur steinhusinu og upp sydri Kaldárbotna; þadan, og allt helgafell, I markraka, úr markraka og í daudadali úr daudadölum og í strandartorfu, úr strandartorfu rettsýnis í húsfell, so úr husfelli og I hnífhól úr hnífhól og heim í Arnarbæli. Þetta vidurkenna allir ad til heyri Gardakirkiu, brukad hefi eg þad, nockur ár fyrir selstödu, hvar til þad væri hentugt, ef ei være so lángt í burtu, nu er þad leigt bondanum Jóne Hjörtssyne á Hvaleyri, sem betur getur notad en eg, so sem búandi miklu nær þessu Landi.“

Hamarskotssel

Hamarskotssel/Setbergssel – markavarðan.

Samsvarandi lýsingu á Garðakirkjulandi var að finna í eldri merkjalýsingu, því í biskupsvísitasíu hinn 19. september 1661 er lögð fram lögfesta séra Þorkels Arngrímssonar, gerð á Bessastöðum á Jónsmessu 1661. Mun aðalefni hennar hafa verið innfært í Vísitasíubókina, en finnst einnig í Kirknaskjölum í endurriti séra Árna Helgasonar úr skjalabók Garðakirkju frá 1701. Er endurrit hans dagsett 4. ágúst 1839. Landamerki Garðakirkjulandsins eru skv. þeirri merkjalýsingu talin vera: „Á syðri hraunsbrún hjá Norður hellum og svo suður eftir Smyrlabúðarhraunsjaðri og í miðjan Ketshelli og svo hraunið allt fram að Steinhesi. Svo beint úr Steinhesinu og upp í syðri Kaldárbotna, og allt Helgafell og í Strandartorfu og í Húsfell. Úr Húsfelli og í Hnífhól, og Hnífhól og heim í Arnarbæli.“ Merkjalýsing Garðakirkjulands samkvæmt landamerkjabréfi nr. 154, er gerð rúmum 40 árum síðar. Þórarinn Böðvarsson prófastur undirritar hana í Görðum 7. júní 1890 og er merkjalýsingin þinglesin á manntalsþingi í Görðum hinn 9. júní 1890. Eru lýsingarnar sammála um merkin úr Arnarbæli í Markraka í Dauðadölum: „…beina línu í suður landsuður í Arnarbæli, þaðan austur í landsuður upp í Hnífhól…, sem er norðanvert við Fjallið Eina, þaðan til norðurs ofanvert við Hvaleyrar og Ás lönd í Steinhús, sem er við neðri Kaldárbotna….“.

Kaldársel

Kaldársel.

Í allar landamerkjavörður var steypt á áttunda áratug síðustu aldar, sbr. vörðurnar við Bala, í Engidal, á Miðdegishól og við Ketshelli.
Í örnefnalýsingy fyrir Hafnarfjörð eftir Guðlaug R. Guðmundsson er Steinhús (eða Steinhes) nefnt. Staðsetning er þannig að það sé “hornmark Hvaleyrarlands syðst á Fremstahöfða”. Í annarri lýsingu er Fremstihöfði nefndur Efstihöfði. Guðlaugur vitnar í skrif Gísla Sig. um þjóðhætti (ljósrit í Hafnarfjarðardeild Bókasafns Hafnarfjarðar), um að Steinhes muni vera eldra nafn. Staðsetning Steinhúss er yfirleitt heldur snubbótt í lýsingum þar sem það er nefnt, en í Örnefnastofnun er loftmynd af svæðinu (“orthomynd”) sem Svanur Pálsson merkti örnefni inn á 1980. Þar er Steinhús merkt. Í kaflanum um Kaldársel í skrá G.R.G. er vitnað í Fornleifaskrá 1990 um friðlýstar fornleifar í Kaldárseli en þar er Steinhús ekki nefnt. Í lýsingum Hvaleyrar og Garðakirkjulands er nefnt Steinhús en engin staðsetning að gagni, aðeins að lína liggi úr því eða um það…

Steinhús

Steinhús.

Í auglýsingu um fólkvang á Reykjanesi í Stjórnartíðindum B 1975 segir m.a. um mörkin: “Lína dregin.. á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkum inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús, sem er glöggt og gamalt eyktamark. Frá Steinshúsi liggur línan…..”
Skýringin á Steinshúsi er sem sagt að það sé “þekkt eyktarmark”. Þarna er það þá komið. Hús úr steini – holur hraunhóll á þeim stað, sem hornmarkið er tilgreint vestan Kaldársels. Skammt frá hraunhólnum, sem er eins og hús í laginu efst á holtinu, eru gamlar hleðslur af húsi, syðst á Efstahöfða (Fremstahöfða). Það er því hraunhóllinn sem örnefnið er kennt við, en ekki húsið, enda er það forgengilegt, en hóllinn ekki. Hann er því öllu sennilegra hornmark landamerkjanna. Þetta örnefni virðist hafa horfið af landakortum í seinni tíð, en á eldri kortum er örnefnið sett sunnan við Kaldársel, sunnan Kaldár. Þar er ekkert er gefur tilefni til slíks. Líklega hefur örnefnið verið tekið út af kortum vegna þess hve fáir vissu hvað eða hvar það var í raun og veru.

Heimildir m.a.:
-http://www.obyggd.stjr.is/svland/53.pdf
-Örnefnalýsing Hafnarfjarðar – Guðlaugur R. Guðmundsson – ÖÍ.
-Gísli Sigurðsson. Þjóðhættir í Hafnarfirði. Handrit í Bókasafni Hafnarfjarðar.
-Örnefnalýsing fyrir Hvaleyri. Ari Gíslason skráði – ÖÍ.
-Stjórnartíðindi B. 1975, nr. 520.
-Jónína Hafsteinsdóttir- ÖÍ.
-Jón Sigurðsson, hrdl.

Kaldársel

Kaldársel – minjar. ÓSÁ.